Fréttir

Menningin lögð niður?

Ungt sjálfstæðisfólk hefur lagt fram tillögur að sparnaði í ríkisbúskapnum, sem m.a. gera ráð fyrir því að Þjóðleikhúsið verði lagt niður, Sinfónían og háskólarannsóknir sömuleiðis, að ekki sé minnst á starfslaun listamanna. Jú, og svo á að selja Ríkisútvarpið, en það er nú kannski ekkert nýtt.

Hvernig á að hefja um þetta rökræðu? Þessar hugmyndir skapast af lífsviðhorfum sem eru nokkuð á skjön við þau sem almennt ríkja, það er ekki hlaupið að því að finna umræðugrundvöll. En kannski ég skauti fram hjá menningarhjalinu og reyni út frá hagrænum forsendum – og taki fyrir kvikmyndagerðina, sem er náttúrulega eitt af því sem leggst af, samkvæmt tillögunum.

Kvikmyndafólk hefur haldið því fram að ríkið tapi ekki á því að veita fé í íslenskar kvikmyndir, heldur hafi þvert á móti hagnað af slíkri fjárfestingu. Hvernig getur staðið á því? Og af hverju geta þá ekki einkaaðilar yfirtekið þetta hlutverk og haft af því góðan gróða?

Ríkið fjármagnar aldrei kvikmynd um meira en 50% af heildarkostnaði, hærra má ekki fara vegna evrópskra tilskipana, og yfirleitt er framlag ríkisins langt undir þeirri prósentutölu. Önnur fjármögnun kemur að verulegu leyti erlendis frá, enda eru íslenskir framleiðendur kræfir í að ná samningum við erlenda kollega og sækja fé í fjölþjóðlega sjóði.

Allt evrópska styrkjakerfið byggist á því að til séu kvikmyndastofnanir eða sjóðir í heimalandinu sem velji bitastæðustu verkefnin og veiti þeim upphafsstyrkina. Ekki fyrr en þá er unnt að nálgast fjölþjóðlegu sjóðina. Væri ekki til stofnun á borð við Kvikmyndamiðstöð gætu Íslendingar ekki sótt í norræna sjóðinn né þann evrópska né neina aðra. Þessu hlutverki getur einungis opinber stofnun sinnt, enda hefðu einkaaðilar aldrei af því þann hagnað sem ríkið fær.

Ríkið nýtur góðs af ýmsu sem ekki kæmi einkaaðilum til góða. Skatttekjur eru verulegar af kvikmyndagerðinni, enda eru laun ætíð langhæsti kostnaðarliðurinn. Erlendur gjaldeyrir kemur inn í landið bæði þegar erlendir styrkir eru greiddir, svo og söluágóði af dreifingu erlendis. Afleidd áhrif þessarar starfsemi fara vaxandi, því að ný tækni gerir kleyft að fullvinna myndirnar hérlendis. Alla þjónustu þarf vitaskuld að greiða, og af henni fást enn meiri skatttekjur.

Kvikmyndamiðstöð starfar náið með einkafyrirtækjum, sem flest mætti vafalaust kalla því vinsæla nafni sprotafyrirtæki. Miðstöðin fjárfestir í íslenskum myndum fyrir hönd ríkisins. Þetta eru ekki styrkir í þess orðs eiginlegu merkingu, heldur fjárfesting í samstarfsverkefnum milli ríkisins og einkafyrirtækja. Margir vilja að ríkið fjármagni orkuver í von að hljóta af þeim arð í framtíðinni. Eitthvað svipað gerist í þeim hugarorkuiðnaði sem kallast kvikmyndagerð, nema hvað þar tel ég að áhættan sé öllu minni og ágóðinn skjótfengnari.

Og sé nú fólki sama um íslenskt mál og menningu og allt það, skal á það bent að íslenskar kvikmyndir hafa reynst öflug kynning á landi og þjóð. Þær hafa dregið að ferðamenn, ennfremur erlend kvikmyndafyrirtæki sem verja háum upphæðum við tökur á Íslandi. Sú starfsemi byggist á því að hér séu fyrirtæki og mannskapur sem geti veitt þá þjónustu sem þarf. Clint Eastwood gat leitað til toppfólks þegar hann tók mynd sína hér um árið. Það skapaði gjaldeyristekjur og skatttekjur.

Vinsælt er að tala um menningartengda ferðaþjónustu. Ætli þetta geti þá ekki kallast ferðatengd menningarþjónusta? Íslenskar kvikmyndir auglýsa landið án þess að vera auglýsingar. Í því felst besta kynningin – og sú ódýrasta, enda innifalin í upphaflega framlaginu frá Kvikmyndamiðstöð.

Svona má reyndar fjalla um fleiri þætti menningarinnar en kvikmyndirnar. Svipuð niðurstaða fæst í bókinni um hagræn áhrif tónlistarinnar, sem kom út fyrir nokkrum árum. Á hinn bóginn eru listamenn þekktir fyrir að leggja ekki alltaf hægrænan mælikvarða á störf sín, og sumir þeirra verða fyrst raunveruleg hagræn stærð við dauða sinn. Hvað ætli ævistarf Kjarvals verði metið hátt á markaðsvirði ársins 2007?

Annars er ekki hollt að hugsa bara hagrænt. Þeir sem helst eiga sök á hruninu virðast hafa hugsað hagrænt í öllu, meira að segja þegar þeir völdu listamenn til að koma fram í afmælunum sínum. Og hvernig fór?

