Fréttir

Listin að lifa — starfsumhverfi listamanna.

Laugardaginn 4. september mun Bandalag íslenskra listamanna standa fyrir málþingi í Iðnó, þar sem til umfjöllunar verður spurningin um listina að lifa — starfsumhverfi  listamanna.

Samkomubann vegna sóttvarna hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir listamenn og hefur svipt fjölda þeirra öllum möguleikum á að starfa og afla tekna.

Þetta algera hrun hefur afhjúpað hversu erfiðlega listamönnum gengur að nýta þau úrræði  sem eiga að grípa  fólk við slík áföll á vinnumarkaði. Ósveigjanlegar útlínur regluverksins ná illa utan um flókið og margbreytilegt starfsumhverfi listamanna og ólík ráðningarform.

Í kjölfar þessa ástands féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli söngvara gegn Íslensku óperunni  þann 18. janúar 2021 sem setur samningsstöðu listamanna í en frekari óvissu.

Á málþinginu veltum við fyrir okkur  sérstöðu þessa starfsumhverfis og ástæðum þess að einyrkjar í listgreinum ná ekki þeim réttindum sem viðurkennd eru á vinnumarkaði.

Er eitthvað sem einkennir þennan hóp eða aðgreinir? Er regluverkið ósveigjanlegt? Þurfa listamenn ef til vill að taka rækilega til í sínum rekstri? Frummælendur leitast við að varpa ljósi á hvar vandinn liggur og vonandi í framhaldinu hvar lausnin leynist.

Frummælendur á þinginu verða:

Erling Jóhannesson, Forseti Bandalags íslenskra listamanna – Vistkerfið, 

Jakob Tryggvason, Formaður félags tæknifólks  – Skýrari rammi = aukið frelsi

Helga Vala Helgadóttir, Formaður velferðarnefndar alþingis – Þegar tölvan segir nei

Gunnar Ingi Jóhannsson, Hæstaréttar lögmaður – Staða listamanna á vinnumarkaði. Eru störf þeirra “óhefðbundin”?

Fundarstjóri er,  Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og ritstjóri – Hver á að syngja í jarðarförinni þinni? 

Til ráðherranefndar um viðbrögð við fjórðu bylgju kórónuveirunnar

Til ráðherranefndar um viðbrögð við fjórðu bylgju kórónuveirunnar og
sjónarmið Bandalags íslenskra listamanna
.

Bandalag íslenskra listamanna vill þakka fyrir þetta samráð við umhverfi listar og menningar nú í upphafi vetrar, við endurteknar aðstæður sem skapast af völdum kórónaveirufaraldursins. Minnug þess að fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að áhlaupið myndi eingöngu vara í nokkar vikur og allar aðgerðir miðuðu að því að viðsnúningurinn yrði sem eðlilegastur handan kófsins, er tímabært að leggja niður hinn þekkta frasa „fordæmalausir tímar”, því átökin síðasta ár hafa fært okkur reynslu sem mikilvgt er að horfa til þegar glímt er við fjórðu bylgju faraldursins.

Reynslan hefur kennt okkur hversu mikilvægt það er listalífinu að geta opnað og sýnt og starfað, þó ekki hafi verið nema í takmarkaðan tíma hverju sinni. Það að reglulega hefur verið hægt að opna fyrir viðburði hefur gefið, bæði stofnunum og einstaka listamönnum og hópum, líflínu. Jafnvel þó spottin hafi stundum verið stuttur og fyrirsjáanleikinn lítill hefur þetta haldið von í menningarrekstri og mögulega hindrað algjört hrun innviða. Þetta eru vissulega aðeins vangaveltur, en samanborið við nágrannalönd okkar, sem mörg hver fóru þá leið að loka alveg fyrir menningarstarfsemi, má færa rök fyrir þessu. Víða þar sem menningarstarfsemi var stöðvuð, eins og t.d. í Svíþjóð, er nú hafin vinna við enduruppbyggingu innviða menningarinnar sem bókstaflega hrundu saman á einum starfsvetri. Meðfylgjandi er frétt af heimasíðu Sænska menningarráðuneytisins þessa efnis.

