Greinar

Markviss stjórnsýsla lista og menningar

Erling Jóhannesson og Kolbrún Halldórsdóttir: Forseti og fyrrverandi forseti Bandalags íslenskra listamanna birtu grein á Kjarnanum í aðdraganda kosninga 2021 um marksvissari stjórnsýslu lista og menningar.

Undir lok þessa kjörtímabils birti ríkisstjórnin nokkrar aðgerðir til eflingar og stuðnings menningu, listum og skapandi greinum. Bandalag íslenskra listamanna fagnar þeim, enda er um að ræða langþráðar ákvarðanir eins og að koma Listaháskóla Íslands undir eitt þak í eigin húsnæði, hefja nám í kvikmyndagerð á háskólastigi, gera átak í kynningu lista og skapandi greina á erlendum vettvangi og efla rannsóknarstarf í greinunum.

Margt gott en ýmislegt ógert

Ríkisstjórnin lagði að vísu upp með áform um ýmsar fleiri aðgerðir í upphafi ferðar og sumar af þeim hafa komist til framkvæmda að öllu eða einhverju leyti, eins og breyting á skattlagningu höfundagreiðslna, skráning hagvísa menningar og skapandi greina og aukinn stuðningur við bókaútgáfu, þó raunar hafi upphaflega verið áformað að afnema virðisaukaskatt af bókum.

Það er ástæða til að fagna ýmsu af því sem náðst hefur á stjórnartíma þessarar ríkisstjórnar og þessi sprettur undir lokin var ánægjulegur. Það standa þó ennþá út af nokkur mikilvæg verkefni sem ekki hefur tekist að koma í framkvæmd. Bandalag íslenskra listamanna harmar að ekki hafi tekist á stjórnartímanum að efla stjórnsýslu málaflokksins, að aðgerðaáætlun á grunni samþykktrar menningarstefnu hafi ekki verið birt og að efling launa- og verkefnasjóða listgreina sé ekki í höfn. Allt eru þetta atriði sem BÍL og aðildarfélög þess hafa lengi lagt hart að stjórnvöldum að framkvæma.

Heimsfaraldur í flóknu starfsumhverfi

Þetta hefur vissulega verið undarlegt kjörtímabil og flestum verkefnum verið stjórnað af dagskrárstjóra sem engin þekkti til í upphafi, Covid-19. Þetta ástand hefur verið listamönnum sérstaklega erfitt og snúið, ekki síst einyrkjum sem starfa í afar flóknu starfsumhverfi. BÍL átti í samtali við stjórnvöld um ýmis úrræði til þess að milda höggið af faraldrinum fyrir listamenn og þó einhver þeirra hafi nýst vel þá er vandi hins samsetta vinnuumhverfis í raun óleystur og bíður þeirra þingmanna, sem taka við stjórnartaumunum að loknum kosningum, að finna lausn á og færa til betri vegar. Bandalag íslenskra listamanna hefur undanfarið átt í samtali við forystufólk flokkana um málefni menningar og lista, með það að markmiði að mikilvægi málaflokksins verði viðurkennt í komandi stjórnarsáttmála og þar verði sett fram metnaðarfull markmið um að hann eflist enn frekar og dafni.

Menning og skapandi greinar í fimm ráðuneytum

Bandalag íslenskra listamanna hefur lengi haldið því fram að forsenda þess að efla málaflokkinn sé öflugri og skilvirkari stjórnsýsla og það verði best gert með stofnun sérstaks menningarmálaráðuneytis að norrænni fyrirmynd. Á undanförnum árum hefur stjórnsýslu menningar, lista og skapandi greina verið tvístrað þannig að nú skiptist hún milli fimm ólíkra ráðuneyta, sem hvert um sig hefur sjálfstæða sýn á hlutverk menningar og listsköpunar í störfum sínum og verkefnum. Þetta ráðslag veikir málaflokkinn og gerir hagsmunasamtökum eins og BÍL mjög erfitt að gæta fjölþættra hagsmuna listamanna í stjórnkerfinu. Þess vegna kalla listamenn eftir sjálfstætt starfandi ráðherra menningarmála, til að tryggja málaflokknum óhindraðan aðgang að ríkisstjórnarborðinu, sem hefur verið vandkvæðum bundið, þar sem umfangsmikil og flókin mál menntunar og skóla eru ævinlega tekin fram fyrir. Niðurstaðan er því oftast sú að HINN málaflokkur ráðherrans, þ.e. listir og menning verður útundan.

Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti

Bandalag íslenskra listamanna hefur ítrekað komið þessum sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld, allt frá árinu 2015. Ýmsir hafa tekið vel í málið, þó sumir hafi haldið því fram að sjálfstætt menningarmálaráðuneyti verði lítið og veikburða en aðrir hafa einfaldlega talið óráðlegt að fjölga ráðherrum um of. Þessar áhyggjur telur BÍL auðvelt að sefa og telur þær í raun með öllu óþarfar. Ef horft er til hinna Norðurlandanna þá eru menningarmálaráðuneytin öflugar stjórnsýslueiningar sem sinna margþættum, litríkum og mikilvægum málaflokkum menningar í löndum sínum. Hér verða ekki taldir upp einstakir málaflokkar sem norrænu menningarmálaráðuneytin sinna en fullyrt að menningarmálaráðuneyti Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur verði seint talin veikburða.

Sjálfstæð rödd við ríkisstjórnarborð

Bandalag íslenskra listamanna leggur til að stjórnmálaflokkarnir, sem nú bjóða fram krafta sína til að fara með framkvæmdavald okkar næstu fjögur árin, taki alvarlega til skoðunar að koma málefnum lista, menningar og skapandi greina fyrir í öflugu, sjálfstæðu menningarmálaráðuneyti. Sé mönnum alvara með þeim málflutningi að undirstaða framtíðarhagkerfa sé hugverkadrifið atvinnulíf sem byggi á auðlindum þekkingar og sköpunar þarf að tryggja menningu, listum og skapandi greinum stöðugleika og sjálfstæða rödd við ríkisstjórnarborðið. Við erum þess fullviss að slík ráðstöfun yrði mikið gæfuspor.

 

Listirnar og lög um opinber fjármál

Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL ritar grein í nýjasta hefti tímarits SÍM – STARA 2. tbl. 2017:

Nú eru liðnir rúmir 20 mánuðir síðan lög nr. 123/2015 um opinber fjármál voru samþykkt á Alþingi. Lögin breyta í grundvallaratriðum framsetningu fjáragafrumvarpsins og því sjónarmiði verður lýst í þessari grein að breytingin geri almenningi og ýmsum hagsmunaaðilum mun erfiðara fyrir við að kynna sér það sem liggur að baki fjárlögum ríkisins en var í tíð eldri laga um ríkisfjármál. Það stríðir gegn einu af yfirlýstum markmiðum laganna, sem er að tryggja virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár.