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu í nóvember 2009

 

Ályktun um Tjarnarbíó

Stjórn BÍL hefur fylgst með endurbyggingu Tjarnarbíós, sem nú er að mestu lokið. Hér fylgir ályktun um þá framkvæmd:

Á stjórnarfundi Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var þann 23. október 2009, var samþykkt svohljóðandi ályktun:

Stjórn BÍL telur það sérstakt fagnaðarefni að nú skuli sjá fyrir endann á endurbyggingu Tjarnarbíós.  Þarna mun vaxtarsprotinn í íslensku leikhúslífi eiga helsta aðsetur sitt, ennfremur verður þarna aðstaða fyrir sýningu vandaðra kvikmynda. Mikilvægt er að samningar takist við Sjálfstæðu leikhúsin um reksturinn og að þeim verði gert kleyft að standa að honum með glæsibrag.

 

Ályktun handa fjárlaganefnd

Mjög hefur verið rætt í listageiranum um gríðarlegt misræmi milli stofnana og listgreina, þegar kemur að niðurskurði í ríkisútgjöldum. Stjórn BÍL sá ástæðu til að álykta um þetta:

Á stjórnarfundi Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var þann 23. október 2009, var samþykkt svohljóðandi ályktun:

Bandalag íslenskra listamanna skilur nauðsyn þess að draga þurfi úr ríkisútgjöldum á erfiðum tímum, en í þeim niðurskurðaráformum, sem nú liggja fyrir í lista- og menningarmálum, er illskiljanlegt misræmi. Það sem stjórn BÍL vill helst benda á er þetta:

  • Kvikmyndasjóður, skorinn niður um 200 milljónir, 33,6%
  • Starfsemi atvinnuleikhópa, skorin niður um 10,7 milljónir
  • Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, skorin niður um 3,6 milljónir, 20%
  • Safnliður 02-982-1.90, sem er að stórum hluta ætlaður í ýmsar lista- og menningarhátíðir, er skorinn niður um 47.2 milljónir

Til að vinna gegn tilviljanakenndri úthlutun fjármuna af safnliðum fjárlaga til lista- og menningarstarfsemi leggur stjórn BÍL til að efldir verði sjóðir á borð við Safnasjóð, Húsafriðunarsjóð, Tónlistarsjóð, Bókmenntasjóð, Barnamenningarsjóð, Fornleifasjóð, Starfsemi atvinnuleikhópa og Kvikmyndasjóð.

Í sama tilgangi er mikilvægt að standa vörð um menningarsamninga við sveitarfélög á landsbyggðinni.

Stjórn BÍL hvetur fjárlaganefnd til að tryggja að fjöldi mánaðarlauna, sem lofað var í nýjum lögum um starfslaun listamanna, haldi sér.

 

Irma Gunnarsdóttir heldur fyrirlestur um Litróf listanna

Irma Gunnarsdóttir hefur verið verkefnastjóri fyrir Litróf listanna, sem er átak BÍL til að kynna listir í skólum.

Nú hefur Irma verið fengin til að flytja fyrirlestur um verkefnið á málþingi í Háskóla Íslands.

Yfirskrift málþingsins er Föruneyti barnsins – velferð og veruleiki.

Irma verður í málstofu undir Nám og listir og kynnir þar Litrófið milli kl. 16 – 17, fimmtudaginn 29. október.

Alls eru yfir 100 erindi flutt á þessu málþingi, svo að mjög margt er í boði.

Skráning á málþingið er á vef Háskóla Íslands.

Málþingið og auglýsing um dagskrá er að finna á www.hi.is

Litróf listanna – lokaskýrsla 09

 

Þjóðfundur. Eitthvað fyrir listamenn?

Hópur fólks er að undirbúa “þjóðfund”. Aðildarfélögum Bandalags íslenskra listamanna verður boðið að senda fulltrúa á fundinn, sem haldinn verður 14. nóvember næstkomandi. Hér fylgir skjal sem lýsir tilgangi og aðferðum fundarins.

 

Þjóðfundur um nýjan sáttmála 

 

Undanfarið hefur hópur fólks komið saman og unnið að

undirbúningi að 1.500 manna fundi – Þjóðfundi – sem ætlað er að

marka tímamót í átaki þjóðarinnar til uppbyggingar og sóknar sem

byggist á sameiginlegum grunngildum hennar. Hópurinn kallar sig

Mauraþúfuna (sjá sérstakt skjal), og er fólk sem kemur hvert úr sinni

áttinni, er tengt víðtæku neti grasrótarsamtaka, stjórnmála og

atvinnulífs og hefur einnig þekkingu og reynslu af framkvæmd

viðburðar af því tagi sem um ræðir.

Þjóðfundurinn er samkoma Íslendinga. Meginþorri þátttakenda (um

1000 manns) verður valinn með tölfræðilegu úrtaki þannig tryggt sé

að fundinn sæki þverskurður af þjóðinni. Jafnframt verður boðið til

fundarins hópi fulltrúa helstu samtaka og stofnana samfélagsins (um

500) sem munu skipta meginmáli þegar kemur að nauðsynlegum

aðgerðum og eftirfylgni í samræmi við niðurstöðu fundarins.

Umrædd samtök og stofnanir mynda þannig hið eiginlega bakland

fundarins.

