Author Archives: vefstjóri BÍL

Hugleiðing á alþjóðlegum degi listarinnar 2021 eftir Harald Jónsson

Í dag, 15.apríl 2021, er alþjóðlegur dagur myndlistar. Þetta er í fyrsta skipti sem hann er haldinn hátíðlegur hér um slóðir og er það fagnaðarefni. Að þessu tilefni er ýmislegt hægt  að taka sér fyrir hendur. Við getum til dæmis byrjað á að líta í kringum okkur. En áður en við gerum það er gott að slökkva á farsímanum alla vegana að setja á fluvélastillingu og síðan er ágætt að nema staðar og nema staðinn þar sem við erum stödd nákvæmlega núna. Það er góð leið til að ná andanum. Við getum líka hallað aftur augunum nokkur andartök eða nógu lengi þannig að þegar við opnum þau aftur er sem við sjáum heiminn í fyrsta sinn. Kveikjurnar leynast víða og myndlistin leysist úr læðingi á ólíklegustu stöðum. Hún birtist ekki bara í sýningarsölum þar sem við getum notið sama verksins jafn lengi og okkur lystir innan auglýsts opnunartíma. Fyrir utan þessa afmörkuðu staði erum við nefnilega stöðugt vitni að óvæntum kringumstæum sem geta fært okkur nær. Myndlist gerir einmitt það, hún færir okkur nær, hún er næring, stundum beint í æð. Hún á sér stað þegar við setjum það sem umkringir okkur í samhengi og sjáum í öðru ljósi. Rétt eins og við erum stöðugt að safna sönnunargögnum og staðfestingu á tilveru okkar, gera hana merkingarbæra. Okkur grunar og grunurinn er líka grunnurinn að forvitni. Og fyrr en varir læðist undrunin í ljós. Myndlistin fylgir gjarnan í humátt á eftir. Hún er til dæmis risastórt auglýsingaskilti sem varpar línhvítum fleti út í nágrennið. Hún er hillustæða með jafnmörgum ljósaperum og nægja til að baða heila mannsævi í tunglsljósi. Hún er nýhnoðaðir snjóboltar í mismunandi stærðum sem liggja í röð á gangstétt við fjölfarna götu og eru til sölu á ólíku verði eftir stærð. Hún er glerklefi sem fyllist af þoku svo ekki sér handanna skil. Hún er nýmáluð og mjólkurhvít undirgöng í gegnum fjölbýlishús sem er að hruni komið. Hún er klifurveggur sem dregur upp stjörnumerki himinhvolfanna og hægt er að klifra upp á milli þeirra. Myndlist birtist alltaf nafnlaus og hún gerir aldrei boð á undan sér. Eitt annað dæmi af handahófi er kannski þetta nafnlausa eldfjall sem er að gera allt vitlaust og tekur á sig nýja mynd á hverjum degi. Eldfjallið er auðvitað ekki myndlist í sjálfu sér heldur það sem getur kviknað í bilinu á milli þess og okkar. Skynhrifin, venslin og ummyndanirnar. Drög að þessu eldfjalli komu í ljós þegar varir jarðarinnar urðu aftur sýnilegar í ljósaskiptunum núna um daginn. Þær brostu og út úr þeim byrjuðu að leka logandi línur, form, tákn og lúmsk skilaboð sem önguðu af iðrum jarðar. Þau streymdu eitt á eftir öðru út um logandi opið og mynduðu kóðaða frásögn þangað til taumurinn storknaði og varð eitt með steinrunnu slefinu. Skynjunin er nákvæmlega svona, líkamsheitt kvikuhólf sem opnast þegar minnst varir. Hvar endar þetta og hver er annars munurinn á gosinu og sprunginni hitavatnslögn í þéttbýli? Verður landslagið fallegra eða ljótara er reyndar spurning sem brennur á vörum sumra. Við erum engu nær og hraunið það eyrir heldur engu Það róast reyndar í dagsbirtunni en æsist þegar myrkrið brestur á. Elfan heldur áfram og gleypir bæði myndavélar og mælitæki og líka farsímana okkar ef við pössum okkur ekki. Við stöndum á milli nafnlausra sprungna, allra þessara ómálga jarðmunna sem opnast hver á eftir öðrum í seigfljótandi, margradda, muldrandi og glóandi söng og við vitum varla í hvorn fótinn við eigum að stíga. Þetta er allt saman í beinni útsendingu en við viljum samt stöðugt nær, ná sambandi og koma við kvikuna. Hún myndar straum og læk, þráð og þrá sem leiðir og togar í okkur og vísar leiðina gegnum nóttina og daginn. Myndlist er einmitt þessi þráður og þrá. Hún er tengingin inn til okkar og líka á milli okkar í endalausum núningi þangað til við náum jafnvel áttum. Myndlist er staðsetningartæki. Hún ýtir við, kitlar, hrærir og kemur okkur áleiðis. Hún er leikur sem felur og leiðir í ljós. Hún er spegilmynd og afsteypa. Góð myndlist er óvænt stefnumót og þegar hún á sér stað afhjúpar hún okkur og við verðum ekki söm. Til hamingju með daginn.

Haraldur Jónsson

Ályktun aðalfundar BÍL starfsumhverfi listamanna

Samþykkt BÍL  um starfsumhverfi listamanna og atvinnuástand í skapandi greinum.

