Í dag er alþjóðlegi leikhúsdagurinn og að vanda hefur Leiklistarsamband Íslands forgöngu um ávarp í tilefni dagsins. Ávarpið í ár flytur Stefán Baldursson, leikstjóri og óperustjóri:

Það er merkilegt að í hinni efnahagslegu kreppu sem ríkt hefur á Íslandi síðustu misseri, hefur listin blómstrað sem aldrei fyrr. Aðsóknarmet eru sett í leikhúsunum, gestafjöldi á tónleika og myndlistarsýningar eykst og fleiri bækur seljast en nokkru sinni fyrr. Það hefur sýnt sig að fólk forgangsraðar öðruvísi en áður og leitar í vaxandi mæli á vit lista og menningar.

Í kreppu er mesta ríkidæmi þjóðarinnar fólgið í mannauðnum. Fólk hristir upp í eigin vanahugsun og veitir athygli verðmætum, sem stundum vildu gleymast í þeirri veraldlegu græðgisvæðingu, sem hér herjaði um árabil. Sterkt listalíf á atvinnugrunni hjálpar okkur meira en nokkuð annað að endurreisa ímynd okkar því það veitir fullnægju og raunverulega tilfinningu fyrir ríkidæmi sem mölur og ryð fá ekki grandað. Við erum nefnilega auðug þjóð í menningarlegu tilliti. Hér er atvinnumennska í listum á háu stigi enda grundvallaratriði. Hlúð hefur verið að listmenntun um áratuga skeið og með tímanum hefur uppskeran orðið ríkuleg.

Í flestum listgreinum erum við engir eftirbátar annarra þjóða. Íslensk leiklist er orðin gjaldgeng erlendis. Verk íslenskra leikskálda eru þýdd og leikin á erlendum tungum. Íslenskir leikstjórar og leikhúsfólk er eftirsótt í nágrannalöndunum. Þannig hefur hróður íslenskrar leiklistar borist víða síðustu ár enda íslenskt leikhús ótrúlega fjölbreytilegt og metnaðarfullt. Erlent leikhúsfólk, sem af og til ratar hingað á fundi og ráðstefnur undrast mjög gæði íslenskra leiksýninga og þær sýningar, sem sýndar eru á erlendri grund vekja oftar en ekki óskipta athygli og vinna iðulega til verðlauna. Á leiklistarhátíðum, þar sem kostur gefst á að bera leiklist okkar saman við list annarra þjóða, má ljóst vera að íslensk leiklist stendur leiklist stórþjóðanna síst að baki.

Það er aldrei mikilvægara en í kreppuástandi að listirnar bjóði upp á þá andlegu uppörvun, sem góðir listviðburðir fela í sér. Yfirvöld og almenningur hafa borið gæfu til að styðja og efla þróun hinna ýmsu listgreina. Í leikhúsinu hafa orðið stórstígar framfarir síðustu áratugi. Kannski er stærsti ávinningurinn af áratuga atvinnumennsku í leiklist sá, að augu bókmenntaþjóðarinnar hafa smámsaman opnast fyrir því að skáldverk sviðsins lýtur öðrum lögmálum en skáldverk orðsins. Leiklistin er nefnilega sjálfstæð listgrein.
Gott handrit er að vísu ómetanlegt og oft nauðsynlegur grunnur að góðri sýningu en er engu að síður aðeins einn þáttur af mörgum. Handrit höfundar er efniviður til úrvinnslu fyrir leikstjóra og listafólkið sem með honum starfar, hvati til frekari sköpunar sem ekki síður höfðar til sjónrænna og leikrænna þátta. Það er því ekki til nein endanleg sviðstúlkun á góðu leikverki – það tekur á sig nýjar myndir á mismunandi tímum.

Leikhúsið er bæði háskóli og fjölleikahús, sem opnar okkur innsýn í ótrúlegustu svið mannlífsins. Það sýnir okkur lífið eins og því var lifað, eins og því er lifaðog eins og hægt væri að lifa því. Leikhúsið er samviska okkar. Þegar best lætur getur það gert okkur að örlítið betri manneskjum. Leikhúsið er áttaviti sem hjálpar okkur að rata í lífinu. Þannig getur leikhúsið hjálpað ráðvilltum nútímamanninum að finna sjálfan sig. Við upplifum atburði leiksins á vitsmunalegum og tilfinningalegum forsendum og förum í gegnum þann sálarinnar hreinsunareld sem til forna var nefndur kaþarsis og grísku harmleikirnir stefndu að. Leikhúsið er því ekki síst mannræktarstöð.

Nýlegar rannsóknir sýna að hinar svokölluðu skapandi greinar, listir og menning, skila miklum fjárhagslegum hagnaði í þjóðarbúið og er það vissulega ánægjulegt. Það sem meira máli skiptir er þó að listafólk leggur til þjóðarbúsins annan og ómældan auð með frammistöðu sinni. Stærsti rekstrarhagnaður listastofnana og hinn eini sanni arður felst að sjálfsögðu í auknu manngildi okkar sjálfra, sem listarinnar fáum að njóta. Lista-og menningarstofnanir okkar eru traustasta vígið í baráttu gegn fáfræði, þröngsýni og vanafestu. Án listsköpunar færi lítið fyrir sjálfstæði okkar sem þjóðar.

Notum listina í endurreisn íslensks samfélags, njótum hennar og eflum hana!