Stjórn BÍL hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu, auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir um afmörkuð málefni. Aðildarfélög BÍL eru fimmtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum annarra stjórnarmanna sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:

Arkitektafélag Íslands; AÍ– formaður Aðalheiður Atladóttir, varamaður Helgi Steinar Helgason

Danshöfundafélag Íslands; DHÍ – formaður Katrín Gunnarsdóttir

Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH–formaður Björn Th. Árnason

Félag íslenskra leikara; FÍL– formaður Birna Hafstein

Félag íslenskra listdansara; FÍLD– formaður Arndís Benediktsdóttir, varamaður Guðmundur Helgason

Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT– formaður Hlín Pétursdóttir Behrens, varamaður Hallveig Rúnarsdóttir

Félag kvikmyndagerðarmanna; FK– formaður Hrafnhildur Gunnarsdóttir

Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB– formaður Rebekka Ingimundardóttir, varamaður Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Félag leikskálda og handritshöfunda; FLH– formaður Margrét Örnólfsdóttir, varamaður Ármann Guðmundsson

Félag leikstjóra á Íslandi; FLÍ– formaður Sara Martí Guðmundsdóttir / Páll Baldvin Baldvinsson

Félag tónskálda og textahöfunda; FTT– formaður Jakob Frímann Magnússon, varamaður Bragi Valdimar Skúlason

Rithöfundasamband Íslands; RSÍ– formaður Kristín Helga Gunnarsdóttir, varamaður Vilborg Davíðsdóttir

Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM– formaður Jóna Hlíf Halldórsdóttir, varamaður Eirún Sigurðardóttir

Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL – formaður Friðrik Þór Friðriksson

Tónskáldafélag Íslands; TÍ,– formaður Þórunn Gréta Sigurðardóttir, varamenn Páll Ragnar Pálsson og Þuríður Jónsdóttir

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2017):
Menningar- og ferðamálaráð Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir Reykjavíkur
Varamenn Jakob Frímann Magnússon og Birna Hafstein

Fulltrúar í faghópi MOFR 2016

Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður, formaður
Jón Bergmann Kjartans Ransu myndlistarmaður
Þóra Karítas Árnadóttir leikari
Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur
Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt (fulltr.Hönnunarmiðst.)

Kvikmyndaráð Margrét Örnólfsdóttir
Varamaður Bergsteinn Björgúlfsson

Fulltrúaráð Listahátíðar Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna Hlynur Helgason
Varamaður Hlín Gunnarsdóttir

Stjórn Skaftfells Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Varamaður Kolbrún Halldórsdóttir

Fagráð Íslandsstofu í Kolbrún Halldórsdóttir
listum og skapandi greinum

Menningarfánaverkefni Rvíkur Karen María Jónsdóttir

List án landamæra Edda Björgvinsdóttir

Stjórn Gljúfrasteins Kolbrún Halldórsdóttir

Umsagnarnefnd Pétur Gunnarsson
vegna heiðurslauna Alþingis

Höfundarréttarráð Kolbrún Halldórsdóttir

Sérfræðinganefnd KKN Margrét Jónasdóttir jan.2014 – jan.2017
(ferðastyrkjanefnd)

Starfshópur um Jón B. Kjartanss. Ransu
málverkafalsanir Kolbrún Halldórsdóttir varamaður

Samstarfshópur um Kolbrún Halldórsdóttir
sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Samráðshópur „List fyrir alla“ Hildur Steinþórsdóttir og Davíð Stefánsson

Forseti BÍL var fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Listaháskóla Íslands til nóv. 2016, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti BÍL hefur gegnt starfi forseta ECA – European Council of Artists síðan í árslok 2011 og situr í norræna listamannaráðinu Nordisk Kunstnerråd. Fyrir hönd ECA tekur hún þátt í starfi European Creative Alliance um höfundarréttarmál listamanna og er fulltrúi Nordisk Kunstnerråd í stjórn Norrænu menningarmiðstöðvarinnar Circolo Scandinavo í Róm, varamaður stjórnar CS síðan á aðalfundi 2015. Önnur trúnaðarstörf forseta eru eftirfarandi: forseti er fulltrúi BÍL í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar. Þá er hún ritari í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi.

Stjórn BÍL hefur skipt með sér verkum á árinu þannig að Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda hefur gegnt starfi ritara og Björn Th. Árnason formaður Félags íslenskra hljómlistamanna – FÍH er gjaldkeri. Það er hins vegar fjármálastjóri FÍH, Friðgeir Kristinsson sem nú annast bókhald BÍL og skil á uppgjöri til endurskoðanda Helgu Þorsteinsdóttur. Skoðunarmenn reikninga hafa verið Ragnheiður Tryggvadóttir og Sigurgeir Sigmundsson og eru þau kjörin á aðalfundi til tveggja ára í senn, nú fram að aðalfundi 2018.

Stjórn BÍL hefur komið saman til reglulegra funda 10 sinnum á árinu, þar að auki hélt stjórnin samráðsfund með útvarpsstjóra Magnúsi Geir Þórðarsyni og annan fund með forsvarsmönnum RÚV um nýjan menningarvef stofnunarinnar. Þá var stjórn BÍL boðið til fundar við Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor Listaháskóla Íslands um málefni skólans og einn fundur var haldinn með nýrri stjórn Listamannalauna.

Starfið í hnotskurn og staðan í dag
Starf BÍL 2016 einkenndist nokkuð af atburðum stjórnmálanna eftir að forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér 5. apríl og tilkynnt var í kjölfarið að kosningum til Alþingis yrði flýtt. Þá var ljóst að barátta hagsmunasamtaka listamanna, og annarra sem berjast fyrir bættum hag skapandi atvinnugreina, myndi á árinu hverfast um baráttumál í aðdraganda kosninga. Þannig snerist undirbúningur þátttöku BÍL í Fundi fólksins í september upp í skipulagt samtal okkar við stjórnmálaflokkana um helstu baráttumál listamanna. Til að skerpa þá umræðu var tekið upp samstarf við önnur hagsmunasamtök, m.a. samtök í málefnum höfundarréttar og samstarfsvettvang Samtaka iðnaðarins um málefni skapandi greina X-hugvit. Einnig skipulagði stjórn BÍL málefnafundi með öllum stjórnmálaflokkum sem líklegir voru til að fá menn kjörna á þing.

Kosningar til Alþingis fóru fram 29. október 2016 og svo sem kunnugt er þá dróst á langinn að tækist að mynda ríkisstjórn. Það óvenjulega ástand skapaðist að Alþingi var kallað saman til að afgreiða fjárlög áður en ný ríkisstjórn hafði verið mynduð. Þar sem eitt af mikilvægari verkefnum BÍL á hverju ári er umræða um fjárlög, jafnt innanvert í listageiranum sem og við stjórnvöld beint með umsögn til fjárlaganefndar, bitnaði sú staða sem uppi var á efnislegri umræðu um málefni fjárlaganna. Nærri helmingur þingmanna höfðu aldrei setið á þingi og fjárlaganefnd hleypti engum að sér, því fékk efnismikil ellefu blaðsíðna umsögn BÍL, sem send var þinginu, enga umfjöllun. Eiginlega má með nokkrum rökum halda því fram að fjárlög hafi verið samþykkt af nýkjörnu þingi án þess að eiginleg umræða um efnisþætti frumvarpsins færi fram. Í ofanálag var nú í fyrsta sinn unnið samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál (samþ. í des. 2015), sem mæla fyrir um umtalsverðar breytingar á framsetningu fjárlaga. Það má til sanns vegar færa að þetta aukna flækjustig fjárlagavinnunnar hafi leitt til þess ófremdarástands sem við glímum nú við í kjölfarið, a.m.k. við sem störfum að listum og menningu, að enn hefur ekki verið tilkynnt um fjárveitingar hins opinbera til mikilvægra sjóða og annarra útgjaldaliða í menningargeiranum, það á t.d. við um samstarfssamning BÍL við ráðuneytið, sem vikið verður betur að síðar í skýrslu þessari.

