Fréttir

Íslandsstofa – Umsögn til utanríkismálanefndar

Fulltrúar stjórnar BÍL voru boðaðir á fund utanríkismálanefndar í morgun vegna frumvarps til laga um Íslandsstofu. Nefndin spurði út í sjónarmið BÍL og virtist áhugasöm um að skoða þær lagfæringar sem stjórnin hefur bent á. Umsögnina má lesa hér:

Umsögn um frumvarp til laga um Íslandsstofu

Í ljósi áhuga stjórnar Bandalags Íslenskra Listamanna (BÍL) á því hvernig staðið er að kynningu íslenskra lista á erlendri grund, var ákveðið að bjóða upp á sérstaka kynningu á frumvarpinu um Íslandsstofu á nýafstöðnum aðalfundi BÍL. Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi forsætis-ráðuneytisins var fenginn til að skýra frá hugmyndunum að baki frumvarpinu. Að þessari kynningu lokinni ákvað stjórn BÍL að senda til utanríkismálanefndar eftirfarandi athugasemdir, sem verða þá viðbót við umsögn þá sem BÍL sendi nefndinni 4. desember sl. Nokkur aðildarfélaga BÍL hafa þegar sent utanríkismálanefnd umsögn um frumvarpið, sem stjórnin hefur kynnt sér og haft til hliðsjónar við gerð meðfylgjandi athugasemda.

Segja má að núgildandi lög um útflutningsaðstoð séu um margt skýrari en fyrirliggjandi frumvarp um Íslandsstofu, enda er gildissvið frumvarpsins nokkuð víðara en gildandi laga.  Ætlun stjórnvalda með frumvarpinu er að móta heildstæða stefnu um ímyndar- og kynningarmál þjóðarinnar, en jafnframt að flétta þá stefnumótun saman við útflutning, ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar.  Slíkt verkefni er gríðarlega viðamikið og ljóst að samræma þarf sjónarmið fjölmargra aðila á ólíkum sviðum, eigi vel að takast. Útflutningsviðskipti eru nokkuð þekkt stærð og talsverð kunnátta í markaðs- og kynningarstarfi til staðar hjá þjóðinni. Það sama má segja um ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar, en þegar kemur að samþættingu við lista- og menningarstarfsemi þá flækist málið, enda er sá þáttur lítið útskýrður í þingmálinu. Í greinargerð frumvarpsins er engin tilraun gerð til að lýsa því með hvaða hætti skapandi atvinnugreinum er ætlað að koma að stefnumótun eða rekstri Íslandsstofu.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld viðurkenni að íslensk menningarstarfsemi stendur undir umtalsverðum hluta af íslensku atvinnulífi; innan listanna eru fullgildar atvinnugreinar á borð við myndlist, tónlist, ritlist, leiklist, dans, kvikmyndir, arkitektúr og hönnun að ógleymdum greinum sem starfa á grundvelli menningararfsins við ýmis konar safna- og sýningarstarfsemi. Listamenn og aðrir innan þessara skapandi greina hafa gegnum tíðina komið sér upp ýmsum miðstöðvum sem hafa stutt við útflutning verka þeirra. Þar er um að ræða ólíkar einingar að stærð og umfangi, nefna má: Kvikmyndamiðstöð (KMÍ), Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), Íslenska tónverkamiðstöð, Hönnunarmiðstöð Íslands, Bókmenntasjóð, Sjálfstæðu leikhúsin og Icelandic Gaming Industry.  Verður að teljast eðlilegt að til þessara aðila sé leitað þegar lagður er grunnur að Íslandsstofu, enda standa miðstöðvarnar í skipulegum útflutningi nú þegar og hafa verið að auka samstarf sín í milli upp á síðkastið.