Bandalag íslenskra listamanna hefur það hlutverk að gæta hagsmuna listamanna og hefur í því augnamiði sérhæft sig í að skoða fjárlög íslenska ríkisins m.t.t. framlaga til lista og menningar. Í því sambandi hefur BÍL átt árleg samskipti bæði við fjárlaganefnd Alþingis og við framkvæmdavaldið um mikilvægi þess að opinber framlög til list- og menningartengdra stofnana, sjóða og verkefna séu með þeim hætti að áform um eflingu lista og menningar gangi eftir. Umsagnir BÍL til fjárlaganefndar má finna á heimasíðu BÍL.

Áform um öfluga list- og menningartengda starfsemi eru ekki einasta hagsmunamál listamanna og félaga þeirra, heldur koma þau skýrt  fram í menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013. Það atriði stefnunnar sem BÍL leggur mesta áherslu á varðar mikilvægi fjölbreytts listalífs og frumkvæðis á vettvangi listsköpunar. Til að þessir eiginleikar sköpunar fái notið sín í raun þurfa fjárframlög ríkisins til list- og menningarstofnana að endurspegla áformin, en ekki síður þarf að sinna af afli starfsemi utan stofnana, sem fjármögnuð er að stórum hluta gegnum opinbera sjóði og skilgreind verkefni.

Hvort tveggja á heima í fjárlögum íslenska ríkisins; framlög til stofnana, sem byggja framboð sitt á listviðburðum á framlagi listamana, og framlög til list- og meningartengdra sjóða þar sem listamenn sækja um starfslaun eða framlög til tilgreindra verkefna. Flestir sjóðirnir eru lögbundnir, t.d. starfslaunasjóðir listamanna, myndlistarsjóður, tónlistarsjóður, kvikmyndasjóður, bókasafnssjóður höfunda o.fl. Kerfi þetta er sambærilegt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar og ekkert alvarlegt að athuga við uppbyggingu þess eða hugmyndafræði, hins vegar hefur kerfinu verið haldið í spennitreyju takmarkaðra fjárframlaga allt of lengi.

Því hefur verið haldið fram af ábyrgum aðilum í stjórnkerfinu að framlög til lista og menningar hafi verið skorin um a.m.k. 20% eftir hrunið 2009 og hagsmunaaðilar innan listgreinanna hafa haldið því fram að niðurskurðurinn hafi ekki enn verið bættur nema að litlu leyti. Því sjónarmiði hefur ekki verði andmælt af stjórnvöldum. Að vísu má halda því fram að erfitt sé að afla upplýsinga um tölfræði lista og menningar þar sem henni er illa sinnt af opinberum aðilum á borð við stjórnarráðið og Hagstofu Íslands. Þar er gríðarlegt verk að vinna sem stjórnvöld og listamenn eru sammála um án þess að það hafi skilað sér í nægilega afgerandi aðgerðum stjórnvalda eða að fjárframlög hafi fylgt þeim vilja til úrbóta sem stjórnvöld hafa þó látið í veðri vaka.

Nýju lögin um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016 og þó markmiðið með þeim sé bætt stefnumótun til lengri tíma og tímasett töluleg markmið í fjármálum hins opinbera og efnahagsmálum almennt, þá hefur ekki tekist sérlega vel til með framsetningu þess hluta fjármálaáætlunar eða frumvarps til fjárlaga sem lítur að listum og menningu. Í fyrsta lagi eru áformin um eflingu lista og menningar, sem sett eru fram í fjármálaáætlun 2018 – 2022, ekki fjármögnuð að neinu marki í frumvarpi til fjárlaga 2018 auk þess sem upplýsingar um upphæðir til smærri stofnana, sjóða og tilgreindra verkefna,  sem fram koma í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu eru svo gloppóttar að furðu sætir. Þegar rennt er yfir yfirlitin í fylgiritinu virðist sem í tilfelli lista og menningar séu þau gloppóttari en í öðrum málaflokkum. Í öllu falli þá gagnast engan veginn þeim hagsmunaaðilum sem vilja veita stjórnvöldum hið virka eftirlit, sem skrifað er inn í lög um opinber fjármál.

Breytingarnar sem nýju lögin um opinber fjármál hafa í för með sér snerta Alþingi, ráðuneyti, stofnanir og almenning, og eru breytingarnar svo umfangsmiklar að líklegt er að þær þurfi nokkurn aðlögunartíma, en það er óásættanlegt að grundvallarupplýsingar um þennan brotakennda og viðkvæma málaflokk  listir og menning skuli ekki betur framsett en raun ber vitni. Það hlýtur að vera krafa hagsmunafla listamanna að úr þessu verði bætt á næstu vikum og hefur BÍL þegar sent erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem óskað er upplýsinga um sundurliðun, sem ætti að vera til staðar í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu en er þar ekki. Þessi skilaboð eru einnig ætluð fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem hefur haft yfirumsjón með innleiðingu laganna og lýsir því yfir í texta fjárlagafrumvarps 2018 (bls. 80) hversu víðtækt samráð þurfi að hafa við innleiðingu laganna um opinber fjármál ef vel eigi að takast. Bandalag íslenskra listamanna skorast ekki undan þeirri áskorun, við svörum erindum á netfanginu bil@bil.is

 

Starfsumhverfi listamanna í brennidepli

Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna, skrifar í KJARNANN þar sem hún hvetur stjórnmálamenn til að opna huga sinn fyrir mikilvægi listanna í samfélaginu og viðurkenna þær sem burðarstoðir í kraftmiklu og fjölbreyttu atvinnulífi um land allt.

Bandalag íslenskra listamanna er vettvangur sameiginlegra hagsmuna fagfélaga listafólks og hefur bandalagið átt í áralöngu samtali við stjórnvöld um þá hagsmuni. Í aðdraganda kosninga til Alþingis leggur stjórn BÍL sig eftir því að hitta forystufólk stjórnmálaflokkanna til að ræða helstu hagsmunamál listamanna og í síðustu viku fundaði stjórnin með fulltrúum þeirra flokka sem bjóða fram til þings á landsvísu, að undanskildum Miðflokknum og Flokki fólksins, sem ekki sendu fulltrúa til fundarins.

