Author Archives: vefstjóri BÍL

Fundur með borgarstjóra

29. apríl síðastliðinn fór fram hinn árlegi samráðsfundur BÍL með borgarstjóranum í Reykjavík og Menningar- og ferðamálaráði. Fundurinn var, sem fyrr, haldinn í Höfða.

Megináhersla BÍL var annars vegar á danshúsi og hins vegar á kvikmyndaborginni Reykjavík.

Í upphafi tók forseti BÍL tvennt fram sem ekki var að finna á framlagðri málefnaskrá: 1) Framlög til listalífs í Reykjavík eru of lág, en vel er farið með það fé sem þó fæst. 2) Allir umræðupunktarnir sem lagðir voru fram eru atvinnuskapandi, enda eru meðlimir BÍL atvinnufólk, hvert í sinni grein.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður ráðsins, hafði góð orð um að athuga hvort þess væri kostur að borgin komi að stofnun danshúss í Reykjavík. Hugmyndin um danshús við höfnina þótti nýstárleg, en Friðriki Þór fannst hún þó varla listgreininni sæmandi og vildi metnaðarfyllri byggingu.

Um kvikmyndaborgina Reykjavík er það fyrst að segja að nú er verið að leita að stað undir það sem kvikmyndagerðarmenn vilja kalla kvikmyndaþorpið. Eftir fundinn var því stungið að atstoðarmanni borgarstjóra að Gufunes kæmi hugsanlega til greina.

Um list í almenningsrými virtust allir hafa sama áhugann.

Sama má segja um list í skólum – og raunar ekki síður. Lokið var lofsorði á framtak BÍL, Litróf listanna. Þorbjörg Helga lofaði að athuga skólasýningar í leikhúsum.

Fulltrúi arkitekta kom athugasemdum á framfæri varðandi Byggingarlistardeild Listasafnsins.

Borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, lýsti yfir undrun með hve tónlistarfólk vissi lítið um það sem til stendur í Tónlistarhúsinu. Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri, sagðist hafa sent langan fyrirspurnalista til Portus.

Gerður hefur verið samningur við Tónlistarþróunarmiðstöð, svo að það mál má segja að sé afgreitt með jákvæðum hætti.

Þorbjörg Helga lofaði að hafa samstarf við aðildarfélög BÍL um menningarstefnuna.

 

Fundur með menntamálaráðherra

Fimmtudaginn 27. mars kom stjórn BÍL til fundar við menntamálaráðherra. Þessi árlegi fundur með menntamálaráðuneytinu var að venju haldinn í Ráðherrabústaðnum.

BÍL hafði sent á undan sér 9 síðna málefnaskrá. Fyrst voru þar taldar upp ályktanir BÍL frá síðasta aðalfundi, en síðan komu þau mál sem formenn hinna ýmsu félaga vildu orða við ráðherrann.

Í svörum Þorgerðar Katrínar kom það meðal annars fram að hún hyggist taka listamannalaunin föstum tökum á árinu með lagabreytingu í huga, sem lögð verði fyrir Alþingi í haust. Hafði hún góð orð um að hafa forseta BÍL með í ráðum.

 

Kjarafélag BÍL stofnað

Á stjórnarfundi 10. mars lagði forseti fram tillögu um að stofnað yrði Kjarafélag BÍL. Því er ætlað að ganga í BHM, en umsókn um það verður tekinn fyrir á aðalfundi BHM í aprílbyrjun.Tillagan var samþykkt einróma.

Kjarafélagið mun sinna sjúkratryggingum og orlofsmálum.Boðið er upp á tvenns konar aðild: annars vegar að sjúkrasjóðnum einum, hins vegar upp á aðild að sjúkra- og orlofssjóðum.

Fyrsta stjórn Kjarafélags BÍL var kjörin á fundinum. Formaður er Björn Th. Árnason, en með honum sitja í stjórn Áslaug Thorlacius, Hjálmtýr Heiðdal, Karen María Jónsdóttir og Pétur Gunnarsson.

