Fréttir

Listastefna BÍL

Á samráðsfundi BÍL með menntamálaráðherra 30.mars síðastliðinn barst í tal hvort ekki væri tímabært að ráðuneytið gæfi út menningarstefnu sína. Ráðherra stakk þá upp á því að Bandalagið riði á vaðið og semdi slíka stefnu. Þessu tók stjórn BÍL afar vel og hefur nú ýtt verkefninu á flot, en hyggst einskorða sig við listirnar í stefnumótun sinni. Fyrsta skrefið er að boða til málþings í Þjóðminjasafninu, fyrirlestrarsal, laugardaginn 16. maí kl. 10-12 að morgni.

Frummælendur verða Halldóra Vífilsdóttir, arkitekt, og Njörður Sigurjónsson, lektor, en hann hefur verið ráðinn til að stýra verkinu. Að loknum inngangsorðum þeirra verða opnar umræður um málið. Allir listamenn eru hjartanlega velkomnir.

 

Ráðstefna í Stykkishólmi

MENNINGARLANDIÐ 2009

Menntamálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga, í samstarfi við menningarráð landsbyggðarinnar boðar til ráðstefnu á Hótel Stykkishólmi dagana 11. og 12. maí n.k.

Fjallað verður um reynsluna af menningarsamningunum og spurt hver árangur hafi orðið og hvert beri að stefna.  Hvernig getum við nýtt okkur menningu og menningartengda ferðaþjónustu til nýrrar sóknar í nýsköpun og nýtingu menningararfs okkar?

Menningarráð landsbyggðarinnar  kynna starfsemi sína og bjóða upp á fjölbreytt sýnishorn skapandi menningar. Fróðleg erindi og spennandi viðburðir.

DAGSKRÁ

Mánudag 11. maí

Kl. 12:00             Trommusveitin í Stykkishólmi býður gesti velkomna

Ávarp ráðherra

Landshlutapóstur frá Menningarráði Vesturlands og Vestfjarða

Kl.12:40            Dögg Mósesdóttir: Framtíðarfjárfestingin menning

Kl. 13:00            Leikatriði frá Ungmennafélaginu Íslendingi í boði Menningarráðs Vesturlands

–       Stutt hlé –

Kl. 13:30            Elísabet Indra Ragnarsdóttir: „Við verðum að læra að sjá meira, heyra meira, skynja meira …“

Kl. 13:50             Hjálmar H. Ragnars: Skapandi kraftur

Kl. 14:10            Jón Hrólfur Sigurjónsson: „Hér er hægt að fá brjálaðar hugmyndir og láta þær gerast!“

Kl. 14:30 Spurningar og svör um menningaruppeldi og listfræðslu

–       Stutt hlé –

Kl. 15:00            Tónlistarperlur: Alexandra Chernyshova sópran, Þórhallur Barðason barinton og Tom R. Higgerson píanóleikari flytja.  Tónlistaratriði í boði Menningarráðs Norðurlands vestra

Kl. 15:15            Landshlutapóstur frá Menningarráði Norðurlands vestra

Kl. 15:30            Þór Sigfússon: Um þýðingu lista og menningar í íslensku athafnalífi

–       Stutt hlé –

Kl. 16:10             Menningarlandið 2009: Höfum við gengið til góðs: Guðrún Helgadóttir og Signý Ormarsdóttir flytja hugleiðingu um reynslu og árangur af menningarsamningum ríkis og sveitarstjórna. Að erindum þeirra loknum taka þær þátt í pallborði ásamt Svanfríði Jónasdóttur bæjarstjóra á Dalvík og fulltrúum frá iðnaðar- og menntamála-ráðuneytum.

Kl. 17:15            Sameiginleg upplifunarferð með ævintýrasiglingu. Sturla Böðvarsson segir frá sögu og skipulagi gamla miðbæjarins í Stykkishólmi og gengið verður fylktu liði gegnum gamla bæinn, niður á höfn og um borð í bát sem siglir með gesti um Breiðafjörð. Boðið verður upp á ferskt sjávarfang um borð.

Kl. 19:45            Fordrykkur í boði Stykkishólmskaupsbæjar í Vatnasafninu.

Kl. 21:00            Kvöldverður með næringu fyrir líkama og sál. Þjóðlagasveitin frá Akranesi, Stefán Benedikt Vilhelmsson leikari, Þórunn Gréta Sigurðardóttir píanóleikari  og  Kómedíuleikhúsið frá Ísafirði verða meðal skemmtiatriða.

Þriðjudag 12. maí

Kl. 09:30            Svanhildur Konráðsdóttir:  Menning – mikilvægur drifkraftur í ferðaþjónustu

Kl. 09:50            Landshlutapóstur frá Menningarráði Eyþings

Kl. 10:05            Stuttmyndafestivalið Stulli – verðlaunamynd og bjartasta vonin 2008 í boði Menningarráðs Eyþings

Kl. 10:15            Dansgjörningur í boði Menningarráðs Eyþings: Anna Richardsdóttir