https://www.regeringen.se/pressmeddelanden/2020/12/regeringen-tillsatter-utredning-for-kulturens-aterstart/

Líklega eru aðrir en Bandalag íslenskra listamanna til þess hæfari að tjá sig um tæknilegar útfærslur á sóttvörnum, en listamenn geta ekki nógsamlega bent á hversu dýru verði það er keypt ef listviðburðir verða áfram háðir jafnþungum takmörkunum og verið hefur. Forstöðumenn stofnana menningarhúsa hafa bent á að líklega  sé óvíða jafn auðvelt að stýra umferð og skrá áhorfendur en á þeirra vettvangi og ef litið er til reynslu síðasta vetrar er sá málflutningur trúverðugur.

Það er aftur flóknara að ná utanum þá viðburði sem fara fram utan þessara húsa og eru bornir meira og minna uppi af sjálfstætt starfandi listamönnum eða minni viðburðaaðilum. Leita þarf leiða til að veita sem mest svigrúm svo sú starfsemi geti farið fram með skilyrðum, eins og t.a.m. skyndiprófum eða PCR-vottorðum, auk perónulegra sóttvarna, að sjálfsögðu. Þessi skilyrði, eins og skyndipróf, eru víða notuð í nágrannalöndum okkar til þess að viðburðir geti farið fram.

Framlenging fyrri aðgerða.

Aðrar aðgerðir sem gripið hefur verið til fram að þessu þarf að framlengja, s.s. hlutabótaleið og  því að viðhalda tekjutengingu atvinnuleysisbóta, því þrátt fyrir að þau úrræði hafi ekki gagnast öllum fengu um 30% þeirra listamanna sem urði fyrir verulegu tekjufalli og sóttu til VMST úrlausn sinna mála þar.

Tekjufallsstyrkirnir reyndust stórum hópi einyrkja og listamönnum afar vel og mikilvægt að áfram verði opið fyrir það úrræði, með nauðsynlegum lagfæringum þó, þ.e. að viðmiðunarár tekna verði áfram 2019 og að fyrri greiðslur komi ekki til lækkunar því sem fengist greitt 2021.

Þá er mikilvægt að tryggja úrræði fyrir rekstraraðila/listhópa, sem skráðir eru sem félög án hagnaðar, þ.e. eru ekki ehf., sfl. eða einyrkjar. Mörg félög í menningarrekstri hafa ekki getað nýtt sér tekjufallsstyrkina og eru því ennþá með skuldbindingar vegna starfsemi sinnar og sokkinn kostnað frá fyrstu bylgju.

Augljóst er að þau úrræði sem gripið var til á fyrri stigum faraldursins hentuðu illa einyrkjum/listamönnum sem búa við flókið rekstrarumhverfi og hafa tekjur af blandaðri starfsemi. Það er mat Bandalags íslenskra listamanna að skoða þurfi hvort eitthvað í löggjöfinni hindri það að fólk í þessu flókna starfsumhverfi njóti almennra og sjálfsagðra réttinda vinnumarkaðarins. Sé svo þarf atbeina stjórnvalda til að breyta lögum.

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra listamanna

Töfrafundur – áratug síðar í Hafnarborg, vegna afskipta stjórnvalda í Hafnarfirði.

Bandalag íslenskra listamanna lýsir furðu sinni á þeirri atburðarás sem átt hefur sér stað, með afskiptum bæjarstjóra og yfirvalda Hafnarfjarðarbæjar af uppsetningu sýningarinnar Töfrafundur – áratug síðar í Hafnarborg.