 

Eftir málþing BÍL með Útflutningsráði

Útflutningsráð sendi frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu:

Yfir hundrað manns mættu á “Út vil ek” málþing Útflutningsráðs og Bandalags íslenskra listamanna sem fjallaði um útrás íslenskra lista. Sýnir þessi áhugi, svo ekki verði um villst, að mikill hugur er í íslenskum listamönnum til að koma list sinni á framfæri í öðrum löndum.

Megin umræðuefni fundarins var hvernig hægt sé að gera íslenska list að útflutningsgrein sem skila myndi áþreifanlegum fjárhagslegum hagnaði. Darriann Riber ráðgjafi hjá alþjóðasviði dönsku listastofnunarinnar flutti erindi um málið og benti á hvernig málum er háttað í Danmörku. Hún vakti athygli á því að til þess að gera list að útflutningsgrein þurfi ávallt að koma til styrkir, bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum, en styrkveitingar þurfi að vera markvissar og háðar ákveðnu skipulagi. Ljóst var af máli frú Riber að danskir listamenn virðast búa við skipulagðara umhverfi þegar kemur að opinberum styrkjum og samhæfðum aðgerðum.

Í kjölfar erindisins fjallaði Einar Bárðarson tónlistarfrömuður um reynslu sína af því að fá fjárfesta til að setja peninga í listaútrásarverkefni. Hefur Einar náð að safna miklu fé fyrir verkefni sitt sem snýr að útgáfu og kynningu á Garðari Thor Cortes söngvara í Bretlandi. Þá fór Halldór Guðmundsson bókaútgefandi og rithöfundur yfir mál sem snúa að kynningu og sölu á íslenskum bókum í útlöndum, og benti hann réttilega á að íslenskar bækur séu í mikilli sókn á erlendum mörkuðum nú, en ákveðinn ládeyða ríkti í þeim efnum allt frá lokum seinna stríðs og fram á 8. og 9. áratuginn.

Kristján Björn Þórðarson myndlistarmaður flutti einnig stutta tölu um reynslu sína af rekstri gallerís og listasmiðju og um þátttöku einkaaðila í því verkefni. Nefndi hann að varla sé hægt að finna betri kynningu fyrir stórfyrirtæki heldur en að veita listalífi drjúga styrki. Þá fór Tinna Gunnlaugsdóttir yfir það helsta sem Þjóðleikhúsið mun taka sér fyrir hendur á erlendri grund og um möguleika og takmarkanir á útflutningi íslenskra leiksýninga.

Í kjölfar þessara innslaga brutust svo fram umræður meðal fundargesta um takmörk og leiðir fyrir íslenska list í hinum stóra heimi. Voru flestir sammála því að þrátt fyrir að mikið og gott starf sé unnið vanti hugsanlega upp á markmiðasetningu til lengri tíma og hnitmiðaðra og heildrænna skipulag þegar kemur að styrkveitingum og aðkomu stórra fyrirtæka.

 

Halldór Guðmundsson – Út vil ek – fundur BÍL og Útflutningsráðs

Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur talar á fundinum “Út vil ek” á vegum Bandalags íslenskra listamanna og Útflutningsráðs Íslands. Erindi hans fjallar um sölu og kynningu íslenskra bóka erlendis. Myndskeiðinu var hlaðið inn á myndröð Iceland Trade þann 15. febrúar 2008.

Aðalfundur BÍL

Ályktanir aðalfundar Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var í Iðnó við Reykjavíkurtjörn 16. febrúar 2008.

 

1. Ályktun um menningarstefnu

Aðalfundur BÍL óskar eftir því að menntamálaráðuneytið móti og gefi út menningarstefnu til fjögurra ára í senn, í samvinnu við listamenn, þar sem mörkuð er sú stefna sem tekin verður í uppbyggingu og framþróun menningar og lista á Íslandi.

 

2. Ályktun um skattprósentu á tekjur af hugverkum

Bandalag íslenskra listamanna skorar á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign, er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði og hlutabréf, og beri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.

 

3. Ályktun um starfslaun listamanna.

