Author Archives: vefstjóri BÍL

Fjörtíu tommu plasma – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Sigurbjörg Þrastardóttir:

Fjörtíu tommu plasma

Ef eitt stykki sjónvarp – og þá er ég ekki að meina gamalt svarthvítt Nordmende, segjum heldur glænýr plasmaskjár með útsendingu Ríkissjónvarpsins – ef þannig sjónvarp væri eina heimild grandalauss útlendings um lífið sem lifað er í þessu landi, er hætt við að hann fylltist furðulegum hugmyndum. Jafnvel verulegum ranghugmyndum. Jú, hann myndi fljótt átta sig á því að konur á Íslandi eru almennt yngri en karlar, og betur tenntar. Hann myndi sjá að íþróttir eru stundaðar í miklum mæli, allan ársins hring og oft í viku. Sér í lagi kappakstur. Hann myndi læra að hér er í gildi hamingjustuðull sem heitir úrvalsvísitala og mikilvægt að vita daglega hvort hann fer upp eða niður. Hann myndi fræðast um bankakerfið, hestamennsku, lífið í sveitum, veðrið, hann myndi skilja gildi leiðinlegra stjórnmála og læra að á Íslandi er helst ekki hlegið og helst ekki spilað á píanó nema um helgar. Hann myndi gera sér ljósa grein fyrir mikilvægi námsmanna, klósetthreinsa og vatnsdrykkja – þ.e. ef hann horfði líka á auglýsingarnar – og af lokaorðum valinna fréttatíma myndi hann sjá að leikrit eru stöku sinnum æfð á Íslandi, en aldrei sýnd.

Nefnilega. Í íslensku sjónvarpi er meira og minna aldrei sýnt frá, né rætt af viti um, þær 30 leiksýningar sem að meðaltali lifa á íslenskum fjölum á hverjum tíma, ef frá er talin handahlaupsgagnrýni í Kastljósi, sem í vetur hefur þó ekki enn verið efnt til, og er þó starfsemi allra leikhúsa komin í gang. Samkvæmt sjónvarpinu er varla lögð hér nokkur stund á myndlist, hér er engin nútímatónlist samin, vídeó-list, sem beinlínis er gerð fyrir sjónvarpsskjái, er óþekkt og sama gildir um grafíska hönnun, arkitektúr og aðrar sjónrænar greinar. Sem einmitt ættu svo vel heima, og kæmu svo ágætlega út, í sjónvarpi. Og bækur? Einmitt, góðir hálsar, gesturinn ímyndaði, sem aðeins hefði svarthvítt Ríkissjónvarpið, nei fyrirgefiði, sem aðeins hefði hánútímalegan plasma-Ríkis-kassann sem heimild um líf okkar, hann fengi ekki með nokkru móti séð að hér væru skrifaðar bækur. Þótt hann sæti allur af vilja gerður við skjáinn í nokkra daga, heila viku, já, þótt hann horfði á sjónvarpið í 11 mánuði samfleytt, væri fullkomlega mögulegt að hann heyrði aldrei minnst á ljóð, skáldsögur, smásögur, skáldævisögur, sagnaþætti, bloggbókmenntir, ferðabækur, glæpasögur, myndasögur eða annan skáldskap. Hann myndi ekki heyra hvar orðsnilld fólksins eflist, hvar máltilfinningin skerpist, hann myndi vita næstum ekki neitt um túlkun samtímans, hvaðan hugmyndir að kvikmyndum og málsháttum koma, hvernig þjóðin varðveitir sögur og kortleggur sjálfa sig. Hann myndi standa upp frá sjónvarpinu í sínu ónefnda útlandi, labba sig inn í eldhús og segja yfir borðið: skrýtið, þarna uppi á látlausum hólma býr læs og vel hirt þjóð, með kauphöll og hvaðeina, en það er skrýtið, hún á engar bækur.

 

Gott og vel. Kannski hugsa einhverjir sem svo að plasmasjónvarpið sé einfaldlega komið í stað sófamálverksins, að listin sé úreld og einfeldni yfirborðsins hafi tekið völdin. Flatskjárinn, í bókstaflegri merkingu. En sú rökfærsla gengur samt ekki upp, því sköpunarkrafturinn í þessu landi er svo yfirþyrmandi að hér er næstum því freistandi að fara út í tölur til að undirstrika sannleikann. Á að giska þrjú þúsund manns hafa beina atvinnu af því að skrifa og gefa út bækur, skapa myndlist, reka gallerí, semja tónlist og aðra list eða koma henni í umferð. Þá eru ótaldir allir þeir sem af ástríðu njóta verkanna, og væru til í að heyra um fleiri verk, sjá umræður um þau, dæmi, túlkun og almennar pælingar. Þetta grunar mig að gætu verið hátt í þrjú hundruð þúsund manns. Hvar er þá samræmið í eftirspurn og framboði? Eða hefur manni ekki verið innprentað að slíkt lögmál sé heilagt og stýri fjölmiðlamarkaði? Ég veit það ekki, ég var bara boðin hér í afmæli og veit ekki hvað mér leyfist að segja mikið.

Maður hefði allavega haldið að ef sjónvarp í eigu fólksins ætti að gera eitthvað, þá væri það að tjá lífið eins og það er. Sýna það jafnvel í fersku ljósi. Eða endurspeglar RÚV kannski bara lífið eins og við vildum að það væri? Varla. Slagsíða morða, vaxtafrétta og Disneyhunda er of mikil til þess að nokkur gæti óskað sér þannig tilveru.

 

Fyrir skömmu hitti ég frægan mann og við fórum að ræða þessa sorgarsögu: skort á umfjöllun um menningu og listir í sjónvarpinu. Mósaík leystur upp og horfinn af dagskrá, ekki haldið áfram með Regnhlífarnar í New York, jafnvel einfaldur þáttur eins og Tónlistinn, umfjöllun um rokk og popp, fékk ekki að halda plássi sínu á þeirri forsendu að „annar unglingaþáttur” væri þegar á dagskrá. Eins og tónlist sé bara fyrir tvo árganga. En jafnvel unglingaþættirnir, At, Óp og Ok, þættir um menningu og margvíslega krafta ungs fólks, eru ekki lengur inni í myndinni. Og sá ágæti, ódýri þáttur Tvípunktur á Skjá einum, sá eini í íslensku sjónvarpi sem á þeim tíma var helgaður bókmenntum, hefði hann ekki átt skilið lengri lífdaga? Gat hann a.m.k. ekki verið fyrirmynd að samskonar þáttum á öðrum stöðvum, eða um aðrar listgreinar? Eini þátturinn sem ég man eftir nýlega er Taka tvö, upplýsandi spjall um íslenskar kvikmyndir, en það er ekki nóg. Við viljum samhengi, samfellda umræðu um það sem er að gerast á hverjum tíma í íslenskum hugmyndaheimi, menningu, í því hvernig ein þjóð sér sig og tjáir sig. Og þá dettur mér í hug að nota tækifærið og óska útvarpsþættinum Víðsjá til hamingju með 10 ára afmælið, og missa jafnvel út úr mér að margt gæti nú sjónvarpið lært af útvarpinu.