Á fundinum verða ekki ræðuhöld, heldur umræður sem allir

fundarmenn (1500) taka þátt í. Form umræðurnar miðar að því að

virkja samanlagða visku og innsæi fjöldans. Verkefnið er að marka

nýja sýn sem samstaða er um að verði grundvöllur framsækinnar og

heilbrigðrar endurreisnar. Með grundvallar lífsgildi sín að leiðarljósi

getur þjóðin mætt framtíðinni og hlúð að dýrmætu jafnvægi í

samspili lands og þjóðar.

Þjóðfundur markar upphaf nýrrar aðferðafræði og grunnviðhorfa

sem eru nauðsynleg á þeim straumhvörfum í þróun samfélagsins

sem nú eru að verða. Eftir því sem best er vitað verður þetta fyrsti

fundurinn af þessu tagi sem fæst sérstaklega við heildarstefnumótun

þjóðríkis. Hann mun því án efa vekja athygli utan landsteinanna.

Forsenda fyrir Þjóðfundinum er að hann skili af sér afurðum sem

nýtast á áþreifanlegan hátt. Í kjölfar Þjóðfundar verður því skipulagt

52 vikna endurreisnarferli, þar sem í hverri viku munu birtast

sýnilegar aðgerðir sem byggja á niðurstöðum fundarins.

Meginmarkmið Þjóðfundar – fyrir utan stefnumörkun,

aðgerðaáætlun og aðgerðirnar í kjölfarið – er að auka landsmönnum

bjartsýni og von, og blása fólki í brjóst atorku og framkvæmdavilja.

Greinargerð

Markmið Þjóðfundar er ma. að benda á að það er þjóðin sjálf sem er

ábyrg fyrir því að finna leiðir út úr núverandi ástandi og að það er

einungis á hennar færi að gera það á sínum eigin forsendum.

Umræðum á fundinum ætlað er að leiða til fjölþættrar niðurstöðu

sem kallar á aðgerðir. Mikilvægt er að allt þetta gerist þvert á

flokkadrætti, hagsmunapot og hverskonar sérhagsmuna- eða

hugmyndafræðihópa. Lögð verður áhersla á samstarf og samlegð

hugmynda út frá sterkum sameiginlegum lífsgildum, framtíðarsýn

og langtíma markmiðum.

Fundurinn er alfarið samræðuferli en ekki hefðbundinn framsögu-

umræðufundur í ætt við pólitíska fundi eða þá borgarafundi sem

haldnir hafa verið á undanförnum mánuðum. Þátttakendum verður

skipt niður í hópa sem starfa saman allan fundartímann.

Umræðustjórar verða valdir og þjálfaðir fyrir fundinn til þess að

tryggja samræmi í aðferðafræði og árangursríkar umræður með því

að öll sjónarmið fái að njóta sín. Mikilvægt er að taka fram að

aðferðir sem nota á á fundinum eru ekki uppfundnar fyrir hann,

heldur hefur þessi aðferðafræði verið þrautreynd erlendis á liðnum

árum.

Í hefðbundinni umræðu þar sem tekist er á um mismunandi

hagsmuni, hugmyndafræði, lífsskoðanir eða völd er í besta falli

gengið út frá því að æskileg niðurstaða byggist á einskonar „win-

win“ útkomu, þ.e. að þátttakendur fái báðir/allir eitthvað fyrir sinn

snúð út úr umræðunni í formi gæða, viðurkenningar á sjónarmiðum

o.s.frv. Þannig verða þátttakendur í umræðunni einskonar

sigurvegarar. Ný hugsun (win-win-win) snýst hins vegar um að taka

tillit til þriðja sigurvegarans sem ekki er beinn þátttakandi, heldur

samfélagið í heild.

Til þess að ná þeim árangri sem hefur verið lýst þarf að hefja

umræðuna á að ræða þau grunngildi sem þátttakendur telja

mikilvægasta samnefnara samstöðu og uppbyggjandi lausna. Þessi

gildi eru í raun þau grundvallarsjónarmið sem eru inngróin

heilbrigðu mannlegu samfélagi og allir geta sameinast um. Með þessi

grunngildi að leiðarljósi er auðveldara að finna þann veg sem skilar

bestum árangri.

Reynslan af svona atburðum sýnir að sú nýja hugsun, sem fundurinn

kallar fram, tvinnar saman þræði úr ólíkum áttum (vinstri – hægri,

félagshyggju – markaðshyggju, þjóðernishyggju – alþjóðahyggju

o.s.frv.) án fyrirfram hlutdrægni eða fordóma og spinnur lausnir sem

falla að ástandinu í hverju tilviki.

Áhersla er lögð á það HVAÐ sé rétt að gera frekar en HVER hefur

rétt fyrir sér, hver hafi nauðsynlega FÆRNI frekar en STÖÐU til að

framkvæma það sem gera þarf, og hvað sé EÐLILEGT frekar en

VIÐTEKIÐ eða VENJULEGT.

Viska fjöldans

Niðurstaða Þjóðfundar byggir á sameiginlegu innsæi og vitund

fjöldans. Þessi sameiginlega viska (collective intelligence) er eðli

málsins samkvæmt hulin hverjum einstaklingi í einrúmi. Eins og

áður segir, er fjöldi þátttakenda á Þjóðfundi allt að 1.500 manns, það

er að segja sá fjöldi sem nægilegur er til þess að ná marktæku úrtaki

þjóðarinnar og rúmar jafnframt nauðsynlega stoð- og hagsmunaaðila.

Sá fjöldi er samkvæmt reynslu mjög öflugur og jafnframt vel

viðráðanlegur.

