Hópur fólks er að undirbúa „þjóðfund“. Aðildarfélögum Bandalags íslenskra listamanna verður boðið að senda fulltrúa á fundinn, sem haldinn verður 14. nóvember næstkomandi. Hér fylgir skjal sem lýsir tilgangi og aðferðum fundarins.

 

Þjóðfundur um nýjan sáttmála 

 

Undanfarið hefur hópur fólks komið saman og unnið að

undirbúningi að 1.500 manna fundi – Þjóðfundi – sem ætlað er að

marka tímamót í átaki þjóðarinnar til uppbyggingar og sóknar sem

byggist á sameiginlegum grunngildum hennar. Hópurinn kallar sig

Mauraþúfuna (sjá sérstakt skjal), og er fólk sem kemur hvert úr sinni

áttinni, er tengt víðtæku neti grasrótarsamtaka, stjórnmála og

atvinnulífs og hefur einnig þekkingu og reynslu af framkvæmd

viðburðar af því tagi sem um ræðir.

Þjóðfundurinn er samkoma Íslendinga. Meginþorri þátttakenda (um

1000 manns) verður valinn með tölfræðilegu úrtaki þannig tryggt sé

að fundinn sæki þverskurður af þjóðinni. Jafnframt verður boðið til

fundarins hópi fulltrúa helstu samtaka og stofnana samfélagsins (um

500) sem munu skipta meginmáli þegar kemur að nauðsynlegum

aðgerðum og eftirfylgni í samræmi við niðurstöðu fundarins.

Umrædd samtök og stofnanir mynda þannig hið eiginlega bakland

fundarins.

Á fundinum verða ekki ræðuhöld, heldur umræður sem allir

fundarmenn (1500) taka þátt í. Form umræðurnar miðar að því að

virkja samanlagða visku og innsæi fjöldans. Verkefnið er að marka

nýja sýn sem samstaða er um að verði grundvöllur framsækinnar og

heilbrigðrar endurreisnar. Með grundvallar lífsgildi sín að leiðarljósi

getur þjóðin mætt framtíðinni og hlúð að dýrmætu jafnvægi í

samspili lands og þjóðar.

Þjóðfundur markar upphaf nýrrar aðferðafræði og grunnviðhorfa

sem eru nauðsynleg á þeim straumhvörfum í þróun samfélagsins

sem nú eru að verða. Eftir því sem best er vitað verður þetta fyrsti

fundurinn af þessu tagi sem fæst sérstaklega við heildarstefnumótun

þjóðríkis. Hann mun því án efa vekja athygli utan landsteinanna.

Forsenda fyrir Þjóðfundinum er að hann skili af sér afurðum sem

nýtast á áþreifanlegan hátt. Í kjölfar Þjóðfundar verður því skipulagt

52 vikna endurreisnarferli, þar sem í hverri viku munu birtast

sýnilegar aðgerðir sem byggja á niðurstöðum fundarins.

Meginmarkmið Þjóðfundar – fyrir utan stefnumörkun,

aðgerðaáætlun og aðgerðirnar í kjölfarið – er að auka landsmönnum

bjartsýni og von, og blása fólki í brjóst atorku og framkvæmdavilja.

Greinargerð

Markmið Þjóðfundar er ma. að benda á að það er þjóðin sjálf sem er

ábyrg fyrir því að finna leiðir út úr núverandi ástandi og að það er

einungis á hennar færi að gera það á sínum eigin forsendum.

Umræðum á fundinum ætlað er að leiða til fjölþættrar niðurstöðu

sem kallar á aðgerðir. Mikilvægt er að allt þetta gerist þvert á

flokkadrætti, hagsmunapot og hverskonar sérhagsmuna- eða

hugmyndafræðihópa. Lögð verður áhersla á samstarf og samlegð

hugmynda út frá sterkum sameiginlegum lífsgildum, framtíðarsýn

og langtíma markmiðum.

Fundurinn er alfarið samræðuferli en ekki hefðbundinn framsögu-

umræðufundur í ætt við pólitíska fundi eða þá borgarafundi sem

haldnir hafa verið á undanförnum mánuðum. Þátttakendum verður

skipt niður í hópa sem starfa saman allan fundartímann.

