Fréttatilkynning:
Viðskiptavæðing menningarlífsins og menningarvæðing viðskiptalífsins
Mánudaginn 12. október kl. 20 flytur Loftur Atli Eiríksson, MA í menningarstjórnun, fyrirlestur í Reykjavíkurakademíunni, Hringbraut 121 Reykjavík. Loftur Atli kallar fyrirlesturinn: Viðskiptavæðing menningarlífsins og menningarvæðing viðskiptalífsins: Áhrif stefnu íslenskra stórfyrirtækja í styrkveitingum til menningarmála á menningarstofnanir á árunum 2002 til 2008, og er hann byggður á samnefndu rannsóknarverkefni til meistaragráðu frá Háskólanum á Bifröst.
Loftur Atli segir hvatann að rannsókninni hafa verið áður óþekktan áhuga einkaaðila og stórfyrirtækja á að styrkja menningar- og listastarfsemi eins og hann birtist í fjölmiðlum á árunum 2002-2008. Tilgangurinn með rannsókninni var að varpa ljósi á hvernig, félagsleg, pólitísk og fjárhagsleg tengsl stórfyrirtækja og menningarstofnana þróuðust á árunum 2002 til 2008 og hvaða ávinning og áhrif samböndin höfðu á menningarstofnanir og stórfyrirtæki.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar koma fram greinileg hugmyndafræðileg tengsl á milli aðkomu einkafjármagns að menningarstarfsemi í Bretlandi og Bandaríkjunum og þeirrar stefnu sem tekin var upp á Íslandi. Það markverðasta sem rannsóknin leiddi í ljós að mati höfundar er að hún sýnir með skýrum hætti áhrif þess að stjórnvöld hvöttu menningarstofnanir til að gegna hlutverki almannatengla fyrir stórfyrirtæki til að byggja upp velvild, virðingu og traust í þeirra garð. Þetta telur Loftur Atli vera eina forsendu þess hversu stórfyrirtækin og útrásarvíkingarnir náðu langt í félagsmótun sinni og hversu gagnrýnin í þeirra garð var hjáróma. Dæmi um hversu samsömun stórfyrirtækja við menningu þjóðarinnar var fullkomin var þegar hinn grandvari fyrrverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir lánaði heimili sitt og fatnað í auglýsingu fyrir Landsbankann, auk þess sem barnabarn hennar lék í auglýsingunni, og engum þótti ástæða til að gera við það athugasemdir.
„Það kom mér á óvart hversu vel ígrunduð markaðsstefna stórfyrirtækjanna er varðandi menningarstarfsemi og á hversu árangursríkan hátt þeim tókst að nýta hana sér til framdráttar í nafni svokallaðrar samfélagslegrar ábyrgðar. Þá vakti það undrun mína hvað sértekjur menningarstofnana vegna samstarfs þeirra við stórfyrirtæki eru í raun litlar miðað við umfjöllun um samstarfið í fjölmiðlum og það almannatengslastarf sem þær vinna fyrir stórfyrirtækin.,“ segir Loftur Atli. „Loks vekur það athygli að notkun stórfyrirtækja á virðingu og trausti rótgróinna menningarstofnana í opinberri eigu til félagsmótunar og ímyndaruppbyggingar tíðkast nánast gagnrýnislaust hérlendis. Vonast ég til að rannsókn þessi eigi eftir að eiga hlut í að gera sambönd menningarstofnana og stórfyrirtækja gagnsærri og vera innlegg í umræðu um hvernig þeim verður best fyrir komið í framtíðinni.“
Ritgerðina sem fyrirlesturinn byggir á má lesa á skemman.is. á slóðinni http://skemman.is/bitstream/1946/3629/1/loftur_lokautgafa_fixed.pdf
Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis en að honum loknum mun Njörður Sigurjónsson, lektor við Háskólann á Bifröst, stýra umræðum.