Fundinum er ætlað að móta nýtt líkan sem mætir þeim kaflaskilum í

þróun samfélagsins sem hefur haft í för með sér flækjustig sem

hefðbundnar lausnir og hugsun ráða ekki við. Með þessu er hafið

lærdómsferli og þetta mun kalla fram áframhaldandi víðtæka

umræðu sem þróar niðurstöðurnar áfram. Til þessa er leikurinn

gerður.

Þjóðfundurinn er framtak þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar.

Gengið er út frá því að þeir sem hafa valist til ábyrgðar fyrir hönd

þjóðarinnar verði þátttakendur í umræðunni, taki mark á

niðurstöðum hennar og fylgi þeim eftir.

Dagskrá Þjóðfundar

Dagskrá fundarins verður í meginatriðum þessi:

Þátttakendur boðnir velkomnir og í stuttu máli kynnt efni fundarins,

fyrirkomulag og markmið.

Fyrri helmingur fundarins fjallar um þau meginatriði sem skapa

þann nýja grundvöll sem endurreisn á að byggjast á:

Grunngildi þjóðarinnar rædd og skilgreind. Leitast er við að

svara spurningunni: „Hvaða lífsgildi eiga að vera okkur

leiðarljós í þróun samfélagsins?“.

Hlutverk og markmið samfélagsins rædd og skilgreind. Hér er

fundin framtíðarsýn út frá spurningum einsog: „Til hvers

erum við hér?“ „Hvernig skilgreinum við heilbrigðt og gjöfult

samfélag?“

Framtíðarsýn verður síðan sett fram í samhengi við gildi og

hlutverk og rætt hvernig megi skilgreina eins konar

sameiginlegt „yfirmarkmið“ sem allir telja eftirsóknarvert og

geta sameinast um.

Síðari hluti fundarins fjallar síðan um meginstoðir eins og velferðar-

og menntakerfi, atvinnuskapandi umhverfi, regluverk o.fl. sem

mynda í sinni nýju mynd hinn nýja grunn og þau nýju

meginmarkmið sem tryggja eðlilega þróun og æskilegan árangur.

Afurð fundarins er einsog áður sagði framtíðarsýn byggð á skýrum

sameiginlegum grunngildum. Að auki eru skilgreindar áherslur,

markmið og verkefni sem nauðsynleg eru til þess að tryggja

skilvirkan farveg fyrir þær breytingar og aðgerðir sem ráðast þarf í.

Áhrif og eftirfylgni

Nauðsynlegt er

að stilla saman kraftinn og gerjunina sem er að finna um allt

samfélagið nú þegar.

að tryggja flæði milli fortíðar, nútíðar og framtíðar þannig að

eðlileg tenging sé milli þess sem var, þess nýja upphafs sem

nú er og framtíðarinnar.

að horfa til lengri tíma án þess að gleyma því að

skammtímasjónarmið eru mikilvæg til þess að fást við

yfirstandandi erfiðleika.

að byggja fyrir framtíðina með því að með stöðugum

lærdómi og leit að „langsóttum“ hugmyndum ekki síður en

nærtækum, ferskum lausnum.

að skapa öflugar tengingar milli meginstoða samfélagsins

svo sem stofnana, fyrirtækja, hagsmunahópa, stjórnmálaafla

og fagaðila, og sameina þannig krafta ólíkra aðila sem áður

hafa sumir hverjir átt í togstreitu sín á milli.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að tryggja eftirfylgni og framkvæmd

ákvarðana, en þetta næst fram með því að þeir sem ákvörðunarvald

hafa á einstökum sviðum samfélagsins sameinist um að styðja

verkefnið og tryggja nauðsynlegum aðgerðum brautargengi; þarna er

átt við aðila einsog alþingi, ríkisstjórn, hagsmunasamtök og fleiri.

Órjúfanlegur hluti þjóðfundarverkefnisins er að skipuleggja

markvisst 52 vikna ferli þar sem í hverri viku verður lagður, með

sýnilegum hætti, steinn í hleðsluna. Að þessu 52 vikna verkefni

stendur sú marglita flóra einstaklinga og samtaka sem eiga þátt í

Þjóðfundinum og bera þannig áfram kyndilinn. Með vakningu af

þessu tagi er þess vænst að ráðandi öfl í samfélaginu komi til

skjalanna bæði með beinum stuðningi og með því að standa að

eðlilegri aðlögun lagaumhverfis og kerfislægra þátta sem örva frekar

jákvæða uppbyggingu. Meginatriðið verður samt ævinlega að sjálf

framkvæmd breytinganna verði á ábyrgð þjóðarinnar, allra þeirra

einstaklinga sem eru íslenska þjóðin.
Þjóðfundar-manifesto

Með Þjóðfundi mótum við okkur framtíðarsýn byggða á sameiginlegum

grunngildum þjóðarinnar.

Við …

skilgreinum megináherslur fyrir næstu framtíð.

sköpum með fundinum upplifun sem vekur sterka samkennd,

jákvæða spennu og von um betri tíma.

virkjum kraft til endurnýjunar og nýsköpunar.

tengjum ólík en samverkandi öfl samfélagsins.

endurheimtum traust alþjóðasamfélagsins með því að sýna í verki

að þjóðin horfist í augu við stöðu sína og taki sameiginlega á

málum af einurð og ábyrgð.

virkjum visku fjöldans með öflugum aðferðum fjölmennra funda af

þessu tagi

mörkum upphaf á formlegu fimmtiu og tveggja vikna ferli sem

varðar leið til nýrra tíma.

