Fréttir

Mótun listastefnu

Á vegum BÍL eru nú teknir til starfa hópar listamanna við að móta listastefnuna, menningarstefnu Bandalagsins. Áætlað er að starfinu ljúki 30. október, en þá er ætlunin að eiga fund með menntamálaráðherra og afhenda listastefnuna.

Þriðjudaginn 9. júní var haldinn einkar vel heppnaður fundur þar sem starfið hófst í fimm hópum, en þeir eru svo skipaðir:

 

Ritlist

Hávar Sigurjónsson

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Pétur Gunnarsson

 

Myndlist og arkitektúr

Áslaug Thorlacius

Einar Garíbaldi Eríksson

Sigríður Magnúsdóttir

Sigríður Maack

 

Tónlist

Árni Sigurbjarnarson

Gunnar Hrafnsson

Kristín Mjöll Jakobsdóttir

Sjón

Tryggvi M. Baldvinsson

Þórir Jóhannsson

 

Sviðslistir

Frosti Friðriksson

Gunnar Gunnsteinsson

Helena Jónsdótti

Randver Þorláksson

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

 

Kvikmyndir

Ari Kristinsson

Ágúst Guðmundsson

Hjálmtýr Heiðdal

Sveinbjörn I Baldvinsson

 

Stefnumótuninni stýrir Njörður Sigurjónsson, en honum til aðstoðar er Sólveig Pálsdóttir. Verkið er unnið í samvinnu við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Bifröst.

 

Viðskipti við Kanada

3. júní var haldinn kynningarfundur hjá Útflutningsráði á viðskiptatækifærum í Kanada, en aukinn áhugi á þeim felst m.a. í því að fríverslunarsamningur milli Kanada og EFTA ríkjanna gengur í gildi 1. júlí næstkomandi.

Á fundinum var meðal annars vitnað í athugun sem gerð hefur verið á vegum Iceland Naturally á því hvaða afurðir Kanadamenn tengja við Ísland. Fiskur var þar vitaskuld efstur á blaði, en raunar kom á óvart að tónlistin lenti í 30% og kvikmyndirnar í 9%. Lambakjötið víðfræga hlaut ekki nema 12%. Þegar spurt var um áhuga fólks á afurðunum hlaut tónlistin 20% og kvikmyndirnar 14%.

Eflaust má rekja þessar jákvæðu niðurstöður til listkynninga ýmiskonar, einkum þá sem undanfarin þrjú ár hefur verið haldin í Manitoba. Íslenskir tónlistarmenn hafa farið víða um Kanada við góðan orðstír. Auk þess eru íslenskar kvikmyndir fastir liðir á dagskrám kvikmyndahátíða, í Toronto, Montreal, Vancouver – og svo þeirri alhuggulegustu: í Gimli.

Vafalaust er hér komin góð ástæða til að auka samskiptin við Kanada. Útflutningur á íslenskum vörum mun örugglega aukast í kjölfar fríverslunarsamningsins. Íslensk list gæti sömuleiðis notið góðs af samningnum.

 

Samráðsfundur með borgarstjóra

Stjórn BÍL átti fund með borgarstjóra, menningar- og ferðamálaráði og nokkrum embættismönnum borgarinnar í Höfða, fimmtudaginn 28. maí sl. Meginumræðuefni fundarins var menningarstefna borgarinnar, sem fyrr um daginn var samþykkt af menningar- og ferðamálaráði, en á eftir að fara fyrir borgarráð til samþykktar.

Almennt lýstu fundarmenn yfir ánægju með stefnuna og töldu hana betrumbót frá fyrri stefnu, sem hafi verið of loðin og ómarkviss. Með nýju stefnunni fylgir aðgerðaáætlun þar sem sérstaklega er tilgreint hvaða svið borgarinnar hafi hinar ýmsu umbætur á sinni könnu og raunar útlistað að nokkru hvernig markmiðum stefnunnar skuli náð.

Að venju komu ýmsar óskir listamanna upp á borðið, rithöfundar lýstu yfir áhuga á að Reykjavík verði “bókmenntaborg”, eins og til tals hefur komið, kvikmyndamenn sögðu frá tilraunum við að stofna kvikmyndaþorp í húsum O. Johnson og Kaaber, myndlistarfólk ræddi um þörfina á ódýrri aðstöðu fyrir listamenn, einkum á Korpúlfsstöðum, og margt margt fleira.