Enn hefur lögum um starfslaun listamanna ekki verið breytt til batnaðar. Brýnt er að þau verði endurskoðuð hið fyrsta, einkum með tilliti til þess að heildarfjöldi launanna hefur staðið í stað í heil ellefu ár. Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna krefst þess að þetta verði leiðrétt, sjóðurinn efldur til að mæta núverandi þörf og launin jafnframt bundin raunhæfri viðmiðun.

 

Dagskrá fyrir aðalfund BÍL sem haldinn var í Iðnó laugardaginn 16. febrúar 2008:

Kl. 11:00 Hefðbundin aðalfundarstörf.

Skýrsla forseta, reikningar, stjórnarkjör, skýrslur aðildarfélaga, ályktanir, önnur mál. Engar tillögur að lagabreytingum hafa borist. Minnt er á skriflegar skýrslur hvers félags, sem skulu fluttar og lagðar fram á fundinum.

Kl. 13:30               Hádegisverður

Kl. 14:00               Opið málþing um framtíðarmótun menningarstefnu. 4-5 örstutt erindi verða flutt og síðan verða panel-umræður.

Kl.16.00                Kveðjuskál

 

Í lögum BÍL stendur:

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði. Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.

 

Leikið efni í Sjónvarpinu

Ágúst Guðmundsson:

 

Það merkilegasta við samning Ríkisútvarpsins við Ólafsfell um leikið sjónvarpsefni er sá metnaður sem þar kemur fram. “Samingsaðilar eru sammála um að beita sér fyrir því að sjónvarpsefni sem framleitt er fái sem mesta og breiðasta kynningu og sölu erlendis”. Hér á ekki eingöngu að framleiða efni fyrir íslensk augu ein og sér, heldur felst í þessu hugur til útrásar.

Nú hefur Sjónvarpið ekki beinlínis verið að framleiða leikið efni í stórum stíl – sum undanfarin ár hefur Spaugstofan og Stundin okkar verið nánast eina leikna innlenda efnið þar á bæ. Árum saman hefur stofnunin sniðgengið það hlutverk sitt að vinna leikið sjónvarpsefni, en ætlar nú að taka stórt stökk til að framleiða seríur sem ætlað er að heilla fólk í öðrum löndum. Eina til tvær á ári, samkvæmt samningnum.

Gagnvart Ólafsfelli er þetta náttúrulega alls ekkert spaug. Fyrirtækið gengur vafalaust að samningnum af bjartsýni og trú á íslenska sköpunargáfu, og framlag þess er þakkarvert. Hvernig Sjónvarpið ætlar hins vegar að uppfylla samninginn fyrir þá peninga sem í boði eru, 200-300 milljónir króna yfir þriggja ára tímabil – það er stóra spurningin.

Ríkisútvarpið hefur einnig gert samstarfssamning við Menntamálaráðuneytið og lofar auk margs annars að “hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi”, ennfremur “að vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð”. Settur hefur verið á stofn sérstakur Sjónvarpssjóður þessu til fulltingis, og þar opnast auðvitað ýmsir kostir, en takmarkaðir þó Til að framleiða vandað sjónvarpsefni sem jafnast á við það sem í boði er á alþjóðlegum markaði þarf ekki lægri upphæðir en þær sem fara í íslenskar bíómyndir. Að reyna að stytta sér leið í gegnum fjárhagsáætlanirnar kemur einfaldlega niður á gæðunum.

Metnaðurinn er hins vegar af hinu góða. Það er jákvætt að Ríkisútvarpið ætli sér loksins að rétta úr kútnum og fara að sinna leiknum sjónvarpsmyndum. Það virðist hugur í mönnum, þeir ætla sér eitthvað stórt og magnað, og þá er ekki nema sjálfsagt að veita þeim stuðning og leita með þeim leiða að markmiðunum.

Eðlilegt er að líta til nágrannaþjóðanna, einkum Dana, en frammistaða þeirra hefur vakið athygli víða um lönd. Þeim hefur líka auðnast að koma upp hópi atvinnufólks á öllum sviðum kvikmyndagerðar, einkum er áberandi hve vel hefur tekist til með handrit og framleiðslu.