Viðskiptavæðing menningarlífsins og menningarvæðing viðskiptalífsins

Fréttatilkynning:

Viðskiptavæðing menningarlífsins og menningarvæðing viðskiptalífsins

Mánudaginn 12. október kl. 20 flytur Loftur Atli Eiríksson, MA í menningarstjórnun, fyrirlestur í Reykjavíkurakademíunni, Hringbraut 121 Reykjavík. Loftur Atli kallar fyrirlesturinn: Viðskiptavæðing menningarlífsins og menningarvæðing viðskiptalífsins: Áhrif stefnu íslenskra stórfyrirtækja í styrkveitingum til menningarmála á menningarstofnanir á árunum 2002 til 2008, og er hann byggður á samnefndu rannsóknarverkefni til meistaragráðu frá Háskólanum á Bifröst.

Loftur Atli segir hvatann að rannsókninni hafa verið áður óþekktan áhuga einkaaðila og stórfyrirtækja á að styrkja menningar- og listastarfsemi eins og hann birtist í fjölmiðlum á árunum 2002-2008. Tilgangurinn með rannsókninni var að varpa ljósi á hvernig, félagsleg, pólitísk og fjárhagsleg tengsl stórfyrirtækja og menningarstofnana þróuðust á árunum 2002 til 2008 og hvaða ávinning og áhrif samböndin höfðu á menningarstofnanir og stórfyrirtæki.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar koma fram greinileg hugmyndafræðileg tengsl á milli aðkomu einkafjármagns að menningarstarfsemi í Bretlandi og Bandaríkjunum og þeirrar stefnu sem tekin var upp á Íslandi. Það markverðasta sem rannsóknin leiddi í ljós að mati höfundar er að hún sýnir með skýrum hætti áhrif þess að stjórnvöld hvöttu menningarstofnanir til að gegna hlutverki almannatengla fyrir stórfyrirtæki til að byggja upp velvild, virðingu og traust í þeirra garð. Þetta telur Loftur Atli vera eina forsendu þess hversu stórfyrirtækin og útrásarvíkingarnir náðu langt í félagsmótun sinni og hversu gagnrýnin í þeirra garð var hjáróma. Dæmi um hversu samsömun stórfyrirtækja við menningu þjóðarinnar var fullkomin var þegar hinn grandvari fyrrverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir lánaði heimili sitt og fatnað í auglýsingu fyrir Landsbankann, auk þess sem barnabarn hennar lék í auglýsingunni, og engum þótti ástæða til að gera við það athugasemdir.

„Það kom mér á óvart hversu vel ígrunduð markaðsstefna stórfyrirtækjanna er varðandi menningarstarfsemi og á hversu árangursríkan hátt þeim tókst að nýta hana sér til framdráttar í nafni svokallaðrar samfélagslegrar ábyrgðar. Þá vakti það undrun mína hvað sértekjur menningarstofnana vegna samstarfs þeirra við stórfyrirtæki eru í raun litlar miðað við umfjöllun um samstarfið í fjölmiðlum og það almannatengslastarf sem þær vinna fyrir stórfyrirtækin.,“ segir Loftur Atli. „Loks vekur það athygli að notkun stórfyrirtækja á virðingu og trausti rótgróinna menningarstofnana í opinberri eigu til félagsmótunar og ímyndaruppbyggingar tíðkast nánast gagnrýnislaust hérlendis. Vonast ég til að rannsókn þessi eigi eftir að eiga hlut í að gera sambönd menningarstofnana og stórfyrirtækja gagnsærri og vera innlegg í umræðu um hvernig þeim verður best fyrir komið í framtíðinni.“

 

Ritgerðina sem fyrirlesturinn byggir á má lesa á skemman.is. á slóðinni http://skemman.is/bitstream/1946/3629/1/loftur_lokautgafa_fixed.pdf

Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis en að honum loknum mun Njörður Sigurjónsson, lektor við Háskólann á Bifröst, stýra umræðum.

 

Kvikmyndirnar skornar niður

Ágúst Guðmundsson:

 

Það kemur verulega á óvart hve hart er gengið að kvikmyndagerðinni í landinu í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi. Niðurskurður þar er tæp 34%. Það mætti halda að kvikmyndagerðin hafi verið meira til óþurftar en aðrar starfsgreinar.

Til samanburðar má nefna að framlög til Sinfóníuhljómsveitarinnar lækka um 3,25%, til Listasafns Íslands um  2,25%, og nýendurráðinn Þjóðleikhússtjóri fær sérstakt hrós fyrir að vita hvernig bregðast eigi við 5,41% niðurskurði til sinnar stofnunar. Hins vegar verður að fyrirgefa íslensku kvikmyndafólki það að hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að höndla þriðjungs niðurskurð.

Öll skiljum við að þörf er á aðhaldi og niðurskurði. Þessi stefnubreyting gagnvart kvikmyndaiðnaðinum er bara einum of brött og á eftir að hafa sérlega óheppileg áhrif. Íslenskar kvikmyndir draga fé að erlendis frá, framleiðendur fá aldrei meira en 50% af kostnaðinum frá því opinbera, hitt þarf að koma annars staðar frá. Erlendir sjóðir hafa veitt milljónatugum í innlenda kvikmyndagerð – og á því verður hlé komi ekkert framlag frá hinu opinbera. Erlenda framlagið kemur ekki nema fyrst sé lagt í verkefnin á heimaslóð. Menn skyldu gæta að því að hér er verið að slátra mjólkurkú, ekki geldri kvígu.