Nema hvað, ég gleymdi að halda áfram með söguna, ég hitti sumsé þennan fræga mann þarna á barnum – já, þetta var á bar og ég legg sérstaka áherslu á frægð hans svo þið leggið áreiðanlega við hlustir – og þá varð honum að orði:

Kannski, sagði maðurinn, kannski er staðreyndin sú að einfeldnin og yfirborðið í sjónvarpi hafa sigrað. Sjónvarp, sem slíkt, telur sig greinilega ekki lengur fært um að endurvarpa neinu nema síbylju, sýndarveruleika og skrumi, og þá skulum við bara láta því það eftir. Í stað þess að fjargviðrast skulum við einbeita okkur að því að halda öllu sem okkur er kært, öllu sem hefur dýpt og vigt, utan við sjónvarp svo það skemmist ekki. Allt sem skiptir okkur máli, menning, list og líf, nærum það á öðrum vettvangi en á skjánum.

 

Ég verð að viðurkenna að þarna og þá, á barnum, þegar allir í kringum okkur voru nýkomnir af frumsýningu á íslensku listaverki, glaðir og reifir og bjartsýnir, hljómaði þetta viðhorf svolítið flott. Hættum þessu eymdarvæli. Látum sjónvarpið bara eiga sig.

Um leið laust niður í huga minn hvernig ég gæti endað þetta erindi í dag. Ég gæti sagt sem svo: Það var nógu slæmt þegar okkur var tjáð, á okkar einkennilegu pó-mó-tímum, að Guð væri dauður. Svo vöndumst við því. En fjárinn hafi það, er sjónvarpið dautt líka?!

Mér fannst þetta soldið flottur endir, en í húsi Rithöfundasambandsins daginn eftir var mér snarlega kippt niður á jörðina: Þetta er fullkomin og ótímabær uppgjöf, sagði formaðurinn, og hann er vanur að hafa rétt fyrir sér.

En hvað á maður samt að halda, þegar þúsundir lifa fyrir ný sjónarhorn og frjóa túlkun veruleikans, en nær engu af því er endurvarpað. Hvað á maður að halda, þegar hugmynd að tónlistarþætti, og ekki bara hugmynd heldur heilt tökuplan, hefur að sögn legið inni á sjónvarpsdeild í nokkur misseri en ekki sinnt, ekki einu sinni svarað. Og hvað á maður ennfremur að halda, þegar áhugasamt fyrirtæki úti í bæ býðst til að halda áfram með vel heppnaðan bókaþátt, en er afþakkað.

 

Góðir hálsar. Þá á maður ekki að halda neitt sérstakt, heldur bara hinkra augnablik. Og sjá, í gegnum þokuna sem myndast hefur yfir og allt um kring, fer allt í einu að móta fyrir samningi. Rétt eins og yfirvöld ríkis og sjónvarps hafi loksins fundið á sér að sjónvarpið væri að deyja. Og maður tekur samningsdrögin í hendurnar, lítur yfir þau og hver er þar sögð fyrsta skylda almannasjónvarps? Áhersla skal lögð á að miðla íslenskri menningu og skal RÚV vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu. Nefnilega. Og hvað segir í 2. grein? RÚV ber að uppfylla menningarlegar, þjóðfélagslegar og lýðræðislegar þarfir í íslensku samfélagi… Og hvað meira? RÚV skal hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi.

Og þá hlýtur maður að hvísla: sagði ég ekki!

 

Við vissum þetta allan tímann, við í samtökum plasmasjúklinga, eðlisávísunin sagði okkur að á þessu ættum við heimtingu, en það var alltaf minna og minna ljóst á sjálfum skjánum. Þangað til enginn menningarþáttur var eftir.

Í öllum alvöru útlöndum er slíkum þáttum haldið úti af metnaði, hefð og framsýni í sjónvarpi og sífellt verið að vitna í þá á öðrum vettvangi, sem segir sitt um slagkraftinn. Og hér?  Ég ætla ekki að bæta við að hér skulu samt Formúluáhugamennirnir fimmtán alltaf fá hringinn sinn sýndan, því þetta er ekki þannig stríð. Þetta erum við, með hvítan fána.

 

Í stuttu máli: Sjónvarp gefur möguleika á tvenns konar efni, minnst, þegar kemur að menningu. Annars vegar er miðillinn opinn fyrir tjáningu (listræna, sjónræna), þá erum við að tala um kvikmyndir, leikna þætti og annað efni með sögu, inntaki og merkingu í sjálfu sér. Hins vegar dokúmenterar sjónvarp það sem er gert og hugsað í umhverfinu, í öðrum miðlum og öllum listgreinum, háum, lágum, dægurbundnum og tímalausum. Á hvorugum vettvangnum, finnst mér, sinnir íslenskt sjónvarp brýnu hlutverki sínu sem skyldi. Og er þá engin stöð undanskilin.

Í dag á nefnilega ekki bara Ríkissjónvarpið afmæli, í sömu andrá á íslenskt sjónvarp yfirhöfuð afmæli, og því er full ástæða til að brýna allar stöðvar, stórar sem smáar. Þær eiga allar sjens.

Því hvorki hingað til, né hér eftir, snýst málið um peninga eina saman. Það getur ekki verið dýrara að fjalla um leikhús en hesthús. Það getur ekki verið erfiðara að tala við heimspekinga en fegurðardrottningar. Íslensk dagskrárgerð hlýtur alltaf að snúast um hugmyndaauðgi, forgangsröðun og hugrekki; þá fyrst verða peningar vandamál þegar þeim er sóað í einsleitni.

 

Mér finnst ægilega vænt um Ríkissjónvarpið. Og ég óska því til hamingju með afmælið. Og mér finnst sem við værum fátækari án þess.

En það er ekki lengur forsvaranlegt að íslenskir sjónvarpsáhorfendur fari á mis við svona furðulega margt. Nú, þegar við höfum loks uppgötvað til fulls hvað sjónvarp er sniðugt og áhrifaríkt, á þessum tímum óvenjumargra stöðva og forvitnilegrar tækni, já, á tímum efnahagslegrar kátínu – þá reynir loks á frumleika og forystu RÚV. Og keppnisskap allra hinna.

 

Því til hvers að fá sér plasmaskjá, en hann virkar ekki sem spegill? Til hvers að fá sér 40 tommu skjá, ef hann stækkar ekki lífið? Til hvers að fara á bar, ef þar eru einungis fyrir frægir menn sem spá sjónvarpinu dauða?

 

Ég veit það ekki, en happí ending hlýtur að vera í nánd.

 

Ég horfi aldrei á sjónvarp – frá fundi BÍL 30.9.

Frá fundi BÍL 30. september 2006

Sigurjón Kjartansson:

Ég horfi aldrei á sjónvarp

 

Einu sinni var ég að undirbúa grínskets fyrir gamanþátt á Ríkissjónvarpinu og var að reyna að útskýra hvað mig langaði að gera fyrir starfsmanni sem hafði starfað þar síðan 1966. Ég reyndi að vísa í þekkt minni úr sjónvarps úr kvikmyndasögunni til að gera honum betur grein fyrir hvað ég væri að meina. Þá hristi hann hausinn, brosti, horfði stoltur á mig og sagði: “Ég horfi aldrei á sjónvarp”.

Ég hef ansi oft heyrt  þessa setningu: “Ég horfi aldrei á sjónvarp”. Þessu fylgir vanarlega svipur sem er blanda af stolti og meðaumkun og segir: “Sjáðu hvað ég er nú sniðugur. Ég er sjálfstæður og óháður og læt ekki mata mig”. Þetta er alltsaman gott og blessað, enda ber ég fulla virðingu fyrir fólki sem lætur ekki mata sig.

