Fréttir

Alþjóðlegi dansdagurinn 2013

29. apríl er alþjóðlegi dansdagurinn haldinn hátíðlegur. FÍLD, Félag Íslenskra Listdansara býður til veislu af því tilefni á Dansverkstæðinu við Skúlagötu, heimili sjálfstæða dansgeirans; DANS ÆÐI og LUNCH BEAT kl. 10.00 – 16:00

Dans Æði er lifandi safn um dans fyrir börn á aldrinum 4-12 ára. Í safninu verður hægt að hitta dansara, vera dansari, sjá dans og jafnvel skapa dans á veggjunum. Höfundur og listrænn stjórnandi er Aude Busson.

Milli 12:00 og 13:00 verður Lunch Beat Special danspartý í boði Choreography Reykjavík. Plötusnúðurinn verður danshöfundurinn. dansarinn, plötusnúðurinn og formaður FÍLD, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir.

Hádegismatur verður í boði FÍLD klukkan 13:00 og við hvetjum fólk til að staldra við eftir dansinn og njóta veitinga saman.

Markmið dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir. Færa fólk nær hvert öðru í friði og vináttu með þessu landamæralausa tungumáli sem við eigum öll sameiginlegt – dansinum sjálfum. Nú er kominn tími til að reima á sig dansskóna og dansa sig inn í vorið!

Nánar um FÍLD:
Félag íslenskra listdansara (FÍLD) er sameiginlegur vettvangur listdansara, listdanskennara, danshöfunda, listdansskóla, listdanshópa og dansflokka á Íslandi. FÍLD leiðir baráttu sinna aðilafélaga gagnvart stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum, það vinnur að auknu rými fyrir dans og sýnileika hans sem og bættu starfsumhverfi þegar kemur að aðstöðu og aðbúnaði fyrir listdans á Íslandi. FÍLD vinnur að því að byggja upp samhæfingu og samhug milli ólíkra aðildafélaga sinna og virkja sameiginlega kraft þeirra til þess að mæta síbreytilegum áskorunum samtímans af ábyrgð og áræðni. 

Allar nánari upplýsingar veitir:
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir
690-5266
formadur@fild.is

Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í málefnum listafólks?

Bandalag íslenskra listamanna sendi stjórnmálaflokkunum, sem bjóða fram á landsvísu í komandi kosningum til Alþingis, fjórar spurningar um málefni listamanna og skapandi atvinnugreina. Fimm flokkar hafa nú svarað spurningunum og fara bæði spurningarnar og svörin hér á eftir:

Hvaða sjónarmið hefur flokkurinn varðandi þá verkefnatengdu sjóði sem komið hefur verið á með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til þriggja ára? Þar er um að ræða stórefldan Kvikmyndasjóð, Hönnunarsjóð, Myndlistarsjóð og Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Mun flokkurinn beita sér fyrir því að þessir sjóðir fái sess á fjárlögum til frambúðar?

Björt framtíð: Þingmaður Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson, hafði frumkvæði að þessu máli og greiddi því að sjálfsögðu atkvæði ásamt Róbert Marshall. Flokkurinn mun beita sér fyrir því að þessir sjóðir fái sess á fjárlögum til frambúðar.

Dögun: Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um sjóði tengda fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar en hefur lagst gegn fjármögnunarleiðum hennar, þ.e. arðgreiðslum bankanna og sölu ríkisins á eignarhlutum sínum í þeim. Dögun er hins vegar fylgjandi styrkjum til menningarstarfs almennt og í stefnu flokksins segir að styrkja eigi þá í sessi. Dögun telur hins vegar nauðsynlegt að tryggja fagmennsku og gegnsæi í allri úthlutun opinberra fjármuna

Framsóknarflokkurinn: Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin lagt sérstaka áherslu á að standa við bakið á verkefnum sem styðja við þróun og útrás á íslenskri list og hönnun. Efla þarf Kvikmyndasjóð Íslands og kanna þarf með hvaða hætti hægt er að greiða enn frekar fyrir en nú er að erlendir kvikmyndaframleiðendur sjái sér hag í því að taka upp kvikmyndir sínar hérlendis. Sérstaklega þarf að horfa til kynninga á erlendri grundu og vitundarvakningar innanlands ásamt því að skoða það skattaumhverfi sem slíkum verkefnum fylgir.

Lýðræðisvaktin: Það er engin spurning að sóknarfærin eru mest í vitundariðnaðinum/listunum. Við eigum að stórefla framleiðslu á leiknu sjónvarps- og kvikmyndaefni. Myndlistin og tónlistin eiga sömuleiðis að eiga sess í fjárlögum, þar á að gjörbylta framlögum. Það á að koma á hvetjandi skattalögjöf fyrir þessar greinar – t.d. má sjá fyrir sér tímabundið afnám skatta á meðan viðkomandi listamaður/listamenn koma undir sig fótunum varðandi kynningar og vinnslu listafurða.

Píratar: Píratar beita sér fyrir fjölbreyttu atvinnulífi. Píratar eru jafnframt flokkur beins lýðræðis og teljum við að fjárlagagerð ætti að vera lýðræðislegt ferli þar sem flestir eiga að koma að borði svo að hagsmunum allra sé gætt. Eins og er hafa Píratar það ekki á stefnuskrá sinni að koma í veg fyrir að þessir sjóðir verði festir í sessi í fjárlögum.
Við teljum það eindregið vera samfélaginu til framdráttar að hið opinbera styðji við skapandi iðnað og hafa margir innan flokksins mikinn áhuga á þessum málaflokki, hafa t.d. kynnt sér skýrslu Dr. Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur, ‘Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina’, Skýrslu Iðnaðarráðuneytisins og hönnunarmiðstöð Íslands – ‘Rannsóknarvinna fyrir gerð hönnunarstefnu íslands’, Skýrslu mennta- og menningamálaráðuneytisins, ‘Skapandi greinar – sýn til framtíðar’ og Stefnumörkun Mennta og menningarmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna (FK) og Samtök kvikmyndaleikstjóra (SKL). fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012 og 2015.
Sérstakur málefnahópur innan framboðsins hefur verið stofnaður og mun hann beita sér fyrir eflingu á skapandi iðnaði, samhliða stuðningi hins opinbera við hann, þar á meðal við lítil og meðalstór fyrirtæki.

Regnboginn:  Já Regnboginn munum beita sér fyrir því.

Samfylkingin: Samfylkingin styður heilshugar eflingu kvikmyndasjóðs sem og stofnun nýrra sjóða líkt og Hönnunarsjóð, Myndlistarsjóð og Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Flokkurinn telur einnig að stofnun Sviðslistasjóðs með nýjum sviðslistalögum sé brýn.  Samfylkingin stóð að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og sýndi í verki vilja sinn til að efla skapandi greinar og setja stuðning við þær í forgang. Samfylkingin vill jafnt meta í verki framlag skapandi greina til atvinnulífs og efnahagslegt gildi þeirra  sem og hið listræna og sammenningarlega gildi sem listir, hönnun og aðrar skapandi greinar hafa fyrir samfélagið.
Samfylkingin telur að næsta skref sé að  festa árangur greinanna í sessi með langtímaáætlun um eflingu verkefnasjóða, aðgengi skapandi greina að rannsókna- og þróunarfé og aðgengi sprotafyrirtækja í skapandi greinum að skattalegum hvatakerfum.  Flokkurinn vill því ekki aðeins að tilgreindir sjóðir njóti til framtíðar stuðnings á fjárlögum heldur einnig að staða greinanna sé skoðuð heildrænt og þeim tryggð góð vaxtarskilyrði á öllum sviðum, frá hinni fyrstu listrænnu sköpun til þess að afurðir listræns hugvits séu settar á markað.
Einnig er brýnt að styrkja menntun í skapandi greinum en líkt og fram kemur í stefnu flokksins frá síðasta landsfundi vill flokkurinn auka framboð á framhaldsmenntun í listgreinum, efla menntun og endurmenntun listgreinakennara í listgreinum.

Sjálfstæðisflokkurinn:  Í stefnu Sjálfstæðisflokksins er bent á mikilvægi þess að hlúa að lista- og menningarlífi þjóðarinnar og staðið sé vörð um menningarstofnanir, þar sem mikil þekking og reynsla býr. Með kynningu íslenskrar menningar má gefa jákvæða mynd af landi og þjóð og í henni geta falist fjölbreytileg verðmæti.
Mikilvægt er að þjóðin sé ávallt vel upplýst um sögu sína og menningararf.
Opinber stuðningur við lista- og menningarstarfsemi, eins og aðrar atvinnugreinar, skal ævinlega vera gegnsær og byggður á traustum, faglegum og fjárhagslegum forsendum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Já flokkurinn mun beita sér fyrir því að þörfin fyrir þá sjóði sem hér eru nefndir verði viðurkennd á Alþingi. Á undanförnum mánuðum hefur starfsemi í kvikmyndaiðnaði aukist og nauðsynlegt er að halda kvikmyndasjóði öflugum eftir að það högg sem hann tók á sig í kjölfar efnahagshrunsins hefur verið leiðrétt. Myndlistarsjóður er einn hinna nýju sjóða sem á sér stoð í lögum og því verður fjármögnun hans sett í hefðbundinn farveg hvað fjárlagavinnu varðar. Hönnunarsjóður sem er að taka til starfa er hluti fjárfestingaráætlunar en íslensk hönnun verður sífellt meira áberandi svið í íslenskri menningu. Það svið er breitt en einnig þarf að gæta vel að aðkomu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á því sviði, eins og á sviði íslenskrar tónlistar sem aukið hefur athygli á Ísland og íslenskri menningu víða um heim. Stuðningur við Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar þarf einnig að skoðast í samhengi við mögulegar breytingar á Tónlistarsjóði.

Hvaða sjónarmið hefur flokkurinn varðandi launasjóði listamanna? Nú hefur þriggja ára áætlun um fjölgun mánaða runnið sitt skeið og listamenn hafa kallað eftir nýrri þriggja ára áætlun um áframhaldandi eflingu sjóðanna. Hver er afstaða flokksins til slíkra hugmynda?

Björt framtíð: Björt framtíð styður þriggja ára áætlun um áframhaldandi eflingu sjóðanna.

Dögun: Dögun telur launasjóð listamanna mikilvægan og beri að styrkja í sessi og telur auk þess mikilvægt að úthlutunarnefndir séu faglegar í störfum sínum og nefndarmenn sitji ekki of lengi og að jafnræði gildi á milli listgreina þegar kemur að úthlutunum. Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um fjölgun mánaða en vill almennt efla styrki til menningamála og listamanna sjálfra.

Framsóknarflokkurinn: Gera þarf listastarfsemi sjálfbæra þannig að iðkendur lista geti í auknum mæli haft framfæri sitt af slíkri starfsemi. Framsóknarflokkurinn lítur svo á að heiðurslaun listamanna séu ekki besta leiðin til að stuðla að grósku í íslensk listalífi. Framsóknarflokkurinn leggur til að heiðurslaun listamanna verði lögð niður í núverandi mynd og að það fjármagn sem til sparast verði notað í sérstök starfslaun fyrir unga listamenn.

