Fréttir

Stuðningsyfirlýsing við Leiklistar- og kvikmyndaháskólann í Búdapest

Bandalag íslenskra listamanna og Sviðslistasamband Íslands lýsir yfir stuðningi við nýlegar aðgerðir nemenda og kennara við Leiklistar- og kvikmyndaháskólann í Búdapest (SZFE). Boðuð endurskipulagning ungverskra stjórnvalda á skólanum felur í sér að hvorki nemendur, kennarar né annað starfsfólk hefur nokkra aðkomu að stefnumótun og fjármálum skólans, sem setur alvarlegar skorður við sjálfstæði stofnunarinnar og akademískt frelsi. Við tökum undir áhyggjur nemenda og kennara af sjálfstæði skólans og hvetjum stjórnvöld í Ungverjalandi til að endurskoða ákvörðun sína, enda eru sjálfstæðar mennta- og menningarstofnanir meðal hornsteina lýðræðisins.

Statement of Solidarity with the University of Theatre and Film, Budapest

The Federation of Icelandic Artists and Performing Arts Iceland expresses solidarity with the current actions of students and teachers at the University of Theatre and Film, Budapest (SZFE). The recent restructuring of SZFE’s administration entails that neither students nor academic staff have any direct influence on the university’s matters of policy and finances, which severely undermines the its autonomy and academic freedom. We share the students’ and teachers’ grave concerns regarding the autonomy of the institution and strongly encourage the Hungarian authorities to reconsider their decision, as autonomous institutions of education and culture are among the foundations of democracy.

Opið bréf vegna stöðu listamanna COVID haustð 2020

Reykjavík 12. Ágúst 2020

 

Opið bréf Bandalags íslenskra listamanna

Vegna COVID – haustið 2020

Haustið markar jafnan upphaf starfsárs flestra listamanna – sýningarýmin, tónleikastaðirnir, leikhúsin og menningarstofnanir opna og hefja starfsemi sína. Síðastliðið vor litum við listamenn með nokkurri eftirvæntingu til þessa hausts. Í huga okkar, og flestra landsmanna, var þessi vísindaskáldsögulegi veruleiki sem við vorum þá að upplifa eingöngu tímabil, og það stutt tímabil. Allar aðgerðir stjórnvalda miðuðu að því að að innan skamms kæmist líf okkar aftur í fyrra horf og að lendingin handan þessarar hindrunar yrði sem mýkst og við gætum spyrnt frá af endurnýjuðum krafti þegar rofaði til í kófinu. Listamenn hafa þetta sumarið aðlagað starf sitt því ástandi, frestað viðburðum eða fellt niður og reynt eftir fremsta megni að sýna ábyrgð. Listamenn hafa ekki farið fram á undanþágur eða að horn regluverksins væru rúnuð af með einhverjum hætti til að halda úti listsköpun. Listamenn hafa einfaldlega beðið þolinmóðir og treyst því að með skynsemi munum við komast sem fyrst fyrir vind og geta tekið upp fyrri störf.

Við getum vissulega yljað okkur við verk genginna kynslóða og ólíkt flestum mannana verkum er listin eilíf og því af nógu af taka, en listin í samtímanum, hér og nú, er sú sem skiptir okkur máli. Það er hún sem bindur okkur saman, skilgreinir okkur sem manneskjur, tengir okkur og vekur með okkur gleði. Listin er ein grunnstoð samfélagsins.

Samfélagslegt gildi og hlutverk listarinnar er vissulega mjög mikilvægt en efnahagslegur skaði af þessu ástandi er ekki síður gríðarlegur. Tæplega 8% vinnandi fólks í landinu vinnur við listsköpun og skapandi greinar. Mörg þeirra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á starfi listamanna róa nú lífróður til að halda rekstri sínum gangandi. Listamenn sjálfir hafa fengið að reyna á eigin skinni hversu regluverk vinnumarkaðarins er þeim óhagstætt og hvernig úrræðin gagnast þeim ekki til jafns við aðra á vinnumarkaði. Svo nú þegar listamenn voru að vonast til að geta farið að reima á sig skóna og hefja störf blasir við sá veruleiki að næstu mánuðir, jafnvel ár, verði alvarlega skilyrtir af reglum sem hindrar allt þeirra starf. Þetta er grafalvarleg staða fyrir listamenn og fjölskyldur þeirra, sem beðið hafa þolinmóð eftir því að geta hafið störf að nýju.