Þegar ég horfi svo yfir það sem gert hefur verið í íslensku sjónvarpi þau 40 ár sem það hefur verið við lýði hugsa ég oft um hvað það er útbreitt meðal íslenskra listamanna að þeir horfa aldrei á sjónvarp. Það hefur nefnilega þótt liggja beinast við þegar sjónvarpið vill framleiða leikið íslenskt sjónvarpsefni að leita einmitt til listamanna, oftast rithöfunda sem hafa náð góðum árangri við ritun góðbókmennta. Ég ætla ekki að fullyrða um það en ég hef á tilfinningunni að stundum hafi rithöfundar tekið verkin að sér í bríaríi, milli annara og merkilegri verka, hent einhverju saman í hálfgerðum pirringi og niðurstaðan hefur oftar en ekki verið hörmung.

Enda hafa rithöfundar þessa lands ekki haft neinar forsendur til að skrifa fyrir sjónvarp. Sú rithöfundastétt sem enn ræður ríkjum hér á landi er að mestu fædd uppúr seinna stríði og fæstir þeirra ólust upp við sjónvarp á sínu heimili. Þegar sjónvarpið kom loksins árið 1966 var það landlægt innan listamannaelítunnar að fordæma sjónvarp eins og hægt var. Íslenskir rithöfundar hafa flestir drukkið í sig það virðhorf að sjónvarp sé lágmenning með móðurmjólkinni.

Þessvegna er það varla nema von að leikið íslenskt sjónvarpsefni hafi verið hörmung í áratugi, þegar ofaná kemur að flestir leikstjórar og leikarar landsins hafa alist upp við það viðhorf að sjónvarp komist ekki í hálfkvisti við listræna kvikmynd og að ég tali nú ekki um leikhús. Meðal  íslenskra listamanna hefur virðingin fyrir miðlinum ekki verið uppá marga fiska.

En á seinni árum höfum við horft til Danmerkur og séð að þar er eitthvað að gerast í gerð leikins sjónvarpsefnis. Svakalega gengur dönum vel að búa til brilljant sjónvarp, segjum við. Afhverju ætli það sé? Spyrja menn og svara um leið, jú, það er útaf því að danska ríkissjónvarpið hefur eytt svo miklum peningum í þarlenda dagskrárgerð öfugt við þetta níska íslenska RÚV batterí sem aldrei tímir neinu. Með þessu svari halda menn að þeir hafi hitt naglann á höfuðið, en staðreyndin er sú að þetta er aðeins að hluta til rétt. Það er jú alveg rétt að RÚV hefur ekki eytt nógu miklum pening í íslenska dagskrárgerð en ef svo væri mundi þá  kunnáttan vera fyrir hendi? Kunnum við að búa til svona góða þætti eins og framleiddir eru í Danmörku?

Mundu menningarvitar ekki fá sjokk þegar þeir heyra að frumkvöðlar þessarar dönsku sjónvarpsbylgju hafa óhikað sótt þekkingu sína til mekka lágmenningar í heiminum, Bandaríkjanna. Dönsku dramaþættirnir eru unnir með sama verklagi og  þekkst hefur í áratugi í bandaríkjunum og í danmörku er enginn feiminn við að viðurkenna það.

Ég hef mikla trú á því að hér geti í framtíðinni starfað höfundar sem hafa viðurværi sitt eingöngu af því að skrifa leikna sjónvarpsþætti fyrir íslendinga. En ekki bara íslendinga, heldur líka útlendinga. Dramaþættir sem gerast á Íslandi og fjallar um líf, ástir og glæpi íslendinga eiga alveg jafn mikið erindi við fólk í öðrum löndum eins og dramaþættir um líf, ástir og glæpi útlendinga eiga við okkur. Ef við stöndum svipað að framleiðslu íslenskra sjónvarpsþátta og við höfum framleitt allar þessar íslensku bíómyndir sem hafa farið sigurför um evrópu,  þá eru leiknir íslenskir sjónvarpsþættir framtíðin.

En ef við ætlum að búa til gott leikið sjónvarpsefni verðum við líka að nálgast miðilinn hrokalaust og afla okkur þekkingar og menntunar í skrifum á slíku efni. Við höfum orðið mjög fært fagfólk sem getur annast alla tæknilegu framleiðsluhliðina en það sem okkur vantar enn er grunnurinn,  góð handrit. Gott sjónvarpsefni er ekki hrist fram úr erminni og að handritsskrifum á vel heppnuðum sjónvarpsþáttum kemur yfirleitt hópur fólks sem vinnur nótt og dag að sama marki. Til að búa til gott sjónvarp verðum við að hafa ást á miðlinum. Rétt eins og höfundur bóka elskar bækur, eða bíómyndaleikstjóri elskar bíómyndir. Ef ástin er ekki til staðar verður engin nýsköpun. Því langar mig að spyrja þig rithöfundur góður, sem hefur hug á að skrifa fyrir sjónvarp: Elskar þú sjónvarp, eða ert þú kannski einn af þeim sem stæra sig af því að horfa aldrei á sjónvarp? Ef sú er raunin þá legg ég til að þú snúir þér að einhverju öðru.

 

Ræða þessi var flutt í Norræna húsinu, laugardaginn 30 september,  á samkomu Bandalags íslenskra listamanna í tilefni 40 ára afmælis Ríkissjónvarpsins. Höfundur hefur skrifað leikið sjónvarpsefni í rúman áratug.

 

Fundur BÍL um íslenskt sjónvarp

BÍL hélt almennan fund í Norræna húsinu um íslenskt sjónvarp. Tilefnið var 40 ára afmæli íslenskra sjónvarpsútsendinga. Í auglýsingu sem birt var í Fréttablaðinu gat að líta yfirlýsingu sem stjórn BÍL hafði samþykkt á stjórnarfundi.

 

Eflum íslenskt sjónvarp!

Varla blandast neinum hugur um að sjónvarpið er áhrifamesti miðill okkar tíma. Það sem er, er í sjónvarpinu, það sem er ekki í sjónvarpinu á erfitt uppdráttar.

Áður skipuðu aðrir miðlar þennan sess, bækur með prentverkinu, útvarp með útvarpstækninni, filmur með hreyfimyndatækninni og nú um hálfrar aldar skeið sá miðill sem sameinar þetta þrennt: útvarp, kvikmynd og texta – sjónvarpið.

Þegar þetta er haft í huga blasir við hve óheyrilegt það er að Íslendingar skuli eftir 40 ára sjónvarpsrekstur ekki enn hafa náð á sannfærandi hátt að miðla þjóðlífi sínu og menningu í sjónvarpi. Eða geta menn ímyndað sér ástandið ef íslenskir höfundar hefðu ekki treyst sér til að fjalla um íslensk efni, nema að takmörkuðu leyti? Og útvarpið hefði ekki talið sig hafa bolmagn til að sinna íslenskum málum, nema í framhjáhlaupi? Hætt er við að þjóðin hefði fyrir löngu flosnað upp frá sjálfri sér og vafamál að hér byggi einusinni þjóð.