Kl. 10:30            Landshlutapóstur frá Menningarráði Suðurlands

Kl. 10:45            Þjóðlagasveitin Korka í boði Menningarráðs Suðurlands

–       Stutt hlé –

Kl. 11:20             Sigríður Sigurjónsdóttir: Stefnumót Bænda og hönnuða

Kl. 11:40            Sólveig Ólafsdóttir: Meyjarhumar og hákarl

Kl.12:00            Matarhlé

Kl.13:00            Viðar Hreinsson: Menningararfur og sjálfsmynd Íslendinga

Kl. 13:20            Hjálmar Sveinsson: Skipulag er menning

Kl. 13:40            Umræður

–       Stutt hlé –

Kl. 14:20             Landshlutapóstur frá Menningarráði Austurlands

KL. 14:35            Brynhildur Guðjónsdóttir: Í fáum orðum

Kl. 15:00            Jón Jónsson: Rótað í framtíðinni

Kl.15:20            Ávarp ráðherra

Kl.15:30            Lúðrasveit Stykkishólms og Akraness kveður gesti

Starfslaunum fjölgað

Fimmtudaginn 16. apríl samþykkti Alþingi nýtt frumvarp um lög um starfslaun listamanna. Mestu skiptir sú breyting að fjölga laununum um þriðjung eða úr 1200 í 1600 mánaðarlaun. Áður höfðu listamenn náð samstöðu um skiptingu launa á milli listgreina, svo og um aðra þá þætti sem að málinu koma, og var sú sátt innsigluð á fundi í Menntamálaráðuneytinu 7. janúar síðastliðinn.

 

Sjá meira um málið undir Greinar.

 

Starfslaun listamanna

Ágúst Guðmundsson:

 

Sá árangur sem náðist með nýjum lögum um starfslaun listamanna á sér langan aðdraganda,  því að lögum um þennan málaflokk hefur ekki verið haggað síðan 1996. Á meðan ýmsir aðrir þjóðfélagsgeirar sóttu sér gull í greipar og stækkuðu og bólgnuðu, einkum þeir auðugustu, gerðist ekkert annað með listamannalaunin en að umsóknum fjölgaði ár frá ári. Þörfin á að bæta um betur var því orðin afar brýn.

Þetta viðurkenndi þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og bauð upp á það nú í haust að hefja viðræður við fulltrúa frá Bandalagi íslenskra listamanna um þriðjungs fjölgun mánaðarlauna. Með þessu var hún að efna loforð frá bjartari dögum í hagsögu þjóðarinnar, en það skal sagt henni til hróss að hún stóð við loforðið þrátt fyrir efnahagslegt hrun. Er skemmst frá því að segja að þann 7. janúar síðastliðinn náðist samkomulag um skiptingu milli hinna ýmsu listgreina og um flesta aðra þætti málsins.

Það var í rauninni ekki annað eftir en að greiða úr nokkrum formsatriðum í ráðuneytinu og reka á frumvarpið smiðshöggið, þegar stjórnin féll í janúarlok. Undirritaður var þess þá fullviss að erfitt yrði að endurlífga málið – en nýr menntamálaráðherra kom listamönnum skemmtilega á óvart með einstakri framtakssemi. Af skörungsskap tók Katrín Jakobsdóttir málið fyrir og lét ganga frá frumvarpinu með hraði, lagði það síðan fyrir vorþingið, þar sem það var afgreitt á lokadögum þess.

Svo sem oft áður komu fram gamalkunnar úrtölur, t.d. um listamenn á framfæri ríkisins, en þær voru þó venju fremur bitlausar að þessu sinni. Nokkuð byggðust þær á þeim rótgróna misskilningi, að verið væri að styrkja tómstundagaman einhverra iðjuleysingja! Staðreyndin er hins vegar sú að listamenn innan BÍL eru atvinnumenn úr ýmsum greinum og þiggja laun, rétt eins og hverjir aðir, fyrir vinnu sína. Starfslaunin tengjast verkefnum sem lístamenn sækja um stuðning við, ríkið fjármagnar síðan þau verkefni í formu starfslauna, hljóti þau náð fyrir augum sjóðsstjórnanna.

Á tímum kreppu og atvinnuleysis eru starfslaun listamanna einmitt kjörinn vettvangur til að auka atvinnuskapandi tækifæri á sviðum sem gjarnan leiða af sér umtalsverð afleidd störf og þjónustu af ýmsu tagi. Þar með er líka tekin stefna á störf sem kalla á virkjun hugans fremur en landsins gæða og er raunar aðeins eitt dæmi af mörgum um þá trú á hugarorkuna sem einkennir sitjandi stjórnvöld.

Katrín Jakobsdóttir fer vel af stað í embætti sínu sem menntamálaráðherra. Annað stórvirki hennar er að taka þátt í byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss í samstarfi við borgaryfirvöld, en það er annað mál sem hljómar illa í eyrum þeirra sem ekki hefur skilist að listviðburðir og menningarlíf yfirleitt eru ekki bara skraut á tyllidögum þjóðlífsins, heldur heyra til þeirri atvinnugrein sem vex hraðast í heimshluta vorum: iðnaði sköpunar.

 

Greinin var send Morgunblaðinu 22. apríl 2009

 

Um starfslaun listamanna

Ágúst Guðmundsson:

 

Í ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins um menningarmál er lagt til að “lög um listamannalaun verði endurskoðuð með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði”.

Þarna virðist gæta ákveðins misskilnings. Starfslaun listamanna eru í raun verkefnatengdur listsköpunarsjóður.  Það var einmitt með lögunum frá 1991 sem tekin var upp sú skipan að greiða listamönnum laun fyrir að vinna ákveðin verkefni. Úthlutað er á grundvelli umsókna þar sem listamenn tilgreina ítarlega í hverju viðkomandi verkefni felast og á hvaða tíma þau verði unnin.