Þann 10. janúar sl. var loks tilkynnt að ný ríkisstjórn hefði tekið við völdum og málefni lista og menningar í þeirri stjórn voru falin Kristjáni Þór Júlíussyni, sem í fyrri ríkisstjórn hafði stýrt heilbrigðismálum. Stjórn BÍL lét það verða sitt fyrsta verk að senda nýjum ráðherra bréf með heillaóskum þar sem þess var óskað að flýtt yrði samráðsfundi BÍL með ráðherra og menningarskrifstofu ráðuneytisins, í því augnamiði að kynna nýjum ráðherra helstu baráttumál listamanna í landinu. Svar barst frá ráðuneytinu fyrir tveimur dögum, þess efnis að því miður væri ekki hægt að verða við ósk BÍL um að flýta fundinum, hann verði því boðaður í apríl.

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar mun eðlilega liggja til grundvallar samtalinu sem BÍL tekur við stjórnvöld á næstunni og því mikilvægt að aðildarfélög BÍL séu vel að sér um þau atriði yfirlýsingarinnar er varða listir og menningu. Raunar kemur hugtakið „listir“ einungis einu sinni fyrir í yfirlýsingunni, í kaflanum um menntamál en þar segir: Menntakerfið gegnir lykilhlutverki við að búa landsmenn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og þekking, menning, listir, nýsköpun og vísindi skipta sköpum við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða. Í framhaldinu er sagt að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld, sem er ánægjulegt ef það gengur eftir. Því BÍL hefur frá stofnun Listaháskóla Íslands lagt þunga áherslu á eflingu háskólanáms í listum, ekki síst með tilliti til húsnæðismála skólans og rannsókna í listum og hönnun, reyndar án mikils sýnilegs árangurs fram til þessa.

Í kafla stefnuyfirlýsingarinnar um menningu er talsverð áhersla lögð á mikilvægi skapand greina og þó ekki sé ljóst hvaða merking lögð er í hugtakið þá bendir margt til þess að þar sé frekar um að ræða nýsköpun og þróun sem sé líkleg til að auka verðmætasköpun og efla samkeppnishæfni. t.d. í tækni- og hugbúnaðargeiranum, en listir og menningu. Til marks um það má nefna framsetningu í inngangi yfirlýsingarinnar, þar sem segir að mikilvægt sé að treysta samkeppnishæfni Íslands og að ríkisstjórnin muni stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt. Baráttan fyrir auknum skilningi á starfsumhverfi listamanna og uppbyggingu öflugra opinberra menningarstofnana virðist því ætla að halda áfram þrátt fyrir áform um uppbyggingu skapandi greina í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og það hlutverk þurfa aðildarfélög BÍL að axla hér eftir sem hingað til.

Samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið
Samkvæmt samningi BÍL við yfirvöld menningarmála er meginmarkmið samstarfsins að BÍL og ráðuneytið standi saman að mörkun og eftirfylgni stefnu á sviði menningarmála. Í því skyni styður ráðuneytið við starfsemi BÍL með árlegu fjárframlagi, undirbýr árlegan samráðsfund með ráðherra menningarmála um málefni lista og menningar, auk þess sem BÍL er gert að vera ráðgjafi ráðuneytisins í tilteknum list- og menningartengdum málum (eftir því sem eftir því er kallað). Þá gerir samningurinn ráð fyrir því að BÍL annist tengsl við systurstofnanir erlendis og taki þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði lista (eftir því sem aðstæður leyfa).

Fyrsti samningurinn sem gerður var um þetta samstarf er frá árinu 1998 en það ár fagnaði BÍL 70 ára afmæli sínu. Sú forysta BÍL sem nú leiðir starfið hefur ekki upplýsingar um upphæð ríkisframlagsins það ár, en 10 árum síðar eða árið 2008 nam framlagið 2,3 milljónum króna. Svo kom hrunið….. og 2010 var framlagið lækkað í 1,8 en náði aftur sínum fyrri styrk 2011 fór þá í 2,4 milljónir, 2014 hækkaði það svo í 3 milljónir og 2015 og 2016 hefur það verið 3,5 milljónir.

Um þessar mundir er Bandalagið samningslaust og hefur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki getað fengið ráðuneytið til að leggja fram drög að nýjum samningi til næstu þriggja ára. Ástæðurnar sem gefnar eru tengjast breytingu laga um opinber fjármál (des. 2015), sem mæla fyrir um umtalsverðar breytingar á framsetningu fjárlaga. Skv. fylgiriti með fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að Bandalag íslenskra listamanna fái nýjan saming til 2019 og skv. honum verði árlegt framlag 4 milljónir króna, sem er einni milljón króna lægri upphæð en það sem BÍL óskaði eftir, en þetta höfum við ekki fengið staðfest hjá ráðuneytinu.

Samráðsfundur með menningarmálaráðherra
Árlegur samráðsfundur stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, fór fram 26. apríl og var ákveðið að senda ekki hefðbundið minnisblað sem grundvöll samráðsins, heldur voru settar fram spurningar sem byggðu á fundargerðum síðustu samráðsfunda og óskað svara við þeim. Spurningarnar voru á borð við þessar:

 • Hvers er að vænta um fjárframlög til lista og menningar í 5 ára áætlun í ríkisfjármálum sem áskilin er í lögum um opinber fjármál?
 • Hvað hefur áunnist í skráningu tölulegra upplýsinga um listir og menningu frá því Menningarlandið 2015 var haldið?
 • Má hugsa sér að ráðuneytið gangist fyrir ráðstefnu á grunni nýlegrar alþjóðlegar kortlagningar skapandi greina og láti vinna samanburð á stöðu skapandi greina hér á landi og í nágrannalöndum okkar?
 • Hvað líður áætlun um eflingu launasjóða listamanna, sem BÍL hefur kallað eftir síðan 2012?
 • Hvar er að frétta af áformum stjórnvalda um að gera menningararfinn aðgengilegan í stafrænu formi, og hvað líður samningum við höfundarétthafa um slíkt aðgengi á öllum sviðum menningararfs?
 • Hver er afstaða ráðherra til málefna tengdum höfundarrétti t.d. um greiðslur til höfunda af kvikmyndum og tónlist sem eru til útláns á bókasöfnum?
 • Mætti auka áhrif lista og menningar á markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna og skýra aðkomu menningargeirans að Stjórnstöð ferðamála og framkvæmd ferðamálastefnu til 2020?
 • Þá var spurt um menningarsamninga við landshlutasamtök sveitarfélaga, sem hafa verið innlimaðir í uppbyggingarsamninga sem Byggðastofnun annast undir hatti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra (núna ráðherra sveitarstjórna og samgöngumála) m.a. hvort ráðuneytið væri tilbúið að beita sér í þágu list- og menningartengdrar starfsemi á landsbyggðinni með því að endurheimta yfirráð yfir samningunum?
 • Þá var komið að miðstöðvum lista og hönnunar og spurt hvort til stæði að styrkja rekstrargrunn þeirra í samræmi við menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013?
 • Og ítrekaðar voru óskir BÍL um tillögur um samræmda stjórnsýslu lista og skapandi greina og spurt hvort til greina komi að ráðherra setji á laggirnar starfshóp í félagi við BÍL í þessu skyni?
 • Loks óskaði stjórn BÍL viðbragða af hálfu ráðherra við þeirri sjálfsögðu kröfu listamanna að fyrir verkefni, sem stofnað er til af menningar- og listastofnunum sem reknar eru að stærstum hluta fyrir opinbert fé, sé greitt samkvæmt þeim lágmarkssamningum sem í gildi eru um viðkomandi störf.