Listamenn geta illa haft skoðun á því hvort ákvarðanir um opnun landamæra eða tilslakanir í ferðaþjónustu, félags- eða íþróttastarfi séu æskilegar út frá efnahagslegu- eða lýðheilsusjónarmiði. Undanþágur  um nálægðartakmarkanir er þó jafn sjálfsagt að veita listamönnum sem íþróttamönnum, því slík undanþága  er forsenda vinnu margra greina, sérstaklega sviðlista og tónlistarmanna. Listamenn eiga heimtingu á að störf þeirra séu metin að jöfnu í heildarmyndinni og við ákvarðanir í þessum efnum. Hæfileikar, menntun og þekking þessa fólks leggur þau verðmæti til samfélagsins að það er sjálfsögð krafa að það framlag sé tekið inn í reikninginn við ákvarðanir í framhaldinu. Á þessari stundu er erfitt að átta sig á hvort þeirri kröfu ber að beina til pólitískra valdhafa eða þeirra sem fara með ráðgjöf í sóttvörnum.

Rætt hefur verið um samstarfsvettvang vegna ástandsins þar sem ákvarðanir verði teknar og aðgerðir skipulagðar. Það er mikilvægt að allar stoðir samfélagsins séu hluti af þeim vettvangi, menning og listsköpun, bæði sem drifkraftur sjálfsmyndar okkar, en ekki síður sem gríðarlega stór atvinnugrein með miklum efnahagslegum áhrifum hlýtur að vera partur af þeim vettvangi.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

LISTIN: AÐ MUNA — Hugleiðing á alþjóðlegum degi listarinnar árið 2020 eftir Sjón

Hver ertu? Hvaðan kemurðu? Hvert ætlarðu?

Þessar þrjár spurningar liggja til grundvallar mannlegri tilveru og því hljóta þær einnig að vera helsta viðfangsefni allra lista. Yfirleitt hvíla þær í djúpinu og þorri almennings þarf ekki hefja daginn á því að spyrja þeirra, þarf ekki að staldra við um hádegið og spyrja þeirra aftur, né þarf hann að spyrja þeirra fyrir svefninn. Hversdagurinn er þá stöðugur og hver iðjar við sitt. Samfélagið tifar áfram í sínum brokkgenga takti, með þeim friði og hvíld sem bjóðast og þeim rökræðum og átökum sem eðlileg eru, og engin krefjandi ástæða er til þess að þreyta sig á heilabrotum um þessar gömlu tilvistarspurningar. Við lifum með þeim jafn auðveldlega og við bægjum frá okkur meðvitundinni um dauðleika mannsins.

Um leið eru þær allt í kringum okkur frá morgni til kvölds. Það ómar af þeim í allri tónlist, við sjáum fólk á valdi þeirra í kvikmyndum og leikritum, lesum þær úr ljóðum og sögum, þær eru í þögninni milli ramma teiknimyndasögunnar, við erum umlukin þeim í verkum fatahönnuða og arkitekta, berum þær á fingrum okkar og berum þær að vörum okkar, við fylgjum þeim í hreyfingum dansarans og greinum mark þeirra á efniviði myndlistarmannsins, svo fáein dæmi séu tekin. Því listafólk kemst aldrei undan spurningunum þremur. Og tilraunir þess til að svara þeim eru jafn bundnar í verk þess og mannlífið sem þau eru hluti af. Þannig geyma öll listaverk minningu um hvernig það var að vera manneskja á þeim tíma sem þau voru sköpuð.