Um leið og Bandalag íslenskra listamanna fagnar framkomnum samstarfssamningi um að auka hlut íslensks efnis í sjónvarpi, leggur það áherslu á að menn hætti að líta á sjónvarpið sem léttvægan afþreyingarmiðil og veiti til þess fjármagni sem dugi til dagskrárgerðar sem geri skil draumum okkar jafnt sem daglegu lífi. Þetta er þeim mun brýnna sem sjónvarp er einmitt sá miðill sem beinast skírskotar til barna og unglinga og því ekki að litlu leyti ábyrgt fyrir andlegu byggingarefni sem þeim er lagt til. Og varðar að sjálfsögðu heill landsmanna allra.

 

Fundur í Norræna húsinu laugardaginn 30. september kl. 14:00

Vitundarvakning um innlenda dagskrá í sjónvarpi

Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, setur fundinn

Kristín Jóhannesdóttir: Áratugum síðar.

Sigurjón Kjartansson: Ég horfi aldrei á sjónvarp.

Ómar og Óskar Guðjónssynir leika nokkur kynningarstef úr bandarískum sjónvarpsþáttum.

Sigurbjörg Þrastardóttir: Fjörtíu tommu plasma

Ólafur Haukur Símonarson: Seríumorð

Kona deyr við skjáinn. Þorsteinn Guðmundsson les úr Roklandi eftir Hallgrím Helgason

Kristín Helga Gunnarsdóttir: Barnasjónvarp í skúffum

Táknmynd nútímans í íslensku sjónvarpi? Auglýsingastef nokkurra íslenska stórfyrirtækja í flutningi Jóns Jóseps Snæbjörnssonar og Jakobs Frímanns Magnússonar

Dagur Kári Pétursson: Staða Sjónvarpsins.

Páll Magnússon: Sjónvarpið og samstarfssamningurinn

 

Fundarstjóri: Margrét Bóasdóttir, ritari BÍL

 

Frá fundi BÍL 30. september 2006

BÍL hélt fund í Norræna húsinu þann 30. september 2006, þegar minnst var 40 ára afmælis íslensks sjónvarps.

 

Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, ávarpaði fundarmenn:

 

Einn stjórnarmaður bandalagsins sagði mér litla sögu í gær. Það var þegar miklar umræður voru í Frakklandi um fóstureyðingar, hvort þær skyldi leyfa. Útifundir voru haldnir og mikil ólga – og svo samþykkti þingið allt í einu löggjöf sem leyfði fóstureyðingar, öllum að óvörum. Og þá á Simone de Beauvoir að hafa sagt: Og ég sem var búin að skrifa grein!

Einhvern veginn þannig leið okkur í fyrradag, eftir að tilkynning kom um þjónustusamning á milli ríkis og ríkisútvarps. Undanfarnar vikur höfum við verið að undirbúa átak til að auglýsa eftir íslensku sjónvarpi – og svo virðist það allt í einu fundið, áður en leitin er hafin.

Það fer ekki á milli mála að í þjónustusamningnum felst mikilvægt skref í rétta átt. Auka skal hlutfall innlends efni upp í 65 %, úr 44 % af útsendu efni, en það er sú tala sem Ríkisútvarpið gefur upp. Við þurfum að vísu að spyrja hvernig sú prósentutala sé fengin, en samt er vissulega ánægjuefni að hlutfall þetta eigi að breytast á næstunni, innlendri dagskrá í hag. Á tímum fjölbreytni í sjónvarpsrekstri er innlend dagskrá reyndar eina ástæðan fyrir tilvist Ríkissjónvarps, og það virðist vera að daga upp á stjórnendur stofnunarinnar.

Ekki er síður mikilvægt að stofnunin skuldbindur sig til að kaupa meira efni af innlendum framleiðendum en nú er gert. Hingað til hefur eina breytanlega stærðin í fjárhagsáætlunum RÚV verið það fé sem fer til innlendrar dagskrárgerðar. Þarna er þó bundin ákveðin lágmarksupphæð og hún skal fara í innkaup frá aðilum utan stofnunarinnar. Þetta er sömuleiðis í samræmi við heilbrigða skynsemi, því að yfirleitt tekst sjálfstæðum fyrirtækjum að framleiða efnið með hagkvæmari hætti en stofnunin sjálf.

En þó að hækkunin verði veruleg í prósentum séð næstu fimm árin, má reyndar spyrja að því hvort upphæðirnar séu nægilega háar til að valda verulegum breytingum í dagskrárstefnunni. Hvaða byltingu er hægt að gera í þessum efnum fyrir 150 milljónir á næsta ári? Þegar Þorgerður Katrín tók við Menntamálaráðuneytinu, kallaði hún eftir breytingum á Ríkisútvarpinu. Ég fékk það á tilfinninguna að hún hefði horft á töluna sem fæst fyrir afnotagjöldin – árið 2004 var það 2.4 milljarðar  – og spurt: Í hvað fer þetta?

Það virðist stundum vera meginhlutverk Ríkisútvarpsins að viðhalda sjálfu sér. Nú þarf það að horfast í augu við ofangreinda spurningu af alvöru. Í hvað fer þetta? Ótrúlegasta fólk stingur niður penna til að kvarta undan ástandinu. Jafnvel hófsamir jafnaðarmenn vilja leggja stofnunina niður, og það ætti að hringja viðvörunarbjöllum alveg upp á efstu hæð í Efstaleiti. Þegar þeir sem helst ættu að veita stofnuninni lið eru farnir að tala um að hafa í staðinn sjónvarpssjóð sem allar stöðvar gætu sótt í til að framleiða gott innlent efni, þá ætti stofnunin – sem eðli málsins samkvæmt er helst umhugað um eigin velferð – að fara að skoða sinn gang.

Enn eitt fannst mér sérstaklega athyglisvert í þjónustusamningnum. “Ríkisútvarpið skal hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi. Félagið skal leitast við að virkja aðra til samstarfs með það að markmiði að efla slíka miðlun.”

Það er gott að þetta með frumkvæðið skuli vera nefnt, vegna þess að okkur hefur fundist talsvert á það vanta upp á síðkastið. Það er mikil gróska í íslensku leikhúsi, það er líka mikil gróska í kvikmyndagerðinni, en það sama verður ekki sagt um íslenskt sjónvarp. Ríkisútvarpinu hefur staðið til boða að vera þátttakandi í þessari grósku, en áhugann til þess hefur vantað hjá forráðamönnum þess. Þeim finnst mikilvægara að sinna öðrum málum – og gera margt vel, á því er enginn vafi. Fréttir eru vel unnar og kastljósi varpað á fréttatengt efni dag hvern. Ennfremur gerist fátt í íþróttaheiminum sem fer framhjá Ríkisútvarpinu. Samt er langt frá því að Ríkisútvarpið sinni lögbundnu hlutverki sínu sem menningarstofnun.

Þessi stofnun fær tæpan  tvo og hálfan milljarð á ári hverju frá notendum sínum í eins konar forgjöf á keppinauta sína á markaði, en notar ekki þá peninga til að hafa lögbundið menningarlegt forskot á þessa sömu keppinauta.

Sú var tíð að Ríkisútvarpið var eitt stærsta leikhús landsins. Sú tíð er liðin. Samt halda íslenskir rithöfundar áfram að skrifa fyrir sjónvarp, framleiðendur halda áfram að leggja handritin fyrir dagskrárstjóra og leikstjórar halda áfram að lýsa fjálglega fyrirætlunum sínum með viðkomandi verkefni. En þó er eins og enginn sé að hlusta. Ég veit um fimm sjónvarpsseríur sem liggja í handriti hjá Sjónvarpinu – og þær eru vafalaust fleiri. Þá eru ótalin styttri verk. Þetta getur ekki allt verið svo vont að ekki sé ástæða til að framleiða eitthvað af því.