Ekki fengum við svör við þessum spurningum á fundinum og erfiðlega gekk að fá fundargerð fundarins í hendur, hún barst þó með eftirgangsmunum 9. september og í framhaldinu sendi stjórn BÍL erindi til ráðuneytisins um frekari eftirfylgni nokkurra verkefna sem ráðuneytið vinnur að tengt listum og menningu, t.d. varðandi

 • starfshóp um kortlagningu sóknartækifæra íslenskrar tónlistar, kortlagningu viðskipta- og stuðningskerfis tónlistarinnar og styrkingu innviða í tónlistartengdri starfsemi
 • verkefnastjórn átaks í að efla hlut kvenna í íslenskri kvikmyndagerð og gerð tillagna um kvikmyndanám í grunn- og framhaldskólum
 • framvindu samstarfs ríkis og sveitarfélaga um menningarmál í landshlutunum; skýrslu frá stýrihóp stjórnarráðsins um byggðamál
 • skýrslu um niðurstöður ráðstefnunnar Menningarlandið 2015
 • viðbrögð við ábendingum BÍL varðandi skilgreint hlutverk lista- og menningargeirans í markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs áfangastaðar ferðamanna, í ljósi endurnýjaðs samnings um verkefnið Ísland allt árið
 • skilagrein samstarfshóps skapandi greina, sem starfar á grundvelli skýrslunnar „Skapandi greinar – sýn til framtíðar“. Í skilagreininni mun vera fjallað um hagtölur greinanna og stuðningskerfi í formi sjóða og kynningarmála, ásamt menntunarmálum
 • upplýsingar um norræn þekkingarmiðstöð um menningartölfræði og menningarrannsóknir, sbr. ákvörðun ráðherrafundar 28. október 2015
 • stöðu vinnunnar við innleiðingu og framkvæmd ályktunar Alþingis um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi frá 2014.

Svör við þessu erindi hafa nú borist og hyggur stjórn BÍL á frekari eftirfylgni þeirra mála sem þarna er fjallað um. Það sem ekki náðist að gera á árinu, þrátt fyrir ítrekaðar óskir BÍL var að halda samráðsfund með ráðherra í tengslum við aðkallandi úrbætur í listmenntun á öllum skólastigum. Það er mjög miður, sérstaklega í ljósi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum um mikilvægi listnáms, að það sé gert aðgengilegt og viðurkennt.

Um svipað leyti og samráðsfundurinn var haldinn með mennta- og menningarmálaráðherra óskaði stjórn BÍL eftir fundi með fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni um fjármögnun list- og menningartengdrar starfsemi en aldrei barst svar við þeirri ósk.

Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarp 2017
Eins og að framan greinir þá kalla ný lög um opinber fjármál á nýja nálgun í samtali BÍL við ríkisvaldið, aðallega vegna þess að nýju lögin gera ráð fyrir að ábyrgðin á skiptingu fjárframlaga á einstök „viðföng“ innan málaflokka hvíli í ríkari mæli á ráðherra viðkomandi málaflokks en ábyrgð þingsins og þar með fjárlaganefndar mun hverfast um „stóru línurnar“, þ.e. heildarfjárframlög til einstakra málaflokka. Til grundvallar þessu starfi þings og framkvæmdavalds eiga að liggja tvær áætlanir, a) fjármálastefna til fimm ára og b) fjármálaáætlun sem lögð er fyrir þingið á hverju ári. Í ljósi þess að nýafstaðnar þingkosningar fóru fram að hausti gafst nýrri ríkisstjórn ekki tími til að vinna þessar áætlanir, svo fjárlögin 2017 eru í raun grundvölluð á stefnu ríkisstjórnarinnar sem féll í kosningunum. Þetta á eftir að seinka því að áherslur nýrrar ríkisstjórnar sjáist í reynd.

Í ljósi þessa nýja fyrirkomulags ákvað stjórn BÍL að horfa vítt yfir málaflokkinn „listir og menning“ í umsögn sinni og gefa þannig nýjum þingmönnum og nýrri ríkisstjórn, sem er áfram um að efla „skapandi greinar“, einhverja tilfinningu fyrir því starfsumhverfi listamanna og tengslum þess (og afkomu listamanna) við stórar menningarstofnanir reknar fyrir opinbert fé sem þeim er markað í fjárlögum. Með því að vekja athygli fjárlaganefndar á þessum tengslum taldi stjórn BÍL sig hafa fengið kærkomið tækifæri til að varpa ljósi á mikilvægi þess að menningarstofnunum í eigu þjóðarinnar sé gert kleift að standa undir hlutverki sínu með reisn og skapa umhverfi fyrir framsækna listsköpun um leið og sígildri list og menningu er sinnt af alúð.

Í umsögninni var fjallað um eftirtaldar stofnanir, allt unnið í samstarfi við forstöðumenn þeirra hverrar og einnar: Harpa, Íslenski dansflokkurinn, Íslenska óperan, Listasafn Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið, Ríkisútvarpið, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Tónverkamiðstöð og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista. Þá var fjallað ítarlega um launasjóði listamanna og verkefnatengdu sjóðina auk þess sem rík áhersla var lögð á kröfu BÍL um sjálfstætt ráðuneyti menningarmála. Loks var fjallað um menntun á vettvangi listanna með áherslu á þörfina fyrir fullfjármagnað háskólanám í listum, skort á fjárframlögum til rannsókna og bráðnauðsynlega uppbyggingu húsnæðis fyrir Listaháskóla Íslands.

Auðvitað var það von stjórnar BÍL að umsögnin vekti einhverja athygli stjórnmálamanna og að einhverra viðbragða yrði að vænta, mögulega að einhverjar breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu milli umræðna, en því var ekki að heilsa svo nokkru næmi. 50 milljónum var bætt í málaflokkinn við aðra umræðu: 15 m. til Snorrastofu, 21 m. til Borgarleikhússins og 14 m. til ýmissa smærri styrkja á málefnasviðinu. Niðurstaða fjárlaga varð sú að heildarhækkun framlaga til málefna safna var 4,8%, til menningarstofnana 7,2% og til menningarsjóða 4,6%. Það er því ljóst að umræða um þróun opinberra fjárframlaga til lista og menningar þarf að halda áfram og mikilvægt að BÍL verði leiðandi í þeirri umræðu. Því er raunar við að bæta að Listaháskóli Íslands fékk 110 milljóna króna hækkun á sínu framlagi, sem kom vegna ákvörðunar Alþingis um styrkingu háskólastigsins. Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2017 er aðgengileg á vef BÍL.

Samstarfið við Reykjavíkurborg
Samstarf BÍL og menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur er með ágætum, t.d. var horfið frá hugmyndum um að fækka áheyrnarfulltrúum BÍL á fundum menningar- og ferðamálaráðs, en tillaga þess efnið hafði komið upp sem liður í sparnaði MOFR 2016. Áralöng hefð er fyrir tveimur áheyrnarfulltrúum BÍL í ráðinu, en það fundar tvisvar í mánuði. Þá eiga BÍL og borgin samstarf gegnum faghóp um úthlutun styrkja til list- og meningartengdra verkefna ár hvert. Þess utan hittir stjórn BÍL borgarstjóra Dag B. Eggertsson á árlegum samráðsfundi, sem í þetta sinn var haldinn 23. maí í Höfða. Til grundvallar fundinum lágu óskir BÍL um áframhaldandi þróun fyrirkomulags styrkjaúthlutana til list- og menningartengdra verkefna í Reykjavík, um að kannað verði af alvöru hvort ekki megi auglýsa eftir umsóknum um styrki tvisvar á ári, þannig að úthlutun fari fram í upphafi árs og aftur að vori. Borgaryfirvöld hafa ekki talið fjárhagslegt svigrúm til að verða við þessum óskum, en til marks um þröngan fjárhag borgarinnar þá hafa skyndistyrkir menningar- og ferðamálaráðs verið skornir alfarið niður auk þess sem styrkjapotturinn í upphafi árs 2016 var lækkaður umtalsvert. Sá niðurskurður kom þó að mestu til baka í ár (2017) með því að Borgarhátíðasjóður var formgerður og efldur, auk þess sem borgin hefur sett aukna fjármuni í rekstur Tjarnarbíós og Bíó Paradísar. Þá hefur borgin bætt við framlög til Nýlistasafnsins, Kling og Bang og Hönnunarmiðstöðvar. Allt eru þetta afar jákvæðar breytingar, en það sem enn má lagfæra er t.d. að komið verði í framkvæmd ákvæði sem er í menningarstefnu borgarinnar um verklagsreglur um að réttur listamanna til launa fyrir vinnuframlag verði virtur. Stjórn BÍL hvatti borgarstjóra til að hefja tafarlaust vinnu við gerð samnings við myndlistarmenn á grundvelli vinnu starfshóps SÍM um málið. Undirtektir við þá kröfu hafa verið fremur dræmar.