Ástand það sem myndaðist í kjölfar samkomubanns á liðnu ári kom afar illa við listamenn og það fólk sem starfar í listum og skapandi greinum. Af því að ekki sér fyrir endann á afleiðingum þessa ástands vill aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna vekja athygli á alvarlegri stöðu listamanna á vinnumarkaði og því hversu erfiðlega stjórnvöldum gekk að sníða úrræði að þörfum þeirra sem starfa við listir og menningu. Starfsumhverfi listamanna er afar flókið og margbreytilegt, svo flækjustigið var mikið þegar ráðast átti aðgerðir til stuðnings geiranum. Stærstur hluti listamanna starfar sem einyrkjar að hluta eða öllu leyti og hefur ótryggar og óstöðugar tekjur, nokkuð sem vafðist fyrir þegar úrræði stjórnvalda vegna Covid-ástandsins voru heimfærð upp á listamenn. Því reyndust þau þeim ekki sú björg sem til var ætlast. Reynsla okkar af síðasta ári kallar á að átak sé gert í því að kortleggja starfsumhverfi listamanna og það atvinnuástand sem fólk í hinum skapandi geira býr við. Breyta þarf launa-, skatta- og atvinnutryggingakerfi þannig að það taki mið af þeim raunveruleika sem listamenn búa við.

Ályktun aðalfundar BÍL um stofnun Þjóðaróperu

Bandalag íslenskra listamanna telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Slíkt verður einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019. Lagagrundvöllur þjóðaróperu þarf að vera sambærilegur þeim sem gildir um Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn, þar sem hlutverkið er skýrt og fagmennska tryggð. Með því móti væri óperustarfsemi komið á traustan kjöl opinbers rekstar, enda ljóst að rekstrarform einkaréttarlegs eðlis hentar ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og hér um ræðir.

Bandalagið leggur til að mennta- og menningarmálaráðherra kynni í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019, svo fá megi fram sjónarmið þeirra sem best þekkja. Endanlegt frumvarp verði svo lagt fram á Alþingi eigi síðar en haustið 2021.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.

1.gr.

Eftirfarandi kafli og greinar bætast í lög um sviðslistir nr. 165/2019.

1. KAFLI

Þjóðarópera.

(a). gr.

Hlutverk.

 Þjóðarópera er eign íslensku þjóðarinnar. Hlutverk Þjóðaróperunnar er að sviðsetja óperuverk af háum listrænum gæðum. Þjóðaróperan skal sinna sögulegri arfleið óperulistarinnar í samtíma samhengi með sérstakri áherslu á íslenska frumsköpun. Þjóðaróperan skal vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun óperulistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á óperulist.

(b). gr.

Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Þjóðaróperu eru sýningar á íslenskum og erlendum óperuverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk óperuverk. Einnig skal Þjóðaróperan annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að sýningarferðum innanlands. Þjóðaróperunni er heimilt að standa að sýningarferðum til annarra landa eftir því sem aðstæður leyfa.

(c). gr.

Óperustjóri.

    Ráðherra skipar óperustjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar. Skipaður skal einstaklingur með háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu á óperuflutningi og starfssviði Þjóðaróperunnar. Endurnýja má skipun óperustjóra einu sinni til næstu fimm ára ef meirihluti stjórnar mælir með endurráðningu.

    Óperustjóri er stjórnandi Þjóðaróperunnar og markar listræna stefnu hennar. Hann er í forsvari fyrir þjóðaróperuna og annast daglega stjórnun samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun að fenginni umsögn stjórnar. Hann ræður starfsmenn og ber ábyrgð á listrænum og fjárhagslegum rekstri svo og gerð langtímaáætlunar og að starfsemi Þjóðaróperunnar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

(d). gr.

Stjórn.

    Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Þjóðaróperunnar. Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum tilnefnir tvo fulltrúa en einn skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Stjórnin skal skipuð til fimm ára í senn. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórnina lengur en tvö samfelld starfstímabil.

    Stjórn Þjóðaróperunnar er óperustjóra til ráðgjafar um stefnu Þjóðaróperunnar og önnur málefni er varða starfsemi hennar. Hún veitir óperustjóra umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir, vinnur með honum að langtímaáætlun um starfsemina og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna.

(e). gr.

Samstarf.

Þjóðaróperan skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna óperulist s.s. tónskáld, textahöfunda, sviðshöfunda, hönnuði og flytjendur með listrænan ávinning, nýsköpun og fjölbreytni að markmiði.

Þjóðaróperan skal stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi Þjóðaróperunnar eftir því sem við verður komið.

(f). gr.

Kostnaður.

Kostnaður af óperuráði og rekstri Þjóðaróperunnar greiðist úr ríkissjóði. Þjóðaróperunni er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.

 

Ályktun aðalfundar BÍL um samningagerð í RUV

 

Ályktun  BÍL um samningagerð í RÚV

Í nýlegum samningstilboðum  sem Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) hefur gert listamönnum koma fram  kröfur um að viðsemjandi fallist nú á tilteknar samningsskyldur sem ekki hafa  áður verið gerðar. Má þar nefna:

 • Að RÚV megi framselja viðkomandi efni til annarra miðla hér á landi og í öðrum löndum
 • Að RÚV megi gefa efni viðkomandi út á myndiskum og hljómdiskum eða setja í annars konar dreifingu
 • Að greiðslufyrirkomulag í teljist fullnaðargreiðsla fyrir hljóðritanir, útsendingar og notkun á efninu eins og hún sé skilgreind í samningnum

Með þessum ákvæðum er það greinlega ætlun RÚV að taka sér vald til að selja efni sem framleitt er innan veggja RÚV á frjálsum markaði og tryggja sér jafnframt ævarandi eignarrétt á því, þannig að flytjendur og höfundar missi allt tilkall til greiðslna fyrir þessi réttindi. Þessum kröfum er augljóslega ætlað að  rýmka allar heimildir RÚV frá því sem nú er til hagnýtingar verka viðsemjenda.