Sá sem hér talar vill sjá Ríkisútvarpið blómstra. Þess vegna tekur hann þátt í þessari umræðu. Hann vill vel. Því sá er vinur er til vamms segir.

 

Enskan í íslenskunni

24. júlí birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ágúst Guðmundsson, þar sem hann fjallaði um dagskrárgerð, íslenska menningu og málvernd.

Á miðjum níunda áratugnum átti ég leið til Filipseyja. Á hótelherbergi mínu kveikti ég gjarnan á sjónvarpinu og horfði af sérstakri forvitni á þarlendar sápuóperur, vegna þess hve enskuskotið málið var. Innan um óskiljanlegan orðaflaum komu stök orð og stundum heilar setningar á ensku – og oft var skondið að heyra hverju var slett og sagði ýmislegt um þjóðarkarakterinn og þá ekki síður um bandarísk áhrif á íbúana.

En það sem mér þótti framandi fyrir tuttugu árum ætti ekki að vera það lengur. Íslendingar eru farnir að blanda ensku inn í mál sitt í mun ríkara mæli en áður gerðist. Áður fyrr voru öll blótsyrði tengd trúnni, þ.e.a.s. helvíti og húsbónda þess, en nú er bölvað upp á ensku og ýmist vísað til úrgangsefna mannsins eða kynlífs. Þessa nýung er erfitt að þýða á það ylhýra og því er enskan notuð hrá. Nöfn fyrirtækja eru hætt að vera íslensk, sömuleiðis bíómyndir og sjónvarpsþættir. Af hverju kallast Ædol og Baddselor þessum ónefnum – í landi þar sem nýyrðasmíð er vinsæl iðja, raunar svolítil listgrein sem fjölmargir stunda? Hingað til hefur beygingakerfi íslenskunnar hindrað aðgang erlendra orða að henni og neytt menn til að finna upp nýyrði við hæfi, en nú er jafnvel sú vörn að bresta. Almennt stefnir ástandið í álíka faraldur og dönskusletturnar voru fyrir tveim öldum. Komin þörf á að hóa Fjölnismönnum saman á ný!

Áhrifavaldinn má einkum finna í kvikmyndum og sjónvarpsefni. Það heyrir til undantekninga ef kvikmyndir frá öðrum löndum en Bandaríkjunum eru teknar til almennra sýninga í kvikmyndahúsum hér, og mikill meirihluti sjónvarpsefnis kemur úr sömu átt. Það eru einmitt sjónvarpsstöðvarnar sem hafa verið virkastar í þessari óumbeðnu enskukennslu. Sterkasti fjölmiðillinn bregður oftar fyrir sig amerískunni en öðrum tungumálum, að íslenskunni ekki undanskilinni. Það er meira kanasjónvarp á Íslandi nú en á dögum sjálfs Kanasjónvarpsins.

Í Bandaríkjunum er kvikmyndagerð iðnaður, raunar stóriðja, og afþreyingarefni er framleitt þar af meiri fagmennsku en annars staðar. Sölutölur ráða öllu. Efnið er gott ef áhorfið er mikið. Frumleiki eru ekkert keppikefli. Metnaðurinn liggur allur í vinsældunum. Kerfið í heild er magnað og hefur náð heimsyfirráðum. Innan um finnast svo óumdeilanleg listaverk, kvikmyndir sem eru með þeim merkustu í heiminum.

Þar með er ekki sagt að ekki eigi að sýna neitt annað. Þeir sem dreifa bíómyndum hér sýna evrópskri kvikmyndagerð meira áhugaleysi en hægt er að meðtaka. Ég trúi því einfaldlega ekki að áhorfendur fáist ekki til að sjá eina og eina franska, spænska eða þýska mynd, að ég tali nú ekki um gæðamyndir frá Norðurlöndum. Bíógestir flykkjast að þegar haldnar eru hér kvikmyndahátíðir. Lifir sá áhugi bara í hálfan mánuð í senn? Vel má vera að ágóðinn af slíkum sýningum sé minni en af hasarmynd með Tom Cruise. En kvikmyndadreifing er menningarstarf og því fylgja ákveðnar skyldur við neytendurna. Það á ekki að þurfa að lögfesta þær skyldur í formi kvótakerfis. En kannski þess fari að þurfa hér?

Menningarkvóta ber oftar á góma þegar rætt er um sjónvarp. Um alla Evrópu fá sjónvarpsstöðvar leyfi til útsendinga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði geta varðað framleiðslu á innlendu efni, bæði magn og gæði. Þá nægir ekki að telja saman innlenda dagskrá í mínútum, heldur þarf ákveðinn hluti hennar að vera vandað leikið efni eða heimildarmyndir sem mikið er lagt í. Stundum eru einfaldlega sett mörk á það ameríska efni sem stöðvunum leyfist að senda út. – Reyndar er viljinn til þess greinilega fyrir hendi hjá löggjafa vorum. Í Útvarpslögum segir: “Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.”

Sjónvarpsrásir eru gæði sem meta má til fjár. Hérlendis hefur gilt sú regla um auðlindir að þær eru gefnar þeim sem fyrstir nýta þær. Í sjávarútvegi hefur þetta fyrirkomulag sætt nokkurri gagnrýni, og nú er rétt að endurskoða það hvað varðar öldur ljósvakans. Víða í Evrópu er innheimt hátt leyfisgjald af þeim sjónvarpsstöðvum sem fá að nota rásirnar. Hér í fámenninu ættum við þó að fara aðra leið. Í stað auðlindagjalds ættum við að gera þá kröfu á hendur sjónvarpsstöðvunum að þær sinni innlendri dagskrá svo sómi sé að.

Fyrirtæki sem fá útsendingarleyfi frá Útvarpsréttarnefnd eignast ekki rásirnar. Leyfin er veitt til ákveðins tíma, 5 ára fyrir hljóðvarp og 7 fyrir sjónvarp. það þarf ekki miklu að breyta í Útvarpslögum til að koma á skilyrðum um innlenda dagskrá. E.t.v nægir lítil reglugerð. Hugmyndin er einföld: til að fá að sjónvarpa á Íslandi þarf að sýna innlent efni – að einhverju marki og kosta til þess ákveðnum fjármunum.

Umræðan um fjölmiðlalög hefur einkum verið um eignarhald á fjölmiðlum. Er ekki kominn tími til að víkka þessa umræðu aðeins og skoða innihaldið um stund, velta því fyrir sér hvort sjónvarpsstöðvar geti stuðlað að bættri íslenskri menningu í stað þess að vera helsti skaðvaldur íslenskrar tungu?

 

Áskorun til Alþingismanna

Á stjórnarfundi Bandalags íslenskra listamanna 2. júní 2006 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

 

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna skorar á Alþingi að ljúka umræðu um Ríkisútvarpið og afgreiða málið fyrir þinglok.

Núverandi óvissuástand er skaðlegt stofnuninni og menningarhlutverki þess.

 

Tónlistarhús: lausn efnahagsvandans?