Niðurskurðurinn kemur ekki aðeins niður á bíómyndum og heimildamyndum, heldur líka leiknu sjónvarpsefni. Allir leiknir sjónvarpsþættir fá verulegt fjármagn úr Sjónvarpssjóði Kvikmyndamiðstöðvar. Án þess framlags telja sjónvarpsstöðvarnar sig ekki geta staðið að slíkri framleiðslu. Efni á borð við Fangavaktina og Hamarinn mun þá heyra til liðinni tíð.

Því skal svo haldið til haga að verðmætasköpunin í kvikmyndagerðinni er tvenns konar: í beinum tekjum og í menningarauði. Íslenskar kvikmyndir eru hið raunverulega þjóðarleikhús – myndirnar eru teknar upp um land allt og þær fara auðveldlega fyrir augu allra, hvar á landinu sem fólk býr. Þær hafna gjarnan í sjónvarpinu, þar sem þær hafa löngum verið helsta leikna innlenda efnið, einkum á stórhátíðum. Ennfremur eru þær fluttar til útlanda, sýndar í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi víða um heim. Kunnugir telja að fátt selji Ísland betur en íslenskar kvikmyndir. Þær eru hin óbeina auglýsing sem gagnast betur en bein sölumennska. Á tímum niðurlægingar Íslands er meiri þörf á slíku en nokkru sinni fyrr.

Það er afar misráðið að setja þessa ákveðnu starfsstétt á ís um ófyrirséða framtíð – og vitaskuld í hreinni þversögn við samning ríkisins við kvikmyndageirann, sem gerir ráð fyrir árlegri aukningu á fjárfestingu ríkisins í kvikmyndagerðinni. Í krafti samningsins fóru sprotafyrirtæki á stúfana og fjárfestu m.a. í stafrænni tækni svo að nú má vinna hér mun fleiri þætti framleiðslunnar en á dögum filmunnar. Á erfiðum tímum má fyrirgefa hringl með prósentutölurnar, en öðru máli gildir um svo drastíska ráðagerð sem þessa, sem líkleg er til að kreista líftóruna úr þessum fyrirtækjum.

Enn hafa ekki heyrst röksemdirnar fyrir því að þessi eina stétt eigi að þola meiri niðurskurð en aðrar á landinu. Á meðan ástæður þess eru í móðu verður að gera þá kröfu að þessi málsmeðferð, sem líklega má rekja til vankunnáttu eða flumbrugangs, verði endurskoðuð svo að ekki verði búið verr að kvikmyndagerðinni en að sambærilegum starfsgreinum landsins.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. október 2009

 

Lottóið og menningin

Ágúst Guðmundsson:

 

Um þetta leyti í fyrra lagði Stefan Wallin, menntamálaráðherra í Finnlandi, til að framlög til menningarmála þar í landi yrðu aukin um næstum 11%. Menningunni var eyrnamerktur hluti af lottó-peningunum: 21 milljón evra var sú búbót í menninguna sem fékkst úr lottóinu. Það svarar til 3.780 milljóna íslenskra króna.

Alls staðar á norðurlöndum spila menn í lottóinu, og alls staðar hefur íþróttahreyfingin af því umtalsverðar tekjur. En þar fara lottópeningarnir jafnframt í menninguna víðast hvar. Danska ríkið á 80% í Danske spil, en tvær íþróttahreyfingar sín 10 prósentin hvor. Norðmenn skipta til helminga á milli íþrótta og menningarmála, og hefur það gilt frá 2004, en þá var gerður alvarlegur skurkur í lista- og menningarmálum með útgáfu menningarstefnu sem gilda skyldi næstu 10 árin og var gert ráð fyrir auknum fjárframlögum í málaflokkinn öll árin, m.a. úr norska lóttóinu.

Víða skiptist arðurinn á milli menningarmála, íþrótta, vísinda og menntamála. Sé litið til Bretlands stendur lottóauðurinn þar undir umfangsmikilli menningarstarfsemi, og eru íþróttamálin einungis hluti af þeirri heild, tæpast meira en fjórðungur.

Hér á landi fara 60% lottópeninganna til íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, en 40% fara til Öryrkjabandalags Íslands. Á heimasíðu Íslenskrar getspár kemur fram að fyrir lottópeningana hafi rúmlega 300 sérhannaðar íbúðir verið byggðar fyrir öryrkja. Íþróttamannvirki hafa líka verið reist, og virðist sjaldan koma til umræðu hvað þau kosti. Þúsundir fermetra rísa áreynslulítið að því er virðist, og tel ég að það sé lóttópeningunum að þakka.

Tónlistar- og ráðstefnuhús er að rísa við Reykjavíkurhöfn, og þar hefur umræðan verið á öðrum nótum. Samt er pólitísk sátt um verkefnið. Vinstri-grænn menntamálaráðherra og borgarstjóri úr Sjálfstæðisflokki hafa tekið saman höndum um að ljúka við húsið. Um daginn kom ágætis stuðningur við þá ákvörðun frá breskum sérfæðingi í ráðstefnuhaldi. Hann benti á að engin grein ferðaiðnaðarins gefi af sér viðlíka tekjur og ráðstefnuhald. Tónlistinni er vissulega ætlað öndvegi íhúsinu, en þar verða líka haldin stór, alþjóðleg málþing.