Málefni hönnunar og arkitektúrs voru rædd og gagnrýnd framkvæmd borgarinnar á forvali, sem undanfara samkeppnisverkefna, lögð áhersla á mikilvægi þess að halda fleiri opnar samkeppnir og að verðlaunafé í slíkum keppnum verði hækkað svo það nægi a.m.k. fyrir vinnu við tillögugerðina.

Þá voru málefni listskreytinga í opinberum byggingum og á útisvæðum í opinberri eigu rædd. Upplýst var um baráttu BÍL fyrir endurreisn Listskreytingasjóðs og borgaryfirvöld hvött til að ganga í lið með listamönnum og arkitektum hvað þetta varðar. Í því sambandi lagði stjórn BÍL til að borgin léti fara fram könnun á því hvernig sinnt er þeirri lagaskyldu sem á henni hvílir skv. myndlistarlögum um aukinn hlut myndlistar í opinberum byggingum og umhverfi þeirra. Slíkar aðgerðir myndu þrýsta á ríkið um að setja aukið fé í Listskreytingasjóð. BÍL er ekki kunnugt um að slík könnun sé í gangi, en mun fylgja málinu eftir.

Þá var staða skólabókasafna í borginni rædd og undirstrikað mikilvægi þess að skólabókasöfnin í bókmenntaborg UNESCO standi undir nafni og sé gert kleift að sinna þjóðarátaki í læsi, sem ætlað er að tryggja að hér vaxi úr grasi kynslóðir, sem geta tjáð sig, lesið og nýtt móðurmálið til sköpunar. BÍL hvatti einnig til þess að borgaryfirvöld tengdust verkefninu „list fyrir alla“ og gengju fram fyrir skjöldu sem fyrirmynd annarra sveitarfélaga í landinu með því að efla samstarf skólanna við listamenn og bjóða grunnskólanemum upp á list- og menningartengda viðburði í hæsta gæðaflokki. Þá var tónlistarmenntun rædd og mikilvægi listuppeldis almennt.

Öflugra samtal ferðaþjónustunnar og hinna skapandi greina var tekið til umræðu og hefur verið rætt áfram þar sem nú stendur yfir endurskoðun ferðamálastefnu borgarinnar. Í því sambandi hefur stjórn BÍL hvatt Reykjavíkurborg til að þrýsta á ríkið (Hagstofu Íslands) um skráningu talnaefnis í tengslum við skapandi atvinnugreinar, enda vega þær greinar þungt í auknum straumi ferðamann til landsins.

Annars var borgaryfirvöldum þakkað það sem vel hefur verið gert í málefnum lista og menningar upp á síðkastið og hvatt til þess að stjórnendur borgarinnar taki hlutverk sitt sem fyrirmynd annarra sveitarfélaga alvarlega, með því að miðla þeim árangri sem náðst hefur í verklagi áfram á vettvangi Samtaka sveitarfélaga. Eitt það mikilvægasta sem koma þarf á framfæri hvað árangur MOFR varðar er aðferðafræði við stefnumótun og innleiðingu stefnu, sem sjá má af menningarstefnu Reykjavíkur og aðgerðaáætlun á grunni hennar. Sama aðferðafærði er viðhöfð í stefnu sviðsins varðandi ferðaþjónustu í borginni. Eitt af markmiðum BÍL á komandi starfári er einmitt að koma aðferðum af þessu tagi á framfæri við stjórnendur menningarmála í öðrum sveitarfélögum.

Fundur fólksins 2016
Annað árið í röð var haldinn Fundur fólksins í Vatnsmýrinni. Sú nýlunda var þetta árið að samtökin Almannaheill – samtök þriðja geirans önnuðust framkvæmd fundarins í samstarfi við Norræna húsið, með stuðningi velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Tilgangur fundarins er sem áður, að skapa vandaðan vettvang þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka með það að markmiði að auka traust og skilning á milli ólíkra afla sem bera uppi og móta samfélagið.

Þegar undirbúningur hófst snemma vors vissu menn ekki um væntanlegar vendingar í pólitíkinni, en þegar ljóst var að kosningabarátta flokkanna vegna Alþingiskosninga væri að hefjast um líkt leyti, má segja að upplegg fundarins hafi farið að snúast um þær. Þá áttuðu frambjóðendur sig á mikilvægi þess að þeir tækju virkan þátt í fundarstörfum í Vatnsmýrinni þessa helgi 2. og 3. september og er líklegt að það hafi átt sinn þátt í því hversu almenn þátttaka þeirra var í málstofum fundarins.

BÍL tók virkan þátt í fundinum og skipulagði fjórar málsstofur, auk þess að taka þátt í tveimur málstofum með höfundarréttarsamtökunum. Málstofur BÍL voru þes:sar Listamenn eru líka „aðilar vinnumarkaðarins“, Hvar er menningarstefna stjórnmálaflokkanna?, Sýnileiki lista í fjölmiðlum og Samspil lista og ferðaþjónustu. Og í samvinnu við höfundarréttarsamtökin voru málstofurnar Kasettugjaldið – Framtíð höfundaréttar og Lifað af listinni – Samtal um höfundarrétt. Málstofurnar voru allar vel sóttar og fjörugar umræðu spruttu um málefnin.

Það sem BÍL gerði svo í framhaldinu var tvennt, annars vegar fór stjórn í markvissa vinnu við að undirbúa frekara samtal við stjórnmálaflokkana í aðdraganda kosninga um málefni lista og menningar og hins vegar hélt vinna höfundarréttarsamtakanna áfram við að þrýsta á um úrbætur varðandi IHM-gjöldin og eintakagerð til einkanota.

Samtal við stjórnmálaflokkana
Í aðdraganda Alþingiskosninga boðaði stjórn BÍL fulltrúa þeirra stjórnmálaflokka sem sýnt var að fengju menn kjörna á þing, til fundar þar sem rædd voru helstu baráttumál BÍL um þessar mundir. Fulltrúunum var afhent skjal með helstu áherslumálum BÍL;

 • Sjálfstætt menningarmálaráðuneyti – talsmaður lista og menningar í ríkisstjórn.
 • Listamannalaun – þriggja ára áætlun um fjölgun mánaðarlauna, úr 1600 í 2000 og hækkun mánaðarlegrar greiðslu úr 350 þús. í 450 þús. 2017. Einnig að gera áætlun um eflingu verkefnatengdra sjóða, ekki síst kvikmyndasjóð og sviðslistasjóð.
 • Menningartölfræði – regluleg skráning upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífi og framlagi greinanna til þróunar efnahagslífsins, með sambærilegum hætti og aðrar atvinnugreinar eru skráðar.
 • Menningarstefna – aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013, með tímasettum markmiðum.
 • Listaháskóli Íslands – áríðandi að fullfjármagna starfsemi skólans og ákveða hvar byggja á skólann upp til frambúðar.
 • Rannsóknir í listum – viðurkenna þarf hlut rannsókna í listum, efla hlut þeirra innan Vísinda- og tækniráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar og fjármagna rannsóknarþátt Listaháskólans til jafns við aðra háskóla.
 • Miðstöðvar lista og skapandi greina – stofna sviðslistamiðstöð og vinna langtímaáætlun um kynningu á listum og skapandi greinum utan landssteinanna í samstarfi við miðstöðvarnar, tryggja rekstargrundvöll þeirra og styrkja rödd þeirra innan utanríkisþjónustunnar.
 • Starfsumhverfi listamanna – lagaskylda hvílir á stjórnvöldum að tryggja höfundum til frambúðar sanngjarna þóknun vegna eintakagerðar til einkanota. Einnig þarf að finna leiðir til lækka skattprósentu á greiðslum til rétthafa, að hún fylgi skattprósentu fjármagns- og leigutekna.
 • Öflugri menningarstofnanir og söfn – með áherslu á að söfn og sýningarsalir sem njóta opinbers stuðnings greiði myndlistarmönnum með sama hætti og í nágrannalöndunum.
 • Menningarsamningar við landshlutasamtök – koma samningunum aftur undir stjórnsýslu menningarmála (heyra nú undir landbúnaðarráðuneytið…. Eða sennilega samgönguráðuneytið eftir að ný ríkisstjórn tók við), tryggja faglega úthlutun fjármuna á grundvelli samninganna og byggja upp raunhæf atvinnutækifæri fyrir listafólk á landsbyggðinni.

