Fréttir

Fundað með iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Í dag áttu fulltrúar BÍL fund með iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elíun Árnadóttur. Fór fundurinn hið besta fram og vour umræður líflegar. Hér fylgir minnisblað það sem BÍL lagði fram á fundinum, þar sem getið er um þau mál er helst bar á góma:

Bandalag íslenskra listamanna er samstarfsvettvangur 14 fagfélaga listafólks. Innan vébanda fagfélaganna eru um 4000 listamenn. Bandalagið er stjórnvöldum til ráðgjafar í málefnum lista og skapandi greina. Um þá ráðgjöf er í gildi samstarfssamningur við mennta- og menningarráðuneytið. Þá veitir BÍL Alþingi umsagnir um mál á vettvangi lista og menningar.  BÍL var stofnað 1928 og hefur því starfað að hagsmunamálum listamanna óslitið í 85 ár.

Þverfagleg stjórnsýsla skapandi greina
Stefnumótun í málefnum skapandi atvinnugreina hefur verið unnin í samstarfi nokkurra ráðuneyta. Stærsta verkefnið var unnið á árabilinu 2010 – 2012 í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.  Einnig tók Íslandsstofa virkan þátt í verkefninu.

Tvær skýrslur hafa verið unnar í tengslum við verkefnið:
Skapandi greinar – Sýn til framtíðar í september 2012, úttekt á stöðu greinanna og tillögur um bætt starfsumhverfi:  http://www.menntamalaraduneyti.is/utgafuskra/
og  Hagræn áhrif skapadi greina- Desember 2010
http://www.uton.is/frodleikur/skyrsla-um-kortlagningu-a-hagraenum-ahrifum-skapandi-greina

Skýrslurnar tengjast og sýna nniðurstöður að heildarvelta skapandi greina hafi verið 189 ma.kr. árið 2009. Þar af var hluti ríkis og sveitarfélaga um 13% sem er sambærilegt við önnur lönd. Ársverk við skapandi greinar voru um 9.400 talsins árið 2009 og voru flest árið 2008, eða rúmlega 10.000. Stöðug aukning var í fjölda ársverka skapandi greina á árabilinu 2005-2008.
Bíl leggur áherslu á að verkefninu verði haldið áfram og stjórnvöld bregðist við tillögum skýrslunnar frá 2012.

Hönnunarstefna
Í ársbyrjun 2011 setti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ásamt mennta- og menningarmálaráðuneyti á laggirnar stýrihóp til að vinna tillögu að hönnunarstefnu 2013 – 2018:
http://www.honnunarmidstod.is/media/PDF/HONNUNARSTEFNA_LOKATILLAGA.pdf

Tillagan er enn í umfjöllun innan stjórnkerfisins og hefur ekki verið lögð fram endanleg stefna af hálfu stjórnvalda. BÍL er ekki kunnugt um hvar málið er statt, en leggur áherslu á mikilvægi þess að stefnan verði formlega samþykkt og gerð verði áætlun um framkvæmd hennar.

Menningarstefna í mannvirkjagerð
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (2003 – 2007) lét vinna menningarstefnu í mannvirkjagerð og gaf hana út í veglegu 52ja bls riti í apríl 2007:
http://www.menntamalaraduneyti.is/nyrit/nr/4059

Mikilvægt er að allir ráðherrar og ráðuneyti fylgi þeirri stefnu vel eftir, því hún nær yfir allar opinberar byggingar og er enn í fullu gildi. 

Íslandsstofa
Íslandsstofa var stofnuð á grunni Útflutningsráðs með aðkomu Samtaka atvinnulífsins. Undir hatti Íslandsstofu starfar fagráð lista og skapandi greina. Í því eiga sæti fulltrúar allra miðstöðva listgreina og hönnunar (Kvikmyndamiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Miðstöð íslenskra bókmennta, Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, Úttón / Tónverkamiðstöð, Icelandic Gaming Industry og Hönnunarmiðstöð. Einnig eiga þrjú ráðuneyti fulltrúa í fagráðinu; atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarráðuneyti ásamt utanríkisráðuneyti. Verkefni fagráðsins er að vera Íslandsstofu til ráðuneytis við stefnumótun og  áherslur í málefnum lista og skapandi greina í tengslum við þau verkefni sem Íslandsstofna sinnir, þar skiptir ferðaþjónustan miklu máli, enda eru listir og menning í öðru sæti yfir ástæður þessað erlendir ferðamenn heimsækja Ísland, næst á eftir náttúru landsins. Þá hefur fagráðið átt þátt í því að miðla upplýsingum um hátíðir og menningartengda viðburði, t.d. til sendiskrifstofa Íslands erlendis. Um þessar mundir er unnið að því að auka tengsl fagráða innbyrðis, sérstaklega milli fagráða ferðaþjónustu og skapandi greina.

Segja má að Íslandsstofa sé tilraunaverkefni í lýðræðislegri stjórnsýslu, svo margir koma með beinum hætti að starfinu. Því er mikilvægt að ráðuneytin séu vakandi hvert fyrir sínum þætti í starfi Íslandsstofu, tryggi að starfsemin sé markviss og skili tilætluðum árangri. Slíkt er ekki endilega gert með sjálfstæðum átaksverkefnum með sjálfstæðar stjórnir á borð við verkefnið „Ísland allt árið“, heldur með breiðri aðkomu þeirra ólíku geira sem hlut eiga að máli.

Verkefnatengdir sjóðir
Skilagrein starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem fjallaði um fyrirkomulag verkefnatengdra sjóða og kynningarmiðstöðva á listasviðinu, hefur að geyma mikilvæga greiningu á stöðu verkefnatengdra sjóða og samspili þeirra við kynningarmiðstöðvarnar. Skýrslan er til umfjöllunar í geiranum og hafa hagsmunaaðilar frest til 15. september til að gera athugasemdir við tillögur starfshópsins.
Í nýsamþykktri menningarstefnu Alþingis á sviði lista og menningararfs segir í kafla um starfsumhverfi í menningarmálum: Framlög ríkisins til verkefna á sviði menningarmála fari í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum sem byggja úthlutun á vönduðu jafningjamati. Í stjórnum sjóð séu  viðhafðir góðir stjórnunarhættir, regla um hæfilega fjarlægð virt og almennum hæfisreglum fylgt. Starfslaunasjóðir  og verkefnasjóðir verði vel skilgreindir og endurspegli fjölbreytni og þróun menningarlífsins, m.a. er varðar samstarfsverkefni.
Gera má ráð fyrir að tillögur starfshópsins liggi fyrir í lok september nk.

Fjárfestingaráætlun
Með fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar voru sett fram áform um að auka framlög hins opinbera til sköpunar og vísinda.  Áætlunin leiddi það af sér að Kvikmyndasjóður var tvöfaldaður, stofnaðir voru fjórir nýjir sjóðir Hönnunarsjóður, Myndlistarsjóður, Útflutningssjóður tónlistar og handverkssjóður. Þá var aukið í sjóði á sviði bókmennta, til starfsemi atvinnuleikhópa og framlag aukið í Tónlistarsjóð. Ráðherrar í nýrri ríkisstjórn hafa sagt að fjárfestingaráætlunin sé til endurskoðunar og hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur sagt að áætlunin sé í uppnámi. Þetta veldur BÍL áhyggjum.
Í heildina hljóða þeir liðir fjárfestingaráætlunarinnar, sem varða skapandi atvinnugreinar, upp á  720 milljónir króna, þar af eru 470 milljónir í Kvikmyndasjóði og 250 milljónir í aðra sjóði. Þessir fjármunir eru til staðar í fjárlögum 2013. Ef þeirra nýtur ekki við 2014 þá verður hrun í uppbyggingu greinanna.