Listalífið hefur orðið af verulegum stuðningi úr einkageiranum. Áður fyrr létu stórfyrirtæki umtalsverðar upphæðir af hendi rakna í hin ýmsu verkefni, en nú er ekki í önnur hús að venda en hið opinbera, sem þarf að skera niður á öllum sviðum. Menningarstofnanir hafa dregið úr rekstri sínum og listamenn hafa rifað seglin. Og hvar á þá að fá aukið fjármagn í það sjálfsagða verkefni sem felst í íslenskru menningarlífi?

Hingað til hafa stjórnmálamenn verið tregir til að íhuga breytingar á lottóinu. En nýjir tímar kalla á ný úrræði. Þá má gjarnan hugleiða þann kost að menning og listir fái að njóta góðs af lottóarðinum við hlið annarra.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 26. september 2009

 

Borgarlistamaður

Iðnó við Tjörnina,3. júlí 2009

 

Yfirlýsing frá stjórnarfundi BÍL

Stjórn BÍL harmar þá umræðu sem orðið hefur í kjölfar bókunar fulltrúa okkar í Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur við val á borgarlistamanni. Deila má um hvort yfirleitt hafi verið þörf á að leggja fram slíka bókun, en hitt er óumdeilt að fulltrúarnir báru hag listamanna, umbjóðenda sinna, einan fyrir brjósti. Ekki verður lesið úr bókuninni að þar sé lítið gert úr hönnun eða öðrum skyldum greinum.

Stjórn BÍL vill nota tækifærið og óska  Steinunni Sigurðardóttur til hamingju með þá vegsemd að hafa verið valin borgarlistamaður Reykjavíkur.

 

Ræða Ágústs Guðmundssonar á stjórnarfundi 3. júlí 2009, áður en framangreind yfirlýsing var samþykkt:

Eftir á að hyggja finnst mér smáfurðulegt að mér skyldi ekki hafa hugkvæmst að leggja til við Áslaugu að við frestuðum ákvörðun í málinu og ræddum það á stjórnarfundi. Það hefði að vísu þýtt að bókun hefði ekki fylgt ákvörðun stjórnmálamannanna, en það hefði svo sem engu breytt. Stjórn Bíl hefði getað ályktað um málið, ef áhugi hefði verið fyrir hendi. – Mér hefur lengi verið ljóst að Bandalaginu verður aðeins stjórnað með tilvísun til samþykkta stjórnarfunda. Það er í rauninni ekki til neinn annar ákvörðunaraðili fyrir þessi óvenjulegu samtök. Þeir sem mæta á stjórnarfundi ráða stefnunni.

En það sýnir kannski best hrekkleysi okkar Áslaugar að við gerðum ekki ráð fyrir að þess gerðist þörf að bera þetta mál undir ykkur. Við vorum einfaldlega að leggja áherslu á prinsipp sem í grunninn eru sáraeinföld verkalýðspólitík: við sátum þarna tvö í umboði samtaka margvíslegra listgreina og það var verið að fara út fyrir þau samtök til að finna listamann að heiðra.

Kæmi þessi bókun okkar yfirleitt fyrir augu almennings átti ég allt eins von á að hún mundi ýta við umræðunni um list og hönnun og hugsaði með mér að það væri út af fyrir sig ekkert svo slæmt. En að fólk drægi undir eins þá ályktun að við værum að setja okkur á háan hest, sem sagt að lýsa því yfir að hönnun væri ekki nógu merkileg til að kallast list, það hvarflaði ekki að mér. Það rann hins vegar upp fyrir mér ljós þegar blaðamaðurinn frá Fréttablaðinu hringdi í mig. Fyrsta spurning hans var: Er þetta gamla hugmyndin um að hönnuðir séu iðnaðarmenn? Það kom verulega á mig, en svo tautaði ég: Nei, það er frekar hugmyndin um að hönnuðir séu hönnuðir.

Þarna var þá verið að setja starfsstéttir á einhverja stalla. Undirliggjandi hugmynd virðist vera sú að í þessari stéttaskiptingu séu iðnaðarmenn neðstir, hönnuðir þar fyrir ofan og listamenn efstir. Og þessa hugsun mátti víst lesa út úr bókun okkar Áslaugar, því hvað annað fékk manninn til að fara í fyrstu setningu að tala um iðnaðarmenn?

Þeir sem skrifuðu undir yfirlýsinguna í Mogganum komust að svipaðri niðurstöðu, en þar stendur um bókunina: „Þröngsýnin og smásálarhátturinn sem í henni felast eru ekki í neinum takti við þann veruleika sem listamenn búa við í dag, þar sem skilin milli listgreina, æðri og lægri aðferða, eru sem betur fer að þurrkast út og eftir stendur krafan um hnitmiðun og frumleika hvernig svo sem þau birtast.“

Las þetta fólk bókunina okkar Áslaugar? Svo að ekkert fari á milli mála þá hljóðar hún svo:

 

“Bandalag íslenskra listamanna eru samtök atvinnulistamanna á Íslandi. Félagar eru alls um 3000, og er meirihluti þeirra búsettur í Reykjavík. Ástæðulaust ætti að vera að fara út fyrir þann hóp í leit að einhverjum til að heiðra sem borgarlistamann Reykjavíkur.

