Bandalag íslenskra listamanna býður nýja fjárlaganefnd velkomna til starfa og væntir góðs samstarfs við nefndina um fjárframlög til málaflokksins menning og listir. Með nýjum lögum um opinber fjármál og breyttri framsetningu fjárlagafrumvarpsins breytist samtalið þó óhjákvæmilega, enda gera nýju lögin ráð fyrir að ábyrgðin á skiptingu fjárframlaga á einstök viðföng hvíli í ríkari mæli á ráðherra málaflokksins en verið hefur. BÍL treystir þó á að áfram muni þessi heildarsamtök fagfélaga listamanna eiga opið og hreinskiptið samtal við þjóðkjörna fulltrúa í fjárlaganefnd um afkomu og starfsumhverfi listamanna. Í því ljósi hefur BÍL tekið saman þá umsögn sem hér fylgir.

Heildarmyndin
Umsögnin er yfirgripsmikil og nær til málaflokksins í heild. Slíkt er nýlunda en eðlilegt í ljósi aukinnar áherslu stjórnvalda á að efla skapandi atvinnugreinar, en opinberar menningarstofnanir eru einmitt burðarstoðir starfsvettvangs listamanna. Þær, ásamt launasjóðum og verkefnatengdum sjóðum á listasviðinu, mynda þann starfsgrundvöll sem við blasir að loknu háskólanámi í listum. Með því að vekja athygli fjárlaganefndar á þessum tengslum leggur BÍL áherslu á mikilvægi þess að menningarstofnunum í eigu þjóðarinnar sé gert kleift að standa undir hlutverki sínu með reisn og skapa umhverfi fyrir framsækna listsköpun um leið og sígildri list og menningu er sinnt af alúð.

Opinber menningarstefna
Menningarstefna sem Alþingi samþykkti 2013 kveður á um ábyrgð ríkisins gagnvart menningarstofnunum. Þar segir að Alþingi beri að skapa nauðsynleg skilyrði til að stofnanirnar fái risið undir lagalegu hlutverki sínu og framkvæmt stefnu Alþingis í menningarmálum. Þetta þýðir í raun tvennt; að stjórnvöldum beri að styðja við hlutverk og starfsemi stofnananna með öflugri stjórnsýslu á vettvangi ráðuneyta en einnig að tryggja nægilegt fjármagn til að þær geti uppfyllt skyldur sínar. Þá kveður stefnan á um skyldu stjórnvalda til að setja langtímastefnu í húsnæðismálum menningarstofnana, sem er sannarlega eitt af því sem stendur starfsumhverfi listamanna fyrir þrifum, nægir í því sambandi að benda á alvarlegan húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands, sem vill svo til að er undir kastljósi fjölmiðlanna þessa dagana.

Ráðuneyti menningar og lista
Þessu til viðbótar hefur BÍL ákveðið að beita sér fyrir því að stjórnsýsluleg staða lista og menningar verði endurskoðuð, þar sem málaflokknum hefur verið tvístrað ótæpilega á síðustu árum og heyrir nú orðið undir fimm ráðuneyti. Það er mat BÍL að listir og menning verðskuldi að stofnað verði sjálfstætt menningarmálaráðuneyti, með talsmann við ríkisstjórnarborð sem er óbundinn af öðrum jafn viðamiklum og vandmeðförnum málaflokki og skólamálin eru. Erindi um þetta tiltekna atriði var kynnt öllum stjórnmálaflokkum í aðdraganda kosninga og hefur nú verið sent öllum þingflokkum til kynningar og umfjöllunar. Þá telur BÍL mikilvægt að fá stuðning innan úr stjórnsýslunni við þá sjálfsögðu kröfu að listafólki verði opnaður greiður aðgangur að stoðkerfi því sem boðið eru upp á hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands auk þess sem aukið afl þarf til að tryggja sess listgreina undir hatti Vísinda- og tækniráðs. Loks má nefna nauðsyn þess að haldið sé utan um töluleg gögn tengd listum og menningu með markvissari hætti en gert hefur verið, til dæmis er hvergi í stjórnsýslunni hægt að nálgast aðgengilegt yfirlit yfir þróun framlaga ríkisins til lista og menningar eða aðra mikilvæga þætti, líkt og hægt er í flestum öðrum atvinnugreinum.

Launasjóðir listamanna
Mikilvægasti stuðningur hins opinbera við listsköpun er án efa öflugt kerfi launasjóða, sem (í samspili við verkefnatengdu sjóðina) er grundvöllur nýsköpunar í listum. Kerfið er sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum og hefur skipt sköpum í lífsafkomu listamanna. Í raun má rekja upphaf kerfisins aftur til ársins 1891 þegar Alþingi veitti „skáldalaun“ í fyrsta sinn, þó það hafi ekki fengið lagastoð fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar. Kerfið í núverandi mynd rekur sig aftur til ársins 1991 og þó það hafi þróast nokkuð síðustu 25 árin hefur gengið treglega að ná fram hækkunum á mánaðargreiðslunum og enn erfiðara hefur reynst að fá stjórnvöld til að tryggja eðlilega fjölgun mánaða milli ára. BÍL hefur árum saman barist fyrir því að í gildi sé, á hverjum tíma, áætlun um fjölgun mánaða í sjóðunum, en ekki fengið hljómgrunn utan þess sem Alþingi samþykkti 2009 þegar launamánuðum var fjölgað úr 1200 í 1600 á árabilinu 2010 – 2012. Sá mánaðarfjöldi hefur haldist síðan og engin ný áætlun í bígerð. Það er ósk BÍL að lög um launasjóði listamanna nr. 57/2009 verði endurskoðuð, launamánuðum fjölgað í 2000 og mánaðargreiðslan hækkuð í kr. 450.000.-

