Fréttir

Yfirlýsing norrænna listamannasamtaka

Systursamtök Bandalags íslenskra listamanna á Norðurlöndum sendu í dag mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni og formanni stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. Ingva Hrafni Óskarssyni yfirlýsingu vegna nýlegra aðgerða stjórnenda Ríkisútvarpsins, sem vega að grunnstoðum þeirrar merku menningarstofnunar sem Ríkisútvarpið er. Yfirlýsingunni hefur verið komið á framfæri við fjölmiðla. Hún birtist hér í íslenskri þýðingu: 

Systursamtök Bandalags íslenskra listamanna á Norðurlöndum lýsa þungum áhyggjum vegna þeirra gagngeru breytinga sem gerðar hafa verið á almannaþjónustu Ríkisútvarpsins á Íslandi – RÚV.

Uppsagnir 39 starfsmanna af  tónlistar- og menningarsviðum stofnunarinnar, munu hafa alvarlegar afleiðingar á dagskrána og draga úr gæðum hennar. Ráðstafanir þær sem gripið hefur verið til eru ekki einungis til komnar vegna erfiðrar fjárhagsstöðu heldur bera þær vott um forgangsröðun stjórnenda Ríkisútvarpsins.

Séð að utan standa listir og menning á Íslandi í miklum blóma. Tjáningin er kraftmikil og vitnar  um stolt þeirra sem trúað er fyrir dýrmætri norrænni tungu. Útvarp í almannaþágu ætti að standa vörð um slíkan auð.

Ríkisútvarpið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lista- og menningarlífi Íslendinga í meira en 80 ár. Við erum sannfærð um að á tímum efnahagslegra þrenginga skiptir virkur stuðningur við skapandi starf innan menningarstofnana meira máli en nokkru sinni. Félagar okkar í Bandalagi íslenskra listamanna (BÍL) líta á Ríkisútvarpið sem máttarstólpa listar og menningar og hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem RÚV stendur frammi fyrir. Við lýsum fullum stuðningi við þeirra mikilvægu baráttu.

Virðingarfyllst,

Henrik Petersen, forseti Bandalags danskra listamanna, Danmörku
Bárður í Baiansstovu, forseti Bandalags færeyskra listmanna (LISA), Færeyjum
Ilkka Niemeläinen, forseti Samstarfsnefndar listamanna – Forum Artis, Finnlandi
Leif Saandvig Immanuelsen, forseti Listamannasamtaka Grænlands (EPI), Grænlandi
Anders Hovind, varaforseti Félags norskra hljómlistarmanna, Noregi
Brita Kåven, framkvæmdastjóri Bandalags samískra listamanna, Samalandi
Mats Söderlund, forseti Samstarfsnefndar listamanna og rithöfunda (KLYS), Svíþjóð

 

Yfirlýsing vegna uppsagna á RÚV

Í gær var 39 starfsmönnum Ríkisútvarpsins sagt upp störfum og boðaðar enn frekari uppsagnir á næstunni. Aðgerðirnar þykja bæði harðneskjulegar og illa rökstuddar. Nægir að nefna að enn er fjárlagafrumvarpið ekki komið til annarrar umræðu og því ekki útséð um endanlega niðurstöðu hinns opinbera framlags til stofnunarinnar.  Þá þykir með ólíkindum að dagskrárgerðarmönnum hafi verið sagt að yfirgefa starfsstöðvar sínar tafarlaust og þess ekki óskað að það starfaði sinn lögbundna uppsagnarfrest.

Af þessu tilefni hefur verið hafin undirskriftasöfnun á vefnum þar sem uppsögnunum er mótmælt og stjórnvöld hvött til að beita sér svo hægt verði að rýmka fjárhag stofunarinnar og afturkalla uppsagnirnar. Allir formenn aðildarfélaga Bandalags íslenskra listamanna og forseti eru meðal þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsingu af þessu tilefni, sem send var stjórnvöldum og fjölmiðlum. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Ríkisútvarpið er ein allra mikilvægasta stofnun lýðveldisins Íslands. Og gott betur því um átta áratuga skeið hefur hún verið einn af burðarásum menningarlífsins, atkvæðamikil í mótun sjálfsvitundar okkar, áttaviti og staðsetningartæki. Sérstaða Ríkisútvarpsins er að þessu leyti alger í flóru íslenskra fjölmiðla. Það er því með nokkrum ólíkindum ef stjórnvöld ætla að láta viðgangast þann niðurskurð sem nú hefur verið boðaður þar sem höggva á stór skörð í mannaflann og hola innan dagskrána.
Við undirrituð viljum mótmæla þessum gerningi og hvetjum þingheim til að afturkalla hann hið bráðasta og búa svo um hnúta að Ríkisútvarpinu verði áfram gert kleift að sinna lögboðnu menningar- og fræðsluhlutverki sínu. Það hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú.

Andri Snær Magnason, rithöfundur
Björn Th. Árnason, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna
Guðrún Kvaran, prófessor
Gunnar Guðbjörnsson, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags kvikmyndargerðarmanna
Hrafnhildur Sigurðardóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna
Jakob Frímann Magnússon, formaður Félags tónskálda og textahöfunda
Jón Páll Eyjólfsson, formaður Félags leikstjóra á Íslandi
Kjartan Ólafsson, formaður Tónskáldafélags Íslands
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna
Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur
Kristín Jóhannesdóttir, leikstjóri
Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands
Kristján Árnason, prófessor
Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda
Pétur Gunnarsson, rithöfundur
Ragnar Bragason, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra
Randver Þorláksson, formaður Félags íslenskra leikara
Rebekka Ingimundardóttir, formaður Félags leikmynda- og búningahöfunda
Sigríður Magnúsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara
Sigríður Ólafsdóttir, formaður Arkitektafélags Íslands
Sigurður Pálsson, rithöfundur
Sigurbjörg Þrastardóttir, rithöfundur
Sveinn Einarsson, leikstjóri
Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur
Þorbjörn Broddason, prófessor