Skráning tölulegra upplýsinga um skapandi greinar
Starfsáætlun BÍL 2013 gerir ráð fyrir átaki í skráningu tölulegra upplýsinga um listir og störf listafólks. BÍL er þegar í sambandi við Hagstofu Íslands og mun eiga aðkomu að sameiginlegu verkefni Evrópulanda, sem varðar skráningu tölulegra upplýsinga um skapandi atvinnugreinar.
BÍL leggur áherslu á að verkefni þetta fái brautargengi stjórnvalda og leitað verði leiða til að ljúka verkefninu þó ekki verði af áformuðum stuðningi ESB við verkefnið.

Tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi
Mikilvægt er að tryggja að þetta samstarf haldi áfram, enda hefur það skipt sköpum í viðleitni okkar við að laða erlend verkefni til landsins, þá hefur  verkefnið skipt miklu máli fyrir eflingu greinarinnar og innlenda framleiðslu. Hins vegar verður að tryggja að þeir sem njóta endurgreiðslna fylgi lögum og reglum um vinnurétt. Staðfest hefur verið að dæmi séu um brot á lögum um vinnurétt og ófullnægjandi aðstæður á tökustað. Brýnt er að skerpa á reglum um greiðslur úr kerfinu svo komist verði fyrir slíkar aðstæður. Í síðustu útgáfu af lögunum kom inn ákvæði sem kveður á um að til að njóta endurgreiðslu þurfi framleiðslufyrirtæki að vera skuldlaus vegna framleiðslunnar og er það vel. Núverandi lög um endurgreiðslurnar eru tímabundin, gilda til 31.12.2016. mikilvægt er að stefna um framtíðarfyrirkomulag verði mótuð sem fyst og þá verði hugað að því sem betur má fara í núverandi fyrirkomulagi og framkvæmd.

Stjórn BÍL fundar með Illuga Gunnarssyni

2. júlí 2013 funduðu fulltrúa BÍL með nýjum mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni, reyndar varð fundurinn nokkuð endasleppur svo strax var boðað til nýs fundar, sá var haldinn 10. júlí í ráðuneytnu. Minnispunktar stjórnar BÍL til ráðehrrans fara hér á eftir:

 • BÍL – samkomulag um samstarf við stjórnvöld um málefni lista og skapandi atvinnugreina
 • Listamannalaun – Launasjóðir og heiðurslaun, hugmyndir um akademíu
 • Fjármögnun sjálfstæðrar liststarfsemi – verkefnatengdir sjóðir og samspil þeirra við launasjóði, listsköpun utan stofnana, hátíðir, tilraunir, rannsóknir, samlegð við hönnun
 • Skapandi atvinnugreinar – skýrsla m sýn til framtíðar, þverfagleg nálgun fjögurra ráðuneyta
 • Hönnun – Arkitektar í BÍL, menningarstefna í mannvirkjagerð, Hönnunarmiðstöð
 • Tölfræði – skráning gagna um umfang lista og menningar, þ.m.t. hagræn áhrif
 • Höfundarréttur – sanngjörn þóknun til upphafsmanna list- og menningartengdra „afurða“
 • Staða listamanna – réttindi til fæðingarorlofs, lífeyris, atvinnuleysistrygginga, skattaleg staða
 • Listaháskóli Íslands – lykill að frumsköpun, samlegð, húsnæði, meistaranám, rannsóknir etc
 • Kvikmyndanám – skynsamlegasta lausnin, skýrslur mmrn og LHÍ, kvikmynda og myndlæsi í almenna skólakerfinu, Bíó Paradís
 • Safnastarf – Listasafn Íslands eitt höfuðsafna, háskólastofnun, Kvikmyndasafn, Leikminjasafn, Tónlistarsafn, safn RÚV, etc; samstarf og möguleg samlegð
 • Listir og skóli – námsskrá, Tónlist fyrir alla, Skáld í skólum, Litróf listanna, Menningar-bakpokinn, samstarf við Reykjavíkurborg og Samb.sveitarfélaga,
 • Dansinn – vaxtarsproti, danssverkstæði
 • Sviðslistamiðstöð – síðasta í röð kynningarmiðstöðva, verði skilgreind í nýjum Sviðslistalögum
 • Íslandsstofa – aðild BÍL, frumkvæði að fagráði í listum og skapandi greinum, samlegð við ferðaþjónustu
 • RÚV ohf; fjölmiðill í almannaþágu – ein mikilvægasta menningarstofnunin, skipan stjórnar
 • Harpa – listráð að frumkvæði BÍL, aðkoma fjögurra félaga tónlistarmanna
 • Menningarsamningar landshlutanna – tengsl  við menningarfulltrúa, fagleg úthlutun fjármuna (Reykjavíkur-módelið), uppbygging starfa f listamenn á landsbyggðinni
 • Norrænt samstarf – Nordisk Kunstnerråd, opið samráð við Norrænu Ráðherranefndina, NMR, Kultur Kontakt Nord (Norræna menningarmálaáætlunin), úthlutunarnefndir
 • Evrópu samstarf – ECA, samstarf listamanna í 27 löndum, forseti BÍL er forseti ECA

Umsögn BÍL um RÚV-frumvarp

Í dag sendi stjórn BÍL allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis svohljóðandi umsögn um frumvarp mennta- og menningarmálaráðerra um RÚV ohf en málið lýtur að vali stjórnar RÚV:

Stjórn BÍL hefur ævinlega látið sér annt um Ríkisútvarpið og lítur á stofnunina sem eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er því mikilvægt að allt lagaumhverfi RÚV ohf  sé til þess fallið að auðvelda stofnuninni að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Á síðasta þingi samþykktu þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokks nýja löggjöf um Ríkisútvarpið. Sú lagasmíð hafði verið lengi í undirbúningi og á endanum náðist um hana nokkuð góð sátt, enda höfðu flestir, sem láta sig málefni stofnunarinnar varða, komið með einhverjum hætti að málum.

Stjórn BÍL furðar sig á fram komnu frumvarpi, þar sem í engu er tekið mið af því breytta hlutverki stjórnar RÚV ohf, sem nýju lögin gera ráð fyrir. Það hlutverk er ekki sambærilegt við hlutverk stjórnar samkvæmt eldri lögum nr. 06/2007, þar sem hlutverkið er einungis rekstrarlegs eðlis, en í nýju lögunum nr. 23/2013 er hlutverkið í mun meira mæli dagskrárlegs eðlis. Það að skipa pólitíska stjórn með slíkt hlutverk er fáheyrt og brýtur í bága við öll megin sjónarmið í nágrannalöndum okkar, þar sem áhersla er lögð á eldvegg milli hins pólitíska valds og dagskrárvalds ríkisfjölmiðils. Það sjónarmið, hins vegar, að efla dagskrárlegt vald stofnunarinnar er komið til af þeirri þörf að stofnunin standi sterk faglega og að stjórn hennar sé komin undir hæfum einstaklingum á fjölbreytilegum sviðum menningar, en ekki bara einum útvarpsstjóra. Stjórn BÍL hvetur allsherjar- og menntamálanefnd til að bera þá aðferð sem frumvarpið mælir fyrir um, við fyrirkomulag á vali stjórnar í sambærilegum miðlum á Norðurlöndunum og í Bretlandi, áður en nefndin veitir málinu  brautargengi.