Að vonum var efnahagshrunið ekki langt undan í umræðunni, og töldu margir formennirnir að hún hefði þegar bitnað illa á listafólki. Víða hafi listkennsla snarminnkað í skólum, auk þess sem skrúfað hafi verið fyrir heimsóknir listamanna og kynningar á borð við Skáld í skólum og Litróf listanna. Almennt væri verkefnastaða listamanna bágborin, ekki síst þeirra sem áður reiddu sig á einkageirann.

Athyglisverð voru orð borgarstjóra um að alvarleg mistök hafi verið gerð í skipulagsmálum borgarinnar og átti þá við byggingarmagnið sem víða var leyft, ennfremur almennt virðingarleysi við þá byggð sem fyrir væri á viðkomandi reitum, og í framhaldi af því var rætt um samstarf arkitekta og myndlistarfólk við opinber mannvirki. Minnt var á áform um að hækka stöðugildi við byggingalistardeild Listasafnsins úr 60 í 100 prósent, en það frestaðist í fyrra í kreppunni.

Í lokin bar forseti BÍL fram ósk um að stjórn BÍL fái að vera með í ráðum við endurskoðun á nýtingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins. Borgarstjóri tók vel í það og bað forseta að skrifa sér og menntamálaráðherra formlegt bréf þar að lútandi.

 

Menningarstefna listamanna

Málþing í Þjóðminjasafninu, laugardaginn 16. maí kl 10-12 f.h.

 

“Mótuð verði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum.”

Þetta má lesa í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar – og kemur stjórn BÍL ekki á óvart, því að á samráðsfundi með Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, 30. mars sl. mæltist hún til þess að listamenn hæfu sjálfir mótun menningarstefnu.

Fyrstu skrefin verða stigin á þessu málþingi.

 

Frummælendur verða:

Halldóra Vífilsdóttir, arkitekt

Njörður Sigurjónsson, lektor

Að loknum framsöguerindum verða almennar umræður.

 

Allir félagsmenn í aðildarfélögum BÍL eru hvattir til að koma og veita þessu mikilvæga máli lið.

 

Listastefna BÍL

Á samráðsfundi BÍL með menntamálaráðherra 30.mars síðastliðinn barst í tal hvort ekki væri tímabært að ráðuneytið gæfi út menningarstefnu sína. Ráðherra stakk þá upp á því að Bandalagið riði á vaðið og semdi slíka stefnu. Þessu tók stjórn BÍL afar vel og hefur nú ýtt verkefninu á flot, en hyggst einskorða sig við listirnar í stefnumótun sinni. Fyrsta skrefið er að boða til málþings í Þjóðminjasafninu, fyrirlestrarsal, laugardaginn 16. maí kl. 10-12 að morgni.

Frummælendur verða Halldóra Vífilsdóttir, arkitekt, og Njörður Sigurjónsson, lektor, en hann hefur verið ráðinn til að stýra verkinu. Að loknum inngangsorðum þeirra verða opnar umræður um málið. Allir listamenn eru hjartanlega velkomnir.

 

Ráðstefna í Stykkishólmi

MENNINGARLANDIÐ 2009

Menntamálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga, í samstarfi við menningarráð landsbyggðarinnar boðar til ráðstefnu á Hótel Stykkishólmi dagana 11. og 12. maí n.k.

Fjallað verður um reynsluna af menningarsamningunum og spurt hver árangur hafi orðið og hvert beri að stefna.  Hvernig getum við nýtt okkur menningu og menningartengda ferðaþjónustu til nýrrar sóknar í nýsköpun og nýtingu menningararfs okkar?

Menningarráð landsbyggðarinnar  kynna starfsemi sína og bjóða upp á fjölbreytt sýnishorn skapandi menningar. Fróðleg erindi og spennandi viðburðir.