Í ljósi þess hve stutt er frá síðustu kosningum til Alþingis þá hafa málefnin sem listafólk óskar að ræða við stjórnmálamenn ekki breyst mikið frá samráðsfundum BÍL og frambjóðenda haustið 2016, enda komust málefnin sem þá brunnu á listamönnum hvergi á blað hjá fráfarandi ríkisstjórn. Til marks um það er stefnuyfirlýsinging þar sem talsverð áhersla var lögð á málefni tengd „skapandi greinum“ en ljóst af orðalagi og samhenginu að listirnar voru hvergi sjáanlegar í því mengi.

Málin sem stjórn BÍL leggur mesta áherslu á fyrir þessar kosningar eru eftirfarandi:
–  BÍL telur tímabært að stofna sjálfstætt ráðuneyti lista og menningar og ef það nær ekki fram að ganga þá er óhjákvæmilegt að setja á stofn formlegan samráðsvettvang þeirra fimm ráðuneyta sem með núverandi skiptingu stjórnarmálefna fara með mál tengd listum og menningu. Slíkur vettvangur þyrfti að starfa samkvæmt vel skilgreindri áætlun með mælanlegum markmiðum og tímasettum aðgerðum.
–  Þá telur BÍL nauðsynlegt að efna til formlegs samstarfs um stefnumótun í málefnum lista og menningar til 2022, en stjórn BÍL hefur unnið sóknaráætlun sem gæti orðið góður grunnur að því starfi. Þar er mælt fyrir um aukna áherslu á list- og menningartengt starf og forgangsröðun í þágu stofnana, sjóða og einstakra verkefna á listasviðinu. Í núgildandi fjármálaáætlun 2018 – 2022 virðist sem blása eigi til slíkrar sóknar en þegar grannt er skoðað þá er sáralítið að marka þau áform, þar sem þeim fylgir ekkert fjármagn auk þess sem þau eru sett fram án alls samráðs við geirann.
–  Loks leggur BÍL áherslu á baráttumál listamanna, bæði höfunda og flytjenda, að skatthlutfall vegna tekna af höfunda- og rétthafagreiðslum verði hið sama og vegna annarra eignatekna t.d. fjármagnstekna, enda er höfundaréttur eignarréttur og því um sambærilegar greiðslur að ræða.

Fundarmenn sýndu þessum áherslum BÍL skilning og töldu samtalið af hinu góða, án þess að miklu væri lofað. Reyndar má segja að allir hafi þeir tekið undir mikilvægi þess að færa skattlagningu tekna af höfundagreiðslum til þess horfs sem BÍL leggur til. Einnig virtust menn sammála um nauðsyn þess að skýra merkingu hugtaksins „skapandi greinar“ enda ekki nægilega góður bragur á því að það nái einungis yfir greinar sem geta orðið andlag vörusölu eða sölu á þjónustu t.d. í hugverka- og þekkingariðnaði eða hugbúnaðar- og tæknigreinum, eins og raunin er í stefnuyfirlýsingu fráfarandi ríkisstjórnar, en þar eru listirnar bara nefndar á einum stað í langri upptalningu í kaflanum um menntamál.

Fyrir þessar kosningar hvetur listafólk stjórnmálamenn til að opna huga sinn fyrir mikilvægi listanna í samfélaginu og viðurkenna þær sem burðarstoðir í kraftmiklu og fjölbreyttu atvinnulífi um land allt. Bandalag íslenskra listamanna er tilbúið í samstarf við stjórnvöld um átak í starfsumhverfi listafólks, sem leitt geti til þess að listum og menningu verði bættur sá niðurskurður sem varð á opinberum framlögum til geirans eftir hrun og blásið verði til sóknar í þágu lista og menningar á öllum sviðum.

 

Menningarstefna – Vegvísir stjórnvalda

Vefmiðillinn Kjarninn birti þennan pistil forseta BÍL í dag:

Að loknum kosningum til Alþingis og meðan samningaviðræður stjórnmálaflokkanna standa yfir, um það hvernig farið verður með stjórn landsmála á komandi kjörtímabili, er einmitt rétti tíminn til að yfirfara menningarstefnuna sem Alþingi samþykkti á vordögum 2013 og fól framkvæmdavaldinu að starfa eftir.

Lifandi menningarstofnanir
Í stefnunni er mikilvægi öflugra menningarstofnana undirstrikað með afgerandi hætti, þær sagðar gegna lykilhlutverki við styrkingu sjálfsmyndar þjóðarinnar og eflingu félagslegra tengsla. Stofnanirnar séu í eðli sínu þjónustustofnanir sem beri að taka mið af fjölbreytni samfélagsins í störfum sínum og dagskrá, þeim beri að gefa landsmönnum tækifæri til að njóta listsköpunar en einnig beri þeim að sinna menningarrannsóknum, söfnun, skráningu, miðlun og varðveislu menningararfsins. Í rannsóknum sínum ber stofnunum að eiga samstarf við háskólastofnanir, en þeim er líka ætlað að vera forsenda nýjunga í menningarrannsóknum og miðlun þess sem list- og menningartengdar rannsóknir leiða í ljós.

Að tikka í boxin
Ætla má að forstöðumenn þeirra menningarstofnana sem ríkið rekur í þágu þjóðarinnar séu með þvælt eintak af menningarstefnu stjórnvalda á skrifborðinu sínu, jafnvel náttborðinu og mögulega hafa þeir útbúið lista yfir áherslurnar sem þeim ber að fylgja í störfum sínum. Slíkur listi gæti þá litið einhvern veginn svona út:

  • hafa í heiðri vönduð vinnubrögð
  • áhersla á fagmennsku, fjölbreytni og gæði
  • stuðningur við frumsköpun, rannsóknir og miðlun
  • samstarf við grasrótina í menningarlífinu
  • stuðla að nýsköpun
  • greina markhópana og vinna meðvitað í því að breikka þá og víkka
  • vera eftirsóknarverður valkostur í frístundum fjölskyldna
  • áhersla á dagskrá fyrir börn og ungmenni
  • samstarf við menntastofnanir á öllum skólastigum
  • þjónusta við íbúa landsbyggðarinnar

Skyldur stjórnvalda
Menningarstefna Alþingis er ekki svo einhliða að einungis menningarstofnanirnar hafi skyldum að gegna samkvæmt henni, því hún kveður einnig á um ábyrgð ríkisins gagnvart stofnunum. Í fyrsta lagi ber Alþingi að skapa þau skilyrði sem þarf til að stofnanirnar geti staðið undir lagalegu hlutverki sínu og geti framkvæmt stefnu Alþingis í menningarmálum. Þetta þýðir með öðrum orðum tvennt; að stjórnvöldum beri að styðja við hlutverk og starfsemi stofnananna með öflugri stjórnsýslu á vettvangi ráðuneyta og að tryggja það fjármagn sem stofnanirnar þurfa til að uppfylla skyldur sínar. Í stefnunni er raunar líka getið um mögulegar hagræðingaraðgerðir, þ.e. að kannaðir verði kostir sameiningar ótilgreindra stofnana, en þó þannig að þess sé gætt að slíkt verði til þess að efla faglegt starf. Þá kveður stefnan á um skyldu stjórnvalda til að setja sér langtímastefnu í húsnæðismálum menningarstofnana.