Starfslaun listamanna eru þar með ekki viðurkenning fyrir störf fortíðarinnar, heldur þvert á móti eins verkefnatengd og hugsast getur. Góður árangur af fyrri störfum styrkir vissulega allar umsóknir, en það gildir ekki frekar um starfslaun listamanna en önnur viðlíka umsóknarferli.

Ef til vill er hér verið að blanda starfslaunum listamanna saman við heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir beint, en þau eru, eins og nafnið bendir til, ætluð til að heiðra nokkra af elstu og helstu listamönnum þjóðarinnar og eru þar með ekki verkefnatengd.

“Lista- og menningarlíf þjóðarinnar hefur blómstrað á undanförnum árum” segir í upphafi ályktunarinnar, og vafalaust má rekja það að verulegu leyti til starfslauna listamanna, sem hafa ýtt mörgu verkefninu úr vör sem annars hefði aldrei farið á flot. Stærsti sjóðurinn er sá sem greiðir rithöfundum starfslaun, og á hann verulegan þátt í uppgangi bókmenntanna undanfarin ár

Rétt er að taka undir óskir landsfundarins um að áfram verði haldið “að hlúa að þeim grunni sem lagður hefur verið í lista- og menningarlífi þjóðarinnar”. Reyndar segir einnig að Sjálfstæðisflokkurinn leggi “áherslu á stuðning við skapandi listir”, og því fagna íslenskir listamenn.

Bandalag íslenskra listamanna getur tekið undir það að lög um listamnannalaun eigi að taka reglulega til endurskoðunar, en þó ekki með þeim formerkjum sem koma fram í drögum að ályktun Landsfundarins og enn má lesa á heimasíðu flokksins, en þar stendur í fjórða lið: “Landsfundur vill leggja niður listamanna- og heiðurslaun í núverandi mynd”. Því hlýtur Bandalag íslenskra listamanna að fara þess á leit við talsmenn Sjálfstæðisflokksins að þeir útlisti nánar hvað í ályktun þeirra um menningarmál felst. Tíminn styttist óðum til kosninga og íslenskir listamenn munu aldrei una því að áratuga barátta þeirra fyrir starfsskilyrðum sé fyrir borð borin og að engu höfð.

 

Birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 3. apríl 2009

 

Samráðsfundur með menntamálaráðherra

Þann 17. mars síðastliðinn hélt stjórn BÍL fund með ráðherra menntamála og ráðuneytisfólki. Fundurinn fór fram í Ráðherrabústaðnum yfir heitu súkkulaði og rjómapönnukökum. Var mál manna að fundurinn hefði farið einkar vel fram, enda er ánægja listamanna mikil með frumvarp um starfslaun listamanna sem nú liggur fyrir þinginu. Ennfremur eru framkvæmdir við Tónlistarhús í samræmi við vilja BÍL, svo sem sjá má í ályktunum síðasta aðalfundar.

 

Málefni á samráðsfundi menntamálaráðuneytisins með Bandalagi íslenskra listamanna 17. mars 2009:

 

Listdans

Á þessum samráðsfundi höfum við orðið sammála um að vekja sérstaka athygli á listdansinum og stöðu hans sem atvinnulistgreinar.

Spurt er: Hver er stefnumörkun menntamálaráðuneytisins í málum listdansins til framtíðar?

 

Ríkisútvarpið

Við viljum hvetja til átaks  í málefnum RÚV í þá veru  að stórauka umfjöllum um íslenska menningu í mjög víðum skilningi. Breyttar forsendur í kjölfar hrunsins hafa fært í brennipunkt að sú auðlegð sem við hljótum að byggja á er menning okkar fyrst og fremst, hlutskipti okkar hér í fortíð, nútíð og framtíð.

RÚV er oft mjög utangátta þegar kemur að þessum meginstærðum og brýnt að það verði vakið til vitundar um hlutverk sitt og skyldur.

Ennfremur skal á það bent að eigi Ríkisútvarpið  að geta staðið undir nafni þarf innlend dagskrá að geta skartað vönduðu, leiknu efni.

 

Listnám

Breytt verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga í listnámi hefur víðast ekki náð fram að ganga. Má nefna tónlist, myndlist og dans í þessu samhengi. Nýlega komst á nýtt skipulag í danskennslu fyrir öll skólastig, svo dæmi sé tekið, en það vantar að fylgja því eftir í raun.

Spurt er: Hvert er stefnt í fræðslumálum listanna? Er verið að vinna að þeim á vegum ráðuneytisins, og sé svo, hverjir koma að þeirri vinnu?

 

Listskreytingar

Um listskreytingar opinberra bygginga gilda ákveðnar reglur, sem gjarnan eru brotnar. BÍL leggur til að prósentið eina, sem í listskreytingar á að verja, fari í gegnum Listskreytingasjóð til að tryggja að ekki verði farið á svig við lögin.

 

Skattprósenta á tekjur af hugverkum

Viðurkenna ber hugverk sem eign, er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir, svo sem hlutabréf eða innstæður í banka. Tekjur af slíkri eign ættu að bera sama skatt og fjármagnstekjur.

 

Byggingarlist

Arkitektar vilja ræða safnamál byggingarlistar í landinu og hlutverk byggingarlistasafna við að framfylgja menningarstefnu í mannvirkjagerð; ennfremur að komið verði upp fullgildu námi í arkitektúr á Íslandi.