Svo haldið sé áfram með spurningar. Ein af þeim spurningum sem oft eru uppi þegar listirnar eru annars vegar er sú hvers virði þær séu í mannlegu samfélagi. En þvert á það sem maður gæti haldið þá er það listafólkið sjálft sem spyr hennar oftar en nokkrir aðrir. Glíman við efann um eigin tilgang og ágæti er eitt helsta eldsneyti þeirra sem fást við að skapa. Ég held því að margt listafólk sé snortið af hversu mikið hefur verið leitað í verk þess til afþreyingar og andlegs styrks á þeim erfiðleikadögum sem við lifum núna — að landsmenn mundu að þar var sjóður sem mátti sækja í.

Þegar hættan líður hjá verður það meðal annars í hreyfingum dansarans sem við munum þekkja aftur innilokunina, í hraða tölvuleiksins sem við rifjum upp óttann, í söngröddinni sem við syrgjum þá sem létust, í ljóðinu sem við finnum vonina.

Listirnar munu áfram hjálpa okkur að muna hvaðan við komum, hver við erum og hvert við ætlum. Þær eru sameiginlegt minni okkar um hvað það er að vera sú brothætta og sí spyrjandi lífvera, manneskjan.

Samþykktir Aðalfundar

Það hefur dregist að birta samþykktir aðalfundar BÍL  sem haldinn var 29. febrúar. Ástæður þess eru einfaldar, skömmu eftir aðalfund og í því ferli að ganga frá gögnum fundarins brast á með samkomubanni og starfsumhverfi listamanna umbreyttist á einni nóttu og stjórnarmenn hafa verið róið lífróðri til bjargar störfum og kjörum listamanna í landinu,  Þvi birtast þær fyrst núna.

Laugardaginn 29. febrúar hélt Bandalag íslenskra listamanna aðalfund sinn í Iðnó. Aðalfund BÍL sitja fulltrúar samtaka listamanna í landinu, alls 15 talsins.

Á fundinum voru samþykktar ályktanir sem félög listamanna vilja beina til ráðamanna er varða umhverfi listgreina og listmenntunar í landinu.

1. Endurskipulagning Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 vekur athygli á þeirri stöðu sem nýleg úttekt á starfsháttum og skipulagi mennta- og menningarmálaráðuneytisins dregur upp. Af henni má álykta að verulega skorti á fagmennsku og skilvirkni í afgreiðslu mála í þeim veigamiklu málaflokkum sem á hendi ráðuneytisins eru. Fundurinn hvetur til að nýtt skipurit leiði til gagngerrar endurskoðunar á stjórnsýslu lista og menningarmála, í anda gagnsæis og skilvirkni. Í því sambandi minnir fundurinn á þá kröfu Bandalags íslenskra listamanna að komið verði á fót sjálfstæðu menningarráðuneyti sem leiði fram nýja skipan menningarmála, einkum í ljósi þeirra stórvægilegu verkefna sem ráðuneyti menntamála þarf að taka til á komandi áratugum.

2. Innviðauppbygging næstu tíu ára

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 beinir því til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að í nýbirtum áætlunum um stórsókn í enduruppbyggingu innviða verði ekki litið framhjá áralangri vanrækslu á nauðsynlegri fjárfestingu í menningarstofnunum þjóðarinnar, sem að auki hafa verið undirfjármagnaðar til margra ára. Við hreykjum okkur gjarna af árangri listamanna okkar á erlendri grund, en mikilvægastur er vettvangurinn heimavið, þar verða þau verðmæti til sem berast jafn víða og raun ber vitni. Mikilvægur hluti þess vettvangs eru stofnanir okkar, sem vegna aðstöðuleysis eru flestar illa í stakk búnar að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Því er mikilvægt að hlutur lista- og menningarstofnana í endurnýjun innviða verði ekki fyrir borð borinn.