DAGSKRÁ

Mánudag 11. maí

Kl. 12:00             Trommusveitin í Stykkishólmi býður gesti velkomna

Ávarp ráðherra

Landshlutapóstur frá Menningarráði Vesturlands og Vestfjarða

Kl.12:40            Dögg Mósesdóttir: Framtíðarfjárfestingin menning

Kl. 13:00            Leikatriði frá Ungmennafélaginu Íslendingi í boði Menningarráðs Vesturlands

–       Stutt hlé –

Kl. 13:30            Elísabet Indra Ragnarsdóttir: „Við verðum að læra að sjá meira, heyra meira, skynja meira …“

Kl. 13:50             Hjálmar H. Ragnars: Skapandi kraftur

Kl. 14:10            Jón Hrólfur Sigurjónsson: „Hér er hægt að fá brjálaðar hugmyndir og láta þær gerast!“

Kl. 14:30 Spurningar og svör um menningaruppeldi og listfræðslu

–       Stutt hlé –

Kl. 15:00            Tónlistarperlur: Alexandra Chernyshova sópran, Þórhallur Barðason barinton og Tom R. Higgerson píanóleikari flytja.  Tónlistaratriði í boði Menningarráðs Norðurlands vestra

Kl. 15:15            Landshlutapóstur frá Menningarráði Norðurlands vestra

Kl. 15:30            Þór Sigfússon: Um þýðingu lista og menningar í íslensku athafnalífi

–       Stutt hlé –

Kl. 16:10             Menningarlandið 2009: Höfum við gengið til góðs: Guðrún Helgadóttir og Signý Ormarsdóttir flytja hugleiðingu um reynslu og árangur af menningarsamningum ríkis og sveitarstjórna. Að erindum þeirra loknum taka þær þátt í pallborði ásamt Svanfríði Jónasdóttur bæjarstjóra á Dalvík og fulltrúum frá iðnaðar- og menntamála-ráðuneytum.

Kl. 17:15            Sameiginleg upplifunarferð með ævintýrasiglingu. Sturla Böðvarsson segir frá sögu og skipulagi gamla miðbæjarins í Stykkishólmi og gengið verður fylktu liði gegnum gamla bæinn, niður á höfn og um borð í bát sem siglir með gesti um Breiðafjörð. Boðið verður upp á ferskt sjávarfang um borð.

Kl. 19:45            Fordrykkur í boði Stykkishólmskaupsbæjar í Vatnasafninu.

Kl. 21:00            Kvöldverður með næringu fyrir líkama og sál. Þjóðlagasveitin frá Akranesi, Stefán Benedikt Vilhelmsson leikari, Þórunn Gréta Sigurðardóttir píanóleikari  og  Kómedíuleikhúsið frá Ísafirði verða meðal skemmtiatriða.

Þriðjudag 12. maí

Kl. 09:30            Svanhildur Konráðsdóttir:  Menning – mikilvægur drifkraftur í ferðaþjónustu

Kl. 09:50            Landshlutapóstur frá Menningarráði Eyþings

Kl. 10:05            Stuttmyndafestivalið Stulli – verðlaunamynd og bjartasta vonin 2008 í boði Menningarráðs Eyþings

Kl. 10:15            Dansgjörningur í boði Menningarráðs Eyþings: Anna Richardsdóttir

Kl. 10:30            Landshlutapóstur frá Menningarráði Suðurlands

Kl. 10:45            Þjóðlagasveitin Korka í boði Menningarráðs Suðurlands

–       Stutt hlé –

Kl. 11:20             Sigríður Sigurjónsdóttir: Stefnumót Bænda og hönnuða

Kl. 11:40            Sólveig Ólafsdóttir: Meyjarhumar og hákarl

Kl.12:00            Matarhlé

Kl.13:00            Viðar Hreinsson: Menningararfur og sjálfsmynd Íslendinga

Kl. 13:20            Hjálmar Sveinsson: Skipulag er menning

Kl. 13:40            Umræður

–       Stutt hlé –

Kl. 14:20             Landshlutapóstur frá Menningarráði Austurlands

KL. 14:35            Brynhildur Guðjónsdóttir: Í fáum orðum

Kl. 15:00            Jón Jónsson: Rótað í framtíðinni

Kl.15:20            Ávarp ráðherra

Kl.15:30            Lúðrasveit Stykkishólms og Akraness kveður gesti

Starfslaunum fjölgað

Fimmtudaginn 16. apríl samþykkti Alþingi nýtt frumvarp um lög um starfslaun listamanna. Mestu skiptir sú breyting að fjölga laununum um þriðjung eða úr 1200 í 1600 mánaðarlaun. Áður höfðu listamenn náð samstöðu um skiptingu launa á milli listgreina, svo og um aðra þá þætti sem að málinu koma, og var sú sátt innsigluð á fundi í Menntamálaráðuneytinu 7. janúar síðastliðinn.

 

Sjá meira um málið undir Greinar.