 

Höfundarréttur

Sem fyrr leggur BÍL megináherslu á að hverskonar höfundarréttur verði varinn. BÍL skorar á ráðherra að hún sjái til þess að þær stofnanir sem heyra undir menntamálaráðuneytið semji við myndlistarmenn um greiðslu fyrir notkun mynda af verkum íslenskra myndlistarmanna, ekki síst þeim verkum sem eru í eigu hins opinbera.

 

Ályktanir

Á aðalfundi Bandlags íslenskra listamanna 31. janúar sl. voru samþykktar þrjár ályktanir. Nú þegar hefur menntamálaráðuneytið orðið við tveim þeirra: um starfslaun listamanna og um tónlistarhúsið. Náðst hefur samstaða um nýtt frumvarp um starfslaun listamanna, sem menntamálaráðherra  mun leggja fyrir Alþingi. Þessu fagna íslenskir listamenn. Ekki er síður ánægjulegt að áfram verði unnið að Tónlistar- og ráðstefnuhúsi.

Þriðja ályktunin var almenn athugasemd , sem hér fer á eftir –

 

“Um atvinnuöryggi listamanna

Bandalag íslenskra listamanna minnir á að árið 2009 er ár sköpunar og nýbreytni í Evrópu. Hugvit og sköpunargáfa verður æ hærra metin, jafnt í listum sem sprotafyrirtækjum.

Hins vegar fer atvinnuleysi vaxandi um þessar mundir. Verkefnastaða listamanna er orðin verulega slæm líkt og margra annarra, verkefni daga uppi þar sem vandasamt reynist að fjármagna þau. Fjölmargir listamenn eiga því erfitt með að skapa sér og öðrum atvinnu lengur. Við munum ekki heyra tölur af hópuppsögnum þar sem listamenn reka sig flestir sjálfir, en atvinnuleysið í þessum geira er að stóraukast, og er það mikið áhyggjuefni.

Því er rétt að benda á að litla fjárfestingu þarf til að viðhalda störfum í menningu og listum miðað við margar aðrar atvinnugreinar. Menning og listir leggja til 4% af landsframleiðslu og standa fyrir kraftmiklu og fjölbreytilegu menningarlífi sem ber á viðsjárverðum tímum út hróður lands og lýðs um heim allan, auk þess sem menning og listir eru í auknu mæli notuð til þess að endurreisa og endurnæra samfélög með góðum árangri.

BÍL hvetur öll stjórnvöld til að hafa þetta í huga. Sérstaklega er því beint til sveitarstjórna að standa vörð um fjárveitingar til menningarráða.”

 

Við þetta má bæta eftirfarandi tilvitnunum í bréf frá myndlistarmönnum til efnahags- og skattanefndar Alþingis:

“… Við áætlun reiknaðs endurgjalds eru myndlistarmenn í starfaflokki C, ásamt skemmtikröftum, fasteignasölum og öðrum ágætum starfsstéttum. Árið 2008 var gengið út frá því að þessi hópur hefði á bilinu 414 til 663 þúsund í mánaðarlaun en það er víðs fjarri raunveruleika myndlistarmanna…

…Fyrir 6 árum sendi stjórn SÍM þáverandi fjármálaráðherra, Geir Haarde, bréf þar sem m.a. var bent á galla starfaflokkunarkerfisins og óskað eftir breytingu gagnvart myndlistarmönnum. Svar ráðuneytisins þá var að ekki væri ástæða til að aðhafast í málinu…”

 

Minningarsjóður Guðjóns Samúelssonar

Minningarsjóður dr. phil. húsameistara Guðjóns Samúelssonar auglýsir hér með eftir umsóknum um styrkveitingar úr sjóðnum. Styrkir eru veittir annað hvert ár og fer styrkveiting fram í áttunda sinn þann 22. apríl 2009.

Tilgangur sjóðsins er skv. skipulagsskrá „að útbreiða þekkingu á húsagerðarlist í íslenskum anda“.

Styrkveitingar munu að þessu sinni nema 2.000.000 kr..

Umsóknir skulu vera á rafrænu formi og sendast á netfangið ai@ai.is eða til skrifstofu Arkitektafélags Íslands, Engjateigi 9, 105 Reykjavík, merktar „Minningarsjóður“, eigi síðar en kl. 12.00 mánudaginn 6. apríl 2009.

 

Vakningin

Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur):

 

Hóptilfinningaflæði og útrás upplifum við oftast á handbolta eða fótbolta. Stundum á rokktónleikum og svo núna á Austurvelli á þessum athyglisverðu tímum sem við lifum. Ég hef séð til listamanna sem hafa meiri áhuga á því sem gerist á áhorfendapöllum en á fótboltavellinum sjálfum. Mun meiri. Þeir sýna þessum sjálfsprottnu mótmælum á Austurvelli alveg sérstakan áhuga. Bæði er það til þess að geta speglað sögulega atburði og hugsanlega túlkað þá. Annað eins hefur nú gerst. Hins vegar hafi listamenn áhuga á þeim af því að þeir geta tekið virkan þátt og hjálpað til. Það hafa þeir gert, heldur betur! Listamenn þekkja nefnilega kreppur, óreiðu og óöryggi betur en margir aðrir. Þeir vita að þaðan sprettur það.