Verkefnatengdir sjóðir
Framlag til verkefnatengdra sjóða á listasviðinu er tilgreint í einni tölu í fjárlagafrumvarpinu, en á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis hefur verið birt samantekt um safnliði þar sem í ljós kemur sundurliðun ráðuneytisins til einstakra sjóða. Það er nokkur munur milli tillagna ráðuneytisins og óska BÍL hvað upphæðir varðar. Hugmyndir BÍL um þróun opinberra framlaga til verkefnatengdra sjóða eru eftirfarandi:

  • Hér að framan er lýst hugmyndum BÍL um breytingu á lögum um launasjóði listamanna. Við þær breytingar telur BÍL eðlilegt að farið verði að kröfu sviðslistafólks um að launasjóður sviðslistafólks verði sameinaður verkefnatengdum sjóði sviðslista og fái í heildina tvöfalt framlag á við það sem nú er, enda hafa sviðslistirnar setið eftir í þeim úrbótum sem annars hafa verið gerðar á starfsumhverfi listafólks upp á síðkastið. Samkvæmt því þyrfti sameinaður sjóður sviðslista að hafa úr að spila 320 milljónum króna árlega.
  • Framlag til Kvikmyndasjóðs er bundið í samningi, sem gerður var 26. október sl. honum verður framlagið í sjóðinn kr. 914,7 milljónir á næsta ári, en það er mat BÍL að nauðsynlegt sé að gera nýja áætlun um eflingu Kvikmyndasjóðs þannig að framlagið til hans nái 2 milljörðum króna 2020.
  • Í samræmi við átakið „Borgum myndlistarmönnum“, sem gengur út á að söfn og sýningarými, sem rekin eru alfarið eða að stórum hluta fyrir opinbert fé, greiði myndlistarmönnum sanngjarna þóknun fyrir að sýna, verði framlagið til þeirra safna og sýningarýma sem í hlut eiga, aukið um kr. 100 milljónir. Önnur leið væri að stofna sérstakan þóknunarsjóð myndlistarmanna með sjálfstæðri úthlutunarnefnd. Til viðbótar við þetta er nauðsynlegt að framlagið til Myndlistarsjóðs verði hækkað í 100 milljónir króna.
  • Á síðustu tveimur árum hafa orðið nokkrar úrbætur á starfsumhverfi tónlistarmanna, þar sem stofnaðir hafa verið tveir nýjir sjóðir; Útflutningssjóður og Hljóðritunarsjóður, auk þess sem samþykkt hefur verið endurgreiðsluáætlun vegna upptöku tónlistar í hljóðverum hér á landi. En sá verkefnasjóður sem settur var á með lögum nr. 76/2004, Tónlistarsjóður, hefur ekki þróast með þeim hætti sem æskilegt væri, því hefur BÍL lagt til að framlag til hans verði hækkað í 80 milljónir króna.
  • Mikilvægt er að stjórnvöld taki þátt í að auka veg nýsköpunar á vettvangi tónlistarleikhúss og óperu, sem skortir fjárhagslegan grundvöll. Hvorki tónlistarsjóður né sviðslistasjóður hafa getað sinnt þessu listformi, þar sem hér er um kostnaðarsöm verkefni að ræða og fjárhagur sjóðanna afar takmarkaður. Mögulega þarf að endurskilgreina hlutverk þessara sjóða og auka fjármagn til þeirra til muna eða stofna nýjan sjóð og byggja hann vel upp svo sterkur grundvöllur skapist fyrir þetta listform sem er vanrækt í þvílíkum mæli að flestir íslenskir listamenn sem starfa að því þurfa að sækja störf utan landssteinanna.
  • Hönnunarsjóður var stofnaður 2013 og vistaður í mennta- og menningarmálaráðuneyti en þá höfðu hönnuðir og arkitektar barist lengi fyrir auknu fjármagni til þróunar, verkefna og útflutnings. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var sjóðurinn fluttur yfir til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og hækkaður í 50 milljónir. Hópurinn, sem sækir fé í sjóðinn vinnur á breiðu sviði hönnunar og arktiektúrs og eru gild rök fyrir því að með auknum fjölda verkefna þurfi framlag til sjóðsins að hækka í 100 milljónir.
  • Áhersla menningarstefnu Alþingis er á barnamenningu. BÍL mótmælti því þegar Barnamenningarsjóður var lagður niður 2015 og telur eðlilegt að horfið verði frá þeirri ákvörðun og lagðar 18 milljóna til sjóðsins, sem starfi með svipuðum hætti og áður, þ.e. með sjálfstæðri sjóðsstjórn.
  • Listskreytingarsjóður hefur aldrei haft nægilegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu með reisn, en eftir hrun lækkaði framlag til sjóðsins úr 7,1 millj í 1,5 millj og hefur ekki hækkað síðan. BÍL hefur um árabil hvatt til þess að þörfin fyrir listskreytingar í því húsnæði sem fellur undir lögin um listskreytingasjóð verði metin og framlagið til sjóðsins verði hækkað til að mæta þeirri þörf.