Lýðræðisvaktin: Koma þarf lagi á launasjóði listamanna. Reiknuð starfslaun listamanna eru allt of lág – þá þarf að vera enn betra aðgengi og yfirlit yfir alla sjóði sem listamenn geta sótt í. Eins er nauðsynlegt að auka aðgengi og vinnslu gagna sem sýna fram á tillegg listanna til samfélagsins í krónum og eins í menningarlegu tilliti.

Píratar: Við vísum í svar okkar við spurningu nr 1.

Regnboginn: Regnboginn vill gera áframhaldandi áætlun en leggja meira í að styrkja unga listamenn.

Samfylkingin:  Samfylkingin styður eflingu launasjóða listamanna.  Flokkurinn telur hinsvegar að sífellt þurfi að endurmeta virkni kerfisins svo sem með tilliti til nýliðunar, fjölbreytni og skilvirkni.  Launasjóðir listamanna er einn fyrsti hlekkurinn í virðiskeðju skapandi greina og er ástæða til að skoða frekar en gert hefur verið, tengsl þeirra við verkefnissjóði.

Sjálfstæðisflokkurinn: Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir að lög um listamannalaun verði endurskoðuð, m.a. með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði, sem starfa á samkeppnisgrunni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð:
Launasjóðir listamanna eru mikilvægir bæði í menningarlegu og atvinnuþróunarlegu tilliti. Mánaðarlaunum í sjóðunum hefur verið fjölgað á kjörtímabilinu, en upphæðir starfslauna og skipting milli einstakra sjóða í listgreinum þurfa alltaf að vera í endurskoðunum þegar ný stjórn launasjóðanna kemur að málum. Mikilvægast er að stefnumarkandi ákvarðanir í þessum málum séu öllum kunnar og um þær ríki sem breiðust sátt. 
 

Hver er stefna flokksins í málefnum skapandi atvinnugreina? Styður flokkurinn í meginatriðum tillögurnar sem settar eru fram í skýrslunni Skapandi greinar – Sýn til framtíðar?

Björt framtíð: Já.

Dögun: Dögun telur alla listsköpun, sem og aðrar skapandi greinar, mikilvægan þátt atvinnulífsins og hafa auk þess gildi í sjálfu sér. Auk þess styðja þær við margar aðrar greinar, svo sem ferðaþjónustu og afþreyingariðnað. Hagræn áhrif menningarstarfs eru meiri en í flestum öðrum greinum og afleidd störf af ýmiskonar sköpun einnig umtalsverð. Flokkurinn styður í meginatriðum tillögur skýrslunnar.

Framsóknarflokkurinn: Í menntastefnu Framsóknar er lögð sérstök áhersla á að efla verk- og tæknimenntun, hönnunar- og listnám. Hér koma öll skólastig við sögu, allt frá leikskóla til háskóla. Framsóknarflokkurinn hefur lagt sig sérstaklega fram um að standa við bakið á og efla ýmis sprotaverkefni og nýsköpun.Framsóknarmenn vilja efla enn frekar nýsköpun  í atvinnulífi t.d. í gegnum skattkerfið og veita rannsóknar- og þróunarstyrki. Veita skattaívilnanir vegna fjárfestinga einstaklinga í nýsköpunarfyrirtækjum.  Við viljum einfalda regluverk um stofnun og rekstur atvinnufyrirtækja til þess að draga úr skriffinnsku og kostnaði. Til þess að þeir sem starfa innan hönnunar og lista geti blómstrað þarf að vera til staðar aðstoð, fjármagn og leiðsögn Framsóknarflokkurinn gleðst yfir áherslum á sköpun í námskrám leik- grunn- og framhaldsskólum. Þar sem sköpun  á að vera samofið öllu starfi á þessum skólastigum. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að skólar fái nauðsynlega aðstoð og aðstöðu til að geta staðið við þessa áherslu. Einnig verða yfirvöld menntamála að sjá til þess að veita ráðgjöf og standa fyrir markvissu ytra eftirliti.

Lýðræðisvaktin: Telur að stórauka eigi vægi skapandi greina á fyrstu árum grunnskóla – skapandi hugsun, sem leiðir af sér skapandi fólk og þá greinar verður auður sem gefur mest af sér í framtíðinni.

Píratar: Við vísum í svar okkar við spurningu nr 1.

Regnboginn: Regnboginn vill fjölbreyttara atvinnulíf og skapandi greinar eru hluti þess.  Við styðjum í meginatriðum þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni.

Samfylkingin: Samfylkingin stóð með samstarfsflokki sínum að skipan þess starfshóps sem vann skýrsluna Skapandi greinar – Sýn til framtíðar. Þegar skýrslan var kynnt 19. október sl. lýstu ráðherrar Samfylkingarinnar yfir stuðningi og ánægju með tillögur skýrslunnar og hafa með samstarfsráðherrum þegar hrint fyrstu tillögunni í framkvæmd og stofnað formlegan samstarfsvettvang um uppbyggingu skapandi greina.  Flokkurinn styður tillögur skýrslunnar.
Stefna flokksins í skapandi greinum er fjölþætt og vísum við á menningarstefnu okkar hvað þær varðar (bls 6). Í inngangi að menningarstefnnu segir eftirfarandi og endurspeglar hann afstöðu flokksins til greinanna:
Samfylkingin vill stuðla að umgjörð fyrir kraftmikið menningarlíf, sem virkjar sköpunarkraft þjóðarinnar og styrkir sjálfsmynd hennar. Fjölskrúðugt menningarlíf er einn helsti styrkur íslensks samfélags og almenn þátttaka þjóðarinnar í menningarstarfi á vart sinn líka. Skapandi greinar eru burðargrein í íslensku atvinnulífi, samanber Kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina frá 2010 og ljóst að þær skapa ört vaxandi útflutningstekjur. Skapandi greinar snerta mörg svið samfélagsins og þarf að nálgast uppbyggingu þeirra með samvinnu, þvert á stjórnkerfi, ráðuneyti og atvinnulíf.”

Sjálfstæðisflokkurinn:  Skapandi greinar eru ört vaxandi hluti atvinnulífsins. Hvatt er til samvinnu skapandi greina við aðrar atvinnugreinar einkum í ferðaþjónustu sem felur í sér mörg tækifæri.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur á herslu á að tryggja arðsemi þeirra fjármuna sem opinberir aðilar leggja fram til stuðnings í skapandi greinum. Allar opinberar aðgerðir sem farið er í til stuðnings einstökum atvinnugreinum skulu þannig ávallt hafa skýr og mælanleg markmið um árangur.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Skapandi þætti í atvinnulífinu má  finna víða, en það svið sem oft gengur undir nafninu „skapandi greinar“ hefur mikið vægi þegar kemur að nýsköpun og atvinnuþróun í samfélaginu. Skýrslan sem hér er nefnd, kortlagning hagrænna áhrifa skapandi greina og fleira sem unnið hefur verið á núverandi kjörtímabili sýnir fram á þetta mikilvægi.  Formlegur samstarfsvettvangur um þetta svið sem mælt er fyrir um í skýrslunni hefur tekið til starfa, efla þarf hagtölusöfnun á þessu sviði og kortleggja sviðið betur. Ríki og Reykjavíkurborg þurfa að huga að sameiginlegum hagsmunum og auka fagmennsku í úthlutunum í sjóðum. Fleiri góðar ábendingar er að finna í nefndri skýrslu.  

Styður flokkurinn gildandi löggjöf um höfundarrétt nr. 73/1972 og opinberar reglur um höfundarrétt?  Ef ekki hver er þá stefna flokksins í málum er varða höfundarrétt listamanna, þ.m.t. höfundarréttarvarið efni á netinu?

Björt framtíð: Já.

Dögun: Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um höfundarrétt að öðru leyti en því að flokkurinn vill auka aðgengi almennings að safnkosti opinberra safna með rafrænum hætti í samstarfi við höfundarétthafa. Dögun telur hins vegar að allir eigi að njóta sanngjarnra launa fyrir sína vinnu, listamenn sem aðrir.

Framsóknarflokkurinn: Engin ný lög eru komin fram varðandi höfundarétt og nú í menntastefnu Famsóknarflokksins leggjum við áherslu á að auka aðgengi, m.a. af námsefni á netinu og auðvitað þarf að tryggja höfundarrétt þó svo að þeir sem kynnt hafa sér stefnu um málið segi að æ erfiðara verði að ná utanum efnið á netinu.  

Lýðræðisvaktin: Já, ennfremur vill Lýðræðisvaktin skattleggja höfundartekjur með öðrum hætti en gert er í dag – höfundatekjur á að skattleggja eins og leigutekjur.

Píratar:  Píratar eru mjög fylgjandi höfundarrétti en við teljum að ómögulegt sé að framfylgja núverandi lögum án þess að vega að grundvallar mannréttindum, þ.m.t. friðhelgi einkalífsins, tjáningar- og upplýsingafrelsi. Flestar upplýsingar nútímans eru tiltækar á rafrænu formi, sumar þeirra eru jafnvel alfarið geymdar á rafrænu formi. Netsíur og önnur sambærileg ritskoðun myndi setja hömlur á upplýsingafrelsi almennings samhliða röskun á friðhelgi einkalífs hans, t.d. ef settar yrðu á forvirkar heimildir stjórnvalda til þess að fylgjast með netnotkun hvers og eins. Þetta umhverfi vilja Píratar laga með því sjónarmiði að gæta hagsmunum allra sem eiga í hlut. Píratar hafa nú ályktað um endurskoðun höfundarréttar, sjá nánar: https://x.piratar.is/polity/1/document/36/. Þarna er aðeins um ályktun að ræða og leitast skal eftir þverpólitískri samvinnu við alla hagsmunaaðila ef fara á út í lagabreytingar.

Regnboginn: Já við styðjum þessa löggjöf og viljum standa vörð um höfundarrétt.

Samfylkingin: Að sjálfsögðu styður flokkurinn gildandi lög, opinberar reglur um höfundarétt sem og alþjóðlegar samþykktir og sáttmála um höfundarétt sem Ísland á aðild að.  Í löggjöf  þarf á öllum tímum að  taka mið af breyttri tækni, þörfum og landslagi en um leið brýnt að gætt sé þess að réttur og hagsmunir höfunda og eigenda hugverkaréttinda, sé ekki fyrir borð borinn.  Ein leið, varðandi niðurhal af netinu, er að finna leið með nýrri lagasetningu, til að rétthafar fái greitt fyrir eintakagerð hugverka til einkanota.  Samfylkingin hefur ekki tekið afstöðu til slíkrar nýrrar lagasetningar og telur að kosti og galla hennar þurfi að skoða vandlega.  Mikilvægt er að auka vitund almennings um rétt höfunda, líkt og listafólk hefur gert sjálft með áhugaverðri auglýsingaherferð á síðustu mánuðum.