3.Listasafn Íslands

Í ljósi þeirrar hvatningar til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að stofnanir menningar og listgreina fái endurreisn í áætlunum um uppbyggingu innviða, vill BÍL að sett verði sem fyrst af stað áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir til lausnar á húsnæðisvanda Listasafns Íslands. Listasafnið hefur búið við óviðunandi húsnæði um árabil, sem dugar hvorki til sýningahalds né varðveislu á myndlistararfi þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að hefja strax vinnu við úrbætur svo safnið geti endurspeglað hið öfluga umhverfi sem íslenskur myndlistaheimur er.

 4. Listaháskóli íslands – LHÍ

Bandalag íslenskra listamanna vill líka benda á þá staðreynd að enn á eftir að koma Listaháskóla Íslands undir þak. Allt frá stofnun skólans 1998 hafa stjórnvöld haft uppi áform um að koma allri starfseminni fyrir undir einu þaki, án þess að þau áform næðu fram að ganga. Nú verður vart lengur við það unað að sú stofnun sem ein sinnir menntun í listgreinum á háskólastigi, stundar listrannsóknir og vinnur að eflingu listmennta meðal almennings, skuli þurfa að sætta sig við að starfa á fjórum stöðum í borginni og víða í húsnæði sem ekki er boðlegt til að sinna sérhæfðu hlutverki sínu. Nú er lag að ljúka því verki. BÍL hefur auk þess verið þeirrar skoðunar að rekstrarform LHÍ sé bókstaflega rangt, að eini listaháskólinn Íslandi skuli settur út fyrir garð í samfélagi íslenskra háskóla, með allt öðru rekstrarfyrirkomulagi. Með því fríar ríkið sig ábyrgð á listnámi á háskólastigi.

5. Staða Hörpu

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 beinir til borgarstjórnar Reykjavíkur og ríkisstjórnar Íslands að fundinn verði nýr grundvöllur fyrir rekstri tónlistarhússins Hörpu. Ef fram fer sem horfir er rekstur Hörpu drepinn í dróma rangs og óskynsamlegs samkomulags eigenda um rekstur hússins. Sú krafa eigenda að húsið sé sjálfbært, eða rekið með hagnaði, hamlar allri eðlilegri starfsemi stofnunar sem þessarar. Fundurinn telur nauðsynlegt að tryggja húsinu rekstarumhverfi sem hæfir svo því menningarhlutverki sem til var stofnað.

6. Listnám

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að efla til muna listnám í grunnskólum landsins. Síðustu áratugi hefur það verið markmið við hverja endurskoðun námskrár grunnskóla að efla listnám. Reyndin er hins vegar sú, að á sama tíma hefur verulega dregið úr þeim tíma sem varið er til listnáms í grunnskólum og víða á landsbyggðinni er nú orðið engum tíma varið til listnáms í efri bekkjum grunnskóla, góð lisgreinakennsla er einn mikilvægast þáttur í menningarlegu uppeldi ungmenna. Bandalagið leggur mikla áherslu á að þessari þróun verði snúið við strax; að ráðuneytið leggi sig allt fram við að skapa aðstæður fyrir eflingu listnáms í öllum grunnskólum landsins.

7. Bíó Paradís

Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem framtíð Bíó Paradísar er komin í. Bíó Paradís hefur skapað sér sérstöðu í menningarlífi borgarinnar sem vettvangur frumkvöðla og grasrótar íslenskrar kvikmyndagerðar. Bíó Paradís er eina kvikmyndahúsið hér á landi sem rekið er sem „Art House“ kvikmyndahús. Tilgangur slíkra húsa er að sýna og sinna kvikmyndaforminu á mun breiðari grunni en almennt gerist. Þetta hefur tekist með miklum ágætum í Bíó Paradís og fullyrða má að í dag sé Bíó Paradís einn heitasti reiturinn í menningarlífi borgarinnar. Það sem skapar þessa óvissu um framtíð kvikmyndahússins eru hagsmunir og verðmætamat, krafa um peninga og arð af fasteignum. Hin raunverulegu verðmæti verða til í starfseminni, mannlífinu sem umhverfi kvikmyndalistarinnar hefur skapað innan veggja kvikmyndahússins. Sú starfsemi á eftir að skila okkur umtalsvert meiri arði í framtíðinni. Að bera ekki skynbragð á þau verðmæti ber vott um mikla skammsýni. Stjórn Bandalags íslenskra listamanna skorar því á stjórnvöld að leita allra leiða til að tryggja framtíð Bíó Paradísar.

 

 

 

Dagskrá Aðalfundar BÍL 2020

 1. janúar síðastliðinn var aðildarfélögum BÍL sent fundarboð aðalfundar 2020. Fundurinn verður haldin í Iðnó laugardaginn 29. Febrúar og hefst klukkan 14:00.

Dagskrá:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar
 4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2019
 5. Ársreikningar 2019
 6. Lagabreytingar
 7. Kosning forseta
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Starfsáætlun 2020
 10. Önnur mál

 

Ekki liggja fyrir fundinum neinar tillögur að lagbreytingu.

Aðalfund BÍL fer fram skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Allir félagsmenn hafa seturétt á aðalfundi og er hvatt til þess að aðildarfélögin augýsi og hvetji félagsmenn til að mæta.

Samkvæmt lögum BÍL skal á aðalfundi annað hvert ár kjósa forseta og skoðunarmenn reikninga. Framboð/tillögur til þessara embætta þurfa að hafa borist stjórn eigi síðar en viku fyrir boðaðan aðalfund.

Fundarboð – Aðalfundar BÍL 2020

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020, verður haldinn laugardaginn 29. Febrúar í Iðnó og hefst hann kl. 14:00.

 

Aðalfundur fer fram skv. lögum BÍL og eru þau aðgengileg á heimasíði Bandalagsins.

http://bil.is/um-bil/log-fyrir-bil

 

Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt . Hvert aðildarfélag fer því með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Tilkynning um fulltrúa á fundinn þarf að berast forseta viku fyrir fundinn, en rétt að árétta að allir félagsmenn aðildarfélaganna hafa rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt. Því er hvatt til þess að aðildarefélögin auglýsi fundinn á heimasíðum sínum.

 

Dagskrá fundarins, tilllaga stjórnar að lagabreytingum og starfsáætlun mun verða send út tveim vikum fyrir fund.

 

Tilkynning um fundinn hefur verið sett á heimasíðu BÍL

 

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forsetil Bandalags ísl. listamana

Evrópu þingið samþykkir lög um höfundarrétt

Þing Evrópusambandsins hefur samþykkt lög sem vernda höfundarétt á netinu. Þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi í réttindabaráttu listamann fyrir sjálfsögðum greiðslum fyrir vinnu sína. Athygglisvert er að í umfjöllun fjölmiðla hér á landi hefur öll áherslan verið á hversu umdeild þessi lagasetning er og einörð andstaða ákveðinna stjórnmálaafla, sem hafa fylkt sér um hagsmuni stórfyrirtækja til dreifingar á höfundarvörðu efni, frekar en sjálfsögðum rétti listamanna að fá tekjur af verkum sínum. Það má lesa nánar um lögin hér.

Fyrsta úthlutun Barnamenningarsjóðs

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður á Þingvöllum í tilefni aldarafmælis fullveldisins18. júlí 2018.

Hlutverk sjóðsins er að styðja fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Verkefni, sem auk ofangreindra þátta, stuðla að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu eða taka að öðru leyti mið af inntaki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa sérstakt vægi. Einnig þau verkefni sem unnin eru í nánu samstarfi aðila, svo sem menningarstofnana, skóla, listafólks og félagasamtaka.

Einungis er veitt úr sjóðnum einu sinni á ári. Næsti umsóknarfrestur verður í lok mars 2020.

Umsóknum og lokaskýrslum skal skila á rafrænu formi.

Umsóknarfrestur rennur út 1. apríl 2019 kl. 16.00.