Að loknum kosningum sendi BÍL svo erindi til þingflokksformanna allra þingflokka með óskum um gott samstarf við heildarsamtök listamanna á kjörtímabilinu framundan og upplýsingar um helstu áherslumál BÍL. Í því sambandi var undirstrikuð niðurstaða BÍL af langri umræðu og þátttöku í margháttaðri vinnu við stefnumótun í list- og menningar-geiranum, um að nauðsynlegt sé að efla stjórnsýslulega stöðu lista og menningar með því að stofna sjálfstætt menningar-málaráðuneyti og til frekari glöggvunar fylgdu erindinu greinar forseta BÍL um það mál og um Menningar-stefnu – Vegvísi stjórnvalda. Þá fylgdi líka starfsáætlun stjórnar BÍL 2016. Þingmenn ættu því að vera vel upplýstir um helstu áherslur í starfi BÍL og munu vonandi bregðast vel við þegar bankað verður á dyr þeirra nú á næstunni með það að markmiði viðhalda samtalinu.

Listamannalaun – Reglur um úthlutnarnefndir
Í framhaldi af vinnu starfshóps um málefni listamannalauna og starfa úthlutunarnefnda samþykkti stjórn BÍL í mars að beina því til aðildarfélaga sinna að farið verði að ábendingum starfshópsins um verklag við skipan fulltrúa í úthlutunarnefndir og taki afstöðu til þess hvort tilnefningarnar skuli vera á hendi stjórna félaganna eða hvort skipuð verði sérstök uppstillingarnefnd sem fái það hlutverk að gera tillögur að fulltrúum í viðkomandi nefnd. Aðferðin við tilnefningarnar hljóti síðan staðfestingu á aðalfundi eða formlega boðuðum félagsfundi. Þá samþykkti stjórn siðareglur, sem lagt var til að aðildarfélögin setji sér og feli stjórnum fagfélaganna og úthlutunarnefndum launasjóðanna að starfa eftir. Í framhaldinu var þess óskað að ráðuneytið kallaði eftir tilnefningunum á fyrsta ársfjórðungi hvers árs til að tryggja vandaða málsmeðferð hjá félögunum við tilnefningu fulltrúa í nefndirnar.

Tillaga að siðareglum sem stjórn sendi aðildarfélögum BÍL er svohljóðandi:

Í úthlutunarnefndum launasjóða listamanna geta setið bæði félagsmenn og sérfræðingar í þeirri listgrein sem um ræðir.

 • Nefndarmenn sækja ekki um listamannalaun sjálfir það ár sem þeir eiga sæti í úthlutunarnefnd.
 • Stjórnarmenn í fagfélögum listamanna er taka ekki sæti í úthlutunarnefndum launasjóðanna.
 • Stjórnum fagfélaga listamanna er óheimilt að hafa afskipti af starfi úthlutunarnefnda.
 • Stjórnir og uppstillingarnefndir eru bundnar trúnaði um störf sín til að tryggja starfsfrið úthlutunarnefnda.
 • Um hæfi og vanhæfi nefndarmanna í úthlutunarnefndum gilda reglur stjórnsýslulaga [nr. 37/1993; 3. gr., tl. 1. og 2.]. Hafa ber í huga að vanhæfi í einu máli skapar vanhæfi í öllum og skal þá skipta út nefndarmanni.
 • Samkvæmt lögum um listamannalaun [57/2009; 14. gr.] eru ákvarðanir úthlutunarnefndar endanlegar á stjórnsýslustigi. Nefndarmenn í úthlutunarnefndum eru bundnir trúnaði um störf sín.
 • Við skipun í úthlutunarnefndir ber að horfa til þess að nefndarmenn hafi góða þekkingu og yfirsýn sem ætti að tryggja að úthlutanir launa dreifist þannig að nýtist heildarsviði viðkomandi listgreinar.

Þörfin fyrir eflingu launasjóðanna
Árið 2016 voru 1606 mánaðalaun til úthlutunar úr launasjóðum listamanna. Sótt var um 11.380 mánuði, sem er rúmlega 20% aukning frá 2015. Munurinn er 9.775 mánuðir ! 946 umsóknir bárust um starfslaun og ferðastyrki frá 1581 umsækjanda (einstaklingar og hópar). Úthlutað var til 378 listamanna (þar af 78 í 14 sviðslistahópum). Munurinn er 1.203 einstaklingar! Árlega brautskráir Listaháskóli Íslands 110 – 120 með bakkalár- eða meistaragráðu í listum og hönnun. Það segir sig sjálft að krafa BÍL um áætlun um eflingu launasjóðanna er bæði eðlileg og sanngjörn. Óskirnar ganga út á það að launamánuðum verði fjölgað í a.m.k. 2000 á næstu þremur árum og upphæðin verði hækkuð og taki mið af meðallaunum félaga í BHM. Áformaður er fundur stjórnar BÍL með stjórn listamannalauna til að ræða þessi mál og önnur sem lúta að starfslaununum, en síkur fundur er orðinn árviss í dagatali stjórnar BÍL.

Samanburður á stuðningskerfi Norðurlandanna
Á vordögum var sent erindi í ráðuneyti mennta- og menningar til að grennslast fyrir um möguleikann á því að ráðuneytið aflaði gagna um stuðningsumhverfi lista á Norðurlöndunum með það að markmiði að bera saman við kerfið okkar. Því miður kom neikvætt svar frá ráðuneytinu, en þó var opnað á þann möguleika að ráðuneytið gæti veitt BÍL styrk til að gera svona samanburð. Stjórn hefur enn sem komið er ekki gert áætlun um slíkt starf en er sannarlega áhugasöm um að skoða hvað með hvaða hætti slíkt verkefni yrði best framkvæmt. Þetta er dæmigert verkefni sem BÍL þyrfti að hafa bolmagn til að fara í og þar erum við raunar á sama báti og norræn systursamtök okkar, sem ekki hafa heldur fengið skilning ráðamanna sinna til að fara í verkefni af þessu tagi. Málið verður tekið upp á vorfundi formanna systursamtakanna sem fer fram í Stokkhólmi í mars 2017.

Listir á landsbyggðinni
Hér að framan og í fyrirliggjandi tillögu að starfsáætlun BÍL fyrir 2017 er nokkur áhersla lögð á uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listamenn á landsbyggðinni, eða öllu heldur á mikilvægi þess að samfélög utan höfuðborgarsvæðisins fái notið slíkrar fjölbreytni í atvinnulífi sem frjótt listalíf atvinnumanna hefur í för með sér. Eftir að umsögn BÍL um fjárlög 2017 var gerð opinber á vefsvæði BÍL og á vef Alþingis, bárust viðbrögð frá listamönnum og menningarstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. frá Ísafirði og Akureyri, þar sem gerð var athugasemd við það að ekki skyldi nefnt í umsögninni hversu illa stjórnvöld sinna uppbyggingu menningarstofnana og listastarfsemi atvinnufólks á landsbyggðinni. BÍL brást að sjálfsögðu vel við þessum ábendingum og í kjölfar þeirra var efnt til funda um málið. Akureyrarstofa bauð forseta BÍL til fundar í Hofi 11. janúar sl. þar sem forsvarsmenn Akureyrarstofu, Hofs, Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands báru saman bækur og stilltu saman strengi. Einnig hélt forseti fund með fyrrv. menningarfulltrúa Eyþings (sem nú er almennur starfsmaður Eyþings eftir að menningarsamningarnir voru felldir inn í uppbyggingasamninga landshlutasamtakanna og ríkisins). Þá var haldinn fundur í Reykjavík með eina atvinnuleikhúsinu á Vestfjörðum, Kómedíuleikhúsinu, um sama efni og komu sömu áhyggjur fram þar. Fundir þessir voru afar gagnlegir og munu störf BÍL að þessum mikilvægu málum á næstunni taka mið af því sem þar var rætt.