 

Starfslaun listamanna

Ágúst Guðmundsson:

 

Sá árangur sem náðist með nýjum lögum um starfslaun listamanna á sér langan aðdraganda,  því að lögum um þennan málaflokk hefur ekki verið haggað síðan 1996. Á meðan ýmsir aðrir þjóðfélagsgeirar sóttu sér gull í greipar og stækkuðu og bólgnuðu, einkum þeir auðugustu, gerðist ekkert annað með listamannalaunin en að umsóknum fjölgaði ár frá ári. Þörfin á að bæta um betur var því orðin afar brýn.

Þetta viðurkenndi þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og bauð upp á það nú í haust að hefja viðræður við fulltrúa frá Bandalagi íslenskra listamanna um þriðjungs fjölgun mánaðarlauna. Með þessu var hún að efna loforð frá bjartari dögum í hagsögu þjóðarinnar, en það skal sagt henni til hróss að hún stóð við loforðið þrátt fyrir efnahagslegt hrun. Er skemmst frá því að segja að þann 7. janúar síðastliðinn náðist samkomulag um skiptingu milli hinna ýmsu listgreina og um flesta aðra þætti málsins.

Það var í rauninni ekki annað eftir en að greiða úr nokkrum formsatriðum í ráðuneytinu og reka á frumvarpið smiðshöggið, þegar stjórnin féll í janúarlok. Undirritaður var þess þá fullviss að erfitt yrði að endurlífga málið – en nýr menntamálaráðherra kom listamönnum skemmtilega á óvart með einstakri framtakssemi. Af skörungsskap tók Katrín Jakobsdóttir málið fyrir og lét ganga frá frumvarpinu með hraði, lagði það síðan fyrir vorþingið, þar sem það var afgreitt á lokadögum þess.

Svo sem oft áður komu fram gamalkunnar úrtölur, t.d. um listamenn á framfæri ríkisins, en þær voru þó venju fremur bitlausar að þessu sinni. Nokkuð byggðust þær á þeim rótgróna misskilningi, að verið væri að styrkja tómstundagaman einhverra iðjuleysingja! Staðreyndin er hins vegar sú að listamenn innan BÍL eru atvinnumenn úr ýmsum greinum og þiggja laun, rétt eins og hverjir aðir, fyrir vinnu sína. Starfslaunin tengjast verkefnum sem lístamenn sækja um stuðning við, ríkið fjármagnar síðan þau verkefni í formu starfslauna, hljóti þau náð fyrir augum sjóðsstjórnanna.

Á tímum kreppu og atvinnuleysis eru starfslaun listamanna einmitt kjörinn vettvangur til að auka atvinnuskapandi tækifæri á sviðum sem gjarnan leiða af sér umtalsverð afleidd störf og þjónustu af ýmsu tagi. Þar með er líka tekin stefna á störf sem kalla á virkjun hugans fremur en landsins gæða og er raunar aðeins eitt dæmi af mörgum um þá trú á hugarorkuna sem einkennir sitjandi stjórnvöld.

Katrín Jakobsdóttir fer vel af stað í embætti sínu sem menntamálaráðherra. Annað stórvirki hennar er að taka þátt í byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss í samstarfi við borgaryfirvöld, en það er annað mál sem hljómar illa í eyrum þeirra sem ekki hefur skilist að listviðburðir og menningarlíf yfirleitt eru ekki bara skraut á tyllidögum þjóðlífsins, heldur heyra til þeirri atvinnugrein sem vex hraðast í heimshluta vorum: iðnaði sköpunar.

 

Greinin var send Morgunblaðinu 22. apríl 2009

 

Um starfslaun listamanna

Ágúst Guðmundsson:

 

Í ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins um menningarmál er lagt til að “lög um listamannalaun verði endurskoðuð með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði”.

Þarna virðist gæta ákveðins misskilnings. Starfslaun listamanna eru í raun verkefnatengdur listsköpunarsjóður.  Það var einmitt með lögunum frá 1991 sem tekin var upp sú skipan að greiða listamönnum laun fyrir að vinna ákveðin verkefni. Úthlutað er á grundvelli umsókna þar sem listamenn tilgreina ítarlega í hverju viðkomandi verkefni felast og á hvaða tíma þau verði unnin.