Hafnarborg er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum og ber því að starfa samkvæmt þeim, sem og siðareglum ICOM (International Council of Museums).  Inngrip og afskipti stjórnvalda í Hafnarfirði af sýningu listamannanna Libíu Castro og Ólafs Ólafssonar gengur mjög á svig við þær siðareglur og meginreglu stjórnsýslu menningarmála, að viðhafa fjarlægð pólitískra
valdhafa frá listrænum ákvörðunum í rekstri safna og menningarstofnanna. Þetta hugtak um armslengdarfjarlægð hins pólitíska valds er til þess ætlað að tryggja eftir fremsta megni sjálfstæði listarinnar svo henni sé unnt að vera sú gagnrýna rödd sem lýðræðinu er nauðsynlegt.

Listamennirnir Libía Castro og Ólafur Ólafsson eru listamenn sem hafa í sinni myndlist gjarnan verið á mörkum aktívisma og beitt fagurfræði sinni til þess að færa til mörk hefðbundinnar orðræðu stjórnmála. Myndlist þeirra er virk lýðræðisumræða – hvernig lýðræðið birtist okkur í framkvæmd. Þannig er fagurfræði myndlistar þeirra pólitískt ágeng og nátengd hugmyndum aðgerðasinna.

Í því ljósi, og það dylst engum, er þetta inngrip stjórnvalda í sýninguna ritskoðun. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að ákvörðun um að láta fjarlægja hluta sýningarinnar af vegg safnsins er fordæmalaus ákvörðun og verður ekki slitin úr samhengi við eðli og form sýningarinnar, allar eftir á skýringar um leyfisveitingar eru hefðbundið yfirklór og tæknilegar aðfinnslur til að réttlæta þá ritskoðun.

Bandalag íslenskra listamanna fer fram á að safnið komi verkinu aftur  fyrir á þeim stað sem listamennirnir fundu því í upphafi.

 