Þá vekur stjórn BÍL athygli nefndarinnar á því að hugmyndafræði nýju laganna gengur út á að valnefndin komi sér saman um fimm fulltrúa í stjórn RÚV ohf. Það gætti misskilnings hvað þetta varðar í ræðum þingmanna við fyrstu umræðu um málið, þar sem látið var í veðri vaka að BÍL myndi skipa einn stjórnarmann, Samstarfsnefnd háskólanna einn stjórnarmann og Allsherjar- og menntamálanefnd þingsins myndi skipa þrjá stjórnarmenn. Slík aðferðafræði fer ekki saman við þá röksemdafærslu sem lesa má úr greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 23/2013.  Einnig er rétt að geta þess að með því að fara að tillögu ráðherrans er fulltrúi starfsmanna , sem lengi hafa óskað eftir því að sjónarmið þeirra heyrist við stjórnarborð stofnunarinnar, þurrkaður út með öllu. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið hvetur stjórn BÍL allsherjar- og menntamálanefnd til að hverfa frá því að grípa inn í löggjöfina eins og Alþingi samþykkti hana á síðasta þingi og leyfa þeirri hugmyndafræði, sem lögin byggja á, að ganga í gildi. Hún er prófsteinn á það hvort þjóðinni á að lánast að standa vörð um ríkisútvarp í almannaþágu og hvort okkur lánast að skipa faglega stjórn þessarar mikilvægu menningarstofnunar.

BÍL ályktar gegn breytingum á lögum um RÚV

Bandalag íslenskra listamanna lýsir vonbrigðum með framkomið frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, sem ætlað er að breyta nýjum lögum um Ríkisútvarpið – fjölmiðil í almannaþágu. Það er mat BÍL að frumvarpið stefni í hættu áformum um eflingu hins lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverks RÚV.

Samkvæmt þeim lögum, sem Alþingi samþykkti 13. mars sl., og samþykkt var af þingmönnum allra flokka nema Sjálfstæðisflokks, er gert ráð fyrir fjölgun stjórnarmanna og talsverðum breytingum á fyrirkomulagi við val stjórnarinnar. Með því að hverfa frá hugmyndum nýju laganna um valnefnd er horfið frá eftirsóknarverðri aðferð við val stjórnarmanna, sem byggir á valddreifingu í þágu almannahagsmuna. Lögin gera ráð fyrir aðkomu BÍL og samstarfsnefndar háskólanna, auk þess sem þau færa starfsmönnum stofnunarinnar fulltrúa í stjórn.  Rökin fyrir þessum breytingum voru þau að með þátttöku fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefnd verði tryggt að fulltrúi með þekkingu á menningarmálum verði valinn í stjórn. Á sama hátt er talið að fulltrúi samstarfsnefndar háskólanna sjái til þess að í stjórn veljist fulltrúi með þekkingu á fjölmiðlamálum. (tilvitnun í upphaflegt frumvarp að núgildandi lögum)

Með nýju frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra yrði horfið frá þeirri mikilvægu breytingu að skapa fjarlægð við hið pólitíska vald á Alþingi. Þess í stað yrðu pólitísk tengsl stjórnarmanna fest í sessi með afgerandi hætti þar sem þeim væri ætlað að endurspegla valdahlutföllin á Alþingi.  Slíkt væri mikil öfugþróun og í hróplegu ósamræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Það sem gerir tillögur mennta- og menningarmálaráðherra enn verri, er að hlutverk stjórnar samkvæmt nýju lögunum er talsvert breytt og víðfeðmara en samkvæmt eldri lögum. Sú sjö manna stjórn sem kosin yrði skv. tillögum ráðherrans hefði því mun breiðara hlutverk en tíðkast hefur til þessa. Þannig væri hætta á íhlutun frá pólitískt skipuðum stjórnarmönnum um innri mál RÚV mun meiri en verið hefur á grundvelli eldri laga.

Það er sannfæring stjórnar Bandalags íslenskra listamanna að ljúka þurfi innleiðingu hins nýja fyrirkomulags við val á stjórn RÚV, í því felist fjölmörg tækifæri til aukinnar fagmennsku við stjórn þessarar mikilvægu menningarstofnunar. Því skorar BÍL á ráðherra mennta- og menningarmála að draga fram komið frumvarp til baka.

 

Samráðsfundur með borgarstjóra

Árlegur samráðsfundur BÍL með borgarstjóra var haldinn í dag. Stjórn BÍL lagði fram minnisblað til grundvallar umræðunni:

Bandalag íslenskra listamanna eru hagsmunasamtök 14 fagfélaga listafólks og hönnuða. Samstarfssamningar BÍL og stjórnvalda snúast um faglega ráðgjöf á vettvangi lista og menningar og eru til þess fallin að auka fagmennsku stjórnvaldsákvarðana á menningarsviðinu. Það er mat BÍL að stjórnendur Reykjavíkur hafi sinnt þessu samstarfi vel á síðustu árum. Fyrir það ber að þakka. Það voru því nokkur vonbrigði að Borgarráð skyldi ekki samþykkja hækkun fjárframlagsins, sem samningur þessara aðila kveður á um. BÍL óskaði eftir því að 900 þúsund króna árlegt framlag yrði hækkað um helming, en Borgaráð samþykkti einungis hækkun sem nemur verðlagshækkunum, eða í 1.060 þúsund kr.

Samstarf við MOFR um styrkjaúthlutun.  Það er mat BÍL að sérstaklega vel hafi tekist að þróa þetta samstarf og nú hyllir undir að menningar- og ferðamálaráð taki ákvörðun um breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar styrkja til list- og menningartengdra verkefna með því að svokallaður „skyndistyrkjapottur“ verði sameinaður „stóra pottinum“ og að úthlutað verði tvisvar á ári.  BÍL hefur talið að slíkt fyrirkomulag væri til mikilla hagsbóta fyrir listafólk, auk þess sem það ýtir undir ferskleika þeirra verkefna sem koma til skoðunar hverju sinni.

Borgarhátíðasjóður; tengsl lista, menningar og ferðaþjónustu. BÍL fagnar því að borgaryfirvöld skuli hafa haldið áfram að útvíkka og styrkja nýjan Borgarhátíðarsjóð og telur mikilvægt að faghópur BÍL verði áfram hafður með í ráðum varðandi viðhald og frekari þróun sjóðsins. Það er mat stjórnar BÍL að skynsamlegt sé að skoða ávinning ólíkra atvinnugreina af einstökum hátíðum, því þyrfti að stofna til virkara samtals milli ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina um hlut einstakra hátíða í borginni. Slíkt samtal er nú hafið undir hatti Íslandsstofu og mikilvægt að það eigi sér einnig stað innan menningar- og ferðamálaráðs og þeirra stofnana borgarinnar sem starfa á vettvangi lista, menningar og ferðaþjónustu.