Bandalag íslenskra listamanna
BÍL hefur síðan 1998 gert samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið, til þriggja ára í senn, um ráðgjöf á vettvangi lista og menningar. Um þessar mundir eru BÍL greiddar 3,5 milljónir króna skv. samningnum, sem rennur út 31. desember nk. og telur ráðuneytið ekki vera raunhæft að endurnýja samninginn fyrr en niðurstaða fjárlaga 2017 liggur fyrir. Til að efla starfsemi BÍL og gera samtökunum kleift að sinna verkefnum sínum af meiri krafti hefur verið farið fram á að árlegt framlag næstu þrjú árin verði 5 milljónir króna, 15 milljónir í heildina til 2019. Með því myndu stjórnvöld sýna BÍL fram á að starf bandalagsins sé metið að verðleikum og gera BÍL kleift að halda upp á 90 ára afmæli sitt 2018, en það hyggst BÍL gera með veglegum hætti, m.a. með því að hefja útgáfu á sögu BÍL í áföngum.

Menningarstofnanir
Svo sem að framan greinir beinir BÍL nú sjónum að list- og menningartengdum stofnunum í umsögn sinni, enda um að ræða burðarstoðir lista og menningar í atvinnulegu tilliti. Yfirlit yfir helstu stofnanir fylgir hér á eftir, þó er sneytt hjá söfnum, setrum og sýningum, sem engu að síður eru hluti þess vettvangs sem listafólk og hönnuðir starfar við.

Harpa
Starfsemi Hörpu hefur gerbreytt starfsumhverfi listafólks frá því hún var opnuð og ná áhrifin langt út fyrir raðir tónlistarmanna, því Harpa hefur ekki síður verið lyftistöng fyrir starfsemi Íslensku óperunnar og sjálfstæðra sviðslistahópa. Starfsemi Hörpu hefur sótt jafnt og þétt í sig veðrið frá opnun. Árið 2015, voru haldnir 1148 viðburðir í húsinu, þar af 672 listviðburðir, þ.e. tónleikar, leik- og danssýningar eða listsýningar og 1.7 milljónir gesta komu í húsið. Fjöldi tónleika nálgast núna vera tvennir á dag að meðaltali yfir allt árið. Heildarframlög hins opinbera til Hörpu skiptast í tvennt. Annars vegar er þeim ætlað að greiða lán sem tekið var fyrir byggingakostnaði, hlutur ríkisins 2016 er kr. 607 millj. Hins vegar hefur húsið fengið sérstakt rekstrarframlag frá eigendum sínum, samanlagt 170 milljónir, þar af 90 milljónir frá ríki, og er árið 2016 síðasta árið sem húsið nýtur þessa framlags nema um annað verði samið. Þá hefur húsinu verið gert að borga mjög há fasteignagjöld frá upphafi, sem á þessu ári nema kr. 388 mllj. Harpa höfðaði mál gegn þessari álagningu og vann það fyrir Hæstarétti. Nú hefur Fasteignamat ríkisins / Þjóðskrá úrskurðað um hvernig farið skuli með fasteignagjöld Hörpu í framtíðinni. Búinn hefur verið til nýr gjaldaflokkur fyrir tónlistar- og ráðstefnuhús, sem gerir Hörpu að standa skila á fasteignagjöldum sem munu nema upphæð á bilinu kr. 290 – 300 milljónir króna árlega. Það er algjörlega óásættanlegt að mati stjórnenda Hörpu og tekur stjórn BÍL undir það sjónarmið. Vegna þess lykilhlutverks sem Harpa gegnir í íslensku tónlistar- og menningarlífi er það krafa heildarsamtaka listamanna að eigendur hússins (ríki og borg) taki að sér að létta fasteignagjöldunum af Hörpu með það að markmiði að þetta glæsilega tónlistarhús verði rekstrarhæft og stjórnendur þessi geti boðið það tónlistarmönnum til tónleikahalds á viðráðanlegu verði. Slík aðgerð væri til þess fallin að mynda löngu tímabæra samstöðu um húsið og hlutverk þess í íslenskri menningu.