Tækifæri stjórnmálamanna
Í aðdraganda kosninga til Alþingis voru frambjóðendur stjórnmálaflokkanna inntir eftir menningarstefnu flokka sinna á ýmsum fundum, t.d. á fjölmennum Fundi fólksins í Norræna húsinu, á sérstökum háskólafundi Listaháskóla Íslands, af samstarfsvettvangi fyrirtækja og félaga í skapandi greinum X-hugvit, á fundum með einstökum stofnunum og félagasamtökum, í fjölda pistla á vefmiðlum og greinum í prentmiðlum, auk sérstakra þátta í ljósvakamiðlunum. Þarna fengu stjórnmálamenn fjölmörg tækifæri til að hlusta á áherslur þeirra sem starfa í list- og menningartengdum greinum, innan stofnana og utan, og gafst þannig tækifæri til að ydda menningarstefnu flokka sinna. Meðal þess sem frambjóðendur flokkanna komust að var sú staðreynd að hægt hefur gengið við að framfylgja menningarstefnu Alþingis á nýliðnu kjörtímabili og mikil þörf á átaki í þeim efnum, ekki síst þeim hluta stefnunnar er varðar ábyrgð stjórnvalda. Það er ástæða þess að kallað hefur verið eftir því að málaflokknum verði safnað saman undir nýtt ráðuneyti menningarmála og gefinn sjálfstæður talsmaður við ríkisstjórnarborðið, sem þurfi ekki sífellt að gera málamiðlanir við plássfrekan málaflokk á borð við skólamál. Þessar hugleiðingar eru meðal þess sem list- og menningargeirinn treystir að sé ofarlega á baugi í viðræðum forystumanna stjórnmálaflokkanna nú þegar til stendur að finna málefnanlega samstöðu þeirra sem vilja taka að sér stjórn þjóðmálanna næstu fjögur árin.

Ráðuneyti lista og menningar

Í dag var þessi grein forseta BÍL birt á visir.is:

Í aðdraganda þingkosninga hefur Bandalag íslenskra listamanna boðið frambjóðendum stjórnmálaflokkanna til samtals um málefni lista og menningar, með það að markmiði að byggja brýr milli sjónarmiða þeirra sem eiga stærstan þátt í eflingu skapandi atvinnugreina og þeirra sem bjóða sig fram til að stýra sameiginlegum málefnum þjóðarinnar næstu fjögur árin. Ég leyfi mér að fullyrða að samtalið hafi verið gagnlegt og gefandi fyrir báða aðila.

Flókið starfsumhverfi
Þær áherslur sem BÍL talar fyrir hafa mótast af reynslu listamanna og hönnuða af starfsumhverfinu sem bíður þeirra að loknu þriggja til fimm ára háskólanámi, ef frá eru taldir þeir sem afla sér doktorsgráðu, en þeim fer fjölgandi. Það umhverfi er nokkuð flókið fyrir margra hluta sakir. Skapandi störf eru í eðli sínu frábrugðin störfum sem hægt er að mæla í viðveru starfsmanns á tilteknum vinnustað, eða í magni framleiðslu sem skilað er að loknum starfsdegi. Oft starfa listamenn og hönnuðir sem launþegar, t.d. hjá samfélagslega reknum menningarstofnunum eða á almennum vinnumarkaði. Oft eru þeir sjálfstætt starfandi, einir sér eða sem hluti af hóp, t.d. leikhóp eða hljómsveit. Stundum reka þeir starfsemi undir eigin fyrirtæki og hafa þá fleiri starfsmenn á launum við sín listrænu störf. Raunar er ekki óalgengt að listamenn séu allt í senn; launþegar, atvinnurekendur, verktakar og einyrkjar.  Það er af ásetningi sem hér eru ekki nefndir „sjálfboðaliðar“ en það er efni í aðra grein hvernig oft er ætlast til þess að listamenn leggi fram krafta sína án þess að greiðslur komi fyrir.

Tvístruð stjórnsýsla
Eins og aðrar atvinnugreinar þurfa listirnar stjórnsýslulegt umhverfi til að styðja sig við, enda um að ræða þann geira atvinnulífsins sem vex hvað hraðast í samfélagi á borð við okkar. Stjórnsýsla lista og skapandi greina hefur því miður ekki fylgt eðlilegri þróun í átt til nútímalegri stjórnarhátta. Til marks um það eru stjórnvaldsákvarðanir síðustu ára sem hafa tvístrað málaflokknum á fimm ráðuneyti. Flestar menningarstofnanir, launasjóðir listamanna og flestir verkefnatengdir sjóðir heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti, skapandi atvinnugreinar heyra undir iðnaðar- viðskiptaráðuneyti, kynning á listum og menningu erlendis heyrir undir utanríkisráðuneyti, menningararfurinn heyrir undir forsætisráðuneyti og menningarsamningar við landshlutasamtök sveitarfélaga heyra undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti.

Talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn
Hugmyndin sem BÍL leggur mesta áherslu á nú er að stofnað verði sjálfstætt menningarmálaráðuneyti og málaflokknum verði safnað saman undir forystu ráðerra, sem sé frjáls undan málamiðlunum við annan krefjandi málaflokk. Hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum eru listir og menning oftar en ekki í sjálfstæðu ráðuneyti, oft í sambýli við lýðræðismál, mannréttindamál, æskulýðsmál og málefni trúfélaga. Það er samdóma álit fagfélaga listamanna að sjálfstæður menningarmálaráðherra hafi meira svigrúm til að berjast fyrir auknu vægi lista og menningar, í nánu samstarfi við ráðherra atvinnumála, sem eðli málsins samkvæmt fer með tiltekin málefni skapandi greina. Við teljum að sjálfstætt menningarmálaráðuneyti gæti jafnvel blásið lífi í staðnaða stjórnsýslu og lagt lið þverfaglegri nálgun í málefnum stjórnarráðsins almennt. Við teljum að sjálfstæður talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn verði bandamaður í baráttunni fyrir eflingu menningarstofnana og akademíu lista og hönnunar, fyrir þróun sjóðakerfis listanna og fyrir auknum skilningi á rannsóknarstarfi og nýsköpun innan geirans.  Auk þess sem ráðherra lista og menningar myndi hafa svigrúm til að gera átak í skráningu menningartölfræði, útfærslu aðgerðaáætlunar á grundvelli menningarstefnu Alþingis, þróun miðstöðva lista og hönnunar auk stórátaks í fjölgun starfa í skapandi atvinnugreinum um land allt. Þessar hugmyndir eru nú ræddar af fullri alvöru innan stjórnmálaflokkanna og BÍL treystir því að niðurstaðan verði listum og skapandi atvinnugreinum í hag.
PS. Rétt er að taka það fram að hugmyndin kallar ekki á fjölgun ráðherra þar sem um þessar mundir starfa tveir ráðherrar í atvinnuvegaráðuneytinu, sem áður var stýrt af einum ráðherra atvinnumála.

