Lög BÍL – Bandalags íslenskra listamanna

Samþykkt á aðalfundi 4. nóvember 2000 með breytingum á aðalfundi 14. janúar 2006, á aðalfundi 22. janúar 2011, 8. febrúar 2014 og 17. febrúar 2018.

1.gr.
Bandalagið heitir Bandalag íslenskra listamanna, skammstafað BÍL.
Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
BÍL er bandalag félaga listamanna í hinum ýmsu listgreinum og er tilgangur þess fyrst og fremst;
a) að styðja vöxt og viðgang íslenskra lista, bæði innanlands og utan,
b) að gæta hagsmuna íslenskra listamanna,
c) að efla samvinnu með íslenskum listamönnum.

3. gr.
Aðild að BÍL geta þau félög listamanna átt, sem starfa á faglegum grunni að vexti og viðgangi listgreinar sinnar og stofnuð eru til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna.
Sérhvert aðildarfélag skal hafa eigin lög, eigin stjórn, óháða félagastarfsemi og eigin fjárreiður.
Til að félög listamanna geti talist starfa á faglegum grunni, þurfa félagsmenn þeirra að uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna skilyrða;
a) að hafa viðurkennda menntun í sinni grein,
b) að hafa listgrein sína að aðalstarfi,
c) að hafa hlotið viðurkenningu opinberlega fyrir störf í listgrein sinni,
d) að vera fullgildur meðlimur í sínu fag- eða stéttarfélagi.

4. gr.
Stjórn BÍL skipa formenn aðildarfélaganna og til vara stjórnarmaður úr viðkomandi félagi.

5. gr.
Umsókn um aðild að BÍL frá nýju félagi listamanna, skal berast stjórninni eigi síðar en mánuði fyrir boðaðan aðalfund, ásamt greinargerð um starfssvið viðkomandi félags, lögum þess og félagatali. Stjórninni ber að yfirfara allar umsóknir og taka afstöðu til þeirra fyrir sitt leyti. Endanleg ákvörðun um aðild skal tekin á aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að nýtt félag öðlast aðild.

6. gr.
Aðalfundur BÍL fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum BÍL. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok febrúar ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.
Aðalfund skal boða skriflega með a.m.k. mánaðar fyrirvara og dagskrá skal send út eigi síðar en tveim vikum fyrir boðaðan aðalfund. Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði. Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.
Atkvæðisréttur aðildarfélaga er háður því að félag hafi greitt árstillag starfsársins (sbr. 8. gr.) fyrir boðaðan aðalfund.
Allir félagsmenn aðildarfélaganna hafa rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt. Viku fyrir aðalfund tilnefnir hvert aðildarfélag atkvæðisbæra fulltrúa til setu á aðalfundi.
Tillögur að lagabreytingum skulu berast stjórn a.m.k. þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.
Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar BÍL og skýrsla forseta um starfið á liðnu ári. Þá leggur stjórnin fyrir aðalfund tillögu að starfsáætlun BÍL fyrir næsta starfsár og ályktanir til samþykktar.
Forseti og tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Forseti skal kosinn sérstaklega, bundinni kosningu og skal tillaga að forsetaefni berast stjórn a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund. Fái enginn hreinan meirihluta greiddra atkvæða, skal kjósa aftur milli þeirra sem flest atkvæði hlutu. Kosningin skal vera skrifleg.
Aðalfundur telst löglegur, ef löglega er til hans boðað og að minnsta kosti helmingur aðildarfélaganna sendir fulltrúa á fundinn.

7. gr.
Stjórnin starfar í umboði aðildarfélaganna og fer með öll sameiginleg mál.
Forseti boðar til og stjórnar almennum stjórnarfundum og leggur fyrir þau mál, sem ræða skal. Almennir stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. fjórum sinnum á ári.
Stjórnin kýs ritara og gjaldkera, en að öðru leyti skiptir hún með sér verkum.
Stjórn hefur heimild til að ráða sérstakan framkvæmdastjóra og skal hún þá setja honum starfsreglur.
Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins og er henni heimilt að leggja út í hvern þann kostnað sem þurfa þykir á hverjum tíma, og fjárhagur BÍL leyfir.
Forseti kemur fram fyrir hönd BÍL út á við og gagnvart stjórnvöldum.
Forseti getur tilnefnt hvern, sem er úr stjórn sem sinn staðgengil og til að sinna einstökum málum, að fengnu samþykki stjórnar.
Geti stjórnarmaður ekki sótt stjórnarfund skal hann boða varamann í sinn stað.
Ef tveir eða fleiri stjórnarmenn fara fram á almennan stjórnarfund og tilgreina ástæðu, skal forseti boða hann svo fljótt sem við verður komið.
Hver stjórnarmaður skilar árlega greinargerð um starfsemi síns félags til birtingar á heimasíðu BÍL.

8. gr.
Sérhverju aðildarfélagi ber að innheimta hjá greiðandi félagsmönnum árstillag, sem nemur kr. 500.- m.v. verðlag í janúar 2018, til sameiginlegrar starfsemi BÍL. Árstillagið tekur breytingum m.v. vísitölu neysluverðs.

9. gr.
Stefnt skal að því að boða til sérstaks listamannaþings eigi sjaldnar en þriðja hvert ár, og þá hvort heldur sem er í tengslum við aðalfund eða aðra viðburði.

10. gr.
Breytingar á lögum BÍL verða ekki gerðar nema á lögmætum aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Aðildarfélögin, stjórn og einstakir stjórnarmenn geta gert tillögur til lagabreytinga. Allar tillögur um lagabreytingar, svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal undir atkvæði á aðalfundi skulu boðaðar í dagskrá fundarins.

11. gr.
Ef aðildarfélag hættir störfum, eða sameinast öðru, fellur sjálfstæð aðild þess að BÍL sjálfkrafa niður. Klofni aðildarfélag, hljóta hin nýju félög ekki sjálfkrafa aðild, heldur ber þeim að segja sig úr BÍL og sækja um á nýjum forsendum.
Sinni aðildarfélag ekki stjórnarstörfum í eitt ár milli aðalfunda og greiði ekki aðildargjald, er heimilt að vísa því úr BÍL, með 2/3 hluta greiddra aðkvæða á aðalfundi.

12. gr.
Stjórn BÍL ber að varðveita fundargerðir stjórnarfunda og aðalfunda og afhenda Þjóðskjalasafni til varðveislu með reglubundnum hætti og ekki sjaldnar en með fjögurra ára millibili.
Hætti BÍL störfum skal afhenda Listaháskóla Íslands eigur þess til varðveislu.