Erindi til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlaga 2014

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, sem eru heildarsamtök listafólks í fjórtán aðildarfélögum, telur mikilvægt að finna leiðir til að framtíðaráform um uppbyggingu verkefnatengdra sjóða á vettvangi lista og hönnunar gangi eftir. Í því skyni leggur BÍL til eftirfarandi breytingar á fjárlagafrumvarpi 2014:

Framlag til Kvikmyndamiðstöðvar hækki úr            110,6     í                 127,2

Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr                       624,7     í              1.020,0

Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr            68,5     í                  89,8

Framlag til Tónlistarsjóðs hækki úr                             44,9     í                 81,1

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar hækki úr           0        í                 20,0

Verkefnið Tónlist fyrir alla hækki úr                              0        í                   6,0

Bókasafnssjóður höfunda hækki úr                            22,0     í                 42,6

Miðstöð íslenskra bókmennta hækki úr                     66,6     í                 92,0

Myndlistarsjóður hækki úr                                              0         í                 45,0

Hönnunarsjóður hækki úr                                               0         í                 45,0

Barnamenningarsjóður hækki úr                                   3,9      í                   8,0

Handverkssjóður hækki úr                                             0          í                15,0

Styrkir á sviði listgreina hækki úr                                35,5      í                 64,6

Samningar sveitarfélaga um menningarmál úr      207,4     í              230,4

Samningur við Akureyrarbæ um mennmál.úr         138,0     í              140,4

Kynning á menningu og listum erlendis    úr             10,6     í                12,0

 

Samtals leggur BÍL til hækkun þessara liða úr     1.332,7    í    2,039,1  eða um 706,4 milljónir

Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu ríkissjóðs og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að það fé sem ríkissjóður leggur til verkefnatengdra sjóða á listasviðinu sé mikilvæg fjárfesting í hugviti og sköpunarkrafti, sem muni skila sér margfalt bæði með beinum hætt í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum um hagræn áhrif lista og menningar.

Þá leggur Bandalag íslenskra listamanna áherslu á að mennta- og menningarmálaráðuneytinu verði gert það kleift að viðhalda samningum við miðstöðvar listgreina og hönnunar; Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Íslenska tónverkamiðstöð, Hönnunarmiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, sú síðasttalda er raunar enn í burðarliðnum og þarf verulega á opinberum stuðningi að halda til að komast almennilega á legg. En þessar miðstöðvar gegna lykilhlutverki í kynningu lista og menningar á erlendri grund, m.a. með því að veita faglega ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands, Íslandsstofu og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja.

Loks leggur BÍL áherslu á að mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, geri nýja áætlun um áframhaldandi vöxt og  viðgang launasjóða listamanna á komandi fjárhagsári. Slík áætlun var í gildi á árabilinu 2009 – 2011, en fjöldi mánaða í sjóðunum hefur staðið í stað síðan sú áætlun rann sitt skeið.

Stjórn BÍL sendi erindi til fjárlaganefndar 29. október sl. þar sem þess var óskað að fulltrúar BÍL fengju að koma á fund nefndarinnar til að fylgja úr hlaði erindi þessu, en þau svör bárust frá starfsmanni nefndarinnar Ólafi Elfari Sigurðssyni að nefndin tæki ekki lengur á móti gestum öðrum en þeim sem hún boðaði sérstaklega á sinn fund.  Þetta þykir okkur miður, þar sem fulltrúar BÍL hafa árum saman átt fundi með nefndinni í aðdraganda fjárlaga, ýmist nefndinni allri eða hluta hennar. Af því tilefni óskar stjórn Bandalagsins eftir því að nefndin bjóði fulltrúum BÍL til fundar einhvern næstu daga með það að markmiði að ræða inntakið í erindi þessu.

Reykjavík 11. nóvember 2013

Virðingarfyllst,
f.h. stjórn Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

 

 

Niðurskurðaráform stjórnvalda kalla fram sterk viðbrögð

Í gær var fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gert opinbert og er óhætt að segja að þar komi margt afar illa við listamenn sem reiða sig á stuðning verkefnatengdra sjóða í starfi sínu.  Bæði Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra hafa sent frá sér ályktanir vegna áforma um niðurskurð og segja að nái þau fram að ganga muni það kalla hrun yfir íslenska kvikmyndagerð. Yfirlýsingar félaganna fara hér á eftir:

Félag kvikmyndagerðamanna harmar fréttir um niðurskurð ríkisstjórnarinnar til Kvikmyndasjóðs sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Sú uppbygging og fjárfesting sem hefur átt sér stað í kvikmyndageiranum frá árinu 2012 og varð að veruleika 2013 verður nú að engu og afleiðingar grafalvarlegar fyrir þennan viðkvæma iðnað.

Þessi niðurskurður mun því miður fyrst og fremst kippa fótunum undan innlendri kvikmyndagerð sem stóð mjög völtum fótum eftir þá atlögu sem var gerð þegar sjóðirnir voru skornir niður um 35% 2009. Nú er fjármagnið skorið niður um 42% sem er hrein atlaga að greininni. Áætla má að rúmlega 200 ársstörf tapist í kvikmyndagerð og ljóst er að bæði þekking og faglegt vinnuafl mun hverfa úr landi.

Fjármögnun íslenskra kvikmynda byggir fyrst og fremst á góðu grunnfjármagni frá Kvikmyndasjóði og það hefur hefur verið sýnt fram á það að hver króna margfaldast við það (sjá Hagræn áhrif kvikmyndagerðar eftir Dr. Ágúst Einarsson, Bifröst 2011).

Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður líkti fyrirhugðum niðurskurðaraðgerðum ríksistjórnarinnar við að „slátra mjólkurkúnni“ við tökum heilshugar undir þau orð. Við hvetjum Alþingi til að leiðrétta þennan örlagaríka kúrs og forða íslenskri kvikmyndamenningu frá hruni en við slíkar aðstæður og síendurtekinn niðurskurð getur engin atvinnugrein vaxið og dafnað.

42% niðurskurður til kvikmyndagerðar
Samtök kvikmyndaleikstjóra fordæma harkalega þann mikla niðurskurð á framlögum til kvikmyndagerðar, sem lagður er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014. Ef fram fer sem horfir er þetta stærsti einstaki niðurskurður sem greinin hefur orðið fyrir.

Þetta yrði mikið áfall en á sama tíma illskiljanlegt. Í framhaldi af stóra niðurskurðinum árið 2010 virtist þverpólitísk samstaða um að auka þyrfti verulega fjárfestingu í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. vegna jákvæðra hagrænna áhrifa hennar. Íslensk kvikmyndagerð er atvinnugrein í örum vexti sem skapar mikil efnahagsleg og menningarleg verðmæti fyrir þjóðina.

Með tillögum sínum hefur ríkisstjórnin tekið pólitíska ákvörðun um að afþakka hreinar tekjur upp á hundruði milljóna. Rúmlega 200 ársverk myndu tapast vegna þessarar ákvörðunar, þekkingarflótti yrði úr greininni og auknar byrðar yrðu lagðar á ríki í formi atvinnuleysisbóta. En ekki síst verður þjóðin af menningarverðmætum, fjölda verka á okkar tungumáli og sem sprottin eru úr okkar veruleika. Við verðum af sögum sem taka þátt í að skapa sjálfsmynd okkar og eru veigamikill hluti í hinu andlega heilbrigðiskerfi.

Íslensk kvikmyndagerð skapar ekki bara atvinnu heldur er einnig ímyndar- og gjaldeyrisskapandi. Það er nauðsynlegt að frumstuðningur komi að heiman, til að fjármagn náist að utan og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti, að hver króna sem ríkið fjárfestir í kvikmyndagerði komi margföld til baka. Hér verður ekki uppskorið nema það sé sáð.

Íslensk kvikmyndagerð hefur slitið barnsskónum og er sú atvinnugrein, ásamt ferðaþjónustu, sem er í hvað örustum vexti, enda eru þessar tvær greinar samtengdar. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn vekja í sífellt meira mæli athygli á landi og þjóð á erlendri grundu með kvikmyndum sínum.

Það hefur tekið nokkur ár að græða þau sár sem urðu við niðurskurðinn 2010. Þau eru ekki fullgróin, en í greinina var kominn aukinn kraftur og bjartsýni. Eftir langa eyðimerkurgöngu var uppgangur framundan. Mannauður og fjármagn virtist nægjanlegt til þess að taka næstu skref, en aftur eru vopnin slegin úr höndunum á kvikmyndagerðarfólki og byrjunarreitur blasir við.

Það segir sig sjálft að uppbygging og áætlanagerð er öll úr skorðum. Við skorum á stjórnvöld að leiðrétta þessi áform áður en óbætanlegur skaði er skeður.

Fundað með iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Í dag áttu fulltrúar BÍL fund með iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elíun Árnadóttur. Fór fundurinn hið besta fram og vour umræður líflegar. Hér fylgir minnisblað það sem BÍL lagði fram á fundinum, þar sem getið er um þau mál er helst bar á góma:

Bandalag íslenskra listamanna er samstarfsvettvangur 14 fagfélaga listafólks. Innan vébanda fagfélaganna eru um 4000 listamenn. Bandalagið er stjórnvöldum til ráðgjafar í málefnum lista og skapandi greina. Um þá ráðgjöf er í gildi samstarfssamningur við mennta- og menningarráðuneytið. Þá veitir BÍL Alþingi umsagnir um mál á vettvangi lista og menningar.  BÍL var stofnað 1928 og hefur því starfað að hagsmunamálum listamanna óslitið í 85 ár.

Þverfagleg stjórnsýsla skapandi greina
Stefnumótun í málefnum skapandi atvinnugreina hefur verið unnin í samstarfi nokkurra ráðuneyta. Stærsta verkefnið var unnið á árabilinu 2010 – 2012 í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.  Einnig tók Íslandsstofa virkan þátt í verkefninu.

Tvær skýrslur hafa verið unnar í tengslum við verkefnið:
Skapandi greinar – Sýn til framtíðar í september 2012, úttekt á stöðu greinanna og tillögur um bætt starfsumhverfi:  http://www.menntamalaraduneyti.is/utgafuskra/
og  Hagræn áhrif skapadi greina- Desember 2010
http://www.uton.is/frodleikur/skyrsla-um-kortlagningu-a-hagraenum-ahrifum-skapandi-greina

Skýrslurnar tengjast og sýna nniðurstöður að heildarvelta skapandi greina hafi verið 189 ma.kr. árið 2009. Þar af var hluti ríkis og sveitarfélaga um 13% sem er sambærilegt við önnur lönd. Ársverk við skapandi greinar voru um 9.400 talsins árið 2009 og voru flest árið 2008, eða rúmlega 10.000. Stöðug aukning var í fjölda ársverka skapandi greina á árabilinu 2005-2008.
Bíl leggur áherslu á að verkefninu verði haldið áfram og stjórnvöld bregðist við tillögum skýrslunnar frá 2012.

Hönnunarstefna
Í ársbyrjun 2011 setti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ásamt mennta- og menningarmálaráðuneyti á laggirnar stýrihóp til að vinna tillögu að hönnunarstefnu 2013 – 2018:
http://www.honnunarmidstod.is/media/PDF/HONNUNARSTEFNA_LOKATILLAGA.pdf

Tillagan er enn í umfjöllun innan stjórnkerfisins og hefur ekki verið lögð fram endanleg stefna af hálfu stjórnvalda. BÍL er ekki kunnugt um hvar málið er statt, en leggur áherslu á mikilvægi þess að stefnan verði formlega samþykkt og gerð verði áætlun um framkvæmd hennar.