Hagstofan og eilífðarbaráttan um menningartölfræði
Segja má að barátta BÍL fyrir því að íslensk stjórnvöld skrái tölfræði lista og menningar með sama hætti og tölfræði annarra atvinnugreina, hefur nú staðið í a.m.k. 7 ár án mikils árangurs. Þegar fyrsta skýrsla um tölfræði menningar kom út í desember 2010 var því heitið að unnið yrði áfram á grundvelli hennar að skráningu helstu hagstærða í tengslum við skapandi greinar. Allan þennan tíma hefur BÍL þrýst á um efndir en ekki haft árangur sem erfiði. Í þessum tilraunum okkar höfum við átt samleið með miðstöðvum lista og skapandi greina, sem m.a. sitja saman í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Við höfum verði í beinu sambandi við Hagstofu Íslands, sem að okkar mati er sú stofnun sem ætti að hafa þetta hlutverk með höndum, en það eina sem Hagstofan hefur gert nýtt í þessum efnum er að hefja reglulega birtingu tölfræði yfir launþega sem starfa í skapandi greinum, sem hluta af úttekt sinni á starfaflokkun og fjölda launþega í landinu. Auðvitað er þetta gott svo langt sem það nær, en gerir satt að segja lítið gagn, þar sem alkunna er að algengasta rekstrarform þeirra sem starfa í menningu, listum og örðum skapandi atvinnugreinum er verktaka í einhverju formi. Hagstofan ber því við að hún hafi ekki fjármagn til að gera meira eins og sakir standa og þó mennta- og menningarmálaráðherra hafi reynt að segja þeim að breyta forgangsröðun sinni, þá hefur það því miður ekki skilað miklu enn sem komið er. Vonir standa þó til að aukinn þrýstingur, á að almennileg menningartölfræði líti dagsins ljós, muni á endanum skila árangri.

Höfundarréttarmál
Eitt af stóru málunum sem BÍL glímdi við á árinu voru málefni höfundarréttar og löngu tímabærar breytingar á löggjöf um höfundarrétt. Til að þrýsta á um afgreiðslu málanna tóku höfundarréttarsamtök upp samstarf og tók BÍL þátt í því. Meðal þess sem félögin lögðu krafta sína í var að halda málþing um höfundarrétt undir yfirskriftinni Lifað af listinni – skapandi samtal listamanna og þingmanna um höfundarrétt. Þau sem að málþinginu stóðu voru auk BÍL, FJÖLÍS, STEF, MYNDSTEF og IHM. Flutt voru framsöguerindi sem tengdust fjórum frumvörpum um höfundarrétt og í lokin var þingmönnum allra þingflokka á Alþingi boðið að taka þátt í umræðum um inntak framsöguerindanna. Allir þingflokkarnir sendu fulltrúa og tókst að gera málunum góð skil. Málþinginu var streymt í beinni útsendingu og er upptakan enn aðgengileg á vefnum www.netsamfelag.is

Á vorþingi 2016 voru þrjú af frumvörpunum samþykkt;

 • frumvarp um munaðarlaus verk sem gerir söfnum og opinberum stofnunum kleift að varðveita og miðla til almennings verkum sem ekki finnst höfundur að eða ekki eru lengur í höfundaréttarvernd,
 • frumvarp um lengingu verndartíma hljóðrita sem færir réttindi flytjenda og útgefanda nær réttindum höfunda með lengingu verndartíma hljóðrita í 70 ár frá útgáfudegi og tryggir um leið rétt flytjenda til greiðslu gagnvart útgefendum og auðveldar endurútgáfu hljóðrita sem ekki hafa fengist á markaði lengi,
 • frumvarp um endurskoðun tiltekinna ákvæða er varða samningskvaðir, sem fyrst og fremst eru til þess ætluð að auka aðgengi notenda eins og t.d. útvarps- og sjónvarpsstöðva að höfundaréttarvörðu efni með því að auðvelda þeim gerð heildarsamninga við rétthafa.

Fjórða frumvarpið, um eintakagerð til einkanota, kom ekki fram á vorþinginu, en það var frumvarpið sem höfundar og eigendur flutningsréttar höfðu lagt mesta áherslu á og varðaði hagsmuni þeirra mestu. Ákváðu þá rétthafasamtökin að nota sér Fund fólksins, sem haldinn var fyrstu helgina í september, til að þrýsta enn frekar á stjórnvöld, sérstaklega mennta- og menningarmálaráðherra að leggja það frumvarp fram. Um miðjan september kom það svo fram í þinginu í nokkuð öðrum búningi en vænst hafið verið því ráðherra lagði til að stofnaður væri nokkurs konar sjóður, sem fengi ákveðið framlag á fjárlögum ár hvert, og væri honum ætlað að greiða sanngjarnar bætur til höfunda miðað við hlutfall af tollverði ýmissa stafrænna upptökumiðla og -tækja sem nýta má til að gera eintök af höfundaréttarvörðu efni til einkanota. En eins og kunnugt er þá hafði gjaldstofn sá sem stóð undir þessu endurgjaldi samkvæmt eldri lagaákvæðum, úrelst með árunum vegna tæknibreytinga og á endanum bárust nær engar greiðslur til rétthafa vegna þessarar notkunar.

Frumvarpið varð að lögum 11. október, tveimur dögum fyrir þingslit. Með þessari lagasetningu fylgdu 234 milljóna króna framlag á fjárlögum 2017 sem greitt verður út til rétthafa. Í framhaldinu hefur farið af stað vinna innan IHM við að endurskilgreina hlutfallsskiptingu fjármunanna milli ólíkra rétthafa, þeirri vinnu er ekki lokið.

Varðandi áframhaldandi samstarf rétthafasamtakanna, þá voru félögin sammála um að mikilvægt væri að halda því áfram og eru uppi áform um að halda málþing um einhverja þætti höfundarréttarmála árlega í samstarfi þessara aðila.

Umsagnir um þingmál
BÍL fékk einungis þrjú mál til umsagnar frá Alþingi fyrir utan málin um höfundarrétt. Það voru þingmannamál um lýðháskóla, sem ekki var tekið til afgreiðslu í þinginu og annað um virðisaukaskatt á íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Það mál var tekið fyrir en í því var lagt til að þjónusta og vörusala íþrótta- og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi þeirra verði undanþegin virðisaukaskatti. Einnig að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna tilgreinds kostnaðar við íþróttamannvirki á árinu 2016 Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins afgreiddi það með því að senda það til ríkisstjórnarinnar, til skoðunar í starfshóp um endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld með þeim skilaboðum skoða bæri málið í víðara samhengi, t.d. hvað varðar virðisaukaskatt af bókum, tónlist og starfsemi efnisveitna. Ekki höfum við fréttir af gangi vinnunnar í starfshópnum, en rétt að við höldum vöku okkar og spyrjumst fyrir um það.

Þriðja málið sem BÍL fékk til umsagnar varðaði Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og þær viðamiklu breytingar sem verið er að gera á lífeyrissjóðakerfi landsmanna með jöfnun réttinda opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði. Umsögn BÍL studdist við viðbrögð formanna fagfélaga listamanna sem aðild eiga að BHM, en þeir hafa tekið þátt í umfjöllun málsins á þeim vettvangi og ýmist setið hjá við atkvæðagreiðslur eða látið bóka andmæli vegna vísbendinga um að breytingarnar þýði réttindaskerðingu sérstaklega fyrir nýja félaga. BÍL studddist í umsögn sinni við skýrslu Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem telur vafa leika á því að A-deild LSR hafi fjármagn til að greiða núverandi sjóðsfélögum skv. núverandi kjörum og að ekki sé tryggt að sjóðsfélagar haldi öllum réttindum sem þeir hafa átt fram að þessu. Meðan þessi vafi er uppi, geta aðildarfélög BÍL ekki mælt með að málið verði samþykkt óbreytt. Eftir langa og stranga umfjöllun í þinginu var frumvarpið samþykkt sem lög og voru ýmsir fyrirvarar við málið, m.a. þeir sem BÍL setti fram í umsögn sinni og fór á endanum svo að 14 þingmenn greiddu atkvæði gegn málinu og 8 sátu hjá.

Þá er rétt að geta þess hér að á árinu varð talsverður árangur af baráttu tónlistarmanna fyrir eflingu tónlistarinnar. Stofnaður var nýr sjóður, hljóðritasjóður, sem ætlað er að auðvelda tónlistarmönnum hljóðritun verka sinna og einnig voru sett lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

Niðurstaða starfshóps um Listahátíð í Reykjavík
Starfshópurinn hóf störf strax eftir áramótin 2016 og hittist á 10 fundum á árinu. Fulltrúar í hópnum voru Þórunn Sigurðardóttir og Margrét M. Norðdahl úr stjórn Listahátíðar, Svanhildur Konráðsdóttir sviðsstjóri hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur, Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og forseti BÍL Kolbrún Halldórdóttir. Meðal þess sem var til skoðunar í hópnum voru fjármál og framkvæmd hátíðarinnar, endurnýjun samninga við stjórnvöld (ríki og borg) en mestur þungi var á undirbúningi stefnumótunar. Hópurinn lagði til að farið yrði í stefnumótunarvinnu á grundvelli ákvörðunar um að Listahátíð yrði tvíæringur og var fjölmennur stefnumótunarfundur haldinn 3. nóvember. Niðurstöðu þeirrar vinnu er að vænta alveg á næstunni.

Listaháskóli Íslands
Samráðsfundur rektors LHÍ og stjórnar BÍL var haldinn 22. september þar sem farið var yfir stefnumótun skólans og áform um 5 ára aðgerðaáætlun á grundvelli stefnunnar, en í síðustu úttekt gæðaráðs íslenskra háskóla 2015 fékk LHÍ hæstu mögulega einkunn, sem sýnir að skólinn stendur faglega vel að vígi en það sama verður ekki sagt um fjárhagsstöðuna eða stöðuna í húsnæðismálum hans. Á yfirstandandi ári kennir skólinn 446 nemendum, sem eru tæplega 70 fleiri en kennt var 2007, en upphæðin sem fæst gegnum fjárlög til kennslunnar er hin sama á núvirði. Á tímabilinu var bætt við meistaranámsbrautum í hönnun og myndlist, listkennslu og tónlist, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að auka skilning stjórnvalda á stöðunni þá hefur framlag ríkisins ekki aukist í takt við aukið umfang námsins. Stöðugildi fastráðinna starfsmanna voru 88 um áramót og hafa ekki aukist nema um 2 síðan 2007. Launakostnaður er tæplega 70% af rekstrarkostnaði og húsnæðiskostnaður losar 20%. Ríkissjóður fjármagnar rekstrarkostnað að 78% og skólagjöld dekka 20%. Rektor telur að það orki tvímælis að listnám á háskólastigi skuli ekki standa til boða nema gegn skólagjöldum ólíkt öðru háskólanámi í landinu og beindi þeim skilaboðum til BÍL að skoða hvort slíkur aðstöðumunur háskólanema sé ásættanlegur.

Hlutfall rannsókna af heildarframlagi hins opinbera er 8,6% 2016, var 5,7% 2015, en skólinn er bundinn að lögum til að sinna rannsóknum, án þess að það starf hafi fengist viðurkennt í auknum framlögum hins opinbera. Annað virðist gilda um aðra háskóla, en hlutfall rannsókna af heildarframlagi til annarra háskóla er sem hér segir: HÍ 39,6%, HA 35,5%, Háskólinn að Hólum 36,6%, Hvanneyri 40%, HR 19,3% og Bifröst 20,5%. Vegna þessara lágu framlaga til rannsókna, þarf LHÍ að taka af öðru rekstrarfé sínu og greiða með rannsóknunum í stað þess að þær séu fjarmagnaðar af ríkinu líkt og hjá öðrum. Rekstrarstaða skólans er ekki góð og húsnæðismálin eru í ólestri sem fyrr. Þó er rétt að segja frá því að stjórnvöld sýndu vilja til að rétta fjárhaginn af að ákveðnu marki með því að framlagið til skólans á fjárlögum 2017 hækkaði um rúmar 100 milljónir eða í kr. 1.088.900.000 sem ætti að nægja til að koma rekstrinum í jafnvægi, en ekkert umfram það. Vegna nýju framsetningarinnar á fjárlögunum er ekki hægt að sjá hversu hátt hlutfall þessa framlags er ætlað til kennslu og hvað til rannsókna.

Í lok árs var skipt um fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn skólans svo forseti BÍL og Markús Þór Andrésson hafa lokið stjórnarsetu sinni. Nýjir fulltrúar ráðherra í stjórninni eru Magnús Ragnarsson og Áslaug Friðriksdóttir.

Aðrir þættir er varða listmenntun á árinu eru helst þeir að gerður var samingur við FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík um stofnun og rekstur framhaldsskóla á sviði tónlistar. Einnig voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um tónlistarnám og nýtt samkomulag var gett milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þarna hefur orðið langþráður árangur, sem BÍL fagnar og mun nú fylgja því eftir að samskonar úrbætur verði gerðar hvað varðar dansmenntun í landinu.

Ríkisútvarpið
Í október var haldinn samráðsfundur stjórnar BÍL og útvarpsstjóra Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Þar var farið yfir atriði í þjónustusamningi RÚV og ríkisins og lögð áhersla á kröfur kvikmyndagerðarmanna varðandi áform RÚV um að efla framleiðslu og sýningu leikins efnis í sjónvarpi. Útvarpsstjóri gerði grein fyrir erfiðri rekstrarstöðu stofnunarinnar og telur að ekki muni úr rætast fyrr en ríkisvaldið ákveður að taka yfir 3,2 milljarða lífeyrisskuldbindingar RÚV. Ákvörðun stjórnvalda um lækkun útvarpsgjalds úr kr 19.400.- í kr. 16.400.- kemur illa niður á stofnuninni. Gjaldið hér var fyrir lækkunina það lægsta pr. íbúa á Norðurlöndunum. Stofnunin hefur þurft að fækka starfsmönnum um 35% á síðustu 5 árum, sem hefur gert erfitt að hlífa dagskránni við niðurskurði, en þó hefur það verði í forgangi, að sögn útvarpsstjóra, að láta hann bitna sem minnst á framleiðslu leikins efnis. Þar eru menn að reyna af veikum mætti að blása til sóknar og var útvarpsstjóri bjartsýnn á að það myndi takast , t.d. nefndi hann áformaðar breytingar á umfjöllun um listir og menningu, en í bígerð er að stofna sterka menningarritstjórn til að tryggja breiða og ítarlega umfjöllun um menningarmál í miðlum RÚV, en þó þannig að gætt sé dreifingar efnis, fjölbreytni sé gætt og tryggt að skírskotað verði til ólíkra hópa listamanna og listunnenda. Þá eru uppi áform innan RÚV að efla safnastarfið og vefinn, sérstaklega m.t.t. umfjöllunar um listir og menningu. Ráðinn hefur verið sérstakur ritstjóri sem starfa mun með menningarritstjórninni. Hann heitir Davíð Kjartan Gestsson og er langt kominn með að útfæra nýja vefinn rúv.menning, sem ætlunin er að frumsýna innan skamms. Í desember sl. bauð dagskrárstjóri Rásar 1, Þröstur Helgason, stjórn BÍL til fundar við þá Davíð Kjartan, þar sem rætt var um nýja veginn og lýst vilja til samstarfs við BÍL um þróun menningarumfjöllunar í RÚV.

Fagfélög listamanna standa um þessar mundir í viðræðum við RÚV um kaup og kjör, en endurnýjun samninga við RÚV hefur gengið hægt. BÍL hefur ekki beina aðkomu að þeim þætti mála, en stjórn BÍL leggur sig fram við að finna skapandi leiðir að þeim markmiðum að listamenn, höfundar og flytjendur, fái sanngjarnar greiðslur fyrir störf sín hjá RÚV, enda hafa listamenn ævinlega litið á RÚV sem eina af mikilvæustu opinberu burðarstoðum lista og menningar í landinu.