Harpa – stefnumótun og framtíðarsýn. BÍL fagnar því að stjórnvöld skuli hafa komið sér saman um eigendastefnu fyrir Hörpu, sem verður grundvöllur áframhaldandi þróunar þeirrar mikilvægu starfsemi sem Harpa fóstrar. Nú fer í hönd mikilvægt stefnumótunarferli og telur BÍL brýnt að listráð Hörpu hafi mótandi áhrif á það ferli. Þá telur stjórn BÍL mikilvægt að eigendur Hörpu  nýti sér hin mikilsvirtu Mis van der Rohe verðlaun, sem Hörpu hlotnuðust nýverið, til skapandi markaðssetningar. Slík verðlaun eru til þess fallin að laða fleiri erlenda aðila að húsinu, sem mun styrkja rekstrargrundvöll þess til lengri tíma.

Bókmenntaborg UNESCO. BÍL fagnar yfirlýsingum borgaryfirvalda um tækifærin sem liggja í sýnieika bókmennta í höfuðborg þjóðarinnar og lýsir sig reiðubúið að starfa áfram með borgaryfirvöldum að eflingu bókmenntaborgarinnar. Mikilvægt er að áform um miðstöð orðsins nái fram að ganga og skynsamlegt í því sambandi að skoða mögulega samlegð með nýstofnaðri Miðstöð íslenskra bókmennta.

Listmenntun – átak til úrbóta. Lítið sem ekkert hefur áunnist á síðasta ári varðandi áherslumál BÍL tengt listmenntun barna í borginni, það á jafnt við um samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans og sjálfstætt starfandi listaskóla í borginni. Ástæðurnar eru margþættar og ekki allar á valdi borgaryfirvalda, en það er mat stjórnar BÍL að tvö lykilsvið borgarinnar þurfi að sameinast við lausn þessara mála, þ.e. mennta- og frístundasvið og menningar- og ferðamálasvið. Stjórn BÍL lýsir sig reiðubúna til þátttöku í vinnu um málefni tengd listmenntun. Það er því tilefni til að endurtaka hér það sem BÍL lýsti yfir á samráðsfundi 2012:

Listnám barna og ungmenna hefur tvíþættan tilgang; annars vegar er það tómstundatengt en hins vegar kröfuharður undirbúningur alvarlegra náms og starfsferils í listum.  Menntayfirvöldum ber að hlúa að hvoru tveggja. Tryggja þarf aukinn aðgang barna og ungmenna að öflugri listmenntun, óháð efnahag foreldra. Til að auka hlut menningar og lista í námi og starfi barna þarf að móta heildstæða stefnu til framtíðar og rétta misvægið milli möguleika barna á listtengdu skapandi starfi og íþróttastarfi. Skoða þarf stöðu listaskólanna; tónlistarskóla, dansskóla og myndlistarskóla, með það að markmiði að auka aðgengi að menntuninni ásamt því að viðhalda gæðum námsins. BÍL leggur ríka áherslu á að borgin styðji myndarlega við bakið á þeim listnámsskólum sem uppfylla strangar gæðakröfur og kenna samkvæmt almennri námsskrá grunn- og/eða framhaldsskóla.

Fundur BÍL með skóla- og frístundasviði. 9. janúar sl. fundarði stjórn BÍL með skóla- og frístundaráði og starfsmönnum sviðsins um málefni listmenntunar.  Áherslur BÍL liggja fyrir í sérstöku minnisblaði. Á þeim fundi var lofað áframhaldandi starfi, sem BÍL hefur því miður ekki fundið að hafi farið af stað. BÍL hefur hins vegar haldið fundi með forsvarsmönnum verkefnanna Tónlist fyrir alla og Skáld í skólum, með það að markmiði að stilla saman strengi fyrir viðræður listamanna við stjórnvöld um styrkingu og mögulega útvíkkun þessara mikilvægu verkefna. Eins og fram hefur komið þá eiga þau verkefni rætur í norska verkefninu „Den Kulturelle Skolesækken“, sem ætti að vera borginni fyrirmynd í uppbyggingu samstars listamanna og skóla.

Tónlistarskólarnir. Listafólk vænti mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem gert var í maí 2011. Nú er ljóst að vankantar eru á framkvæmd samkomulagsins. Stjórn BÍL hvetur borgaryfirvöld til að tryggja að tónlistarskólar í Reykjavík geti áfram boðið upp á nám sem stenst gæðakröfur og námsskrá. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja skólunum greiðslur í samræmi við raunkostnað við kennsluna, það næst ekki með fyrirkomulagi því sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur til grundvallar framlögum til skólanna.

Sjálfstætt starfandi listamenn. Við þá endurskoðun menningarstefnu borgarinnar sem nú stendur yfir er mikilvægt að hafa vakandi auga á þeirri menningarstarfsemi sem borin er uppi af sjálfstætt starfandi listamönnum og fer fram utan menningarstofnana ríkis og borgar. Skoða þarf sérstaklega þá aðstöðu sem slíkri starfsemi er búin í höfuðborginni. Mikilvægt er að forsendur leigusamninga sem borgaryfirvöld gera um húsnæði undir menningarstarfsemi séu skoðaðir reglulega svo og rekstrargrundvöllur grasrótarstarfs í listum með það að markmiði að húsnæðið nýtist sem best þeirri starfsemi sem því er ætlað að þjóna.

Uppbygging danslistarinnar.  Unnið hefur verið markvisst að því að efla danslistina svo hún hljóti sambærilegan sess og aðrar listgreinar.  Íslenskt danssamfélag er kraftmikið og hugmyndaríkt, innan þess  starfar ört vaxandi hópur danslistamanna sem þráir svigrúm til nýsköpunar og vaxtar. Þessu kalli þurfa opinberir aðilar að sinna með því að leggja danslistinni til aukinn stuðning og betri aðstöðu. Framtíðarsýn danssamfélagsins er að samtvinna starfsemi Dansflokksins og Dansverkstæðis í Danshúsi eins og rætt er um í „Dansstefnu FÍLD 10/20” það væri mikils um vert ef borgin ætti þátt í þeirri vinnu.

Tjarnarbíó. Stjórn BÍL hefur fylgst með starfi sjálfstæðu sviðslistahópanna í Tjarnarbíói og baráttunni við að gera húsið þannig úr garði að það hent starfseminni. BÍL mælist til þess að borgaryfirvöld leggist á sveif með rekstrarfélagi hússins og sjálfstæðu sviðslistahópunum með það að markmiði að finna viðunandi lausn á þeim vanda sem við blasir. Hafa ber í huga að starfsemi sjálfstæðu hópanna er lífsnauðsynleg fyrir þróun sviðslista almennt, þar fara tilraunirnar fram, þar er reynt á þanþol listgreinanna og þar er fólgin forsenda fyrir framþróun íslenskra sviðslista.

Efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina. Talsverð vinna hefur verið lögð í að kortleggja efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina. Ljóst er að þau áhrif eru mun meiri en almennt hefur verið viðurkennt. Núverandi borgaryfirvöld hafa sýnt í verkum sínum að þau hafa skilning á þessum afleiddu áhrifum í starfi listamanna og treystir BÍL á öflugt liðsinni í þeirri vinnu sem framundan er við bætta skráningu tölulegra upplýsinga um listir og skapandi greinar almennt. Þar ber t.d. að hafa í huga og viðurkenna samspil ferðaþjónustu og menningarstarfsemi í höfuðborginni.