Menningarstefna í mannvirkjagerð
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (2003 – 2007) lét vinna menningarstefnu í mannvirkjagerð og gaf hana út í veglegu 52ja bls riti í apríl 2007:
http://www.menntamalaraduneyti.is/nyrit/nr/4059

Mikilvægt er að allir ráðherrar og ráðuneyti fylgi þeirri stefnu vel eftir, því hún nær yfir allar opinberar byggingar og er enn í fullu gildi. 

Íslandsstofa
Íslandsstofa var stofnuð á grunni Útflutningsráðs með aðkomu Samtaka atvinnulífsins. Undir hatti Íslandsstofu starfar fagráð lista og skapandi greina. Í því eiga sæti fulltrúar allra miðstöðva listgreina og hönnunar (Kvikmyndamiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Miðstöð íslenskra bókmennta, Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista, Úttón / Tónverkamiðstöð, Icelandic Gaming Industry og Hönnunarmiðstöð. Einnig eiga þrjú ráðuneyti fulltrúa í fagráðinu; atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarráðuneyti ásamt utanríkisráðuneyti. Verkefni fagráðsins er að vera Íslandsstofu til ráðuneytis við stefnumótun og  áherslur í málefnum lista og skapandi greina í tengslum við þau verkefni sem Íslandsstofna sinnir, þar skiptir ferðaþjónustan miklu máli, enda eru listir og menning í öðru sæti yfir ástæður þessað erlendir ferðamenn heimsækja Ísland, næst á eftir náttúru landsins. Þá hefur fagráðið átt þátt í því að miðla upplýsingum um hátíðir og menningartengda viðburði, t.d. til sendiskrifstofa Íslands erlendis. Um þessar mundir er unnið að því að auka tengsl fagráða innbyrðis, sérstaklega milli fagráða ferðaþjónustu og skapandi greina.

Segja má að Íslandsstofa sé tilraunaverkefni í lýðræðislegri stjórnsýslu, svo margir koma með beinum hætti að starfinu. Því er mikilvægt að ráðuneytin séu vakandi hvert fyrir sínum þætti í starfi Íslandsstofu, tryggi að starfsemin sé markviss og skili tilætluðum árangri. Slíkt er ekki endilega gert með sjálfstæðum átaksverkefnum með sjálfstæðar stjórnir á borð við verkefnið „Ísland allt árið“, heldur með breiðri aðkomu þeirra ólíku geira sem hlut eiga að máli.

Verkefnatengdir sjóðir
Skilagrein starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem fjallaði um fyrirkomulag verkefnatengdra sjóða og kynningarmiðstöðva á listasviðinu, hefur að geyma mikilvæga greiningu á stöðu verkefnatengdra sjóða og samspili þeirra við kynningarmiðstöðvarnar. Skýrslan er til umfjöllunar í geiranum og hafa hagsmunaaðilar frest til 15. september til að gera athugasemdir við tillögur starfshópsins.
Í nýsamþykktri menningarstefnu Alþingis á sviði lista og menningararfs segir í kafla um starfsumhverfi í menningarmálum: Framlög ríkisins til verkefna á sviði menningarmála fari í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum sem byggja úthlutun á vönduðu jafningjamati. Í stjórnum sjóð séu  viðhafðir góðir stjórnunarhættir, regla um hæfilega fjarlægð virt og almennum hæfisreglum fylgt. Starfslaunasjóðir  og verkefnasjóðir verði vel skilgreindir og endurspegli fjölbreytni og þróun menningarlífsins, m.a. er varðar samstarfsverkefni.
Gera má ráð fyrir að tillögur starfshópsins liggi fyrir í lok september nk.

Fjárfestingaráætlun
Með fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar voru sett fram áform um að auka framlög hins opinbera til sköpunar og vísinda.  Áætlunin leiddi það af sér að Kvikmyndasjóður var tvöfaldaður, stofnaðir voru fjórir nýjir sjóðir Hönnunarsjóður, Myndlistarsjóður, Útflutningssjóður tónlistar og handverkssjóður. Þá var aukið í sjóði á sviði bókmennta, til starfsemi atvinnuleikhópa og framlag aukið í Tónlistarsjóð. Ráðherrar í nýrri ríkisstjórn hafa sagt að fjárfestingaráætlunin sé til endurskoðunar og hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur sagt að áætlunin sé í uppnámi. Þetta veldur BÍL áhyggjum.
Í heildina hljóða þeir liðir fjárfestingaráætlunarinnar, sem varða skapandi atvinnugreinar, upp á  720 milljónir króna, þar af eru 470 milljónir í Kvikmyndasjóði og 250 milljónir í aðra sjóði. Þessir fjármunir eru til staðar í fjárlögum 2013. Ef þeirra nýtur ekki við 2014 þá verður hrun í uppbyggingu greinanna.

Skráning tölulegra upplýsinga um skapandi greinar
Starfsáætlun BÍL 2013 gerir ráð fyrir átaki í skráningu tölulegra upplýsinga um listir og störf listafólks. BÍL er þegar í sambandi við Hagstofu Íslands og mun eiga aðkomu að sameiginlegu verkefni Evrópulanda, sem varðar skráningu tölulegra upplýsinga um skapandi atvinnugreinar.
BÍL leggur áherslu á að verkefni þetta fái brautargengi stjórnvalda og leitað verði leiða til að ljúka verkefninu þó ekki verði af áformuðum stuðningi ESB við verkefnið.

Tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi
Mikilvægt er að tryggja að þetta samstarf haldi áfram, enda hefur það skipt sköpum í viðleitni okkar við að laða erlend verkefni til landsins, þá hefur  verkefnið skipt miklu máli fyrir eflingu greinarinnar og innlenda framleiðslu. Hins vegar verður að tryggja að þeir sem njóta endurgreiðslna fylgi lögum og reglum um vinnurétt. Staðfest hefur verið að dæmi séu um brot á lögum um vinnurétt og ófullnægjandi aðstæður á tökustað. Brýnt er að skerpa á reglum um greiðslur úr kerfinu svo komist verði fyrir slíkar aðstæður. Í síðustu útgáfu af lögunum kom inn ákvæði sem kveður á um að til að njóta endurgreiðslu þurfi framleiðslufyrirtæki að vera skuldlaus vegna framleiðslunnar og er það vel. Núverandi lög um endurgreiðslurnar eru tímabundin, gilda til 31.12.2016. mikilvægt er að stefna um framtíðarfyrirkomulag verði mótuð sem fyst og þá verði hugað að því sem betur má fara í núverandi fyrirkomulagi og framkvæmd.

Stjórn BÍL fundar með Illuga Gunnarssyni

2. júlí 2013 funduðu fulltrúa BÍL með nýjum mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni, reyndar varð fundurinn nokkuð endasleppur svo strax var boðað til nýs fundar, sá var haldinn 10. júlí í ráðuneytnu. Minnispunktar stjórnar BÍL til ráðehrrans fara hér á eftir:

 • BÍL – samkomulag um samstarf við stjórnvöld um málefni lista og skapandi atvinnugreina
 • Listamannalaun – Launasjóðir og heiðurslaun, hugmyndir um akademíu
 • Fjármögnun sjálfstæðrar liststarfsemi – verkefnatengdir sjóðir og samspil þeirra við launasjóði, listsköpun utan stofnana, hátíðir, tilraunir, rannsóknir, samlegð við hönnun
 • Skapandi atvinnugreinar – skýrsla m sýn til framtíðar, þverfagleg nálgun fjögurra ráðuneyta
 • Hönnun – Arkitektar í BÍL, menningarstefna í mannvirkjagerð, Hönnunarmiðstöð
 • Tölfræði – skráning gagna um umfang lista og menningar, þ.m.t. hagræn áhrif
 • Höfundarréttur – sanngjörn þóknun til upphafsmanna list- og menningartengdra „afurða“
 • Staða listamanna – réttindi til fæðingarorlofs, lífeyris, atvinnuleysistrygginga, skattaleg staða
 • Listaháskóli Íslands – lykill að frumsköpun, samlegð, húsnæði, meistaranám, rannsóknir etc
 • Kvikmyndanám – skynsamlegasta lausnin, skýrslur mmrn og LHÍ, kvikmynda og myndlæsi í almenna skólakerfinu, Bíó Paradís
 • Safnastarf – Listasafn Íslands eitt höfuðsafna, háskólastofnun, Kvikmyndasafn, Leikminjasafn, Tónlistarsafn, safn RÚV, etc; samstarf og möguleg samlegð
 • Listir og skóli – námsskrá, Tónlist fyrir alla, Skáld í skólum, Litróf listanna, Menningar-bakpokinn, samstarf við Reykjavíkurborg og Samb.sveitarfélaga,
 • Dansinn – vaxtarsproti, danssverkstæði
 • Sviðslistamiðstöð – síðasta í röð kynningarmiðstöðva, verði skilgreind í nýjum Sviðslistalögum
 • Íslandsstofa – aðild BÍL, frumkvæði að fagráði í listum og skapandi greinum, samlegð við ferðaþjónustu
 • RÚV ohf; fjölmiðill í almannaþágu – ein mikilvægasta menningarstofnunin, skipan stjórnar
 • Harpa – listráð að frumkvæði BÍL, aðkoma fjögurra félaga tónlistarmanna
 • Menningarsamningar landshlutanna – tengsl  við menningarfulltrúa, fagleg úthlutun fjármuna (Reykjavíkur-módelið), uppbygging starfa f listamenn á landsbyggðinni
 • Norrænt samstarf – Nordisk Kunstnerråd, opið samráð við Norrænu Ráðherranefndina, NMR, Kultur Kontakt Nord (Norræna menningarmálaáætlunin), úthlutunarnefndir
 • Evrópu samstarf – ECA, samstarf listamanna í 27 löndum, forseti BÍL er forseti ECA

Umsögn BÍL um RÚV-frumvarp

Í dag sendi stjórn BÍL allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis svohljóðandi umsögn um frumvarp mennta- og menningarmálaráðerra um RÚV ohf en málið lýtur að vali stjórnar RÚV:

Stjórn BÍL hefur ævinlega látið sér annt um Ríkisútvarpið og lítur á stofnunina sem eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er því mikilvægt að allt lagaumhverfi RÚV ohf  sé til þess fallið að auðvelda stofnuninni að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Á síðasta þingi samþykktu þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokks nýja löggjöf um Ríkisútvarpið. Sú lagasmíð hafði verið lengi í undirbúningi og á endanum náðist um hana nokkuð góð sátt, enda höfðu flestir, sem láta sig málefni stofnunarinnar varða, komið með einhverjum hætti að málum.

Stjórn BÍL furðar sig á fram komnu frumvarpi, þar sem í engu er tekið mið af því breytta hlutverki stjórnar RÚV ohf, sem nýju lögin gera ráð fyrir. Það hlutverk er ekki sambærilegt við hlutverk stjórnar samkvæmt eldri lögum nr. 06/2007, þar sem hlutverkið er einungis rekstrarlegs eðlis, en í nýju lögunum nr. 23/2013 er hlutverkið í mun meira mæli dagskrárlegs eðlis. Það að skipa pólitíska stjórn með slíkt hlutverk er fáheyrt og brýtur í bága við öll megin sjónarmið í nágrannalöndum okkar, þar sem áhersla er lögð á eldvegg milli hins pólitíska valds og dagskrárvalds ríkisfjölmiðils. Það sjónarmið, hins vegar, að efla dagskrárlegt vald stofnunarinnar er komið til af þeirri þörf að stofnunin standi sterk faglega og að stjórn hennar sé komin undir hæfum einstaklingum á fjölbreytilegum sviðum menningar, en ekki bara einum útvarpsstjóra. Stjórn BÍL hvetur allsherjar- og menntamálanefnd til að bera þá aðferð sem frumvarpið mælir fyrir um, við fyrirkomulag á vali stjórnar í sambærilegum miðlum á Norðurlöndunum og í Bretlandi, áður en nefndin veitir málinu  brautargengi.