Kínversk sendinefnd
BÍL tók 20. júní á móti opinberri sendinefnd Kínverskra listamanna á fundi í Iðnó. Þar kom m.a. fram ósk um þátttöku Íslands í listahátíð í Kína 2019, 11th China International Folk Arts Festival og var forseta BÍL boði að koma til Kína í kynningar- og undirbúningsheimsókn. Boðið hefur verið þegið, en með þeim fyrirvörum þó að takist að fjármagna ferð forseta, og vonandi heillar sendinefndar BÍL, til Kína. Áform eru uppi um að sækja um ferðastyrki til að af heimsókninni geti orðið.

Listirnar í forgang
Það er margt sem stjórn BÍL hefur rætt á árinu í tengslum við stöðu listanna í samfélaginu og eru allir sammála um að BÍL hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að styrkja stöðu þeirra og breikka umræðuna. Það er hins vegar ekki augljóst með hvaða hætti það verður best gert. Ein aðferð er að fara í spor SÍM og útvíkka herferðina sem SÍM setti af stað 2014 „Borgum myndlistarmönnum“. Hún hefur haldið áfram og þróast nokkuð þó ekki sé sýnilegur árangur af henni enn annar en kannski sá að umræðan hefur teygt sig yfir í aðrar listgreinar. Á nýafstöðnum stefnumótunar-fundi um Tónlistarborgina Reykjavík var t.d. mikil áhersla á að tónlistarmönnum sé greitt fyrir að koma fram á hátíðum sem borgin efnir til eða stendur að með einhverjum hætti.

Innan stjórnar BÍL hefur talsvert verið um það rætt með hvaða hætti best sé að nálgast umræðuna um kjaramál listamanna án þess að upphrópanir um listamannalaun leggi hana undir sig. Ein leiðin er taka þátt í opinberri umræðu um uppbyggingu „skapandi greina“ og tryggja að listirnar verði með í því mengi. Í þeim efnum þarf að efla samráð BÍL innan atvinnulífsins ekki síður en á vettvangi stjórnmálanna, eins og tillaga stjórnar BÍL að starfsáætlun 2017 ber með sér.

Einnig er ljóst að berjast þarf áfram fyrir sterkari stöðu listanna í stjórnkerfinu, sem BÍL hefur gert með því að setja fram kröfu um sjálfstætt menningarmálaráðuneyti. Til marks um veika stöðu listanna í stjórnkerfinu, jafnvel innan menningarmálaskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytis, er saga starfshóps um aðgerðir gegn málverka-fölsunum, sem nefndur var í síðustu ársskýrslu forseta BÍL. Hópurinn var settur á laggirnar haustið 2014 á grundvelli tillögu Alþingis og var ætlað að vinna tillögur gegn málverkafölsunum, sem höfðu haft veruleg neikvæð áhrif á markað með íslensk málverk. BÍL átti aðild að vinnunni, fulltrúi BÍL í hópnum er Jón B. K. Ransu myndlistarmaður. Það liðu margir mánuðir áður en hópurinn var formlega skipaður, það gerðist ekki fyrr en í febrúar 2015 og þó búið væri að skipa hann þá var hann ekki kallaður saman fyrr en í lok september 2015. Þá voru haldnir nokkrir fundir og fram á haustið 2016 þegar hópurinn skilaði af sér tillögum til ráðherra. En ráðuneytið hefur ekki enn séð ástæðu til að birta tillögurnar eða greinargerð hópsins, svo formlega hefur hann ekki enn lokið störfum…

En þrátt fyrir mótbyr á ýmsum sviðum telur stjórn BÍL ekki eftir sér að bretta upp ermar í baráttunni, og kappkostar að heyja málefnanlega og yfirvegaða baráttu fyrir málefnum listanna hvar sem því verður við komið. Ýmis jákvæð teikn eru á lofti um að slík nálgun skili á endanum góðum árangri. T.d. var óskað eftir liðsinni BÍL af hálfu Guðbrandsstofnunar, sem er samvinnuverkefni Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og þjóðkirkjunnar, þegar blásið var til tveggja daga ráðstefnu 31. mars og 1. apríl, undir yfirskriftinni „Hvernig metum við hið ómetanlega“ og var umfjöllunarefni Menningin. Þar flutti forseti BÍL fyrirlestur um sjálfbæra þróun og menningu, fjöldi listamanna tók þátt bæði með listflutningi og framlagi í formi fyrirlestra og var mál manna að þarna hafi verið byggðar brýr til aukins skilnings milli manna og málefna.

Svo má nefna árangur af starfi BÍL í þágu listmenningar í skólum, en við höfum tekið virkan þátt í uppbyggingu verkefnisins „List fyrir alla“ sem rekið er af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er ætlað að standa að og halda utan um vandaða listviðburði sem skólum um land allt býðst að kaupa inn á viðráðanlegu verði. Verkefnisstjóri er Elfa Lilja Gísladóttir og á BÍL tvo fulltrúa í samráðshópi verkefnisins, þau Hildi Steinþórsdóttur kennara hönnunar og sjónlista og Davíð Stefánsson rithöfund.

Loks er rétt að geta þess að nýr forseti lýðveldisins Guðni Th. Jóhannesson sá ástæðu til að sæma forseta BÍL riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag ásamt 12 öðrum góðborgurum, sem nánast allir fengu viðurkenninguna fyrir störf að listum og menningu.

Verkefnin framundan
Eru þau sömu og áður, stjórn BÍL hefur hug á að halda málþing undir yfirskriftinni „Heilbrigt hagkerfi skapandi greina“, í framhaldi af því sem sagt hefur verið hér um kjör listamanna og stöðu listanna í samfélaginu.

Þá hefur stjórn hugmyndir um að efla samráð vítt og breitt um samfélagið, ekki síst við stofnanir á borð við Hagstofu Íslands um tölfræði lista og skapandi greina. Slíkt samstarf gæti mögulega skilað eflt samstöðu um nauðsyn þess að greina þróun opinberra fjárveitinga til listageirans og bera hana saman við stefnumótun stjórnvalda í málaflokknum. Sömuleiðis þarf að efla möguleika íslenskra listamanna á að bera saman þátttöku hins opinbera í listum og menningu hér á landi og í helstu nágrannalöndum okkar. Þá má líka nefna áform stjórnar BÍL um virkara samráð við samtök sveitarfélaga við uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listamenn á landsbyggðinni og skilvirkara starfsumhverfi utan höfuðborgarsvæðisins.

Kynning lista og menningar á erlendri grund er líka á dagskrá stjórnar og mun í því sambandi verða fylgst vel með þróun Norrænu menningarhátíðarinnar á vegum Norrænu ráðherrannefndarinnar í London í samstarfi við South Bank Centre. Virkara samtal við ferðaþjónustuna og stjórnvöld um hlut lista og menningar í auknum straumi ferðafólks til Íslands er eitt af áherslumálunum og mikilvægi þess að listir og menning fái sess innan ferðamálastefnu landsins.

Loks er rétt að geta um mikilvægi þess að ný stefna Vísinda- og tækniráðs nái til listrannsókna. Þetta atriði var líka nefnt á þessum stað í ársskýrslu BÍL 2016, en staðan í þessum málum er ekki góð. Ný stefna Vísinda og tækniráðs 2017 – 2019 hefur nefnilega ekki enn litið dagsins ljós, en vonandi er unnið að henni af kappi í kerfinu. Það er afar mikilvægt fyrir þróun listanna að sú nýja stefn nái með skýrum hætti til rannsóknarstarfs í listum og menningu, slíkt væri viðurkenning á mikilvægi listanna í ýmsu tilliti, t.d. á akademískri stöðu listanna og á menntunarstigi listamanna. Þannig myndu stjórnvöld sýna vilja til þess að listirnar eigi að vera hluti þess samkeppnishæfa atvinnulífs um land allt sem yfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar gengur í stórum dráttum út á.