Sjónvarpið gæti líka lært ýmislegt af þeim sem standa að íslenskum bíómyndum, en þær hafa oft ratað út fyrir landsteinana. Tilvalið væri að byrja á víðtækri hugmyndavinnu með þeim sem mestum árangri hafa náð á því sviði. Í samningnum við Menntamálaráðuneytið er beinlínis gert ráð fyrir auknu samstarfi við sjálfstæð kvikmyndafyrirtæki.

Athyglisvert er að í þessum tilltölulega gagnorða samningi skuli sérstaklega minnst á “frumkvæði” – sem ætti raunar að vera of sjálfsagt til að nefna það. Sjónvarpið á einmitt að sýna frumkvæði. Þar á að taka til framleiðslu og sýningar þau verkefni sem fýsilegust þykja, ekki bara þau sem aðrir borga fyrir með einum eða öðrum hætti. En til þess að það takist þarf Ríkisútvarpið að seilast í eigin vasa og finna þar verulegt fjármagn í dagskrárgerðina – til viðbótar við það sem fæst annars staðar.

Einungis þannig verður staðið við báða ofangreinda samning og útkoman í samræmi við metnaðinn.

 

Birtist í Morgunblaðinu í janúar 2008

 

 

Listamannalaun

Ágúst Guðmundsson:

 

Nýlega var tilkynnt um úthlutun listamannalauna, og það gleðilega gerðist að athugasemdir þeirra sem mæla slíkum launum almennt mót voru í lágmarki. Það bendir til þess að fólk sé að gera sér grein fyrir mikilvægi þessarar fjárfestingar fyrir þjóðina. Kannski tekur það líka eftir því að upphæðirnar eru ekki háar. Um 300 milljónir nægja til að borga fyrir pakkann í heild sinni. Ríkið fær í rauninni mikið fyrir afar lítið.

Hér er ekki um styrki að ræða, heldur laun. Launin eru fyrir ákveðin verkefni sem valin eru af kostgæfni af fagfólki. Þó að hver mánaðarlaun séu ekki há – og mættu vissulega vera hærri – eru þau listamönnum afar mikilvæg. Fólk hefur getað tekið sé frí frá öðru brauðstriti og unnið að list sinni, samið tónverk, sett upp leikrit eða ritað bók, sem annars hefði ef til vill aldrei séð dagsins ljós. Það er aldrei til nægilegt fé til að mæta nema hluta af óskum umsækjenda, og mun meira er um niðurskurð og hafnanir en gleðilegar úrlausnir. Til dæmis má geta þess að innan við fimmta hver umsókn myndlistarmanna hlýtur jákvæða afgreiðslu.

Kerfið hefur samt skipt sköpum, en gæti leitt til byltingar í listalífi þjóðarinnar ef verulega væri bætt í púkkið. Það þarf reyndar ekki mikið til, kannski aðrar 300 milljónir – og yrði einföld ávísun á magnað og gróskumikið listalíf. Það er í rauninni furðulegt að enginn stjórnmálaflokkur skuli hafa gert það að stefnumáli að stórauka fjárfestingu í listamönnum. Væri það ekki einhver skynsamlegasta nýting á skattfé eyjarskeggja sem hugsast gæti og sú sem líklegust væri til að auka hróður landsins um veröldina? Sér í lagi í ljósi þess hve þessi bylting yrði í raun ódýr!

Án listamanna er tómt mál að tala um lifandi íslenska menningu. Jafnvel þeir sem gagnrýna opinbera fjárfestingu í listum eru yfirleitt drjúgir með þá staðreynd að Íslendingar eru menningarþjóð, þrátt fyrir fámennið. Ég get vel skilið þá sem vilja halda útgjöldum ríkisins í lágmarki og útiloka allan óþarfa þar, en jafnvel þeir vilja yfirleitt sjá hér auðugt lista og menningarlíf. Og þá er eins gott að gera sér grein fyrir því að slíkt verður ekki til án fjármagns. Fámennið ræður því að markaðurinn einn stendur ekki undir blómlegu listalífi.