Stjórn BÍL telur að frumvarp um Íslandsstofu þurfi talsverðrar vinnu við áður en það geti talist fullburða:

o Stjórn Íslandsstofu, eins og henni er lýst í 3. grein frumvarpsins, verður þung í vöfum og nauðsynlegt að skoða hvort ekki sé skynsamlegra að fækka stjórnarmönnum, en auka þess í stað hlutverk og vægi verkefnisstjórnanna sem kveðið er á um í greininni. Hvernig sem skipan stjórnar verður á endanum er ljóst að tryggja verður aðkomu listgreinanna að henni, sem verður best gert með því að BÍL eigi þar fulltrúa.

o Í 4. grein er lýst einhvers konar ríkisrekinni markaðsþjónustu, sem óljóst er hvort fallið getur undir verksvið ríkisins. Einnig er óljóst hvort þjónustukaup séu forsenda samstarfs við Íslandsstofu.

o Í skýringum við 5. grein kemur ekki fram hvort opinberar stofnanir sem stunda útflutning á menningu og listum muni falla undir 4. tölulið;  Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn etc. Ef svo verður þá er spurning hvort það verði gegn þjónustugjaldi sbr. 4.gr. Sé það ætlunin verður það að teljast ámælisvert, þar sem einungis yrði um tilflutning á opinberu fé að ræða.

o Hlutverk aðalfundar skv. 7. grein þarf að skýra nánar í texta greinarinnar sjálfrar. Nauðsynlegt er að fram komi hvaða vald aðalfundi er falið og á hvern hátt stjórn er bundin af ákvörðunum aðalfundar. Efast má um gildi aðalfundar ef hann verður einungis óljós samráðsvettvangur eins og skilja má af því sem segir í frumvarpinu um 7. grein.

o Umsögn fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins bendir til að draga megi í efa að þær hástemmdu hugmyndir sem liggja að baki frumvarpinu séu til þess fallnar að ná fram mikilli fjárhagslegri hagræðingu, eins og virðist ætlunin.

Stjórn BÍL er reiðubúin að fylgja sjónarmiðum þessarar umsagnar eftir við utanríkismálanefnd Alþingis sé þess kostur.

 

f.h. stjórnar Bandalags íslenskra listamanna (BÍL)  Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

 

Ályktun frá stjórn BÍL vegna tillagna um niðurskurð á útgjöldum Ríkisútvarpsins

Stjórn BÍL lýsir stuðningi við kröfur samstöðufundar kvikmyndagerðarfólks sem haldinn var að Hótel Borg 25. janúar 2010.Í yfirlýsingu frá útvarpsstjóra frá 22. janúar kemur fram að draga þurfi verulega saman í  rekstri stofnunarinnar og til að ná sparnaðarmarkmiðum verði m.a. hætt að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum.

Það er mat stjórnar BÍL að niðurskurðartillögur útvarpsstjóra stríði gegn lagalegu hlutverki stofnunarinnar.  Ríkisútvarpið hefur ríkulegum samfélagslegum skyldum að gegna og er beinlínis ætlað að vera einn af máttarstólpum íslenskrar menningar og listsköpunar. Hlutverk stofnunarinnar er ótvírætt, henni ber að standa vörð um íslenska menningu, miðla henni til landsins alls og næstu miða, standa vörð um lýðræðislegar grundvallarreglur, m.a með því að uppfræða og upplýsa þjóðina um málefni líðandi stundar. Þá er henni ætlað að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Sem fyrr lýsir stjórn BÍL yfir skilningi á þeim erfiðleikum sem glímt er við í rekstri hins opinbera, en jafnframt hlýtur hún að gera þá kröfu að málefnanlega sé staðið að niðurskurði útgjalda lykilstofnana á borð við Ríkisútvarpið.  Tillögur útvarpsstjóra virðast handahófskenndar og beinast helst að framleiðslu innlendrar dagskrár. Ekki er valin sú leið að stilla upp ólíkum kostum til sparnaðar, heldur ráðist í einhliða aðgerðir sem vega að nokkrum grundvallarskyldum stofnunarinnar.

