Mjög hefur verið rætt í listageiranum um gríðarlegt misræmi milli stofnana og listgreina, þegar kemur að niðurskurði í ríkisútgjöldum. Stjórn BÍL sá ástæðu til að álykta um þetta:
Á stjórnarfundi Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var þann 23. október 2009, var samþykkt svohljóðandi ályktun:
Bandalag íslenskra listamanna skilur nauðsyn þess að draga þurfi úr ríkisútgjöldum á erfiðum tímum, en í þeim niðurskurðaráformum, sem nú liggja fyrir í lista- og menningarmálum, er illskiljanlegt misræmi. Það sem stjórn BÍL vill helst benda á er þetta:
- Kvikmyndasjóður, skorinn niður um 200 milljónir, 33,6%
- Starfsemi atvinnuleikhópa, skorin niður um 10,7 milljónir
- Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, skorin niður um 3,6 milljónir, 20%
- Safnliður 02-982-1.90, sem er að stórum hluta ætlaður í ýmsar lista- og menningarhátíðir, er skorinn niður um 47.2 milljónir
Til að vinna gegn tilviljanakenndri úthlutun fjármuna af safnliðum fjárlaga til lista- og menningarstarfsemi leggur stjórn BÍL til að efldir verði sjóðir á borð við Safnasjóð, Húsafriðunarsjóð, Tónlistarsjóð, Bókmenntasjóð, Barnamenningarsjóð, Fornleifasjóð, Starfsemi atvinnuleikhópa og Kvikmyndasjóð.
Í sama tilgangi er mikilvægt að standa vörð um menningarsamninga við sveitarfélög á landsbyggðinni.
Stjórn BÍL hvetur fjárlaganefnd til að tryggja að fjöldi mánaðarlauna, sem lofað var í nýjum lögum um starfslaun listamanna, haldi sér.