Fréttir

Hverjir fjármagna íslenskar kvikmyndir?

Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag var kynnt ný könnun um fjármögnun kvikmynda, sem unnin hefur verið fyrir SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, FK  – Félag kvikmyndagerðarmanna og SKL – Samtök kvikmyndaleikstjóra.

Ákvörðun stjórnvalda um að efna ekki samning menntamálaráðuneytis og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á yfirstandandi fjárlagaári varð hvatinn að könnuninni. Sendur var út spurningalisti til framleiðenda 140 kvikmyndaverka og bárust svör frá 112 eða um 80%. Meginniðurstöður könnunarinnar varðandi fjármögnun íslenskra kvikmyndaverka eru þær að stærstur hluti fármagnsins kemur erlendis frá eða 43,7%, innlent fjármagn (að undanskyldu því sem kemur frá opinberum aðilum) er 33,8% og styrkir frá Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslur iðnaðarráðuneytis nema 22,5 %. Á árunum 2006 – 2009 lagði íslenska ríkið alls tæplega 2,7 milljarða til kvikmyndaverkefnanna sem könnunin nær til og má gera ráð fyrir að þessi sömu verkefni hafi skilað rúmum 2,7 milljörðum til baka til ríkisins í formi skatta og tryggingargjalds.  Könnunin er aðgengileg á slóðinni www.producers.is.

 

Ekki ríkisstyrkt egóflipp

6. mars 2010 Síðustu daga hefur farið fram nokku umræða í fjölmiðlum um nýafstaðna úthlutun úr launasjóðum listamanna. Kemur hún í kjölfar frétta af miklum niðurskurði til kvikmyndagerðar á fjárlögum islenska ríkisins og ákvörðun útvarpsstjóra um samdrátt í kaupum á sjónvapsefni frá sjálfstæðum framleiðendum. Hefur ýmislegt verð látið flakka í hita leiksins, sumt miður skynsamlegt.

Í Fréttablaðinu í dag birtist viðtal við Dag Kára Pétursson kvikmyndaleikstjóra, þar sem hann er spurður hvort þessi umræða “um lopatreflana í 101 sem liggja á spena ríkisins” fari í taugarnar á honum. Svarið er þess virði að birta það hér:

Þetta fer ekki bara í taugarnar á mér heldur tek ég þessa umræðu nærri mér. Maður er að vinna heiðarlega vinnu við erfið skilyrði og skila þjóðarbúinu auði, bæði í beinhörðum peningum og menningarlegum verðmætum. Þá er leiðinlegt hvað það er algengt að maður mæti því viðhorfi að maður sé á einhverju ríkisstyrktu egóflippi. Það er eins fjarri sannlekanum og hugsast getur. Ég lýsi eftir meiri viðsýni og innsýn í hvernig málunum er háttað.

Í þessu sambandi er einnig bent á grein eftir Pétur Gunnarsson, formann Rithöfundasambands Íslands, sem birtist í þessu sama Fréttablaði. Greinin er birt í heild sinni undir yfirskriftinni “Greinar” (Hinn árlegi héraðsbrestur).

 

Hinn árlegi héraðsbrestur

6. mars 2010

Hér fer á eftir grein eftir Pétur Gunnarsson formann Rithöfundasambands Íslands, sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

 

Ár hvert verður héraðsbrestur á Íslandi. Það er þegar tilkynnt er um starfslaun til listamanna. Þannig hefur það verið lengur en elstu menn muna, t.d. árið 1907 þegar þingmaður einn spurði hvort greiða ætti fólki laun fyrir að þegja? En það ár hlutu styrki Matthías Jochumsson, Þorsteinn Erlingsson, Benedikt Gröndal, Valdimar Briem, Brynjúlfur frá Minna-Núpi og Torfhildur Hólm, svo nokkur séu nefnd. Umræðan heyrir undir fasta liði eins og venjulega og væri ekki umtalsverð að þessu sinni nema af því að allt undangengið ár hefur varla liðið svo dagur að landsmenn hafi ekki verið fræddir um milljarða og aftur milljarða sem hafi gufað upp eða verið komið fyrir í skattaskjólum – á þeirra kostnað. Þeim mun undarlegra að í miðju því fári skuli þeir vera til sem sjá ofsjónum yfir 350 milljónum sem fara til að styrkja listastarfsemi í landinu – sem þó leggur 4% til þjóðarbúsins, helmingi meira en landbúnaður svo dæmi sé tekið – án þess að með þeim samanburði sé ætlunin að varpa rýrð á hina líkamlegu næringu.