Það er mat stjórnar BÍL að í rekstrarlegri hagræðingu Ríkisútvarpsins hefði mátt forgangsraða í þágu menningar og lista. Í því augnamiði hefði þurft að skoða gaumgæfilega og reikna út aðra kosti, eins og t.d. að stytta útsendingartíma sjónvarps og segja upp samningum um kaup á erlendu efni, sem hljóta að hafa hækkað umtalsvert  upp á síðkastið í ljósi gengishækkana. Það hefði mögulega verið hægt að hlífa Rás 1 við niðurskurði nú í ljósi þess samdráttar sem varð þar 2009. Þess í stað hefði mátt skoða mögulega hagræðingu af því að koma á launajöfnun og aflétta launaleynd innan stofnunarinnar. Það hefði verið hægt að leita eftir áliti starfsmanna stofnunarinnar og óska eftir hagræðingarhugmyndum frá þeim. Með slíkum aðferðum má finna leiðir sem yfirmönnum eru ekki eins vel sýnilegar og almennum starfsmönnum. Þá hefði þurft að skoða mögulegan sparnað af breytingum á launahvetjandi kerfi markaðsdeildar, lækkun launa yfirstjórnenda og niðurskurði á aksturs- og bílakostnaði stofnunarinnar.  Stjórn Ríkisútvarpsins hefði svo þurft að vera virkur þátttakandi í endanlegri ákvörðun um niðurskurðinn eftir að hafa skoðað til hlítar ólíka möguleika.

Stjórn BÍL hvetur til þess að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hugi að þeirri menningarstefnu, sem birtist í lögum um Ríkisútvarp og samningi stjórnvalda við Ríkisútvarpið og leggur til að fyrirliggjandi niðurskurðartillögur verði endurskoðaðar með það að leiðarljósi að staðið verði við þau fyrirheit og markmið sem þar eru sett fram.

 

Niðurskurður hjá RÚV ohf.

Tilkynnt hefur verið um niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu ohf. og er ljóst að menning og listir verða þar afar illa úti.

Hætt verður að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið verður stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum. Beinum útsendingum frá stórum viðburðum eins og Grímunni og íslensku tónlistarverðlaununum verður hætt. Ljóst er að hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar verðu stórlega skert gangi allur þessi niðurskurður eftir. Eðliegt er að spurt sé hvort ekki hefði mátt forgangsraða með öðrum hætti, t.d. stytta dagskrána, innleiða á ný einn sjónvarpslausan dag í viku eða draga stórlega úr beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum. Það er líka umhugsunarefni að stjórn Ríkisútvarpsins ohf skuli standa að baki útvarpsstjóra í þessum áherslum, en stjórnin er skipuð fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Í stefnu beggja ríkisstjórnarflokkanna hefur verið löðg áhersla á að standa beri vörð um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, ekki verður annað séð en að þessar tillögur sem nú hafa verið kynntar fari gegn þeim stefnumiðum. Ljóst er að samtök listamanna eiga eftir að láta í sér heyra varðandi tillögur þessar á næstu dögum.

 

Nýr forseti

Kolbrún Halldórsdóttir

Nýr forseti hefur tekið við stjórnartaumunum á Bandalagi íslenskra listamanna, Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi ráðherra.

 

 

 

AUGLÝSING UM FERÐASTYRKI

FRÁ LETTERSTEDTSKA SJÓÐNUM

Letterstedtski sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja norrænt samstarf og samstarf við  Eystrasaltsríkin á sviði rannsókna, lista, vísinda og fræða. Íslandsdeild sjóðsins auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum árið 2010 og er umsóknarfrestur til 15. febrúar n.k.

Ekki er um eiginlega námsstyrki að ræða, heldur koma þeir einir til greina, sem lokið hafa námi og hyggja á frekari rannsóknir eða þekkingaleit á starfssviði sínu, svo sem við rannsóknir á vísinda- eða fræðastofnun eða með þátttöku í fundum eða ráðstefnum. Styrkir eru einungis veittir til ferða milli norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna, en hvorki til ferða innan landanna né til uppihalds.