Þá vekur stjórn BÍL athygli nefndarinnar á því að hugmyndafræði nýju laganna gengur út á að valnefndin komi sér saman um fimm fulltrúa í stjórn RÚV ohf. Það gætti misskilnings hvað þetta varðar í ræðum þingmanna við fyrstu umræðu um málið, þar sem látið var í veðri vaka að BÍL myndi skipa einn stjórnarmann, Samstarfsnefnd háskólanna einn stjórnarmann og Allsherjar- og menntamálanefnd þingsins myndi skipa þrjá stjórnarmenn. Slík aðferðafræði fer ekki saman við þá röksemdafærslu sem lesa má úr greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 23/2013.  Einnig er rétt að geta þess að með því að fara að tillögu ráðherrans er fulltrúi starfsmanna , sem lengi hafa óskað eftir því að sjónarmið þeirra heyrist við stjórnarborð stofnunarinnar, þurrkaður út með öllu. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið hvetur stjórn BÍL allsherjar- og menntamálanefnd til að hverfa frá því að grípa inn í löggjöfina eins og Alþingi samþykkti hana á síðasta þingi og leyfa þeirri hugmyndafræði, sem lögin byggja á, að ganga í gildi. Hún er prófsteinn á það hvort þjóðinni á að lánast að standa vörð um ríkisútvarp í almannaþágu og hvort okkur lánast að skipa faglega stjórn þessarar mikilvægu menningarstofnunar.

BÍL ályktar gegn breytingum á lögum um RÚV

Bandalag íslenskra listamanna lýsir vonbrigðum með framkomið frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, sem ætlað er að breyta nýjum lögum um Ríkisútvarpið – fjölmiðil í almannaþágu. Það er mat BÍL að frumvarpið stefni í hættu áformum um eflingu hins lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverks RÚV.

Samkvæmt þeim lögum, sem Alþingi samþykkti 13. mars sl., og samþykkt var af þingmönnum allra flokka nema Sjálfstæðisflokks, er gert ráð fyrir fjölgun stjórnarmanna og talsverðum breytingum á fyrirkomulagi við val stjórnarinnar. Með því að hverfa frá hugmyndum nýju laganna um valnefnd er horfið frá eftirsóknarverðri aðferð við val stjórnarmanna, sem byggir á valddreifingu í þágu almannahagsmuna. Lögin gera ráð fyrir aðkomu BÍL og samstarfsnefndar háskólanna, auk þess sem þau færa starfsmönnum stofnunarinnar fulltrúa í stjórn.  Rökin fyrir þessum breytingum voru þau að með þátttöku fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefnd verði tryggt að fulltrúi með þekkingu á menningarmálum verði valinn í stjórn. Á sama hátt er talið að fulltrúi samstarfsnefndar háskólanna sjái til þess að í stjórn veljist fulltrúi með þekkingu á fjölmiðlamálum. (tilvitnun í upphaflegt frumvarp að núgildandi lögum)

Með nýju frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra yrði horfið frá þeirri mikilvægu breytingu að skapa fjarlægð við hið pólitíska vald á Alþingi. Þess í stað yrðu pólitísk tengsl stjórnarmanna fest í sessi með afgerandi hætti þar sem þeim væri ætlað að endurspegla valdahlutföllin á Alþingi.  Slíkt væri mikil öfugþróun og í hróplegu ósamræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Það sem gerir tillögur mennta- og menningarmálaráðherra enn verri, er að hlutverk stjórnar samkvæmt nýju lögunum er talsvert breytt og víðfeðmara en samkvæmt eldri lögum. Sú sjö manna stjórn sem kosin yrði skv. tillögum ráðherrans hefði því mun breiðara hlutverk en tíðkast hefur til þessa. Þannig væri hætta á íhlutun frá pólitískt skipuðum stjórnarmönnum um innri mál RÚV mun meiri en verið hefur á grundvelli eldri laga.

Það er sannfæring stjórnar Bandalags íslenskra listamanna að ljúka þurfi innleiðingu hins nýja fyrirkomulags við val á stjórn RÚV, í því felist fjölmörg tækifæri til aukinnar fagmennsku við stjórn þessarar mikilvægu menningarstofnunar. Því skorar BÍL á ráðherra mennta- og menningarmála að draga fram komið frumvarp til baka.

 

Samráðsfundur með borgarstjóra

Árlegur samráðsfundur BÍL með borgarstjóra var haldinn í dag. Stjórn BÍL lagði fram minnisblað til grundvallar umræðunni:

Bandalag íslenskra listamanna eru hagsmunasamtök 14 fagfélaga listafólks og hönnuða. Samstarfssamningar BÍL og stjórnvalda snúast um faglega ráðgjöf á vettvangi lista og menningar og eru til þess fallin að auka fagmennsku stjórnvaldsákvarðana á menningarsviðinu. Það er mat BÍL að stjórnendur Reykjavíkur hafi sinnt þessu samstarfi vel á síðustu árum. Fyrir það ber að þakka. Það voru því nokkur vonbrigði að Borgarráð skyldi ekki samþykkja hækkun fjárframlagsins, sem samningur þessara aðila kveður á um. BÍL óskaði eftir því að 900 þúsund króna árlegt framlag yrði hækkað um helming, en Borgaráð samþykkti einungis hækkun sem nemur verðlagshækkunum, eða í 1.060 þúsund kr.