Þann 1. maí birtist í Fréttablaðinu niðurstaða könnunar á því hvaða framkvæmdum fólk vildi helst fresta í Reykjavík til að hamla gegn ofþenslu í efnahagskerfinu. Flestir nefndu Tónlistarhús, næstflestir Sundabraut, en fæstir Háskólasjúkrahús. Nýkjörinn formaður sá ástæðu til að leggja orð í belg, í grein sem birtist í Fréttablaðinu 4. maí. Hér má lesa hana í örlítið betrumbættri mynd.

 

Tónlistarhús: lausn efnahagsvandans?

Í síðustu viku birti Fréttablaðið niðurstöður könnunar á því hvaða framkvæmdum fólk vildi skjóta á frest í ljósi þenslu í þjóðarbúinu. Niðurstaðan varð sú að fólk taldi sig helst geta verið án Tónlistarhúss. Sundabrautin naut meiri vinsælda, þótt furðulegt megi teljast.

Í skoðanakönnuninni virðast þessar tvær stórframkvæmdir lagðar að jöfnu. Það gengur reyndar ekki alveg upp. Fjögurra akreina Sundabraut kostar 30 milljarða – og er þá ekki gert ráð fyrir jarðgöngum neins staðar, sem væntanlega mundu hækka kostaðinn enn, ef út í þau yrði farið. Tónlistarhúsið kostar “einungis” rúma 12 milljarða. Það er því vafamál hvort unnt sé að afstýra yfirvofandi efnahagsöngþveiti með því einu að slá Tónlistarhúsi á frest. Framkvæmdin er varla nógu stór til að breyta miklu um þensluna í þjóðarbúinu. Það væri eins og að setja puttaplástur á gapandi holund.

Líklega var hér einungis spurt um stórframkvæmdir í Reykjavík. Álver fyrir norðan og á Suðurnesjum virtust ekki koma til álita, né heldur vatnsvirkjanir. Eigi að minnka umsvifin, væri nær að taka fyrir framkvæmdir sem eru stórar í alvörunni. Auk þess munu Íslendingar brjóta undirritaða sáttmála um mengunarvarnir, ef báðar álbræðslurnar fá að rísa – og er þar komin enn ein ástæðan til að staldra við á þeim vetvangi.

En hvað veldur því að fólk telur svo sjálfsagt að geyma Tónlistarhúsið? Þykir þetta bara bruðl og óráðsía? Er verið að púkka undir sérstaka áhugamenn um tónlist? Út frá ákveðnum, þröngum sjónarhóli má ef til vill túlka það sem svo. En áhugamenn um tónlist eru ekki einhver minnihlutahópur í samfélaginu. Þeir sem njóta tónlistar dag hvern eru nánast hvert einasta mannsbarn með heyrn í landinu. Það er ekki verið að reisa hús utan um einhverja elítu. Þarna verður flutt tónlist af öllu tagi.

Á árum áður var reist hér höll fyrir handboltann í landinu. Ástæðan var sú að Íslendingar náðu nokkuð langt eitt árið á heimsmeistaramóti í greininni. Varla var húsið komið upp þegar áhugi á íþróttinni fór að dala, og því fór svo að handboltahöllin nýttist í flest annað en handbolta. Raunar má segja að tónlistin hafi fundið þessu dýra húsi nýtt hlutverk. Þó að hljómburður sé afleitur og enn verra að sjá upp á sviðið, hafa tónleikahaldarar nýtt sér húsið í hverjum stórviðburðinum á fætur öðrum. Síðustu árin hafa þeir einnig leitað í annað íþróttahús, Egilshöll, sem líka er reist fyrir íþróttamenn, án tillits til hljómburðar eða ágætis sviðsins.

Þeir sem halda að tónlist skili engu í þjóðarbúið ættu að hugsa sig um tvisvar. Mér fróðari menn tala um margfeldisáhrif og segja að samfélagið allt njóti góðs af. Til viðbótar við tónleikahaldið rís þarna langþráð aðstaða fyrir stórar alþjóðlegar ráðstefnur – og allir sem að ferðamálum koma vita að slíkar stórframkvæmdir færa björg í bú.

Rétt eins og handboltamennirnir hér um árið hafa íslenskir tónlistarmenn unnið margvísleg afrek utanlands og innan. Það er því löngu kominn tími til að sérhanna hús í kringum tónlistina í stað þess að flytja hana í skálum sem reistir eru í gjörólíku augnamiði. Og framkvæmdin í heild á eftir að færa þjóðinni tekjur. Það er fleira iðja en stóriðja.

 

Ágúst Guðmundsson Forseti Bandalags íslenskar listamanna

 

Nýr forseti BÍL

Framhaldsaðalfundur var haldinn hjá Bandalagi íslenskra listamanna 23. apríl sl. Þar var Ágúst Guðmundsson kjörinn nýr forseti Bandalagsins.

 

Á fundinum flutti Þorvaldur Þorsteinsson, fráfarandi forseti, skýrslu sína. Hafði hann þar nokkur orð um hinn ólíka skilning sem listamenn annars vegar og ráðamenn hins vegar leggja í orðið “samráð”. Benti á nokkur sorgleg dæmi því til sönnunar.

Þorvaldur sagði frá greinarskrifum sínum, m.a. vegna málefna listdansnáms og norræns menningarsamstarfs. Hann greindi frá fundi með útvarpsstjóra og fyrirspurnum til listamanna vegna þátttöku í Listahátíð og um mikilvægi þess að kanna nánar þátttöku listamanna hjá stofnunum og hátíðum, sérstaklega hvað varðar fjármögnun. Annað í starfi Bandalagsins var einnig rakið.

Þorvaldur taldi það stærsta verkefni BÍL að skilgreina bandalagið og endurskipuleggja starfið. Að vera gerendur, en ekki þolendur eða jafnvel píslarvottar!

 

Málefni listdansskólans

Fyrirvaralaus lokun Listdansskóla íslands er ekkert einkamál dansara. Hér er um að ræða aðför að þeim  lýðræðislegum skoðanaskiptum  og vinnubrögðum sem menning okkar á allt sitt undir. Einhliða ákvörðun og yfirkeyrsla af því tagi sem hér átti sér stað er í hrópandi andstöðu við meginstefnu BÍL í samskiptum við yfirvöld; aukin samskipti, markvisst samráð og gagnkvæm virðing.

BÍL stóð fyrir opnum fundi í samvinnu við FÍLD og Listaháskólann þar sem samþykkt var eftirfarandi ályktun:

“Opinn fundur haldinn 5. september í húsnæði Listaháskóla Íslands, mótmælir harðlega einhliða ákvörðun menntamálaráðherra um lokun Listdansskóla Íslands og krefst þess að lokun skólans verði frestað þar til framtíð listdansnáms á grunn- og framhaldsskólastigi hefur verið tryggð í samráði við fagmenn í greininni.”

Forseti fylgdi ályktuninni eftir með bréfi til ráðherra en hafði ekki erindi sem erfiði, því nokkrum dögum síðar tilkynnti ráðherra í sjónvarpsviðtali að ekki yrði kvikað frá fyrri ákvörðun. Í framhaldi af því skrifaði forseti BÍL grein í Mbl. Hana má lesa hér:

 

FELLIBYLURINN ÞORGERÐUR

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur verið öðrum ráðherrum sýnilegri í starfi og sinnt opinberum erindum á sviði funda og mannfagnaða af stakri prýði. Einstaka mál sem varða menntun og menningu okkar hafa auk þess fengið sköruglega afgreiðslu í hennar ráðherratíð og sumt af því verið til bóta. Henni bregst hins vegar bogalistin í nýjasta útspili sínu, en það felst sem kunnugt er í því að loka Listdansskóla Íslands sem um árabil hefur sinnt listdanskennslu á grunn- og framhaldsskólastigi og lagt grunninn að þeirri stórkostlegu framför sem orðið hefur í íslenskum listdansi á undanförnum árum.