Umræðustjórar verða valdir og þjálfaðir fyrir fundinn til þess að

tryggja samræmi í aðferðafræði og árangursríkar umræður með því

að öll sjónarmið fái að njóta sín. Mikilvægt er að taka fram að

aðferðir sem nota á á fundinum eru ekki uppfundnar fyrir hann,

heldur hefur þessi aðferðafræði verið þrautreynd erlendis á liðnum

árum.

Í hefðbundinni umræðu þar sem tekist er á um mismunandi

hagsmuni, hugmyndafræði, lífsskoðanir eða völd er í besta falli

gengið út frá því að æskileg niðurstaða byggist á einskonar „win-

win“ útkomu, þ.e. að þátttakendur fái báðir/allir eitthvað fyrir sinn

snúð út úr umræðunni í formi gæða, viðurkenningar á sjónarmiðum

o.s.frv. Þannig verða þátttakendur í umræðunni einskonar

sigurvegarar. Ný hugsun (win-win-win) snýst hins vegar um að taka

tillit til þriðja sigurvegarans sem ekki er beinn þátttakandi, heldur

samfélagið í heild.

Til þess að ná þeim árangri sem hefur verið lýst þarf að hefja

umræðuna á að ræða þau grunngildi sem þátttakendur telja

mikilvægasta samnefnara samstöðu og uppbyggjandi lausna. Þessi

gildi eru í raun þau grundvallarsjónarmið sem eru inngróin

heilbrigðu mannlegu samfélagi og allir geta sameinast um. Með þessi

grunngildi að leiðarljósi er auðveldara að finna þann veg sem skilar

bestum árangri.

Reynslan af svona atburðum sýnir að sú nýja hugsun, sem fundurinn

kallar fram, tvinnar saman þræði úr ólíkum áttum (vinstri – hægri,

félagshyggju – markaðshyggju, þjóðernishyggju – alþjóðahyggju

o.s.frv.) án fyrirfram hlutdrægni eða fordóma og spinnur lausnir sem

falla að ástandinu í hverju tilviki.

Áhersla er lögð á það HVAÐ sé rétt að gera frekar en HVER hefur

rétt fyrir sér, hver hafi nauðsynlega FÆRNI frekar en STÖÐU til að

framkvæma það sem gera þarf, og hvað sé EÐLILEGT frekar en

VIÐTEKIÐ eða VENJULEGT.

Viska fjöldans

Niðurstaða Þjóðfundar byggir á sameiginlegu innsæi og vitund

fjöldans. Þessi sameiginlega viska (collective intelligence) er eðli

málsins samkvæmt hulin hverjum einstaklingi í einrúmi. Eins og

áður segir, er fjöldi þátttakenda á Þjóðfundi allt að 1.500 manns, það

er að segja sá fjöldi sem nægilegur er til þess að ná marktæku úrtaki

þjóðarinnar og rúmar jafnframt nauðsynlega stoð- og hagsmunaaðila.

Sá fjöldi er samkvæmt reynslu mjög öflugur og jafnframt vel

viðráðanlegur.

Fundinum er ætlað að móta nýtt líkan sem mætir þeim kaflaskilum í

þróun samfélagsins sem hefur haft í för með sér flækjustig sem

hefðbundnar lausnir og hugsun ráða ekki við. Með þessu er hafið

lærdómsferli og þetta mun kalla fram áframhaldandi víðtæka

umræðu sem þróar niðurstöðurnar áfram. Til þessa er leikurinn

gerður.

Þjóðfundurinn er framtak þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar.

Gengið er út frá því að þeir sem hafa valist til ábyrgðar fyrir hönd

þjóðarinnar verði þátttakendur í umræðunni, taki mark á

niðurstöðum hennar og fylgi þeim eftir.

Dagskrá Þjóðfundar

Dagskrá fundarins verður í meginatriðum þessi:

Þátttakendur boðnir velkomnir og í stuttu máli kynnt efni fundarins,

fyrirkomulag og markmið.

Fyrri helmingur fundarins fjallar um þau meginatriði sem skapa

þann nýja grundvöll sem endurreisn á að byggjast á:

Grunngildi þjóðarinnar rædd og skilgreind. Leitast er við að

svara spurningunni: „Hvaða lífsgildi eiga að vera okkur

leiðarljós í þróun samfélagsins?“.