Borgarlistamaður er heiðursnafnbót sem jafnframt fylgir peningaupphæð. Á þeim tímum þegar mjög þrengir að hjá listamönnum, jafnvel meira en hjá flestum öðrum starfsstéttum, er mikilvægt að listamenn hljóti þó það sem listamönnum ber.

Í umræðum um þetta mál kom fram tillaga um að stofna til sérstakra Hönnunarverðlauna eða jafnvel Hönnunar- og handverksverðlauna. Slíka leið hefðu fulltrúar listamanna í Menningar- og ferðamálaráði stutt eindregið.

Með þessari bókun, sem þungbært er að þurfa að leggja fram, er á engan hátt sneitt að þeirri persónu sem nú er útnefnd borgarlistamanður, enda hefur hún þegar fengið margvíslega og verðskuldaða viðurkenningu fyrir störf sín.“

Ég kannast ekki við að hafa gert þarna nein skil “milli listgreina, æðri og lægri aðferða”. Það sem ég stóð fyrir tengist hagsmunabaráttu þeirra sem ég starfa fyrir. Og engu öðru.

En nú er þó ljóst að aðrir telja sig sjá út úr þessu ofangreind skil, og þá er að bregðast við því. Jafnframt er rétt að viðurkenna það strax að líklega gengum við Áslaug of langt í hagsmunagæslu okkar. Athugasemd okkar, sem sett var fram af fyrrnefndri grundvallarástæðu, gat komið illa, algerlega að ósekju, við þann einstakling sem valinn hafði verið. Ennfremur er alveg rétt sem fram kemur í mótbókun meirihluta Menningar- og ferðamálaráðs að ráðinu ber engin skylda til að einskorða sig við meðlimi BÍL í vali á borgarlistamanni.

En hver var þá skylda okkar Áslaugar á þessum fundi? Hún spyr í tölvubréfi um daginn:

“Hefðum við verið að vinna okkar starf ef við hefðum ekki sagt neitt, bara samþykkt að deila þessari margra ára hefð með mun stærri hóp og samþykkja nýja merkingu orðsins ,,listalíf”?”  – Þetta var vissulega afstaða okkar þá, en í ljósi umræðunnar síðan hefðum við líklega betur setið þögul hjá. Er ég þá einkum að hugsa um orðstír Bandalagsins, sem ekki má bíða hnekki af þessum völdum.

Hver er svo lausnin – sé þá til nokkur lausn á þessu vandræðamáli? Ég lagði eitt og annað til við Áslaugu, hafði m.a. í huga sameiginlega yfirlýsingu frá okkur til að lægja öldurnar, en Áslaug var ekki eins friðarfús og ég og tók á endanum þann kost að segja sig frá starfi formanns SÍM. Ég réð henni frá því, en hún hefur vitaskuld fullan rétt á að taka sínar eigin ákvarðanir í þessu máli.

Þessi fundur ætti þó að komast að einhverri niðurstöðu til að ljúka málinu. Hún þarf að friða báða aðila, þá sem styðja okkur fulltrúana í ráðinu og þá sem eru á móti bókuninni.

Ég er með tillögu að því hvernig orða mætti yfirlýsingu frá okkur og legg hana fyrir fundinn, en þið getið líka komið með ykkar uppástungur. Ef við getum komið okkur saman um orðalagið skal ég glaður skrifa undir það – og ég tel að við ættum öll að gera það.

 

Starfslaun listamanna

Hér með eru auglýst til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2010, í samræmi við ákvæði laga nr. 57/2009 með áorðnum breytingum.

Starfslaunin eru veitt úr sex sjóðum, þ.e.:

1.   launasjóði hönnuða,

2.   launasjóði myndlistarmanna,

3.   launasjóði rithöfunda,

4.   launasjóði sviðslistafólks,

5.   launasjóði tónlistarflytjenda,

6.   launasjóði tónskálda.

Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á vef Stjórnarráðsins á vefslóðinni http://umsokn.stjr.is.  fram til  mánudagsins  19. október 2009. Aðgangur er veittur á kennitölu umsækjanda (ekki kennitölu félags eða samtaka) og verður lykilorð sent viðkomandi á netfang sem hann gefur upp við nýskráningu.

Lykilorðinu má breyta eftir innskráningu með því að opna Mínar stillingar. Umsækjendur skrá sig inn með kennitölu og lykilorði og velja Stjórn listamannalauna undir flipanum Umsóknir. Þar eru umsóknareyðublöðin. Svæði merkt rauðri stjörnu verður að fylla út.

Fylgigögnum með umsókn sem ekki er hægt að senda rafrænt skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík fyrir kl. 17:00 mánudaginn 19.október 2009.

Með umsókn skal fylgja greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar umsókninni ásamt upplýsingum um hve langan starfstíma er sótt um og rökstuðningi fyrir tímalengd.  Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil, verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir  skulu  að  jafnaði  liggja  til  grundvallar  ákvörðun  um úthlutun starfslauna.

Athugið að hafi umsækjandi áður hlotið starfslaun verður umsókn hans því aðeins tekin til umfjöllunar að hann hafi skilað Stjórn listamannalauna skýrslu um störf sín í samræmi við ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009 með áorðnum breytingum.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar fást á vef Stjórnar listamannalauna www.listamannalaun.is eða á skrifstofunni í síma 562 6388.

Umsóknarfrestur rennur út mánudaginn  19. október 2009.

Stjórn listamannalauna 16. ágúst 2009

 

Page 20 of 28« First...10...1819202122...Last »