Samstarf við MOFR um styrkjaúthlutun.  Það er mat BÍL að sérstaklega vel hafi tekist að þróa þetta samstarf og nú hyllir undir að menningar- og ferðamálaráð taki ákvörðun um breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar styrkja til list- og menningartengdra verkefna með því að svokallaður „skyndistyrkjapottur“ verði sameinaður „stóra pottinum“ og að úthlutað verði tvisvar á ári.  BÍL hefur talið að slíkt fyrirkomulag væri til mikilla hagsbóta fyrir listafólk, auk þess sem það ýtir undir ferskleika þeirra verkefna sem koma til skoðunar hverju sinni.

Borgarhátíðasjóður; tengsl lista, menningar og ferðaþjónustu. BÍL fagnar því að borgaryfirvöld skuli hafa haldið áfram að útvíkka og styrkja nýjan Borgarhátíðarsjóð og telur mikilvægt að faghópur BÍL verði áfram hafður með í ráðum varðandi viðhald og frekari þróun sjóðsins. Það er mat stjórnar BÍL að skynsamlegt sé að skoða ávinning ólíkra atvinnugreina af einstökum hátíðum, því þyrfti að stofna til virkara samtals milli ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina um hlut einstakra hátíða í borginni. Slíkt samtal er nú hafið undir hatti Íslandsstofu og mikilvægt að það eigi sér einnig stað innan menningar- og ferðamálaráðs og þeirra stofnana borgarinnar sem starfa á vettvangi lista, menningar og ferðaþjónustu.

Harpa – stefnumótun og framtíðarsýn. BÍL fagnar því að stjórnvöld skuli hafa komið sér saman um eigendastefnu fyrir Hörpu, sem verður grundvöllur áframhaldandi þróunar þeirrar mikilvægu starfsemi sem Harpa fóstrar. Nú fer í hönd mikilvægt stefnumótunarferli og telur BÍL brýnt að listráð Hörpu hafi mótandi áhrif á það ferli. Þá telur stjórn BÍL mikilvægt að eigendur Hörpu  nýti sér hin mikilsvirtu Mis van der Rohe verðlaun, sem Hörpu hlotnuðust nýverið, til skapandi markaðssetningar. Slík verðlaun eru til þess fallin að laða fleiri erlenda aðila að húsinu, sem mun styrkja rekstrargrundvöll þess til lengri tíma.

Bókmenntaborg UNESCO. BÍL fagnar yfirlýsingum borgaryfirvalda um tækifærin sem liggja í sýnieika bókmennta í höfuðborg þjóðarinnar og lýsir sig reiðubúið að starfa áfram með borgaryfirvöldum að eflingu bókmenntaborgarinnar. Mikilvægt er að áform um miðstöð orðsins nái fram að ganga og skynsamlegt í því sambandi að skoða mögulega samlegð með nýstofnaðri Miðstöð íslenskra bókmennta.

Listmenntun – átak til úrbóta. Lítið sem ekkert hefur áunnist á síðasta ári varðandi áherslumál BÍL tengt listmenntun barna í borginni, það á jafnt við um samstarf listamanna og skólafólks innan grunnskólans og sjálfstætt starfandi listaskóla í borginni. Ástæðurnar eru margþættar og ekki allar á valdi borgaryfirvalda, en það er mat stjórnar BÍL að tvö lykilsvið borgarinnar þurfi að sameinast við lausn þessara mála, þ.e. mennta- og frístundasvið og menningar- og ferðamálasvið. Stjórn BÍL lýsir sig reiðubúna til þátttöku í vinnu um málefni tengd listmenntun. Það er því tilefni til að endurtaka hér það sem BÍL lýsti yfir á samráðsfundi 2012:

Listnám barna og ungmenna hefur tvíþættan tilgang; annars vegar er það tómstundatengt en hins vegar kröfuharður undirbúningur alvarlegra náms og starfsferils í listum.  Menntayfirvöldum ber að hlúa að hvoru tveggja. Tryggja þarf aukinn aðgang barna og ungmenna að öflugri listmenntun, óháð efnahag foreldra. Til að auka hlut menningar og lista í námi og starfi barna þarf að móta heildstæða stefnu til framtíðar og rétta misvægið milli möguleika barna á listtengdu skapandi starfi og íþróttastarfi. Skoða þarf stöðu listaskólanna; tónlistarskóla, dansskóla og myndlistarskóla, með það að markmiði að auka aðgengi að menntuninni ásamt því að viðhalda gæðum námsins. BÍL leggur ríka áherslu á að borgin styðji myndarlega við bakið á þeim listnámsskólum sem uppfylla strangar gæðakröfur og kenna samkvæmt almennri námsskrá grunn- og/eða framhaldsskóla.

Fundur BÍL með skóla- og frístundasviði. 9. janúar sl. fundarði stjórn BÍL með skóla- og frístundaráði og starfsmönnum sviðsins um málefni listmenntunar.  Áherslur BÍL liggja fyrir í sérstöku minnisblaði. Á þeim fundi var lofað áframhaldandi starfi, sem BÍL hefur því miður ekki fundið að hafi farið af stað. BÍL hefur hins vegar haldið fundi með forsvarsmönnum verkefnanna Tónlist fyrir alla og Skáld í skólum, með það að markmiði að stilla saman strengi fyrir viðræður listamanna við stjórnvöld um styrkingu og mögulega útvíkkun þessara mikilvægu verkefna. Eins og fram hefur komið þá eiga þau verkefni rætur í norska verkefninu „Den Kulturelle Skolesækken“, sem ætti að vera borginni fyrirmynd í uppbyggingu samstars listamanna og skóla.

