Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir setti listahátíðina List án landamæra í Tjarnarsal Ráðhússins í gær 29. apríl. Setningarávarp hennar fer hér á eftir:

Í dag er blásið til veislu, sannkallarðar menningarveislu, þegar Listahátíðin List án landamæra kemur í sumarbyrjun með sólskin og blóm í bæinn.

Það gleður mig að fá að ávarpa gesti þessarar litríku og skemmtilegu hátíðar fyrir hönd Bandalags íslenskra listamanna, en í ár er BÍL í fyrsta sinn formlegur samstarfsaðili „Listar án landamæra“. Með samstarfinu viljum við undirstrika mikilvægi hátíðarinnar fyrir allt listalíf í landinu og leggja okkar af mörkum til að breikka bakland hennar. Það er samtökum listamanna mikilvægt að fylkja sér að baki þeim kraftmikla hópi sem hefur skapað þessa hátíð og undirstrika þannig þá breidd sem hún býr yfir. Hátíðin hefur öðlast veigamikinn sess í lífi skapandi fólks um land allt ekki hvað síst fyrir það að hún hefur rutt hindrunum úr vegi, brúað bil milli manna og þar með lagt lóð á vogarskálar jafnréttis.

Listafólk er af ýmsu tagi, hjá sumum hneigist hugurinn snemma til þess sem verða vill en aðrir leggja út á listabrautina seint á lífsleiðinni. Sumir nýta allar sínar tómstundir til að skapa en aðrir hafa listina að atvinnu og sjá fyrir sér með listsköpun sinni. Sumir eru heila eilífð að skapa hvert verk á meðan aðrir virðast skapa á færibandi. Fyrir suma er listabrautin þyrnum stráð en fyrir aðra er hún dans á rósum. Leiklistin heillar einn, myndlistin annan, tónlistin þann þriðja og dansinn þann fjórða. En það sem sameinar okkur er þörfin til að skapa.

Mikið erum við heppin að listgreinarnar skuli vera svona margar! Það auðveldar hverju og einu að finna heppilegan farveg fyrir það sem okkur liggur á hjarta. Það skiptir máli að finna „miðil“ sem hentar hæfileikum hvers og eins og passar þeim hugmyndum sem kvikna hið innra. Fyrir fjölbreyttan hóp þarf fjölbreytileg tækifæri og við erum heppin með þá fjölbreyttu flóru listafólks, sem kvatt hefur sér hljóðs út um allt samfélagið. Sumir eru liprir og liðugir, aðrir stirðbusalegir, sumir opnir og óðamála, aðrir dulir og leyndardómsfullir, sumir arka um á tveimur jafnfljótum, aðrir fara ferða sinna í hjólastól. Hvílíkt litróf!

Ég hef sjálf orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að skapa með heyrnarlausum leikurum, það kenndi mér margt sem ég hefði ekki getað lært eftir öðrum leiðum. Það getur enginn flutt texta af slíkri innlifun og án þess að röddin komi þar nokkuð nærri, nema þau sem eiga táknmálið að móðurmáli. Ég á vinkonu sem málar margbreytilegar myndir af fólki og fuglum með munninum. Af þessum vinum mínum hef ég lært hversu dýrmætt það er að sjá tækifærin en ekki takmarkanirnar í lífinu og listinni. Það er einmitt það sem listahátíðin „List án landamæra“ snýst um.

Kæru gestir! Horfum nú vítt yfir sviðið, frelsum hugann af öllum landamærum, hefjum okkur til flugs og fögnum fjölbreytninni. Með þeim orðum set ég listahátíðina „List án landamæra“ .

Gleðilega hátíð!