MENNINGARTÖLFRÆÐI

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 27. september 2016:

Í grein sem Fréttablaðið birti 21.09.16 gerir aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra athugasemdir við ummæli sýningarstjóra Listasafns Íslands um skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart menningarmálum og við það að leiðarahöfundur Fréttablaðsins skuli skömmu síðar taka undir ummælin og samsinna þeim. Í grein aðstoðarmanns ráðherra er ummælunum mótmælt og þau hrakin með því að gera samanburð á framlögum ríkisins til tiltekinna menningarstofnana í tíð tveggja ríkisstjórna, á sex ára bili, þ.e. frá fjárlögum 2010 til fjárlaga yfirstandandi fjárlagaárs 2016.

Bandalag íslenskra listamanna hefur gegnum árin fylgst með framlögum til lista og menningar og átt um þau mál samtöl við stjórnvöld, bæði löggjafarvaldið á Alþingi og framkvæmdavaldið. Í þeim umsögnum sem BÍL hefur sent fjárlaganefnd Alþingis og í ráðgjöf til stjórnvalda eftir að fjárhagur ríkisins hrundi, hefur verið lögð áhersla á að viðmiðunarár alls samanburðar sé fjárlagaárið 2009, í ljósi þess að það voru síðustu marktæku fjárlög sem Alþingi samþykkti.
Vegna þessa er nauðsynlegt að gera athugasemd við þá ákvörðun aðstoðarmanns ráðherra að nota fjárlög 2010 sem viðmið í sínum samanburði, árið sem ríkissjóður var nánast gjaldþrota og stjórnvöld skáru niður framlög til allrar opinberrar starfsemi svo undan sveið. Það er almennt viðurkennt að listir og menning hafi orðið mjög harkalega úti í þeim niðurskurði og að hægast hafi gengið að bæta menningargeiranum áfallið af niðurskurðinum.

Það eru ýmsar aðferðir færar til að reikna samanburð af því tagi sem hér um ræðir, þ. á m. sú sem notuð er í grein aðstoðarmanns ráðherra, að bera saman framlög á verðgildi hvers árs en vísa til hækkunar á verðlagsforsendum fjárlaga á tímabilinu, sem var 25,5% á milli áranna 2010 og 2016. En ef viðmiðunarárið hefði verið 2009 hefði hækkunin orðið 31,7%, sem gefur allt aðra niðurstöðu.

Í útreikningum sem BÍL leggur til grundvallar sínum samanburði hefur viðmiðunarárið verið fjárlagaárið 2009 og tölurnar framreiknaðar með verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands. Þá lítur dæmið svona út (allar upph. í millj. kr.):
Þjóðleikhúsið 2009 719,8 – framreiknað 920,9 – 2016 982,6 – hækkun 6,7%
Sinfóníuhljómsveit Íslands 2009 534,8 – framreiknað 684,2 – 2016 929,2 – hækkun 35,8%
Kvikmyndasjóður 667,7 – framreiknað 854,2 – 2016 844,7 – lækkun 1,1%
Íslenska óperan 175,7 – framreiknað 224,8 – 2016 195,9 – lækkun 12,8%
Bókmenntasjóður 50 – framreiknað 63,9 – 2016 96,6 – hækkun 51,1%
Þjóðminjasafn 463,6 – framreiknað 593,1 – 2016 687,7 – hækkun 15,9%
Listasafn Íslands 165,4 – framreiknað 211,6 – 2016 211,5 – lækkun 0,1%

Varðandi Listasafn Íslands er nauðsynlegt að gera þá athugasemd að fjárlagaárið 2013 var fjárframlag Listasafns Sigurjóns Ólafssonar (tæpar 30 milljónir) sett undir fjárlagalið Listasafns Íslands, tölurnar milli áranna 2010 og 2016 eru því ekki sambærilegar, í útreikningnum hér að framan hefur framlagið til LSÓ verið undanskilið. Varðandi hækkað framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður að hafa í huga flutning sveitarinnar í Hörpu 2011 þar sem húsaleiga er margfalt stærri útgjaldaliður en áður var og varðandi Bókmenntasjóð er rétt að taka fram að 2013 var stofnuð Miðstöð íslenskra bókmennta sem hefur önnur og fjölbreyttari verkefni en bókmenntasjóður áður og er hún fjármögnuð af sama fjárlagalið.

Hagsmunasamtök og stofnanir í menningargeiranum hafa árum saman þrýst á um nákvæmari skráningu opinberra upplýsinga um listir og skapandi greinar. Því miður hefur ekki tekist að fylgja þróuninni í nágrannalöndum okkar eftir varðandi skráningu menn­ingar­tölfræði. Skoðanaskipti af því tagi sem hér fara fram eru til marks um þörfina á reglulegri miðlun slíkra útreikninga og samræmdri aðferðafræði.

Stjórnsýsla skapandi greina

Í dag birti Fréttablaðið þessa grein eftir forseta BÍL Kolbrúnu Halldórsdóttur:
BÍL – Bandalag íslenskra listamanna hélt málþing í tengslum við aðalfund sinn fyrr á þessu ári þar sem fjallað var um stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu og spurt hvort breytinga sé þörf til að skapandi greinar sæki fram og eflist. Meginspurning málþingsins var sú hvort tímabært gæti verið að slíta tengslin milli menntamála og menningarmála með því að stofna sérstakt menningarmálaráðuneyti.
Ástæða þess að forystumenn listafólks telja þörf á að leita svara við þessari spurningu er sú að þeir telja að listirnar fari halloka í samkeppninni um athygli ráðherra og embættismanna, sem hafa jafn umfangsmikinn og aðkallandi málaflokk og menntamálin á sinni könnu. Það sé því full þörf á því að listir og menning eigi sér sjálfstæðan málsvara við ríkisstjórnarborðið, ráðherra sem getur einbeitt sér að baráttunni fyrir bættu umhverfi og skilvirkari stjórnsýslu menningar og lista.