Ef við tökum rithöfunda sérstaklega þá koma í þeirra hlut 505 mánaðarlaun (sem að vísu teldust ekki nema hálfsmánaðarlaun á mælikvarða sumra eða 260 þúsund brúttó á mánuði). En þessi 505 mánaðarlaun knýja síðan hin frægu hjól atvinnulífsins: prentsmiðjur, bókaútgáfur, bókaverslanir, bókasöfn, leikhús, auglýsingastofur, leggja blöðum og tímaritum og útvarpsþáttum til efni og fá skólakerfinu eitthvað til að hugsa um.

Hvað er þá í vegi? Jú, af því á milli launanna og launþegans er engin stimpilklukka, það þarf ekki að ræsa 1200 kg af járni, gleri og gúmmíi og aka á tiltekinn stað í bæjarlandinu, það er hægt að vinna vinnuna heima hjá sér, þessvegna á inniskóm með ókembt hár. Karlssynir skyldu samt hafa í huga að til þess að eiga möguleika á þessum launum þurfa menn að sækja um þau, gera ítarlega grein fyrir þeim verkum sem þeir eru að vinna, lista upp það sem þeir hafa gert áður og eru út úr myndinni um aldur og ævi ef þeir standa ekki við þau fyrirheit sem gefin voru.

Tökum íslenska rithöfunda sérstaklega. Íslendingar eru jú bókmenntaþjóð, hér er gefið út firnafár af bókum og bókasöfn slá hvert útlánametið á fætur öðru. Sem breytir ekki því að málsvæðið er svo lítið að það ber ekki uppi stétt atvinnuhöfunda án ytri atbeina. Lítum á tölurnar. Meðal upplag af skáldverki er þúsund eintök, sem er risavaxið, jafngildir milljón eintökum í USA. Eitt þúsund eintök skila um 600 þúsund krónum í ritlaun – brúttó – og þá er horft fram hjá kostnaði við að vinna verkið, húsnæði, tækjabúnaði, gögnum… Höfundur er að meðaltali 2 ár að vinna verk sem sómi er að, það gera 300 þúsund á ári – brúttó – í stuttu máli ólaunað starf. Gott og vel, látum rithöfundinn snúa upp tánum, en í fallinu tekur hann með sér prentsmiðjurnar, bókaútgáfurnar, bókaverslanirnar, bókasöfnin, auglýsingastofurnar, leikhúsin og eitthvað fátæklegra yrði um að litast í hugbúnaði þjóðarinnar.

Þannig að samfélagið ákveður að það vilji að hér séu skrifaðar bókmenntir og ver til þess 160 milljónum árlega en uppsker milljarða í beinhörðum peningum að ógleymdu því sem mölur og ryð fá ekki grandað. En svo er líka annað. Það eru örlög Íslendinga að vera skapandi þjóð. Þeir voru rifnir upp úr heimkynnum sínum í árdaga og settir niður hér svo að segja á óþekktri reikistjörnu og þurftu að hafa fyrir því að búa allt til upp á nýtt. Taka upp úr töskum hugans: trú, siði, skáldskap, ættfræði, örnefni… Þeir eru ásamt Færeyingum einasta dæmið í nútíma um þjóð sem hefur komið að ónumdu landi. Fyrir bragðið geta Færeyingar ekki hætt að dansa og Íslendingum er áskapað að tjá sig og skapa. Að sjá á eftir árslaunum venjulegs útrásarvíkings til að hér geti allar listgreinar borið ávöxt er svo smátt að við skulum láta eins og það hafi ekki átt sér stað. Jú annars, við skulum gera það að árvissum atburði og tilefni til að varpa ljósi á heildarmyndina.

 

Úthlutun listamannalauna 2010

Á stjórnarfundi BÍL í gær var ákveðið að óska eftir sundurliðun úthlutunar listamannalauna 2010. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir stjórn BÍL að fylgjast með því að áform um bætt kjör listamanna gangi eftir.

