Fréttir

Hvert er hlutverk BÍL?

Síðan ég tók við embætti forseta BÍL hef ég iðulega staldrað við þá einföldu spurningu sem varpað er fram hér að ofan. Ég hef satt að segja átt við sífellt meiri efasemdir að stríða um raunverulega virkni Bandalagsins í samfélagi okkar og staðið mig að því að halda mig markvisst til hlés í því sem kalla mætti dæmigerðan eða hefðbundinn vettvang forseta BÍL. Það þýðir m.a. að ég hef átt æ erfiðara með að átta mig að mikilvægi þess að standa upp á endann í kokteilboðum eða sitja á miðendanum á sér í löngum kvöldverðarboðum á vegum gestrisinna yfirvalda.

Á yfirborðinu gæti litið svo út sem fulltrúi listamanna ætti einmitt að vera sem sýnilegastur í fínni lummuboðum og viðhafa þar jafnframt ítrustu kurteisisvenjur, þó ekki væri nema til að leiðrétta þann misskilning að listamenn séu ekki íkja samhvæmishæfir.

 

Áhugaverð frétt hjá RUV

Hildur Bjarnadóttir fréttamaður hjá RÚV var með mjög áhugaverða frétt frá Danmörku í hádegisfréttum útvarpsins 30. janúar sl.:

 

“Danskir fjölmiðlar segja að forystumenn í atvinnulífinu og vísindamenn telji mikilvægara fyrir börn að læra að fá góðar hugmyndir, heldur en að fá háar einkunnir í lestri, skrift og reikningi. Þótt slík færni spilli ekki fyrir, sé meira um vert að læra að spjara sig, og nýta hugmyndaflugið. Það komi að mestu gagni í störfum, bæði í iðnaði og þjónustu.

Stofnun um framtíðarrannsóknir í Danmörku hefur gefið út bók um efnið, þar sem bent er á nauðsyn skapandi hugsunar og skapandi starfa. Gagnlegustu hugtökin í allri atvinnustarfsemi séu samvinna og fagleg þekking. Með breyttri tækni verði hvers kyns myndmál, hljóð og lifandi myndir mikilvægari en skrifaður texti og tölur á blaði.

Ekki eigi að eyða tíma barna í að læra eins og þeir sem nú eru fullorðnir gerðu, heldur kenna þeim þannig að þau verði gjaldgeng í skapandi störfum í framtíðinni.”

 

Nokkur orð frá forseta BÍL

Ágætu lesendur.

Um þessar mundir eru liðnir þrír mánuðir síðan ég var kjörinn forseti BÍL og ekki úr vegi að ég láti í mér heyra á þessum vettvangi. Mig grunar reyndar að heimasíða BÍL sé ekki sjálfsagður viðkomustaður þeirra sem fylgjast vilja með menningarumræðunni í landinu, jafnvel þó hér sé að finna mikið af góðum upplýsingum og innleggi í þarfa umræðu.

Til þess að þessi síða þjóni tilgangi sínum, sem vettvangur umræðu og tengiliður ólíkra listgreina innbirðis og við umheiminn, þarf hún að vera öðru vísi upp byggð, aðgengilegri og gegnsærri. Það var einmitt eitt af því sem ég talaði um þegar ég ávarpaði aðalfund BÍL á dögunum, að gera þar nauðsynlegar breytingar. Sú vinna er ekki jafn langt komin og ég hefði viljað, en er engu að síður í áhugaverðum farvegi sem vert er að gefa lengri tíma til að þróast.

Það er ljóst að BÍL hefur tekið drjúgum breytingum í tíð forvera míns Tinnu Gunnlaugsdóttur enda dylst engum að hún skilaði bæði miklu og góðu starfi sem forseti bandalagsins. Traust manna á BÍL hefur líklega aldrei verið meira og áhugi á stefmumálum þess ótvíræður. Vil ég sérstaklega vekja athygli lesenda á hinni svokölluðu “Framtíðarsýn og stefnumótun í íslensku listalífi” sem gefin var út á síðasta hausti. Framtíðarsýnina, sem er afrakstur stefnunmótunarvinnu um 40 einstaklinga úr röðum BÍL, getur þú nálgast með því að velja “Á DÖFINNI” hér fyrir ofan. Hvet ég alla til að lesa textann vandlega, sér til upplyftingar og hvatningar. Væri ekki úr vegi að lesendur sendu hann áfram til allra þeirra sem málið varðar í smáu eða stóru og leggi þannig sitt af mörkum til málefnalegrar umræðu.

Það felst ærin ábyrgð því að fylgja eftir góðum verkum Tinnu Gunnlaugsdóttur svo ekki þurfi að tapa þræði eða glutra niður tækifærum þó skipt sé um mann í brúnni. Mitt hlutverk, í góðu samráði við stjórn, er meðal annars það að halda til haga því sem vel hefur tekist og sjá til þess að sú mikla vinna sem þegar hefur verið unnin skili sér áfram á eðlilegan hátt. Það breytir þó ekki því að ég hef frá upphafi áskilið mér allan rétt til þess að breyta áherslum og móta starfið í samræmi við það sem ég trúi að skili bestum árangri í nútíð og framtíð.

Ég hef notað þessa fyrstu mánuði til að kynna mér þann grundvöll sem Bandalagið byggir á, setja mig í samband við ólíka hagsmunaðila, hitta stjórnir aðildarfélaga og helstu ráðamenn ríkis og borgar. Allt í þeim tilgangi að hafa sem besta mynd af stöðu mála og eiga þar með auðveldara með að meta hvar skóinn kreppir og sjá hvar tækifærin leynast til næstu sóknar. Það er vissulega ánægjulegt að finna þann áhuga sem hvarvetna ríkir um starfsemi BÍL og óhætt að segja að væntingar, jafnt listamanna sem ráðamanna og listáhugafólks eru miklar til þeirra tækifæra sem Bandalagið getur skapað í framtíðinni. Tækifæra til áhugaverðar umræðu, aukinnar samstöðu og skilnings og marktækrar þátttöku í mótun samfélagsins. Þar eru listamenn sannarlega vannýtt auðlind sem æ fleiri eru farnir að líta til í fullri alvöru. Það er satt að segja ákaflega freistandi að halda því fram að tími orðagjálfurs ráðamanna og viðskiptajöfra sé loksins liðinn og komið að því að menn vilji láta verkin tala. Samstarfsvilji þeirra sem völdin hafa, hvort sem er pólitísk eða peningaleg, hefur a.m.k. sjaldan verið meiri og því mikilvægt að listamenn sjálfir sýni þann áhuga og skilning sem þarf til að næstu skref verði öllum til hagsbóta. Það eru ótal leiðir ókannaðar í því ferli og verður forvitnilegt að láta á það reyna á næstu misserum hvort ýmsir þættir í framtíðarsýn BÍL eigi ekki, þrátt fyrir allt, greiða leið frá hugmynd til framkvæmdar.

 

Þorvaldur Þorsteinsson

Nýr forseti BIL

Aðalfundur BÍL, Bandalags íslenskra listamanna var haldinn í Iðnó við Reykjavíkurtjörn laugardaginn 30 október sl..

Á fundinum var Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður og rithöfundur kjörinn forseti BÍL til næstu tveggja ára, en Tinna Gunnlaugsdóttir, sem verið hefur forseti síðastliðin sex ár, tekur senn við embætti Þjóðleikhússtjóra.

Nýtt aðildarfélag, Leikskáldafélag Íslands, stofnað 1974, var tekið inn í BÍL og er það 14. aðildarfélagið.

Auk venjulegra aðalfundar starfa var kynnt á fundinum stefnumótunarverkefni um framtíðarsýn fyrir íslenskt listalíf til ársins 2008, sett fram í tilefni af 75 ára starfsafmæli BÍL á síðasta ári.

Auk þess voru samþykktar nokkrar ályktanir.

 

Aðalfundarályktanir 2004

Ályktanir samþykktar á aðalfund BÍL 2004

 

Aðalfundur bandalags íslenskara listamanna fagnar stofnun tónlistarsjóðs á vegum menntamálaráðuneytisins, en sjóðum er ætlað er að stuðla að aukinni útrás innlendrar tónsköpunar. Einnig fagnar aðalfundurinn því að Kynningarmiðstöð fyrir íslenska myndlist skyldi loks fá brautargengi stjórnvalda.

 

Ályktun um ljósvakamiðla.

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna mælist til þess að leitað verði leiða til að bæta úr því ófremdar ástandi sem ríkir á sviði innlendrar dagskrárgerðar. Fundurinn ályktar að auknar og skýrari kröfur verði gerðar af hálfu löggjafans sem tryggi stærra hlutfall íslensks efnis á dagskrá ljósvakamiðla.

Í alþjóðlegum samanburði vermir íslenskt sjónvarp yfirleitt svo gott sem botnsætið hvað varðar hlutdeild innlends efnis af dagskrá og gildir þá einu hvort um er að ræða samanburð á efni stöðva í almannaþjónustu eða einkarekinna stöðva.

Vert er að vekja athygli á að víða um heim tíðkast að í skilyrðum fyrir veitingu rekstrarleyfa til ljósvakamiðla, sé skýrt kveðið á um ákveðna lágmarks hlutdeild innlends efnis af útsendingartíma.

 

Ályktun um Ríkisútvarpið – Sjónvarp

Um þýðingu almenningsútvarps fyrir menningarlíf þjóðar verður ekki deilt, meðan það tryggir þegnum hennar jafnan aðgang að fræðandi og gagnrýninni umræðu um þjóðfélagsmál, vísindi, menningu og listir og færir þeim heim í stofu vandaða dagskrárgerð, þar sem fjölbreytt listsköpun er í fyrirrúmi.

Aðeins stofnun með traustan fjárhagslegan rekstrargrundvöll hefur burði til

að sinna því hlutverki að framleiða vandað efni sem getur talist menningarlega eða þjóðfélagslega mikilvægt, eða sambærilegt við það sem þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við fá notið. Aðalfundur BÍL beinir því til menntamálaráðherra og ríkisvaldsins að tryggja Ríkisútvarpinu fjármagn og faglegt sjálfstæði til að sinna því hlutverki sínu, að leggja rækt við og efla íslenska menningu og sérkenni.

 

Sjónvarpsmyndasjóður og uppbygging kvikmyndagerðarinnar

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna mótmælir harðlega seinagangi ríkisstjórnarinnar við það brýna verk að stuðla að öflugri framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Íslendingar hafa, eins og aðrar þjóðir, þörf fyrir að spegla líf sitt í þessum öflugasta fjölmiðli samtímans. Börnum okkar er það nauðsyn að geta sótt sér fyrirmyndir, fróðleik og skemmtun í sjónvarpsefni sem sprottið er úr íslenskum raunveruleika og íslenskri menningu.

Aðalfundurinn fer þess á leit við stjórnvöld að uppbygging sjónvarpsmyndasjóðs verði áætluð í samræmi við þær hugmyndir sem settar voru fram í skýrslu sem unnin var að tilhlutan BÍL og hagsmunaaðila í kvikmyndagerð. Jafnframt fer fundurinn fram á það að nýtt samkomulag verði gert milli sömu aðila og áður um áframhaldandi uppbyggingu kvikmyndagerðarinnar og að fjármagn til sjóða Kvikmyndamiðstöðvar verði aukið. Ályktun um listamannalaun.

Aðalfundur BÍL ítrekar enn og aftur nauðsyn þess að hugað verði að endurskoðun laga um listamannalaun hið fyrsta, með það að markmiði að stækka sjóði og fjölga þeim. Lög um listamannalaun voru afgreidd frá Alþingi árið 1991. Með lögunum gjörbreyttust aðstæður sjálfstætt starfandi listamanna á Íslandi og meðal þeirra efldist atvinnumennska til mikilla hagsbóta fyrir menningarlífið í landinu. Þrátt fyrir að allar forsendur hafi breyst frá setningu laganna og listamönnum og listgreinum hafi fjölgað til muna hefur skilgreining sjóðanna og stærð haldist óbreytt frá því sem upphaflega var ákvarðað. Aðalfundurinn bendir á nauðsyn þess að framlegð listalífs sé metin að verðleikum að hálfu hins opinbera og listamönnum á hverjum tíma búnar þær aðstæður að þeir geti skilað sem mestum arði til samfélagsins í listrænu, menningarlegu og efnahagslegu tilliti.