Rétt er í þessu sambandi að geta að ekkert samtal hefur átt sér stað milli RÚV og fulltrúa listamanna um þessi tilteknu atriði samninga. Við það verður ekki unað af hálfu listflytjenda og höfunda að RÚV sæki með þessum hætti að réttindum þeirra.

Aðalfundur BÍL mótmælir harðlega framgöngu RÚV þar sem þessari aðferðafræði er beitt og hvetur stofnunina til að endurskoða þegar í stað kröfur sínar í samningagerð varðandi framangreind atriði.

Ársskýrsla stjórnar BÍL stafrfsárið 2020

SKÝRSLA STJÓRNAR

BANDALAGS ÍSLENSKRA LISTAMANNA

STARFSÁRIÐ 2020

Þetta hefur verið tíðindamikið og sérstakt ár. Við gengum inn í þetta síðast ár með ýmis verkefni í   farteskinu, mörg þeirra hafa fylgt okkur lengi, bætt staða starfslauna og efling verkefnasjóða. Baráttan fyrir skráningu hagvísa og réttlátri endurgreiðslu á  hugverkarétti, en við byrjuðum árið á listþingi í Hörpunni. Í baksýnisspeglinum virðist þetta vera fyrir svo óralöngu síðan,

COVID

Tungutak listarinnar, hvernig tölum við um listina, var yfirskrift listþingsins Þetta var ákaflega vel heppnað,  góð mæting. Frummælendur voru: Ólöf Nordal, myndlistarmaður, Ragnar Helgi, rithöfundur og myndlistarmaður, Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður og Kristín Ómarsdóttir, rithöfundur, Guðmundur Oddur Magnússon stjórnaði. Þar var rætt um loftnet innsæsins, hversu mikla samleið listin ætti með vitsmunum og  greiningu, um tilgang listarinnar til að skerpa sýn og opna  skynjun, spegla þann heim sem við tilheyrum og sjá þann fyrir sem ekki er til en gæti orðið. Er þessi orðræða til, eða  fellst hún í verkunum sjálfum,  getum við átt samtal við samfélag okkar og um þessi verðmæti eða verða þau einfaldlega geymd í verkunum sjálfum…. Við flugum hátt þessa fyrstu daga ársins, það var góð mæting í Hörpuna þennan laugardag. Þetta voru skemmtileg og hugvekjandi erindi sem töluðu til fólks, skemmtileg þrátt fyrir þungan undirtón. Lítið vissum við þá.

Það er líklega einfaldast að fara í gegnum tíðindi þessa árs í tímaröð, skömmu eftir þetta vel heppnaða málþing er óhætt að segja að allar leikreglur okkar hafi farið á annan endann. Þann 16. mars setti ríkisstjórn Íslands á samkomubann sem skyldi standa í fjórar vikur. Þetta voru vissulega erfið og þung tíðindi fyrir listamenn því allir gerðu sér grein fyrir að myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir listamenn í landinu og þá sérstaklega einyrkja í þessum svokölluðu “performance” greinum.

Strax á þessum fyrstu dögum hófst samtal bæði á milli fagfélag listamanna og við opinbera aðila til þess að bregðast við stöðunni. Fljótlega  boðaði mennta- og menningarmálaráðherra alla forsvarsmenn menningar umhverfisins á samráðsfund, þetta var í upphafi breiður hópur en BÍL tók þátt í þessu samtali fyrir hönd listamanna ásamt miðstöðvum og stofnunum hins opinbera. Það var samt ljóst strax í upphafi að einyrkjarnir sem er langstærstur hluti starfandi listamanna sá fram á algjört þrot í tekjum og í mörgum tilfellum sokkin kostnað í verkefnum sem frusu í pípunum á einu augabragði og eins og menn vita eru oftast ekki þykkir veggir á milli þess kostnaðar sem listamenn leggja til verka sinna og heimilsbókhaldsins. Áhersla viðbragðs og  aðgerða þyrfti að vera að tryggja  þennan hóp, sjálfstæðu listamennina og hópana.

Samtímis þessu átti BÍL ásamt fagfélögum listamanna fundi með velferðarnefnd alþingis um mögulegar breytingar  sem þyrfti að gera á lögum og reglum Vinnumálastofnunar svo úrræðin yrðu opnari og aðgengilegri listamönnum og einyrkjum. Velferðarnefnd Alþingis var með áform um að rýmka regluverk  VMST í þeim tilgangi að grípa fleiri og samtímis var lagt upp með bætur fyrir fólk í sóttkví. BÍL fagnaði þeirri viðleitni stjórnvalda að opna kerfi VMST frekar, en benti strax á að leiðir eins og fyrirhugaðar voru í bótaleið fyrir tekjufall í sóttkví væru líklegri til að virka sem raunverulegar úrbætur. BÍL óttaðist það strax að regluverk hinnar opinberu stofnunar gæti reynst þungt í skauti í aðgerðum sem þyrfti að bera árangur strax.

BÍl setti sig líka strax í samband við systurfélög sín á Norðurlöndum til þess að heyra hvernig stjórnvöld þar í landi væru að bregðast við og reglulega skiptust samtökin á upplýsingum um stöðuna og hvað væri í framkvæmd hjá stjórnvöldum í hverju landi.

Tillögur að fjáraukalögum sem fyrsti viðspyrnu pakki við Covid voru lögð fram á alþingi 21. mars og þá var áætlað að setja 1.750 milljarða í nokkuð víðtækan málaflokk skapandi greina,  menningar, tækniþróun ofl.  og fyrstu skilaboð frá ráðuneyti mennta- og menningarmála voru þau að um 600 millj kæmu til ráðstöfunar í málalið 18 sem er menning, listir og íþróttir. Niðurstaðan varð sú  á endanum að milljarður fór í þennan lið og af þeim milljarði voru 600 milljónir eyrnamerktar menningu og listsköpun.