„Hann barði á framrúðuna, afmyndaður af reiði“ er lýsing fallins forsætisráðherra á skáldinu og myndlistarmanninum Hallgrími Helgasyni. Gunnar Þórðarson, tónlistarmaður, sem engin hafði heyrt segja styggðaryrði opinberlega, ekki einu sinni á hippaárunum, hreytti út úr sér bálreiður í viðtali við mbl/sjónvarp á þingsetningardaginn: „Ég vil ríkisstjórnina burt, seðlabankann og fjármáleftirlitið. Þetta gengur ekki.“ Aðspurður hvers vegna hann kæmi hér í dag til að mótmæla svaraði hann: „Ég er bara brjálaður!“ Og hann heitir Hörður Torfason sá sem farið hefur fremstur við skipulagningu laugardags mótmælanna á Austurvelli. Hann er tónlistarmaður og leikstjóri. Það sást til margra kvikmyndagerðamanna eins og Ara Alexanders, Hjálmtýs Heiðdal o.fl. með vélina á lofti. Þetta eru örfá áberandi dæmi. Mjög margir þekktir og minna þekktir listamenn og listnemar hafa verið fjölmennir í fremstu víglínu.

Hvaða fagstétt er alltaf í kreppu? Fjárhagslegri, tilfinningalegri, veraldlegri og tilvistarlegri. Einmitt! Listamenn nota tilfinningar og innsæi öðrum fremur við iðju sína. Vitsmunir eru hafðir með sem aftursætisbílstjórar – þeir stjórna ekki ferðinni. Vitsmunir skapa ekki. Menn verða listamenn vegna tilfinninganæmni og innsæishæfileika en ekki vegna reglusemi og bókhaldsgetu. Þeir kunna að nota innsæi, hafa radarinn í lagi og skynja betur en margir aðrir þann köllunartíma þegar hafist skal handa við umbreytinguna. En það hafa líka margir fleiri. Margir stóðu álengdar og hugsuðu það sem hinir voru að gera. Enn fleiri sátu við fjölmiðla og hugsuðu líka sitt!

Myndmál og slagorð hafa verið að þróast eftir því sem á veturinn hefur liðið. Það er einmitt það afl sem hreyfir við fólki. Snertir tilfinningarnar, nær sambandi við undirmeðvitundina og ímyndunaraflið. Þegar undirtakturinn og hrynjandin bætist við verður aflið óstöðvandi og leikur lausum hala. Þessi atriði, ímyndunaraflið og tilfinningar, eru sterkust við myndun sögulegara hreyfinga og hafa alltaf verið. Fyrsta myndmálið sem vakti afgerandi athygli og snerti fólk var þegar gulur Bónus fáninn með feita grísnum var dreginn að húni fyrir aftan miðjustykkið á þakbrún Alþingishússins. Þetta miðjustykki sem trónir þarna er tákn nýlenduherrans Kristjáns níunda og ætti að vera búið að fjarlægja fyrir löngu. Fyrsta slagorðið sem allir skildu var „Helvítis Fokking Fokk“ er eftir myndlistarmannin Gunnar Má Pétursson. Síðan komu þau nokkur í viðbót. Slagorð eins og „Vanhæf ríkisstjórn!“ Fáninn með fjórum hnefum í miðjunni er eftir Guðmund Hallgrímsson myndlistarmann. Þetta er fáninn sem vörubílstjórararnir höfðu fremstan þegar ein mótmælagangan endaði með stórkostlegu reykspóli mótorhjólatöffara. Mjög myndrænt.

Myndlistarmaðurinn Sara Riel skartaði kraftmiklu ópi sem stóð upp úr þvögunni á Austurvelli. Einhverjir sem ég kann ekki að nefna fótósjoppuðu svo ríkisstjórnarmeðlimina þannig að þeir urðu að dýrum. Það myndbreytingarbragð er þekkt í pólitískri myndmálssögu. Sálfræðilega gerir það að verkum að auðveldara er að fella þá ef þú sérð þá svona. Það var gamli gjörningalistamaðurinn og teiknarinn Halldóra Ísleifsdóttir sem kom mynd á „Neyðarstjórn kvenna“. Á gamlársdag var það svo teiknarinn Þorvaldur Óttar Guðlaugsson sem hefur skipulagt hina árlegu „Afturgöngu“ sem hvatti fólk til að koma niður á Hótel Borg og reka tunguna út úr sér á gluggann og ulla á liðið sem sat við kryddsíldina. Viðsnúningsauglýsingar eða það sem kallað er „detourment“ sáust við Lækjartorg þegar settur var verðmiði á barnaljósmyndirnar sem hangið hafa þar eftir brunann. „Detourment“ auglýsingar eru raktar til danska Cobra listamannsins Asgers Jorn. Þær voru mikið notaðar við stúdentauppreisnirnar 1968. Svona má lengi telja upp. Þetta eru aðferðir listamanna við að hita upp ástand. Þeir hafa til þess sérstaka þekkingu og hefð. Hér á landi alla leið til Fjölnismanna.

Það var svo miðvikudaginn 21. janúar þegar þing kom saman eftir jólaleyfi þegar suðupunkturinn varð og svo fimmtudaginn 22. janúar fyrir utan Þjóðleikhúsið. Skilaboðin voru skýr. Fólk vildi ríkisstjórnina burt og að boðað yrði til kosninga. Heilu tromusettunum var stillt upp á Austurvelli. Trommur voru barðar, lúðrar voru þeyttir, sprengdar púðurkerlingar og barið með sleifum á potta og pönnur. Búsáhaldabyltingin var hafinn. Þegar líða tók á kvöldið hitnaði enn meir í kolunum. Eldar voru kveiktir. Oslóarjólatréð var fellt og sett á eldinn. Nýjar fánatillögur voru settar fram fyrir nýtt lýðveldi. Sá séríslenski siður að sletta skyri var í hávegum hafður. Skyrið var einkar grafískt á svartstökkum valdsins. Sú athöfn er virðingavottur við mótmælanda Íslands númer eitt, Helga Hóseason.