 

 

 

Alþjóðlegur jazzdagur 30. apríl

Alþjóðlegur dagur jazzins er haldinn hátíðlegur um allan heim í dag, þriðjudaginn 30. apríl. Það er UNESCO sem blæs til alþjóðlegs dags jazzins öðru sinni, en í fyrra þótti takast sérstaklega vel til þegar þessu merka fyrirbæri var hleypt af stokkunum. 2013 markar upphaf áratugar undir yfirskriftinni: “Viðurkenning, réttlæti og framför fyrir fólka af afrískum uppruna”. Þessi yfirskrift bregður enn einum ljómanum á alþjóðlega jazzdaginn sem Sameinuðu Þjóðirnar munu vntanlega fylkja sér á bakvið. Upprunalandi jazzins, Afríku, verður þess vegna veittur tvöfaldur heiður þetta árið.

Í tilefni dagsins stendur Íslenska UNESCO-nefndin í  samstarfi við Tónlistarskóla FÍH fyrir viðburði í Hörpu kl. 17 – 18.30 undir yfirskriftinni Hvað er jazz? Einnig verða jazz-tónleikar á Jómfrúnni, Kex og Café Rosenberg. Aðgangur er ókeypis á alla viðburði.  Sjá nánari dagskrá hér fyrir neðan og í meðfylgjandi tilkynningu:

Fræðumst, fögnum og fjölmennum eru kjörorð UNESCO fyrir Alþjóðlega Jazzdaginn og verður deginum fagnað í 24 klukkustundir samfleytt um allan heim með fjölbreyttum viðburðum allt frá Beirút til Peking og Dakar til Reykjavíkur.
„Á Alþjóðlega Jazzdeginum taka jarðarbúar höndum saman í friði og sátt og deila ástríðu sinni fyrir tónlist í nafni frelsis og sköpunargleði” segir Irina Bokova Aðalframkvæmdastjóri UNESCO. Þess vegna stóð UNESCO fyrir því að fagna Alþjóðlega Jazzdeginum í fyrsta sinn árið 2012, þá í samstarfi við Velvildarsendiherrann og djasssnillinginn Herbie Hancock. Alþjóðlegi Jazzdagurinn er hátíð draumsins um heim þar sem fólk nýtur hvarvetna friðar og frelsis. „Allir eru hjartanlega velkomnir!” eru skilaboðin frá UNESCO og í ár tökum við Íslendingar virkan þátt í þessum degi.

Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Alþjóðlegi dansdagurinn 2013 – Ávarp Lin-Hwai-min

Message from Lin Hwai-min, Founder/Artistic Director, Cloud Gate Dance Theatre of Taiwan

It is said in the Great Preface of “The Book of Songs,”
an anthology of Chinese poems dating from the 10th to the 7th century BC:

“The emotions are stirred and take form in words.
If words are not enough, we speak in sighs.
If sighs are not enough, we sing them.
If singing is not enough, then unconsciously
our hands dance them and our feet tap them.”

Dance is a powerful expression.
It speaks to earth and heaven.
It speaks of our joy, our fear and our wishes.
Dance speaks of the intangible, yet reveals the state of mind of a person and
the temperaments and characters of a people.

Like many cultures in the world, the indigenous people in Taiwan dance in circle.
Their ancestors believed that evils would be kept out of the circle.
With hands linked, they share the warmth of each other and move in communal
pulses.  Dance brings people together.

And dance happens at the vanishing point.
Movements disappear as they occur.
Dance exists only in that fleeting instant.
It is precious. It is a metaphor of life itself.

In this digital age, images of movements take millions of forms.
They are fascinating.
But, they can never replace dance because images do not breathe.
Dance is a celebration of life.

Come, turn off your television, switch off your computer, and come to dance.
Express yourself through that divine and dignified instrument, which is our body.
Come to dance and join people in the waves of pulses.
Seize that precious and fleeting moment.
Come to celebrate life with dance.

Ávarp í tilefni alþjóðlega dansdagsins

Í dag er Alþjóðlegi Dansdagurinn. Af því tilefni skrifar Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, formaður FÍLD – Félags íslenskra listdansara: 

Meðallengd dansnáms þegar dansari útskrifast er sautján ár og á þeim tíma hefur dansari lært að stjórna smæstu hreyfingum, ýkja og nota þær stærstu, skilja á milli fínhreyfinga og kækja, telja óteljandi sinnum upp að átta, fengið blöðrur, marbletti, og svöðusár, dottið, staðið upp, endurtekið og byrjað aftur. Í sautján ár. Á þeim tíma lærir dansarinn að beita sjálfsaga, bera virðingu fyrir eigin líkama, verkfærinu sem honum er gefið og virkja um leið sköpunarkraftinn innra með sér.

Þrátt fyrir mikla framþróun í faginu síðustu ár getum við ennþá kallað listdansinn unga starfsgrein og að mörgu er að hyggja. Danssamfélagið á Íslandi þarf að standa saman að því að leysa stærstu hugsjónamálin og mynda þannig sterka heild sem eftir er tekið. Í byggingaflóru Reykjavíkur er meðal annars að finna leikhús, kvikmyndahús, bókasöfn, listasöfn og tónlistarhús. Það er réttmæt krafa að bæta við danshúsi, og gefa þar með grasrótinni, sjálfstæða geiranum og Íslenska Dansflokknum tækifæri til að vinna saman að því að verða sýnilegri í íslensku og erlendu samfélagi og tryggja um leið betra aðgengi að listdansinum.

Að sama skapi er það réttlætismál að listgreinarnar njóti jafnræðis þegar kemur að fjárhagslegum stuðningi við listaskóla. Í um hundrað ár hafa konur nær undantekningarlaust stofnað og rekið alla listdansskóla hér á landi, lengst af án fjárhagslegs stuðning. Það er eðlileg og réttmæt krafa að lausn náist á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaganna hvað varðar fjármögnun til Listdansnáms á grunn og framhaldsskólastigi.

Dansinn er alþjóðlegt tungumál sem við deilum öll. Markmið alþjóðlega dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir. Það er því lag að reima á sig dansskónna og dansa inn í vorið því eins og Hemmi Gunn segir: “Dansa, hvað er betra en að dansa?”

Alþjóðlegi dansdagurinn 2013

29. apríl er alþjóðlegi dansdagurinn haldinn hátíðlegur. FÍLD, Félag Íslenskra Listdansara býður til veislu af því tilefni á Dansverkstæðinu við Skúlagötu, heimili sjálfstæða dansgeirans; DANS ÆÐI og LUNCH BEAT kl. 10.00 – 16:00

Dans Æði er lifandi safn um dans fyrir börn á aldrinum 4-12 ára. Í safninu verður hægt að hitta dansara, vera dansari, sjá dans og jafnvel skapa dans á veggjunum. Höfundur og listrænn stjórnandi er Aude Busson.

Milli 12:00 og 13:00 verður Lunch Beat Special danspartý í boði Choreography Reykjavík. Plötusnúðurinn verður danshöfundurinn. dansarinn, plötusnúðurinn og formaður FÍLD, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir.

Hádegismatur verður í boði FÍLD klukkan 13:00 og við hvetjum fólk til að staldra við eftir dansinn og njóta veitinga saman.

Markmið dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir. Færa fólk nær hvert öðru í friði og vináttu með þessu landamæralausa tungumáli sem við eigum öll sameiginlegt – dansinum sjálfum. Nú er kominn tími til að reima á sig dansskóna og dansa sig inn í vorið!