Við segjum erlendum gestum frá því með stolti, hvar í flokki sem við erum, að hér séu leikhús og sinfóníuhljómsveit, dansflokkur, ópera og fjöldi tónleika, að ekki sé minnst á myndlistarsýningar, íslenskar kvikmyndir og útgefnar bækur. Er þá ekki komið nóg? skyldi einhver spyrja.

Svarið er nei. Of mörg góð verkefni hljóta enga fyrirgreiðslu. Þau starfslaun sem þó gefast eru bæði lág og endast örsjaldan út allt vinnuferlið. Aukið fjármagn í listirnar er ennfremur það sem helst tryggir aukin gæði og raunar það eina sem gefur innlendum listamönnum færi á að veita erlendum kollegum samkeppni. Sú samkeppni er raunveruleg í heimi þar sem samskipti þjóða hafa stórum aukist og ýmis óþörf huglæg landamæri hafa gufað upp. Íslensk leikrit mega ekki vera síðri en sýningar á erlendum verkum, skáldsögum er ætlað að keppa við erlend skáldrit, ekki bara hérlendis, heldur einnig erlendis þar sem útgáfur á þýddum íslenskum bókum hafa margfaldast, sinfónían gefur út hljómdiska sem dæmdir eru í erlendum tímaritum, íslensk myndlist er löngu orðinn alþjóðleg o.s.frv.

Bæði hjá ríki og borg hefur nú verið úrskurðað að framþróun og útrás í orkumálum skuli á hendi opinberra aðila. Þetta hafa allir sammælst um, þar á meðal þeir sem helst mæla fyrir einkaframtakinu. Sama þarf að gerast í orkumálum menningarinnar. Hugarorkan bíður þess að aukið fjármagn kyndi undir framþróun og útrás. Hráefnið er nóg og bíður þess eins að einhver bori eftir því.

300 milljónir mundu leiða til byltingar. Hvar er stjórnmálaflokkur sem er reiðubúinn til að viðurkenna það?

 

Útrás listanna

Útflutningsráð Íslands í samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna stóð fimmtudaginn, 14. febrúar, fyrir fundi undir yfirskriftinni „Út vil ek – er íslensk list í útrás?”. Meðal þeirra málefna sem tekin voru fyrir á fundinum var möguleikinn á því að stefna viðskipta- og listalífi betur saman til að mynda hagstæð útrásartækifæri, enda er það skoðun fróðra manna að hvorugt geti án annars verið. Málþingið stóð frá kl. 15-17.

Framsögumaður á fundinum var frú Darriann Riber sem er ráðgjafi á alþjóðasviði listastofnunar danska ríkisins, en svið hennar vinnur markvisst að því að koma danskri list á framfæri í öðrum löndum. Sjá nánar um starfsemina á www.kunst.dk .

Þá fluttu einnig stutt erindi Einar Bárðarson tónlistarfrömuður, Tinna Gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjóri, Kristján Björn Þórðarson myndlistarmaður, Halldór Guðmundsson bókaútgefandi og rithöfundur ásamt fulltrúa frá viðskiptalífinu. Að erindum loknum voru pallborðsumræður.

Fundurinn fór fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 6. hæð. Að fundi loknum var boðið upp á léttar veitingar. Fundarstjóri var Jón Karl Helgason, en einnig talaði Bergur Ebbi Benediktsson verkefnisstjóri hjá Útflutningsráði.

 

Ein stærsta láglaunastéttin

Ágúst Guðmundsson:

 

Í allri umræðunni um láglaunastéttir hefur aldrei verið minnst á eina mjög fjölmenna stétt sem vissulega getur ekki talist á háum launum: listamenn þjóðarinnar. Ástæða þess að svo fátt heyrist um launamál frá þessum annars fjölmenna hópi er líklega sú að kjarabarátta þeirra verður ekki háð með sama hætti og gengur og gerist um almennt launafólk. Hér á ég einkum við einyrkjana, þá sem stunda listsköpun að mestu sjálfstætt og án afskipta vinnuveitenda: myndlistarmenn, rithöfunda og tónskáld.