Nú er lokið fyrstu úthlutun listamannalauna skv. nýjum lögum um listamannalaun nr. 57/2009. Í yfirlýsingu menntamálaráðherra, þegar  málinu var fylgt úr hlaði á Alþingi 12. mars 2009, kom skýrt fram með hvaða hætti nýju lögin ættu að bæta hag listamanna, bæði með fjölgun sjóða og fjölgun mánaða sem væru til ráðstöfunar. Í umræðum um fjárlög 2010 á Alþingi kom fram að þrátt fyrir niðurskurð til flestra þátta mennta og menningar, ætluðu stjórnvöld sér að standa vörð um fyrirheitin sem gefin voru með breytingum á lögunum um listamannalaun. Í ræðu ráðherrans kom fram að meiningin hafi verið að fjölga mánaðarlaunum um 145 við úthlutun 2010, þ.e. úr 1200 í 1345. Einnig að kostnaðarauki af breytingunni  væri áætlaður 38,7 milljónir árið 2010.

Í ljósi hlutverks Bandalag íslenskra listamanna, sem annast sameiginlega hagsmuni fagfélaga listamanna, hefur verið óskað eftir því við stjórn listamannalauna að hún láti BÍL í té sundurliðun sem sýni fjölda mánaðarlauna í úthlutuninni. Til að hægt sé að fylgjast með því að áform stjórnvalda gangi eftir er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um og fjölda úthlutaðra mánaða, sundurliðað eftir sjóðum. Varðandi sviðslistasjóðinn, þá er nausynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um til sviðslistahópa og fjölda úthlutaðra mánaða sem úthlutað var til hópanna.

Fyrir þá sem vilja kynna sér vilja stjórnvalda með breytingu laganna, þá er ræða menntamálaráðherra aðgengileg á vef Alþingis.

 

Fundur með fjármálaráðherra

10. febúar 2010 áttu fulltrúar stjórnar Bandalags íslenskra listamanna fund með fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni og aðstoðarmanni hans Indriða H. Þorlákssyni. Hér fylgir yfirlit yfir þau atriði sem rædd voru:

 

Skattlagning tekna af endurleigu hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna

BÍL hefur um árabil lagt áherslu á að skattlagning tekna sem fást fyrir /endurleigu/endurflutning hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna. 21. maí 2008 svaraði þáverandi fjármálaráðherra fyrirspurn á Alþingi um þessa hugmynd og sagði að starfshópur væri starfandi innan ráðuneytisins sem hefði málið til skoðunar. Þá var niðurstöðu hópsins að vænta í júní 2008

 

Viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra verði breytt til samræmis við listamannalaun

Samkvæmt viðmiðunarreglum ríksskattstjóra er lágmark reiknaðs endurgjalds fyrir fullt starf kr. 414.000.- á mánuði, eða kr. 4.968.000.- Þetta stangast á við upphæð listamannalauna úr opinberu listasjóðunum en úr þeim fá listamenn kr. 266.737.- á mánuði skv. lögum um listamannalaun.

 

Sjálfstætt starfandi listamönnum verði gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur

Reglur um atvinnuleysistryggingar kveða á um að þeir aðilar sem greiða tryggingargjald eigi rétt á atvinnuleysisbótum, þ.m.t. listamenn skv. breytingum laga frá 2008. Sá hængur er þó á að eins og nú er háttað þá er sjálfstætt starfandi einstaklingum gert að „hætta rekstri“ og skila inn virðisaukaskattnúmeri ef þeir hafa þegið bætur lengur en þrjá mánuði.  Listamenn geta eðli máls samkvæmt hvorki hætt rekstri né skilað inn virðisaukaskattsnúmeri og eru því ekki gjaldgengir til atvinnuleysisbóta.

 

Niðurskurður til kvikmyndagerðar

Samkvæmt fjárlögum 2010 hefur verið ákveðið að efna ekki samning menntamálaráðherra og Íslenskrar kvikmyndamiðstöðvar um opinber framlög til kvikmyndalistarinnar. Þessi ákvörðun heggur svo nærri listgreininni að líklegt er að hún laskist til langframa auk þess sem ætla má að á annað hundrað einstaklingar lendi á atvinnuleysisbótum fyrir vikið. Þegar við bætist yfirlýsing útvarpsstjóra um að stórlega skuli dregið úr kaupum á innlendu sjónvarpsefni af sjálfstæðum framleiðendum er ljóst að markmið beggja ríkisstjórnarflokkanna varðandi RÚV eru brotin.

