1. Sóknaráætlun.
BÍL þróar áfram „Sóknaráætlun skapandi greina“ með því að halda málþing og hugarflugsfundi þar sem áherslur verða greindar og forgangsröðun aðgerða ákveðin. Skrifaðar verða greinar um einstaka þætti áætlunarinnar og efnt til almennrar umræðu um hana við stjórnvöld, almenning og aðra hagsmunaaðila atvinnulífs og menningar. Með þessu móti tekur BÍL forystu í stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina sem tekur m.a. mið af menningarstefnu samþykktri á Alþingi vorið 2013, tillögum skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar og stefnumótun í menningarmálum á vettvangi sveitarfélaga t.d. Reykjavíkur.

2. Menningarstefnu framfylgt.
Markvisst starf þarf til að framfylgja menningarstefnu Alþingis frá 2013, mikilvægt er að
a) auka aðgengi að listum og menningu fyrir alla landsmenn
b) greina hlutverk lista og menningar við uppbyggingu lífvænlegra samfélaga
c) skilgreina hlut lista og menningar í ferðaþjónustu og tryggja sanngjarna hlutdeild í opinberum framlögum til greinarinnar
d) viðurkenna mikilvægi menntunar í listum og skapandi greinum,
e) skrá tölfræði lista og menningar með markvissum hætti og tryggja rannsóknir í þágu lista og skapandi atvinnugreina
f) vinna langtímastefnu um starfsgrundvöll menningarstofnana, þ.m.t. húsnæðismál.
BÍL mun á árinu gangast fyrir vinnu við að kortleggja þá stefnu sem starfað er eftir í list- og menningartengdum greinum, leggja mat á eftirfylgni stefnunnar og leitast við að benda á mögulegar úrbætur.

3. Samstarf & samráð.
Stefnt verði að því að útvíkka samstarf og samráð það sem stjórn BÍL á í með stjórnvöldum og helstu þverfaglegu menningarstofnunum okkar; mennta- og menningarmálaráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor Listaháskóla Íslands, útvarpsstjóra og yfirstjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. BÍL telur mikilvægt að fjölga samráðsfundum með þeim sem fara með yfirstjórn list- og menningartengdra málefna, t.d. sé þörf á efna til formlegra samskipta milli forystu listamanna og stjórnvalda sveitarstjórnarmála með reynsluna af samstarfi BÍL og Reykjavíkurborgar til hliðsjónar. Opin samskipti og samstarf BÍL og stjórnvalda í Reykjavík hefur verið með ágætum og er árangur þess starfs til marks um að ráðgjöf um uppbyggingu atvinnutækifæra og faglega úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna, hefur skilað sér. Sú reynsla er gagnleg til viðmiðunar þegar samtalið verður breikkað og fært yfir á vettvang sveitarstjórnarmálanna almennt. Eftirsóknarvert markmiðið væri að efla list- og menningartengda starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins og þar með fjölga atvinnutækifærum fyrir listamenn í dreifðari byggðum. BÍL vill rækta sambandið við stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa, það verður best gert með því að efla samtalið sem hafið var í aðdraganda Alþingiskosninga 2016, eiga fundi með fulltrúum flokkanna í málaflokkum sem tengjast listum og menningu. Slíkt samtal getur farið fram á vettvangi málefnanefnda flokkanna en einnig á vettvangi þingflokka eða tiltekinna fastanefnda Alþingis. Einnig verður leitað eftir samstarfi við stýrihóp stjórnarráðsins í byggðamálum og aðra sem starfa að sóknaráætlunum landshlutanna. Þá ræktar BÍL samstarf við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök skapandi greina, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og aðra þá sem hagsmuni hafa af uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi fólk.

4. Launasjóðirnir.
BÍL mótar tillögur um uppbyggingu launasjóða listamanna, sem miði að því að fjölga launamánuðum og hækka mánaðargreiðsluna svo hún taki mið af meðallaunum félaga í BHM. Verkið verði unnið í samvinnu við stjórn listamannalauna, mennta- og menningarmálaráðuneyti og þingflokka á Alþingi. Endurskoðun laga um listamannalaun nr. 57/2009 kallar á ákvörðun um breytingar á launasjóði sviðslistafólks og mun BÍL standa vörð um sjónarmið félaga sviðslistafólks í þeim efnum.