Starfslaun listamanna eru þar með ekki viðurkenning fyrir störf fortíðarinnar, heldur þvert á móti eins verkefnatengd og hugsast getur. Góður árangur af fyrri störfum styrkir vissulega allar umsóknir, en það gildir ekki frekar um starfslaun listamanna en önnur viðlíka umsóknarferli.

Ef til vill er hér verið að blanda starfslaunum listamanna saman við heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir beint, en þau eru, eins og nafnið bendir til, ætluð til að heiðra nokkra af elstu og helstu listamönnum þjóðarinnar og eru þar með ekki verkefnatengd.

“Lista- og menningarlíf þjóðarinnar hefur blómstrað á undanförnum árum” segir í upphafi ályktunarinnar, og vafalaust má rekja það að verulegu leyti til starfslauna listamanna, sem hafa ýtt mörgu verkefninu úr vör sem annars hefði aldrei farið á flot. Stærsti sjóðurinn er sá sem greiðir rithöfundum starfslaun, og á hann verulegan þátt í uppgangi bókmenntanna undanfarin ár

Rétt er að taka undir óskir landsfundarins um að áfram verði haldið “að hlúa að þeim grunni sem lagður hefur verið í lista- og menningarlífi þjóðarinnar”. Reyndar segir einnig að Sjálfstæðisflokkurinn leggi “áherslu á stuðning við skapandi listir”, og því fagna íslenskir listamenn.

Bandalag íslenskra listamanna getur tekið undir það að lög um listamnannalaun eigi að taka reglulega til endurskoðunar, en þó ekki með þeim formerkjum sem koma fram í drögum að ályktun Landsfundarins og enn má lesa á heimasíðu flokksins, en þar stendur í fjórða lið: “Landsfundur vill leggja niður listamanna- og heiðurslaun í núverandi mynd”. Því hlýtur Bandalag íslenskra listamanna að fara þess á leit við talsmenn Sjálfstæðisflokksins að þeir útlisti nánar hvað í ályktun þeirra um menningarmál felst. Tíminn styttist óðum til kosninga og íslenskir listamenn munu aldrei una því að áratuga barátta þeirra fyrir starfsskilyrðum sé fyrir borð borin og að engu höfð.

 

Birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 3. apríl 2009

 

Samráðsfundur með menntamálaráðherra

Þann 17. mars síðastliðinn hélt stjórn BÍL fund með ráðherra menntamála og ráðuneytisfólki. Fundurinn fór fram í Ráðherrabústaðnum yfir heitu súkkulaði og rjómapönnukökum. Var mál manna að fundurinn hefði farið einkar vel fram, enda er ánægja listamanna mikil með frumvarp um starfslaun listamanna sem nú liggur fyrir þinginu. Ennfremur eru framkvæmdir við Tónlistarhús í samræmi við vilja BÍL, svo sem sjá má í ályktunum síðasta aðalfundar.

 

Málefni á samráðsfundi menntamálaráðuneytisins með Bandalagi íslenskra listamanna 17. mars 2009:

 

Listdans

Á þessum samráðsfundi höfum við orðið sammála um að vekja sérstaka athygli á listdansinum og stöðu hans sem atvinnulistgreinar.

Spurt er: Hver er stefnumörkun menntamálaráðuneytisins í málum listdansins til framtíðar?

 

Ríkisútvarpið

Við viljum hvetja til átaks  í málefnum RÚV í þá veru  að stórauka umfjöllum um íslenska menningu í mjög víðum skilningi. Breyttar forsendur í kjölfar hrunsins hafa fært í brennipunkt að sú auðlegð sem við hljótum að byggja á er menning okkar fyrst og fremst, hlutskipti okkar hér í fortíð, nútíð og framtíð.

RÚV er oft mjög utangátta þegar kemur að þessum meginstærðum og brýnt að það verði vakið til vitundar um hlutverk sitt og skyldur.

Ennfremur skal á það bent að eigi Ríkisútvarpið  að geta staðið undir nafni þarf innlend dagskrá að geta skartað vönduðu, leiknu efni.

 

Listnám

Breytt verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga í listnámi hefur víðast ekki náð fram að ganga. Má nefna tónlist, myndlist og dans í þessu samhengi. Nýlega komst á nýtt skipulag í danskennslu fyrir öll skólastig, svo dæmi sé tekið, en það vantar að fylgja því eftir í raun.

Spurt er: Hvert er stefnt í fræðslumálum listanna? Er verið að vinna að þeim á vegum ráðuneytisins, og sé svo, hverjir koma að þeirri vinnu?