Sjálfstæðisflokkurinn:  Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að staðið sé vörð um eignaréttinn á öllum sviðum, þar með talinn höfundarrétt listamanna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Eins og sést best á númeri laganna er kominn tími á að uppfæra margt í þeim, enda hafa breytingar verið hraðar á undanförnum árum. Á núverandi kjörtímabili hafa fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis unnið náið með hagsmunaaðilum á þessu svið á vettvangi Höfundarréttanefndar en nauðsynlegt er að sú vinna haldi áfram þar sem um flókið og mikilvægt svið er að ræða. Höfundarréttarmál þurfa að skoðast í alþjóðlegu samhengi, einkum vegna netsins. Tryggja þarf löglegar leiðir til dreifingar yfir netið þar sem listamenn fá hlutdeild fyrir vinnu sína. Hvað menningararfinn varðar, t.d. myndlist sem finna má í söfnum landsins, er mikilvægt að greitt verði fyrir betra aðgengi almennings að þessum arfi. Miðlunarmöguleikar netsins eru miklir og hagsmunir stjórnvalda og listamanna fara að miklum hluta til vel saman hvað þetta varðar.

BÍL ÞAKKAR ÞEIM FLOKKUM SEM SENDU SVÖR VIÐ SPURNINGUNUM.

Samráðsfundur BÍL með Katrínu Jakobsdóttur

Mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir boðaði stjórn BÍL til árlegs samráðsfundar í dag. Hér fer á eftir minnisblað BÍL, sem lagt var fram á fundinum:

Starfslaunasjóðir listamanna og verkefnasjóðir
Nýskipaður starfshópur um verkefnasjóði hefur það mikilvæga hlutverk að skoða uppbyggingu verkefnatengdra sjóða á sviði lista og menningar. Þar gefst kærkomið tækifæri til að skoða m.a. hugmyndir um nýjan sviðslistasjóð og kanna kosti og galla þess að koma á svipuðu fyrirkomulagi varðandi sviðslistir og gildir um stuðning  við framleiðslu kvikmynda gegnum Kvikmyndasjóð. Einnig þarf að skoða nýja sjóði myndlistar og hönnunar og leita leiða til að draga úr umsýslukostnaði sjóðanna. Þá þarf að tryggja að Bókasafnssjóður höfunda og Bókmenntasjóður verði efldir áfram, en framlag til þeirra stóð lengi í stað þar til núna á yfirstandandi fjárlagaári.
Samhliða eflingu verkefnatengdra sjóða er mikilvægt að stjórnvöld geri áætlun um fjölgun mánaðalauna í launasjóðum listamanna á næstu árum auk þess sem brýnt er að endurskoða upphæð mánaðalaunanna og möguleikann á að fólk eigi val um verktakagreiðslur eða launagreiðslur.

Upplýsingar um þróun fjárframlaga
Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi opinbers stuðnings við listir og menningu á síðustu tveimur árum. BÍL hefur hvatt til þeirra breytinga og stutt þær. Nú er hins vegar  svo komið að nánast ómögulegt er að gera samanburð á framlögum stjórnvalda til sjálfstæðrar starfsemi listafólks frá einu ári til annars. Brýnt er að ráðuneytið bæti úr þessum ágalla og gefi reglulega út talnaefni sem sýni með skilmerkilegum hætti þróun opinbers stuðnings við listir og menningu. Meðan talnaefni af þessu tagi er ekki aðgengilegt er tilhneiging til að stýra fjárveitingum til stórra verkefna, sem stjórnvöld hafa styrkt í áraraðir t.d. þátttaka Íslands í Feneyjatvíæringnum, inn í verkefnatengda sjóði á borð við Myndlistarsjóð. Slíkt getur varla verið meiningin með stofnun Myndlistarsjóðs, enda væri þá helmingur sjóðsins á hverju ári eyrnamerktur Feneyjatvíæringnum.

Myndlistartengdar gjaldskrár
Mikilvægt er að tryggja myndlistarmönnum og myndhöfundum greiðslur fyrir að sýna í söfnum og galleríum, sem rekin eru með opinberum stuðningi, enda óásættanlegt að allir sem starfa við uppsetningu og frágang sýninganna fái greiðslur nema listamaðurinn. BÍL hvetur stjórnvöld til að fara að dæmi Svía og gera samning við myndhöfunda um samningseyðublað og gjaldskrá vegna sýningarhalds og greiðslu kostnaðar.
Einnig er mikilvægt að stjórnvöld semji við myndlistarmenn um höfundarréttarþóknun vegna útlána safna á verkum úr safneign. Hraða þarf gerð slíks samnings við Myndstef á grundvelli 25.gr. höfundalaga, en Myndstef hefur þegar sent ráðuneytinu drög að slíkri gjaldskrá.

Uppbygging  danslistarinnar
Mikilvægt er að ráðherra hlutist til um grunnmenntun í listdansi á Íslandi og ákveði með hvaða hætti þróa skuli enn frekar háskólanám í greininni. Kallað hefur verið eftir því að fram fari gæðamat á starfsemi listdansskóla í landinu (þeirra sem kenna samkvæmt námsskrá) og er þörf á atbeina ráðherra í þeim efnum. Grunndeildir þessara skóla hafa undanfarin ár aðeins fengið málamyndagreiðslur frá ríkinu þar sem ekki hefur samist um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. BÍL hvetur stjórnvöld til að tryggja farsæla niðurstöðu þeirra viðræðna hið snarasta.
Þá ítrekar BÍL fyrri sjónarmið um þörfina á að efla danslistina svo hún hljóti sambærilegan sess og aðrar listgreinar og hvetur stjórnvöld til að styðja hugmyndaríkt og kraftmikið danssamfélagið m.a. með því að  tvinna saman starfsemi Íslenska dansflokksins og Dansverkstæðis í Danshúsi, eins og kallað er eftir í dansstefnu FÍLD 10/20.

Aukin framlög til kvikmyndagerðar
BÍL fagnar hækkun opinberra framlaga til kvikmyndagerðar með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, en fer þess á leit við stjórnvöld að þau tryggi áframhaldandi stuðning við greinina með því að setja hækkanirnar inn í gildandi samkomulag við kvikmyndagerðarmenn. Mikil uppbygging stendur nú yfir, en til að koma í veg fyrir áfall á borð við það sem greinin varð fyrir 2010 þarf að endurnýja gildandi samkomulag við greinina, sem tryggir stöðugleika og áframhaldandi öflugan stuðning.

Kvikmynda- og myndmiðlalæsi
Í samræmi við endurnýjaðar námsskrár ber stjórnvöldum að tryggja kennslu í kvikmynda- og myndmiðlalæsi í grunn og framhaldsskólum. Myndmál er orðið jafn mikilvægt og ritmál í nútímasamfélagi og því mikilvægt að börn og ungmenni fái tæki til að meta og greina. Gríðarleg þörf er fyrir námsefni, bæði til að mennta kennara og nemendur til að við náum að fylgja þróuninni í nágrannalöndum okkar. Heimili kvikmyndanna í Bíó Paradís er kjörinn samstarfsaðili um slík markmið.

Tónlistarskólarnir
Listafólk vænti mikils af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, sem gert var í maí 2011. Nú er ljóst að vankantar eru á framkvæmd samkomulagsins. Stjórn BÍL hvetur yfirvöld til að skoða vel ábendingar skólastjóra tónlistarskólanna í Reykjavík, sem telja að aðferð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við skiptingu framlaganna sé ábótavant, framlagið þurfi að taka mið af raunkostnaði skólanna svo þeir geti áfram boðið upp á nám sem stenst gæðakröfur og námsskrá. 

Safnamál;
Áríðandi er að gera átak í safnastarfi tengt listum og skapandi greinum. Gera þarf úttekt á stöðu þeirra safna sem um ræðir, tryggja tengsl þeirra  við geirann, höfuðsöfn og háskólaumhverfið.
Kvikmyndasafn. Nú eru framköllunarverkstæði í Evrópu að hætta störfum, þá er hætt við að frumgerðir margra íslenskra kvikmynda glatist. Mikilvægt er að bregðast hratt við til að bjarga þeim og koma þeim á stafrænt form til varðveislu. Þær 10 milljónir sem tilgreindar eru í samkomulagi greinarinnar við stjórnvöld til stafrænnar yfirfærslu duga skammt. BÍL leggur til að Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasafni verði falið að gera áætlun um með hvaða hætti sé hægt að bjarga þessum verðmætum og tryggja varðveislu kvikmyndarfsins til frambúðar.
Leikminjasafn. Opinber framlög til Leikminjasafns hafa dregist saman og eru nú mun lægri en til sambærilegra safna. Stjórnendur safnsins hafa gert sér vonir um að koma safninu fyrir í húsnæði Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu og í tengslum við það unnið að því að stofna hollvinasamtök til að efla fjárhagsgrundvöll safnsins. Atbeina ráðherra þarf til að þær áætlanir geti gengið eftir.
Safn RÚV. Mikilvægt er að tryggja skráningu þess menningararfs sem safn RÚV hefur að geyma. Safnið þarf að vera aðgengilegt og að stunda öfluga miðlun þessa mikilvæga arfs. Slík miðlun getur farið fram í samstarfi við Landsbókasafn og önnur söfn tengd listum og skapandi greinum. 

Framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands
Þegar LHÍ var stofnaður, fyrir nær 15 árum, var stefnt að því að Íslendingar eignuðust öfluga menntastofnun á sviði æðri mennta á sviði lista, þar sem samlegð listgreinanna myndi móta námið og gera útkomuna sérstaka. Þessi áform hafa ekki gengið eftir, enn er skólinn til húsa á þremur stöðum í borginni. Það skiptir þróun listmennta í landinu gríðarlega miklu máli að stjórnvöld taki ákvörðun um framtíðarstaðsetningu Listaháskóla Íslands og geri tafarlaust áætlun um byggingu framtíðarhúsnæðis.

Akademía og heiðurslaun
Sjónarmið BÍL um akademíu listamanna eru þau sömu og áður. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji þá grunnhugmynd að reynsla og færni eldri listamanna, þeirra sem á hverjum tíma njóta heiðurslauna Alþingis, verði nýtt með skipulögðum hætti og að þeim verði falin ábyrgð á að velja nýja meðlimi akademíunnar. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að loksins skuli hafa verið sett lög um heiðurslaun listamanna  (lög nr. 66/2012), en mikilvægt er að breyta þeim lagaramma sem fyrst, þannig að fagleg sjónarmið ráði því hverjir njóta heiðurslauna en ekki pólitísk.

Starfsumhverfi skapandi greina
BÍL fagnar því að Alþingi skuli hafa samþykkt menningarstefnu þá sem ráðherra lagði fram í haust og að nú skuli búið að stofna teymi innan stjórnsýslunnar sem vinnur að bættu starfsumhverfi skapandi greina á grundvelli skýrslunnar Skapandi greinar; sýn til framtíðar.  Þá er hönnunarstefna í burðarliðnum og breyting á lagaumhverfi sviðslista. Í því sambandi vill BÍL undirstrika mikilvægi þess að Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista verði komið á legg í samstarfi við Leiklistarsambandið.
Mikilvægt að ráðuneytið geri áætlun um eftifylgni þeirrar stefnumótunar sem unnið hefur verið að. Það á einnig við um stefnu í markaðssetningu lista og skapandi atvinnugreina á erlendri grund gegnum miðstöðvar listgreina/hönnunar og Íslandsstofu. Í áætlanagerð Íslandsstofu þarf að vera skýrt hversu miklum fjármunum skuli varið til lista og menningar og að fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum hafi áhrif á forgangsröðun og skiptingu fjármuna á einstök verkefni. Mikilvægt er að fulltrúi ráðuneytisins í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum beiti sér í þeim efnum.