Sóknaráætlun
Stjórnvöld hafa lengi haft uppi áform um að efla skapandi greinar, auka hlut þeirra í atvinnulífinu og fjölga atvinnutækifærum í greinunum um land allt. Erfitt hefur reynst að hrinda þeim áformum í framkvæmd og mikið skortir á að listir og menning hafi endurheimt þann fjárhagslega stuðning og þann styrk sem þær nutu fyrir hrun. Þar kemur margt til, m.a. viðkvæmur fjárhagsgrunnur menningarstofnana og erfiðleikar við að byggja upp skilvirkt stoðkerfi fyrir þann geira atvinnulífs sem reiðir sig á skapandi hugsun. Bandalag íslenskra listamanna samþykkti á ársfundi sínum sóknaráætlun í skapandi greinum og afhenti hana formlega mennta- og menningarmálaráðherra á samráðsfundi BÍL og ráðuneytisins í apríl sl. Áætlunin var einnig send þingmönnum til kynningar og er aðgengileg á vef BÍL. Hún er í 8 liðum og greinir helstu aðgerðir sem ráðast þarf í til að markmið um uppbyggingu greinanna náist.

Tvístrað milli ráðuneyta
Síðan 2010 hafa stjórnmálamenn sýnt áhuga á því að kortleggja umfang skapandi atvinnugreina og bera það saman við aðra geira atvinnulífsins. Gerð var tilraun til að mæla hagræn áhrif greinanna og í ljós kom að umfang þeirra hér á landi er sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Í framhaldinu var skipaður starfshópur sem skilaði skýrslu 2012 þar sem lagðar voru fram tillögur um með hvaða hætti skynsamlegast væri að vinna að eflingu greinanna. Síðan hefur lítið gerst annað en það að málaflokknum hefur verið tvístrað milli ráðuneyta.
Þannig hefur umsýsla menningararfsins verði flutt til forsætisráðuneytis, málefni hönnunar að mestu flutt yfir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og menningarsamningar við landshlutasamtök sveitarfélaga fluttir í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Kynningarmál menningar og lista heyra svo að hluta undir utanríkisráðuneyti, sem fer með málefni Íslandsstofu og menningarkynningar í sendiráðum. Þessar aðgerðir stjórnvalda samrýmast sannarlega ekki áformum um aukinn sýnileika skapandi greina eða eflingu starfsumhverfis innan geirans.

Fjölbreytt tækifæri
Það er mat Bandalags íslenskra listamanna að eina leiðin til að efla þær atvinnugreinar sem byggja á listum og menningu sé að koma málaflokknum undir eitt og sama ráðuneytið, ráðuneyti menningar og lista. Einungis þannig takist okkur að feta í fótspor nágrannaþjóða okkar, sem beina nú sjónum í auknum mæli að skapandi greinum þegar horft er til uppbyggingar atvinnutækifæra og fjölbreytni í atvinnulífi. Í því sambandi er rétt að geta þess að listir og menning eru ein mikilvægasta stoðin í uppbyggingu ferðaþjónustu þegar til lengri tíma er litið, því þótt ferðamenn þurfi vissulega að kaupa sér aðgang að flugsætum og hótelherbergjum þá eru það ekki seglarnir sem draga ferðamenn til landsins. Í allri markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannalandi leikur náttúra Íslands aðalhlutverkið en ævinlega í bland við mannlíf, menningu og listir. Heildarsamtök listamanna óska nú eftir því að ráðamenn skoði af alvöru þann möguleika að stofna sérstakt menningarmálaráðuneyti til hagsbóta fyrir þennan ört vaxandi geira atvinnulífsins en ekki síður til að efla listsköpun og menningarstarf í þágu framtíðarkynslóða.

Giskað á fiska

SB-704019997Sigtryggur Baldursson tónlistarmaður og forstöðumaður ÚTÓN skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

Undanfarin misseri hefur margt verið skrifað og ekki síður skrafað um skapandi greinar á Íslandi, enda ört vaxandi starfsgreinar sem velta miklu, skapa störf og afleidd störf og hafa raunveruleg hagræn áhrif.

Hönnun, tónlist, myndlist, tölvuleikir, bókmenntir, sviðslistir og kvikmyndir mynda kjarnann í þessum greinum og saman mynda þau samtök skapandi greina.

Í fersku minni er Hönnunarmars sem var nýlega haldinn með 140 sýningum úti um allar koppagrundir, yfir 300 hönnuðir sýndu eigin hönnun, allt frá minnstu skartgripum til borgarskipulags.

Bókmenntirnar dafna og sækja á nýja markaði og myndlistin líka, kvikmyndagerð á Íslandi er með miklum blóma þótt fjármagn þurfi oft að sækja út fyrir landsteinana. Þúsundir iðkenda EVE-online flykkjast árlega til landsins á „fanfest“ með tilheyrandi umstangi.

Þegar umfang greinanna eykst verður æ nauðsynlegra að taka saman hagtölur fyrir þær til þess að geta betur séð hvað er að gerast í heildarmyndinni. Við sjáum þetta glöggt með ferðaþjónustuna sem hefur verið að berjast fyrir rannsóknarmiðstöð sem komin er í gang á Akureyri og hefur verið að skila veigamiklum hagtölum fyrir greinina.

Hvað tónlistina varðar höfum við séð gífurlegar breytingar á umhverfi okkar síðustu árin, með minnkandi fjárfestingum frá plötufyrirtækjunum vegna minnkandi plötusölu, höfum við séð lifandi tónlistarflutning margfaldast og okkar listamenn streyma inn á stærra markaðssvæði. Milli áranna 2012 og 2013 tvöfaldaðist tónleikahald íslenskra tónlistarmanna erlendis, frá 718 tónleikum á ári í rúmlega 1460. Þetta eru sláandi tölur, en hvað þýða þær hagfræðilega? Hver er heildarveltan á öllu þessu tónleikahaldi? Mikill uppgangur er á íslenskum tónlistarhátíðum líka, Iceland Airwaves veltir meira en einum og hálfum milljarði á viku í nóvember, hefur áhrif á gengi krónunnar, það sjáum við vegna þess að ÚTÓN gerir könnun á því – en heildarmyndin fyrir skapandi greinar, það er erfitt að sjá. Hagstofan tekur ekki saman þessar tölur. Við erum enn að giska, og það eru ekki góð vísindi. Nú síðast að skapandi greinar velti meiru en ál á ársgrundvelli. Hér þarf einhverjar alvöru tölur. Ekki ágiskanir.