Þessir þrír hópar hafa sérstaka launasjóði á vegum ríkisins, en fjórði sjóðurinn, Listasjóður, er síðan fyrir alla aðra listamenn. Þetta kerfi hefur verið við lýði frá 1991, en var síðast haggað árið 1996. Til úthlutunar eru 1200 mánaðarlaun árlega og miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands. Nú er svo komið að allir vilja endurskoða lög um starfslaun listamanna, og þar eru stjórnarflokkarnir engin undantekning. Lögunum verður því örugglega breytt innan tíðar og mun meira fé veitt í málaflokkinn.

Það hefur nefnilega gefist vel að veita listamönnum starfslaun. Þetta er fjárfesting sem borgar sig. Innan stjórnkerfisins lítur enginn á þetta sem virðingarvott einan við vel metna listamenn, jafnvel ekki heldur sem réttlætismál gagnvart þeim sem helst halda uppi lifandi þjóðmenningu hér. Þetta telst einfaldlega sjálfsagt framlag til starfsemi sem þjóðfélagið í heild nýtur góðs af.

Til þess liggja tvær ástæður. Í fyrsta lagi hefur það komið fram að listir og menning er vaxandi hluti af hagkerfi þjóðarinnar, Á Íslandi er framlag mennningar til vergrar landsframleiðslu 4%, svo vitnað sé í grein eftir Ágúst Einarsson frá árinu 2005. Hann skrifaði ennfremur bók um hagræn áhrif tónlistar og kom mörgum á óvart með niðurstöðum sínum, sem tónlistarfólk hefur síðan verið að sanna með margvíslegum sigrum sínum. Einnig má minna á skýrslu Aflvaka um kvikmyndagerð í landinu, sem varð til þess að Iðnaðarráðuneytið hóf að greiða fyrirtækjum til baka 12% af því fé sem varið er í kvikmyndaverkefni á Íslandi. Svo vel hefur það tekist að á síðasta ári var endurgreiðslan hækkuð upp í 14%. Það hefði ekki gerst ef ráðuneytið væri ekki sannfært um að þessi starfsemi borgaði sig og vel það.

Þetta er hagræna ástæðan. Hin ástæðan snýr að ímynd Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Við viljum vera menningarþjóð. Við viljum geta státað af líflegu listalífi, blómlegri bókaútgáfu, leikhúsum, dansi og óperuflutningi, að ógleymdum myndlistarsýningunum og tónleikunum. Við viljum að gerðar séu íslenskar bíómyndir og við fylgjumst spennt með framgangi þeirra hérlendis og ekki síður á erlendri grund.

Mörg þeirra íslensku listaverka sem vekja athygli erlendis hafa hlotið einhvern opinberan stuðning. Sum þeirra hefðu ekki orðið til ef ekki væri til staðar kerfi til að umbuna listamönnum að einhverju leyti fyrir vinnu sína. Sú umbun er sjaldnast há í krónum talið, en nægir samt furðu oft til að blása lífi í viðkomandi verk. Í þessu felst ágæti starfslaunanna – frá sjónarhóli almennings. Ríkið fær svo fjarska mikið fyrir svo fjarska lítið.

Í fyrra var gerður skurkur í opinberum stuðningi við kvikmyndagerðina í landinu. Í gangi er áætlun sem gerir ráð fyrir stigvaxandi fjárfestingu ríkisins á því sviði. Það var vel að þessu staðið og raunar afar spennandi að sjá hver útkoman verður. Framlag til Sjónvarpsins hefur nú kallað á sömu upphæð úr einkageiranum, og ef þetta samanlagt leiðir ekki til byltingar í leiknu sjónvarpsefni, er ég illa svikinn – og raunar listamenn allir.

Nú er rétt að taka starfslaun listamanna sömu tökum. Á því græða allir, fyrir nú utan þá nauðsyn sem það er fyrir þjóðarstoltið – eða öllu heldur: fyrir sjálfsmynd okkar sem þjóðar.

Og sú sjálfsmynd skiptir ekki litlu mál.

 

(Birtist í Morgunblaðinu í nóvember 2007)

 

Page 36 of 40« First...102030...3435363738...Last »