Fjárhagsleg afkoma BÍL
Ríkið hefur stutt starfsemi BÍL með rekstrarframlagi, sem hefur skipt sköpum varðandi vinnu að hagsmunamálum listamanna. Í ár er framlagið kr. 2,4 milljónir og er það svipuð upphæð og var fyrir efnahagshrunið 2008. Það er mikilvægt fyrir störf BÍL að framlag opinberra aðila haldi verðgildi sínu frá ári til árs, því er þess óskað að framlagið 2014 verði sambærilegt að verðgildi og var fyrir hrun. Minnt er á að BÍL samanstendur af 14 fagfélögum listafólks, sem hafa innan sinna vébanda um 4 þúsund listamenn og BÍL er einn af lykilráðgjöfum stjórnvalda á sviði lista og menningar.

Þorvaldur Þorsteinsson – In memoriam

Í dag  verður Þorvaldur Þorsteinsson borinn til grafar. Þorvaldur gegndi embætti forseta BÍL 2004 – 2006. Listamenn syrgja góðan félaga og votta ástvinum hans innilega samúð.

„Því hér er ég þótt horfinn sé í raun
ef lít ég mig með sýnar minnar sjónum
sem endurvarp eins manns er fór hér fyrr
og lifnar við í leikaranum, mér.“

Þorvaldur með eigin orðum, úr örleikritinu Kall, og nú er hann hér þótt horfinn sé í raun. Hann er í verkunum sem lifa hann og í minningum okkar. Ein af mínu fyrstu minningum um hann er einmitt af leiksviðinu, það var í Stúdentaleikhúsinu og hann lék glæsilega trönsu í kabarett, og söng. Hvílíkt leikaraefni! hugsuðum við mörg og áttum von á að sjá hann næst í Leiklistarskóla Íslands. Skömmu síðar fréttist af honum í Myndlista- og handíðaskólanum. Þar hófst ferðalagið inn í ævintýraskóginn fyrir alvöru og leitin að gulleplum og töfrafuglum. Áður hafði hann reyndar frelsað prinsessuna Ibbý úr helli drekans og hún hvatti hann áfram þegar hann lét sig dreyma um að bjarga líka Rauðhettu frá úlfinum, Hans og Grétu frá norninni og Mjallhvíti frá vondu stjúpunni. Svo urðu dularfullir atburðir til þess að skilaboðaskjóða Stóra dvergs hvarf úr felustað sínum og barst eftir langt ferðalag í hans hendur. Og mikið gladdi það okkur þegar hann leysti frá skjóðunni og hleypti út sögunni um Putta og Möddumömmu, …..jafnvel þótt nátttröllið fylgdi með….

Veruleiki Þorvaldar var ævintýri líkur, hann lifði lífinu lifandi og ferðaðist um draumheima vakandi, stundum með nátttröllið á hælunum;

„Svo sjálfur er ég vitni þess ég vaki
er hrópa ég: Æ, tími, slepptu taki!“

Og tíminn sleppti óvænt taki 23. febrúar! Síðast sat hann við eldhúsborðið hjá mér í janúar og sýndi mér handrit sem hann var með í smíðum. Lífið virtist leika við hann, það var bjart yfir honum og spennandi verkefni framundan. Dvölin í Belgíu, með prinsessunni Helenu, hafði gert honum gott. Við skröfuðum um erindið sem hann ætlaði að flytja á málþinginu í tengslum við aðalfund BÍL 9. febrúar og hann bjó mig undir að hann ætlaði að vera ómyrkur í máli. Það kom ekki á óvart, það var hann yfirleitt. Nú deila menn upptöku af erindi þessu á facebook, þar sem hann fjallar af ákefð um hugðarefni sitt; menntun. Á eftir var setið um hann, félagar og vinir sópuðust að honum til að spyrja frétta úr ævintýraskóginum. Síðasta minning okkar margra, síðasta senan í leiknum margslungna sem líf Þorvaldar Þorsteinssonar var. Og það gustaði af honum í hlutverkinu, þá og alla tíð. Þess er gott að minnast nú á sorgarstundu.

Þessum fátæklegu kveðjuorðum fylgja kveðjur og þakklæti frá Bandalagi íslenskra listamanna, en Þorvaldur gegndi embætti forseta bandalagsins um skeið. Hugurinn dvelur hjá fjölskyldu og ástvinum, sem syrgja góðan dreng, megi óskir Möddumömmu fylgja honum í hans hinstu för:

„Vaka yfir værri brá,
vonir mínar allar.
Móðurhjartans heitust þrá;
heitir góðar vættir á,
að prinsinn minn rati heim til sinnar hallar.“

Kolbrún Halldórsdóttir

Fundur stjórnar BÍL með dagskrárstjórum RÚV

Í dag bauð stjórn BÍL nýráðnum dagskrárstjórum Ríkisútvarpsins til fundar í Iðnó, þeim Margréti Marteinsdóttur og Skarphéðni Guðmundssyni. Markmið fundarins var að bjóða þau velkomin til starfa, fá að heyra sjónarmið þeirra og áform, ásamt því að kynna fyrir þeim helstu áherslur BÍL í málefnum RÚV. Stjórn BÍL lagði fram minnisblað á fundinum, sem einnig var inngangsávarp forseta:

Ríkisútvarpið er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og að þeirri stofnun verður aldrei nógu vel búið. Á RÚV hvílir sú skylda að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Það hefur RÚV svo sannarlega gert með vandaðri dagskrá í gegnum tíðina. Nægir að nefna afbragðsgott Útvarpsleikhús á sunnudögum, Kilju og Djöflaeyju – þáttagerð sem fangar listirnar og miðlar til þjóðar.  Landinn og fleiri góðir þættir halda utan um mannlífið. Þannig ber að þakka margt gott sem daglega er gert í þessari menningarstofnun.

Tengsl við nágrannalöndin í norðrinu eru ræktuð með kaupum á skandinavísku efni og mætti auka hlut þess í dagskránni til muna til mótvægis við ódýrt og verksmiðjuframleitt léttmeti sem hefur djúpstæð og mótandi áhrif á samfélög.

Árum saman hafa listamenn og aðrir fulltrúar skapandi atvinnugreina kvartað undan því að það vanti leikið, innlent efni í sjónvarpsefni. Það er enda sá spegill sem við erum þakklátust fyrir og mótar þjóðarvitund og samkennd. Þarna þarf að lyfta Grettistaki og tíminn flýgur frá okkur. Kynslóðir alast upp við að spegla sig í erlendum veruleika. Það getur ekki verið markmið RÚV og vissulega er það ekki hlutverk stofnunarinnar.

Um hverja helgi eru glötuð tækifæri í stærstu skólastofu landsins. Á laugardags- og sunnudagsmorgnum frá 8:00 – 11:00 sitja þúsundir barna, mörg eftirlitslaus, yfir sjónvarpinu. Þarna væri hægt að leggja dásamlega hluti inn, leyfa íslenskri æsku að spegla sig í íslenskum veruleika, leggja inn orð og myndir, leik og dans, skemmtilega og skapandi hluti. Samstarf við grunnskóla og skapandi greinar væri borðleggjandi.

Og víkjum þá að hornsteini stofnunarinnar, sem þó hefur virst vera olnbogabarn til skamms tíma, Rás eitt. Þar fækkar í starfsliðinu. Dagskrárgerðarmenn Rásar eitt vinna stórkostlegt starf við þröngan kost. Þar hefur mátt ganga að gæðaefni vísu en hlustandinn finnur sárlega fyrir því þegar kreppir að. Nú kveður svo rammt að endurtekningum að þeir sem mest hlusta eru farnir að ókyrrast all verulega. Fjárhagi er kennt um, en að sjálfsögðu snýst þetta allt um forgangsröðun og mætti halda að Rás eitt ræki lest.

Til að efla menningarhlutverk RÚV væri þjóðráð að stofna sérstaka menningarfréttadeild,  sambærilega við íþróttafréttadeild, eins og þekkist á ýmsum stöðvum sem við berum okkur saman við- BBC og norðurlandastöðvarnar. Þær hafa á að skipa sérstökum menningarfréttamönnum  sem dreifa sér um dagskrána í útvarpi og sjónvarpi.  Þannig fengi menningarlífið í landinu þann sess sem því ber að kveldi dags og stofnunin endurspeglar samninginn við þjóð sína og menningarlegan metnað.

Í hnotskurn er afstaða BÍL sú að RÚV sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og það sé nauðsynlegt að stofnunin fái sinnt lögbundnu hlutverki sínu af metnaði. BÍL telur það sameiginlegt hagsmunamál listamanna og stjórnenda RÚV að vel sé að RÚV búið, faglegur metnaður sé þar í hávegum hafður og innlend dagskrárgerð verði efld á öllum rásum útvarps og sjónvarps.

Um leið og stjórn BÍL býður nýja dagskrárstjóra velkomna til starfa og óskar þeim heilla í starfi, bjóðum við fram krafta okkar til liðsinnis við framtíðarstefnumótun og uppbyggingu kraftmikillar dagskrár RÚV.

Skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna

Í tengslum við aðalfund BÍL  9. febrúar sl. var haldið málþing um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Sex listamenn og hönnuðir fluttu erindi á máþinginu og beindu sjónum sínum að uppbyggingu skapandi atvinnugreina út frá eigin reynslu af störfum í hinum skapandi geira.  Erindin hafa nú verið gerð aðgengileg hér á vef BÍL og er það von okkar að þau  veki forvitni út fyrir raðir aðildarfélaga BÍL, t.d. fjölmiðla, aðila vinnumarkaðarins, sjórnmálamanna og þeirra sem sinna opinberri stjórnsýslu.

Brghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt

Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður og textasmiður

Guðmundur Oddur Magnússon hönnuður og prófessor

Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður og leiðsögumaður

Sólveig Arnarsdóttir  leikari

Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður og rithöfundur

Starfsáætlun BÍL 2013

 • Framundan er mikilvæg stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina, bæði innan stjórnkerfisins sem og atvinnulífsins. Mikilvægt er að BÍL taki virkan þátt í stefnumótuninni og standi vörð um þátt listanna í þeirri þróun skapandi greina, sem nú á sér stað. Til þess að skapandi atvinnugreinar fái blómstrað þarf að tryggja hlut listanna í heildarmyndinni og skapa gefandi samspil þar á milli.
 • BÍL vinni áfram að sameiginlegum hagsmunum listafólks varðandi skattlagningu. BÍL endurnýi áherslur sínar í skattamálum og beiti sér í baráttunni fyrir sem sanngjarnastri skattlagningu á störf og afurðir listamanna. Einnig þarf BÍL að sinna hagsmunum listamanna hjá samfélagsstofnunum á borð við Vinnumálastofnun og Tryggingarstofnun.
 • Mikilvægt er að listafólk sé rétt skráð í atvinnugreinaflokka hjá skattyfirvöldum, m.a. til að tryggja að stjórnvöld (þ.m.t. Hagstofa Íslands) hafi á hverjum tíma sem gleggstar upplýsingar um störf innan geirans sem auðveldar mat á þjóðhagslegu vægi lista og menningar. Í þessu skyni setji BÍL á laggirnar starfshóp, sem leiti leiða til að upplýsa listafólk um mikilvægi réttrar skráningar. Einnig taki BÍL þátt í að efla og þróa skráningu tölulegra gagna um ströf listafólks og þeirra sem starfa í skapandi geiranum, með það að markmiði að listir og menning verði sjálfsagðar stærðir í árlegum þjóðhagsreikningum.
 • BÍL beiti sér í baráttunni fyrir bættri listmenntun á öllum skólastigum, með því að auka samskipti við yfirvöld menntamála jafnt á vettvangi ríkis sem og sveitarstjórna. Í því skyni leiti BÍL leiða til að styrkja verkefni sem byggja á samspili listar og skólastarfs með norska „menningar-bakpokann“ til viðmiðunar. Þá taki BÍL þátt í eflingu háskólanáms í listum m.a. með því að efna til virkara samstarfs við Listaháskóla Íslands um markmið og leiðir.
 • Heimasíða BÍL verði þróuð áfram og hún gerð að vettvangi skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra um störf og hagsmunamál listafólks. Mikilvægt er að síðan miðli upplýsingum um BÍL á erlendum tungumálum (ensku og dönsku) eftir því sem fjárhagur BÍL leyfir. Þá verði áfram unnið að því að koma starfi BÍL á framfæri á samskiptasíðum á vefnum.
 • BÍL taki virkan þátt í að bæta lagaumhverfi á sviði lista lista og menningar. Fylgja þarf eftir hugmyndum aðildarfélaga BÍL um styrkari stöðu lista og menningar innan RÚV ohf, með ályktun ársfundar BÍL 2011 að leiðarljósi, um að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.
 • BÍL leiti nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða til sín starfskraft sem auka myndi slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna. Í ljósi vaxandi áhuga á uppbyggingu skapandi atvinnugreina, jafnt meðal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, er mikilvægt að BÍL hafi bolmagn til að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu með heildarhagsmuni listamanna að leiðarljósi.
 • BÍL leggi sig fram við tryggja listum og menningu hlutdeild í ágóða íslenska lottósins, m.a. með því að afla upplýsinga um fyrirkomulagið í nágrannalöndum okkar og miðla þeim upplýsingum jafnt til stjórnvalda sem almenni

 

Skýrsla forseta BÍL fyrir starfsárið 2012

Stjórn BÍL hélt 11 reglulega fundi á starfsárinu. Aðildarfélög BÍL eru fjórtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum þeirra stjórnarmanna, sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:Arkitektafélag Íslands, AÍ, – formaður: Logi Már Einarsson (fulltr í stjórn BÍL: Gíslína Guðmundsdóttir)
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Randver Þorláksson
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Guðmundur Helgason
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Kristín Mjöll Jakobsdóttir/Nína Margrét Grímsdóttir (varamaður Hallveig Rúnarsdóttir)
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir (varamaður Anna Þóra Steinþórsdóttir)
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Jón Páll Eyjólfsson (varamaður Gunnar Gunnsteinsson)
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Steinsdóttir  (varamenn Jón Kalmann Stefánsson og Kristín Helga Gunnarsdóttir )
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Hrafnhildur Sigurðardóttir
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Ragnar Bragason
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Rebekka Ingimundardóttir (varamaður Þórunn María Jónsdóttir)
Félag leikskálda og handritshöfunda; – formaður: Hávar Sigurjónsson

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2013):

Menningar- og ferðamálaráð              Kolbrún Halldórsdóttir                       áheyrnarfulltrúi
Reykjavíkur                                          Hrafnhildur Sigurðadóttir  áheyrnarfulltrúi

Fulltrúar í faghópi menningar- og ferðamálaráðs Rvíkur 2012:
Sólrún Sumarliðadóttir menningarfræðingur og   tónlistarm.
Gunnar Hrafnsson tónlistarmaður
Randver Þorláksson leikari
Lárus Ýmir Óskarsson leikstjóri
Ólöf Nordal myndlistarmaður

Kvikmyndaráð Ágúst Guðmundsson skipaður til 30.09.2012
Ásdís Thoroddsen, varamaður

Barnamenningarsjóður Kristín Mjöll Jakobsdóttir 15.08.2011 – 14.08.2013
Rebekka Ingimundard varamaður

Fulltrúaráð Listahátíðar Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna  Margrét Bóasdóttir  10.10.2012 til 01.10.2015
Randver Þorláksson  varamaður

Stjórn Skaftfells  Hrafnhildur Sigurðardóttir
Ásta Ólafsdóttir, varamaður

Menningarfánaverkefni Reykjavíkurborgar  Karen María Jónsdóttir

List án landamæra Edda Björgvinsdóttir

Fulltrúi  í samráðshóp um málefni ungs fólks Agnar Jón Egilsson  skipaður 12.06.12
Oddný Sen, varamaður

Stjórn Gljúfrasteins  Kolbrún Halldórsdóttir skipuð til 22. apríl 2016

Umsagnarnefnd v/heiðurslauna  Pétur Gunnarsson  skipaður 17. des. 2012

Forseti BÍL er fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Íslandsstofu og í stjórn Listaháskóla Íslands, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti gegnir formennsku í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Þá er forseti formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands. Forseti var kjörinn í fagráð Austurbrúar, sameinaðrar stoðstofnunar sveitarfélaga á Austurlandi, á stofnfundi 8. Maí 2012 og var skipaður í ráðgjafarhóp Samtaka Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu vegna sóknaráætlunar 20/20. Þá á forseti sæti í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar og í úthlutunarnefnd námsmannastyrkja Landsbanka Íslands  -Námunnar.  Forseti BÍL átti sæti í starfshópi um starfsskilyrði skapandi greina, sem mennta- og menningarmálaráðherra setti á laggirnar vorið 2011, hópurinn skilaði tillögum sínum í október 2012.

Skattamál og félagsleg réttindi
Starfsáætlun BÍL, sem samþykkt var aðalfundi 28. janúar 2012 hefur legið til grundvallar starfi Bandalagsins þetta árið ásamt með ályktunum þess sama fundar.  Segja má að verkefnin skiptist upp í hagsmunagæslu, sem aldrei tekur enda annars vegar og svo tímabundin verkefni sem hægt er að ljúka hins vegar. Af dæmigerðri hagsmunagæslu Bandalagsins  má nefna skattamál og réttindi til fæðingarorlofs og atvinnuleysisbóta.  Í þeim málaflokkum hefur ekki dregið til stórra tíðinda á árinu, þó hefur BÍL verið í sambandi við formann efnahags- og skattanefndar Alþingis og rætt mögulegt áframhald frumvarps til laga um virðisaukaskatt frá í desember 2011, þar sem ákveðið var að fresta meðhöndlun tillgöu um undanþágugrein laganna varðandi listaverk.  Eftir að þingið frestaði afgreiðslu þess máls má segja að þeir listamenn, sem vinna listmuni eða við listhandverk, hafi ekki orðið varir við aðgerðir skattyfirvalda í líkingu við það sem var. Einnig hefur það áhrif að skýrslan „Skapandi greinar – Sýn til framtíðar“, sem kynnt var 19. október 2012, hefur að geyma tillögur í skattamálum, sem falla algerlega að stefnu BÍL í málaflokknum. Þar er lagt til að lögum um virðisaukaskatt verði breytt þannig að skattlagning og skilgreinining listaverka og listmuna verði sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndunum. Einnig að stjórnvöld taki afstöðu til óska listamanna um skattalega meðferð launatekna listamanna annars vegar og tekna sem aflað er með leigu af hugverkaeign hins vegar. Loks er lagt til að stjórnvöld taki afstöðu til þess hvort hækka beri greiðslur úr launasjóðum listafólks til samræmis við reglur RSK um mánaðarlegt reiknað endurgjald. Það er því nokkuð ljóst að næsti leikur í þessu málum er hjá ríkisvaldinu,  sem um þessar mundir er að skipa þverfaglegan samstarfshóp, sem fær það verkefni að fylgja eftir tillögum skýrslunnar að samræmdri uppbyggingu skapandi atvinnugreina. Nánar verður fjallað um efni skýrslunnar síðar í þessari skýrslu.

Opinber stuðningur við listir og menningu.
Óhætt er að segja að áfram miði í rétta átt hvað varðar það baráttumál listafólks að úthlutun opinbers fjár til verkefna á sviði lista og menningar verði leyst af hendi með sem faglegustum hætti. BÍL átti sinn þátt í því að á fjárlögum 2012 var fjármunum á þessu sviði veitt í meira mæli en áður  til sjóða, sem hafa það lögbundna hlutverk að styðja við listir og menningu, í stað þess að fjárlaganefnd þingsins auglýsi eftir umsóknum og veiti sjálf styrki til menningartengdra verkefna. Þessi þróun heldur sem betur fer áfram á yfirstandandi ári. Þannig hækka framlög milli áranna 2012 og 2013 í þá sjóði sem helst snerta störf listamanna. Launasjóðir listamanna hækka úr 488.9 m.kr. í 506.2 m.kr, Kvikmyndasjóður úr 515 í 1.020, Tónlistarsjóður úr 47 í 81, að auki verður 20 m.kr. varið til útflutnings íslenskrar tónlistar, Bókmenntasjóður úr 42 í 92, Bókasafnssjóður höfunda  úr 23.1 í 42.6, sjóður til starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna úr 71.2 í 89.8.  Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ hækkar úr 54.6 í 64.6. Framlög til miðstöðva listgreina og hönnunar hækka í heildina úr 90.7 m.kr í 99.1 m.kr að undanskilinni Kvikmyndamiðstöð sem hækkar meira eða úr 97.8 í 137.2. Einu sjóðirnir sem sitja eftir í þetta sinn eru Listskreytingasjóður með 1.5 m.kr eins og 2012 og Barnamenningarsjóður, sem lækkar úr 4.1 m.kr í 4 m.kr.  Þá er að geta þess að tveir nýjir sjóðir líta dagsljósið á fjárlögum ársins 2013, það eru Hönnunarsjóður upp á  45 m.kr og Myndlistarsjóður upp á 45 m.kr. Auk þess sem hér hefur verið talið þá hækkar framlag ríkisins til menningarsamninga við sveitarfélög á landsbyggðinni einnig. Þannig hækkar samningur við Akureyrarbæ um menningarstarfsemi úr 125.1 m.kr í 140.1 m og aðrir samningar úr 230.4 í 235.1. Af öðrum sjóðum menningartengdum má nefna að Húsafriðunarsjóður hækkar um 210 m.kr (úr 94.3 í 304.3).  Hluti þeirra hækkana sem hér er gerð grein fyrir á rætur í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, en hún var fyrst kynnt á fundi með aðilum vinnumarkaðarins 18. maí 2012. Það var nokkur nýlunda að forseti BÍL skyldi boðaður til fundar af því tagi, en gefur vonandi fyrirheit um breytt viðhorf stjórnvalda gagnvart listum og skapandi geinum.
Síðar  í skýrslu þessari verður  vikið að stuðningi Reykjavíkurbor við list- og menningartengd verkefni.