Eggjum var kastað og litabombur, grænar og rauðar fylltar og varpað í tugatali yfir Alþingishúsið og krosslagða hamra á skjöldum óeirðalögreglunnar. Þetta eru aðferðir abstrakt expressjónista. Þetta er þekkt úr heimi nýja málverksins. Eggin eru þekkt bindiefni úr heimi málaralistarinnar. Daginn eftir við Þjóðmenningarhúsið og Þjóðleikhúsið voru eldar kveiktir. Rauðir og svartir fánar dregnir að húni Þjóðmenningarhússins. Stemmingin var æðisleg. Reyklyktin og ylurinn. Taktfastur ryðþminn bergmálaði um húsasund. Fólk var farið að dansa. Bros lék um varir og allir fundu að aflið var vaknað.

Ný ríkisstjórn Íslands getur þakkað listamönnum og vinnuaðferðum þeirra fyrir tímabundin sæti sín. Þetta er ekki búið. Þetta er að byrja.

 

Skýrsla forseta fyrir árið 2008

Mannabreytingar í stjórn Bandalagsins á árinu urðu þær að Kristín Mjöll Jakobsdóttir kom í stað Margrétar Bóasdóttur hjá Félagi íslenskra tónlistarmanna og Steinunn Knútsdóttir tók við af Ingólfi Níels Árnasyni í Félagi leikstjóra á Íslandi.Við bjóðum þær innilega velkomnar í hópinn.

Þá er þess einnig að geta að fyrrum forseti bandalagsins, Brynja Benediktsdóttir, lést á árinu. Hún var einungis tvö ár í embætti, en einmitt þá náðist góður árangur í launamálum listamanna. Hún kom því einnig á að formenn félaganna væru fulltrúar þeirra í stjórn, en ekki sérstaklega kjörnir menn.

Þetta ár hefur verið tími brostinna vona hjá Bandalaginu eins og hjá svo mörgum. Árið hófst svo sem nógu vel, en bankahrunið hefur vissulega komið illa við listamenn, e t v í meira mæli en við flestar aðrar starfsstéttir, og á það bæði við um listamenn sem einstaklinga og um stofnanir og fyrirtæki sem tengjast okkur og hafa veitt okkur stuðning.

Það er reyndar athyglisvert hve stóran hlut íslenskir listamenn áttu í þeim skipulögðu og óskipulögðu mótmælum sem spunnu mikilvæga þræði í  örlagavef frárarandi ríkisstjórnar. Þar ber hæst rithöfundana sem töluðu á fundum og skrifuðu í blöðin, en einnig má nefna söngvaskáld og leikstjóra sem stóðu fyrir fundunum,  auk þeirra fjölmörgu sem létu sjá sig og stigu fram í fréttaviðtölum.

Hefðbundnir samráðsfundir voru haldnir snemma á árinu með borgarstjóra, sem þá var Ólafur F Magnússon, og menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Menntamálaráðherra lýsti því yfir að hún teldi fjölgun listamannalauna næsta mál á dagskrá ráðuneytisins. Forseti kallaði nokkrum sinnum eftir efndum og var loks boðaður á fund um miðjan júní til að sjá drög að lagabreytingum. Því miður var honum einnig uppálagt að segja engum frá því sem þar stóð, sem batt hendur hans í málinu allt þar til fundað var um það 14. nóvember og drögin sýnd stjórn BÍL. Í framhaldinu bauð ráðuneytið upp á umræðunefnd um listamannalaunin, og tilnefndi BÍL fimm í hana, þau Áslaugu Thorlacius, Jakob Frímann Magnússon, Karen Maríu Jónsdóttur, Kjartan Ólafsson og Pétur Gunnarsson. Störf nefndarinnar gengu vonum framar og lá niðurstaða fyrir eftir maraþonfund 7. janúar síðastliðinn. Sú niðurstaða var síðan kynnt ráðherra. Það gerðist svo einmitt þann dag sem forseti átti fund í ráðuneytinu til að kalla eftir því að frumvarpið verði lagt fyrir alþingi að ríkisstjórnin sprakk. Hvað um frumvarpið verður veit enginn á þessari stundu, en mikilvægt er að kalla eftir skjótum viðbrögðum nýs ráðherra menntamála.

Það verða aldrei allir glaðir þegar fé er skipt á milli listgreina, en eimitt þess vegna er góð ástæða til að hrósa nefndinni fyrir að komast að niðurstöðu. Þetta er mikilvægur áfangi í þessu sameiginlega baráttumáli listamanna, og því er rétt að þakka fulltrúum BÍL í umræðuhópnum fyrir vel unnin störf. Allar umræðurnar um málið í stjórn BÍL hafa án efa fleytt því áleiðis, enda tel ég affarasælast að listamenn fái sjálfir að fjalla sem mest um það hvernig þessum málum skuli hagað, geti þeir á  annað borð komið sér saman um það.