 

Niðurskurður til sjóða er fjármagna listastarfsemi

Kallað er eftir því að hinar skapandi greinar leiki veigamikið hlutverk við endurreisn íslensks samfélags eftir efnahagshrun. Sé það ásetningur stjórnvalda verður að leiðrétta þá stefnu sem fram kemur í fjárlögum 2010, að stofnunum sé hlíft á sama tíma og viðkvæmri starfsemi sjálfstætt starfandi listamanna er ógnað með niðurskurði á sjóðum sem styðja við starfsemi þeirra.

Fundurinn stóð í 45 mínútur og virtust ráðherrann og aðstoðarmaður hans meðtaka sjónarmið BÍL, en hver árangur fundarins verður kemur í ljós á næstunni, þegar erindunum verður fylgt eftir og spurst fyrir um afdrif þeirra.

 

Starfsáætlun stjórnar BÍL 2010

Stjórn BÍL kom saman til fundar í gær 8. febrúar. Meðal þess sem samþykkt var á fundinum var starfsáætlun stjórnar fyrir 2010:

Opinber stefna í menningu og listum, áframhaldandi vinna í samstarfi við Háskólann á Bifröst og menntamálaráðuneytið.

Þjóðhagslegur ágóði listanna, leita leiða til að fá metið framlag listastarfsemi og hinna skapandi greina til þjóðarbúsins.

Kjör listamanna; skattlagning tekna vegna endursölu hugverka, meðhöndlun ríkisskattstjóra á tekjum listamanna og mat skattstjóra á verktakagreiðslum listamanna.

Ímynd BÍL könnuð og viðhorf til lista/listamanna, ný heimasíða, nýtt lógó.

Sjóræningjastarfsemi á netinu, stuldur hugverka og réttarstaða listamanna, skoða lagalega stöðu.

Lottómál, halda áfram umræðu um möguleika listgreinanna á fjárhagsstuðningi gegnum lottó, mögulega nýtt lottó –Lottó listanna.

Fjáröflun til starfsemi BÍL, leita leiða til að styrkja fjárhagsstöðu BÍL, undirbúa hækkun aðildargjalda og endurnýjun samninga BÍL við borg og ríki.

Greining hagsmuna BÍL og þeirra sem kallast geta hagsmunaaðilar í starfi BÍL.

Stefnumót skapandi greina, fundur um stöðu, möguleika og framtíðarsýn þeirra sem starfa innan listageirans.

 

Íslandsstofa – Umsögn til utanríkismálanefndar

Fulltrúar stjórnar BÍL voru boðaðir á fund utanríkismálanefndar í morgun vegna frumvarps til laga um Íslandsstofu. Nefndin spurði út í sjónarmið BÍL og virtist áhugasöm um að skoða þær lagfæringar sem stjórnin hefur bent á. Umsögnina má lesa hér:

Umsögn um frumvarp til laga um Íslandsstofu

Í ljósi áhuga stjórnar Bandalags Íslenskra Listamanna (BÍL) á því hvernig staðið er að kynningu íslenskra lista á erlendri grund, var ákveðið að bjóða upp á sérstaka kynningu á frumvarpinu um Íslandsstofu á nýafstöðnum aðalfundi BÍL. Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi forsætis-ráðuneytisins var fenginn til að skýra frá hugmyndunum að baki frumvarpinu. Að þessari kynningu lokinni ákvað stjórn BÍL að senda til utanríkismálanefndar eftirfarandi athugasemdir, sem verða þá viðbót við umsögn þá sem BÍL sendi nefndinni 4. desember sl. Nokkur aðildarfélaga BÍL hafa þegar sent utanríkismálanefnd umsögn um frumvarpið, sem stjórnin hefur kynnt sér og haft til hliðsjónar við gerð meðfylgjandi athugasemda.