Upplýsingar og umsóknargögn er að finna á síðu Barnamenningarsjóðs

Dagskrá aðalfundar BÍL 2019

Reykjavík 1. Febrúar 2019

Aðalfundarboð BÍL 2019

 1. janúar síðastliðinn var aðildarfélögum BÍL sent fundarboð aðalfundar 2019. Fundurinn verður haldin í Iðnó laugardaginn 16. Febrúar og hefst klukkan 11:00. Í kjöfar fundarins stendur BÍL fyrir málþingi um menningar og listumfjöllun í fjölmiðlum. Stjórnandi þess er Guðni Tómasson dagskrárgerðarmaður á RUV.

Dagskrá:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar
 4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2018
 5. Ársreikningar 2018
 6. Lagabreytingar
 7. Kosning forseta
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Starfsáætlun 2018
 10. Önnur mál

 

Ekki liggja fyrir fundinum neinar tillögur að lagbreytingu.

Aðalfund BÍL fer fram skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Allir félagsmenn hafa seturétt á aðalfundi og er hvatt til þess að aðildarfélögin augýsi og hvetji félagsmenn til að mæta.

Málþingið um menningar og listumfjöllun fjölmiðla verður keynnt freka þegar nær dregu með sér tilkynningum og auglýsingu.

Stúlka með greiðu.

Erindi sent Seðlabanka íslands vegna safneignar bankans, umgengni og vörslu.

Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir furðu sinni á þeirri ákvörðun Seðlabanka Íslands að fjarlægja verk Gunnlaugs Blöndal úr almenningsrými og koma því fyrir í geymslum bankans.

 

Þessi ákvörðun vekur margar spurningar, bæði hvað varðar safneign, umgengni og vörslu listaverka stofnunarinnar og ekki síður þá undarlegu tímaskjekkju puritanisma að ritskoða list með þessum hætti.

 

Skilningur okkar á hugmyndaheimi hvers tíma byggir að stórum hluta á verkum listamanna, skáldskap, tónlist og myndlist. Frá upphafi menningarsögu okkar hefur nakið og berskjaldað form mannslíkamans verið eitt af helstu viðfangsefnum listamanna, hefur tjáð trúarlega, pólitíska eða tilvistarlega afstöðu. Um þetta vitna mörg stærstu og mikilvægustu verk listasögunnar. Þetta verk Gunnlaugs Blöndal stendur sterkt í þessari hefð listarinnar, nærgöngul en um leið ljóðræn, djúp og falleg mynd. Mikið er það undarlegt að vera stödd á þessum stað í umræðunni í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Að vanvirða svo þetta fallega verk með tepruskap og puritanískum viðbrögðum.

 

Það er svo sem ekkert nýtt að listin takist á við valdið um hvað sé viðeigandi og hvað ekki. Oftast hafa þessi átök speglast í baráttu listarinnar við kirkjuna og trúarlegar hugmyndir, en kannski segir það eitthvað um samtímann að þessi tiltekna ritskoðun skuli upp sprottin í Seðlabanka Íslands, sem afleiðing af nafnlausum athugasemdum.

 

Einnig hljóta að vakna spurningar um hvernig á því standi að í geymslur Seðlabanka Íslands skuli safnast myndlist engum aðgengileg án faglegrar umsjónar. Ef það er skilningur Seðlabankans að hann eigi að sinna menningarlegu hlutverki verður það hlutverk að byggjast á faglegum grunni. Ef bankinn er að safna þjóðargersemum í hirslur sínar ætti það að gerast með formlegri stofnun listasafns, ráðningu fagfólks, skráningu og aðgengi almennings. Geti bankinn ekki sinnt þeirri menningarlegu skyldu sinni hlýtur Bandalag íslenskra listamanna að gera þá kröfu að hann komi verkunum í vörslu og umsjá Listasafns íslands.

 

Að því sögðu fer Bandalag íslenskra listamanna fram á upplýsingar um fjölda verka í safni bankans, hverjir eru höfundar þeirra verka og hvenær þau komu í eigu bankans?

 

Virðingarfyllst

 

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

Page 2 of 2912345...1020...Last »