Í nýlegri grein í Iceland Review kemur fram að sú jákvæða ímyndarbreyting Íslands í Bandaríkjunum, sem rakin er til vinsælda íslenskrar tónlistar, hefur haft mjög jákvæð áhrif á sölu fiskafurða Íslendinga á Bandaríkjamarkaði. Hljómar lygilega, ekki satt? Það þarf að vera hægt að skoða þetta nánar og fleira sem væri mun auðveldara að mæla.

Merkilegt nokk þá er Rannsóknarmiðstöð skapandi greina til, en hún er ekki virk. Vegna þess að hana skortir rekstrarfé. R.S.G. (áður Rannsóknaráherslusvið menningar og lista) var stofnað innan Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2004.

Rannsóknum á skapandi greinum á Íslandi hafa verið takmörk sett vegna aðgengis að hagtölum. Með tilkomu fyrirtækjasviðs Hagstofu hefur aðgengi að gögnum um skapandi greinar þó batnað til muna, en þó er ekki nema hálf sagan sögð því greining og vöktun á gögnum í þágu þeirra sem vinna í skapandi greinum og einnig í þágu stjórnvalda verður ekki unnin hjá Hagstofu.  Með rannsóknarmiðstöð sem sérhæfir sig í rannsóknum á skapandi greinum verða upplýsingar um skapandi greinar á einum stað, greindar og gerðar aðgengilegar.

Nú er mál að drífa þetta í gang með sameiginlegu átaki ríkis, borgar og greina, öllum til hagsbóta. Hagstofan mælir vel allt sem lýtur að fiski og landbúnaði. Við hjá skapandi greinum þurfum að hætta að giska á fiska.

Af hverju viljiði ekki peningana okkar?

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:

MO_greinEkki ætla ég að þykjast vita hvernig á að stýra ríkisfjármálum, en eitt veit ég að peningar eru jafnverðmætir sama hvaðan þeir koma, svo fremi sem þeirra hefur verið aflað með heiðarlegum og virðingarverðum hætti. Og þó ég sé eins langt frá því að vera fjármálasnillingur og hugsast getur þá veit ég þó að það borgar sig að fjárfesta í arðvænlegum verkefnum.
Hvernig stendur þá á því að þrátt fyrir að stjórnvöldum hljóti að vera orðið löngu ljóst (nógu oft er nú búið að segja þeim það) að fjárfesting í kvikmyndagerð margborgar sig þá heykjast þau á að veita íslenskri kvikmyndagerð þann stuðning sem henni er nauðsynlegur eigi hún á annað borð að eiga sér einhverja alvöru framtíð. Viljiði ekki peningana okkar? Afhverju ekki?

Fimmfalt til baka
Eftir að hafa verið hafður í svelti árum saman hillti loks undir betri tíma þegar ákveðið var að stórauka framlag til Kvikmyndasjóðs árið 2013. Gerð var framtíðaráætlun um stigvaxandi aukningu til næstu ára, enda sýndu niðurstöður skýrslna sem gerðar höfðu verið um hagræn áhrif kvikmyndagerðar svart á hvítu að virðisauki íslenskrar kvikmyndagerðar er umtalsverður – hver króna sem ríkið veitir til kvikmyndagerðar skilar sér fimmfalt til baka sem hreinar tekjur. Beint í ríkiskassann. Þessar tölur eru meira að segja varlega áætlaðar.

Í síðustu fjárlögum var Kvikmyndasjóður skertur um 40% og nú, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fyrir, stendur til að halda honum áfram undir fátækramörkum. Það þarf ekki að tíunda hversu mikið áfall þetta er fyrir greinina og alveg ljóst að afleiðingarnar verða mjög slæmar. Strax í ágúst á þessu ári var Kvikmyndasjóður orðinn tómur.

Þeir sem eiga verkefni sem þegar eru til meðferðar hjá sjóðnum sem og þeir sem eru tilbúnir að sækja um styrki verða því að bíða fram yfir áramót eftir frekari afgreiðslu. Ef upphæðin sem Kvikmyndasjóði er ætluð samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður ekki lagfærð er alveg ljóst að fjöldi verkefna kemst ekki af stað. Sum munu kannski frestast um óákveðinn tíma en önnur daga uppi. Verkefni sem annars myndu skapa ríkinu framtíðartekjur. Bíómyndir og sjónvarpsþættir og heimildamyndir sem almenningur fær aldrei að sjá. Afhverju viljiði ekki þessa peninga? Ég bara skil það ekki.

Ég hef meðvitað haldið aftur af mér að minnast á menningarlegt gildi, heimildagildi (því við erum jú skrásetjarar sögunnar) og fleira sem stundum er kallað óáþreifanleg verðmæti. En nú er ég búin að gera það. Ástæðan fyrir því að ég gerði það ekki fyrr er sú að það er stundum eins og fólkið sem heldur um budduna hreinlega taki ekki mark á neinu nema það sé sett í efnahagslegt samhengi. Eins og að um leið og hugtök eins og menningarlegt gildi eða andleg verðmæti heyrist þá slái það skyndilegt og algert heyrnarleysi. Þess vegna endurtek ég spurninguna: Afhverju viljiði ekki peningana okkar?!

Ríkisútvarp okkar allra – til framtíðar

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, segir árangur almannaútvarps eins og RÚV mældan af trúverðugleika hans og trausti þjóðarinnar. Hann kynnti framtíðarsýn sína fyrir Ríkisútvarpið í grein sem birtist á samfélagsmiðlum og í Fréttablaðinu í dag:

magnus01Ríkisútvarp okkar allra – til framtíðar
Útvarpið á að vera háskóli alþýðunnar, leikhús hennar, kirkja og sönghöll, heimild nýrra tíðinda og sannrar frásögu, skemmtistaður hennar og athvarf úr einveru og fásinni.“  Svo mælti Helgi Hjörvar, formaður útvarpsráðs, í árdaga útvarpsins fyrir meira en áttatíu árum . Þessi grundvallarmarkmið Ríkisútvarpsins hafa í grunninn ekkert breyst þrátt fyrir gífurlegar tækniframfarir og samfélagsbreytingar frá fyrstu útsendingu árið 1930.