Launasjóðir og verkefnasjóðir
Á árinu lauk fyrsta þriggja ára tímabili stjórnar listamannalauna, sem skipuð var skv. nýjum lögum um listamannalaun 2009. Af því tilefni boðaði stjórn BÍL stjórn listamannalauna á sinn fund til að fara yfir reynsluna af lögunum. Mikilvægar ábendingar komu fram á fundinum um atriði sem betur mættu fara varðandi framkvæmd laganna. Þar var t.d. rætt um verksvið og vinnulag úthlutunarnefndanna, starfsaðferðir og hæfisreglur, kostnað og fyrirkomulag við umsýslu sjóðanna og samspil launatengdra sjóða og verkefnasjóða. Það var sameiginlegt álit beggja stjórnanna að hvetja þyrfti stjórnvöld til að gera nýja áætlun um þróun launasjóðanna núna þegar þriggja ára áætluninn, sem kynnt var 2009, hefur runnið sitt skeið. BÍL hefur haldið þeirri hvatningu á lofti við menningarmálaráðherra og vonast til að ný áætlun um eflingu sjóðanna líti dagsins ljós áður en langt um líður. Það gæti mögulega gerst í tengslum við vinnu sem nú á sér stað í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og gengur út á samræmingu og straumlínulögun þeirra sjóða sem styðja listir og menningu. Þær hugmyndir ganga m.a. út á að kanna hvort hagkvæmt og skynsamlegt sé að fela RANNÍS umsýslu og utanumhald launasjóðanna og annarra sjóða, sem styðja verkefni á sviði lista og hönnunar  en hafa hingað til verið í vörslu ráðuneytisins. BÍL tekur  virkan þátt í þessari umræðu á vettvangi ráðuneytisins,  ásamt kynningarmiðstöðum listgreina og hönnunar og fleiri tengdum aðilum.
Á samráðsfundi BÍL og menningarmálaráðherra í 13. apríl ítrekaði stjórn BÍL þessi sjónarmið sín lagði auk þess áherslu á að kannaðir verði kostir þess að í sviðslistunum verði komið á svipuðu fyrirkomulagi og Kvikmyndasjóður starfar eftir, þ.e. að stofnaður verði sviðslistasjóður með sameiningu  launasjóðar sviðslistafólks og verkefnasjóðar til starfsemi atvinnuleikhópa. Slíkur sameinaður sjóður verði opinn fyrir umsóknum allt árið og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista verði falið svipað hlutverk í úthlutunarferlinu og Kvikmyndamiðstöð hefur varðandi styrki til kvikmyndagerðar. Þar sem sviðslistalög eru nú til meðferðar á Alþingi má gera ráð fyrir að tillögur af þessu  tagi séu til skoðunar á þeim vettvangi. BÍL mun fylgja leiðsögn sviðslistafélaganna í samskiptum við allsherjarnefnd þingsins sem hefur málið til meðferðar.
Í maí endurnýjaði stjórn BÍL tilnefningu fulltrúa síns í stjórn listamannalauna og gegnir Margrét Bóasdóttir því hlutverki áfram til 2015.

Umsagnir um þingmál
BÍL tekur virkan þátt í vinnu við lagasetningu með því að veita Alþingi umsagnir um mál á vettvangi lista og menningar.  Á árinu hefur BÍL fjallað um fjölda ólíkra mála, ber þar hæst tillgöu til þingsályktunar um menningarstefnu, sem lögð var fram á Alþingi í upphafi yfirstandandi þings. Svo sem rakið er í skýrslu forseta BÍL vegna starfsársins 2011 þá hefur aðkoma BÍL verið talsverð á nokkuð löngum meðgöngutíma tillögunnar.  Tillagan er enn óafgreidd, en vonir standa til að hún verði samþykkt á vorþingi.
Önnur þingmál, sem BÍL hefur fjallað um á árinu eru:
tillaga um aðgang almennings að hljóðupptökum Blindrabókasafns Íslands, tillagan hefur ekki verið afgreidd frá þinginu;
frumvarp til laga um bókmenntasjóð og miðstöð íslenskra bókmennta, sem varð að lögum 20. desember 2012;
tillaga til þingsályktunar um vernd tjáningarfrelsis og upplýsingafrelsis, sem samþykkt  var á þinginu 2010 en er nú til meðhöndlunar í starfshópi á vegum menningarmálaráuneytis og var það starfshópurinn sem óskaði umsagnar BÍL um framkvæmd tillögunnar;
frumvarp til fjárlaga 2013;
frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, frumvarpið er enn til meðferðar í þinginu;
frumvarp til sviðslista, málið er enn til meðferðar í þinginu.
Allar umsagnir BÍL til Alþingis eru aðgengilegar á vefsíðu BÍL www.bil.is
Eitt þingmál er ótalið og er það frumvarp til laga um heiðurslaun listamanna, sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði fram 31. mars 2012. Málið  var langt frá því að samrýmast áherslum BÍL um akademíu heiðurslistamanna, eins og þær höfðu verið kynntar þingmönnum með ályktun aðalfundar BÍL 2011. BÍL stjórnin freistaði þess að fá málinu breytt með vel rökstuddri umsögn til nefndarinnar, sem fól í sér stuðning við þá hugmynd að heiðurslaunum skuli settur rammi í lögum, en jafnframt með áherslu á að fjöldi heiðurslistamanna sé í samræmi við skilgreinda þörf og að úthlutunin sé á hendi faglega skipaðrar nefndar (ef ekki akademíunnar sjálfrar) en ekki í höndum stjórnmálamanna eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Að öðru leyti undirstrikaði BÍL sjónarmið þau sem koma fram í fyrnefndri aðalfundarsamþykkt.  Nefndin tók í engu tillit til athugasemda BÍL og  varð frumvarpið að lögum 12. júní með nokkrum breytingum, sem breyttu ekki afstöðu BÍL til málsins. Þegar kom að því að framkvæma þá grein frumvarpsins, sem varðar skipan nefndar þeirrar sem ætlað er að gefa þingmönnum umsögn um þá listamenn sem til greina kemur að njóti heiðurslauna, þá tilnefndi stjórn BÍL Pétur Gunnarsson til setu í nefndinni. Þeirri tilnefningu var fylgt eftir með nokkuð harðorðu bréfi sem undirstrikaði enn sjónarmið BÍL varðandi heiðurslaun listamanna.

Skapandi greinar – Sýn til framtíðar
Í september lauk vinnu starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra sem hafði fengið það verkefni, í upphafi árs 2011, að meta hvernig hægt væri að bæta starfsumhverfi skapandi greina, nýta þau tækifæri sem til staðar eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun, og styðja við útflutningsstarfsemi.  Forseti BÍL átti sæti í starfshópnum og hafði stjórn BÍL fylgst reglulega með vinnunni. Skýrsla hópsins var kynnt með viðhöfn í Hörpu 19. október og tóku 4 ráðherrar  þátt í kynningunni og sátu fyrir svörum um stefnu stjórnvalda í málefnum skapandi atvinnugreina.
Skrýslan greinir stöðu skapandi greina og leggur fram tillögur til styrkingar greinunum. Megintillögur skýrslunnar ganga út á  að stjórnskipuleg ábyrgð skapandi greina verði skýr, samráð við skapandi geirann verði styrkt og upplýsingaflæði aukið.  Áhersla er lögð á það að ráðuneytin auki þekkingu sína á geiranum og að innan ráðuneytanna verði til sérfræðingar, sem hafi það skilgreinda hlutverk að sinna skapandi atvinnugreinum. Lagt er til að settur verði á stofn þverfaglegur hópur ráðuneyta og geirans, sem fái það hlutverk að vinna að samræmdri uppbyggingu greinanna á grundvelli skýrslunnar. Í skýrslunni eru einnig tillögur um styrkingu miðstöðva lista og hönnunar, þær verði miðstöð þekkingar á geiranum og virki sem brú milli stjórnsýslunnar og þeirra sem starfa innan geirans. Þá er lögð áhersla á að skapandi greinar verði skilgreind stærð í þjóðhagsreikningum og að söfnun tölulegra upplýsingar verði stórefld t.a.m. undir hatti Hagstofunnar. Einnig að ríki og sveitarfélög samræmi skráningu sína og upplýsingagjöf um tölfræði greinanna, t.d. upplýsingar um fjárhagslegan stuðning en ekki síður um framlag greinanna til hagkerfisins. Í skýrslunni er lögð mikil áhersla á fagmennsku í framlögum opinberra styrkja til skapandi greina og sérstök áhersla lögð á frumsköpun. Undir frumsköpun falla störf listamanna, sem eru bæði hluti af skapandi atvinnugreinum en líka sjálfstæð starfsemi, sem ekki er heppilegt að hneppa um of í bönd stjórnsýslulegs aga. Það hefur verið hlutverk BÍL í þessari vinnu að standa vörð um sérstöðu listanna í hinum skapandi geira og verður sérstaklega fjallað um þann þátt á málþingi í tengslum við aðalfund BÍL 2013.

Nýtt ráðuneyti atvinnu- og nýsköpunar
Í framhaldi af kynningu skýrslunnar um skapandi greinar sendi stjórn BÍL erindi til ráðherra í sameinuðum málaflokki atvinnumála og nýsköpunar og óskaði eftir fundi til að kynna sjónarmið listamanna varðandi uppbyggingu skapandi greina og fá upplýsingar um með hvaða hætti ráðuneytið hyggðist sinna skapandi atvinnugreinum. Það tók nokkurn tíma að fá slíkan fund, en þegar hann var haldinn um miðjan nóvember, var meginstefið í málflutningi BÍL mikilvægi áætlunar um samhenta  stjórnsýslu og  þverfaglega nálgun varðandi málefni skapandi greina og að nauðsynleg fagþekking verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir tengdar þeim. Þá undirstrikaði BÍL mikilvæg heildstæðs rannsóknarumhverfis um greinanna, þ.m.t. um veltu, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu,  ásamt samspili atvinnutengdra rannsókna og rannsókna innan háskólanáms í listum og skapandi greinum.  Einnig var undirstrikuð þörfin á að fulltrúum skapandi greina í fagráðum sjóða hjá RANNÍS verði fjölgað og innleidar mælistikur sem henta skapandi greinum varðandi mat á umsóknum . Ásamt því að skoða þurfi möguleika á tímabundnum sjóði hjá RANNÍS í þágu skapandi greina. Loks voru ítrekuð sjónarmið BÍL varðandi skattaumhverfi listamanna, virðisaukaskatt og nauðsyn á skattalegri hvatningu til einkaaðila til að fjárfesta í listageiranum.
Það er mat stjórnar BÍL að full ástæða sé til að stjórn BÍL hitti ráðherra atvinnuvega  og nýsköpunar á árlegum fundi, líkt og tíðkast með mennta- og menningarmálaráðherra og borgarstjórann í Reykjavík. Þeirri hugmynd var hreytft við ráðherrann og verður áhugavert að fylgjast með hvort slík hugmynd nær fram að ganga. Það var svo skömmu fyrir áramótin að BÍL var tilkynnt að búið væri að skipa sérstakan fulltrúa skapandi atvinnugreina innan hins nýja ráðuneytis. Það er Helga Haraldsdóttir, sem sinnt hefur málefnum ferðaþjónustunnar um árabil innan iðnaðarráðuneytisins og þegar þetta er ritað hefur forseti þegar átt einn fund með Helgu, sem lofar góðu um áframhaldandi samskipti BÍL við ráðuneytið.