 

Ályktun um tónlistarmenntun.

Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirrar óheillavænlegu þróunar sem nú á sér stað í tónlistarmenntun þjóðarinnar. Vegið er að rótum þeirrar tónlistarmenntunar sem þróast hefur í þrjá áratugi og skilað bæði mannauði og veraldlegum gæðum til þjóðarbúsins.

Óásættanlegt er að ungt og hæfileikaríkt fólk sé hindrað í framvindu náms eða því neitað um þá fagmenntun sem sérhæfðir tónlistarskólar veita, á grundvelli búsetu og aldurs. Bandalag íslenskra listamanna lítur svo á að sú staða sem upp er komin stefni tónlistarlífi þjóðarinnar í hættu og hvetur til þess að sveitarfélög og ríki finni lausn við hæfi hið fyrsta.

 

Ágóði af þjóðarlottói

Bandalag íslenskra listamanna vekur athygli á því að rík ástæða er til að huga að annarri skiptingu lottótekna en tíðkast hér á landi, en víða um heim eru lottótekjur veruleg lyftistöng fyrir listalífið. Bandalag íslenskra listamanna telur það einungis sanngirniskröfu að tekið verði upp sams konar fyrirkomulag við útdeilingu ágóða af rekstri lottósins tíðkast t.d. á hinum Norðurlöndunum, en þar rennur yfirleitt allt að helmingur hagnaðarins til menningar og lista.

 

Ályktun vegna sjálfstæðu leikhúsanna og sviðslistarhópa

Aðalfundur BÍL leggur áherslu á að áfram verði unnið að því að tryggja starfsumhverfi sjálfstæðu leikhúsanna og sviðslistahópanna til framtíðar með auknu fjárframlagi ríkis og sveitarfélaga.

Fjölga þarf styrkjum til einstaklinga og hópa sem standa fyrir sjálfstæðri leiklistarstarfsemi og tryggja þar með að nýsköpun eigi sér farveg og vettvang í samfélaginu.

 

Ályktun um varðveislu og verndun myndlistararfsins

Samfelld saga er mikilvæg fyrir sjálfsmynd þjóðar. Ánægjulegt er að sjá hve vel er nú búið um þann hluta myndlistararfsins sem varðveittur er í Þjóðminjasafni Íslands en því miður virðast yfirvöld ekki líta sömu augum þau menningarverðmæti sem felast í listsköpun samtímans. Listasafn Íslands er 120 ára á árinu og er því ein elsta menningarstofnun landsins. Safnið hefur það hlutverk samkvæmt lögum að safna myndlist og varðveita til framtíðar og ber því að endurspegla sem best strauma og stefnur í myndlist á hverjum tíma. Því hlutverki hefur safnið ekki getað sinnt um langt árabil en fjárveitingar til kaupa á verkum námu sömu krónutölu um 13 ára skeið þar til þær voru lækkaðar á síðasta ári. Í þeirri tölu standa þær nú. Aðalfundur BÍL skorar á yfirvöld að gera Listasafni Íslands kleift að sinna lögbundinni skyldu sinni með stórauknu fé til listaverkakaupa.

 

Ályktun um fölsuð myndverk

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna skorar á yfirvöld að verja sæmd íslenskra myndlistarmanna með því að binda í lög að fölsuð myndlist skuli gerð upptæk.

Með því má koma í veg fyrir að myndverk sem sannað þykir að séu fölsuð fari aftur út á markaðinn og að sama sagan endurtaki sig með öllum þeim kostnaði og vinnu sem rannsókn slíkra mála fylgir.

 

Ályktun um Tónlistarhús.

Bandalag íslenskra listamanna skorar á yfirvöld menningarmála ríkis og borgar að fylgja fast eftir ásetningi um byggingu Tónlistarhúss við höfnina í Reykjavík. Jafnframt leggur Bandalagið áherslu á að faglegra sjónarmiða verði gætt í hvívetna þegar fjármögnun og listræn stjórnun Tónlistarhúss verður ákvörðuð svo það megi sem best verða sú þungamiðja íslensks tónlistarlífs sem vonir standa til og geti þar með þjónað og glætt tónlistaráhuga landsmanna til framtíðar

 

Page 29 of 29« First...1020...2526272829