Umsóknir með greinargóðum upplýsingum um tilgang fararinnar skal senda til ritara Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins, Snjólaugar G. Ólafsdóttur, Vesturbrún 36, 104 Reykjavík, fyrir 15. febrúar n.k.

Þór Magnússon, formaður Íslandsdeildar sjóðsins, veitir frekari upplýsingar í s. 551 5320.

Upplýsingar um sjóðinn og styrkveitingar úr honum er og að finna á slóðinni:

http://www.letterstedtska.org/anslag_2010.htm

 

Aðalfundur BÍL

Aðalfundur BÍL verður haldinn í Iðnó, laugardaginn 9. janúar. Hann hefst klukkan eitt eftir hádegið með venjulegum aðalfundarstörfum. Síðar um daginn verður umræða um hina fyrirhuguðu Íslandsstofu.

Reykjavík, 23. desember 2009

 

Aðalfundarboð

Hér með er boðað til aðalfundar Bandalags íslenskra listamanna laugardaginn 9. janúar 2009. Fundarstaður verður Iðnó við Tjörnina.

Kl. 13:00             Hefðbundin aðalfundarstörf.

Skýrsla forseta, reikningar, stjórnarkjör, skýrslur aðildarfélaga, ályktanir, önnur mál.

 

Í lögum BÍL stendur:

Hvert aðildarfélag skal skila skriflegri greinargerð um starfsemi sína og tilnefningu fulltrúa a.m.k. hálfum mánuði fyrir aðalfund, ásamt félagatali og lagabreytingum.

Á stjórnarfundi 14. desember sl. var samþykkt að birta skýrslur aðildarfélaga á vefsíðu BÍL, en láta í staðinn af lestri þeirra á aðalfundi.

 

Kl. 15:00                        Kaffi

Kl 15:30                        Málþing um Íslandsstofu

Kl. 16:30                        Kveðjuskál

 

Í lögum BÍL stendur ennfremur:

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði.

Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.

 

Ágúst Guðmundsson

Forseti BÍL

 

Fyrirmyndarlottó

Bretar halda því gjarnan fram að þeirra lotterí sé það árangursríkasta í Evrópu, og ýmislegt bendir til þess að það sé ekki fjarri lagi. Frá upphafi hefur það varið 23 milljörðum punda í “góð málefni”, sem svo kallast, en það reiknast á okkar ótrúlega gengi 4.662 milljarðar íslenskir.

 

Á síðasta ári skiptist féð í stórum dráttum þannig á milli góðu málefnanna:

Heilbrigðismál, menntun, umhverfis- og góðgerðarmál 50%

Íþróttir 16,67%

Listir 16,67%

Þjóðararfur 16,67%

 

Það sem Íslendingum kann að virðast athyglisvert er að þarna standa listirnar jafnfætis íþróttunum. Þjóðararfleifðinni eru gerð sömu skil, enda kostar ekki lítið að halda við höllum og skrúðgörðum, sem síðan skilar sér að einhverju leyti aftur með ferðamannastraumnum.

Á þetta er bent svo að fólki sé ljóst að íslenska fyrirkomulagið, að stærsti hluti lottópeninganna fari í að styrkja íþróttir, telst til undantekninga í okkar heimshluta. Víðast hvar eru þessar tekjur einnig notaðar til að styrkja menningarlífið, bæði innviði þess og einstaka viðburði.

Einn kosturinn við lottóið felst í því að unnt er að bregðast við af örlæti þegar mikið liggur við. Þegar stór átaksefni koma upp getur þessi öflugi sjóður komið að verulegu liði. Í Bretlandi má nefna sem dæmi fyrirhugaða Ólympíuleika, og þar er verið að tala um háar upphæðir. En margvíslegir menningarviðburðir hafa einnig notið góðs af lottóinu, jafnt stórir sem smáir.