5. Menningartölfræði.
BÍL vinni áfram að því að fá helstu stærðir hagrænna áhrifa list- og menningartengdrar starfsemi skráðar sem hluta af reglulegri samantekt Hagstofu Íslands (og/eða þeirra aðila sem best væru til þess fallnir að sinna slíku starfi). Í því skyni fundi stjórn BÍL með stjórnendum Hagstofunnar og leggist á sveif með þeim í viðleitni sinni við að auka samstarf við nágrannalöndin varðandi skráningu menningartölfræði. Meðal aðkallandi verkefna er að safna saman þeim tölulegu gögnum um listir og menningu, sem þegar eru til, koma þeim fyrir í sameiginlegum gagnagrunni, sem mögulega yrði vistaður á vef Hagstofunnar. Síðan þyrfti að vinna úr gögnunum með skipulegum hætti, með það að markmiði að greina „götin“ í menningartölfræðinni, gera þau sýnileg og auðveldari viðfangs og loks ákvarða með hvaða hætti fyllt verður í „götin“. Meðal þess sem þegar er til skráð að einhverju marki er fjöldi þeirra sem starfa innan greinanna, fjöldi félaga í fagfélögum listamanna og hönnuða, fjöldi gesta í söfn, í leikhús, á myndlistarsýningar etc, aldursgreining, kynjaskipting, þjóðerni etc. Liður í þessu starfi er að auka sérfræðiþekkingu á listum og skapandi greinum innan Hagstofunnar. Slíka þekkingu þarf til að greina hvaða upplýsingum ber að safna, hvernig þær verði matreiddar og gerðar aðgengilegar þeim sem vilja stunda rannsóknir í list- og menningargeiranum. Safna þarf upplýsingum um „best practices“ hjá nágrannalöndum okkar hvað fyrirkomulag og aðferðafræði varðar. Ráðast þarf í þetta verkefni án tafar.

6. Alþjóðlegt samstarf.
BÍL þróar áfram alþjóðlegt samstarf listamanna með áherslu á tjáningarfrelsi listamanna um allan heim. Í því skyni leitar BÍL eftir samstarfi við Íslandsnefnd UNESCO, Artsfex og önnur alþjóðleg samtök sem sinna slíkum málum. Þá verður áfram unnið að öflugu samstarfi systursamtaka BÍL á Norðurlöndunum með áherslu á kortlagningu starfsumhverfis og stuðningskerfis listanna á Norðurlöndunum. Einnig verður leitast við að eiga uppbyggileg samskipti við stjórnmálamenn á Norðurlöndunum gegnum Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina. Þá leggur BÍL áfram rækt við norrænt og alþjóðlegt samstarf á vettvangi höfundarréttarmála.

7. Rannsóknir í listum og menningu.
BÍL efnir til aðgerða til að auka skilning stjórnvalda á mikilvægi rannsókna í listum. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2014 – 2016 er gengið út frá öflugri sókn í nýsköpun á næstu árum, m.a. verði skattkerfið virkjað í þágu nýsköpunar og rannsókna. Það er galli á stefnunni að hvergi skuli gerð grein fyrir þætti listrannsókna eða nýsköpunar í listum. BÍL mun leitast við að hafa áhrif á mótun nýrrar stefnu Vísinda- og tækniráðs með það að markmiði auka vægi lista og menningar í rannsóknum og vísindastarfi. Leitað verður eftir samstarfi við Listaháskóla Íslands við þetta verkefni.

8. Listmenntun.
BÍL leiti eftir sjálfstæðu samtali um listmenntun á öllum skólastigum við yfirvöld menntamála. Það samtal fari fram á grunni menntastefnu sveitarfélaga og menningarstefnunnar sem Alþingi samþykkti 2013, þar sem kveðið er á um að listfræðsla og listkennsla verði efld í skólakerfinu öllu. Í þeim efnum þarf að huga að samspili sérskóla í listum og annars listnáms/listfræðslu í almenna skólakerfinu. Brýnt er að finna lausn á málefnum listdansskólanna í landinu, treysta þarf stöðu þeirra í kerfinu og tryggja fjármögnun þeirra til framtíðar. Slíkt verður best gert með því að hraða vinnu við reglugerð um nám í listdansi, ásamt því að koma á samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu milli grunn- og framhaldsstigs. Listnám á háskólastigi hefur dafnað og eflst þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem Listaháskóla Íslands eru búnar. Mikilvægt er að vinda bráðan bug húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands og tryggja rekstrargrundvöll hans til frambúðar. Þá ber að tryggja að skólinn fái sambærileg framlög til listrannsókna og aðrir háskólar fá til rannsóknarstarfs á sínum fagsviðum.