Hugleiðing á alþjóðlegum degi listarinnar 2021 eftir Harald Jónsson

Í dag, 15.apríl 2021, er alþjóðlegur dagur myndlistar. Þetta er í fyrsta skipti sem hann er haldinn hátíðlegur hér um slóðir og er það fagnaðarefni. Að þessu tilefni er ýmislegt hægt  að taka sér fyrir hendur. Við getum til dæmis byrjað á að líta í kringum okkur. En áður en við gerum það er gott að slökkva á farsímanum alla vegana að setja á fluvélastillingu og síðan er ágætt að nema staðar og nema staðinn þar sem við erum stödd nákvæmlega núna. Það er góð leið til að ná andanum. Við getum líka hallað aftur augunum nokkur andartök eða nógu lengi þannig að þegar við opnum þau aftur er sem við sjáum heiminn í fyrsta sinn. Kveikjurnar leynast víða og myndlistin leysist úr læðingi á ólíklegustu stöðum. Hún birtist ekki bara í sýningarsölum þar sem við getum notið sama verksins jafn lengi og okkur lystir innan auglýsts opnunartíma. Fyrir utan þessa afmörkuðu staði erum við nefnilega stöðugt vitni að óvæntum kringumstæum sem geta fært okkur nær. Myndlist gerir einmitt það, hún færir okkur nær, hún er næring, stundum beint í æð. Hún á sér stað þegar við setjum það sem umkringir okkur í samhengi og sjáum í öðru ljósi. Rétt eins og við erum stöðugt að safna sönnunargögnum og staðfestingu á tilveru okkar, gera hana merkingarbæra. Okkur grunar og grunurinn er líka grunnurinn að forvitni. Og fyrr en varir læðist undrunin í ljós. Myndlistin fylgir gjarnan í humátt á eftir. Hún er til dæmis risastórt auglýsingaskilti sem varpar línhvítum fleti út í nágrennið. Hún er hillustæða með jafnmörgum ljósaperum og nægja til að baða heila mannsævi í tunglsljósi. Hún er nýhnoðaðir snjóboltar í mismunandi stærðum sem liggja í röð á gangstétt við fjölfarna götu og eru til sölu á ólíku verði eftir stærð. Hún er glerklefi sem fyllist af þoku svo ekki sér handanna skil. Hún er nýmáluð og mjólkurhvít undirgöng í gegnum fjölbýlishús sem er að hruni komið. Hún er klifurveggur sem dregur upp stjörnumerki himinhvolfanna og hægt er að klifra upp á milli þeirra. Myndlist birtist alltaf nafnlaus og hún gerir aldrei boð á undan sér. Eitt annað dæmi af handahófi er kannski þetta nafnlausa eldfjall sem er að gera allt vitlaust og tekur á sig nýja mynd á hverjum degi. Eldfjallið er auðvitað ekki myndlist í sjálfu sér heldur það sem getur kviknað í bilinu á milli þess og okkar. Skynhrifin, venslin og ummyndanirnar. Drög að þessu eldfjalli komu í ljós þegar varir jarðarinnar urðu aftur sýnilegar í ljósaskiptunum núna um daginn. Þær brostu og út úr þeim byrjuðu að leka logandi línur, form, tákn og lúmsk skilaboð sem önguðu af iðrum jarðar. Þau streymdu eitt á eftir öðru út um logandi opið og mynduðu kóðaða frásögn þangað til taumurinn storknaði og varð eitt með steinrunnu slefinu. Skynjunin er nákvæmlega svona, líkamsheitt kvikuhólf sem opnast þegar minnst varir. Hvar endar þetta og hver er annars munurinn á gosinu og sprunginni hitavatnslögn í þéttbýli? Verður landslagið fallegra eða ljótara er reyndar spurning sem brennur á vörum sumra. Við erum engu nær og hraunið það eyrir heldur engu Það róast reyndar í dagsbirtunni en æsist þegar myrkrið brestur á. Elfan heldur áfram og gleypir bæði myndavélar og mælitæki og líka farsímana okkar ef við pössum okkur ekki. Við stöndum á milli nafnlausra sprungna, allra þessara ómálga jarðmunna sem opnast hver á eftir öðrum í seigfljótandi, margradda, muldrandi og glóandi söng og við vitum varla í hvorn fótinn við eigum að stíga. Þetta er allt saman í beinni útsendingu en við viljum samt stöðugt nær, ná sambandi og koma við kvikuna. Hún myndar straum og læk, þráð og þrá sem leiðir og togar í okkur og vísar leiðina gegnum nóttina og daginn. Myndlist er einmitt þessi þráður og þrá. Hún er tengingin inn til okkar og líka á milli okkar í endalausum núningi þangað til við náum jafnvel áttum. Myndlist er staðsetningartæki. Hún ýtir við, kitlar, hrærir og kemur okkur áleiðis. Hún er leikur sem felur og leiðir í ljós. Hún er spegilmynd og afsteypa. Góð myndlist er óvænt stefnumót og þegar hún á sér stað afhjúpar hún okkur og við verðum ekki söm. Til hamingju með daginn.

Haraldur Jónsson

Ályktun aðalfundar BÍL starfsumhverfi listamanna

Samþykkt BÍL  um starfsumhverfi listamanna og atvinnuástand í skapandi greinum.

Ástand það sem myndaðist í kjölfar samkomubanns á liðnu ári kom afar illa við listamenn og það fólk sem starfar í listum og skapandi greinum. Af því að ekki sér fyrir endann á afleiðingum þessa ástands vill aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna vekja athygli á alvarlegri stöðu listamanna á vinnumarkaði og því hversu erfiðlega stjórnvöldum gekk að sníða úrræði að þörfum þeirra sem starfa við listir og menningu. Starfsumhverfi listamanna er afar flókið og margbreytilegt, svo flækjustigið var mikið þegar ráðast átti aðgerðir til stuðnings geiranum. Stærstur hluti listamanna starfar sem einyrkjar að hluta eða öllu leyti og hefur ótryggar og óstöðugar tekjur, nokkuð sem vafðist fyrir þegar úrræði stjórnvalda vegna Covid-ástandsins voru heimfærð upp á listamenn. Því reyndust þau þeim ekki sú björg sem til var ætlast. Reynsla okkar af síðasta ári kallar á að átak sé gert í því að kortleggja starfsumhverfi listamanna og það atvinnuástand sem fólk í hinum skapandi geira býr við. Breyta þarf launa-, skatta- og atvinnutryggingakerfi þannig að það taki mið af þeim raunveruleika sem listamenn búa við.