Íslenski dansflokkurinn
Íslenski dansflokkurinn er eini ríkisrekni dansflokkurinn á Íslandi og skv. árangurstjórnunarsamningi frá 2012 ber honum að þjóna svipuðu hlutverki og Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands; vera faglega leiðandi, stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssköpun og efla þekkingu á danslistinni. Til að geta sinnt þessu hlutverki sínu þarf flokkurinn fjárhagslega burði, sem hann hefur ekki í dag. Á skrifstofu dansflokksins eru þrír starfsmenn, listrænn stjórnandi, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri. Fastráðnir dansarar eru sjö talsins ásamt æfingastjóra, það er þremur færri en þegar flokkurinn var stofnaður 1973. Hjá erlendum sambærilegum dansflokkum (t.d. í Bergen) eru 15 dansarar á föstum samningum og 14 starfsmenn á skrifstofu. Til að geta fjölgað uppsetningum, tekið þátt í fleiri samstarfsverkefnum og sinnt fræðslustarfi þyrfti flokkurinn að lámarki 10 fastráðna dansara, tæknistjóra í fullu starfi auk verkefnastjóra á skrifstofu en til þess þyrfti að auka fjárveitingu Íd að lágmarki 35 m.kr. á ári. Dansflokkurinn hefur alla tíð haft lítið svigrúm til að greiða listamönnum, t.d. danshöfundum, tónskáldum, búninga- og leikmyndahönnuðum, markaðslaun fyrir vinnu við uppfærslur flokksins og hefur greitt talsvert lægri laun en aðrar stofnanir greiða fyrir sambærilega þjónustu. Til að bæta úr þyrfti að auka fjárveitingu Íd um 15 m.kr. Starfsaðstaða flokksins í Borgarleikhúsinu er ekki ákjósanleg; skrifstofa og búningsherbergi eru í dimmu og óloftræstu rými í kjallara hússins, æfingasalur er á fjórðu hæð og þarf að ganga gegnum hann til að komast í búningageymslu Borgarleikhússins. Þá er skipulag sýninga algjörlega háð skipulagi leiksýninga í húsinu og mæta oft afgangi. Flokkurinn á fulltrúa í vinnuhópi sem kannar nú möguleika á stofnun danshúss og er það von flokksins að hagsmunaaðilar samtímadans á höfuðborgarsvæðinu nái að fjármagna sérútbúið húsnæði fyrir flutning dansverka með æfingaaðstöðu, þannig myndi skapast grundvöllur til að efla danslistina og framþróun hennar hér á landi.

Íslenska óperan
Framlag til Íslensku óperunnar var skorið talsvert niður á árunum eftir hrun, sem er ekki að fullu komið til baka, þótt að á sama tíma hafi orðið sú breyting að ÍÓ fór úr eigin húsnæði í leiguhúsnæði í Hörpu að frumkvæði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Útreikningar ÍÓ sýna að raunlækkun framlagsins frá hruni nemi um 45%, sem er langt umfram það sem stofnunin þolir ef hún á að geta náð markmiðum sínum og gert langtímaáætlanir sem eru forsenda fyrir velgengni starfseminnar. Þetta hefur augljóslega í för með sér skerta möguleika á að Óperan geti starfað í samræmi við samning sinn við húsið, sem hefur verið endurnýjaður til næstu 5 ára. Íslenska óperan féllst á að flytja starfsemi sína í Hörpu í trausti þess að henni yrði skapaður rekstrargrundvöllur í húsinu en stór hluti framlagsins sem áður fór í óperuuppfærslur fer nú í að greiða húsaleigu. Samkvæmt nýundirrituðum samningi Íslensku óperunnar við mennta- og menningarmálaráðuneytið verður árlegt framlag um 200 mkr. næstu þrjú ár. Mikilvægt er að vísitölutengja framlagið þar sem bæði leigan í Hörpu og öll laun eru vísitölutengd. Til að tryggja rekstrargrundvöll Íslensku óperunnar er brýnt að stjórnvöld hlutist til um að framlagið taki verðlagsbreytingum því ella mun stofnunin lenda aftur í sömu erfiðu stöðu innan fárra ára og eiga erfitt með að uppfylla skuldbindingar samningsins við ráðuneytið og nýtingarmöguleika í Hörpu.

Listasafn Íslands
Sem þjóðarlistasafni Íslendinga og höfuðsafni á sviði myndlistar ber Listasafni Íslands að safna íslenskri myndlist, frá öllum tímum, af eins mikilli kostgæfni og því er unnt hverju sinni, varðveita hana, rannsaka og miðla upplýsingum og fræðslu um hana innanlands sem utan. Þessu lögbundna hlutverki hafa löngum verið settar skorður af þrenns konar völdum, skorti á raunhæfum fjárframlögum, naumum húsakosti og takmörkuðum mannafla. Á undanförnum áratugum hefur íslensk list, listmenning og listsköpun verið í stöðugt nánari tengslum við listir og listmenningu annarra þjóða, nær og fjær. Safnið og starfsemi þess er í harðri samkeppni um sýningar við systursöfn sín erlendis, önnur þjóðarlistasöfn grannþjóða okkar og stór héraðslistasöfn, svo sem Aros í Árósum, en Listasafn Íslands telur það safn mjög raunhæft viðmið til eftirbreytni þar sem það þjónar áþekkum fólksfjölda, eða nokkuð á fjórða hundrað þúsund íbúum Árósa og nágrennis. Það safn nýtur þó snöggtum hærri fjárframlaga en Listasafn Íslands þó svo að skyldur þess og ábyrgð séu ekki eins augljósar og umfangsmiklar. Ef vel á að vera þyrfti fjárframlag hins opinbera til Listasafns Íslands að vera að minnsta kosti tvöfalt hærra en tíðkast hefur undanfarin ár. En ef mæta á óskum safnsins um mikilvægar úrbætur á húsakosti safnsins þyrfti framlagið í raun að þrefaldast og nema þá 710 milljónum. Núverandi framlag, 236,7 milljónir, hrekkur ekki fyrir föstum kostnaðarliðum á borð við öryggiskerfi, gagnavarðveislu, né heldur sýningum, útgáfum, fræðsluefni eða kynningu.