Vitaskuld er auðvelt að benda á verðug verkefni innan íþrótta hérlendis, en þau er líka að finna í menningunni. Nefna má bókastefnuna í Frankfurt, þar sem Ísland verður í heiðurssæti árið 2011, nú eða bara Listahátíð, sem hefur misst umtalsverðan stuðning frá einkageiranum, rétt eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er vissulega rétt að íþróttirnar hafa misst af stuðningi margra fyrirtækja, en það sama má ekki síður segja um menningarmálin. Um árabil var reiknað með því að einkageirinn sæi um vöxtinn í ýmsum listgreinum, og líklega er þar að finna ástæðu þess að víða stillti ríkisvaldið hækkunum á framlagi sínu í hóf á meðan best áraði. Með hruninu fór botninn úr þessu annars ágæta fyrirkomulagi, rétt eins og það gerði hjá fleiri aðilum, m.a. íþróttahreyfingunni.

Kannski það sé ekki svo ósanngjarnt að hafa þessa helmingaskiptingu á milli íþrótta og lista, þegar kemur að lottóinu. Það virðist gefast vel í Bretlandi. Því ekki líka hér á Íslandi? Öfugt við Íslendinga eru Bretar ófeimnir að upplýsa í hvað peningarnir fara og nota það stöðugt í auglýsingum fyrir lottóið. Áður en dráttur fer fram eru kynnt málefni sem notið hafa stuðnings, og er þar af ýmsu að taka. Þeir sem unna listum og menningu vita að þeirra hugðarefni njóta góðs af þessari starfsemi ekki síður en þeir sem unna íþróttunum. Og það held ég að efli þessa fjáröflunaraðferð og eigi sinn þátt í  vinsældum hennar og velgengni í Bretlandi.

 

Birtist í Fréttablaðinu 16.12 2009

 

Kvikmyndahaust?

Forseti BÍL átti þátt í að semja grein um niðurskurð á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar. Greinin birtist svo í Fréttablaðinu 17. desember 2009, sama dag og hópurinn gekk fyrir menntamálaráðherra til að hnykkja á röksemdum sínum.

Öllum er ljóst að skera þarf niður útgjöld ríkisins. Það gildir jafnt um menningarmál sem aðra málaflokka. Okkur undirrituðum þykir hins vegar ótækt hve hart er gengið að kvikmyndagerðinni umfram aðrar listgreinar og raunar umfram aðrar starfsgreinar þessa lands.

Samkvæmt síðustu fregnum verður framlag til Kvikmyndamiðstöðvar lækkað um 140 milljónir frá framlagi síðasta árs, sem er tæplega fjórðungs lækkun. Sé hins vegar miðað við samning þann sem kvikmyndagerðin undirritaði ásamt þremur ráðherrum við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum árið 2006 er lækkunin rúmur þriðjungur.

140 milljónir jafngilda tveggja ára framlögum úr Sjónvarpssjóði. Varla er það vilji Alþingis að leggja af þær vinsælu og almennt vel heppnuðu þáttaraðir sem framleiddar eru fyrir atbeina sjóðsins.

Opinbert framlag nemur aldrei meira en helmingi kostnaðar við hvert einstakt verkefni. Niðurskurður um 140 milljónir nemur því a.m.k. helmingi hærri upphæð til greinarinnar eða a.m.k. 280 milljónum.

Erfitt er að finna þá listgrein sem leggur jafnmikið til þjóðarbúsins og kvikmyndagerðin. Rök hafa verið að því leidd að ríkið fái allt sitt framlag til baka og vel það. Þau rök virðast ekki hafa sannfært þá sem ráða Íslandi nú.

Því skal svo haldið til haga að verðmætasköpun í kvikmyndagerðinni er tvenns konar: í beinum tekjum og í menningarauði. Íslenskar kvikmyndir eru hið raunverulega þjóðarleikhús – myndirnar eru teknar upp um land allt og þær fara auðveldlega fyrir augu allra, hvar á landinu sem fólk býr. Þær hafna gjarnan í sjónvarpinu, þar sem þær hafa löngum verið helsta leikna innlenda efnið, einkum á stórhátíðum. Ennfremur eru þær fluttar til útlanda, sýndar í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi víða um heim. Kunnugir telja að fátt sé betri landkynning en íslenskar kvikmyndir. Þær eru hin óbeina auglýsing sem gagnast betur en bein sölumennska. Á tímum niðurlægingar Íslands er meiri þörf á slíku en nokkru sinni fyrr.

Við skorum á ráðamenn þjóðarinnar að beita skynsemi og draga enn úr niðurskurði á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar.

Ari Kristinsson
Formaður Sambands íslenskra
kvikmyndaframleiðendaÁsdís Thoroddsen
F.h. Félags sjálfstæðra
kvikmyndaframleiðenda

Friðrik Þór Friðriksson
Formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra

Randver Þorláksson
Formaður Félags íslenskra leikara

Ágúst Guðmundsson
Forseti BÍLBjörn Brynjúlfur Björnsson
Formaður Íslensku kvikmynda-
og sjónvarpsakademíunnar

Hjálmtýr Heiðdal
Formaður Félags kvikmyndagerðarmanna

Menningin lögð niður?

Ungt sjálfstæðisfólk hefur lagt fram tillögur að sparnaði í ríkisbúskapnum, sem m.a. gera ráð fyrir því að Þjóðleikhúsið verði lagt niður, Sinfónían og háskólarannsóknir sömuleiðis, að ekki sé minnst á starfslaun listamanna. Jú, og svo á að selja Ríkisútvarpið, en það er nú kannski ekkert nýtt.

Hvernig á að hefja um þetta rökræðu? Þessar hugmyndir skapast af lífsviðhorfum sem eru nokkuð á skjön við þau sem almennt ríkja, það er ekki hlaupið að því að finna umræðugrundvöll. En kannski ég skauti fram hjá menningarhjalinu og reyni út frá hagrænum forsendum – og taki fyrir kvikmyndagerðina, sem er náttúrulega eitt af því sem leggst af, samkvæmt tillögunum.

Kvikmyndafólk hefur haldið því fram að ríkið tapi ekki á því að veita fé í íslenskar kvikmyndir, heldur hafi þvert á móti hagnað af slíkri fjárfestingu. Hvernig getur staðið á því? Og af hverju geta þá ekki einkaaðilar yfirtekið þetta hlutverk og haft af því góðan gróða?

Ríkið fjármagnar aldrei kvikmynd um meira en 50% af heildarkostnaði, hærra má ekki fara vegna evrópskra tilskipana, og yfirleitt er framlag ríkisins langt undir þeirri prósentutölu. Önnur fjármögnun kemur að verulegu leyti erlendis frá, enda eru íslenskir framleiðendur kræfir í að ná samningum við erlenda kollega og sækja fé í fjölþjóðlega sjóði.

Allt evrópska styrkjakerfið byggist á því að til séu kvikmyndastofnanir eða sjóðir í heimalandinu sem velji bitastæðustu verkefnin og veiti þeim upphafsstyrkina. Ekki fyrr en þá er unnt að nálgast fjölþjóðlegu sjóðina. Væri ekki til stofnun á borð við Kvikmyndamiðstöð gætu Íslendingar ekki sótt í norræna sjóðinn né þann evrópska né neina aðra. Þessu hlutverki getur einungis opinber stofnun sinnt, enda hefðu einkaaðilar aldrei af því þann hagnað sem ríkið fær.