Segja má að núgildandi lög um útflutningsaðstoð séu um margt skýrari en fyrirliggjandi frumvarp um Íslandsstofu, enda er gildissvið frumvarpsins nokkuð víðara en gildandi laga.  Ætlun stjórnvalda með frumvarpinu er að móta heildstæða stefnu um ímyndar- og kynningarmál þjóðarinnar, en jafnframt að flétta þá stefnumótun saman við útflutning, ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar.  Slíkt verkefni er gríðarlega viðamikið og ljóst að samræma þarf sjónarmið fjölmargra aðila á ólíkum sviðum, eigi vel að takast. Útflutningsviðskipti eru nokkuð þekkt stærð og talsverð kunnátta í markaðs- og kynningarstarfi til staðar hjá þjóðinni. Það sama má segja um ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar, en þegar kemur að samþættingu við lista- og menningarstarfsemi þá flækist málið, enda er sá þáttur lítið útskýrður í þingmálinu. Í greinargerð frumvarpsins er engin tilraun gerð til að lýsa því með hvaða hætti skapandi atvinnugreinum er ætlað að koma að stefnumótun eða rekstri Íslandsstofu.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld viðurkenni að íslensk menningarstarfsemi stendur undir umtalsverðum hluta af íslensku atvinnulífi; innan listanna eru fullgildar atvinnugreinar á borð við myndlist, tónlist, ritlist, leiklist, dans, kvikmyndir, arkitektúr og hönnun að ógleymdum greinum sem starfa á grundvelli menningararfsins við ýmis konar safna- og sýningarstarfsemi. Listamenn og aðrir innan þessara skapandi greina hafa gegnum tíðina komið sér upp ýmsum miðstöðvum sem hafa stutt við útflutning verka þeirra. Þar er um að ræða ólíkar einingar að stærð og umfangi, nefna má: Kvikmyndamiðstöð (KMÍ), Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), Íslenska tónverkamiðstöð, Hönnunarmiðstöð Íslands, Bókmenntasjóð, Sjálfstæðu leikhúsin og Icelandic Gaming Industry.  Verður að teljast eðlilegt að til þessara aðila sé leitað þegar lagður er grunnur að Íslandsstofu, enda standa miðstöðvarnar í skipulegum útflutningi nú þegar og hafa verið að auka samstarf sín í milli upp á síðkastið.

Stjórn BÍL telur að frumvarp um Íslandsstofu þurfi talsverðrar vinnu við áður en það geti talist fullburða:

o Stjórn Íslandsstofu, eins og henni er lýst í 3. grein frumvarpsins, verður þung í vöfum og nauðsynlegt að skoða hvort ekki sé skynsamlegra að fækka stjórnarmönnum, en auka þess í stað hlutverk og vægi verkefnisstjórnanna sem kveðið er á um í greininni. Hvernig sem skipan stjórnar verður á endanum er ljóst að tryggja verður aðkomu listgreinanna að henni, sem verður best gert með því að BÍL eigi þar fulltrúa.

o Í 4. grein er lýst einhvers konar ríkisrekinni markaðsþjónustu, sem óljóst er hvort fallið getur undir verksvið ríkisins. Einnig er óljóst hvort þjónustukaup séu forsenda samstarfs við Íslandsstofu.

o Í skýringum við 5. grein kemur ekki fram hvort opinberar stofnanir sem stunda útflutning á menningu og listum muni falla undir 4. tölulið;  Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn etc. Ef svo verður þá er spurning hvort það verði gegn þjónustugjaldi sbr. 4.gr. Sé það ætlunin verður það að teljast ámælisvert, þar sem einungis yrði um tilflutning á opinberu fé að ræða.

o Hlutverk aðalfundar skv. 7. grein þarf að skýra nánar í texta greinarinnar sjálfrar. Nauðsynlegt er að fram komi hvaða vald aðalfundi er falið og á hvern hátt stjórn er bundin af ákvörðunum aðalfundar. Efast má um gildi aðalfundar ef hann verður einungis óljós samráðsvettvangur eins og skilja má af því sem segir í frumvarpinu um 7. grein.

o Umsögn fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins bendir til að draga megi í efa að þær hástemmdu hugmyndir sem liggja að baki frumvarpinu séu til þess fallnar að ná fram mikilli fjárhagslegri hagræðingu, eins og virðist ætlunin.

Stjórn BÍL er reiðubúin að fylgja sjónarmiðum þessarar umsagnar eftir við utanríkismálanefnd Alþingis sé þess kostur.

 

f.h. stjórnar Bandalags íslenskra listamanna (BÍL)  Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

 

Ályktun frá stjórn BÍL vegna tillagna um niðurskurð á útgjöldum Ríkisútvarpsins

Stjórn BÍL lýsir stuðningi við kröfur samstöðufundar kvikmyndagerðarfólks sem haldinn var að Hótel Borg 25. janúar 2010.Í yfirlýsingu frá útvarpsstjóra frá 22. janúar kemur fram að draga þurfi verulega saman í  rekstri stofnunarinnar og til að ná sparnaðarmarkmiðum verði m.a. hætt að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum.