Tónlistarskólarnir. Listafólk vænti mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem gert var í maí 2011. Nú er ljóst að vankantar eru á framkvæmd samkomulagsins. Stjórn BÍL hvetur borgaryfirvöld til að tryggja að tónlistarskólar í Reykjavík geti áfram boðið upp á nám sem stenst gæðakröfur og námsskrá. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja skólunum greiðslur í samræmi við raunkostnað við kennsluna, það næst ekki með fyrirkomulagi því sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur til grundvallar framlögum til skólanna.

Sjálfstætt starfandi listamenn. Við þá endurskoðun menningarstefnu borgarinnar sem nú stendur yfir er mikilvægt að hafa vakandi auga á þeirri menningarstarfsemi sem borin er uppi af sjálfstætt starfandi listamönnum og fer fram utan menningarstofnana ríkis og borgar. Skoða þarf sérstaklega þá aðstöðu sem slíkri starfsemi er búin í höfuðborginni. Mikilvægt er að forsendur leigusamninga sem borgaryfirvöld gera um húsnæði undir menningarstarfsemi séu skoðaðir reglulega svo og rekstrargrundvöllur grasrótarstarfs í listum með það að markmiði að húsnæðið nýtist sem best þeirri starfsemi sem því er ætlað að þjóna.

Uppbygging danslistarinnar.  Unnið hefur verið markvisst að því að efla danslistina svo hún hljóti sambærilegan sess og aðrar listgreinar.  Íslenskt danssamfélag er kraftmikið og hugmyndaríkt, innan þess  starfar ört vaxandi hópur danslistamanna sem þráir svigrúm til nýsköpunar og vaxtar. Þessu kalli þurfa opinberir aðilar að sinna með því að leggja danslistinni til aukinn stuðning og betri aðstöðu. Framtíðarsýn danssamfélagsins er að samtvinna starfsemi Dansflokksins og Dansverkstæðis í Danshúsi eins og rætt er um í „Dansstefnu FÍLD 10/20” það væri mikils um vert ef borgin ætti þátt í þeirri vinnu.

Tjarnarbíó. Stjórn BÍL hefur fylgst með starfi sjálfstæðu sviðslistahópanna í Tjarnarbíói og baráttunni við að gera húsið þannig úr garði að það hent starfseminni. BÍL mælist til þess að borgaryfirvöld leggist á sveif með rekstrarfélagi hússins og sjálfstæðu sviðslistahópunum með það að markmiði að finna viðunandi lausn á þeim vanda sem við blasir. Hafa ber í huga að starfsemi sjálfstæðu hópanna er lífsnauðsynleg fyrir þróun sviðslista almennt, þar fara tilraunirnar fram, þar er reynt á þanþol listgreinanna og þar er fólgin forsenda fyrir framþróun íslenskra sviðslista.

Efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina. Talsverð vinna hefur verið lögð í að kortleggja efnahagsleg áhrif skapandi atvinnugreina. Ljóst er að þau áhrif eru mun meiri en almennt hefur verið viðurkennt. Núverandi borgaryfirvöld hafa sýnt í verkum sínum að þau hafa skilning á þessum afleiddu áhrifum í starfi listamanna og treystir BÍL á öflugt liðsinni í þeirri vinnu sem framundan er við bætta skráningu tölulegra upplýsinga um listir og skapandi greinar almennt. Þar ber t.d. að hafa í huga og viðurkenna samspil ferðaþjónustu og menningarstarfsemi í höfuðborginni.

 

 

 

Alþjóðlegur jazzdagur 30. apríl

Alþjóðlegur dagur jazzins er haldinn hátíðlegur um allan heim í dag, þriðjudaginn 30. apríl. Það er UNESCO sem blæs til alþjóðlegs dags jazzins öðru sinni, en í fyrra þótti takast sérstaklega vel til þegar þessu merka fyrirbæri var hleypt af stokkunum. 2013 markar upphaf áratugar undir yfirskriftinni: “Viðurkenning, réttlæti og framför fyrir fólka af afrískum uppruna”. Þessi yfirskrift bregður enn einum ljómanum á alþjóðlega jazzdaginn sem Sameinuðu Þjóðirnar munu vntanlega fylkja sér á bakvið. Upprunalandi jazzins, Afríku, verður þess vegna veittur tvöfaldur heiður þetta árið.

Í tilefni dagsins stendur Íslenska UNESCO-nefndin í  samstarfi við Tónlistarskóla FÍH fyrir viðburði í Hörpu kl. 17 – 18.30 undir yfirskriftinni Hvað er jazz? Einnig verða jazz-tónleikar á Jómfrúnni, Kex og Café Rosenberg. Aðgangur er ókeypis á alla viðburði.  Sjá nánari dagskrá hér fyrir neðan og í meðfylgjandi tilkynningu:

Fræðumst, fögnum og fjölmennum eru kjörorð UNESCO fyrir Alþjóðlega Jazzdaginn og verður deginum fagnað í 24 klukkustundir samfleytt um allan heim með fjölbreyttum viðburðum allt frá Beirút til Peking og Dakar til Reykjavíkur.
„Á Alþjóðlega Jazzdeginum taka jarðarbúar höndum saman í friði og sátt og deila ástríðu sinni fyrir tónlist í nafni frelsis og sköpunargleði” segir Irina Bokova Aðalframkvæmdastjóri UNESCO. Þess vegna stóð UNESCO fyrir því að fagna Alþjóðlega Jazzdeginum í fyrsta sinn árið 2012, þá í samstarfi við Velvildarsendiherrann og djasssnillinginn Herbie Hancock. Alþjóðlegi Jazzdagurinn er hátíð draumsins um heim þar sem fólk nýtur hvarvetna friðar og frelsis. „Allir eru hjartanlega velkomnir!” eru skilaboðin frá UNESCO og í ár tökum við Íslendingar virkan þátt í þessum degi.

Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Page 10 of 28« First...89101112...20...Last »