Author Archives: vefstjóri BÍL

Markviss stjórnsýsla lista og menningar

Erling Jóhannesson og Kolbrún Halldórsdóttir: Forseti og fyrrverandi forseti Bandalags íslenskra listamanna birtu grein á Kjarnanum í aðdraganda kosninga 2021 um marksvissari stjórnsýslu lista og menningar.

Undir lok þessa kjörtímabils birti ríkisstjórnin nokkrar aðgerðir til eflingar og stuðnings menningu, listum og skapandi greinum. Bandalag íslenskra listamanna fagnar þeim, enda er um að ræða langþráðar ákvarðanir eins og að koma Listaháskóla Íslands undir eitt þak í eigin húsnæði, hefja nám í kvikmyndagerð á háskólastigi, gera átak í kynningu lista og skapandi greina á erlendum vettvangi og efla rannsóknarstarf í greinunum.

Margt gott en ýmislegt ógert

Ríkisstjórnin lagði að vísu upp með áform um ýmsar fleiri aðgerðir í upphafi ferðar og sumar af þeim hafa komist til framkvæmda að öllu eða einhverju leyti, eins og breyting á skattlagningu höfundagreiðslna, skráning hagvísa menningar og skapandi greina og aukinn stuðningur við bókaútgáfu, þó raunar hafi upphaflega verið áformað að afnema virðisaukaskatt af bókum.

Það er ástæða til að fagna ýmsu af því sem náðst hefur á stjórnartíma þessarar ríkisstjórnar og þessi sprettur undir lokin var ánægjulegur. Það standa þó ennþá út af nokkur mikilvæg verkefni sem ekki hefur tekist að koma í framkvæmd. Bandalag íslenskra listamanna harmar að ekki hafi tekist á stjórnartímanum að efla stjórnsýslu málaflokksins, að aðgerðaáætlun á grunni samþykktrar menningarstefnu hafi ekki verið birt og að efling launa- og verkefnasjóða listgreina sé ekki í höfn. Allt eru þetta atriði sem BÍL og aðildarfélög þess hafa lengi lagt hart að stjórnvöldum að framkvæma.

Heimsfaraldur í flóknu starfsumhverfi

Þetta hefur vissulega verið undarlegt kjörtímabil og flestum verkefnum verið stjórnað af dagskrárstjóra sem engin þekkti til í upphafi, Covid-19. Þetta ástand hefur verið listamönnum sérstaklega erfitt og snúið, ekki síst einyrkjum sem starfa í afar flóknu starfsumhverfi. BÍL átti í samtali við stjórnvöld um ýmis úrræði til þess að milda höggið af faraldrinum fyrir listamenn og þó einhver þeirra hafi nýst vel þá er vandi hins samsetta vinnuumhverfis í raun óleystur og bíður þeirra þingmanna, sem taka við stjórnartaumunum að loknum kosningum, að finna lausn á og færa til betri vegar. Bandalag íslenskra listamanna hefur undanfarið átt í samtali við forystufólk flokkana um málefni menningar og lista, með það að markmiði að mikilvægi málaflokksins verði viðurkennt í komandi stjórnarsáttmála og þar verði sett fram metnaðarfull markmið um að hann eflist enn frekar og dafni.

Menning og skapandi greinar í fimm ráðuneytum

Bandalag íslenskra listamanna hefur lengi haldið því fram að forsenda þess að efla málaflokkinn sé öflugri og skilvirkari stjórnsýsla og það verði best gert með stofnun sérstaks menningarmálaráðuneytis að norrænni fyrirmynd. Á undanförnum árum hefur stjórnsýslu menningar, lista og skapandi greina verið tvístrað þannig að nú skiptist hún milli fimm ólíkra ráðuneyta, sem hvert um sig hefur sjálfstæða sýn á hlutverk menningar og listsköpunar í störfum sínum og verkefnum. Þetta ráðslag veikir málaflokkinn og gerir hagsmunasamtökum eins og BÍL mjög erfitt að gæta fjölþættra hagsmuna listamanna í stjórnkerfinu. Þess vegna kalla listamenn eftir sjálfstætt starfandi ráðherra menningarmála, til að tryggja málaflokknum óhindraðan aðgang að ríkisstjórnarborðinu, sem hefur verið vandkvæðum bundið, þar sem umfangsmikil og flókin mál menntunar og skóla eru ævinlega tekin fram fyrir. Niðurstaðan er því oftast sú að HINN málaflokkur ráðherrans, þ.e. listir og menning verður útundan.

Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti

Bandalag íslenskra listamanna hefur ítrekað komið þessum sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld, allt frá árinu 2015. Ýmsir hafa tekið vel í málið, þó sumir hafi haldið því fram að sjálfstætt menningarmálaráðuneyti verði lítið og veikburða en aðrir hafa einfaldlega talið óráðlegt að fjölga ráðherrum um of. Þessar áhyggjur telur BÍL auðvelt að sefa og telur þær í raun með öllu óþarfar. Ef horft er til hinna Norðurlandanna þá eru menningarmálaráðuneytin öflugar stjórnsýslueiningar sem sinna margþættum, litríkum og mikilvægum málaflokkum menningar í löndum sínum. Hér verða ekki taldir upp einstakir málaflokkar sem norrænu menningarmálaráðuneytin sinna en fullyrt að menningarmálaráðuneyti Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur verði seint talin veikburða.

Sjálfstæð rödd við ríkisstjórnarborð

Bandalag íslenskra listamanna leggur til að stjórnmálaflokkarnir, sem nú bjóða fram krafta sína til að fara með framkvæmdavald okkar næstu fjögur árin, taki alvarlega til skoðunar að koma málefnum lista, menningar og skapandi greina fyrir í öflugu, sjálfstæðu menningarmálaráðuneyti. Sé mönnum alvara með þeim málflutningi að undirstaða framtíðarhagkerfa sé hugverkadrifið atvinnulíf sem byggi á auðlindum þekkingar og sköpunar þarf að tryggja menningu, listum og skapandi greinum stöðugleika og sjálfstæða rödd við ríkisstjórnarborðið. Við erum þess fullviss að slík ráðstöfun yrði mikið gæfuspor.

 

Listin að lifa — starfsumhverfi listamanna.

Laugardaginn 4. september mun Bandalag íslenskra listamanna standa fyrir málþingi í Iðnó, þar sem til umfjöllunar verður spurningin um listina að lifa — starfsumhverfi  listamanna.

Samkomubann vegna sóttvarna hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir listamenn og hefur svipt fjölda þeirra öllum möguleikum á að starfa og afla tekna.

Þetta algera hrun hefur afhjúpað hversu erfiðlega listamönnum gengur að nýta þau úrræði  sem eiga að grípa  fólk við slík áföll á vinnumarkaði. Ósveigjanlegar útlínur regluverksins ná illa utan um flókið og margbreytilegt starfsumhverfi listamanna og ólík ráðningarform.

Í kjölfar þessa ástands féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli söngvara gegn Íslensku óperunni  þann 18. janúar 2021 sem setur samningsstöðu listamanna í en frekari óvissu.

Á málþinginu veltum við fyrir okkur  sérstöðu þessa starfsumhverfis og ástæðum þess að einyrkjar í listgreinum ná ekki þeim réttindum sem viðurkennd eru á vinnumarkaði.

Er eitthvað sem einkennir þennan hóp eða aðgreinir? Er regluverkið ósveigjanlegt? Þurfa listamenn ef til vill að taka rækilega til í sínum rekstri? Frummælendur leitast við að varpa ljósi á hvar vandinn liggur og vonandi í framhaldinu hvar lausnin leynist.

Frummælendur á þinginu verða:

Erling Jóhannesson, Forseti Bandalags íslenskra listamanna – Vistkerfið, 

Jakob Tryggvason, Formaður félags tæknifólks  – Skýrari rammi = aukið frelsi

Helga Vala Helgadóttir, Formaður velferðarnefndar alþingis – Þegar tölvan segir nei

Gunnar Ingi Jóhannsson, Hæstaréttar lögmaður – Staða listamanna á vinnumarkaði. Eru störf þeirra “óhefðbundin”?

Fundarstjóri er,  Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og ritstjóri – Hver á að syngja í jarðarförinni þinni? 

Til ráðherranefndar um viðbrögð við fjórðu bylgju kórónuveirunnar

Til ráðherranefndar um viðbrögð við fjórðu bylgju kórónuveirunnar og
sjónarmið Bandalags íslenskra listamanna
.

Bandalag íslenskra listamanna vill þakka fyrir þetta samráð við umhverfi listar og menningar nú í upphafi vetrar, við endurteknar aðstæður sem skapast af völdum kórónaveirufaraldursins. Minnug þess að fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að áhlaupið myndi eingöngu vara í nokkar vikur og allar aðgerðir miðuðu að því að viðsnúningurinn yrði sem eðlilegastur handan kófsins, er tímabært að leggja niður hinn þekkta frasa „fordæmalausir tímar”, því átökin síðasta ár hafa fært okkur reynslu sem mikilvgt er að horfa til þegar glímt er við fjórðu bylgju faraldursins.

Reynslan hefur kennt okkur hversu mikilvægt það er listalífinu að geta opnað og sýnt og starfað, þó ekki hafi verið nema í takmarkaðan tíma hverju sinni. Það að reglulega hefur verið hægt að opna fyrir viðburði hefur gefið, bæði stofnunum og einstaka listamönnum og hópum, líflínu. Jafnvel þó spottin hafi stundum verið stuttur og fyrirsjáanleikinn lítill hefur þetta haldið von í menningarrekstri og mögulega hindrað algjört hrun innviða. Þetta eru vissulega aðeins vangaveltur, en samanborið við nágrannalönd okkar, sem mörg hver fóru þá leið að loka alveg fyrir menningarstarfsemi, má færa rök fyrir þessu. Víða þar sem menningarstarfsemi var stöðvuð, eins og t.d. í Svíþjóð, er nú hafin vinna við enduruppbyggingu innviða menningarinnar sem bókstaflega hrundu saman á einum starfsvetri. Meðfylgjandi er frétt af heimasíðu Sænska menningarráðuneytisins þessa efnis.

https://www.regeringen.se/pressmeddelanden/2020/12/regeringen-tillsatter-utredning-for-kulturens-aterstart/

Líklega eru aðrir en Bandalag íslenskra listamanna til þess hæfari að tjá sig um tæknilegar útfærslur á sóttvörnum, en listamenn geta ekki nógsamlega bent á hversu dýru verði það er keypt ef listviðburðir verða áfram háðir jafnþungum takmörkunum og verið hefur. Forstöðumenn stofnana menningarhúsa hafa bent á að líklega  sé óvíða jafn auðvelt að stýra umferð og skrá áhorfendur en á þeirra vettvangi og ef litið er til reynslu síðasta vetrar er sá málflutningur trúverðugur.

Það er aftur flóknara að ná utanum þá viðburði sem fara fram utan þessara húsa og eru bornir meira og minna uppi af sjálfstætt starfandi listamönnum eða minni viðburðaaðilum. Leita þarf leiða til að veita sem mest svigrúm svo sú starfsemi geti farið fram með skilyrðum, eins og t.a.m. skyndiprófum eða PCR-vottorðum, auk perónulegra sóttvarna, að sjálfsögðu. Þessi skilyrði, eins og skyndipróf, eru víða notuð í nágrannalöndum okkar til þess að viðburðir geti farið fram.

Framlenging fyrri aðgerða.

Aðrar aðgerðir sem gripið hefur verið til fram að þessu þarf að framlengja, s.s. hlutabótaleið og  því að viðhalda tekjutengingu atvinnuleysisbóta, því þrátt fyrir að þau úrræði hafi ekki gagnast öllum fengu um 30% þeirra listamanna sem urði fyrir verulegu tekjufalli og sóttu til VMST úrlausn sinna mála þar.

Tekjufallsstyrkirnir reyndust stórum hópi einyrkja og listamönnum afar vel og mikilvægt að áfram verði opið fyrir það úrræði, með nauðsynlegum lagfæringum þó, þ.e. að viðmiðunarár tekna verði áfram 2019 og að fyrri greiðslur komi ekki til lækkunar því sem fengist greitt 2021.

Þá er mikilvægt að tryggja úrræði fyrir rekstraraðila/listhópa, sem skráðir eru sem félög án hagnaðar, þ.e. eru ekki ehf., sfl. eða einyrkjar. Mörg félög í menningarrekstri hafa ekki getað nýtt sér tekjufallsstyrkina og eru því ennþá með skuldbindingar vegna starfsemi sinnar og sokkinn kostnað frá fyrstu bylgju.

Augljóst er að þau úrræði sem gripið var til á fyrri stigum faraldursins hentuðu illa einyrkjum/listamönnum sem búa við flókið rekstrarumhverfi og hafa tekjur af blandaðri starfsemi. Það er mat Bandalags íslenskra listamanna að skoða þurfi hvort eitthvað í löggjöfinni hindri það að fólk í þessu flókna starfsumhverfi njóti almennra og sjálfsagðra réttinda vinnumarkaðarins. Sé svo þarf atbeina stjórnvalda til að breyta lögum.

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

Skýrsla stjórnar FLÍ, starfsárið 2020 – 2021

Skýrsla stjórnar starfsárið 2020 – 2021

Í stjórn FLÍ á starfsárinu sátu Kolbrún Halldórsdóttir formaður, Ástbjörg Rut Jónsdóttir gjaldkeri og Tryggvi Gunnarsson ritari. Varamenn í stjórn voru Andrea Elín Vilhjálmsdóttir, Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir og Harpa Arnardóttir.

Aðalfundur var haldinn óvenju seint á árinu vegna samkomutakmarkana. Hann átti upphaflega að fara fram í maí en var frestað til 22. júní 2020.

Fyrsti fundur eiginlegs starfsárs sitjandi stjórnar var því ekki haldinn fyrr en 27. ágúst en um fjarfund að ræða. Þetta nýja fundarfyrirkomulag reyndist vera nýja normið hjá stjórn, eins og svo mörgum öðrum.  Stjórnin hittist sjö sinnum á starfsárinu og voru flestir fundir fjarfundir, einnig afgreiddi stjórn ýmis mál í tölvupóstum milli funda. Fundargerðir stjórnarfunda eru vistaðar í stafrænni skjalageymslu félagsins, auk þess sem þær eru aðgengilegar félagsmönnum á aðalfundi félagsins.

Nýir félagsmenn

Eftirtaldir aðilar sóttu um aðild að félaginu á starfsárinu og samþykkti stjórn allar umsóknir: Ágústa Skúladóttir, Adolf Smári Unnarsson, Kristín Eysteinsdóttir, Arnbjörg María Danielsen, Ragnar Bragason og Pétur Ármannsson. Stjórn vill nota tækifærið og bjóða þessa nýju félaga velkomna í félagið.

Innheimta félagsgjalda

Síðasti aðalfundur samþykkti tillögu um að hækka árlegt félagsgjald úr 25 þúsund krónum í 27 þúsund krónur fyrir starfsárið 2021-2022. Ljóst er að fjárhagsstaða félagsmanna hefur eðli málsins samkvæmt versnað á árinu sökum samkomutakmarkana og þess að sviðslistir hafa þurft að lúta ströngum sóttvarnarreglum og hafa á tímabilum verið beinlínis bannaðar. Þrátt fyrir það hafa heimtur félagsgjalda sjaldan verið betri. Stjórn hefur leyft sér að draga þá ályktun að mótlætið kunni að hafa eflt stéttarvitund leikstjóra, enda fjölgar erindum sem berast stjórn og varða réttindamál einstakra leikstjóra, ekki síst álitamálum varðandi réttindi félaga FLÍ í sjóðum BHM, t.d. sjúkrasjóði og starfsmenntunarsjóði.

Samningamál

Í samninganefnd fyrir hönd félagsins sátu Páll Baldvin Baldvinsson, Kolfinna Nikulásdóttir og Ástbjörg Rut Jónsdóttir. Stærstu mál samninganefndar á starfsárinu vour þau að haustið 2020 var gengið var frá nýjum stofnanasamningi við Þjóðleikhúsið sem undirritaður var 4. september 2020, auk þess sem leitað var leiða til að draga RÚV að samningaborðinu. Þungt hefur verið undir  fæti í þeim umleitunum, en á síðustu vikum hafa mál verið að þokast í átt að formlegum samningaviðræðum. Stærstu álitaefnin í þeim viðræðum verða tengd greiðslum leikstjóra fyrir leikið efni í sjónvarpi, ásamt störfum leikstjóra fyrir útvarpsleikhúsið, sem virðist nú ekki með miklu lífsmarki sem stendur, og endurflutningi eldra efnis.

Á árinu hafa formenn sjö fagfélaga listamanna, sem hafa samninga við RÚV, aukið samstarf sín í milli með það að markmiði að binda endi á samningsbrot af hálfu RÚV, sem virðast hafa viðgengist árum saman og snerta listamenn úr öllum félögunum meira eða minna. RÚV hefur gripið til varna, en þó benda síðustu vendingar til þess að forsvarsmenn stofnunarinnar séu tilbúnari en áður að viðurkenna bortin og bæta fyrir þau. Félögin sem um ræðir eru FLÍ, FÍL, FÍH, FLH, FLB, RSÍ og TÍ. Á fundi sem haldinn var í ágúst 2020 með útvarpsstjóra og framkvæmdastjórum RÚV voru gefin fyrirheit um að öll félögin yrðu komin með endurnýjaða samninga um mitt ár 2021. Ekki er líklegt að það gangi eftir, enda mörg flókin mál sem þarf að leysa úr, t.d. mál tengd misnotkun RÚV á höfundaréttarvörðu efni, réttindum til endurflutnings og notkun RÚV á efni úr svokallaðri „gullkistu“.

IHM – Innheimtumiðstöð gjalda

Sagan endalausa, um hvernig skipta eigi því fjármagni, sem kemur til félaga höfunda, flytjenda og framleiðenda í gegnum IHM, hélt áfram á starfsárinu. Deilt hefur verið um hvort kannanir, sem gerðar hafa verið og byggja á norsku módeli um sambærilega skiptingu fjármuna vegna eintakagerðar til einkanota, gefi yfirhöfuð það góða mynd að raunverulegri eintakagerð, að þær séu tækar til að nota sem andlag skiptingarinnar. Samkvæmt þeim könnunum, og heimfærslu norska módelsins upp á okkar aðstæður, átti  hlutur FLÍ af heildinni að lækka úr 2,5%  í 0,28%. Stjórn FLÍ mótmælti og gerði alvarlega fyrirvara við aðferðafræðina og þessa niðurstöðu. Einnig hefur fulltrúi FLÍ í trúnaðarráði IHM mótmælt kröfu framleiðenda- og flytjendafélaga um þriðjungaskiptingu og hefur í því efni átt samleið með öðrum rétthafasamtökum sem standa vörð um hagsmuni höfunda.

Kaflaskil urðu í framvindu IHM-mála, þegar samþykkt var að skipa sáttamann, sem falið var að leggja fram miðlunartillögu skv. reglum IHM. Skipaður var hæstaréttardómari til starfans, Viðar Már Matthíasson, og skilaði stjórn FLÍ kröfugerð til hans sem fól í sér að hlutur FLÍ af heildinni yrði hækkaður úr 2,5% í 3%. Það var m.a. rökstutt með því að nýjar verktegundir hafi komið til sögunnar á seinni árum (frá því síðasti gerðardómur var upp kveðinn 1999) sem félagsmenn FLÍ eigi hlutdeild í og að ekki sé lengur til staðar það starfsöryggi, sem í síðasta gerðardómi að skiptingu, var talið nægja til að lækka hlut félagsmanna FLÍ m.v. eldri gerðardóm (frá 1993) úr 4% í 2,5%.

Í lok mars sl. skilaði sáttamaður svo tillögu sinni að skiptingu, sem fól í sér að hlutur FLÍ yrði hækkaður í 3%.  Það var ánægjuefni fyrir okkur, en málið er þó ekki í höfn, því enn á eftir að fjalla endanlega um tillögu sáttamanns í trúnaðarmannaráðinu og er viðbúið að henni verði mótmælt. Ef ekki næst sátt eða sameiginleg niðurstaða í málið á vettvangi trúnaðarmannaráðs, er viðbúið að málið endi fyrir gerðardómi, sem er endanlegt úrræði skv. reglum IHM, en er bæði þungt í vöfum og kostnaðarsamt. Það má því spyrja hvort fjármunum, sem stjórnvöld greiða til rétthafasamtakanna í formi bóta til eiginlegra rétthafa, sé vel varið með því að greiða himinháar upphæðir til hæstaréttardómara, sem kallaðir yrðu saman til að skipa gerðardóminn. Málið verður að líkindum afgreitt á fundi trúnaðarmannaráðs á næstunni.

Lokið var við að deila út bótum til leikstjóra fyrir árið 2019 en gríðarmikil vinna fór í að endurskoða útdeilikerfi okkar. Ýmis álitamál komu upp og ber þar helst að nefna hvort hægt sé að útdeila þessum peningum á fyrirtæki einstaklinga eða félagasamtök, í stað einstaklinganna sjálfra. Þetta á sér í lagi við verk þar sem unnið var með flatan strúktúr og leikstjórn er í höndum margra einstaklinga. Niðurstaðan var sú að gerð var undantekning í ár og greitt til fyrirtækja/félagasamtaka, hafi þess verið sérstaklega óskað, en líklegt er að það fyrirkomulag þurfi að endurskoða svo fylgt sé ítrustu fyrirmælum um það að greiðslurnar eigi að skila sér til einstakra rétthafa með beinum hætti. Stjórn mun huga sérstaklega að þessu atriði í framtíðinni.

Þó mikil vinna hafi farið í að leita upp alla þá sem með réttu áttu kröfu í greiðslu úr þeim potti sem kom í hlut FLÍ að úthluta, þá var einkar ánægjulegt að ná sambandi við leikstjóra sem ekki höfðu formlega lýst kröfu í kjölfar auglýsingar þar um og þó mikið þyrfti að hafa fyrir að koma peningum til sumra, þá tókst þetta allt vel að lokum.

 BHM

FLÍ hefur notið góðs af samstarfinu við BHM á starfsárinu, ekki síst hvað varðar verkefni það sem mælt er fyrir um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um skráningu menningartölfræði, en til að ýta því verkefni áfram hefur hagfræðingur BHM, verið dyggur stuðningsmaður listamannafélaganna undir regnhlíf BHM. Þann stuðning má að miklu leyti skýra með aðkomu BHM að sameiginlegri framvarðasveit listageirans í tengslum við ráðstafanir stjórnvalda í Covid-ástandinu og aukinni áherslu formanna félaga listamanna á samstarfið við heildarstamtökin.

 Lengi hefur verið knúð á um breytingar á fyrirkomulagi innheimtu aðildagjalda BHM. Þau félög, sem hafa farið í broddi fylkingar, eru fjölmennari félögin og hafa listamannafélögin (og önnur fámenn félög innan BHM) verið á varðbergi gagnvart þeim hugmyndum, enda hefur hugmyndafræði jöfnuðar ekki verið í forgrunni í þeim tillögum sem til skoðunar hafa verið. Eftir talsverð átök um tillögu starfshóps BHM um breytt fyrirkomulag aðildargjalda samþykkti meirihluti aðildarfélaga á aukaaðalfundi BHM í nóvember að fella niður árlegt fastagjald aðildarfélaga (150.000.-) og taka upp persónugjald í staðinn (11.500.- á haus m.v. 2021) og lækka á móti hlutfallið sem fer af launum félaga til BHM úr 0,17% í 0,034%. Með þessum breytingum lækkar heildargreiðsla FLÍ til BHM á ársgrundvelli, en þó þarf að athuga að persónugjaldið hækkar milli ára og tekur mið af verðlagsþróun. Breytingarnar koma því ekki illa við FLÍ fjárhagslega, en prinsippið í útreikningunum er stjórn ekki að skapi, þar sem aðferðafærðin byggir á afli fjölmennari félaga, sem telja ekki sanngjarnt að þau greiði niður hluta þjónustunnar sem önnur félög nýta sér. Mögulega er þetta ósanngjörn framsetning, en engu að síður þá er þetta ein leið til að líta á málin og varð til þess að listamannafélögin sátu hjá við atkvæðagreiðslu um málið á vettvangi BHM. Í framtíðinni er mikilvægt að þau fimm félög listamanna og hönnuða, sem eiga aðilda að BHM, skoði hvort borgi sig að fjárfesta í sameiginlegum starfsmanni í höfuðstöðvum BHM Í Borgartúni, með það að markmiði að hagsmuna einstakra félaga verði þannig betur gætt en með því fyrirkomulagi sem nú ríkir.

Frá og með september 2020 hafa leikstjórar, sem starfa á samningum FLÍ hjá Þjóðleikhúsinu, fengið 0,7% af heildarlaunum greitt inn í Starfsþróunarsetur BHM, en það veitir félögum fjölþætt tækifæri til endurmenntunarstyrkja. Hins vegar uppgötvaðist á árinu að í síðustu gerð samkomulagsins sem liggur til grundvallar launaútreikningi leikstjóra hjá Þjóðleikhúsinu, höfðu orðið þau mistök að starfsmenntunar-sjóður BHM er ekki inni sem einn af þeim sjóðum sem atvinnurekanda ber að greiða í af launum leikstjóra. Þetta stafar af því að á tímabili síðasta samkomulags hafði orðið breyting á sjóðakerfi BHM sem ekki skilaði sér með réttum hætti inn í nýjasta samkomulagið. Stjórn og samninganefnd eru sér meðvitaðar um mikilvægi þess að þetta verði lagað, en óvíst er að það gangi fyrr en að gildistíma samkomulagsins loknum, þ.e. 31. mars 2023.

Covid-ráðstafanir stjórnvalda

Mikið af störfum formanns á liðnu starfsári fóru í að gæta hagsmuna leikstjóra, og sviðslistamanna almennt, þegar kom að ráðstöfunum stjórnvalda vegna Covid-faraldursins. Gríðarleg vinna fór í að sníða úrræði sem hentað gætu listafólki og reyndist það þrautin þyngri. Þó náðist ýmislegt fram, og með harðfylgi forseta BÍL og samstarfi þvert á listgreinarnar, tókst að ná fram aukaúthlutun úr launasjóðum listmanna 2020 að upph. kr. 550 millj. og einnig að fjölga úthlutuðum mánuðum 2021, úr 1600 í 2150. Því miður tókst ekki að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi þess að þetta fyrirkomulag yrði varanlegt, en þó ber að fagna niðurstöðunni hvað varðar 2021, en þá verður úthlutað úr sjóðunum sem hér segir:

 1. Starfslaun og styrkir hönnuða árið 2021 skulu svara til 75 mánaðarlauna.
  b.      Starfslaun og styrkir myndlistarmanna árið 2021 skulu svara til 526 mánaðarlauna.
  c.      Starfslaun og styrkir rithöfunda árið 2021 skulu svara til 646 mánaðarlauna.
  d.      Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2021 skulu svara til 307 mánaðarlauna.
  e.      Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2021 skulu svara til 315 mánaðarlauna.
  f.      Starfslaun og styrkir tónskálda árið 2021 skulu svara til 281 mánaðarlauna.

Hart var barist fyrir því að stjórnvöld bættu listafólki upp tekjutap ársins, með einhvers konar sérsniðnu úrræði. Það gekk ekki en á endanum náðist þó sá árangur að sjálfstætt starfandi og einyrkjar í blandaðri starfsemi áttu að geta sótt um atvinnuleysisbætur. Það gekk þó ekki eins vel og vonast hafði verið eftir þegar allt kom til alls, en gagnaðist einhverjum. Svo, þegar tekjufallsstyrkirnir voru kynntir, þá áttu þeir líka að ná til sjálfstætt starfandi og smæstu fyrirtækja, t.d. einkahlutafélaga og samlagsfélaga. Það sem gekk þó verst og er í raun ekki leyst enn, eru vandkvæðin við að laga stöðu leikhópanna og sjálfstæðra sviðlistahúsa, sem eru rekin sem menningarfélög. Fjölgun mánaða í launasjóðunum gagnaðist sviðslistafólki og tónlistarfólki ekki nógu vel, þar sem samkomubann kom í veg fyrir að hægt væri að bjóða áhorfendum á leiksýningar eða tónleika. Þó verður að segja að allir verkefnasjóðirnir hafa verið sveigjanlegir varðandi nýtingu þeirra styrkja sem hafa verið veittir, svo fjármunirnir munu gagnast þó það verði eitthvað síðar en upphaflega hafði verið ráð fyrir gert.

Ljóst er að listgreinarnar tóku á sig mikið högg í heimsfaraldrinum, sér í lagi sviðslistirnar, og virðist sem nýjustu upplýsingar Hagstofunnar leiði í ljós að höggið á menningargeirann hafi verið fimm sinnum þyngra en á aðra geira samfélagsins.

Samstarf fagfélaga listafólks og SAFAS

Í þessu erfiða ári hefur reynt á samstöðu fagfélaga listafólks og það verður að segjast að í þeim efnum hefur margt lukkast ljómandi vel, til viðbótar við það sem að ofan er talið. T.d. hafa sjö fagfélög staðið að sameiginlegu samtali við RÚV um réttindi listafólks, sem vinnur hjá stofnuninni, en öll hafa þessi félög verið með lausa samninga við RÚV um lengri eða skemmri tíma. Einnig hafa félögin staðið saman í deilum um framgöngu Íslensku óperunnar í kjaramálum listamanna hjá ÍÓ og staðið sameiginlega í því að knýja á um stofnun þjóðaróperu. Loks má geta um samstarfsvettvang fagfélaga sviðslistafólks undir hatti Sviðslistasambands Íslands- SAFAS, en hann var stofnaður í maí 2020, í samræmi við ný sviðslistalög, sem kveða á um að fagfélög sviðslistafólks undir hatti SSÍ – Sviðslistasambands Íslands, skuli tilnefna fulltrúa í sviðslistaráð, þjóðleikhúsráð og listdansráð. Á árinu hefur SAFAS því tilnefnt fulltrúa í þessi ráð og í úthlutunarnefnd launasjóðs sviðslistafólks. Talsmaður SAFAS er Kolbrún Halldórsdóttir formaður Félags leikstjóra á Íslandi.

Framundan eru kosningar til Alþingis og stefnir stjórn BÍL á að gangast fyrir sameiginlegu samtali fagfélaga listafólks við stjórnmálamenn um málefni menningar og lista. Eitt er víst að nauðsynlegt er að listafólk láti vel í sér heyra í aðdraganda kosninga ef ná á að styrkja starfsumhverfi listafólks svo einhverju nemi.

Menningarsjóður og félagssjóður

Menningarsjóður FLÍ hefur legið í dvala á starfsárinu, þar sem lítið hefur verið um námskeiðahald og utanlandsferðir leikstjóra, en framundan er vor-úthlutun 2021 þar sem engu var úthlutað 2020 verður hún ríflegri en síðustu úthlutanir. Þá hefur stjórn menningarsjóðsins verið að skoða reglur sjóðsins með tilliti til nauðsynlegra breytinga, sem kynntar verða á aðalfundi 2021. Loks má geta þess að stjórn hefur ákveðið að tryggja stöðu sjóðsins betur til frambúðar, með því að greina hann betur frá félagssjóði FLÍ og tryggja þannig að hann þjóni hlutverki sínu, en sé ekki notaður til að reka félagið. Til að það gangi eftir er þarf stjórn að kanna alla möguleika til að efla félagssjóðinn, sem ætlað er að standa undir rekstri skrifstofu félagsins.

FLÍ hefur áfram aðsetur á Lindargötu 6 í FÍL húsinu og hefur framleigt leikhópnum Sóma þjóðar aðstöðu þar og mun gera áfram út árið 2021. Það fyrirkomulag er þó til skoðunar, en ekki þótti ráðlegt að breyta fyrirkomulaginu í ár í ljósi yfirstandandi samkomutakmarkana og góðs samstafs við Sóma þjóðar.

Fjárhagsstaða

Staða fjármála félagsins er svipuð og verið hefur síðustu ár, þ.e. gengið hefur verið á eigið fé félagsins til að halda rekstrarniðurstöðu réttu megin við núllið. Endurskoðendur hvetja stjórn, nú sem fyrr, til að leita leiða til að styrkja fjárhagsgrunninn, með það að markmiði að ekki þurfi að ganga á eigið fé. Á síðustu árum hefur orðir hægfara viðsnúningur í rétta átt, en betur má ef duga skal. Jákvæðu fréttirnar eru þær að félagsgjöld innheimtast betur en áður og greiðslur í menningarsjóð hafa líka vaxið. Þegar þetta er ritað hefur ekki verið gengið endanlega frá ársreikningum og því ekki hægt að rita kafla um fjárhagsstöðu félagsins með réttu talnaefni, en það verður kynnt á aðalfundinum framundan .

Hljóðvarp Þjóðleikhússins o.fl.

Leitað var til stjórnar FLÍ þegar Þjóðleikhúsið ákvað að nýta starfskrafta hússins með óhefðbundnum hætti í Covid-faraldri og hljóðrita nokkur útvarpsleikrit sem aðgengileg yrðu á vef hússins. Stjórn FLÍ og samninganefnd samþykktu að ekki þyrfti að koma til sérstök greiðsla til félagsmanna vegna verkefnisins, bæði í ljósi aðstæðna og þar sem um var að ræða leikstjóra sem þegar voru á launum hjá húsinu en án verkefna, með einni undantekningu þó, en í því tilfelli var gerður sjálfstæður samningur um verkið. Samið var um að útvarpsleikrit þessi verði aðgengileg á vefnum út leikárið en verði áframhald á starfsemi af þessu tagi þarf að setjast niður og endurskoða málið, m.t.t. samninga við leikstjóra.

Bæði stóru leikhúsin þurftu að sýna mikinn sveigjanleika og hugmyndaauðgi í Covid-faraldrinum þegar endalaust var verið að breyta reglum um nándarmörk og fjöldatakmarkanir. Smærri sýningarrými fóru verr út úr faraldrinum en húsin sem eiga sterka fjárhagslega bakhjalla á borð við ríki og borg, en þó er ekki séð fyrir endann á afleiðingunum þar sem ekki er að fullu ljóst hvernig stjórnvöld munu koma til móts við tekjumissi og breyttar rekstrarforsendur á árinu 2021. Þá eru áhrifin á listamenn húsanna ekki að fullu komin fram heldur, margir urðu af störfum á þessu tímabili auk þess sem mörgum verkefnum hefur verið frestað til næsta leikárs. Það er því viðbúið að áhrifa faraldursins gæti enn um sinn, a.m.k. til loka þessa árs, auk þess sem óvissa ríkir um vilja fólks til að sækja leiksýningar og tónleika þegar allt opnast á ný. Sviðslistastofnanir, tónlistarhús, tónleikastaðir og sýningarými leikhópanna, eiga því eftir að glíma við erfiðar aðstæður enn um sinn ef að líkum lætur.

Sviðslistamiðstöð og þjóðarópera

Tvö mál, sem tekið hafa til sín orku og tíma á árinu, sviðslistamiðstöð og þjóðarópera, tengjast breyttum lögum um sviðslistir sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2019 og tóku gildi 1. júlí 2020. Samkvæmt þeim ber ráðherra að setja á laggirnar kynningarmiðstöð sviðslista til að kynna íslenskar sviðslistir bæði innan lands og utan, auk þess sem lögin gera ráð fyrir að stofnuð verði nefnd um þjóðaróperu, sem skili af sér tillögum eigi síðar en í árslok 2020. Sú nefnd var stofnuð og átti FLÍ einn fulltrúa í nefndinni, Arnbjörgu Maríu Danielsen, auk þess sem fyrrv. formaður stjórnar FLÍ, Páll Baldvin Baldvinsson, var fenginn til að leiða nefndina, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin var skipuð einhverjum vikum seinna en lögin gerðu ráð fyrir og skilaði því tillögum sínum þegar fáeinar vikur voru liðnar af árinu 2021, en ráðherra hefur hvorki birt tillögur nefndarinnar né óskað eftir samtali við fagfélög sviðslista- eða tónlistarfólks um þær, sem er undarlegt þar sem forysta félaganna þrýsti mjög á um þessa vinnu. Að baki þeim þrýstingi lá sú staðreynd að samningur ríkisins við sjálfseignarstofnunina Íslensku óperuna rann út í árslok 2019 auk þess sem ásakanir fjölda söngvara um samningsbrot ÍÓ og málaferli því tengd höfðu sitt að segja. Það sem vitað er um vinnu nefndarinnar er að niðurstaðan var ekki einróma og að einhver áhöld voru uppi um fjölda fulltrúa þegar kom að verklokum, en hluti af skilagrein nefndarinnar var tillaga að frumvarpi um þjóðaróperu, sem fagfélögin í geiranum hafa kallað eftir að verði birt í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem hægt væri að senda inn umsagnir og búa í haginn fyrir frumvarpi sem lagt yrði fram á Alþingi í haust. Ráðuneytið hefur ekki brugðist við þeirri ósk.

Stofnunar sviðslistamiðstöðvar hefur verið beðið í á annan áratug, það var því fagnaðarefni að ákvæði um atbeina stjórnvalda í því máli, skyldi ná inn í nýju sviðslistalögin. Það hefur hins vegar tekið tíma að þoka málinu áfram í ráðuneyti mennta- og menningarmála, en hita og þunga af því starfi hefur stjórn Sviðslistasambands Íslands borið, en FLÍ er einn stofnaðila miðstöðvarinnar. Málið er þar statt núna að búið er að ganga frá samþykktum fyrir miðstöðina og búið að fá staðfestingu sýslumanns á þeim. Fagfélögin hafa tilnefnt fulltrúa í stjórn miðstöðvarinnar og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir fjármunum til að reka hana. Það eina sem vantar upp á er að ráðuneytið skipi sína fulltrúa í stjórnina.

 NSIR og norrænt menningarsamstarf

Norrænt samstarf félaga leikstjóra hefur legið niðri í Covid-faraldrinum, samstarfsvettvangurinn hefur ekki komið saman, þó auðvitað hefði verið hægt að halda rafrænan fund, en það hefur ekki verið stemning fyrir því og fólk frekar viljað bíða eftir að samkomutakmörkunum yrði aflétt. Nú er hins vegar stefnt að rafrænum fundi í júní, þar sem ljóst má telja að enn verði bið á því að hægt  verði að funda í raunheimum.

Þrátt fyrir kröftugar mótbárur stendur menningargeirinn á Norðurlöndunum frammi fyrir miklum niðurskurði til norræns menningarsamstarfs, en í byrjun síðasta árs var tilkynnt um áform Norrænu ráðherranefndarinnar um að flytja fjármuni úr verkefnum tengdum listum og menningu til verkefna á vettvangi umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Þetta kom einkar illa niður á norrænu residensíunni Circolo Scandinavo í Róm, sem hafði fengið loforð um styrkari fjárhagsgrunn, en þau loforð voru tekin til baka með stefnubreytingu norrænna stjórnvalda. Formaður FLÍ, sem jafnframt gegnir formennsku í stjórn Circolo Scandinavo, átti á árinu í samskiptum við innlenda ráðherra, bæði ráðherra norrænnar samvinnu og ráðherra menningarmála, til að reyna að fá áformum um niðurskurðinn breytt, án árangurs. Hins vegar hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið veitt formanni FLÍ styrk til að geta sinnt starfi fyrir residensíuna með sómasamlegum hætti, fyrir það ber að þakka. Meðal þess sem starfið fól í sér á síðasta ári var að ráða nýjan forstöðumann, þar sem Ingólfur Níels Árnason, fyrrum formaður FLÍ, sem gegnt hefur starfinu sl. átta ár, lætur nú af störfum. Nýr forstöðumaður hefur verið ráðinn, Marie Kraft, sænskur arkitekt og leikmyndahönnuður.

Nýjustu fréttir af baráttu gegn niðurskurði til norrænnar menningarsamvinnu eru þær að Nordisk Kunstnerråd hefur nú ritað bréf til menningarmálaráðherra Norðurlandanna, sem tekið verður fyrir á fundi þeirra 4. maí nk., þar sem niðurskurðinum er harðlega mótmælt og þess óskað að fjárveitingum verði snúið til fyrra horfs.

 Hagvísar menningar

Stjórnvöld hafa markað þá stefnu að ráðist skuli í gerð hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar, því má finna stað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2017. Verkefnið var falið Hagstofu Íslands, en það fór hægt af stað og hefur eiginlega lullað í hægagangi frá byrjun. BHM hefur þó lagt fagfélögum listamanna lið við að halda Hagstofunni við efnið, þannig rituðu forseti BHM og hagfræðingur BHM bréf til hagstofustjóra í upphafi árs 2021, þar sem óskað var svara við ítarlegum spurningum um verkefnið. Svör bárust í byrjun febrúar og í kjölfarið var haldinn fundur um málið, þar sem línur skýrðust nokkuð, en ljóst er að verkefnið kann að lognast út af ef félög listamanna og miðstöðvar lista og hönnunar eru ekki vakandi fyrir því að þrýsta á um framkvæmdir.

Hvað almenna félagsmenn áhrærir og þátt okkar í að bæta tölfræðina, þá er mikilvægt að hver og einn fylgist með skráningu sinni í atvinnugreinaflokka hjá skattinum, því ein af kröfunum sem gerðar eru til Hagstofunnar eru að gefin verði raunsönn mynd af fjölda þeirra sem starfa í listum og menningu, en til þess að tölurnar gefi rétta mynd er mikilvægt að hver og einn fylgist með sinn eigin skráningu í kerfi skattsins, því þaðan koma upplýsingar Hagstofunnar.

Menningarstefna

Stjórn hefur fylgst með vinnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins við gerð nýrrar menningarstefnu, sem ráðherra vildi að ráðist yrði í á þessum síðasta vetri kjörtímabilsins. Í því skyni var stofnaður fjölmennur starfshópur, sem fékk það verkefni að vinna drög að slíkri stefnu, en einhverra hluta vegna var ekki beðið eftir því að hópurinn lyki störfum heldur voru kynnt drög að stefnu, sem samin hafði verið í ráðuneytinu og hún sett í samráðsgátt stjórnvalda. Stjórn FLÍ sendi inn umsögn um drögin og taldi að byrjað hafi verið á vitlausum enda í málinu, enda liggur ekki fyrir með hvaða hætti menningarstefnan sem Alþingi samþykkti 2013 hefur verið innleidd, raunar var aldrei gerð heildstæð aðgerðaáætlun á grundvelli hennar, heldur einungis mörkuð áætlun um menningu barna og ungmenna, en jafnvel sú áætlun hefur ekki enn verið innleidd nema að litlu leyti. Það er því mat stjórnar FLÍ að aðferðafræði ráðuneytisins í þessu máli hafi verið stórlega ábótavant. Raunar voru flestar umsagnir um drögin þess eðlis að líklegt er að málið verði sett á ís, a.m.k. þar til eftir kosningar, en stjórnir fagfélaga listafólks munu þurfa að fylgjast með málinu áfram. Umsagnir málsins eru aðgengilegar í samráðsgátt stjórnvalda.


Lokaorð

Störf stjórnar hafa um margt litast af ástandinu sem Covid-faraldurinn hefur skapað í samfélaginu, fundir hafa verið haldnir á netinu og ekki mörg tækifæri gefist til að hitta félagana til skrafs og ráðagerða. Stjórn hefur þó eftir fremsta megni reynt að hafa augun á starfsáætlun 2020 – 2021. Eitt af verkefnum starfsáætlunar var að koma saman drögum að starfsreglum stjórnar og á aðalfundi 2021 er kynntur afrakstur af þeirri vinnu. Vinnan við endurnýjun heimasíðunnar hefur hins vegar ekki gengið eftir og ekki heldur verkefni um lifandi samtal við leikstjóra eða starfskjör hjá sjálfstæðu leikhúsunum, svo líklegt er að tekið verði til við þá þætti á því starfsári sem nú fer í hönd. Það sama má segja um ákvæði starfsáætlunar um að stjórn haldi skrá yfir verkefni félagsmanna hjá samningsaðilum FLÍ, það verkefni er á byrjunarstigi, mikið til í ljósi þess hversu verkefnaskrá leikhúsanna breyttist ört vegna faraldursins, sem varð til þess að fjöldi verkefna frestaðist um lengri eða skemmri tíma. Þessi staða kemur fram í því að starfsáætlun næsta árs verður keimlík þeirri sem gilti á liðnu ári, enda standa vonir til þess að faraldurinn sé á undanhaldi og þó áhrifa hans gæti eitthvað fram eftir árinu, þá má vænta þess að mannlíf og leikhúslíf  verði komið í sitt fyrra horf þegar líður á leikárið 2021 – 2022.

Á aðalfundi FLÍ 2021 hverfur Tryggvi Gunnarsson úr stjórn FLÍ, en hann hefur setið í stjórninni síðan 2016 og bæði gegnt embætti gjaldkera og ritara, og úr samninganefnd félagsins hverfur Kolfinna Nikulásdóttir. Eru þeim færðar alúðarþakkir fyrir mikilvæg störf í þágu félagsins.

 

 

 

Töfrafundur – áratug síðar í Hafnarborg, vegna afskipta stjórnvalda í Hafnarfirði.

Bandalag íslenskra listamanna lýsir furðu sinni á þeirri atburðarás sem átt hefur sér stað, með afskiptum bæjarstjóra og yfirvalda Hafnarfjarðarbæjar af uppsetningu sýningarinnar Töfrafundur – áratug síðar í Hafnarborg.

Hafnarborg er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum og ber því að starfa samkvæmt þeim, sem og siðareglum ICOM (International Council of Museums).  Inngrip og afskipti stjórnvalda í Hafnarfirði af sýningu listamannanna Libíu Castro og Ólafs Ólafssonar gengur mjög á svig við þær siðareglur og meginreglu stjórnsýslu menningarmála, að viðhafa fjarlægð pólitískra
valdhafa frá listrænum ákvörðunum í rekstri safna og menningarstofnanna. Þetta hugtak um armslengdarfjarlægð hins pólitíska valds er til þess ætlað að tryggja eftir fremsta megni sjálfstæði listarinnar svo henni sé unnt að vera sú gagnrýna rödd sem lýðræðinu er nauðsynlegt.

Listamennirnir Libía Castro og Ólafur Ólafsson eru listamenn sem hafa í sinni myndlist gjarnan verið á mörkum aktívisma og beitt fagurfræði sinni til þess að færa til mörk hefðbundinnar orðræðu stjórnmála. Myndlist þeirra er virk lýðræðisumræða – hvernig lýðræðið birtist okkur í framkvæmd. Þannig er fagurfræði myndlistar þeirra pólitískt ágeng og nátengd hugmyndum aðgerðasinna.

Í því ljósi, og það dylst engum, er þetta inngrip stjórnvalda í sýninguna ritskoðun. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að ákvörðun um að láta fjarlægja hluta sýningarinnar af vegg safnsins er fordæmalaus ákvörðun og verður ekki slitin úr samhengi við eðli og form sýningarinnar, allar eftir á skýringar um leyfisveitingar eru hefðbundið yfirklór og tæknilegar aðfinnslur til að réttlæta þá ritskoðun.

Bandalag íslenskra listamanna fer fram á að safnið komi verkinu aftur  fyrir á þeim stað sem listamennirnir fundu því í upphafi.

 

Hugleiðing á alþjóðlegum degi listarinnar 2021 eftir Harald Jónsson

Í dag, 15.apríl 2021, er alþjóðlegur dagur myndlistar. Þetta er í fyrsta skipti sem hann er haldinn hátíðlegur hér um slóðir og er það fagnaðarefni. Að þessu tilefni er ýmislegt hægt  að taka sér fyrir hendur. Við getum til dæmis byrjað á að líta í kringum okkur. En áður en við gerum það er gott að slökkva á farsímanum alla vegana að setja á fluvélastillingu og síðan er ágætt að nema staðar og nema staðinn þar sem við erum stödd nákvæmlega núna. Það er góð leið til að ná andanum. Við getum líka hallað aftur augunum nokkur andartök eða nógu lengi þannig að þegar við opnum þau aftur er sem við sjáum heiminn í fyrsta sinn. Kveikjurnar leynast víða og myndlistin leysist úr læðingi á ólíklegustu stöðum. Hún birtist ekki bara í sýningarsölum þar sem við getum notið sama verksins jafn lengi og okkur lystir innan auglýsts opnunartíma. Fyrir utan þessa afmörkuðu staði erum við nefnilega stöðugt vitni að óvæntum kringumstæum sem geta fært okkur nær. Myndlist gerir einmitt það, hún færir okkur nær, hún er næring, stundum beint í æð. Hún á sér stað þegar við setjum það sem umkringir okkur í samhengi og sjáum í öðru ljósi. Rétt eins og við erum stöðugt að safna sönnunargögnum og staðfestingu á tilveru okkar, gera hana merkingarbæra. Okkur grunar og grunurinn er líka grunnurinn að forvitni. Og fyrr en varir læðist undrunin í ljós. Myndlistin fylgir gjarnan í humátt á eftir. Hún er til dæmis risastórt auglýsingaskilti sem varpar línhvítum fleti út í nágrennið. Hún er hillustæða með jafnmörgum ljósaperum og nægja til að baða heila mannsævi í tunglsljósi. Hún er nýhnoðaðir snjóboltar í mismunandi stærðum sem liggja í röð á gangstétt við fjölfarna götu og eru til sölu á ólíku verði eftir stærð. Hún er glerklefi sem fyllist af þoku svo ekki sér handanna skil. Hún er nýmáluð og mjólkurhvít undirgöng í gegnum fjölbýlishús sem er að hruni komið. Hún er klifurveggur sem dregur upp stjörnumerki himinhvolfanna og hægt er að klifra upp á milli þeirra. Myndlist birtist alltaf nafnlaus og hún gerir aldrei boð á undan sér. Eitt annað dæmi af handahófi er kannski þetta nafnlausa eldfjall sem er að gera allt vitlaust og tekur á sig nýja mynd á hverjum degi. Eldfjallið er auðvitað ekki myndlist í sjálfu sér heldur það sem getur kviknað í bilinu á milli þess og okkar. Skynhrifin, venslin og ummyndanirnar. Drög að þessu eldfjalli komu í ljós þegar varir jarðarinnar urðu aftur sýnilegar í ljósaskiptunum núna um daginn. Þær brostu og út úr þeim byrjuðu að leka logandi línur, form, tákn og lúmsk skilaboð sem önguðu af iðrum jarðar. Þau streymdu eitt á eftir öðru út um logandi opið og mynduðu kóðaða frásögn þangað til taumurinn storknaði og varð eitt með steinrunnu slefinu. Skynjunin er nákvæmlega svona, líkamsheitt kvikuhólf sem opnast þegar minnst varir. Hvar endar þetta og hver er annars munurinn á gosinu og sprunginni hitavatnslögn í þéttbýli? Verður landslagið fallegra eða ljótara er reyndar spurning sem brennur á vörum sumra. Við erum engu nær og hraunið það eyrir heldur engu Það róast reyndar í dagsbirtunni en æsist þegar myrkrið brestur á. Elfan heldur áfram og gleypir bæði myndavélar og mælitæki og líka farsímana okkar ef við pössum okkur ekki. Við stöndum á milli nafnlausra sprungna, allra þessara ómálga jarðmunna sem opnast hver á eftir öðrum í seigfljótandi, margradda, muldrandi og glóandi söng og við vitum varla í hvorn fótinn við eigum að stíga. Þetta er allt saman í beinni útsendingu en við viljum samt stöðugt nær, ná sambandi og koma við kvikuna. Hún myndar straum og læk, þráð og þrá sem leiðir og togar í okkur og vísar leiðina gegnum nóttina og daginn. Myndlist er einmitt þessi þráður og þrá. Hún er tengingin inn til okkar og líka á milli okkar í endalausum núningi þangað til við náum jafnvel áttum. Myndlist er staðsetningartæki. Hún ýtir við, kitlar, hrærir og kemur okkur áleiðis. Hún er leikur sem felur og leiðir í ljós. Hún er spegilmynd og afsteypa. Góð myndlist er óvænt stefnumót og þegar hún á sér stað afhjúpar hún okkur og við verðum ekki söm. Til hamingju með daginn.

Haraldur Jónsson

Ályktun aðalfundar BÍL starfsumhverfi listamanna

Samþykkt BÍL  um starfsumhverfi listamanna og atvinnuástand í skapandi greinum.

Ástand það sem myndaðist í kjölfar samkomubanns á liðnu ári kom afar illa við listamenn og það fólk sem starfar í listum og skapandi greinum. Af því að ekki sér fyrir endann á afleiðingum þessa ástands vill aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna vekja athygli á alvarlegri stöðu listamanna á vinnumarkaði og því hversu erfiðlega stjórnvöldum gekk að sníða úrræði að þörfum þeirra sem starfa við listir og menningu. Starfsumhverfi listamanna er afar flókið og margbreytilegt, svo flækjustigið var mikið þegar ráðast átti aðgerðir til stuðnings geiranum. Stærstur hluti listamanna starfar sem einyrkjar að hluta eða öllu leyti og hefur ótryggar og óstöðugar tekjur, nokkuð sem vafðist fyrir þegar úrræði stjórnvalda vegna Covid-ástandsins voru heimfærð upp á listamenn. Því reyndust þau þeim ekki sú björg sem til var ætlast. Reynsla okkar af síðasta ári kallar á að átak sé gert í því að kortleggja starfsumhverfi listamanna og það atvinnuástand sem fólk í hinum skapandi geira býr við. Breyta þarf launa-, skatta- og atvinnutryggingakerfi þannig að það taki mið af þeim raunveruleika sem listamenn búa við.

Ályktun aðalfundar BÍL um stofnun Þjóðaróperu

Bandalag íslenskra listamanna telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Slíkt verður einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019. Lagagrundvöllur þjóðaróperu þarf að vera sambærilegur þeim sem gildir um Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn, þar sem hlutverkið er skýrt og fagmennska tryggð. Með því móti væri óperustarfsemi komið á traustan kjöl opinbers rekstar, enda ljóst að rekstrarform einkaréttarlegs eðlis hentar ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og hér um ræðir.

Bandalagið leggur til að mennta- og menningarmálaráðherra kynni í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019, svo fá megi fram sjónarmið þeirra sem best þekkja. Endanlegt frumvarp verði svo lagt fram á Alþingi eigi síðar en haustið 2021.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.

1.gr.

Eftirfarandi kafli og greinar bætast í lög um sviðslistir nr. 165/2019.

1. KAFLI

Þjóðarópera.

(a). gr.

Hlutverk.

 Þjóðarópera er eign íslensku þjóðarinnar. Hlutverk Þjóðaróperunnar er að sviðsetja óperuverk af háum listrænum gæðum. Þjóðaróperan skal sinna sögulegri arfleið óperulistarinnar í samtíma samhengi með sérstakri áherslu á íslenska frumsköpun. Þjóðaróperan skal vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun óperulistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á óperulist.

(b). gr.

Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Þjóðaróperu eru sýningar á íslenskum og erlendum óperuverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk óperuverk. Einnig skal Þjóðaróperan annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að sýningarferðum innanlands. Þjóðaróperunni er heimilt að standa að sýningarferðum til annarra landa eftir því sem aðstæður leyfa.

(c). gr.

Óperustjóri.

    Ráðherra skipar óperustjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar. Skipaður skal einstaklingur með háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu á óperuflutningi og starfssviði Þjóðaróperunnar. Endurnýja má skipun óperustjóra einu sinni til næstu fimm ára ef meirihluti stjórnar mælir með endurráðningu.

    Óperustjóri er stjórnandi Þjóðaróperunnar og markar listræna stefnu hennar. Hann er í forsvari fyrir þjóðaróperuna og annast daglega stjórnun samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun að fenginni umsögn stjórnar. Hann ræður starfsmenn og ber ábyrgð á listrænum og fjárhagslegum rekstri svo og gerð langtímaáætlunar og að starfsemi Þjóðaróperunnar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

(d). gr.

Stjórn.

    Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Þjóðaróperunnar. Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum tilnefnir tvo fulltrúa en einn skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Stjórnin skal skipuð til fimm ára í senn. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórnina lengur en tvö samfelld starfstímabil.

    Stjórn Þjóðaróperunnar er óperustjóra til ráðgjafar um stefnu Þjóðaróperunnar og önnur málefni er varða starfsemi hennar. Hún veitir óperustjóra umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir, vinnur með honum að langtímaáætlun um starfsemina og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna.

(e). gr.

Samstarf.

Þjóðaróperan skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna óperulist s.s. tónskáld, textahöfunda, sviðshöfunda, hönnuði og flytjendur með listrænan ávinning, nýsköpun og fjölbreytni að markmiði.

Þjóðaróperan skal stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi Þjóðaróperunnar eftir því sem við verður komið.

(f). gr.

Kostnaður.

Kostnaður af óperuráði og rekstri Þjóðaróperunnar greiðist úr ríkissjóði. Þjóðaróperunni er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.

 

Ályktun aðalfundar BÍL um samningagerð í RUV

 

Ályktun  BÍL um samningagerð í RÚV

Í nýlegum samningstilboðum  sem Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) hefur gert listamönnum koma fram  kröfur um að viðsemjandi fallist nú á tilteknar samningsskyldur sem ekki hafa  áður verið gerðar. Má þar nefna:

 • Að RÚV megi framselja viðkomandi efni til annarra miðla hér á landi og í öðrum löndum
 • Að RÚV megi gefa efni viðkomandi út á myndiskum og hljómdiskum eða setja í annars konar dreifingu
 • Að greiðslufyrirkomulag í teljist fullnaðargreiðsla fyrir hljóðritanir, útsendingar og notkun á efninu eins og hún sé skilgreind í samningnum

Með þessum ákvæðum er það greinlega ætlun RÚV að taka sér vald til að selja efni sem framleitt er innan veggja RÚV á frjálsum markaði og tryggja sér jafnframt ævarandi eignarrétt á því, þannig að flytjendur og höfundar missi allt tilkall til greiðslna fyrir þessi réttindi. Þessum kröfum er augljóslega ætlað að  rýmka allar heimildir RÚV frá því sem nú er til hagnýtingar verka viðsemjenda.

Rétt er í þessu sambandi að geta að ekkert samtal hefur átt sér stað milli RÚV og fulltrúa listamanna um þessi tilteknu atriði samninga. Við það verður ekki unað af hálfu listflytjenda og höfunda að RÚV sæki með þessum hætti að réttindum þeirra.

Aðalfundur BÍL mótmælir harðlega framgöngu RÚV þar sem þessari aðferðafræði er beitt og hvetur stofnunina til að endurskoða þegar í stað kröfur sínar í samningagerð varðandi framangreind atriði.

Ársskýrsla stjórnar BÍL stafrfsárið 2020

SKÝRSLA STJÓRNAR

BANDALAGS ÍSLENSKRA LISTAMANNA

STARFSÁRIÐ 2020

Þetta hefur verið tíðindamikið og sérstakt ár. Við gengum inn í þetta síðast ár með ýmis verkefni í   farteskinu, mörg þeirra hafa fylgt okkur lengi, bætt staða starfslauna og efling verkefnasjóða. Baráttan fyrir skráningu hagvísa og réttlátri endurgreiðslu á  hugverkarétti, en við byrjuðum árið á listþingi í Hörpunni. Í baksýnisspeglinum virðist þetta vera fyrir svo óralöngu síðan,

COVID

Tungutak listarinnar, hvernig tölum við um listina, var yfirskrift listþingsins Þetta var ákaflega vel heppnað,  góð mæting. Frummælendur voru: Ólöf Nordal, myndlistarmaður, Ragnar Helgi, rithöfundur og myndlistarmaður, Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður og Kristín Ómarsdóttir, rithöfundur, Guðmundur Oddur Magnússon stjórnaði. Þar var rætt um loftnet innsæsins, hversu mikla samleið listin ætti með vitsmunum og  greiningu, um tilgang listarinnar til að skerpa sýn og opna  skynjun, spegla þann heim sem við tilheyrum og sjá þann fyrir sem ekki er til en gæti orðið. Er þessi orðræða til, eða  fellst hún í verkunum sjálfum,  getum við átt samtal við samfélag okkar og um þessi verðmæti eða verða þau einfaldlega geymd í verkunum sjálfum…. Við flugum hátt þessa fyrstu daga ársins, það var góð mæting í Hörpuna þennan laugardag. Þetta voru skemmtileg og hugvekjandi erindi sem töluðu til fólks, skemmtileg þrátt fyrir þungan undirtón. Lítið vissum við þá.

Það er líklega einfaldast að fara í gegnum tíðindi þessa árs í tímaröð, skömmu eftir þetta vel heppnaða málþing er óhætt að segja að allar leikreglur okkar hafi farið á annan endann. Þann 16. mars setti ríkisstjórn Íslands á samkomubann sem skyldi standa í fjórar vikur. Þetta voru vissulega erfið og þung tíðindi fyrir listamenn því allir gerðu sér grein fyrir að myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir listamenn í landinu og þá sérstaklega einyrkja í þessum svokölluðu “performance” greinum.

Strax á þessum fyrstu dögum hófst samtal bæði á milli fagfélag listamanna og við opinbera aðila til þess að bregðast við stöðunni. Fljótlega  boðaði mennta- og menningarmálaráðherra alla forsvarsmenn menningar umhverfisins á samráðsfund, þetta var í upphafi breiður hópur en BÍL tók þátt í þessu samtali fyrir hönd listamanna ásamt miðstöðvum og stofnunum hins opinbera. Það var samt ljóst strax í upphafi að einyrkjarnir sem er langstærstur hluti starfandi listamanna sá fram á algjört þrot í tekjum og í mörgum tilfellum sokkin kostnað í verkefnum sem frusu í pípunum á einu augabragði og eins og menn vita eru oftast ekki þykkir veggir á milli þess kostnaðar sem listamenn leggja til verka sinna og heimilsbókhaldsins. Áhersla viðbragðs og  aðgerða þyrfti að vera að tryggja  þennan hóp, sjálfstæðu listamennina og hópana.

Samtímis þessu átti BÍL ásamt fagfélögum listamanna fundi með velferðarnefnd alþingis um mögulegar breytingar  sem þyrfti að gera á lögum og reglum Vinnumálastofnunar svo úrræðin yrðu opnari og aðgengilegri listamönnum og einyrkjum. Velferðarnefnd Alþingis var með áform um að rýmka regluverk  VMST í þeim tilgangi að grípa fleiri og samtímis var lagt upp með bætur fyrir fólk í sóttkví. BÍL fagnaði þeirri viðleitni stjórnvalda að opna kerfi VMST frekar, en benti strax á að leiðir eins og fyrirhugaðar voru í bótaleið fyrir tekjufall í sóttkví væru líklegri til að virka sem raunverulegar úrbætur. BÍL óttaðist það strax að regluverk hinnar opinberu stofnunar gæti reynst þungt í skauti í aðgerðum sem þyrfti að bera árangur strax.

BÍl setti sig líka strax í samband við systurfélög sín á Norðurlöndum til þess að heyra hvernig stjórnvöld þar í landi væru að bregðast við og reglulega skiptust samtökin á upplýsingum um stöðuna og hvað væri í framkvæmd hjá stjórnvöldum í hverju landi.

Tillögur að fjáraukalögum sem fyrsti viðspyrnu pakki við Covid voru lögð fram á alþingi 21. mars og þá var áætlað að setja 1.750 milljarða í nokkuð víðtækan málaflokk skapandi greina,  menningar, tækniþróun ofl.  og fyrstu skilaboð frá ráðuneyti mennta- og menningarmála voru þau að um 600 millj kæmu til ráðstöfunar í málalið 18 sem er menning, listir og íþróttir. Niðurstaðan varð sú  á endanum að milljarður fór í þennan lið og af þeim milljarði voru 600 milljónir eyrnamerktar menningu og listsköpun.

Fyrr í þessu ferli höfðu miðstöðvar lista og skapandi greina ásamt BÍL og sviðslistasambandinu tekið upp samtal til þess að tryggja að, í fyrsta lagi sem  ríflegastur hluti  fjárveitingar  fjárfestingarátaksins rynni til grasrótar og sjálfstætt starfandi listamanna en einnig að sjá til þess að úthlutun þess fjármagns yrði fagleg. Það var fljótlega niðurstaða þessa hóps að að nýta ætti það kerfi sem til væri s.s. verkefnasjóðina. Ein helsta röksemdin fyrir þeirri áherslu var sú að kerfið væri til staðar, því væri hægt að bregðast hratt við og koma fjármagninu hratt í umferð. Þessi samstaða greinana sendi mjög jákvæð skilaboð til stjórnvalda og ekki annað að skilja en yfirvöld menningarmála mættu þeirri útréttu hönd fegins hendi og boðuðu samráð við hópinn um vinnu við úthlutunina. Það tók engu að síður óratíma að koma þessu á og auglýsingin um úthlutun í sjóðina birtist ekki fyrr en 25.  apríl, sóttvarnarlögin voru sett 16. mars og áttu að gilda í fjórar vikur. Ráðuneytið ákvað sjálft að skipta þessum fjármunum á milli sjóðana án samráðs við þennan samráðsshóp listgreinana.

Á þessum tíma hóf BIL líka samtal við Reykjavíkurborg um aðstoð við listamenn í borginni, Borgin var þegar komin með aðgerðir til bjargar, eða í viðbragðsstöðu gagnvart sínum menningarstofnunum en í samráði við BÍL var ákveðið að bæta í menningarsjóðinn og kalla saman útlutunarnefndina til þess að úthluta þessu aukafjármagni.

Fljótlega fór að koma í ljós að þrátt fyri góðan vilja og aðgerðir velferðanefndar voru listamenn ekki að fá þær lausnir úr atvinnutryggingasjóðum sem þeim bar og erfitt reyndist að fá skýr svör frá stofnuninni um hverju sætti, þrátt fyrir ítrekaða tölvpósta, hringingar og heimsóknir. Ekki var hægt að fá upplýst hvernig framgangur listamann í kerfinu var. Á endanum gerði BÍL könnun meðal listamanna um hvernig þeim gengi í viðureign sinni við VMST. Niðurstöðurnar voru sláandi.  77% listamanna hafði tapað meira en 50% sinnar vinnu og um 30% þeirra allri vinnu, þrátt fyrir það var lágt hlutfall að leita til VMST og eða 29 % svarenda. Alvarlegast var að þessi könnun staðfesti að 70% þeirra sem á annað borð leituðu til VMST höfðu ekki fengið neina lausn sinna mála.

Það voru fjölmargar ástæður fyrir því hversu illa listamönnum gekk að fá framgang í úrræðum VMST en ein helsta skýringin var einfaldlega sú að þetta áhlaup sem stofnun varð fyrir, gaf enga möguleika á því að vinna með frávik í umsóknum, flókið vinnuumhverfi og einstaklingsbundin samsetning tekna, vinnuhlutfall og ráðningarforma gerði það að verkum að þessar umsóknir lentu einfaldlega neðst í skúffunni.

Nú var aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar númer tvö að birtast,  þann 21. april og í honum var bætt í starfslaunasjóðinn því var vel fagnað í hópi listamanna og strax sendi forseti ráðuneytinu erindi um að hafa samráð við listamenn um deilingu þessa fjármagns minnug þess að skiptingin milli verkefnasjóða var framkvæmd án samráðs og sýnilegs rökstuðnings. Ekkert svar barst við þessu erindi, né ítrekun þess skömmu síðar, heldur birtist skiptingin í frumvarpi um breytingu á listamannalaunum.  Þetta kallaði á ágreining innan raða listamanna og BÍL sendi því enn eitt erindið og átaldi ráðuneytið um skort á samskiptum og sjálfsögðu samráði um ráðstöfun fjármagns sem hefði bein áhrif á afkomu og störf listamanna. Ráðuneytisstjóri boðaði í kjölfarið til fundar þar sem ákveðið var að koma á samráðshópi  BÍL og ráðuneytisins, það hefur dregist í framkvæmd og verður tekið upp nú á vormánuðum.

Við undirbúning fjárlagafrumvarps 2021 fékkst síðan aftur bætt 550 mánuðum í starfslaunasjóðinn og í þetta sinn óskaði ráðuneytið eftir aðkomu okkar að þeirri skiptingu með þá ósk að skiptingin endurspeglaði að einhverju leyti stöðuna í kjölfar samkomubannsins. Við komumst að ágætri málamiðlun um þessa skiptingu í deilingu á sjóðina. Með því sendum við skýr skilaboð um að samtalið og að forræði úthlutana væri best komið i höndum okkar.

Lokakafli Covid orustunar var síðan háður í samvinnu BÍL og BHM, því á haustmánuðum var enn óleyst sú staða sem skapaðist í tekjumissi listamanna. Ágæt samantekt tónlistargeirans um stöðuna opnaði fyrir skilning ráðuneytisins á sérstöðu greinanna og í kjölfarið fór af stað samtal með þátttöku BHM og fulltrúa félagsmálaráðuneytisins. Þetta var klárlega flóknasti kaflinn í þessari baráttu því þarna var við regluverkið að eiga og þau sjónarmið varðmanna þess að eini vandi regluverksins væri sá að fólkið passaði ekki inn í það.  Til þess að undirbyggja málflutninginn voru gerðar tvær kannanir í samstarfi BHM sú fyrri um tekjufall og atvinnuleysi, en sú síðari um árangurinn af viðureigninni við VMST þessar kannanir leiddu í ljós sömu niðurstöðu og aðrar kannanir frá því  um vorið, að tekjufallið væri að jafnaði helmingur þvert á greinar og að fólk var ekki að fá lausn hjá VMST. auk þess sem þessar kannanir sýndu svart á hvítu hversu tekjulágur hópurinn er. Á sama tíma kom út skýrsla hjá OECD sem var greining á einyrkja umhverfinu í OECD löndunum og sú skýrsla dró upp alveg hliðstæða mynd.  Í þeim löndum var vandinn viðurkenndur og búið var að grípa til aðgerða í flestum þeirra til þess að koma til móts við þennan hóp. Þetta var ákaflega flókið og ekki nokkur leið að sveigja regluverkið að þessum vanda. Lendingin varð sú, eftir marga hringi og nokkur átök, að þeir sem utan um kerfið halda gátu sæst á að hægt væri að miða aðgerðirnar við rekstrartap einyrkja. Þetta var svo kynnt af menntamálaráðherra og forsætisráðherra auk annarra aðgerða til eflingar menningar og listum  í Hörpunni þann 16. október ásamt aðgerðum í tíu liðum sem ýmsar voru þá komnar til framkvæmda eins og undirbúningur að stofnum tónlistamiðstöðvar og sviðslistamiðstöðvar og 550 mánaða aukning í starfslaunasjóðinn  2021.

Þegar þetta er skrifað er ennþá hægt að sækja um tekjufallsstyrkinn og tæpleg 400 milljónir er búið að greiða út til lista og  menningar í gegnum þá, fjöldi annara starfsgreina hefur getað nýtt sér þetta úrræði sem varð til innan raða og í samtali listamanna og þeirra fagfélaga. Það var skoðun BÍL að alveg frá upphafi hefði verið einfaldast að greiða fyrst og reikna svo og stemma af, í stafrænu umhverfi er það einfalt að bíða með uppgjörið í einhvern  tíma.  Það var farið í ýmsar aðgerðir til fyrirtækja sem ekki voru innan fyrirfram gefina kerfa, svo það er sérstakt og umhugsunarefni hvers vegna listamennirnir þurftu að berjast svona fyrir lausnum á sínu umhverfi.

Við verðum að læra af þessu tímabili næstu ár og vinna úr þessu. Við vitum ekki í dag hvert raunverulegt tap menningargeirans er og hversu mikil dýfa þetta er bæði fyrir listamenn og allar þær greinar og sú starfsemi sem hafa viðurværi sitt af hugverkum listamanna. En í fljótu bragði er sú upphæð sem bætt var í í styrkja og sjóðakerfið til þess að spyrna við um það bil 1,5 milljarður. Sem er ekki svo mikil upphæð þegar tekið er tillit til þess að þetta er grunnurinn sem knýr atvinnuumhverfi sem telur tæplega 8% vinnumarkaðar

ÖNNUR STÖRF

Þrátt fyrir að COVID hafi yfirskyggt að mestu starf Bandalagsins og allra aðildarfélaganna eru önnur störf sem þurft hefur að sinna, en þau verða samt einhvernvegi öll lituð af þessu ástandi og varpað nýju og öðru ljósi á flest okkar baráttumál. Dæmi um það er baráttan um eflingu starfslaunanna. Í upphafi árs fór starfshópur af stað í samvinnu MRN til þess að forma hugmyndir BÍL um eflingu starfsalaunanna. Það lenti á ís lungað úr árinu en þegar rofa fór til eftir þriðju bylgju fór sú vinna af stað og var kynnt aðstoðarmanni ráðherra í desember. Næstu skref eru að hefja tæknilega útfærslu breytinga. En þær eru helstar að bæta við sjóðum nýliða og eldri listamanna sem hvor um sig hafi örlítið aðrar forsendur en starfslaunasjóðurinn, þetta er hugsað til þess að bæði auka aðgengi ungs fólks og koma í farveg einhverjum mannsæmandi og faglegri umgengni við listamenn á seinni hluta ferils síns. Auk þess að sjálfsögðu að hækka mánaðargreiðslur og fjölga mánuðum.

BÍL hefur skilað inn fjölda umsagna til Alþingis á árinu. Flestar hafa þær snúið að tímabundnum breytingum á lögum og viðspyrnu pökkum ríkisstjórnar, enda Alþingi helst verið upptekið við þau verkefni og önnur beðið. Undir venjulegum kringumstæðum rýnir BÍL aðskilið fjármálaáætlun og frumvarp til fjárlaga. Að þessu sinni voru þessi frumvörp samferða í gegnum þingið á haustmánuðum og  áherslur  BÍL voru að vanda starfsumhverfið í ljósi aðstæðna og áhyggjur BÍL af stöðu ýmissa stofnana listgreina sem þegar líða tók á árið voru komnar í verulega vonda stöðu margar hverjar. Þessar stofnanir eru líka starfsvettvangur stórs hóps listamanna úr öllum greinum, listamanna sem ekki eru á samningum en hafa hluta tekna sinna af verkefnum í þessum stofnunum og húsum.

MIÐSTÖÐVAR

Á síðasta ári voru samþykkt nú sviðslistalög og stofnun nýrrar sviðslistamiðstöðvar staðfest og er hún að taka til starfa. Á seinni hluta ársins skipaði ráðherra líka starfshópa um stofnun tveggja miðstöðva, tónlistar og myndlistar. Þetta verður vonandi gæfuspor í uppbyggingu greinanna og  færa samtalið og ákvarðanatökur í faglegri farveg og skýrari stöðu listgreinanna gagnvart samskiptum bæði sín á milli og sem faglegi hlekkur  gagnvart stjórnsýslunni. Með sterkri stöðu faglegar miðstöðva mun verða auðveldara að framfylgja stefnum greinanna, þar sem þær eru til. Og talandi um stefnu þá var samþykkt á árinu kvikmyndastefna  og verið er að hrinda henni í framkvæmd þessa dagana, samkvæmt yfirlýsingu ráðuneytis er hún full fjármögnuð og ýmsum þáttum hennar á að hrinda í framkvæmd á þessu ári s.s eins og sértökum sjónvarpssjóði innan kvikmyndamiðstöðvar, starfslaunasjóði kvikmyndagerðarmanna og kvikmyndagerð á háskólatigi.

RÁÐUNEYTI MENNINGARMÁLA

Eins og sjá má á þessari upptalningu eru töluvert mörg verkefni í ráðuneytinu sem varða breytingu á umhverfi lista og menningarmála. Þessar breytingar kalla á umfangsmikla endurskoðun laga, uppbyggingu í menntun, sýn í alþjóðlegu samstarfi og fl. Til þess að vel takist til með þessa uppbyggingu þarf að efla og styrkja ráðuneyti menningarmála og aðgreina það frá menntamálum.  Meðvitað eða ómeðvitað hreyfir starf þessa stóra hóps sem starfar við menningu og listsköpun við okkur í hverju skrefi okkar daglega lífs. Það er ekki til sá málaflokkur í nútímasamfélagi   sem listsköpun “klukkar” ekki með beinum eða óbeinum hætti. Listin er grundvallar verkfæri í mótun hugmyndaheimsins og á grunni auðugs hugmyndaheims vaxa tækifæri til fjölbreytts atvinnulífs, fyrir utan þá þræði sem listin vefur um samfélagið okkur til yndis og þroska. Listin er ein grunnstoða samfélagsins, hún er kjarni siðmenningar okkar og ef við viljum gera þetta vel og af fagmennsku þarf stjórnsýslan að eflast og fá sess í samræmi við mikilvægi málaflokksins.

MENNINGARSTEFNUR

Hafin var vinna við endurnýjun menningarstefnu ríkisins frá 2013 í lok árs 2018. Sú vinna hefur legið niðri frá þeim tíma, í það minnsta út á við gagnvart umhverfi menningarinnar. En í lok árs var boðaður samráðshópur til þess að ljúka þessari vinnu og átti hann að skila af sér í lok janúar,  en það fékkst framlengt um mánuð. Þó stefnunni væri ætlað að byggja á þeirri stefnu sem samþykkt var 2013 þá eru mörg veigamikil atriði sem þurfa nokkra rýni og hafa tekið breytingum á þessum tíma sem liðin er frá samþykkt síðustu stefnu, sjálfbærni, umhverfismál, stafræna umhverfið og sú staðreynd að Ísland er orðið fjölmenningarsamfélag og hlutfall fólks af erlendum uppruna er 22% þjóðarinnar og mikilvægt að hlutur þeirra og mikilvægi sé sýnilegt í menningarstefnu. Menningarstefnan kom inn í samráðsgátt þann 19. mars (í gær) og mikilvægt að öll samtök listamanna skoði stefnuna til hlítar og veiti henni umsögn.

Menningarstefna Reykjavíkurborgar er líka í endurnýjun en hún rann út um áramótin síðustu. Fulltrúi BÍL (forseti) situr í vinnuhóp borgarinnar um stefnuna og eru fyrstu drög að lita dagsins ljós þessa dagana, mjög breytt samráð hefur verið við menningarumhverfi borgarinnar við undirbúninginn.

ALÞJÓÐLEGI LISTDAGURINN – UNESCO

2019 lýsti UNESCO 25. apríl Alþjóðlegan listdag og  BÍL birti ávarp þann dag á síðasta ári og hyggst gera það áfram. Erindið á síðasta ári var samið af skáldinu Sjón og birt í fjölmiðlum og skáldið las það fyrir útvarp. UNESCO nefnd Íslands fór þess á leit við BÍL að gera greiningu á aðkomu listamanna að samningi UNESCO um menningarlega fjölbreytni. Sú greining leiddi í ljós að innleiðing og framkvæmd samningsins er ekki í þeim farvegi sem skyldi. Hafa BÍL og starfsmaður UNESCO í ráðuneyti menningarmála gert með sér samkomulag um að koma á málþingi fljótlega um stöðu samningsins og framkvæmd hans hér á landi.

ÞJÓÐARÓPERA

Í nýsamþykktum lögum um sviðslistir er ákvæði þar sem ráðherra er gert að  skapa grundvöll fyrir óperuflutning.  “Ráðherra skal skapa grundvöll fyrir óperuflutningi og stuðla þannig að því að glæða áhuga landsmanna á óperum. Í því skyni er ráðherra heimilt að styðja sérstaklega við óperustarfsemi og gera fyrir hönd ríkissjóðs tímabundinn samning við lögaðila um fjárstuðning.”

Í skipun nefndarinnar er kveðið á með skýrari hætti þar sem skipuð er nefnd um þjóðaróperu. Nefndin er búin að skila af sér áliti sem ekki hefur verið birt. BÍL og félögin sem  aðild eiga að þessari nefnd hafa ítrekað þá skoðun sína opinberlega að ekki sé forsvaranlegt að svo umfangsmikil starfsemi sem óperurekstur er sé ekki forsvaranlegur nema á sömu forsendum og sambærilegar menningarstofnanir sem heyra undir rekstur ríkisins s.s. Þjóðleikhús eða Sinfóníuhljómsveit Íslands. Menningarstofnanir sem komið hefur verið fyrir á forræði einkareksturs undanfarin ár eru engan vegin í stakk búnar til að axla þær  fjárhagslegu ábyrgðir sem sjálfsagt er að gera kröfu um. Í framhaldi má líka minna á þá sjálfsögðu kröfu BÍL að öll sú starfsemi sem  þiggur fé úr opinberum sjóðum skuli virða samninga við listamenn.

MÁL ÞÓRU EINARSDÓTTUR  GEGN ÍÓ

Þóra Einarsdóttir söngkona stefndi Íslensku óperunni vegna vanefnda á samningum vegna vinnu hennar við uppsetningu ÍÓ á Brúðkaupi Figarós. ÍÓ var sýknuð í héraðsdómi, héraðsdómur viðurkenndi ekki  gildandi samning stéttarfélags Þóru – FÍH. Héraðsdómur mat gildandi samning ekki eiga við þar sem um verktakasamning væri að ræða, jafnvel þó ítrekað væri vísað í  samninginn milli ÍO og FÍH. Búið er að vísa málinu til landsdóms og landsdómur hefur samþykkt að taka málið til meðferðar vegna fordæmisgildis. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla listamenn að fá skýra niðurstöðu í þetta mál því ef dómurinn stendur óhaggaður eru allir samningar listamanna í uppnámi. Þessi óvissa um samningsstöðu og form samninga listamanna verður líka að skoða í ljósi þeirrar reynslu sem við erum  búin að ganga í gegnum undanfarið.

Það er alveg ljóst verkefni samtaka listamanna á næstu árum verður að greiða úr þessum samningsformum, óvissu á réttindum og aðgengi að réttindum á vinnumarkaði.

Í upphafi árs vorum við á hugmyndafræðilegri stað, tilgangur og verkefni BÍL hafa alla tíð togast á  um kannski einmitt þessa þætti. Vægi þessara hlutverka í starfi BÍL, stéttabaráttan  annarsvegar og þess að  halda utan um stóru myndina hins vegar. Reynsla síðastliðins árs setur verkefni næstu missera í ljóst samhengi, okkar bíður  þetta verkefni að styrkja launa og kjaragrundvöll listamanna, öll stéttarfélög listamanna þurfa að sameina krafta sína í þessari baráttu.

LOKAORÐ

Þrátt fyrir allt er ástæða til að gleðjast yfir mörgu það hefur oft gefist  tilefni til að gleðjast yfir frammistöðu listamanna okkar á árinu, þrátt fyrir grafalvarlega stöðu hafa listamenn okkar sýnt ótrúlegt æðruleysi og leitað leiða og fundið störfum sínum farveg í breyttu og flóknu umhverfi og axlað hlutverk sitt af  fagmennsku og ábyrgð, því við berum ábyrgð mikla ábyrgð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna starf og trúnaðarstörf

Stjórn BÍL er skipuð formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Eftirtalin skipuðu stjórn BÍL í umboði síns félags á árinu 2020  og í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem sinntu trúnaðarstörfum fyrir Bandalagið á liðnu ári.

 

 

Karl Kvaran, formaður Arkitektafélags Íslands – AÍ

Katrín Gunnarsdóttir, formaður Danshöfundafélags Íslands – DFÍ

Varamaður: Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir

Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna –FÍH

Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara – FÍL

Irma Gunnarsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara – FÍLD

Varamaður: Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl

Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna – FÍT

Sigríður Rósa Bjarnadóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna – FK

Varamenn: Anna Þóra Steinþórsdóttir / Jóhannes Tryggvason

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félag leikskálda og handritshöfunda – FLH

Varamaður: Huldar Breiðfjörð

Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félag tónskálda og textahöfunda – FTT

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands – RSÍ

Varamaður: Vilborg Davíðsdóttir

Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna – SÍM

Varamaður: Starkaður Sigurðsson

Dagur Kári Pétursson, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra – SKL

Varamaður: Ása Helga Hjörleifsdóttir

Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður Tónskáldafélags Íslands – TÍ

Varamaður: Þuríður Jónsdóttir

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Félags leikstjóra á Íslandi – FLÍ

Rebekka Ingimundardóttir, formaður Félag leikmynda og búningahöfunda – FLB

 

Margrét Örnólfsdóttir hefur gengt starfi ritara stjórnar, Gunnar Hrafnsson hefur sinnt stöðu gjaldkera. Lúðvík Júlíusson hefur séð um bókhald Bandalagsins og endurskoðandi er Helga Þorsteinsdóttir. Skoðunarmenn reikninga 2019 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.

 

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (janúar 2020)

 

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Rvk.

Áheyrnarfulltrúi: Erling Jóhannesson

Varamaður: Anna Eyjólfsdóttir

 

Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs fram að hausti 2020 og úthlutaði aukafjárveitingu menningarsjóðs Rvk. vegna COVID

 

Formaður: Pétur Grétarsson, tónlistarmaður

Varamaður: Helga Þórarinsdóttir, tónlistarmaður

Magnús Þór Þorbergsson, sviðslistamaður

Varamaður: María Ellingssen, leikari/leikstjóri

Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur

Varamaður: Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur

Sigtryggur Baldvinsson, myndlistarmaður

Varamaður: Ástríður Magnúsdóttir, myndlistarmaður

 

Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá hausti 2020

 

Samúel Jón Samúelsson, tónlistarmaður

Varamaður: Björg Brjánsdóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur

Varamaður:Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur

Freyja Eilíf Logadóttir, myndlistarmaður

Varamaður:Páll Haukur Björnsson

Gunnar Gunnsteinsson, leikari

Varamaður:Lovísa ósk Gunnarsdóttir, dansari

 

Kvikmyndaráð

Bergsteinn Björgúlfsson – 29.11.19–29.11.23

Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir

 

Fulltrúaráð Listahátíðar

Erling Jóhannesson

 

Stjórn listamannalauna

Hlynur Helgason

Varamaður: Hlín Gunnarsdóttir

 

Stjórn Skaftfells

Anna Eyjólfsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Fagráð Íslandsstofu

Erling Jóhannesson

 

List án landamæra   

Margrét Pétursdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Listráð Hörpu

Ásmundur Jónsson

 

Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis

Páll Baldvin Baldvinsson – 09.10.17

Varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

 

Höfundarréttarráð

Erling Jóhannesson  – 01.08.18–01.08.22

                                   

 

Sérfræðinganefnd KKN

Signý Pálsdóttir            (verkefni)         jan. 2017–jan. 2020

Sigtryggur Magnason (ferðastyrkir)   jan. 2017–jan. 2020

 

Stjórn Barnamenningarsjóðs

Áslaug Jónsdóttir

Varamaður: Erling Jóhannesson

 

Starfshópur um málverkafalsanir

Jón B. Kjartanss. Ransu ­ – okt. 2014

Varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir

                       

Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Erling Jóhannesson

 

List fyrir alla – samráðshópur       

Hildur Steinþórsdóttir

Felix Bergsson

 

List fyrir alla – valnefnd     

Rebekka A. Ingimundardóttir

Samúel Jón Samúelsson

 

Austurbrú – fagráð menningar      

Hlín Pétursdóttur Behrens  – maí 2019.

 

Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar

Erling Jóhannesson

 

Nordisk kunstnerrad

Erling Jóhannesson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Page 1 of 4212345...102030...Last »