Ályktun aðalfundar BÍL um stofnun Þjóðaróperu

Bandalag íslenskra listamanna telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Slíkt verður einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019. Lagagrundvöllur þjóðaróperu þarf að vera sambærilegur þeim sem gildir um Þjóðleikhús og Íslenska dansflokkinn, þar sem hlutverkið er skýrt og fagmennska tryggð. Með því móti væri óperustarfsemi komið á traustan kjöl opinbers rekstar, enda ljóst að rekstrarform einkaréttarlegs eðlis hentar ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og hér um ræðir.

Bandalagið leggur til að mennta- og menningarmálaráðherra kynni í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019, svo fá megi fram sjónarmið þeirra sem best þekkja. Endanlegt frumvarp verði svo lagt fram á Alþingi eigi síðar en haustið 2021.

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sviðslistir nr. 165/2019.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.

1.gr.

Eftirfarandi kafli og greinar bætast í lög um sviðslistir nr. 165/2019.

1. KAFLI

Þjóðarópera.

(a). gr.

Hlutverk.

 Þjóðarópera er eign íslensku þjóðarinnar. Hlutverk Þjóðaróperunnar er að sviðsetja óperuverk af háum listrænum gæðum. Þjóðaróperan skal sinna sögulegri arfleið óperulistarinnar í samtíma samhengi með sérstakri áherslu á íslenska frumsköpun. Þjóðaróperan skal vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun óperulistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á óperulist.

(b). gr.

Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Þjóðaróperu eru sýningar á íslenskum og erlendum óperuverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk óperuverk. Einnig skal Þjóðaróperan annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að sýningarferðum innanlands. Þjóðaróperunni er heimilt að standa að sýningarferðum til annarra landa eftir því sem aðstæður leyfa.

(c). gr.

Óperustjóri.

    Ráðherra skipar óperustjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar. Skipaður skal einstaklingur með háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu á óperuflutningi og starfssviði Þjóðaróperunnar. Endurnýja má skipun óperustjóra einu sinni til næstu fimm ára ef meirihluti stjórnar mælir með endurráðningu.

    Óperustjóri er stjórnandi Þjóðaróperunnar og markar listræna stefnu hennar. Hann er í forsvari fyrir þjóðaróperuna og annast daglega stjórnun samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun að fenginni umsögn stjórnar. Hann ræður starfsmenn og ber ábyrgð á listrænum og fjárhagslegum rekstri svo og gerð langtímaáætlunar og að starfsemi Þjóðaróperunnar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

(d). gr.

Stjórn.

    Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Þjóðaróperunnar. Samráðsvettvangur fagfélaga í sviðslistum tilnefnir tvo fulltrúa en einn skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Stjórnin skal skipuð til fimm ára í senn. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórnina lengur en tvö samfelld starfstímabil.

    Stjórn Þjóðaróperunnar er óperustjóra til ráðgjafar um stefnu Þjóðaróperunnar og önnur málefni er varða starfsemi hennar. Hún veitir óperustjóra umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir, vinnur með honum að langtímaáætlun um starfsemina og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna.

(e). gr.

Samstarf.

Þjóðaróperan skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna óperulist s.s. tónskáld, textahöfunda, sviðshöfunda, hönnuði og flytjendur með listrænan ávinning, nýsköpun og fjölbreytni að markmiði.

Þjóðaróperan skal stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi Þjóðaróperunnar eftir því sem við verður komið.

(f). gr.

Kostnaður.

Kostnaður af óperuráði og rekstri Þjóðaróperunnar greiðist úr ríkissjóði. Þjóðaróperunni er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.