Fyrr í þessu ferli höfðu miðstöðvar lista og skapandi greina ásamt BÍL og sviðslistasambandinu tekið upp samtal til þess að tryggja að, í fyrsta lagi sem  ríflegastur hluti  fjárveitingar  fjárfestingarátaksins rynni til grasrótar og sjálfstætt starfandi listamanna en einnig að sjá til þess að úthlutun þess fjármagns yrði fagleg. Það var fljótlega niðurstaða þessa hóps að að nýta ætti það kerfi sem til væri s.s. verkefnasjóðina. Ein helsta röksemdin fyrir þeirri áherslu var sú að kerfið væri til staðar, því væri hægt að bregðast hratt við og koma fjármagninu hratt í umferð. Þessi samstaða greinana sendi mjög jákvæð skilaboð til stjórnvalda og ekki annað að skilja en yfirvöld menningarmála mættu þeirri útréttu hönd fegins hendi og boðuðu samráð við hópinn um vinnu við úthlutunina. Það tók engu að síður óratíma að koma þessu á og auglýsingin um úthlutun í sjóðina birtist ekki fyrr en 25.  apríl, sóttvarnarlögin voru sett 16. mars og áttu að gilda í fjórar vikur. Ráðuneytið ákvað sjálft að skipta þessum fjármunum á milli sjóðana án samráðs við þennan samráðsshóp listgreinana.

Á þessum tíma hóf BIL líka samtal við Reykjavíkurborg um aðstoð við listamenn í borginni, Borgin var þegar komin með aðgerðir til bjargar, eða í viðbragðsstöðu gagnvart sínum menningarstofnunum en í samráði við BÍL var ákveðið að bæta í menningarsjóðinn og kalla saman útlutunarnefndina til þess að úthluta þessu aukafjármagni.

Fljótlega fór að koma í ljós að þrátt fyri góðan vilja og aðgerðir velferðanefndar voru listamenn ekki að fá þær lausnir úr atvinnutryggingasjóðum sem þeim bar og erfitt reyndist að fá skýr svör frá stofnuninni um hverju sætti, þrátt fyrir ítrekaða tölvpósta, hringingar og heimsóknir. Ekki var hægt að fá upplýst hvernig framgangur listamann í kerfinu var. Á endanum gerði BÍL könnun meðal listamanna um hvernig þeim gengi í viðureign sinni við VMST. Niðurstöðurnar voru sláandi.  77% listamanna hafði tapað meira en 50% sinnar vinnu og um 30% þeirra allri vinnu, þrátt fyrir það var lágt hlutfall að leita til VMST og eða 29 % svarenda. Alvarlegast var að þessi könnun staðfesti að 70% þeirra sem á annað borð leituðu til VMST höfðu ekki fengið neina lausn sinna mála.

Það voru fjölmargar ástæður fyrir því hversu illa listamönnum gekk að fá framgang í úrræðum VMST en ein helsta skýringin var einfaldlega sú að þetta áhlaup sem stofnun varð fyrir, gaf enga möguleika á því að vinna með frávik í umsóknum, flókið vinnuumhverfi og einstaklingsbundin samsetning tekna, vinnuhlutfall og ráðningarforma gerði það að verkum að þessar umsóknir lentu einfaldlega neðst í skúffunni.

Nú var aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar númer tvö að birtast,  þann 21. april og í honum var bætt í starfslaunasjóðinn því var vel fagnað í hópi listamanna og strax sendi forseti ráðuneytinu erindi um að hafa samráð við listamenn um deilingu þessa fjármagns minnug þess að skiptingin milli verkefnasjóða var framkvæmd án samráðs og sýnilegs rökstuðnings. Ekkert svar barst við þessu erindi, né ítrekun þess skömmu síðar, heldur birtist skiptingin í frumvarpi um breytingu á listamannalaunum.  Þetta kallaði á ágreining innan raða listamanna og BÍL sendi því enn eitt erindið og átaldi ráðuneytið um skort á samskiptum og sjálfsögðu samráði um ráðstöfun fjármagns sem hefði bein áhrif á afkomu og störf listamanna. Ráðuneytisstjóri boðaði í kjölfarið til fundar þar sem ákveðið var að koma á samráðshópi  BÍL og ráðuneytisins, það hefur dregist í framkvæmd og verður tekið upp nú á vormánuðum.

Við undirbúning fjárlagafrumvarps 2021 fékkst síðan aftur bætt 550 mánuðum í starfslaunasjóðinn og í þetta sinn óskaði ráðuneytið eftir aðkomu okkar að þeirri skiptingu með þá ósk að skiptingin endurspeglaði að einhverju leyti stöðuna í kjölfar samkomubannsins. Við komumst að ágætri málamiðlun um þessa skiptingu í deilingu á sjóðina. Með því sendum við skýr skilaboð um að samtalið og að forræði úthlutana væri best komið i höndum okkar.