Nánar um FÍLD:
Félag íslenskra listdansara (FÍLD) er sameiginlegur vettvangur listdansara, listdanskennara, danshöfunda, listdansskóla, listdanshópa og dansflokka á Íslandi. FÍLD leiðir baráttu sinna aðilafélaga gagnvart stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum, það vinnur að auknu rými fyrir dans og sýnileika hans sem og bættu starfsumhverfi þegar kemur að aðstöðu og aðbúnaði fyrir listdans á Íslandi. FÍLD vinnur að því að byggja upp samhæfingu og samhug milli ólíkra aðildafélaga sinna og virkja sameiginlega kraft þeirra til þess að mæta síbreytilegum áskorunum samtímans af ábyrgð og áræðni. 

Allar nánari upplýsingar veitir:
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir
690-5266
formadur@fild.is

Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í málefnum listafólks?

Bandalag íslenskra listamanna sendi stjórnmálaflokkunum, sem bjóða fram á landsvísu í komandi kosningum til Alþingis, fjórar spurningar um málefni listamanna og skapandi atvinnugreina. Fimm flokkar hafa nú svarað spurningunum og fara bæði spurningarnar og svörin hér á eftir:

Hvaða sjónarmið hefur flokkurinn varðandi þá verkefnatengdu sjóði sem komið hefur verið á með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til þriggja ára? Þar er um að ræða stórefldan Kvikmyndasjóð, Hönnunarsjóð, Myndlistarsjóð og Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Mun flokkurinn beita sér fyrir því að þessir sjóðir fái sess á fjárlögum til frambúðar?

Björt framtíð: Þingmaður Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson, hafði frumkvæði að þessu máli og greiddi því að sjálfsögðu atkvæði ásamt Róbert Marshall. Flokkurinn mun beita sér fyrir því að þessir sjóðir fái sess á fjárlögum til frambúðar.

Dögun: Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um sjóði tengda fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar en hefur lagst gegn fjármögnunarleiðum hennar, þ.e. arðgreiðslum bankanna og sölu ríkisins á eignarhlutum sínum í þeim. Dögun er hins vegar fylgjandi styrkjum til menningarstarfs almennt og í stefnu flokksins segir að styrkja eigi þá í sessi. Dögun telur hins vegar nauðsynlegt að tryggja fagmennsku og gegnsæi í allri úthlutun opinberra fjármuna

Framsóknarflokkurinn: Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin lagt sérstaka áherslu á að standa við bakið á verkefnum sem styðja við þróun og útrás á íslenskri list og hönnun. Efla þarf Kvikmyndasjóð Íslands og kanna þarf með hvaða hætti hægt er að greiða enn frekar fyrir en nú er að erlendir kvikmyndaframleiðendur sjái sér hag í því að taka upp kvikmyndir sínar hérlendis. Sérstaklega þarf að horfa til kynninga á erlendri grundu og vitundarvakningar innanlands ásamt því að skoða það skattaumhverfi sem slíkum verkefnum fylgir.

Lýðræðisvaktin: Það er engin spurning að sóknarfærin eru mest í vitundariðnaðinum/listunum. Við eigum að stórefla framleiðslu á leiknu sjónvarps- og kvikmyndaefni. Myndlistin og tónlistin eiga sömuleiðis að eiga sess í fjárlögum, þar á að gjörbylta framlögum. Það á að koma á hvetjandi skattalögjöf fyrir þessar greinar – t.d. má sjá fyrir sér tímabundið afnám skatta á meðan viðkomandi listamaður/listamenn koma undir sig fótunum varðandi kynningar og vinnslu listafurða.

Píratar: Píratar beita sér fyrir fjölbreyttu atvinnulífi. Píratar eru jafnframt flokkur beins lýðræðis og teljum við að fjárlagagerð ætti að vera lýðræðislegt ferli þar sem flestir eiga að koma að borði svo að hagsmunum allra sé gætt. Eins og er hafa Píratar það ekki á stefnuskrá sinni að koma í veg fyrir að þessir sjóðir verði festir í sessi í fjárlögum.
Við teljum það eindregið vera samfélaginu til framdráttar að hið opinbera styðji við skapandi iðnað og hafa margir innan flokksins mikinn áhuga á þessum málaflokki, hafa t.d. kynnt sér skýrslu Dr. Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur, ‘Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina’, Skýrslu Iðnaðarráðuneytisins og hönnunarmiðstöð Íslands – ‘Rannsóknarvinna fyrir gerð hönnunarstefnu íslands’, Skýrslu mennta- og menningamálaráðuneytisins, ‘Skapandi greinar – sýn til framtíðar’ og Stefnumörkun Mennta og menningarmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna (FK) og Samtök kvikmyndaleikstjóra (SKL). fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012 og 2015.
Sérstakur málefnahópur innan framboðsins hefur verið stofnaður og mun hann beita sér fyrir eflingu á skapandi iðnaði, samhliða stuðningi hins opinbera við hann, þar á meðal við lítil og meðalstór fyrirtæki.

Regnboginn:  Já Regnboginn munum beita sér fyrir því.

Samfylkingin: Samfylkingin styður heilshugar eflingu kvikmyndasjóðs sem og stofnun nýrra sjóða líkt og Hönnunarsjóð, Myndlistarsjóð og Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Flokkurinn telur einnig að stofnun Sviðslistasjóðs með nýjum sviðslistalögum sé brýn.  Samfylkingin stóð að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og sýndi í verki vilja sinn til að efla skapandi greinar og setja stuðning við þær í forgang. Samfylkingin vill jafnt meta í verki framlag skapandi greina til atvinnulífs og efnahagslegt gildi þeirra  sem og hið listræna og sammenningarlega gildi sem listir, hönnun og aðrar skapandi greinar hafa fyrir samfélagið.
Samfylkingin telur að næsta skref sé að  festa árangur greinanna í sessi með langtímaáætlun um eflingu verkefnasjóða, aðgengi skapandi greina að rannsókna- og þróunarfé og aðgengi sprotafyrirtækja í skapandi greinum að skattalegum hvatakerfum.  Flokkurinn vill því ekki aðeins að tilgreindir sjóðir njóti til framtíðar stuðnings á fjárlögum heldur einnig að staða greinanna sé skoðuð heildrænt og þeim tryggð góð vaxtarskilyrði á öllum sviðum, frá hinni fyrstu listrænnu sköpun til þess að afurðir listræns hugvits séu settar á markað.
Einnig er brýnt að styrkja menntun í skapandi greinum en líkt og fram kemur í stefnu flokksins frá síðasta landsfundi vill flokkurinn auka framboð á framhaldsmenntun í listgreinum, efla menntun og endurmenntun listgreinakennara í listgreinum.

Sjálfstæðisflokkurinn:  Í stefnu Sjálfstæðisflokksins er bent á mikilvægi þess að hlúa að lista- og menningarlífi þjóðarinnar og staðið sé vörð um menningarstofnanir, þar sem mikil þekking og reynsla býr. Með kynningu íslenskrar menningar má gefa jákvæða mynd af landi og þjóð og í henni geta falist fjölbreytileg verðmæti.
Mikilvægt er að þjóðin sé ávallt vel upplýst um sögu sína og menningararf.
Opinber stuðningur við lista- og menningarstarfsemi, eins og aðrar atvinnugreinar, skal ævinlega vera gegnsær og byggður á traustum, faglegum og fjárhagslegum forsendum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Já flokkurinn mun beita sér fyrir því að þörfin fyrir þá sjóði sem hér eru nefndir verði viðurkennd á Alþingi. Á undanförnum mánuðum hefur starfsemi í kvikmyndaiðnaði aukist og nauðsynlegt er að halda kvikmyndasjóði öflugum eftir að það högg sem hann tók á sig í kjölfar efnahagshrunsins hefur verið leiðrétt. Myndlistarsjóður er einn hinna nýju sjóða sem á sér stoð í lögum og því verður fjármögnun hans sett í hefðbundinn farveg hvað fjárlagavinnu varðar. Hönnunarsjóður sem er að taka til starfa er hluti fjárfestingaráætlunar en íslensk hönnun verður sífellt meira áberandi svið í íslenskri menningu. Það svið er breitt en einnig þarf að gæta vel að aðkomu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á því sviði, eins og á sviði íslenskrar tónlistar sem aukið hefur athygli á Ísland og íslenskri menningu víða um heim. Stuðningur við Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar þarf einnig að skoðast í samhengi við mögulegar breytingar á Tónlistarsjóði.

Hvaða sjónarmið hefur flokkurinn varðandi launasjóði listamanna? Nú hefur þriggja ára áætlun um fjölgun mánaða runnið sitt skeið og listamenn hafa kallað eftir nýrri þriggja ára áætlun um áframhaldandi eflingu sjóðanna. Hver er afstaða flokksins til slíkra hugmynda?

Björt framtíð: Björt framtíð styður þriggja ára áætlun um áframhaldandi eflingu sjóðanna.

Dögun: Dögun telur launasjóð listamanna mikilvægan og beri að styrkja í sessi og telur auk þess mikilvægt að úthlutunarnefndir séu faglegar í störfum sínum og nefndarmenn sitji ekki of lengi og að jafnræði gildi á milli listgreina þegar kemur að úthlutunum. Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um fjölgun mánaða en vill almennt efla styrki til menningamála og listamanna sjálfra.

Framsóknarflokkurinn: Gera þarf listastarfsemi sjálfbæra þannig að iðkendur lista geti í auknum mæli haft framfæri sitt af slíkri starfsemi. Framsóknarflokkurinn lítur svo á að heiðurslaun listamanna séu ekki besta leiðin til að stuðla að grósku í íslensk listalífi. Framsóknarflokkurinn leggur til að heiðurslaun listamanna verði lögð niður í núverandi mynd og að það fjármagn sem til sparast verði notað í sérstök starfslaun fyrir unga listamenn.

Lýðræðisvaktin: Koma þarf lagi á launasjóði listamanna. Reiknuð starfslaun listamanna eru allt of lág – þá þarf að vera enn betra aðgengi og yfirlit yfir alla sjóði sem listamenn geta sótt í. Eins er nauðsynlegt að auka aðgengi og vinnslu gagna sem sýna fram á tillegg listanna til samfélagsins í krónum og eins í menningarlegu tilliti.

Píratar: Við vísum í svar okkar við spurningu nr 1.

Regnboginn: Regnboginn vill gera áframhaldandi áætlun en leggja meira í að styrkja unga listamenn.

Samfylkingin:  Samfylkingin styður eflingu launasjóða listamanna.  Flokkurinn telur hinsvegar að sífellt þurfi að endurmeta virkni kerfisins svo sem með tilliti til nýliðunar, fjölbreytni og skilvirkni.  Launasjóðir listamanna er einn fyrsti hlekkurinn í virðiskeðju skapandi greina og er ástæða til að skoða frekar en gert hefur verið, tengsl þeirra við verkefnissjóði.

Sjálfstæðisflokkurinn: Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir að lög um listamannalaun verði endurskoðuð, m.a. með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði, sem starfa á samkeppnisgrunni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð:
Launasjóðir listamanna eru mikilvægir bæði í menningarlegu og atvinnuþróunarlegu tilliti. Mánaðarlaunum í sjóðunum hefur verið fjölgað á kjörtímabilinu, en upphæðir starfslauna og skipting milli einstakra sjóða í listgreinum þurfa alltaf að vera í endurskoðunum þegar ný stjórn launasjóðanna kemur að málum. Mikilvægast er að stefnumarkandi ákvarðanir í þessum málum séu öllum kunnar og um þær ríki sem breiðust sátt. 
 

Hver er stefna flokksins í málefnum skapandi atvinnugreina? Styður flokkurinn í meginatriðum tillögurnar sem settar eru fram í skýrslunni Skapandi greinar – Sýn til framtíðar?

Björt framtíð: Já.

Dögun: Dögun telur alla listsköpun, sem og aðrar skapandi greinar, mikilvægan þátt atvinnulífsins og hafa auk þess gildi í sjálfu sér. Auk þess styðja þær við margar aðrar greinar, svo sem ferðaþjónustu og afþreyingariðnað. Hagræn áhrif menningarstarfs eru meiri en í flestum öðrum greinum og afleidd störf af ýmiskonar sköpun einnig umtalsverð. Flokkurinn styður í meginatriðum tillögur skýrslunnar.

Framsóknarflokkurinn: Í menntastefnu Framsóknar er lögð sérstök áhersla á að efla verk- og tæknimenntun, hönnunar- og listnám. Hér koma öll skólastig við sögu, allt frá leikskóla til háskóla. Framsóknarflokkurinn hefur lagt sig sérstaklega fram um að standa við bakið á og efla ýmis sprotaverkefni og nýsköpun.Framsóknarmenn vilja efla enn frekar nýsköpun  í atvinnulífi t.d. í gegnum skattkerfið og veita rannsóknar- og þróunarstyrki. Veita skattaívilnanir vegna fjárfestinga einstaklinga í nýsköpunarfyrirtækjum.  Við viljum einfalda regluverk um stofnun og rekstur atvinnufyrirtækja til þess að draga úr skriffinnsku og kostnaði. Til þess að þeir sem starfa innan hönnunar og lista geti blómstrað þarf að vera til staðar aðstoð, fjármagn og leiðsögn Framsóknarflokkurinn gleðst yfir áherslum á sköpun í námskrám leik- grunn- og framhaldsskólum. Þar sem sköpun  á að vera samofið öllu starfi á þessum skólastigum. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að skólar fái nauðsynlega aðstoð og aðstöðu til að geta staðið við þessa áherslu. Einnig verða yfirvöld menntamála að sjá til þess að veita ráðgjöf og standa fyrir markvissu ytra eftirliti.

Lýðræðisvaktin: Telur að stórauka eigi vægi skapandi greina á fyrstu árum grunnskóla – skapandi hugsun, sem leiðir af sér skapandi fólk og þá greinar verður auður sem gefur mest af sér í framtíðinni.

Píratar: Við vísum í svar okkar við spurningu nr 1.

Regnboginn: Regnboginn vill fjölbreyttara atvinnulíf og skapandi greinar eru hluti þess.  Við styðjum í meginatriðum þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni.

