Forseti BÍL átti þátt í að semja grein um niðurskurð á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar. Greinin birtist svo í Fréttablaðinu 17. desember 2009, sama dag og hópurinn gekk fyrir menntamálaráðherra til að hnykkja á röksemdum sínum.

Öllum er ljóst að skera þarf niður útgjöld ríkisins. Það gildir jafnt um menningarmál sem aðra málaflokka. Okkur undirrituðum þykir hins vegar ótækt hve hart er gengið að kvikmyndagerðinni umfram aðrar listgreinar og raunar umfram aðrar starfsgreinar þessa lands.

Samkvæmt síðustu fregnum verður framlag til Kvikmyndamiðstöðvar lækkað um 140 milljónir frá framlagi síðasta árs, sem er tæplega fjórðungs lækkun. Sé hins vegar miðað við samning þann sem kvikmyndagerðin undirritaði ásamt þremur ráðherrum við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum árið 2006 er lækkunin rúmur þriðjungur.

140 milljónir jafngilda tveggja ára framlögum úr Sjónvarpssjóði. Varla er það vilji Alþingis að leggja af þær vinsælu og almennt vel heppnuðu þáttaraðir sem framleiddar eru fyrir atbeina sjóðsins.

Opinbert framlag nemur aldrei meira en helmingi kostnaðar við hvert einstakt verkefni. Niðurskurður um 140 milljónir nemur því a.m.k. helmingi hærri upphæð til greinarinnar eða a.m.k. 280 milljónum.

Erfitt er að finna þá listgrein sem leggur jafnmikið til þjóðarbúsins og kvikmyndagerðin. Rök hafa verið að því leidd að ríkið fái allt sitt framlag til baka og vel það. Þau rök virðast ekki hafa sannfært þá sem ráða Íslandi nú.

Því skal svo haldið til haga að verðmætasköpun í kvikmyndagerðinni er tvenns konar: í beinum tekjum og í menningarauði. Íslenskar kvikmyndir eru hið raunverulega þjóðarleikhús – myndirnar eru teknar upp um land allt og þær fara auðveldlega fyrir augu allra, hvar á landinu sem fólk býr. Þær hafna gjarnan í sjónvarpinu, þar sem þær hafa löngum verið helsta leikna innlenda efnið, einkum á stórhátíðum. Ennfremur eru þær fluttar til útlanda, sýndar í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi víða um heim. Kunnugir telja að fátt sé betri landkynning en íslenskar kvikmyndir. Þær eru hin óbeina auglýsing sem gagnast betur en bein sölumennska. Á tímum niðurlægingar Íslands er meiri þörf á slíku en nokkru sinni fyrr.

Við skorum á ráðamenn þjóðarinnar að beita skynsemi og draga enn úr niðurskurði á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar.

Ari Kristinsson
Formaður Sambands íslenskra
kvikmyndaframleiðendaÁsdís Thoroddsen
F.h. Félags sjálfstæðra
kvikmyndaframleiðenda

Friðrik Þór Friðriksson
Formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra

Randver Þorláksson
Formaður Félags íslenskra leikara

Ágúst Guðmundsson
Forseti BÍLBjörn Brynjúlfur Björnsson
Formaður Íslensku kvikmynda-
og sjónvarpsakademíunnar

Hjálmtýr Heiðdal
Formaður Félags kvikmyndagerðarmanna