Norræna menningarmálaáætlunin – Kultur Kontakt Nord
7. des. 2011 brást BÍL við beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis og sendi inn lista með nöfnum 7 einstaklinga fyrir ráðuneytið til að velja úr í sérfræðingahópa  Norrænu ferða- og dvalarstyrkjaáætlunarinnar á menningarsviðinu tímabilið 2012 – 2015. Af þeim lista varð Gunnar Gunnsteinsson fyrir valinu í sérfræðingahóp um ferðastyrki. Ísland fékk hins vegar enga fulltrúa í sérfræðingahóp um dvalarstyrki að þessu sinni og ekki heldur í sérfræðingahóp um tengslanetin.
Þ. 25. október 2012 fékk BÍL svo beiðni frá mennta- og menningarmálaráðuneyti um að tilnefna tvo fulltrúa sem hæfir væru til að taka sæti í sérfræðingahópi áætlunarinnar um verkefnastyrki, en sá hópur sýslar með hæstu upphæðirnar í áætluninni. Frestur til að tilnefna var ein vika. BÍL mótmælti þessum skamma fresti, sem kom til vegna þess að ráðuneytið gleymdi að óska eftir tilnefningum þegar erindið frá Norrænu ráðherranefndinni barst  þeim, en það var 11. júní.  Þ. 7. nóv. sendi BÍL tillögu til ráðuneytisins um Báru Lyngdal leikkonu og Pétur Jónasson tónlistarmann.  Þ. 11. des. 2012 tilkynnti ráðuneytið BÍL að Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar hjá Landsbókasafni Íslands, hafi verið valinn úr tilnefningum landanna til setu í sérfræðingahópi um verkefnastyrki KKN. Örn mun hafa verið tilnefndur af ráðuneytinu. Um þessar mundir er Gunnar Gunnsteinsson því eini fulltrúinn sem BÍL hefur átt þátt í að tilnefna í sérfræðingahópa Norrænu menningaráætlunarinnar KKN. Loks má geta þess að Ísland hefur ekki átt aðalfulltrúa í rekstrarstjórn KKN síðan í lok árs 2011.
Þetta fyrirkomulag tilnefninga í sérfræðingahópana hefur verið tilefni nokkurrar umræðu á vettvangi Nordisk Kunstnerråd (systursamtök BÍL á Norðurlöndunum) og var meðal þess sem fjallað var um á fundi embættismannanefndar Norrænu Ráðherranefndarinnar og Nordisk Kunstnerråd í desember 2012. Það er mat systursamtaka BÍL að regla hæfilegrar fjarlægðar sé best virt með því að samtök á sviði lista og menningar tilnefni fulltrúana, sem valið er úr í sérfræðingahópana, það sé óeðlilegt að ráðuneytin sjái um tilnefningarnar. Einnig að tilnefningarferlið þufi að vera gagnsætt og unnið í samstarfi aðila. Slík vinnubrögð voru því miður ekki viðhöfð í þetta sinn.
Stjórn BÍL ræddi þessi mál á fundi með fyrrum fulltrúum í sérfræðingahópum KKN í febrúar 2012, þeim Ágústi Guðmundssyni, Ragnheiði Tryggvadóttur og Hávari Sigurjónssyni. Þau hvetja aðildarfélögin til að fylgjast vel með málefnum KKN á heimasíðu áætlunarinnar og gegnum rafrænt fréttabréf, sem gefið er út reglulega.

Tjáningarfrelsi listamanna
BÍL hefur á árinu beitt sér með margvíslegum hætti í þágu tjáningarfrelsis listamanna vítt um veröldina. Þannig sendi BÍL frá sér yfirlýsingu 20. apríl vegna opinberrar heimsóknar Wen Jiabao forsætisráðherra Kína til Íslands, þar sem vakin var athygli á víðtækum mannrétindabrotum kínverskra stjórnvalda, ekki síst gagnvart listamönnum. BÍL hvatti íslenska ráðamenn til að gera mannréttindi og tjáningarfrelsi að umræðuefni á fundum með forsætisráðherranum.
Þá sendi BÍ ákall til forseta Rússlands og tveggja rússneskra saksóknara í máli pönk-rokk sveitarinnar Pussy Riot, þar sem þess var krafist að listakonunum yrði sleppt úr haldi og allar ákærur gegn þeim látnar niður falla.
Loks má geta þess að BÍL tók á árinu þátt í að stofna alþjóðlegt viðbragðteymi ARTSFEX, sem ætlað er það hlutverk að bregðast við brotum gegn tjáningarfrelsi listamanna, með sérstaka áherslu á sviðslistafólk og myndlistarmenn, í ljósi þess að PEN International vinna nú þegar mikið starf í þágu rithöfunda og Freemuse eru samtök sem leggja sig eftir að sinna tjáningarfrelsi tónlistarmanna. Stofnfundur samtakanna var haldinn í Osló í tengslum við stóra alþjóðlega ráðstefnu „All that is banned is desired“ um  tjáningarfrelsi listamanna, sem haldin var í Óperuhúsinu í Osló og bauð upp á samfellda tveggja daga dagskrá með listafólki sem búið hefur við ofsóknir og pyntingar í heimalöndum sínum. Meðal listamanna þar voru tónlistarmenn frá Malí, sem hafa verið í fréttum síðustu daga vegna ofsókna Íslamista gegn tónlistarfólki.  Sl. miðvikudag veitti Freemuse tónlistarhátíð í Malí  „Festival au Désert“ verðlaun samtakanna 2013.

Lottómál
BÍL hefur beitt sér fyrir því að happdrættislöggjöf á Íslandi verði breytt þannig að ágóða af íslenska lottóinu verði m.a. varið til verkefna á sviði lista og menningar, svo sem títt er í nágrannalöndum okkar. BÍL hefur borið þetta erindi fram við þrjá ráðherra á þessu kjörtímabili, Steingrím J. Sigfússon þáv. fjármálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, þáv. dómsmálaráðherra og Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Ráðherrarnir tóku allir vel í málaleitan BÍL, sem lagði til að stofnaður yrði starfshópur sem fengi málið til skoðunar. Á vordögum 2011 skipaði innanríkisráðherra svo starfshóp, sem fékk það hlutverk að skoða umhverfi lottómála á Íslandi og skiptingu ágóða af starfsemi þeirri sem rekin er af Íslenskri Getspá. Eftir því sem BÍL kemst næst þá fór vinna starfshópsins aldrei af stað fyrir alvöru.  En af því að vitað var um undirbúning frumvarps um happdrættismál innan ráðuneytisins þá vonaðist BÍL til þess að mál tengd lottóinu væru þar undir. Þegar frumvarpi um happdrætti var dreift á Alþingi í lok nóvemer sl. olli það BÍL vonbrigðum að sjá að þar skyldi ekki með nokkrum hætti fjallað um lottó eða skiptingu ágóða af starfsemi Íslenskrar Getspár, heldur mest áhersla lögð á forvarnarstarf gegn spilafíkn.
Nokkur umræða spratt upp í fjölmðilum í tengslum við þessa umsögn BÍL, enda fór hún ekki leynt, var birt á vefsíðu BÍL eins og aðrar umsagnir BÍL um þingmál. Fjölmiðlum fórst það misjafnlega úr hendi að gera grein fyrir sjónarmiðum BÍL og lögðu megináherslu á það að listamenn væru að seilast í fjármuni sem hefðu hingað til farið til íþróttastarfs. Það er því full ástæða til að undirstrika sjónarmið BÍL í þessum efnum. BÍL gerir ekki athugasemdir við það að íþróttahreyfingin í landinu skipti með sér ágóða getrauna skv. lögum nr. 59/1972 en telur sanngirnismál að listir og menning njóti þess hluta ágóðans af lottóinu (skv. lögum nr. 26/1986) sem nú kemur í hlut ÍSÍ og UMFÍ.  Í því skyni leggur BÍL til að þau einkaleyfi sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins verði endurskoðuð reglulega og að upplýsingar um ráðstöfun þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega verði aðgengileg almenningi, en slík upplýsingagjöf er sáralítil ef nokkur.
Málið er enn til meðferðar á Alþingi og ekki vitað hvort allsherjarnefnd Alþingis tekur umsögn BÍL til skoðunar, en stjórnin hefur lýst sig reiðubúna að koma á fund nefndarinnar til að ræða málin.

Listalausi dagurinn
Ekkert varð úr því að BÍL gengist fyrir „listalausum degi“ svo sem áformað hafði verið. Það helgast fyrst og fremst af því að ekki reyndist unnt að setja saman vinnuhóp áhugasamra einstaklinga um málið. Þau sem skipulögðu aðgerðir á listalausum degi 2011 voru komin í önnur kröfuhörð verkefni og ekki tókst að finna nýja fulltrúa í slíkan starfshóp. Það var á endanum ákveðið að slá hugmyndinni á frest um sinn og bíða þess að áhugasamir listamenn, sem hefðu brennandi áhuga á hugmyndinni, byðust til að taka framkvæmdina að sér.

Samstarf við ríki og borg
Stjórn BÍL hittir mennta- og menningarmálaráðherra á árlegum samráðsfundum ásamt starfsfólki ráðherraskrifstofu og menningarskrifstofu ráðuneytisins. Mælt er fyrir um slíkan fund í samningi BÍL og ráðuneytisins um ráðgjöf á vettvangi listanna. Það samkomulag rennur út í lok þessa árs, en áætlað er að endurnýja það áður en fjárlagafrumvarp 2014 verður lagt fram. Fundurinn í ár var haldinn 13. apríl og var farið yfir þau mál sem helst brenna á listamönnum.
Svipaður samráðsfundur er haldinn árlega með borgarstjóra og aðstoðarmönnum, ásamt fulltrúum menningar- og ferðamálaráðs og starfsfólki sviðsins. Byggir sá fundur einnig á samkomulagi borarinnar og BÍL um ráðgjöf á sviði listanna. Um þessar mundir hefur borgarráð til umfjöllunar ósk um endurnýjun þess samkomulags til næstu þriggja ára. Fundur ársins var haldinn 29. mars. Á fundunum með borgarstjóra ber menntamál ævinlega nokkuð hátt í umræðunni og listuppeldi. Til að taka þá umræðu við „rétta“ aðila var efnt til sjálfstæðs samráðsfundar með skóla- og frístundasviði borgarinnar. Sá fundur var haldinn 9. jan. 2013 og var um margt afar gagnlegur. Ákveðið var að halda annan slíkan fund með haustinu, svo líklegt er að samráð BÍL og skóla- og frístundasviðs sé komið til að ver. Meðal hugmynda sem ræddar voru á þessum fundi voru með hvaða hætti mætti efla og auka samstarf listamanna og grunnskóla höfuðborgarinnar, en mikill vilji er til þess á báða bóga. Áframhaldandi viðræður munu byggja á þeim verkefnum sem þegar eru til staðar, t.d. Tónlist fyrir alla og Skáld í skólum. Leitað verður leiða til að útvíkka það starf á grunni reynslunnar af verkefninu „Litróf listanna“ byggt á framkvæmd norska fyrirmyndarverkefnisins  „Den Kulturelle Skolesækken“.
Í nóvember sl. var einnig haldinn samráðsfundur með nýjum atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, svo sem fram kemur framar í skýrslu þessari.
Minnisblöð frá öllum þessum fundum eru aðgengileg á vef BÍL.