Ríkisútvarpið
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Á undanförnum árum hefur útvarpsgjald ítrekað verið skorið niður og nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki. Forsvarsmenn RÚV hafa eftir getu forgangsraðað í þágu innlendrar dagskrár, menningarefnis, dagskrárgerðar fyrir börn og vinna nú að því að stórauka þátttöku í íslenskri kvikmyndagerð. Ljóst er að öflugri þátttaka RÚV í kvikmyndagerð getur haft margþætt margfeldisáhrif. Til að áform RÚV nái fram að ganga telur BÍL nauðsynlegt að útvarpsgjaldið verði hækkað þannig að það verði samanburðarhæft við það sem gengur og gerist hjá frændþjóðum okkar, Norðurlöndunum og Bretlandi. Einnig telur BÍL tímabært að skoðað verði hvort létta mætti af stofnuninni lífeyrisskuldbindingum, sem ólíklegt er að hún muni nokkurn tíma geta staðið undir. Í samræmi við það sem að framan greinir leggur BÍL til að fjárlaganefnd leiti leiða til að hluti þeirrar skerðingar sem RÚV hefur þurft að sæta á undanförnum árum gangi til baka í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 og fjárveiting til RÚV verði hækkuð um 250 millj. króna.

Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands starfar við kjöraðstæður og stórbylting hefur orðið á upplifun tónleikagesta eftir að hljómsveitin fluttist í Hörpu fyrir fimm árum. Flutningurinn hefur hins vegar haft töluverð áhrif á rekstur hljómsveitiarinnar. Þótt að aðsókn og áskriftarsala hafi aukist mikið hefur nýtt rekstrarumhverfi einnig haft í för með sér aukinn kostnað. Frá upphafi var gert ráð fyrir því að framlag ríkisins myndi aukast í samræmi við hærri húsaleigu en nú er komið í ljós að kostnaðaraukinn fólst ekki eingöngu í hærri húsaleigu heldur jókst annar kostnaður um tugi prósenta, svo sem tækni- og miðasölukostnaður. Stærsti hluti rekstrakostnaðar hljómsveitarinnar er fastur kostnaður á borð við launakostnað og húsaleigu. Hlutfall launakostnaðar í heildar rekstrarkostnaði hefur aukist hægt og bítandi síðustu ár þrátt fyrir að fjöldi starfsmanna hafi haldist svipaður. Breytilegur kostnaður hljómsveitarinnar snýr nær eingöngu að framleiðslu-kostnaði við tónleika. Eina leiðin fyrir hljómsveitina til að spara í rekstri er að draga úr kostnaði við tónleika og stýra verkefnavali þannig að ekki þurfi að stækka hljómsveitina. Þetta má glöggt sjá á rekstrarreikningi hljómsveitarinnar. Árið 2010 var kostnaður við tónleika töluvert hærri en húsaleigan. Síðan hljómsveitin flutti í Hörpu hefur hlutfallið hins vegar snúist við þannig að kostnaður við tónleika er um helmingur af kostnaðinum við húsaleiguna í Hörpu. Sé kostnaðurinn við tónleika 2010 upp á 77,5 millj.kr framreiknaður til ársins 2015 er framleiðsluupphæðin sú sama árið 2010 í Háskólabíói og hún var árið 2015 í Hörpu (88,2 millj.kr) miðað við 17,5% hækkun á verðlagi. Á sama tíma hefur tónleikum og öðrum viðburðum á vegum hljómsveitarinnar fjölgað úr 88 í 110. Það er augljóst að þessi staðreynd veikir möguleika hljómsveitarinnar á listrænni framþróun einmitt þegar hljómsveitinni hafa verið skapaðar kjöraðstæður í Hörpu. Til að snúa þessari öfugþróun við þyrfti að koma til umtalsvert aukið framlag til listræns starfs hljómsveitarinnar og tryggja þannig að hljómsveitin geti blómstrað og dafnað í einum besta tónleikasal í Evrópu, Eldborg í Hörpu.

Þjóðleikhúsið
Fjárveiting til starfsemi Þjóðleikhússins hefur allt frá opnun þess verið ákvörðuð frá ári til árs í fjárlögum. Í kjölfar efnahagshrunsins var fjárveiting til leikhússins skorin verulega niður þrjú ár í röð (2010, 2011 og 2012). Brugðist var við því með samstilltu átaki starfsfólks, skapandi hugsun og hugviti ásamt ýmsum rekstrarlegum aðgerðum. Rekstur leikhússins hefur því verið í járnum og mikið álag einkennt allt starfið á síðustu árum. Eðlilegar sveiflur í aðsókn leiksýninga eru byggðar inn í áætlanagerð leikhússins, en á rekstrarárinu 2014 dalaði aðsókn meira en gert hafði verið ráð fyrir og nam rekstrarhalli það ár 53 millj.kr., sem greiða þurfti niður 2015 og 2016 sem jók enn á álagið. Meðan þetta ástand varir er starfsemi hússins í raun háð því að hver einasta sýning sem frumsýnd er laði til sín áhorfendur í ríkum mæli og það þótt leikhúsið hafi tæplega burði til að auglýsa sýningarnar. Slíkt er óraunhæft, ekki síst þegar horft er til þess mikilvæga hlutverks sem leikhúsinu er falið með lögum; að stunda frumsköpun og sýna listrænan metnað í listsköpun sinni. Þjóðleikhúsið fékk tímabundna hækkun á fjárlögum 2015 (20 milljónir) og 2016 (60 milljónir) til að hefja endurnýjun tækjabúnaðar, verkefni sem mun kosta að lágmarki 300 milljónir króna. Að frádregnum þeim 80 milljónum hefur leikhúsið 902.600 millj.kr til rekstrar á yfirstandandi fjárlagaári. Til að gera Þjóðleikhúsinu kleift að standa undir lögbundnu hlutverki sínu sem burðarstoð íslenskrar leiklistar þyrfti framlagið á fjárlögum að hækka sem nemur 100 milljónum á ári næstu þrjú ár, þar til það næði 1.200 milljónum króna 2019.