Lokakafli Covid orustunar var síðan háður í samvinnu BÍL og BHM, því á haustmánuðum var enn óleyst sú staða sem skapaðist í tekjumissi listamanna. Ágæt samantekt tónlistargeirans um stöðuna opnaði fyrir skilning ráðuneytisins á sérstöðu greinanna og í kjölfarið fór af stað samtal með þátttöku BHM og fulltrúa félagsmálaráðuneytisins. Þetta var klárlega flóknasti kaflinn í þessari baráttu því þarna var við regluverkið að eiga og þau sjónarmið varðmanna þess að eini vandi regluverksins væri sá að fólkið passaði ekki inn í það.  Til þess að undirbyggja málflutninginn voru gerðar tvær kannanir í samstarfi BHM sú fyrri um tekjufall og atvinnuleysi, en sú síðari um árangurinn af viðureigninni við VMST þessar kannanir leiddu í ljós sömu niðurstöðu og aðrar kannanir frá því  um vorið, að tekjufallið væri að jafnaði helmingur þvert á greinar og að fólk var ekki að fá lausn hjá VMST. auk þess sem þessar kannanir sýndu svart á hvítu hversu tekjulágur hópurinn er. Á sama tíma kom út skýrsla hjá OECD sem var greining á einyrkja umhverfinu í OECD löndunum og sú skýrsla dró upp alveg hliðstæða mynd.  Í þeim löndum var vandinn viðurkenndur og búið var að grípa til aðgerða í flestum þeirra til þess að koma til móts við þennan hóp. Þetta var ákaflega flókið og ekki nokkur leið að sveigja regluverkið að þessum vanda. Lendingin varð sú, eftir marga hringi og nokkur átök, að þeir sem utan um kerfið halda gátu sæst á að hægt væri að miða aðgerðirnar við rekstrartap einyrkja. Þetta var svo kynnt af menntamálaráðherra og forsætisráðherra auk annarra aðgerða til eflingar menningar og listum  í Hörpunni þann 16. október ásamt aðgerðum í tíu liðum sem ýmsar voru þá komnar til framkvæmda eins og undirbúningur að stofnum tónlistamiðstöðvar og sviðslistamiðstöðvar og 550 mánaða aukning í starfslaunasjóðinn  2021.

Þegar þetta er skrifað er ennþá hægt að sækja um tekjufallsstyrkinn og tæpleg 400 milljónir er búið að greiða út til lista og  menningar í gegnum þá, fjöldi annara starfsgreina hefur getað nýtt sér þetta úrræði sem varð til innan raða og í samtali listamanna og þeirra fagfélaga. Það var skoðun BÍL að alveg frá upphafi hefði verið einfaldast að greiða fyrst og reikna svo og stemma af, í stafrænu umhverfi er það einfalt að bíða með uppgjörið í einhvern  tíma.  Það var farið í ýmsar aðgerðir til fyrirtækja sem ekki voru innan fyrirfram gefina kerfa, svo það er sérstakt og umhugsunarefni hvers vegna listamennirnir þurftu að berjast svona fyrir lausnum á sínu umhverfi.

Við verðum að læra af þessu tímabili næstu ár og vinna úr þessu. Við vitum ekki í dag hvert raunverulegt tap menningargeirans er og hversu mikil dýfa þetta er bæði fyrir listamenn og allar þær greinar og sú starfsemi sem hafa viðurværi sitt af hugverkum listamanna. En í fljótu bragði er sú upphæð sem bætt var í í styrkja og sjóðakerfið til þess að spyrna við um það bil 1,5 milljarður. Sem er ekki svo mikil upphæð þegar tekið er tillit til þess að þetta er grunnurinn sem knýr atvinnuumhverfi sem telur tæplega 8% vinnumarkaðar

ÖNNUR STÖRF

Þrátt fyrir að COVID hafi yfirskyggt að mestu starf Bandalagsins og allra aðildarfélaganna eru önnur störf sem þurft hefur að sinna, en þau verða samt einhvernvegi öll lituð af þessu ástandi og varpað nýju og öðru ljósi á flest okkar baráttumál. Dæmi um það er baráttan um eflingu starfslaunanna. Í upphafi árs fór starfshópur af stað í samvinnu MRN til þess að forma hugmyndir BÍL um eflingu starfsalaunanna. Það lenti á ís lungað úr árinu en þegar rofa fór til eftir þriðju bylgju fór sú vinna af stað og var kynnt aðstoðarmanni ráðherra í desember. Næstu skref eru að hefja tæknilega útfærslu breytinga. En þær eru helstar að bæta við sjóðum nýliða og eldri listamanna sem hvor um sig hafi örlítið aðrar forsendur en starfslaunasjóðurinn, þetta er hugsað til þess að bæði auka aðgengi ungs fólks og koma í farveg einhverjum mannsæmandi og faglegri umgengni við listamenn á seinni hluta ferils síns. Auk þess að sjálfsögðu að hækka mánaðargreiðslur og fjölga mánuðum.

BÍL hefur skilað inn fjölda umsagna til Alþingis á árinu. Flestar hafa þær snúið að tímabundnum breytingum á lögum og viðspyrnu pökkum ríkisstjórnar, enda Alþingi helst verið upptekið við þau verkefni og önnur beðið. Undir venjulegum kringumstæðum rýnir BÍL aðskilið fjármálaáætlun og frumvarp til fjárlaga. Að þessu sinni voru þessi frumvörp samferða í gegnum þingið á haustmánuðum og  áherslur  BÍL voru að vanda starfsumhverfið í ljósi aðstæðna og áhyggjur BÍL af stöðu ýmissa stofnana listgreina sem þegar líða tók á árið voru komnar í verulega vonda stöðu margar hverjar. Þessar stofnanir eru líka starfsvettvangur stórs hóps listamanna úr öllum greinum, listamanna sem ekki eru á samningum en hafa hluta tekna sinna af verkefnum í þessum stofnunum og húsum.

