Vefmiðillinn Kjarninn birti þennan pistil forseta BÍL í dag:
Að loknum kosningum til Alþingis og meðan samningaviðræður stjórnmálaflokkanna standa yfir, um það hvernig farið verður með stjórn landsmála á komandi kjörtímabili, er einmitt rétti tíminn til að yfirfara menningarstefnuna sem Alþingi samþykkti á vordögum 2013 og fól framkvæmdavaldinu að starfa eftir.
Lifandi menningarstofnanir
Í stefnunni er mikilvægi öflugra menningarstofnana undirstrikað með afgerandi hætti, þær sagðar gegna lykilhlutverki við styrkingu sjálfsmyndar þjóðarinnar og eflingu félagslegra tengsla. Stofnanirnar séu í eðli sínu þjónustustofnanir sem beri að taka mið af fjölbreytni samfélagsins í störfum sínum og dagskrá, þeim beri að gefa landsmönnum tækifæri til að njóta listsköpunar en einnig beri þeim að sinna menningarrannsóknum, söfnun, skráningu, miðlun og varðveislu menningararfsins. Í rannsóknum sínum ber stofnunum að eiga samstarf við háskólastofnanir, en þeim er líka ætlað að vera forsenda nýjunga í menningarrannsóknum og miðlun þess sem list- og menningartengdar rannsóknir leiða í ljós.
Að tikka í boxin
Ætla má að forstöðumenn þeirra menningarstofnana sem ríkið rekur í þágu þjóðarinnar séu með þvælt eintak af menningarstefnu stjórnvalda á skrifborðinu sínu, jafnvel náttborðinu og mögulega hafa þeir útbúið lista yfir áherslurnar sem þeim ber að fylgja í störfum sínum. Slíkur listi gæti þá litið einhvern veginn svona út:
- hafa í heiðri vönduð vinnubrögð
- áhersla á fagmennsku, fjölbreytni og gæði
- stuðningur við frumsköpun, rannsóknir og miðlun
- samstarf við grasrótina í menningarlífinu
- stuðla að nýsköpun
- greina markhópana og vinna meðvitað í því að breikka þá og víkka
- vera eftirsóknarverður valkostur í frístundum fjölskyldna
- áhersla á dagskrá fyrir börn og ungmenni
- samstarf við menntastofnanir á öllum skólastigum
- þjónusta við íbúa landsbyggðarinnar
Skyldur stjórnvalda
Menningarstefna Alþingis er ekki svo einhliða að einungis menningarstofnanirnar hafi skyldum að gegna samkvæmt henni, því hún kveður einnig á um ábyrgð ríkisins gagnvart stofnunum. Í fyrsta lagi ber Alþingi að skapa þau skilyrði sem þarf til að stofnanirnar geti staðið undir lagalegu hlutverki sínu og geti framkvæmt stefnu Alþingis í menningarmálum. Þetta þýðir með öðrum orðum tvennt; að stjórnvöldum beri að styðja við hlutverk og starfsemi stofnananna með öflugri stjórnsýslu á vettvangi ráðuneyta og að tryggja það fjármagn sem stofnanirnar þurfa til að uppfylla skyldur sínar. Í stefnunni er raunar líka getið um mögulegar hagræðingaraðgerðir, þ.e. að kannaðir verði kostir sameiningar ótilgreindra stofnana, en þó þannig að þess sé gætt að slíkt verði til þess að efla faglegt starf. Þá kveður stefnan á um skyldu stjórnvalda til að setja sér langtímastefnu í húsnæðismálum menningarstofnana.
Tækifæri stjórnmálamanna
Í aðdraganda kosninga til Alþingis voru frambjóðendur stjórnmálaflokkanna inntir eftir menningarstefnu flokka sinna á ýmsum fundum, t.d. á fjölmennum Fundi fólksins í Norræna húsinu, á sérstökum háskólafundi Listaháskóla Íslands, af samstarfsvettvangi fyrirtækja og félaga í skapandi greinum X-hugvit, á fundum með einstökum stofnunum og félagasamtökum, í fjölda pistla á vefmiðlum og greinum í prentmiðlum, auk sérstakra þátta í ljósvakamiðlunum. Þarna fengu stjórnmálamenn fjölmörg tækifæri til að hlusta á áherslur þeirra sem starfa í list- og menningartengdum greinum, innan stofnana og utan, og gafst þannig tækifæri til að ydda menningarstefnu flokka sinna. Meðal þess sem frambjóðendur flokkanna komust að var sú staðreynd að hægt hefur gengið við að framfylgja menningarstefnu Alþingis á nýliðnu kjörtímabili og mikil þörf á átaki í þeim efnum, ekki síst þeim hluta stefnunnar er varðar ábyrgð stjórnvalda. Það er ástæða þess að kallað hefur verið eftir því að málaflokknum verði safnað saman undir nýtt ráðuneyti menningarmála og gefinn sjálfstæður talsmaður við ríkisstjórnarborðið, sem þurfi ekki sífellt að gera málamiðlanir við plássfrekan málaflokk á borð við skólamál. Þessar hugleiðingar eru meðal þess sem list- og menningargeirinn treystir að sé ofarlega á baugi í viðræðum forystumanna stjórnmálaflokkanna nú þegar til stendur að finna málefnanlega samstöðu þeirra sem vilja taka að sér stjórn þjóðmálanna næstu fjögur árin.