Ungt sjálfstæðisfólk hefur lagt fram tillögur að sparnaði í ríkisbúskapnum, sem m.a. gera ráð fyrir því að Þjóðleikhúsið verði lagt niður, Sinfónían og háskólarannsóknir sömuleiðis, að ekki sé minnst á starfslaun listamanna. Jú, og svo á að selja Ríkisútvarpið, en það er nú kannski ekkert nýtt.
Hvernig á að hefja um þetta rökræðu? Þessar hugmyndir skapast af lífsviðhorfum sem eru nokkuð á skjön við þau sem almennt ríkja, það er ekki hlaupið að því að finna umræðugrundvöll. En kannski ég skauti fram hjá menningarhjalinu og reyni út frá hagrænum forsendum – og taki fyrir kvikmyndagerðina, sem er náttúrulega eitt af því sem leggst af, samkvæmt tillögunum.
Kvikmyndafólk hefur haldið því fram að ríkið tapi ekki á því að veita fé í íslenskar kvikmyndir, heldur hafi þvert á móti hagnað af slíkri fjárfestingu. Hvernig getur staðið á því? Og af hverju geta þá ekki einkaaðilar yfirtekið þetta hlutverk og haft af því góðan gróða?
Ríkið fjármagnar aldrei kvikmynd um meira en 50% af heildarkostnaði, hærra má ekki fara vegna evrópskra tilskipana, og yfirleitt er framlag ríkisins langt undir þeirri prósentutölu. Önnur fjármögnun kemur að verulegu leyti erlendis frá, enda eru íslenskir framleiðendur kræfir í að ná samningum við erlenda kollega og sækja fé í fjölþjóðlega sjóði.
Allt evrópska styrkjakerfið byggist á því að til séu kvikmyndastofnanir eða sjóðir í heimalandinu sem velji bitastæðustu verkefnin og veiti þeim upphafsstyrkina. Ekki fyrr en þá er unnt að nálgast fjölþjóðlegu sjóðina. Væri ekki til stofnun á borð við Kvikmyndamiðstöð gætu Íslendingar ekki sótt í norræna sjóðinn né þann evrópska né neina aðra. Þessu hlutverki getur einungis opinber stofnun sinnt, enda hefðu einkaaðilar aldrei af því þann hagnað sem ríkið fær.
Ríkið nýtur góðs af ýmsu sem ekki kæmi einkaaðilum til góða. Skatttekjur eru verulegar af kvikmyndagerðinni, enda eru laun ætíð langhæsti kostnaðarliðurinn. Erlendur gjaldeyrir kemur inn í landið bæði þegar erlendir styrkir eru greiddir, svo og söluágóði af dreifingu erlendis. Afleidd áhrif þessarar starfsemi fara vaxandi, því að ný tækni gerir kleyft að fullvinna myndirnar hérlendis. Alla þjónustu þarf vitaskuld að greiða, og af henni fást enn meiri skatttekjur.
Kvikmyndamiðstöð starfar náið með einkafyrirtækjum, sem flest mætti vafalaust kalla því vinsæla nafni sprotafyrirtæki. Miðstöðin fjárfestir í íslenskum myndum fyrir hönd ríkisins. Þetta eru ekki styrkir í þess orðs eiginlegu merkingu, heldur fjárfesting í samstarfsverkefnum milli ríkisins og einkafyrirtækja. Margir vilja að ríkið fjármagni orkuver í von að hljóta af þeim arð í framtíðinni. Eitthvað svipað gerist í þeim hugarorkuiðnaði sem kallast kvikmyndagerð, nema hvað þar tel ég að áhættan sé öllu minni og ágóðinn skjótfengnari.
Og sé nú fólki sama um íslenskt mál og menningu og allt það, skal á það bent að íslenskar kvikmyndir hafa reynst öflug kynning á landi og þjóð. Þær hafa dregið að ferðamenn, ennfremur erlend kvikmyndafyrirtæki sem verja háum upphæðum við tökur á Íslandi. Sú starfsemi byggist á því að hér séu fyrirtæki og mannskapur sem geti veitt þá þjónustu sem þarf. Clint Eastwood gat leitað til toppfólks þegar hann tók mynd sína hér um árið. Það skapaði gjaldeyristekjur og skatttekjur.
Vinsælt er að tala um menningartengda ferðaþjónustu. Ætli þetta geti þá ekki kallast ferðatengd menningarþjónusta? Íslenskar kvikmyndir auglýsa landið án þess að vera auglýsingar. Í því felst besta kynningin – og sú ódýrasta, enda innifalin í upphaflega framlaginu frá Kvikmyndamiðstöð.
Svona má reyndar fjalla um fleiri þætti menningarinnar en kvikmyndirnar. Svipuð niðurstaða fæst í bókinni um hagræn áhrif tónlistarinnar, sem kom út fyrir nokkrum árum. Á hinn bóginn eru listamenn þekktir fyrir að leggja ekki alltaf hægrænan mælikvarða á störf sín, og sumir þeirra verða fyrst raunveruleg hagræn stærð við dauða sinn. Hvað ætli ævistarf Kjarvals verði metið hátt á markaðsvirði ársins 2007?
Annars er ekki hollt að hugsa bara hagrænt. Þeir sem helst eiga sök á hruninu virðast hafa hugsað hagrænt í öllu, meira að segja þegar þeir völdu listamenn til að koma fram í afmælunum sínum. Og hvernig fór?
Greinin birtist í Fréttablaðinu í nóvember 2009