 

Ályktun aðalfundar BÍL um samningagerð í RUV

 

Ályktun  BÍL um samningagerð í RÚV

Í nýlegum samningstilboðum  sem Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) hefur gert listamönnum koma fram  kröfur um að viðsemjandi fallist nú á tilteknar samningsskyldur sem ekki hafa  áður verið gerðar. Má þar nefna:

 • Að RÚV megi framselja viðkomandi efni til annarra miðla hér á landi og í öðrum löndum
 • Að RÚV megi gefa efni viðkomandi út á myndiskum og hljómdiskum eða setja í annars konar dreifingu
 • Að greiðslufyrirkomulag í teljist fullnaðargreiðsla fyrir hljóðritanir, útsendingar og notkun á efninu eins og hún sé skilgreind í samningnum

Með þessum ákvæðum er það greinlega ætlun RÚV að taka sér vald til að selja efni sem framleitt er innan veggja RÚV á frjálsum markaði og tryggja sér jafnframt ævarandi eignarrétt á því, þannig að flytjendur og höfundar missi allt tilkall til greiðslna fyrir þessi réttindi. Þessum kröfum er augljóslega ætlað að  rýmka allar heimildir RÚV frá því sem nú er til hagnýtingar verka viðsemjenda.

Rétt er í þessu sambandi að geta að ekkert samtal hefur átt sér stað milli RÚV og fulltrúa listamanna um þessi tilteknu atriði samninga. Við það verður ekki unað af hálfu listflytjenda og höfunda að RÚV sæki með þessum hætti að réttindum þeirra.

Aðalfundur BÍL mótmælir harðlega framgöngu RÚV þar sem þessari aðferðafræði er beitt og hvetur stofnunina til að endurskoða þegar í stað kröfur sínar í samningagerð varðandi framangreind atriði.

Aðalfundur BÍL 2020

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna  verður haldin í Listasafni Reykjavíkur laugardaginn 20. mars og hefst klukkan 14:00. Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum bandalagsins:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Fundargerð síðasta aðalfundar
 4. Skýrsla forseta um starf BÍL 2020
 5. Ársreikningar 2020
 6. Lagabreytingar
 7. Kosning forseta
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 9. Starfsáætlun 2021
 10. Önnur mál

Ekki liggja fyrir fundinum neinar tillögur að lagbreytingu.

Aðalfund BÍL fer fram skv. lögum Bandalagsins, sem eru aðgengileg á heimasíðunni. Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag fer með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Viku fyrir aðalfund tilnefnir hvert aðildarfélag atkvæðisbæra fulltrúa til setu á aðalfundi.

Allir félagsmenn hafa seturétt á aðalfundi og er hvatt til þess að aðildarfélögin auglýsi og hvetji félagsmenn til að mæta.

Aðalfundarboð

Reykjavík 20.febrúar 2021

Fundarboð – Aðalfundar BÍL 2021

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2021, verður haldinn laugardaginn 20. mars Fundarstaður verður auglýstur síðar

Aðalfundur fer fram skv. lögum BÍL og eru þau aðgengileg á heimasíði Bandalagsins.

http://bil.is/um-bil/log-fyrir-bil

Minnt er á að  auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt . Hvert aðildarfélag  fer því með fimm atkvæði. Sambandsfélag getur auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins.  Tilkynning um fulltrúa á fundinn þarf að berast forseta viku fyrir fundinn, en rétt að árétta að allir félagsmenn aðildarfélaganna hafa rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt. Því er hvatt til þess að aðildarefélögin auglýsi fundinn á heimasíðum sínum.

Dagskrá fundarins, tilllaga stjórnar að lagabreytingum og starfsáætlun mun verða send út tveim vikum fyrir fund.

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenskra lsitamanna

 

Frestun aðalfundar

Samkvæmt lögum skal aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna haldinn fyrir lok febrúar ár hvert. Á stjórnarfundi BÍL þann 21. janúar var ákveðið, í ljósi aðstæðna, að fresta boðun aðalfundar þar til samkomutakmarkanir yrðu rýmkaðar.

Samkv. lögum bandalagsins þarf að boða aðalfund með minnst mánaðar fyrirvara og dagskrá send tveim vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Aðildarfélögum BÍL mun því berast fundarboð í tíma um leið og dagsetning liggur fyrir.

 

Page 1 of 2912345...1020...Last »