Menntamálaráðuneytið setti einnig á stofn samráðshóp um menningu og listir í kreppunni, tveir fulltrúar völdust í hópinn úr BÍL, þeir Ágúst Guðmundsson og Björn Th Árnason. Tveir fundir hafa verið haldnir, en raunar er enn ekki vitað hver áhrif umræður eða niðurstöður þar kunna að hafa á gang mála.

Við í stjórn BÍL funduðum með fréttastjóra Ríkisútvarpsins, ennfremur, undir lok ársins, með dagskrárstjóra sjónvarps og útvarpsstjóra. Einkum var síðari fundurinn gagnlegur, en stjórnin hafði þá nýverið samþykkt ályktun þar sem hún lýsti m.a. áhyggjum sínum af innlendri dagskrárgerð.

Bandalagið varð áttrætt síðastliðið haust. Af því tilefni var efnt til samkomu í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Lauslega áætlað voru gestir milli 2 – 300 talsins. Þetta afmælisár hefur farið á annan veg en við ætluðum í upphafi þess. Afmælið bar upp á 6. september, nákvæmlega einum mánuði áður en fyrst bankinn sprakk. Þá vorum við í sókn, nú erum við komin í vörn, eins og flest önnur samtök. En kannski sókn sé besta vörnin –  ætli það sannist ekki áður en yfir lýkur? Að minnsta kosti er vert að missa ekki sjónar af langtímamarkmiðum okkar, þó að illa ári um þessar mundir.

Litróf listanna fór af stað nú í haust og gekk vel undir verkefnisstjórn Irmu Gunnarsdóttur. Tvö pör listamanna fóru í skólana, annars vegar Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður, og Davíð Þór Jónsson, tónlistarmaður, og hins vegar Edda Björg Eyjólfsdóttir, leikari, og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, dansari. Þessi atriði hafa nýlega verið boðin aftur í skólum á höfuðborgarsvæðinu, enda afar vel tekið þar sem þau sáust í haust.

Í fyrra fögnuðum við byggingu tónlistarhúss. Nú hafa allar framkvæmdir verið stöðvaðar. Á aðalfundi Listahátíðar í Reykjavík kom fram eindregin yfirlýsing frá borgarstjóra og menntamálaráðherra um að framkvæmdum við húsið verði haldið áfram. Á þessu stigi málsins er ómögulegt að spá um hvað ný ríkisstjórn gerir, að ég tali nú ekki um þá stjórn sem tekur við eftir kosningar í vor. Það er hins vegar eindreginn vilji Bandalagsins að stuðla að því að bygging hússins haldi áfram sem fyrst.

10. mars síðastliðinn stofnuðum við Kjarafélag BÍL, en þátttaka í því skal vera frjáls öllum listamönnum. Til Kjarafélagsins var stofnað svo að það gæti síðan gengið í Bandalag háskólamanna og notið þar þeirra réttinda sem felast í sjúkrasjóði og orlofssjóði BHM. Aðalfundur BHM reyndist hins vegar mikill hitafundur, sem steypti þeirri stjórn sem stóð að samningum við forseta BÍL, og því varð ekkert úr því að Kjarafélagið yrði virkt. Til þess eru þó góðar líkur nú, eftir endurnýjaðar viðræður við BHM. Formaður Kjarafélags BÍL er Björn Th. Árnason, en með honum í stjórn eru Áslaug Thorlacius, Pétur Gunnarsson, Hjálmtýr Heiðdal og Karen María Jónsdóttir..

Ég hef verið áheyrnarfulltrúi Bandalagsins í menningar- og ferðamálaráði ásamt Áslaugu Thorlacius. Ró komst á borgarstörfin eftir umrót og  hallarbyltingar, jafnvel svo að smám saman hefur meirihlutinn hætt að láta reyna á atkvæðavægið og lagt áherslu á að ná þverpólitísku samkomulagi um svo að segja öll mál. Nýlega tókst að koma fram mikilvægum breytingum á samþykkt um Listasafn Reykjavíkur, þar sem SÍM fær að tilnefna einn mann af þrem í innkaupanefnd

Að venju tilnefndum við 15 manna hóp sem úr voru valin fimm í fagnefnd Menningar- og ferðamálaráðs. Þessi urðu fyrir valinu:

Sigrún Sigurðardóttir, menningarfræðingur

Ívar Valgarðsson, myndlistarmaður

Hulda Björk Garðarsdóttir, söngkona

Ólafur J. Engilbertsson, hönnuður og gagnrýnandi

Sigrún Valbergsdóttir, leikstjóri, en hún var jafnframt kjörin formaður nefndarinnar.

Eftir að nefndin hafði lagt fram niðurstöður sínar var ákveðið að skera niður framlög til málaflokksins. Að tillögu minni var nefndin sjálf fengin til að endurskoða niðurstöður sínar, raunar í tvígang – en það vinnulag sá ég svo ástæðu til að gagnrýna á síðasta fundi Menningar- og ferðamálaráðs. Allt á þetta þó skýringu í viðkvæmu efnahagsástandi þjóðarinnar og er raunar ein birtingarmynd þess af mörgum sorglegum. Úthlutun ráðsins hefur nú í vikunni verið gerð opinber, sem er óvenju seint – venjulega er það gert fyrir áramót.