Listdansarar, líkt og aðrir listamenn, eru öðrum fremur áhugasamir um ferskan hugsunarhátt og breytingar í takt við tímann og vilja síst af öllu standa í vegi fyrir þeirri sífelldu endurskoðun sem fara þarf fram á viðhorfum og starfsháttum. Slík endurskoðun er einmitt löngu tímabær til að tryggja frekari uppbyggingu Listdansskólans í …

ljósi þess góða árangurs sem starf hans hefur skilað út í samfálagið allt, ekki aðeins í formi frábærra dansara og danshöfunda en ekki síður í því forvarnar og uppbyggingarstarfi sem felst í öguðu dansnámi. Hafa fagmenn í greininni ítrekað bent á nauðsyn slíkrar endurskoðunar en ekki haft erindi sem erfiði.

En nú hefur ráðherra loksins tekið við sér og það svo um munar: Á sama tíma og opnuð er Listdansdeild innan Listaháskóla Íslands, sem byggir á þeim grunni sem lagður hefur verið í rúmlega 50 ára sögu Listadansskólans, ákveður Þorgerður Katrín að leggja skólann niður og skilja listdanskennslu í landinu eftir í höndum ótilgreindra aðila sem ennþá hafa ekki gefið sig fram. Þessi ákvörðun var tekin án nokkurs samráðs við fagfólk í greininni og afhjúpar slíka vanþekkingu á eðli listdanskennslu að ekki er sæmandi ráðherra menntamála.

Eftir standa listdansnemendur og forráðamenn þeirra, listdanskennarar, dansarar og dansunnendur, hálf ringlaðir og reyna að átta sig á því hvað hér hafi gerst. Menn vilja fá að vita hvað jafn ágætlega greind manneskja og Þorgerður Katrín hafi verið að hugsa, því ekkert í þessum gjörningi bendir til þess að hann sé ígrundaður að neinu leyti. Tilkynningu um lokun skólans fylgja engar faglegar forsendur en klifað á því að hér sé um “stjórnsýslulegar breytingar” að ræða, sem í huga embættismanna virðast jafngilda náttúrulögmálum sem ekki beri að storka. Ákvörðuninni fylgir ekki ein einasta tillaga um næstu skref, ekki eitt orð um það hvernig tryggja á að listdanskennsla næstu ára verði ekki í skötulíki né hvernig mæta á þeim kostnaði sem verið er að velta beint yfir á nemendur og forráðamenn þeirra með þeim afleiðingum að námið verði ekki á færi nema þeirra sem mest efni hafa.

Undirritaður átti fund með Þorgerði Katrínu skömmu eftir að ákvörðun hennar var tilkynnt, þar sem hún lýsti vilja sínum til viðræðu við fagfólk um framhaldið. Viðræðurnar hingað til hafa farið fram með þessum hætti: Listdansarar, listdanskennarar, listdansnemar og foreldrar, ásamt Bandalagi íslenskra listamanna sendu ráðherra sameiginlega ályktun þar sem þess er krafist að Listdansskólanum verði ekki lokað fyrr en framtíð listdansnáms á grunn- og framhaldsskólastigi hafi verið tryggð í samvinnu við fagfólk í greininni.

Þeirri áskorun hefur ekki verið svarað.

Fulltrúar listdansara, sem ráðherra hefur ekki ennþá viljað hitta, sendu henni fyrirspurnir um hvað hún hafi í hyggju um framhaldið.

Þeim fyrirspurnum hefur ekki verið svarað.

Skilað hefur verið inn ábendingum um afgerandi sérstöðu listdansnámsins, sem felst m.a. í ungum aldri nemenda, sérhæfðri og dýrri aðstöðu til æfinga og nauðsynlegri samfellu í grunn- og framhaldsnámi svo marktækur árangur náist.

Engin viðbrögð.

Þá hafa listdansnemar haldið úti þögulum mótmælum fyrir utan ráðuneytið án þess að sjá ráðherra bregða fyrir í glugga.

Einu skilaboðin sem berast eru endurteknar yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar í fjölmiðlum um að ekki verði kvikað frá þessari ákvörðun, að skólanum verði lokað og þar við sitji.

Vinnubrögð ráðherra lýsa furðu litlum skilningi á einni viðkvæmustu en jafnframt metnaðarfyllstu listgreinar okkar og afhjúpar þá sjálfsupphöfnu afstöðu sem ráðamenn hafa í vaxandi mæli gagnvart listum og menningu þessa lands. Eftir því sem íslenskir listamenn koma sterkar fram á alþjóðavettvangi og skila glæsilegri árangri, jafnt á sviði tónlistar, leiklistar, myndlistar, kvikmynda, dans, arkítektúrs, bókmennta og hönnunar, því roggnari verða ráðamenn í ræðum sínum og viljugri að baða sig í því kastljósi sem beint er að listamönnum og verkum þeirra.

Ég skora á menntamálaráðherra að leiðrétta mistök sín nú þegar og lýsa því yfir að Listdansskólanum verði ekki lokað, amk. ekki fyrr en framtíð grunn- og framhaldsnáms í listdansi er tryggð í eðlilegu samráði við fagmenn í greininni. Að öðrum kosti hljótum við ætíð að minnumst þess, þegar við sjáum Þorgerði Katrínu stilla sér upp fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins á frumsýningu á nýju íslensku dansverki, að þetta er sú sama Þorgerður Katrín og ákvað að leggja niður Listdansskóla Íslands án þess að virða íslenskan listdansheim viðlits.

 

Þorvaldur Þorsteinsson

forseti bandalags íslenskra listamanna.

 

Óþolandi vinnubrögð

Sú ákvörðun sem tekin var á síðasta þingi Norðurlandaráðs um að leggja niður nær allar lykilstofnanir menningarsamstarfs Norðurlanda á einu bretti, átti sér þó nokkurn aðdraganda. Ólíkt því þegar ráðherra lagði niður Listdansskólann án þess að tala við kóng eða prest, þá virtist sem nú ætti að vanda sig. Sett var af stað samræðuferli og pappísvinna með tilheyrandi fundarhöldum með fulltrúum listamannasamtaka á Norðurlöndunum þar sem leitað var eftir okkar viðhorfum og ábendingum vegna væntanlegra skipulagsbreytinga. Þetta reyndist í raun meiri skrípaleikur en nokkuð annað og staðfesti grun forseta BÍL  um að ráðamenn séu um það bil að tapa sér í valdahroka um þessar mundir.

Til að gera grein fyrir þessu makalausa sjónarspili skrifaði forseti BÍL eftirfarandi grein í Fréttablaðið:

 

LIGE SOM DEN BJORGOLFUR, ALTSO!

