Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna lýsir yfir áhyggjum af kjörum listamanna á Íslandi. Stærsti hluti þeirra er sjálfstætt starfandi og býr við lítið starfsöryggi. BÍL hvetur hið opinbera til að kortleggja stöðu þessa hóps og byggja betur undir hann, til að mynda með atvinnuhvetjandi launatryggingakerfi að norrænni fyrirmynd, hækkun listamannalauna og fjölgun úthlutaðra mánaða. Þá þarf að tryggja að keðjuábyrgð sé virk, t.d. þegar menningarstofnanir kaupa verk listafólks af framleiðendum.

Einnig hvetur fundurinn hið opinbera til að gera úttekt á menningarstofnunum sem fá fjárveitingar úr opinberum sjóðum með það fyrir augum að sjá hvernig fjárfesting í menningu, listum og skapandi greinum gagnast listamönnum beint. Brýnt er að kanna hversu stór hluti fjárfestinga hins opinbera fari beint í listina og listamenn og hve stór hluti fari í yfirbyggingu og umsýslu. Það hlýtur að vera tilgangur með framlagi úr opinberum sjóðum í listir og menningu að sem stærsti hluti fjármagns fari í frumsköpun og fólkið sem sinnir menningarstarfi, þ.e. listamennina, en ekki yfirbyggingu.