Hvers vegna Ríkisútvarp?
Ríkisútvarpið hefur frá upphafi notið víðtæks stuðnings almennings sem ein helsta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar og það hefur fylgt henni á mikilvægustu stundunum í sögu hennar. Hlustunar-, áhorfs- og traustsmælingar sýna að staða Ríkisútvarpsins er sem fyrr sterk, sama hvort borið er saman við fjölmiðla hérlendis eða erlendis. Þjóðir Evrópu hafa valið að hafa almannafjölmiðil líkt og við. Almenn sátt ríkir um mikilvægi slíkra fjölmiðila, ekki síður nú en fyrir næstum hundrað árum. Hvers vegna? Jú, almannafjölmiðlar, líkt og Ríkisútvarpið, hafa ákveðnum skyldum að gegna umfram einkarekna fjölmiðla, skyldum við hlustendur og áhorfendur. Allir samfélagsþegnar eiga rétt á þjónustu Ríkisútvarpsins, jöfnu aðgengi að óhlutdrægum fréttum, gagnrýninni umræðu og gæðaefni á íslensku  sem erindi á við samtímann. Öflugt Ríkisútvarp er enn jafn mikilvægt þrátt fyrir blómlega flóru nýrra samskiptaforma og einkarekna fjölmiðla á markaði. Ríkisútvarpið þjónar almenningi og stuðlar að jöfnuði, sanngirni og samkennd í  stóru sem og smáu. Við viljum að Ríkisútvarpið sé sameinandi afl í æ sundurleitara þjóðfélagi.

Hvert stefnum við?
Framtíðarsýn stjórnar og starfsfólks er að Ríkisútvarpið verði áfram öflugur almannamiðill í þjónustu þjóðarinnar allrar, með aukinni áherslu á menningar- og samfélagshlutverk hans. Við viljum vera virkur þátttakandi í að byggja upp og styrkja samfélag okkar, styðja  og auka þekkingu, hæfni og lífsgæði einstaklinga og þjóðfélagshópa. Við viljum sinna menningu þjóðarinnar enn betur en gert hefur verið,  í útvarpi,  sjónvarpi og á vef. Við erum staðráðin í að efla innlenda dagskrárgerð. Sér í lagi þarf að bæta framboð á íslensku leiknu efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu árum gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái. Einnig er nauðsynlegt  að gera átak í varðveislu þjóðararfsins og miðlun hans úr gullkistu Ríkisútvarpins. Þar er samtímasaga Íslendinga skráð og að henni verður að hlúa. Við höfum þegar hafið undirbúning að úrbótum á þjónustu við landsbyggðina og stefnum að auknum fréttaflutningi og dagskrárgerð utan höfuðborgarsvæðisins samhliða öflugri svæðismiðlun. Þannig styrkjum við hlutverk RÚV sem útvarp allra landsmanna. Þegar hafa verið stigin stór skref í átt til meira jafnréttis í starfseminni – en betur má ef duga skal enda viljum við að Ríkisútvarpið sé í fararbroddi í jafnréttismálum.

Forsjálir hugsjónamenn stóðu að stofnun Ríkisútvarpsins fyrir meira en áttatíu árum. Þá var byggt upp viðamikið dreifikerfi sem síðan hefur gegnt lykilhlutverki í miðlun dagskrárefnis auk þess sem það hefur verið mikilvægur hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar. Á næstu árum þarf að gera úrbætur á dreifikerfinu til að það geti þjónað nýjum kynslóðum. Jafnhliða tæknilegri uppbyggingu þarf að huga að faglegum vinnubrögðum og starfsháttum RÚV og opna samtalið við þjóðina um Ríkisútvarp okkar allra.

Útvarpsgjaldið stendur undir rekstrinum
Ríkisútvarpið er eign þjóðarinnar og allir landsmenn hafa skoðun á því hvernig það getur best þjónað skyldum sínum. Allt frá stofnun Ríkisútvarpsins hefur reglulega verið tekist á um rekstrar- og tilvistargrundvöll þess á vettvangi stjórnmálanna. Árleg óvissa um fjármögnun hefur sett mark sitt á reksturinn, tækniþróun og stefnumótun til langs tíma. Mikið hefur verið hagrætt í starfsemi Ríkisútvarpsins á síðustu árum og á þessu ári hefur verið leitað leiða til að létta á skuldsetningu félagsins sem á rætur sínar m.a. í gömlum lífeyrissjóðsskuldbindingum. Stjórn RÚV hefur talið að samræmi þurfi að vera á milli þeirrar þjónustu sem vænst er af félaginu og þeirra þjónustutekna sem er ætlað að standa undir þeirri þjónustu.

Á undanförnum árum hefur ríkið árlega tekið til sín hluta af útvarpsgjaldinu og nýtt í óskyld verkefni þrátt fyrir óbreyttar lagakvaðir um víðtæka þjónustu og skuldbindingar RÚV. Útvarpsgjaldið sem hver einstaklingur greiðir er nú sambærilegt að krónutölu við það sem  þekkist hjá öðrum norrænum ríkisfjölmiðlum. Það er nokkru lægra en hjá BBC og fleiri sambærilegum ríkisstöðvum í Evrópu. Stjórn RÚV hefur óskað eftir því að félagið fái útvarpsgjaldið óskert eins og kveðið er á um í útvarpslögum. Þannig mætti tryggja áframhaldandi öflugt Ríkisútvarp, með sambærilegar skyldur og hlutverk og verið hefur. Óbreytt útvarpsgjald dugir til að standa undir enn öflugri dagskrá og til að bæta dreifikerfið svo það nái til alls landsins. Ekki er þörf á að hækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er eða veita sérstök fjárframlög til RÚV.

Traust og metnaður
Aðhald og ábyrgð í rekstri, samhliða vönduðum starfsháttum, er eitthvað sem við ætlumst til af öllum opinberum fyrirtækjum. Árangur almannafjölmiðils eins og Ríkisútvarpsins verður hins vegar á endanum mældur af trúverðugleika hans og því dýrmæta trausti sem þjóðin, eigendurnir, ber til hans. Til að viðhalda því trausti þarf Ríkisútvarpið að eiga daglegt samtal við þjóðina, efna til stórhuga og metnaðarfullra verka og standa ávallt vaktina þegar mikið liggur við. Ríkisútvarpið á að virkja samtakamátt þjóðarinnar á stórum stundum, setja ný viðmið og skara fram úr, leiða nýsköpun og taka áhættu, og síðast en ekki síst á Ríkisútvarpið að vera forvitin, gagnrýnin, gagnvirk og sjálfstæð stofnun. Tilgangurinn er í raun enn hinn sami og útvarpsstjóri, Vilhjálmur Þ. Gíslason, lýsti við upphaf útsendinga Sjónvarpsins fyrir fjörutíu og átta árum, „að tengja þjóðir og einstaklinga í skilningi og friði, vera vettvangur heilbrigðra skoðanaskipta, leiksvið margra lista, verkstæði fjölbreyttra framkvæmda, staður stórra drauma.“ Svo að þessi sýn megi lifa þurfum við að standa áfram vörð um Ríkisútvarp okkar allra.

Page 1 of 712345...Last »