Ágúst Guðmundsson:
Það kemur verulega á óvart hve hart er gengið að kvikmyndagerðinni í landinu í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi. Niðurskurður þar er tæp 34%. Það mætti halda að kvikmyndagerðin hafi verið meira til óþurftar en aðrar starfsgreinar.
Til samanburðar má nefna að framlög til Sinfóníuhljómsveitarinnar lækka um 3,25%, til Listasafns Íslands um 2,25%, og nýendurráðinn Þjóðleikhússtjóri fær sérstakt hrós fyrir að vita hvernig bregðast eigi við 5,41% niðurskurði til sinnar stofnunar. Hins vegar verður að fyrirgefa íslensku kvikmyndafólki það að hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að höndla þriðjungs niðurskurð.
Öll skiljum við að þörf er á aðhaldi og niðurskurði. Þessi stefnubreyting gagnvart kvikmyndaiðnaðinum er bara einum of brött og á eftir að hafa sérlega óheppileg áhrif. Íslenskar kvikmyndir draga fé að erlendis frá, framleiðendur fá aldrei meira en 50% af kostnaðinum frá því opinbera, hitt þarf að koma annars staðar frá. Erlendir sjóðir hafa veitt milljónatugum í innlenda kvikmyndagerð – og á því verður hlé komi ekkert framlag frá hinu opinbera. Erlenda framlagið kemur ekki nema fyrst sé lagt í verkefnin á heimaslóð. Menn skyldu gæta að því að hér er verið að slátra mjólkurkú, ekki geldri kvígu.
Niðurskurðurinn kemur ekki aðeins niður á bíómyndum og heimildamyndum, heldur líka leiknu sjónvarpsefni. Allir leiknir sjónvarpsþættir fá verulegt fjármagn úr Sjónvarpssjóði Kvikmyndamiðstöðvar. Án þess framlags telja sjónvarpsstöðvarnar sig ekki geta staðið að slíkri framleiðslu. Efni á borð við Fangavaktina og Hamarinn mun þá heyra til liðinni tíð.
Því skal svo haldið til haga að verðmætasköpunin í kvikmyndagerðinni er tvenns konar: í beinum tekjum og í menningarauði. Íslenskar kvikmyndir eru hið raunverulega þjóðarleikhús – myndirnar eru teknar upp um land allt og þær fara auðveldlega fyrir augu allra, hvar á landinu sem fólk býr. Þær hafna gjarnan í sjónvarpinu, þar sem þær hafa löngum verið helsta leikna innlenda efnið, einkum á stórhátíðum. Ennfremur eru þær fluttar til útlanda, sýndar í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi víða um heim. Kunnugir telja að fátt selji Ísland betur en íslenskar kvikmyndir. Þær eru hin óbeina auglýsing sem gagnast betur en bein sölumennska. Á tímum niðurlægingar Íslands er meiri þörf á slíku en nokkru sinni fyrr.
Það er afar misráðið að setja þessa ákveðnu starfsstétt á ís um ófyrirséða framtíð – og vitaskuld í hreinni þversögn við samning ríkisins við kvikmyndageirann, sem gerir ráð fyrir árlegri aukningu á fjárfestingu ríkisins í kvikmyndagerðinni. Í krafti samningsins fóru sprotafyrirtæki á stúfana og fjárfestu m.a. í stafrænni tækni svo að nú má vinna hér mun fleiri þætti framleiðslunnar en á dögum filmunnar. Á erfiðum tímum má fyrirgefa hringl með prósentutölurnar, en öðru máli gildir um svo drastíska ráðagerð sem þessa, sem líkleg er til að kreista líftóruna úr þessum fyrirtækjum.
Enn hafa ekki heyrst röksemdirnar fyrir því að þessi eina stétt eigi að þola meiri niðurskurð en aðrar á landinu. Á meðan ástæður þess eru í móðu verður að gera þá kröfu að þessi málsmeðferð, sem líklega má rekja til vankunnáttu eða flumbrugangs, verði endurskoðuð svo að ekki verði búið verr að kvikmyndagerðinni en að sambærilegum starfsgreinum landsins.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. október 2009