Hlutverk og markmið samfélagsins rædd og skilgreind. Hér er

fundin framtíðarsýn út frá spurningum einsog: „Til hvers

erum við hér?“ „Hvernig skilgreinum við heilbrigðt og gjöfult

samfélag?“

Framtíðarsýn verður síðan sett fram í samhengi við gildi og

hlutverk og rætt hvernig megi skilgreina eins konar

sameiginlegt „yfirmarkmið“ sem allir telja eftirsóknarvert og

geta sameinast um.

Síðari hluti fundarins fjallar síðan um meginstoðir eins og velferðar-

og menntakerfi, atvinnuskapandi umhverfi, regluverk o.fl. sem

mynda í sinni nýju mynd hinn nýja grunn og þau nýju

meginmarkmið sem tryggja eðlilega þróun og æskilegan árangur.

Afurð fundarins er einsog áður sagði framtíðarsýn byggð á skýrum

sameiginlegum grunngildum. Að auki eru skilgreindar áherslur,

markmið og verkefni sem nauðsynleg eru til þess að tryggja

skilvirkan farveg fyrir þær breytingar og aðgerðir sem ráðast þarf í.

Áhrif og eftirfylgni

Nauðsynlegt er

að stilla saman kraftinn og gerjunina sem er að finna um allt

samfélagið nú þegar.

að tryggja flæði milli fortíðar, nútíðar og framtíðar þannig að

eðlileg tenging sé milli þess sem var, þess nýja upphafs sem

nú er og framtíðarinnar.

að horfa til lengri tíma án þess að gleyma því að

skammtímasjónarmið eru mikilvæg til þess að fást við

yfirstandandi erfiðleika.

að byggja fyrir framtíðina með því að með stöðugum

lærdómi og leit að „langsóttum“ hugmyndum ekki síður en

nærtækum, ferskum lausnum.

að skapa öflugar tengingar milli meginstoða samfélagsins

svo sem stofnana, fyrirtækja, hagsmunahópa, stjórnmálaafla

og fagaðila, og sameina þannig krafta ólíkra aðila sem áður

hafa sumir hverjir átt í togstreitu sín á milli.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að tryggja eftirfylgni og framkvæmd

ákvarðana, en þetta næst fram með því að þeir sem ákvörðunarvald

hafa á einstökum sviðum samfélagsins sameinist um að styðja

verkefnið og tryggja nauðsynlegum aðgerðum brautargengi; þarna er

átt við aðila einsog alþingi, ríkisstjórn, hagsmunasamtök og fleiri.

Órjúfanlegur hluti þjóðfundarverkefnisins er að skipuleggja

markvisst 52 vikna ferli þar sem í hverri viku verður lagður, með

sýnilegum hætti, steinn í hleðsluna. Að þessu 52 vikna verkefni

stendur sú marglita flóra einstaklinga og samtaka sem eiga þátt í

Þjóðfundinum og bera þannig áfram kyndilinn. Með vakningu af

þessu tagi er þess vænst að ráðandi öfl í samfélaginu komi til

skjalanna bæði með beinum stuðningi og með því að standa að

eðlilegri aðlögun lagaumhverfis og kerfislægra þátta sem örva frekar

jákvæða uppbyggingu. Meginatriðið verður samt ævinlega að sjálf

framkvæmd breytinganna verði á ábyrgð þjóðarinnar, allra þeirra

einstaklinga sem eru íslenska þjóðin.
Þjóðfundar-manifesto

Með Þjóðfundi mótum við okkur framtíðarsýn byggða á sameiginlegum

grunngildum þjóðarinnar.

Við …

skilgreinum megináherslur fyrir næstu framtíð.

sköpum með fundinum upplifun sem vekur sterka samkennd,

jákvæða spennu og von um betri tíma.

virkjum kraft til endurnýjunar og nýsköpunar.

tengjum ólík en samverkandi öfl samfélagsins.

endurheimtum traust alþjóðasamfélagsins með því að sýna í verki

að þjóðin horfist í augu við stöðu sína og taki sameiginlega á

málum af einurð og ábyrgð.

virkjum visku fjöldans með öflugum aðferðum fjölmennra funda af

þessu tagi

mörkum upphaf á formlegu fimmtiu og tveggja vikna ferli sem

varðar leið til nýrra tíma.