Það er mat stjórnar BÍL að niðurskurðartillögur útvarpsstjóra stríði gegn lagalegu hlutverki stofnunarinnar.  Ríkisútvarpið hefur ríkulegum samfélagslegum skyldum að gegna og er beinlínis ætlað að vera einn af máttarstólpum íslenskrar menningar og listsköpunar. Hlutverk stofnunarinnar er ótvírætt, henni ber að standa vörð um íslenska menningu, miðla henni til landsins alls og næstu miða, standa vörð um lýðræðislegar grundvallarreglur, m.a með því að uppfræða og upplýsa þjóðina um málefni líðandi stundar. Þá er henni ætlað að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Sem fyrr lýsir stjórn BÍL yfir skilningi á þeim erfiðleikum sem glímt er við í rekstri hins opinbera, en jafnframt hlýtur hún að gera þá kröfu að málefnanlega sé staðið að niðurskurði útgjalda lykilstofnana á borð við Ríkisútvarpið.  Tillögur útvarpsstjóra virðast handahófskenndar og beinast helst að framleiðslu innlendrar dagskrár. Ekki er valin sú leið að stilla upp ólíkum kostum til sparnaðar, heldur ráðist í einhliða aðgerðir sem vega að nokkrum grundvallarskyldum stofnunarinnar.

Það er mat stjórnar BÍL að í rekstrarlegri hagræðingu Ríkisútvarpsins hefði mátt forgangsraða í þágu menningar og lista. Í því augnamiði hefði þurft að skoða gaumgæfilega og reikna út aðra kosti, eins og t.d. að stytta útsendingartíma sjónvarps og segja upp samningum um kaup á erlendu efni, sem hljóta að hafa hækkað umtalsvert  upp á síðkastið í ljósi gengishækkana. Það hefði mögulega verið hægt að hlífa Rás 1 við niðurskurði nú í ljósi þess samdráttar sem varð þar 2009. Þess í stað hefði mátt skoða mögulega hagræðingu af því að koma á launajöfnun og aflétta launaleynd innan stofnunarinnar. Það hefði verið hægt að leita eftir áliti starfsmanna stofnunarinnar og óska eftir hagræðingarhugmyndum frá þeim. Með slíkum aðferðum má finna leiðir sem yfirmönnum eru ekki eins vel sýnilegar og almennum starfsmönnum. Þá hefði þurft að skoða mögulegan sparnað af breytingum á launahvetjandi kerfi markaðsdeildar, lækkun launa yfirstjórnenda og niðurskurði á aksturs- og bílakostnaði stofnunarinnar.  Stjórn Ríkisútvarpsins hefði svo þurft að vera virkur þátttakandi í endanlegri ákvörðun um niðurskurðinn eftir að hafa skoðað til hlítar ólíka möguleika.

Stjórn BÍL hvetur til þess að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hugi að þeirri menningarstefnu, sem birtist í lögum um Ríkisútvarp og samningi stjórnvalda við Ríkisútvarpið og leggur til að fyrirliggjandi niðurskurðartillögur verði endurskoðaðar með það að leiðarljósi að staðið verði við þau fyrirheit og markmið sem þar eru sett fram.

 

Niðurskurður hjá RÚV ohf.

Tilkynnt hefur verið um niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu ohf. og er ljóst að menning og listir verða þar afar illa úti.

Hætt verður að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið verður stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum. Beinum útsendingum frá stórum viðburðum eins og Grímunni og íslensku tónlistarverðlaununum verður hætt. Ljóst er að hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar verðu stórlega skert gangi allur þessi niðurskurður eftir. Eðliegt er að spurt sé hvort ekki hefði mátt forgangsraða með öðrum hætti, t.d. stytta dagskrána, innleiða á ný einn sjónvarpslausan dag í viku eða draga stórlega úr beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum. Það er líka umhugsunarefni að stjórn Ríkisútvarpsins ohf skuli standa að baki útvarpsstjóra í þessum áherslum, en stjórnin er skipuð fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Í stefnu beggja ríkisstjórnarflokkanna hefur verið löðg áhersla á að standa beri vörð um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, ekki verður annað séð en að þessar tillögur sem nú hafa verið kynntar fari gegn þeim stefnumiðum. Ljóst er að samtök listamanna eiga eftir að láta í sér heyra varðandi tillögur þessar á næstu dögum.

 

Nýr forseti

Kolbrún Halldórsdóttir

Nýr forseti hefur tekið við stjórnartaumunum á Bandalagi íslenskra listamanna, Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi ráðherra.

 

 

 

Page 20 of 29« First...10...1819202122...Last »