MIÐSTÖÐVAR

Á síðasta ári voru samþykkt nú sviðslistalög og stofnun nýrrar sviðslistamiðstöðvar staðfest og er hún að taka til starfa. Á seinni hluta ársins skipaði ráðherra líka starfshópa um stofnun tveggja miðstöðva, tónlistar og myndlistar. Þetta verður vonandi gæfuspor í uppbyggingu greinanna og  færa samtalið og ákvarðanatökur í faglegri farveg og skýrari stöðu listgreinanna gagnvart samskiptum bæði sín á milli og sem faglegi hlekkur  gagnvart stjórnsýslunni. Með sterkri stöðu faglegar miðstöðva mun verða auðveldara að framfylgja stefnum greinanna, þar sem þær eru til. Og talandi um stefnu þá var samþykkt á árinu kvikmyndastefna  og verið er að hrinda henni í framkvæmd þessa dagana, samkvæmt yfirlýsingu ráðuneytis er hún full fjármögnuð og ýmsum þáttum hennar á að hrinda í framkvæmd á þessu ári s.s eins og sértökum sjónvarpssjóði innan kvikmyndamiðstöðvar, starfslaunasjóði kvikmyndagerðarmanna og kvikmyndagerð á háskólatigi.

RÁÐUNEYTI MENNINGARMÁLA

Eins og sjá má á þessari upptalningu eru töluvert mörg verkefni í ráðuneytinu sem varða breytingu á umhverfi lista og menningarmála. Þessar breytingar kalla á umfangsmikla endurskoðun laga, uppbyggingu í menntun, sýn í alþjóðlegu samstarfi og fl. Til þess að vel takist til með þessa uppbyggingu þarf að efla og styrkja ráðuneyti menningarmála og aðgreina það frá menntamálum.  Meðvitað eða ómeðvitað hreyfir starf þessa stóra hóps sem starfar við menningu og listsköpun við okkur í hverju skrefi okkar daglega lífs. Það er ekki til sá málaflokkur í nútímasamfélagi   sem listsköpun “klukkar” ekki með beinum eða óbeinum hætti. Listin er grundvallar verkfæri í mótun hugmyndaheimsins og á grunni auðugs hugmyndaheims vaxa tækifæri til fjölbreytts atvinnulífs, fyrir utan þá þræði sem listin vefur um samfélagið okkur til yndis og þroska. Listin er ein grunnstoða samfélagsins, hún er kjarni siðmenningar okkar og ef við viljum gera þetta vel og af fagmennsku þarf stjórnsýslan að eflast og fá sess í samræmi við mikilvægi málaflokksins.

MENNINGARSTEFNUR

Hafin var vinna við endurnýjun menningarstefnu ríkisins frá 2013 í lok árs 2018. Sú vinna hefur legið niðri frá þeim tíma, í það minnsta út á við gagnvart umhverfi menningarinnar. En í lok árs var boðaður samráðshópur til þess að ljúka þessari vinnu og átti hann að skila af sér í lok janúar,  en það fékkst framlengt um mánuð. Þó stefnunni væri ætlað að byggja á þeirri stefnu sem samþykkt var 2013 þá eru mörg veigamikil atriði sem þurfa nokkra rýni og hafa tekið breytingum á þessum tíma sem liðin er frá samþykkt síðustu stefnu, sjálfbærni, umhverfismál, stafræna umhverfið og sú staðreynd að Ísland er orðið fjölmenningarsamfélag og hlutfall fólks af erlendum uppruna er 22% þjóðarinnar og mikilvægt að hlutur þeirra og mikilvægi sé sýnilegt í menningarstefnu. Menningarstefnan kom inn í samráðsgátt þann 19. mars (í gær) og mikilvægt að öll samtök listamanna skoði stefnuna til hlítar og veiti henni umsögn.

Menningarstefna Reykjavíkurborgar er líka í endurnýjun en hún rann út um áramótin síðustu. Fulltrúi BÍL (forseti) situr í vinnuhóp borgarinnar um stefnuna og eru fyrstu drög að lita dagsins ljós þessa dagana, mjög breytt samráð hefur verið við menningarumhverfi borgarinnar við undirbúninginn.

ALÞJÓÐLEGI LISTDAGURINN – UNESCO

2019 lýsti UNESCO 25. apríl Alþjóðlegan listdag og  BÍL birti ávarp þann dag á síðasta ári og hyggst gera það áfram. Erindið á síðasta ári var samið af skáldinu Sjón og birt í fjölmiðlum og skáldið las það fyrir útvarp. UNESCO nefnd Íslands fór þess á leit við BÍL að gera greiningu á aðkomu listamanna að samningi UNESCO um menningarlega fjölbreytni. Sú greining leiddi í ljós að innleiðing og framkvæmd samningsins er ekki í þeim farvegi sem skyldi. Hafa BÍL og starfsmaður UNESCO í ráðuneyti menningarmála gert með sér samkomulag um að koma á málþingi fljótlega um stöðu samningsins og framkvæmd hans hér á landi.

ÞJÓÐARÓPERA

Í nýsamþykktum lögum um sviðslistir er ákvæði þar sem ráðherra er gert að  skapa grundvöll fyrir óperuflutning.  “Ráðherra skal skapa grundvöll fyrir óperuflutningi og stuðla þannig að því að glæða áhuga landsmanna á óperum. Í því skyni er ráðherra heimilt að styðja sérstaklega við óperustarfsemi og gera fyrir hönd ríkissjóðs tímabundinn samning við lögaðila um fjárstuðning.”

Í skipun nefndarinnar er kveðið á með skýrari hætti þar sem skipuð er nefnd um þjóðaróperu. Nefndin er búin að skila af sér áliti sem ekki hefur verið birt. BÍL og félögin sem  aðild eiga að þessari nefnd hafa ítrekað þá skoðun sína opinberlega að ekki sé forsvaranlegt að svo umfangsmikil starfsemi sem óperurekstur er sé ekki forsvaranlegur nema á sömu forsendum og sambærilegar menningarstofnanir sem heyra undir rekstur ríkisins s.s. Þjóðleikhús eða Sinfóníuhljómsveit Íslands. Menningarstofnanir sem komið hefur verið fyrir á forræði einkareksturs undanfarin ár eru engan vegin í stakk búnar til að axla þær  fjárhagslegu ábyrgðir sem sjálfsagt er að gera kröfu um. Í framhaldi má líka minna á þá sjálfsögðu kröfu BÍL að öll sú starfsemi sem  þiggur fé úr opinberum sjóðum skuli virða samninga við listamenn.

