Leikhópurinn Vesturport tók í gær við evrópsku leiklistarverðlaununum í Pétursborg, fyrir frumleika og nýsköpun og framlag sitt til leiklistar í Evrópu. Hópurinn hefur sett upp tvær sýningar í borginni undanfarna daga, Faust og Hamskiptin fyrir fullu húsi leikhúsfólks, blaðamanna og gagnrýnenda.
Mikið var um dýrðir í borginni í tengslum við hátíðina, í samtali við fréttastofu RÚV sagði Dýri Jónsson, framleiðandi hjá Vesturporti, að hátíðin fengi gríðarlega athygli.Þar hafa meðal annars farið fram pallborðsumræður um leikhópinn sem Michael Billington, gagnrýnandi hjá breska blaðinu Guardian stýrði.