Í dag var haldinn árlegur samráðsfundur stjórnar BÍL og menningarmálaráðherra. Hér má sjá minnisblað sem stjórn BÍL lagði fram sem grundvöll umræðunnar:

Nokkur þeirra mála sem BÍL tók upp á samráðsfundi í mars 2010 hafa verið leyst eða sett í farveg;

Kortlagning skapandi greina: Starfshópur hefur fengið það verkefni að gera tillögur um hvernig bæta megi starfsumhverfi skapandi greina og nýta þau tækifæri sem til staðar eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun og styðja við útflutningsstarfsemi. BÍL væntir mikils af þessari vinnu.

Tónlistarhús: Listráð hefur tekið til starfa með þátttöku fagfélaga tónlistarfólks.

Fjárhagsleg afkoma BÍL: Með rekstrarframlagi í ár að upphæð 2,4 milljónir króna hefur verið horfið frá niðurskurði til BÍL og því er rekstrarumhverfið aftur svipað og það var 2009. Það ber að þakka.

Þau verkefni sem stjórn BÍL vill gera að umtalsefni nú eiga sér m.a. stoð í ályktunum nýafstaðins aðalfundar BÍL og er vísað til þeirra varðandi frekari rökstuðning. Þessi verkefni eru eftirfarandi:

Fyrirkomulag opinbers stuðnings við listir og menningu: Brýnt er að auka fagmennsku og skilvirkni í úthlutunum opinberra fjármuna til lista- og menningarstarfs. Það verður best gert með því að efla sjóði þá sem hafa slíkt hlutverk skv. lögum. Mikilvægt er að úthlutað sé úr sjóðunum af fagfólki og að skipt sé um fulltrúa í stjórnum/úthlutunarnefndum með reglubundnum hætti. Fjármuni til eflingar sjóðunum er að finna innan ramma fjárlaga, þar sem fjárlaganefnd veitir á þriðja hundrað milljónum króna á yfirstandandi ári til ýmissa menningartengdra verkefna skv. umsóknum. Það fé væri betur komið í sjóðunum, þar sem úthlutun þess og eftirfylgni færi fram með faglegri hætti.

Menningarstefna: Nú eru komin tvö ár síðan BÍL hóf þátttöku í mótun stefnu í málefnum lista og menningar að frumkvæði menntamálaráðherra. Mikil vinna hefur átt sér stað, m.a. hélt BÍL fjölmennan stefnumótunarfund í apríl 2010 sem ætlað var að leggja til efnivið í opinbera menningarstefnu. Einnig hélt BÍL málþing um menningarstefnu í tengslum við nýafstaðinn aðalfund sinn. Þá hafa einstakar listgreinar mótað stefnu um tiltekin svið. Biðin eftir því að sjá þá heildstæðu framtíðarstefnu stjórnvalda, sem stefnt var að, er hins vegar orðin óhóflega löng og lýjandi.

Málefni Ríkisútvarpsins ohf: Það er mat BÍL að mikið skorti á að Ríkisútvarpið ohf standi undir lögbundnu hlutverki sínu sem þjóðarútvarp. Þjónustusamningur við stofnunina hefur ekki nokkurt gildi lengur, staða innlendrar dagskrárgerðar í sjónvarpi er afar veik og erfitt hefur reynst að eiga samskipti við forsvarsmenn stofnunarinnar. Mikilvægt er að gera breytingar á RÚV ohf í því augnamiði að efla almannaþjónustu- og menningarhlutverk stofnunarinnar. Slíkar breytingar gætu átt sér stað í einhverjum þrepum og lýsir BÍL sig reiðubúið til að koma að vinnunni við þær.

Kynning á listum og menningum erlendis: Nýstofnaðri Íslandsstofu er skv. lögum ætlað að sinna kynningu á listum og menningu erlendis. Enn er þó óljóst með hvaða hætti stofan ætlar að sinna því hlutverki. Ekki er líklegt að Íslandsstofa muni veita fjármunum til einstakra verkefna, það er hins vegar í verkahring kynningarmiðstöðva listgreinanna að sinna þeim listamönnum og listaverkum sem erindi eiga til útlanda eða í erlent samstarf. Rekstrargrundvöllur kynningarmiðstöðvanna er afar misjafn og mikilvægt að jafna hann svo þeim verði kleift að efna til samstarfs við Íslandsstofu á eigin forsendum.

Skattamál: Á vordögum 2010 setti fjármálaráðherra af stað vinnu við endurskoðun skattkerfisins. BÍL fékk fulltrúa í ráðgjafarnefnd starfshóps sem settur var á laggirnar í því augnamiði. Hluti vinnunnar komst í höfn í okt. 2010 þegar starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu. Öllum áherslumálum listamanna var skotið á frest og sagt að þau yrðu tekin fyrir í seinni hluta vinnunnar. Síðan áfangaskýrsla hópsins leit dagsins ljós hefur ekkert til starfshópsins spurst. Ekki hefur fjármálaráðuneytið heldur svarað beiðni BÍL um stuðning við þýðingu á dönskum bæklingi um skattlagningu listafólks, þrátt fyrir ítrekaðan eftirrekstur. Mikilvægt er að menntamálaráðherra beiti áhrifum sínum til að þessi vinna fari af stað á nýjan leik og hún verði leidd til lykta sem allra fyrst.

Listmenntun: Mikil átök hafa átt sér stað undanfarið um stöðu tónlistarskólanna vegna niðurskurðar í rekstri sveitarfélaganna. BÍL lítur það alvarlegum augum hversu langan tíma hefur tekið að finna lausn á áralöngu deilumáli ríkis og sveitarfélaga varðandi fyrirkomulag tónlistarnáms. Brýnt er að hraða lausn málsins og skoða einnig fyrirkomulag annars listnáms, t.d. í dansi og myndlist. Þá hlýtur að þurfa atbeina menntamálaráðuneytisins til að staðið verði við markmið aðalnámskrár í list- og verkgreinum innan almenna skólakerfisins. Varðandi listmenntun á háskólastigi þá er brýnt að Listaháskóla Íslands verði gert kleift að auka framboð á meistaranámi. Einnig er brýnt að marka stefnu um rannsóknir í listum og að LHÍ eigi aðkomu að slíkri stefnumótun.

Akademía og heiðurslaun: Aðalfundur BÍL ályktaði um íslenska akademíu sem hefði þann tilgang að nýta reynslu og færni eldri listamanna með skipulögðum hætti. Í ályktuninni er komið á framfæri hugmynd sem felur það í sér að upphafið að slíkri akademíu verði með breyttu fyrirkomulagi heiðurslauna til íslenskra listamanna. BÍL telur mikilvægt að koma umgjörðinni um heiðurslaunin á fastari fót, fjöldi þeirra verði í samræmi við þörfina, úthlutunin verði á hendi faglega skipaðrar nefndar og sjálf upphæðin ámóta hlutfall af starfslaunum listamanna og almennt gildir um eftirlaun. Hugmynd af þessu tagi verður samt ekki að veruleika nema ráðherra sé henni velviljaður.

Lottómál: Stjórn BÍL fór nýlega á fund innanríkisráðherra og endurnýjaði erindi um að settur yrði á laggirnar starfshópur sem fengi það hlutverk að endurskoða fyrirkomulag ísenska lottósins með það fyrir augum að listir og menning eignist hlutdeild í þeim fjármunum sem lottótið skapar á hverju ári. BÍL telur skynsamlegt að menntamálaráðherra eigi aðild að slíkum starfshópi þar sem bæði menningar- og íþróttamál heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.