Innan ráðsins hefur náðst samstaða um að vinna að því að rammi menningar- og ferðamála verði ekki minnkaður jafnmikið og aðrir, einkum í ljósi þess hve vel stuðningur við listir og menningu nýtist – og er þá einkum til þess litið hve störf þar kalla á hlutfallslega litið fjármagn miðað við t.d. vegalagningu og byggingaframkvæmdir. Þetta eru röksemdir sem vert er að halda einnig á loft á öðrum vetvangi.

Þó að nú sé víða dregið saman skulum við ekki gleyma því langtímaverkefni að fá það fjármagn aukið sem ætlað er í listir og menningarlíf Reykjavíkur. Ég trúi að það muni takast með seiglunni – einkum ef allt gengur eftir sem lagt er til í nýrri menningarstefnu Reykjavíkurborgar, en endurskoðun hennar fór fram á árinu með umtalsverðri þátttöku listamanna, bæði stjórnarmanna BÍL og annarra

Í haust gerði ég óvanalega víðreist á vegum Bandalagsins. Fundur var haldinn í Kaupmannahöfn með norrænum listamannaráðum, undir forystu Dana sem einkum hafa sýnt samstarfi þessu áhuga. Norræna listamannaráðið eða norrænt samband listamannaráða er ekki til formlega séð, og var rætt um það á fundinum hvort áhugi væri fyrir því að til þess yrði stofnað. Ég lét í ljós þá skoðun að slíkt væri heppilegt frá íslenskum sjónarhóli séð og hafði þá einkum tvennt í huga: í fyrsta lagi hafa Íslendingar alltaf haft gagn af norrænu samstarfi, ekki síst á sviði menningarmála. Í öðru lagi er líklegt að formlegt samband geti náð eyrum áhrifafólks, ekki síst hjá samnorrænum nefndum og ráðum sem um listir og menningarmál fjalla.

Nokkrum vikum síðar sat ég fund Evrópska listamannaráðsins, European Council of Artists. Hann var haldinn í Dyflinni á Írlandi. Einnig hér eru Danir í áhrifastöðu, hafa reyndar gert meira til að gæða þessi samtök lífi en aðrar þjóðir og halda skrifstofu fyrir þau nánast án endurgjalds. Fyrir nokkrum árum misstu samtökin styrk frá Evrópusambandinu sem var undirstaða blómlegrar starfsemi, og því eru þau heldur vesaldarleg um þessar mundir, þó að verkefnin séu margvísleg, eins og fram kom á fundinum.

Ég tel að BÍL eigi að vera áfram aðili að ECA, en minni þó á að norræna samstarfið er okkur dýrmætara, jafnvel þó að enn hafi Norræna listamannaráðið ekki verið sett formlega á laggirnar. Því ræður einkum hið margslungna samstarf sem við eigum við aðrar norðurlandaþjóðir um listir og menningu. Fundurinn í Kaupmannahöfn var eins konar fjöldskyldufundur, á meðan fundurinn í Dyflinni líktist meira ættarmóti þar sem maður rakst á talsvert fjarskylda ættingja, sem ekki var ýkja margt að ræða við.

Í síðustu ársskýrslu minni hafði ég á orði að e t v væri vert að huga að því að setja á stofn Útflutningsmiðstöð lista, taldi það eðlilegt framhald á umræðufundum sem við höfum átt samvinnu um með Útflutningsráði, en einn slíkur var haldinn nú í vor að viðstöddu fjölmenni. Ég held að ekki væri svo vitlaust að taka þessa hugmynd til skoðunar og þá í samráði við Útflutningsráð.

Í þeirri þröngu stöðu sem upp er komin í þjóðfélaginu er vert að huga að þeim tækifærum sem etv finnast í samskiptum við útlönd. Ferðamönnum á vafalaust eftir að fjölga á næstunni, í ljósi þess hve krónan hefur fallið. Kastljósi erlendra fjölmiðla hefur verið beint að Íslandi, og eins þótt ástæðan sé sorgleg, getur illt umtal stundum verið betra en ekkert. Þó að fjármálaheimurinn hafi fallið saman, hefur enginn skuggi fallið á íslenskt listalíf. Það er ekki í síðri blóma nú en fyrir ári.

Kannski er loks  kominn tími á útrás listanna.

Og þá er rétt á minna á það í lokin að árið 2009 er “European year of creativity and innovation”. Í tilkynningu frá stjórn Evrópusambandsins í Brussel, segir, eftir að rætt hefur verið um þörf á nýsköpun á fjölmörgum sviðum: “Artistic creation and new approaches in culture should also receive due attention, as important means of communication between people in Europe and in the follow-up to the ongoing European Year of Intercultural Dialogue (2008).”

Ég veit við eigum þá von sameiginlega að ár sköpunar og nýbreytni geti opnað íslenskum listamönnum tækifæri sem hingað til hafa verið hulin.

 

Aðalfundur Bandalagsins

Yfir fimmtíu manns sátu aðalfund Bandalags íslenskra listamanna laugardaginn 31. janúar 2009. Að loknum aðalfundarstörfum var haldið málþing um listamenn á krepputímum. Framsöguerindi héldu Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor, gjarnan nefndur Goddur, og Haukur F. Hannesson, listrekstrarfræðingur. Þau má lesa undir Greinar.

Þar má ennfremur finna ársskýrslu forseta.

 

(Ársskýrsla forseta er hér.)

(Erindi Guðmundar Odds Magnússonar er hér.)

(Erindi Hauks F. Hannessonar er hér.)

 

Page 20 of 26« First...10...1819202122...Last »