Kvikmyndamiðstöð Íslands
Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur sérstöðu samanborið við aðrar miðstöðvar listgreina og hönnunar því um hana gilda lög nr. 137/2001 og hefur hún því stöðu ríkisstofnunar. Verksvið miðstöðvarinnar hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og hafa framlög til hennar ekki fylgt auknu álagi sem hlýst af þeirri athygli sem íslenskar myndir hafa notið að undanförnu samhliða niðurskurði í rekstri í kjölfar hrunsins. Verksvið KMÍ er víðtækt svo sem sjá má í 1. gr. laganna, auk þess að vera umsýslustofnun Kvikmyndasjóðs, sem er þungamiðja starfseminnar, þá gegnir hún lykilhlutverki við að koma kvikmyndum íslenskra höfunda á framfæri á erlendum hátíðum og mörkuðum. Hún sinnir skráningarhlutverki varðandi innlendar kvikmyndir, hönnun kynningarefnis og heldur úti öflugri heimasíðu um íslenskar myndir (þó hún sé úr sér gengin tæknilega). Þá veitir hún ráðgjöf á vettvangi kvikmynda, bæði til innlendra kvikmyndagerðarmanna og erlendra dreifingaraðila íslenskra mynda. Loks annast KMÍ umsýslu umsókna um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar samkv. samningi við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Hjá KMÍ starfa 5 starfsmenn í u.þ.b. 4,5 stöðugildum og hefur það umfang verið óbreytt frá 2003 (kvikmynda-ráðgjafar eru verktakar í hlutastörfum sem leggja listrænt mat á styrkumsóknir, sbr. reglugerð og ekki taldir með hér). Á síðasta ári fjallaði KMÍ um rúmlega 200 umsóknir um styrki úr Kvikmyndasjóði. Umsóknirnar eru viðamiklar, oft um og yfir 200 bls. hver og í samræmi við 11. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð þarf að yfirfara og leggja nákvæmt mat á um 25 efnisþætti í hverri umsókn. Á síðasta ári voru íslenskar myndir sendar á 425 hátíðir auk þess sem íslenskar myndir voru í sérstökum brennidepli á átta hátíðum. Til marks um álagið á starfsmenn KMÍ má geta þess að í sambærilegum stofnunum í Eistlandi og Lettlandi eru 11 starfsmenn og 15 í Litháen, þó eru umsvif þessara miðstöðva ekki eins mikil og hjá KMÍ sem skýrist aðallega af minni velgengni, enn sem komið er. Norðurlöndin standa svo enn betur að vígi og óraunhæft að nota þau til samanburðar, enda hver stofnun þar með um og yfir 150 starfsmenn sem sinna mun burðugra styrkjakerfi en okkar. Finnar eru þó nálægt okkur hvað uppbyggingu varðar en þar eru 26 starfsmenn sem sjá um styrkveitingar og kynningar. Málefni KMÍ þarfnast sérstakrar skoðunar af hálfu stjórnvalda og nægir viðleitni fjárlagafrumvarpsins 2017 engan veginn í því efni.

Miðstöðvar lista og skapandi greina
Á undanförnum árum hafa verið stofnaðar miðstöðvar lista og hönnunar, sem annast kynningu á íslenskri list og menningu utan landssteina, en sinna jafnframt mikilvægu ráðgjafarhlutverki, bæði innanvert hver á sínu sviði en einnig út á við til stjórnvalda og erlendra systurstofnana. Miðstöðvarnar sinna mikilvægu hlutverk í hnattvæddu samfélagi, bæði til að auðvelda listamönnum og hönnuðum að koma sköpun sinni á framfæri sem víðast, en ekki síður virkar starfsemi þeirra sem segull á ferðamenn sem verða forvitnir um land og þjóð gegnum listir og hönnun sem miðstöðvarnar koma á framfæri. Á yfirstandandi fjárlagaári fengu miðstöðvarnar samanlagt framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneyti að upphæð kr. 102,4 milljónir, en að auki voru flestar þeirra með einhvers konar samninga við önnur ráðuneyti um tiltekin verkefni. Þar er um að ræða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