Á nýliðnu þingi Norðurlandaráðs voru samþykktar grundvallarbreytingar á norrænu menningarsamstarfi. Ákveðið var að leggja niður á einu bretti miðstöðvar á sviði tónlistar, bókmennta, sviðslista og myndlistar sem um árabil hafa gegnt margvíslegum hlutverkum í norrænu menningarlífi. Þær hafa m.a. verið tengiliður norrænna listamanna og samstarfsvettvangur þeirra, auk þess að halda utan um stóran hluta norræna sjóðakerfisins. Þær hafa hver með sínum hætti verið nokkurs konar útverðir norræns menningarsamstarfs þar sem listamenn og fagmenn innan listheimsins geta treyst því að tungumál þeirra skiljist og jafnframt að unnið sé út frá þeim veruleika sem menningin er sprottin úr. Ekki út frá tilskipunum að ofan heldur lífrænu samspili menningar og samfélags á hverjum tíma…

Vissulega hefur misvel tekist til í starfinu hingað til og margt sem þarfnast endurskipulagningar eigi miðstöðvarnar að standa undir nafni. En hugmyndin er góð og hreint engin tilviljun: Með því að stofna slíkar miðstöðvar og setja þær í hendur fagmanna úr viðkomandi listgreinum hvarf fyrirgreiðslupólitík nánast úr sögunni og hægt var að byggja upp samfellu í starfi óháð dutlungum ráðamanna. Þar með var sömuleiðis hægt að byggja upp marktækan gagnabanka og aðgengileg tengslanet, byggð á virkum samskiptum og þeim veruleika sem menningin er samofin. Það hefði því verið ögrandi og jafnframt sjálfsagt verkefni fyrir Norrænu ráðherranefndina að endurskipuleggja þessar miðstöðva í þeim tilgangi að gera góða hugmynd ennþá betri. Nýta það sem vel var gert í samhengi við nýjar vinnuaðferðir og breytt viðhorf.

Undirritaður hefur, ásamt fylltrúum norrænna listbandalaga, fylgst með þessu ferli undanfarna mánuði, eða allt frá því Per Voetman, talsmaður nefndarinnar sem skipuð var til að endurskoða norrænt menningarsamstarf, kallaði okkur til fundar við sig í Kaupmannahöfn í júní sl. Áður hafði hann heimsótt Norðurlöndin öll, kynnt tillögur nefndarinnar og kallað eftir ábendingum fagaðila. Og það vantaði ekki ábendingarnar. Á fundinum í Menningarráðuneytinu Kaupmannahöfn var komið inn á ótal gagnrýniverða þætti í tillögunum. Ekki síst hvernig hið svokalla “armslengdar” prinsipp, sem gengur út á að stjórnmálamenn sé ekki með puttana í faglegum úthlutunum, var þar þverbrotið. Í framhaldi af fundinum var skilað inn endanlegri greinargerð sem undirritað var af tugum fagfélaga og regnhlífasamtaka listamanna á Norðurlöndunum, þar sem allt kapp var lagt á málefnalega gagnrýni og raunhæfar tillögur til úrbóta svo hér yrði ekki til enn eitt menningarslysið vegna vanhugsaðra aðgerða yfirvalda.

Það er skemmst frá því að segja að þegar málið var lagt fyrir í sinni endanlegu mynd á þingi Norðurlandaráðs á dögunum, hafði ekkert breyst frá upphaflegum tillögum. Ekki hafði verið gerð ein einasta breyting byggð á ábendingum, gagnrýni og tillögum þeirra sem best til þekkja. Það hafði m.ö.o. ekki verið tekið tillit til eins einasta orðs af því sem norrænir fagmenn höfðu um málið að segja. Í stað þess að byggja upp var ákveðið að leggja niður. Það var, líkt og margt annað um þessar mundir, gert í nafni skilvirkni og einföldunar. Einföldun er það svo sannarlega, því skv. nýju fyrirkomulagi mun einn sameiginlegur sjóður koma í stað allra miðstöðva og í hann munu listamenn og menningarstofnanir geta sótt, hafandi fyllt út viðeigandi eyðublöð. Úthlutanir verða í höndum stjórnmála- og embættismanna í sýndarsamvinnu við fagmenn í listum sem nýttir verða til friðþægingar eftir hentugleikum. Allt sem heitir upplýsingamiðlun um norræna menningu, gagnabankar, tengslanet og samstarfsvettvangur mun jafnframt heyra sögunni til og uppsafnaðri þekkingu gefið langt nef.

Með hreinni og klárri valdbeitingu hafa stjórnmálamenn hér með tryggt sér beinan aðgang að öllu því fjármagni sem veitt verður til norrænna verkefna á sviði tónlistar, bókmennta, sviðslista og myndlistar um ókomna tíð. Í því felst hin raunverulega “hagræðing”. Í stað þess að láta fagfólk og einstaklinga með reynslu af listsköpun í samtímanum um að vega og meta hvar fé nýtist best hverju sinni, hafa pólitíkusar ákveðið að taka málin í sínar hendur og hverfa þannig, ásamt embættismönnum sínum, áratugi aftur í tímann. Til fyrirkomulags þar sem listamenn og listnjótendur búa við geðþóttaákvarðanir stjórnamálamanna sem hafa álíka reynslu af raunveruleika sköpunar og lista og fjarstýringin á sjónvarpinu þeirra.

Sú aðferð sem hér er beitt til að tryggja valdhöfum “rétta” útkomu, er á góðri leið með að yfirtaka alla stjórnsýslu. Stjórnmála- og embættismenn taka æ oftar einhliða ákvarðanir í málum sem þeir hafa litla sem enga reynslu af en setja síðan á svið eitthvert sjónarspil sem kennt er við samráð. Listamenn hafa ítrekað fengið að kynnst þessum leikaraskap að undanförnu og er skemmst að minnast forkastanlegra vinnubragða í kringum ráðstefnuhöllina sem kennd er við Tónlistarhús og nú síðast lokun Listdansskóla Íslands þar sem menn eru í báðum tilvikum að horfa upp á meingallaðar framkvæmdir. Þá fyrri litaða af sýndarsamráði við tónlistarmenn, þá seinni af yfirgangi ráðherra og síðan innantómum loforðum um samráð – eftir á.

Blekkingarleikur stjórnmála- og embættismanna í nafni hins svokallaða lýðræðis sem heita á ríkjandi á Norðurlöndunum er orðinn ákaflega leiðgjarn svo ekki sé meira sagt. Það heyrir orðið til fágætra undantekninga að valdhafar telji sig í þjónustu þjóðar og hlusti eftir því sem þar er að finna, hvort sem er í formi málefnalegrar gagnrýni eða faglegra ábendinga  þeirra sem best þekkja til. Það er líkast því að sú bylting sem orðið hefur í valdahlutföllum á sviði efnahagsmála á undanförnum árum hafi vegið svo að áhrifamætti stjórnmálamanna að þeir leiti nú allra mögulegra og ómögulegra leiða til að gera sig gildandi.

Þetta nýjasta útspil; að opna fyrir bein afskipti yfirvalda af norrænni sköpun og liststarfsemi, ætti að gefa smákóngunum innan ráðuneytanna auknar vonir. Vísast kominn tími fyrir þá að setja teinóttu fötin í hreinsun, því framundan eru ótal flugeldasýningar og opnunarhátíðir stjórnskipaðra uppákoma sem menningardindlar stjórnsýslunnar geta baðað sig í sem persónulegir velgjörðarmenn og hálfguðir. Rétt eins og þeir væru sjálfur hundraðkallinn Björgólfur í ham. Verði þeim að góðu.

 

Þorvaldur Þorsteinsson

forseti Bandalags íslenskra listamanna

 

Page 39 of 40« First...102030...3637383940