MÁL ÞÓRU EINARSDÓTTUR  GEGN ÍÓ

Þóra Einarsdóttir söngkona stefndi Íslensku óperunni vegna vanefnda á samningum vegna vinnu hennar við uppsetningu ÍÓ á Brúðkaupi Figarós. ÍÓ var sýknuð í héraðsdómi, héraðsdómur viðurkenndi ekki  gildandi samning stéttarfélags Þóru – FÍH. Héraðsdómur mat gildandi samning ekki eiga við þar sem um verktakasamning væri að ræða, jafnvel þó ítrekað væri vísað í  samninginn milli ÍO og FÍH. Búið er að vísa málinu til landsdóms og landsdómur hefur samþykkt að taka málið til meðferðar vegna fordæmisgildis. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla listamenn að fá skýra niðurstöðu í þetta mál því ef dómurinn stendur óhaggaður eru allir samningar listamanna í uppnámi. Þessi óvissa um samningsstöðu og form samninga listamanna verður líka að skoða í ljósi þeirrar reynslu sem við erum  búin að ganga í gegnum undanfarið.

Það er alveg ljóst verkefni samtaka listamanna á næstu árum verður að greiða úr þessum samningsformum, óvissu á réttindum og aðgengi að réttindum á vinnumarkaði.

Í upphafi árs vorum við á hugmyndafræðilegri stað, tilgangur og verkefni BÍL hafa alla tíð togast á  um kannski einmitt þessa þætti. Vægi þessara hlutverka í starfi BÍL, stéttabaráttan  annarsvegar og þess að  halda utan um stóru myndina hins vegar. Reynsla síðastliðins árs setur verkefni næstu missera í ljóst samhengi, okkar bíður  þetta verkefni að styrkja launa og kjaragrundvöll listamanna, öll stéttarfélög listamanna þurfa að sameina krafta sína í þessari baráttu.

LOKAORÐ

Þrátt fyrir allt er ástæða til að gleðjast yfir mörgu það hefur oft gefist  tilefni til að gleðjast yfir frammistöðu listamanna okkar á árinu, þrátt fyrir grafalvarlega stöðu hafa listamenn okkar sýnt ótrúlegt æðruleysi og leitað leiða og fundið störfum sínum farveg í breyttu og flóknu umhverfi og axlað hlutverk sitt af  fagmennsku og ábyrgð, því við berum ábyrgð mikla ábyrgð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna starf og trúnaðarstörf

Stjórn BÍL er skipuð formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Eftirtalin skipuðu stjórn BÍL í umboði síns félags á árinu 2020  og í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem sinntu trúnaðarstörfum fyrir Bandalagið á liðnu ári.

 

 

Karl Kvaran, formaður Arkitektafélags Íslands – AÍ

Katrín Gunnarsdóttir, formaður Danshöfundafélags Íslands – DFÍ

Varamaður: Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir

Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna –FÍH

Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara – FÍL

Irma Gunnarsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara – FÍLD

Varamaður: Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl

Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna – FÍT

Sigríður Rósa Bjarnadóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna – FK

Varamenn: Anna Þóra Steinþórsdóttir / Jóhannes Tryggvason

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félag leikskálda og handritshöfunda – FLH

Varamaður: Huldar Breiðfjörð

Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félag tónskálda og textahöfunda – FTT

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands – RSÍ

Varamaður: Vilborg Davíðsdóttir

Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna – SÍM

Varamaður: Starkaður Sigurðsson

Dagur Kári Pétursson, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra – SKL

Varamaður: Ása Helga Hjörleifsdóttir

Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður Tónskáldafélags Íslands – TÍ

Varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Félags leikstjóra á Íslandi – FLÍ

Rebekka Ingimundardóttir, formaður Félag leikmynda og búningahöfunda – FLB

 

Margrét Örnólfsdóttir hefur gengt starfi ritara stjórnar, Gunnar Hrafnsson hefur sinnt stöðu gjaldkera. Lúðvík Júlíusson hefur séð um bókhald Bandalagsins og endurskoðandi er Helga Þorsteinsdóttir. Skoðunarmenn reikninga 2019 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

 

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (janúar 2020)

 

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Rvk.

Áheyrnarfulltrúi: Erling Jóhannesson

Varamaður: Anna Eyjólfsdóttir

 

Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs fram að hausti 2020 og úthlutaði aukafjárveitingu menningarsjóðs Rvk. vegna COVID

 

Formaður: Pétur Grétarsson, tónlistarmaður

Varamaður: Helga Þórarinsdóttir, tónlistarmaður

Magnús Þór Þorbergsson, sviðslistamaður

Varamaður: María Ellingssen, leikari/leikstjóri

Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur

Varamaður: Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur

Sigtryggur Baldvinsson, myndlistarmaður

Varamaður: Ástríður Magnúsdóttir, myndlistarmaður

 

Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá hausti 2020

 

Samúel Jón Samúelsson, tónlistarmaður

Varamaður: Björg Brjánsdóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur

Varamaður:Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur

Freyja Eilíf Logadóttir, myndlistarmaður

Varamaður:Páll Haukur Björnsson

Gunnar Gunnsteinsson, leikari

Varamaður:Lovísa ósk Gunnarsdóttir, dansari

 

