Ágúst Guðmundsson:

 

Um þetta leyti í fyrra lagði Stefan Wallin, menntamálaráðherra í Finnlandi, til að framlög til menningarmála þar í landi yrðu aukin um næstum 11%. Menningunni var eyrnamerktur hluti af lottó-peningunum: 21 milljón evra var sú búbót í menninguna sem fékkst úr lottóinu. Það svarar til 3.780 milljóna íslenskra króna.

Alls staðar á norðurlöndum spila menn í lottóinu, og alls staðar hefur íþróttahreyfingin af því umtalsverðar tekjur. En þar fara lottópeningarnir jafnframt í menninguna víðast hvar. Danska ríkið á 80% í Danske spil, en tvær íþróttahreyfingar sín 10 prósentin hvor. Norðmenn skipta til helminga á milli íþrótta og menningarmála, og hefur það gilt frá 2004, en þá var gerður alvarlegur skurkur í lista- og menningarmálum með útgáfu menningarstefnu sem gilda skyldi næstu 10 árin og var gert ráð fyrir auknum fjárframlögum í málaflokkinn öll árin, m.a. úr norska lóttóinu.

Víða skiptist arðurinn á milli menningarmála, íþrótta, vísinda og menntamála. Sé litið til Bretlands stendur lottóauðurinn þar undir umfangsmikilli menningarstarfsemi, og eru íþróttamálin einungis hluti af þeirri heild, tæpast meira en fjórðungur.

Hér á landi fara 60% lottópeninganna til íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, en 40% fara til Öryrkjabandalags Íslands. Á heimasíðu Íslenskrar getspár kemur fram að fyrir lottópeningana hafi rúmlega 300 sérhannaðar íbúðir verið byggðar fyrir öryrkja. Íþróttamannvirki hafa líka verið reist, og virðist sjaldan koma til umræðu hvað þau kosti. Þúsundir fermetra rísa áreynslulítið að því er virðist, og tel ég að það sé lóttópeningunum að þakka.

Tónlistar- og ráðstefnuhús er að rísa við Reykjavíkurhöfn, og þar hefur umræðan verið á öðrum nótum. Samt er pólitísk sátt um verkefnið. Vinstri-grænn menntamálaráðherra og borgarstjóri úr Sjálfstæðisflokki hafa tekið saman höndum um að ljúka við húsið. Um daginn kom ágætis stuðningur við þá ákvörðun frá breskum sérfæðingi í ráðstefnuhaldi. Hann benti á að engin grein ferðaiðnaðarins gefi af sér viðlíka tekjur og ráðstefnuhald. Tónlistinni er vissulega ætlað öndvegi íhúsinu, en þar verða líka haldin stór, alþjóðleg málþing.

Listalífið hefur orðið af verulegum stuðningi úr einkageiranum. Áður fyrr létu stórfyrirtæki umtalsverðar upphæðir af hendi rakna í hin ýmsu verkefni, en nú er ekki í önnur hús að venda en hið opinbera, sem þarf að skera niður á öllum sviðum. Menningarstofnanir hafa dregið úr rekstri sínum og listamenn hafa rifað seglin. Og hvar á þá að fá aukið fjármagn í það sjálfsagða verkefni sem felst í íslenskru menningarlífi?

Hingað til hafa stjórnmálamenn verið tregir til að íhuga breytingar á lottóinu. En nýjir tímar kalla á ný úrræði. Þá má gjarnan hugleiða þann kost að menning og listir fái að njóta góðs af lottóarðinum við hlið annarra.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 26. september 2009