Samstarfið við Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Forseti BÍL og formaður SÍM sátu fundi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur á árinu, sem áheyrnarfulltrúar. Stuðningur borgarinnar við list- og menningartengd verkefni hækkaði um 2,8 milljónir frá árinu áður, var 60.360.000.- til 100 verkefna, sem faghópur BÍL gerði tillögur um að styrkt yrðu. Tilkynnt var um styrkveitingarnar um miðjan janúar sl. Faghópurinn hafði 185 umsóknir til umfjöllunar og var alls sótt um styrki að upphæð 305 milljónir. Þá var einnig úthlutað úr Borgarhátíðasjóði til 5 listahátíða af ýmsu tagi auk þess sem Bíó Paradís, Nýlistasafnið, Sjálfstæðu leikhúsin, Kling og Bang Gallerí, Dansverkstæðið og Höggmyndagarðurinn fengu rekstrarstuðning. Til viðbótar við þetta veitir borgin árlega stuðning undir yfirskriftinni „skyndistyrkir“, slíkar styrkveitingar fara fram fjórum sinnum á ári og eru afgreiddar beint af menningar- og ferðamálaráði.

Höfundarréttur
Í tengslum við aðalfund BÍL 2012 var haldið málþing um höfundarrétt . Spurningin sem málþingið glímdi við var þessi: Hvernig má tryggja listamönnum sanngjarna hlutdeild í þeim arði sem notkun hugverka þeirra á netinu skapar? Niðurstaða málþingsins var í meginatriðum þessi: Nauðsynlegt er að koma sér saman um hvað er réttmæt umgengni við höfundarétt í stafrænu umhverfi og móta skilning og afstöðu almennings til frambúðar, -að skýra eðli höfundaréttar fyrir almenningi og ungu fólki, gera listamanninn sýnilegan, þannig að sá sem notar efni átti sig á því að hann er að nota vinnu annars einstaklings og eins þarf að hvetja almenning til þess að setja sjálfum sér reglur byggðar á almennt viðurkenndu gildismati og siðferðiskennd. Nauðsynlegt er að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að aðrir hagnýti sér höfundaréttarvarið efni með skipulögðum hætti og í þeim tilgangi einum að hagnast á því. Og nauðsynlegt er að finna leiðir til að tryggja einstaklingum,sem eiga höfundarrétt, greiðslur fyrir afnot af efni þeirra.

BÍL hefur í hyggju að ræða áfram um höfundarrétt á næstunni og hefur þá helst verið stefnt að því að beina sjónum að sæmdarrétti sérstaklega.
Þá má geta þess að BÍL hefur hvatt ráðuneyti mennta- og menningarmálaráðuneytis til að innleiða svokallaðan Bejing-samning um réttindi flytjenda hljóð- og myndflutnings. Það mál er í ferli í ráðuneytinu.
Loks hefur BÍL getað fylgst með málefnum tengdum höfundarrétti í Evrópusambandinu gegnum samstarfið innan ECA – European Council of Artists.

Tónlistarhúsið Harpa
Eftir talsverð átök tókst loks að lenda eigendastefnu fyrir tónlistarhúsið Hörpu, en það hafði staðið í stappi milli ríkis og borgar um þau mál alveg frá opnun hússins. Það er fagnaðarefni að nú skuli loks hafa tekist að einfalda reksturinn og fækka félögunum sem að rekstrinum koma. Eigendastefnan opnar vonandi frekari möguleika fyrir listráð Hörpu, sem skipað er formönnum tónlistarfélaganna; FÍT, FÍH, FTT og TÍ, en listráðið hefur uppi áform um enn frekari aðkomu listafólks að framtíðarstefnumótun hússins og hefur stjórn BÍL stutt við þau áform. Þá er enn sem fyrr unnið að því að tryggja hagsmuni tónlistafólks í húsinu með því að leiga í sölum hússins verði sanngjörn og að úrval tónlistarviðburða verði svo fjölbreytt sem mest má vera. Ljóst er að Harpa hefur reynst hin mesta lyftistöng fyrir tónlistarlífið í borginni (og landinu) og mikilvægt að allir leggist á eitt við að láta rekstur hússins ganga upp,  sem er flókið verkefni og margslungið.

ECA – European Council of Artists
Forseti BÍL hefur nú starfað sem forseti ECA – European Council of Artists í eitt ár. Ársfundur ECA var haldinn í Vilnius í Litháen 10. og 11. nóvember sl. og í tengslum við hann ráðstefna undir yfirskriftinni „Art as a Bridge Builder“ og fjallaði hún um hlutverk listanna í því verkefni að tryggja menningarlega fjölbreyttni í evrópskum samfélögum. Ráðstefnan var vel sótt og gerður að henni góður rómur.  Annars hefur áherslan í starfi ECA sl ár verið tengd umsóknum um rekstrarstyrki úr sjóður Evrópusambandsins. Líklegt er að fyrir liggi á vordögum hvort samtökin hafa árangur sem erfiði, en þá verður tilkynnt hvaða samtök komast í gegnum hið þrönga nálarauga Menningaráætlunar ESB.
Framkvæmdastjórn ECA hittist í Bratislava í mars nk og mun þá fjalla um starfsáætlun ársins framundan, sem m.a. gengur út á það að kynna nýlegar reglur sænskra sjórnvalda um greiðslur til myndlistarmanna sem sýna í söfnum og sýningarsölum, sem rekin eru fyrir opinbert fé. Í því verkefni nýtist undirbúningsvinna SÍM og samtaka myndlistarmanna á Norðurlöndunum og líklegt að formaður SÍM muni leggja ECA lið í þeirri vinnu.

Alsace – Islande
Á árinu barst BÍL erindi frá félagsskapnum Alsace – Islande, sem sinnir menningartengslum milli Íslands og Alsace-héraðs í Frakklandi á landamærum Þýskalands. Erindið var borið fram af forseta Alsace – Islande, Catherine Ulrich forseta samtakanna og varðaði breytingar á stofnsmykktum samtakanna, nánar tiltekið um það hvað gera eigi við eignir félagsins við félagaslit.  Breytingin, sem var í bígerð, gerði ráð fyrir að eignum félagsins yrði deilt niður við félagaslit og helmingur þeirra myndi þá renna til BÍL með það að markmiði að styðja starf íslenskra listamanna.  Þegar ljóst var að BÍL myndi ekki leggjast gegn þessum áformum var tillagan samþykkt á aðalfundi samtakanna og þann 16.júní s.l. undirrtuðu Kolbrún Halldórsdóttir  forseti BÍL og Catherine Ulrich forseti Alsace-Islande samkomulag þessa efnis. Stjórn BÍL hefur lýst þakklæti fyrir þennan hug félaga og forseta Alsace – Islande.

Heimasíða og facebook
BÍL hefur á árinu opnað face-bókarsíðu og haldið úti heimasíðunni www.bil.is Það gæti verið meira líf í kringum þessar síður og rétt að hvetja aðildarfélögin enn frekar til dáða í þeim efnum að dreifa slóð síðunnar.  Þegar þetta er ritað hefur face-bókarsíðan einungis fengið 64 „like“ .
BÍL hefur uppi áform um að sinna betur færslum inn á heimasíðuna, en slík áform haldast óhjákvæmilega í hendur við styrkari fjárhagsgrundvöll. Mögulega tekst að hækka opinbert framlag til BÍL gegnum endurnýjaða samninga við ríki og borg sem eru framundan á árinu 2013. Í öllu falli þá felast mikilvæg tækifæri í upplýsingagjöf um starf Bandalagsins og listamanna almennt, og því nauðsynlegt að hvetja listafólk til að senda BÍL greinar eða hugleiðingar um hugðarefni sem tengjast baráttunni fyrir bættu starfsumhverfi listamanna.

Málþing um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna
Í tengslum við aðalfund BÍL 2013 hefur stjórn undirbúið málþing um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Með málþinginu vill BÍL vill undirstrika þátt listafólks í skapandi atvinnugreinum, sem ekki alltaf er augljós eða auðskilinn. Listafólk og aðrir skapandi einstaklingar kveikja neista þeirra verkefna sem skapandi atvinnugreinar snúast um. Þáttur listafólksins getur verið með ýmsum hætti og þarf ekki alltaf að vera sýnilegur í viðskiptahugmyndinni sem slíkri.  Mikilvægt er að gæta að því að efnahagslegir þættir  atvinnugreinanna yfirskyggi ekki þátt frumsköpunarinnar.

Skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna

Í tengslum við aðalfund sinn býður BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, til málþings í Iðnó laugardaginn 9. febrúar undir yfirskriftinni

Skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna.

Málþingið er byggt á sex fyrirlestrum, sem fluttir verða af félögum í aðildarfélögum BÍL. Þau eru: Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt, Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður og textasmiður, Guðmundur Oddur Magnússon hönnuður og prófessor, Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður og leiðsögumaður, Sólveig Arnarsdóttir  leikari og Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður og rithöfundur.

Talsvert er nú rætt um skapandi atvinnugreinar og stöðu þeirra, m.a. í tengslum við útgáfu mennta- og menningarmálaráðuneytis á skýrslu starfshóps um skapandi greinar:

“Skapandi greinar – Sýn til framtíðar”

Hugmyndin með málþinginu er að skoða hvaða augum listamenn og hönnuðir sjá uppbyggingu skapandi atvinnugreina í náinni framtíð. Frummælendurnir nálgast viðfangsefnið  hver með sínum hætti, út frá eigin reynslu af störfum í hinum skapandi geira og líklegt er að sýn þeirra geti haft áhrif á umræðuna um uppbyggingu greinanna. Málþingið ætti því að vekja forvitni út fyrir raðir aðildafélaga BÍL, t.d. fjölmðila, aðila vinnumarkaðarins, stjórnmálamanna og þeirra sem sinna opinberri stjórnsýslu.

Fyrirkomulag málþingsins verður þannig að fyrirlestrarnir verða kvikmyndaðir og settir á vefinn að málþinginu loknu, með það að markmiði að umræðan geti haldið áfram á vefmiðlum og samskiptasíðum. Þannig má spinna þráðinn áfram og nota rök listamanna og hönnuða þegar umræðunni vindur fram t.d. í tengslum við komandi þingkosningar.

Málþingið hefst kl. 13:30 og stendur til kl. 15:30. Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins. Málþingið er öllum opið.

Aðalfundur BÍL 9. febrúar 2013

Aðalfundur BIL verður haldinn laugardaginn 9. febrúar 2013 í Iðnó við Tjörnina kl. 11:00 – 13:00. Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Skýrsla forseta um starf BÍL 2012
 4. Ársreikningar 2012
 5. Starfsáætlun 2013
 6. Ályktanir
 7. Önnur mál

Þegar fundinum lýkur verður borin fram hádegishressing og kl. 13:30 hefst málþing um listir og skapandi greinar; Skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Því lýkur kl. 15:30 með móttöku í boði BÍL. Málþingið er öllum opið.

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt.

 

Page 10 of 27« First...89101112...20...Last »