 

Listskreytingar

Um listskreytingar opinberra bygginga gilda ákveðnar reglur, sem gjarnan eru brotnar. BÍL leggur til að prósentið eina, sem í listskreytingar á að verja, fari í gegnum Listskreytingasjóð til að tryggja að ekki verði farið á svig við lögin.

 

Skattprósenta á tekjur af hugverkum

Viðurkenna ber hugverk sem eign, er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir, svo sem hlutabréf eða innstæður í banka. Tekjur af slíkri eign ættu að bera sama skatt og fjármagnstekjur.

 

Byggingarlist

Arkitektar vilja ræða safnamál byggingarlistar í landinu og hlutverk byggingarlistasafna við að framfylgja menningarstefnu í mannvirkjagerð; ennfremur að komið verði upp fullgildu námi í arkitektúr á Íslandi.

 

Höfundarréttur

Sem fyrr leggur BÍL megináherslu á að hverskonar höfundarréttur verði varinn. BÍL skorar á ráðherra að hún sjái til þess að þær stofnanir sem heyra undir menntamálaráðuneytið semji við myndlistarmenn um greiðslu fyrir notkun mynda af verkum íslenskra myndlistarmanna, ekki síst þeim verkum sem eru í eigu hins opinbera.

 

Ályktanir

Á aðalfundi Bandlags íslenskra listamanna 31. janúar sl. voru samþykktar þrjár ályktanir. Nú þegar hefur menntamálaráðuneytið orðið við tveim þeirra: um starfslaun listamanna og um tónlistarhúsið. Náðst hefur samstaða um nýtt frumvarp um starfslaun listamanna, sem menntamálaráðherra  mun leggja fyrir Alþingi. Þessu fagna íslenskir listamenn. Ekki er síður ánægjulegt að áfram verði unnið að Tónlistar- og ráðstefnuhúsi.

Þriðja ályktunin var almenn athugasemd , sem hér fer á eftir –

 

“Um atvinnuöryggi listamanna

Bandalag íslenskra listamanna minnir á að árið 2009 er ár sköpunar og nýbreytni í Evrópu. Hugvit og sköpunargáfa verður æ hærra metin, jafnt í listum sem sprotafyrirtækjum.

Hins vegar fer atvinnuleysi vaxandi um þessar mundir. Verkefnastaða listamanna er orðin verulega slæm líkt og margra annarra, verkefni daga uppi þar sem vandasamt reynist að fjármagna þau. Fjölmargir listamenn eiga því erfitt með að skapa sér og öðrum atvinnu lengur. Við munum ekki heyra tölur af hópuppsögnum þar sem listamenn reka sig flestir sjálfir, en atvinnuleysið í þessum geira er að stóraukast, og er það mikið áhyggjuefni.

Því er rétt að benda á að litla fjárfestingu þarf til að viðhalda störfum í menningu og listum miðað við margar aðrar atvinnugreinar. Menning og listir leggja til 4% af landsframleiðslu og standa fyrir kraftmiklu og fjölbreytilegu menningarlífi sem ber á viðsjárverðum tímum út hróður lands og lýðs um heim allan, auk þess sem menning og listir eru í auknu mæli notuð til þess að endurreisa og endurnæra samfélög með góðum árangri.

BÍL hvetur öll stjórnvöld til að hafa þetta í huga. Sérstaklega er því beint til sveitarstjórna að standa vörð um fjárveitingar til menningarráða.”

 

Við þetta má bæta eftirfarandi tilvitnunum í bréf frá myndlistarmönnum til efnahags- og skattanefndar Alþingis:

“… Við áætlun reiknaðs endurgjalds eru myndlistarmenn í starfaflokki C, ásamt skemmtikröftum, fasteignasölum og öðrum ágætum starfsstéttum. Árið 2008 var gengið út frá því að þessi hópur hefði á bilinu 414 til 663 þúsund í mánaðarlaun en það er víðs fjarri raunveruleika myndlistarmanna…

…Fyrir 6 árum sendi stjórn SÍM þáverandi fjármálaráðherra, Geir Haarde, bréf þar sem m.a. var bent á galla starfaflokkunarkerfisins og óskað eftir breytingu gagnvart myndlistarmönnum. Svar ráðuneytisins þá var að ekki væri ástæða til að aðhafast í málinu…”

 

Page 20 of 26« First...10...1819202122...Last »