Kvikmyndaráð

Bergsteinn Björgúlfsson – 29.11.19–29.11.23

Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir

 

Fulltrúaráð Listahátíðar

Erling Jóhannesson

 

Stjórn listamannalauna

Hlynur Helgason

Varamaður: Hlín Gunnarsdóttir

 

Stjórn Skaftfells

Anna Eyjólfsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Fagráð Íslandsstofu

Erling Jóhannesson

 

List án landamæra   

Margrét Pétursdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Listráð Hörpu

Ásmundur Jónsson

 

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis

Páll Baldvin Baldvinsson – 09.10.17

Varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

 

Höfundarréttarráð

Erling Jóhannesson  – 01.08.18–01.08.22

                                   

 

Sérfræðinganefnd KKN

Signý Pálsdóttir            (verkefni)         jan. 2017–jan. 2020

Sigtryggur Magnason (ferðastyrkir)   jan. 2017–jan. 2020

 

Stjórn Barnamenningarsjóðs

Áslaug Jónsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Starfshópur um málverkafalsanir

Jón B. Kjartanss. Ransu ­ – okt. 2014

Varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir

                       

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Erling Jóhannesson

 

List fyrir alla – samráðshópur       

Hildur Steinþórsdóttir

Felix Bergsson

 

List fyrir alla – valnefnd     

Rebekka A. Ingimundardóttir

Samúel Jón Samúelsson

 

Austurbrú – fagráð menningar      

Hlín Pétursdóttur Behrens  – maí 2019.

 

Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar

Erling Jóhannesson

 

Nordisk kunstnerrad

Erling Jóhannesson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðalfundur BÍL 2020

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna  verður haldin í Listasafni Reykjavíkur laugardaginn 20. mars og hefst klukkan 14:00. Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum bandalagsins:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar
 4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2020
 5. Ársreikningar 2020
 6. Lagabreytingar
 7. Kosning forseta
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Starfsáætlun 2021
 10. Önnur mál

Ekki liggja fyrir fundinum neinar tillögur að lagbreytingu.

Aðalfund BÍL fer fram skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Viku fyrir aðalfund tilnefnir hvert aðildarfélag atkvæðisbæra fulltrúa til setu á aðalfundi.

Allir félagsmenn hafa seturétt á aðalfundi og er hvatt til þess að aðildarfélögin auglýsi og hvetji félagsmenn til að mæta.

Aðalfundarboð

Reykjavík 20.febrúar 2021

Fundarboð – Aðalfundar BÍL 2021

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2021, verður haldinn laugardaginn 20. mars Fundarstaður verður auglýstur síðar

Aðalfundur fer fram skv. lögum BÍL og eru þau aðgengileg á heimasíði Bandalagsins.

http://bil.is/um-bil/log-fyrir-bil

Minnt er á að  auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt . Hvert aðildarfélag  fer því með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins.  Tilkynning um fulltrúa á fundinn þarf að berast forseta viku fyrir fundinn, en rétt að árétta að allir félagsmenn aðildarfélaganna hafa rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt. Því er hvatt til þess að aðildarefélögin auglýsi fundinn á heimasíðum sínum.

Dagskrá fundarins, tilllaga stjórnar að lagabreytingum og starfsáætlun mun verða send út tveim vikum fyrir fund.

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra lsitamanna

 

Frestun aðalfundar

Samkvæmt lögum skal aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna haldinn fyrir lok febrúar ár hvert. Á stjórnarfundi BÍL þann 21. janúar var ákveðið, í ljósi aðstæðna, að fresta boðun aðalfundar þar til samkomutakmarkanir yrðu rýmkaðar.

Samkv. lögum bandalagsins þarf að boða aðalfund með minnst mánaðar fyrirvara og dagskrá send tveim vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Aðildarfélögum BÍL mun því berast fundarboð í tíma um leið og dagsetning liggur fyrir.

 

Yfirlýsing um stofnun þjóðaróperu

Í ljósi fréttaflutnings af málefnum Íslensku óperunnar og umræðum um kjaramál óperusöngvara og annarra listamanna sem þar starfa, vill stjórn Bandalags íslenskra listamanna koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld og fjölmiðla.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Slíkt verður einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019. Lagagrundvöllur þjóðaróperu þarf að vera sambærilegur þeim sem gildir um Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn, þar sem hlutverkið er skýrt og fagmennska tryggð.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna telur það löngu tímabært að koma óperustarfsemi á traustan kjöl opinbers rekstrar, enda ljóst að rekstrarform einkaréttarlegs eðlis hentar ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og hér um ræðir.

Stjórn BÍL er þess sannfærð að stofnun þjóðaróperu yrði mikið gæfuspor sem tryggt geti heilbrigt starfsumhverfi fyrir óperusöngvara og aðra listamenn sem koma að óperuflutningi á Íslandi.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

 

Könnun í samstarfi við BHM

Bandala íslenskra listamanna efnir til könunar í samstarfi við BHM til að kanna stöðu listamanna í úrræðum Vinnumálastofnunar. Margir innan okkar banda glíma við algjöran aflabrest og listamenn hafa reynt það í þessu ástandi hversu hefðbundin úrræði atvinnubótaréttar ná ekki til þeirra. Þessi könnun er til þess ger að reyna að ná utan um umfang þessa vanda. Hér er linkur á könnunina:

Link: https://outcomesurveys.com/surveys/c934151c-e8ff-4877-9fd1-7eb45b12c198/f6dfbc32-0eab-4220-a384-f3a8f7c46165

Könnunin verður opin fram að helgi og við biðjum alla að bregðast sem best við svo við fáum sem besta muynd af umfangi vandans.

Page 1 of 4112345...102030...Last »