Hönnunarmiðstöð Íslands er rekin samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Framlag til Hönnunarmiðstöðvar á fjárlögum 2016 er að finna undir hatti þessara tveggja ráðuneyta; kr. 20 milljónir í rekstrarframlag auk 15 milljóna í innleiðingu hönnunarstefnu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og 10 milljóna króna rekstrarframlag frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Hönnunarsjóður að upphæð kr. 50 milljónir er vistaður undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Til að treysta mikilvægar stoðir Hönnunarmiðstöðvar þyrfti árlegt rekstrarframlag að vera 60 milljónir króna og Hönnunarsjóður að hækka í 100 milljónir.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar sinnir kynningu á íslenskri myndlist erlendis þ.m.t. þátttöku íslenskra myndlistarmanna á fjölbreytilegum sýningum stórum sem smáum, auk þess er hún í samstarfi við sendiráð Íslands erlendis um kynningu á samtímalist í sendiráðum og sendiherrabústöðum og skipuleggur sýningar þar með verkum eftir íslenska myndlistarmenn. Stærsta einstaka verkefni KÍM er að annast þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum, sem hefur vakið verðskuldaða athygli á íslenskum listamönnum og menningu þjóðarinnar á undanförnum árum. Kostnaður við þátttöku í Feneyjatvíæringnum er um 50 milljónir og þyrfti KÍM því árlegt framlag að upphæð 25 milljónir króna til að standa undir þeim kostnaði, en fær einungis 12 milljónir árlega. Rekstrarframlagið sem KÍM fær með samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið er 25 milljónir, en þyrfti að hækka í 35 milljónir til að geta staðið undir þremur stöðugildum þar sem 15% af rekstrarframlagi menntamálaráðuneytisins fer skv. stofnskrá KÍM í styrki til myndlistarmanna.

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, ÚTÓN, er í raun viðskipta- og markaðsskrifstofa Íslenskrar tónlistar í víðum skilningi. Tilgangur hennar er að leita tækifæra til að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum íslenskrar tónlistar innanlands sem utan og auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás til að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum með tónlist. Þá sinnir ÚTÓN fjölbreyttu ráðgjafarhlutverki og tengslamyndun innan tónlistargeirans en einnig gagnvart stjórnvöldum, heldur úti tveimur heimasíðum, heldur fræðslukvöld og gefur út fréttabréf. ÚTÓN er rekin fyrir samning við mennta- og menningarmálaráðuneyti, ásamt því að sinna afmörkuðum verkefnum í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Framlag mennta- og menningarráðuneytis er 23 milljónir á yfirstandandi fjárlagaári. Í ljósi þess hversu mikill árangur hefur náðst í starfi skrifstofunnar er orðin veruleg þörf fyrir fleiri hendur á dekk, en til að geta bætt við stöðugildi þyrfti árlegt rekstrarframlag til ÚTÓN að vera 30 milljónir króna.

Tónverkamiðstöð sinnir kynningarmálum íslenskra tónverka og skráningu tónverka í Landsbókasafni. Ef miðstöðin ætti að geta annað eftirspurn eftir þessari þjónustu þyrfti hún að geta bætt við sig tveimur stöðugildum. Í því augnamiði þyrfti að hækka framlagið til miðstöðvarinnar um helming að lágmarki. Samningur Tónverkamiðstöðvar við mennta- og menningarmálaráðuneyti gildir til 2018 og gerir ráð fyrir 15 milljóna króna árlegu framlagi, en ef vel ætti að vera þyrfti framlagið að vera helmingi hærra eða kr. 30 milljónir.

Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista – KÍS er óstofnuð enn, en Sviðslistasamband Íslands hefur stefnt að stofnun slíkrar miðstöðvar um árabil. Nýverið skilaði starfshópur af sér skýrslu með stefnumótun fyrir slíka miðstöð, ásamt tillögum að rekstrarumhverfi og starfsreglum. Fjárhagsáætlun hópsins gerir ráð fyrir stofnframlagi frá ríkinu 2017 að upphæð kr. 20 milljónir og 25 milljóna króna árlegu framlagi á fjárlögum til 2020. Stofnun Kynningarmiðstöðvar íslenskra sviðslista helst í hendur við nýja löggjöf um sviðslistir, sem hefur verið kynnt á Alþingi nokkrum sinnum á undanförnum árum. Innan sviðslistageirans hefur nú myndast sterk samstaða um að koma slíkri löggjöf í gegnum þingið hið allra fyrsta, m.a. til að tryggja Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista lagastoð.