Ríkið nýtur góðs af ýmsu sem ekki kæmi einkaaðilum til góða. Skatttekjur eru verulegar af kvikmyndagerðinni, enda eru laun ætíð langhæsti kostnaðarliðurinn. Erlendur gjaldeyrir kemur inn í landið bæði þegar erlendir styrkir eru greiddir, svo og söluágóði af dreifingu erlendis. Afleidd áhrif þessarar starfsemi fara vaxandi, því að ný tækni gerir kleyft að fullvinna myndirnar hérlendis. Alla þjónustu þarf vitaskuld að greiða, og af henni fást enn meiri skatttekjur.

Kvikmyndamiðstöð starfar náið með einkafyrirtækjum, sem flest mætti vafalaust kalla því vinsæla nafni sprotafyrirtæki. Miðstöðin fjárfestir í íslenskum myndum fyrir hönd ríkisins. Þetta eru ekki styrkir í þess orðs eiginlegu merkingu, heldur fjárfesting í samstarfsverkefnum milli ríkisins og einkafyrirtækja. Margir vilja að ríkið fjármagni orkuver í von að hljóta af þeim arð í framtíðinni. Eitthvað svipað gerist í þeim hugarorkuiðnaði sem kallast kvikmyndagerð, nema hvað þar tel ég að áhættan sé öllu minni og ágóðinn skjótfengnari.

Og sé nú fólki sama um íslenskt mál og menningu og allt það, skal á það bent að íslenskar kvikmyndir hafa reynst öflug kynning á landi og þjóð. Þær hafa dregið að ferðamenn, ennfremur erlend kvikmyndafyrirtæki sem verja háum upphæðum við tökur á Íslandi. Sú starfsemi byggist á því að hér séu fyrirtæki og mannskapur sem geti veitt þá þjónustu sem þarf. Clint Eastwood gat leitað til toppfólks þegar hann tók mynd sína hér um árið. Það skapaði gjaldeyristekjur og skatttekjur.

Vinsælt er að tala um menningartengda ferðaþjónustu. Ætli þetta geti þá ekki kallast ferðatengd menningarþjónusta? Íslenskar kvikmyndir auglýsa landið án þess að vera auglýsingar. Í því felst besta kynningin – og sú ódýrasta, enda innifalin í upphaflega framlaginu frá Kvikmyndamiðstöð.

Svona má reyndar fjalla um fleiri þætti menningarinnar en kvikmyndirnar. Svipuð niðurstaða fæst í bókinni um hagræn áhrif tónlistarinnar, sem kom út fyrir nokkrum árum. Á hinn bóginn eru listamenn þekktir fyrir að leggja ekki alltaf hægrænan mælikvarða á störf sín, og sumir þeirra verða fyrst raunveruleg hagræn stærð við dauða sinn. Hvað ætli ævistarf Kjarvals verði metið hátt á markaðsvirði ársins 2007?

Annars er ekki hollt að hugsa bara hagrænt. Þeir sem helst eiga sök á hruninu virðast hafa hugsað hagrænt í öllu, meira að segja þegar þeir völdu listamenn til að koma fram í afmælunum sínum. Og hvernig fór?

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu í nóvember 2009

 

Ályktun um Tjarnarbíó

Stjórn BÍL hefur fylgst með endurbyggingu Tjarnarbíós, sem nú er að mestu lokið. Hér fylgir ályktun um þá framkvæmd:

Á stjórnarfundi Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var þann 23. október 2009, var samþykkt svohljóðandi ályktun:

Stjórn BÍL telur það sérstakt fagnaðarefni að nú skuli sjá fyrir endann á endurbyggingu Tjarnarbíós.  Þarna mun vaxtarsprotinn í íslensku leikhúslífi eiga helsta aðsetur sitt, ennfremur verður þarna aðstaða fyrir sýningu vandaðra kvikmynda. Mikilvægt er að samningar takist við Sjálfstæðu leikhúsin um reksturinn og að þeim verði gert kleyft að standa að honum með glæsibrag.

 

Page 20 of 28« First...10...1819202122...Last »