Samfylkingin: Samfylkingin stóð með samstarfsflokki sínum að skipan þess starfshóps sem vann skýrsluna Skapandi greinar – Sýn til framtíðar. Þegar skýrslan var kynnt 19. október sl. lýstu ráðherrar Samfylkingarinnar yfir stuðningi og ánægju með tillögur skýrslunnar og hafa með samstarfsráðherrum þegar hrint fyrstu tillögunni í framkvæmd og stofnað formlegan samstarfsvettvang um uppbyggingu skapandi greina.  Flokkurinn styður tillögur skýrslunnar.
Stefna flokksins í skapandi greinum er fjölþætt og vísum við á menningarstefnu okkar hvað þær varðar (bls 6). Í inngangi að menningarstefnnu segir eftirfarandi og endurspeglar hann afstöðu flokksins til greinanna:
Samfylkingin vill stuðla að umgjörð fyrir kraftmikið menningarlíf, sem virkjar sköpunarkraft þjóðarinnar og styrkir sjálfsmynd hennar. Fjölskrúðugt menningarlíf er einn helsti styrkur íslensks samfélags og almenn þátttaka þjóðarinnar í menningarstarfi á vart sinn líka. Skapandi greinar eru burðargrein í íslensku atvinnulífi, samanber Kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina frá 2010 og ljóst að þær skapa ört vaxandi útflutningstekjur. Skapandi greinar snerta mörg svið samfélagsins og þarf að nálgast uppbyggingu þeirra með samvinnu, þvert á stjórnkerfi, ráðuneyti og atvinnulíf.”

Sjálfstæðisflokkurinn:  Skapandi greinar eru ört vaxandi hluti atvinnulífsins. Hvatt er til samvinnu skapandi greina við aðrar atvinnugreinar einkum í ferðaþjónustu sem felur í sér mörg tækifæri.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur á herslu á að tryggja arðsemi þeirra fjármuna sem opinberir aðilar leggja fram til stuðnings í skapandi greinum. Allar opinberar aðgerðir sem farið er í til stuðnings einstökum atvinnugreinum skulu þannig ávallt hafa skýr og mælanleg markmið um árangur.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Skapandi þætti í atvinnulífinu má  finna víða, en það svið sem oft gengur undir nafninu „skapandi greinar“ hefur mikið vægi þegar kemur að nýsköpun og atvinnuþróun í samfélaginu. Skýrslan sem hér er nefnd, kortlagning hagrænna áhrifa skapandi greina og fleira sem unnið hefur verið á núverandi kjörtímabili sýnir fram á þetta mikilvægi.  Formlegur samstarfsvettvangur um þetta svið sem mælt er fyrir um í skýrslunni hefur tekið til starfa, efla þarf hagtölusöfnun á þessu sviði og kortleggja sviðið betur. Ríki og Reykjavíkurborg þurfa að huga að sameiginlegum hagsmunum og auka fagmennsku í úthlutunum í sjóðum. Fleiri góðar ábendingar er að finna í nefndri skýrslu.  

Styður flokkurinn gildandi löggjöf um höfundarrétt nr. 73/1972 og opinberar reglur um höfundarrétt?  Ef ekki hver er þá stefna flokksins í málum er varða höfundarrétt listamanna, þ.m.t. höfundarréttarvarið efni á netinu?

Björt framtíð: Já.

Dögun: Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um höfundarrétt að öðru leyti en því að flokkurinn vill auka aðgengi almennings að safnkosti opinberra safna með rafrænum hætti í samstarfi við höfundarétthafa. Dögun telur hins vegar að allir eigi að njóta sanngjarnra launa fyrir sína vinnu, listamenn sem aðrir.

Framsóknarflokkurinn: Engin ný lög eru komin fram varðandi höfundarétt og nú í menntastefnu Famsóknarflokksins leggjum við áherslu á að auka aðgengi, m.a. af námsefni á netinu og auðvitað þarf að tryggja höfundarrétt þó svo að þeir sem kynnt hafa sér stefnu um málið segi að æ erfiðara verði að ná utanum efnið á netinu.  

Lýðræðisvaktin: Já, ennfremur vill Lýðræðisvaktin skattleggja höfundartekjur með öðrum hætti en gert er í dag – höfundatekjur á að skattleggja eins og leigutekjur.

Píratar:  Píratar eru mjög fylgjandi höfundarrétti en við teljum að ómögulegt sé að framfylgja núverandi lögum án þess að vega að grundvallar mannréttindum, þ.m.t. friðhelgi einkalífsins, tjáningar- og upplýsingafrelsi. Flestar upplýsingar nútímans eru tiltækar á rafrænu formi, sumar þeirra eru jafnvel alfarið geymdar á rafrænu formi. Netsíur og önnur sambærileg ritskoðun myndi setja hömlur á upplýsingafrelsi almennings samhliða röskun á friðhelgi einkalífs hans, t.d. ef settar yrðu á forvirkar heimildir stjórnvalda til þess að fylgjast með netnotkun hvers og eins. Þetta umhverfi vilja Píratar laga með því sjónarmiði að gæta hagsmunum allra sem eiga í hlut. Píratar hafa nú ályktað um endurskoðun höfundarréttar, sjá nánar: https://x.piratar.is/polity/1/document/36/. Þarna er aðeins um ályktun að ræða og leitast skal eftir þverpólitískri samvinnu við alla hagsmunaaðila ef fara á út í lagabreytingar.

Regnboginn: Já við styðjum þessa löggjöf og viljum standa vörð um höfundarrétt.

Samfylkingin: Að sjálfsögðu styður flokkurinn gildandi lög, opinberar reglur um höfundarétt sem og alþjóðlegar samþykktir og sáttmála um höfundarétt sem Ísland á aðild að.  Í löggjöf  þarf á öllum tímum að  taka mið af breyttri tækni, þörfum og landslagi en um leið brýnt að gætt sé þess að réttur og hagsmunir höfunda og eigenda hugverkaréttinda, sé ekki fyrir borð borinn.  Ein leið, varðandi niðurhal af netinu, er að finna leið með nýrri lagasetningu, til að rétthafar fái greitt fyrir eintakagerð hugverka til einkanota.  Samfylkingin hefur ekki tekið afstöðu til slíkrar nýrrar lagasetningar og telur að kosti og galla hennar þurfi að skoða vandlega.  Mikilvægt er að auka vitund almennings um rétt höfunda, líkt og listafólk hefur gert sjálft með áhugaverðri auglýsingaherferð á síðustu mánuðum.

Sjálfstæðisflokkurinn:  Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að staðið sé vörð um eignaréttinn á öllum sviðum, þar með talinn höfundarrétt listamanna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Eins og sést best á númeri laganna er kominn tími á að uppfæra margt í þeim, enda hafa breytingar verið hraðar á undanförnum árum. Á núverandi kjörtímabili hafa fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis unnið náið með hagsmunaaðilum á þessu svið á vettvangi Höfundarréttanefndar en nauðsynlegt er að sú vinna haldi áfram þar sem um flókið og mikilvægt svið er að ræða. Höfundarréttarmál þurfa að skoðast í alþjóðlegu samhengi, einkum vegna netsins. Tryggja þarf löglegar leiðir til dreifingar yfir netið þar sem listamenn fá hlutdeild fyrir vinnu sína. Hvað menningararfinn varðar, t.d. myndlist sem finna má í söfnum landsins, er mikilvægt að greitt verði fyrir betra aðgengi almennings að þessum arfi. Miðlunarmöguleikar netsins eru miklir og hagsmunir stjórnvalda og listamanna fara að miklum hluta til vel saman hvað þetta varðar.

BÍL ÞAKKAR ÞEIM FLOKKUM SEM SENDU SVÖR VIÐ SPURNINGUNUM.

Page 10 of 27« First...89101112...20...Last »