Listaháskóli Íslands
Sú menntastofnun á háskólastigi, sem ber uppi menntun listamanna og hönnuða, er Listaháskóli Íslands, sem hefur þá sérstöðu í flóru listaháskóla að ein og sama stofnunin sinnir menntun á fræðasviði lista ólíkt því sem tíðkast í löndunum sem við berum okkur saman við. Hugmyndin með stofnun skólans á grunni gömlu sérskólanna (Leiklistarskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskóla Íslands) var sú framsækna hugsun að framfara væri að vænta í háskólastofnun þar sem ólíkar list- og hönnunargreinar nytu nálægðar hver við aðra. Því miður hefur orðið bið á að sú hugmynd samlegðar næði fram að ganga þar sem skólinn er enn, tæpum tuttugu árum síðar, rekinn á fjórum stöðum í borginni. Húsnæði skólans er í slæmu ástandi, sumar byggingarnar eru heilsuspillandi en aðrar óhentugar, engin þeirra er byggð sem skólahúsnæði. Þrátt fyrir þær aðstæður sem listnámi á háskólastigi eru búnar fékk LHÍ hæstu mögulegu einkunn í síðustu úttekt gæðaráðs íslenskra háskóla, sem fór fram 2015. Skólinn hefur glímt við rekstrarerfiðleika, eins og allir háskólar í landinu. Á yfirstandandi ári kennir skólinn 446 nemendum, sem eru tæplega 70 fleiri en kennt var 2007, en upphæðin sem skólinn fær á fjárlögum 2016, níu árum síðar, er hin sama á núvirði. Á tímabilinu var engu að síður bætt við meistaranámsbrautum í hönnun, myndlist, sviðslistum, listkennslu og tónlist. Stöðugildi fastráðinna starfsmanna eru 88 í ár og hafa ekki aukist nema um 2 síðan 2007. Launakostnaður er tæplega 70% af rekstrarkostnaði og húsnæðis-kostnaður losar 20%. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að auka skilning stjórnvalda á stöðu skólans hefur orðið bið á úrbótum.
BÍL telur það umhugsunarefni fyrir stjórnmálamenn að listnám á háskólastigi skuli ekki standa til boða nema gegn skólagjöldum ólíkt öðru háskólanámi í landinu. Þá hefur BÍL gagnrýnt hversu framlög til rannsókna eru lítils metin af yfirvöldum menntamála. Hlutfall rannsókna af heildarframlagi hins opinbera til LHÍ er einungis 8,6% 2016, var 5,7% 2015, en skólanum ber lagaleg skylda til að sinna rannsóknum á fræðasviði lista, án þess að stjórnvöld hafi viðurkennt þá lagaskyldu í fjárveitingum til skólans. Annað virðist gilda um aðra háskóla þar sem hlutfall rannsókna af heildarframlagi til annarra háskóla er eftirfarandi: HÍ 39,6%, HA 35,5%, Háskólinn að Hólum 36,6%, Hvanneyri 40%, HR 19,3% og Bifröst 20,5%. Vegna þessara lágu framlaga til rannsókna, þarf LHÍ að taka af knöppu rekstrarfé sínu til að greiða fyrir rannsóknarþáttinn í starfinu í stað þess að þær séu fjarmagnaðar af ríkinu líkt og hjá öðrum. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur BÍL mikilvægt að stjórnvöld viðurkenni ábyrgð sína gagnvart skólanum og geri tafarlaust áætlun um uppbyggingu hans á einum stað, auk þess sem rekstrarstaða hans verði löguð, rannsóknarskylda hans fjármögnuð og kennsla við skólann fullfjármögnuð.

Listdansnám á bláþræði
Mikil óvissa ríkir innan listdansskólanna varðandi listdansnám á framhaldsskólastigi. Fyrirhugaðar breytingar menntamálaráðuneytis á starfsumhverfi skólanna hafa ekki verið kynntar skólastjórnendum og þeir horfa nú fram á gífurlegan hallarekstur, m.a. vegna fyrirsjáanlegra og eðlilegra hækkana á kjarasamningum starfsfólks. Lág framlög frá ríki eru í fullkomnu ósamræmi við þann kostnað sem liggur að baki hverjum nemanda og taka ekkert mið af þeim skyldum sem listdansskólunum er gert að uppfylla samkvæmt námsskrá. Nú er svo komið að margir tugir nemenda eru í algjörri óvissu um hvort þeir geti lokið listnámi sínu til stúdentsprófs. Það er mat BÍL að staða skólanna sé orðin það alvarleg að ekki megi bíða degi lengur að grípa í taumana, en það verður ekki gert án atbeina stjórnvalda. Aðgerðir fjárlaganefndar nú í aðdraganda fjárlaga 2017 munu því skipta sköpum fyrir þennan þátt listmenntunar barna og ungmenna í landinu. Þá hefur BÍL af því áhyggjur að enn skuli ekki hafa verið sett reglugerð fyrir nám í listdansi á grunn- og framhaldsstigi, en sú staðreynd veikir grundvöll náms í listdansi á þessum skólastigum. Þá er enn ósamið um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna grunn- og framhaldsnáms í listgreininni. Sú vinna var sett á ís fljótlega eftir að ný námsskrá í listdansi kom út árið 2006 og þar sem fyrst þyrfti að ljúka vinnu við kostnaðarskiptingu tónlistarskólanna. Nú er þeirri vinnu lokið en ekkert bólar á samningum um listdansnámið. Stjórnvöld þurfa að átta sig á mikilvægi framhaldsnáms í listgreinunum ef þau meina eitthvað með yfirlýsingum um átak í atvinnusköpun í skapandi greinum. Slíkt átak verður ekki gert öðruvísi en með öflugu menntakerfi í listum og hönnun.

Að lokum er þess óskað að stjórn BÍL fái að senda fulltrúa á fund fjárlaganefndar til að svara spurningum þeim sem nefndarmenn kunna að hafa um málefni þau sem hér eru til umfjöllunar.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti