Aðalfundur BÍL hvetur Ríkisútvarpið til að axla ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá sinni og tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.

Greinargerð:

Hér á Íslandi er blómlegt menningarlíf, óvanalega öflugt miðað vð fámennið. Þetta eru ekki orðin tóm – að Ísland hafi verið valið sem heiðursgestur bókasýningarinnar í Frankfurt á þessu ári talar sínu máli. Við eigum marga mjög frambærilega listamenn í öllum geirum, enda er hér fjöldi listsýninga og tónleika árið um kring. Íslenskir listamenn bera án afláts hróður landsins út í hinn stóra heim, leikhúsfólk, rithöfundar, dansarar, myndlistarmenn, kvikmyndagerðamenn, tónlistarfólk. Samkvæmt nýlegri úttekt eru skapandi greinar ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og í gegnum árin hafa kannanir sýnt verulegan áhuga almennings á menningarefni í fjölmiðlum. Því miður endurspegla fjölmiðlar ekki þessar staðreyndir, og undanfarin ár hefur dregið talsvert úr umfjöllun þeirra. Núorðið er undir hælinn lagt hvort skrifað er um sýningu listamanna í prentmiðlum, og vikur geta liðið – svo dæmi sé tekið – án þess að ríkissjónvarpið minnist einu orði á myndlist. Þessi óheillvænlega þróun var hafin fyrir hrunið, og hefur ekki lagast, þrátt fyrir vaxandi áhuga almennings á menningu. Það má undrun sæta. Og er mikið áhyggjuefni. Umfjöllun, umræða, er órjúfanlegur hluti menningarinnar – samræða milli rýnenda og almennings er skapandi umræðuhringur sem örvar og stuðlar að auknum áhuga, og, á sínum bestu stundum, brýnir listamenn til dáða. Lítil eyþjóð sem vill halda sjálfstæði sínu í landamæralausum heimi, hlýtur að sækja næringu og sjálfsmynd í þá menningu sem hún skapar. En það er ekki nóg að skapa, það þarf líka að fjalla um, ræða, kryfja – list þrífst ekki án umræðu. Það er því alvarlegt ef kynslóðir vaxa upp án þess að venjast við samfellda umræðu um list í fjölmiðlum. Í þessu samhengi beinir BÍL orðum sínum sérstaklega til ríkissjónvarpsins, sem á að vera einn af hornsteinum íslenskrar menningar. Ábyrgð þess er mikil. Ekki einasta er þáttagerð og umfjöllun ríkissjónvarpsins um list rýr og handahófskennd, heldur sinnir sjónavarpið átakanlega illa þeirri skyldu sinni að kaupa og sýna íslenskt efni, íslenskar stuttmyndir, kvikmyndir, leikrit og heimildamyndir. Þar hefur ríkissjónvarpið árum saman brugðist skyldu sinni, og þar með íslenskri menningu. Það er þungur steinn að bera. BÍL hvetur Ríkisútvarpið/sjónvarp til að svara kalli tímans og veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá sinni. Bókmenntaþátturinn Kiljan hefur sýnt og sannað að áhuginn er til staðar. En hvers á myndlistin að gjalda, listdansinn, kvikmyndir, leiklistin og byggingarlistin. Ekki skortir áhugann, um það vitna kannanir. Ekki skortir mikilvægið – um það vitna skýrslur. BÍL harmar stefnuleysi sjónvarpsins í menningarumfjöllun, harmar áhugaleysi þess að sýna og kaupa íslenskt efni, og hvetur stjórnendur sjónavarpsins að bæta verulega úr. Hvetur þá til að gera stofnun sína að því sem hún á að vera – einn af hornsteinum íslenskrar menningar.