Ávarp Anne Teresa De Keersmaker:
Mér finnst dans hylla það sem gerir okkur mennsk.
Er við dönsum notum við líkama okkar á mjög náttúrulegan hátt, hreyfanleiki líkamans og öll skilningarvitin tjá gleði, sorg, það sem er okkur kært. Fólk hefur alltaf dansað til að fagna lykilaugnablikum lífsins og líkamar okkar bera minningu allrar mögulegrar mannlegrar reynslu. Við getum dansað ein og við getum dansað saman. Í dansi getum við deilt því sem sameinar okkur og því sem skilur okkur hvort frá öðru. Fyrir mér er dans leið til hugsunar. Með dansi getum við líkamnað hinar óhlutbundnustu hugmyndir og þannig afhjúpað hið ósýnilega, hið ónefnanlega. Dans er hlekkur milli manna, tenging himins og jarðar. Við berum heiminn í líkama okkar. Þegar allt kemur til alls held ég að hver dans sé hluti af stærri heild, dansi sem á ekkert upphaf, engan endi. (Þýðing Guðmundur Helgason)
Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl var kynntur til sögunnar árið 1982 af Alþjóða leikhússtofnuninni (ITI) innan UNESCO. Markmið dagsins er að auka sýnileika dansins í samfélagi okkar, sýna fram á mikilvægi hans og hvetja stjórnvöld til þess að veita dansinum þann stuðning sem honum ber á öllum stigum skólakerfisins. Dansdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur um heim allan síðan 1982 og á hverju ári er fengin mikilsmetinn aðili úr dansheiminum til þess að skrifa ávarp/skilaboð dansdagsins hverju sinni.
Í ár er ávarpið skrifað af hinni belgísku Anne Teresa De Keersmaker sem samdi sitt fyrsta dansverk, Asch árið 1980 en hún hafði þar áður numið dans við MUDRA dansskólann og Tisch School of the Arts í New York. Árið 1982 var svo verkið Fase, four movements to the music of Steve Reich frumsýnt, eitt áhrifamesta verk þess tíma. Árið 1983 stofnaði De Keersmaker, Rosas dansflokkinn um leið og hún samdi dansverkið Rosas danst Rosas. Hún einblínir í verkum sínum mikið á tengsl dans og tónlistar. Hún hefur notað tónlist tónskálda frá fjölmörgum tímabilum. Á meðan Rosas hafði aðsetur sitt við La Monnaie leikhúsið (1992-2007) leikstýrði De Keersmaker nokkrum óperum. Tengsl dans og orða er annar þráður sem liggur í gegnum verk hennar. Nýjustu verk hennar einkennast af samvinnu við aðra listamenn. Árið 1995 stofnaði hún P.A.R.T.S. dansskólann í samvinnu við La Monnaie.