Norrænu listamannasamtökin hafa með sér óformlegt samstarf og boðuðu sænsku samtökunum KLYS til samráðsfundar í Stokkhólmi fimmtudaginn 16. september sl. Fer hér á eftir frásögn af fundinum:

Mættir voru fulltrúar allra Norrænu þjóðanna í samstarfinu nema Norðmanna, en regnhlífarsamtök Norðmanna hafa verið lögð niður og því nokkrum erfiðleikum háð að fá norska þátttöku. Þau sem sátu fundinn voru: Anna Söderbäck formaður KLYS og starfsmenn KLYS þær Ulrica Källén og Carina Heurlin. Formaður Dansk Kunstnerråd Franz Ernst og starfsmaður DK Elisabet Diedrichs. Formaður færeysku samtakanna LISA Oddfríður Rasmusen. Talsmaður finnska rithöfundasambandsins Christian Brandt og framkvæmdastjóri samísku listamannasamtakanna Brita Kåven.

Fundurinn hófst á kynningu einstakra fundarmanna og frásögnum af þeim málum sem efst eru á baugi hvers lands. Aðstæður landanna eru almennt nokkuð líkar en afstaða í einstökum málum er þó ekki alltaf hin sama. T.d. eru talsverðar deilur um höfundarréttarmál í Svíþjóð bæði innan listamannasamtakanna en ekki síður meðal þjóðarinnar. Þar í landi hefur verið stofnaður sérstakur stjórnmálaflokkur sem berst fyrir gjaldfrjálsu niðurhali alls efnis sem finna má á netinu „Piratpartiet“ og nýtur hann talsverðs stuðnings í samfélaginu. Innan KLYS starfar starfshópur sem vinnur með afstöðuna til höfundarréttarmála og kannar leiðir til að uppfræða þjóðina um nauðsyn rétthafagreiðslna. Annars eru höfundarréttarmálin í höndum sérfróðra lögmanna höfundarréttarsamtakanna og mikil umræða um aðsteðjandi ógnir. Frá Færeyjum er það helst að frétta að listamannasamtökin LISA hafa mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði stjórnvalda til heiðurslauna listamanna, einnig vinna færeyskir listamenn að undirbúningi stofnunar „listráðs“ að danskri fyrirmynd. Mikið var fjallað um afstöðu Nordisk Ministerråd til menningargeirans og gagnrýnt hversu miklir fjármunir færu í óskilgreind verkefni undir hatti „hnattvæðingar“ á kostnað Norrænna menningarverkefna. Allar þjóðirnar virðast hafa sömu sögu að segja varðandi skort á samráði yfirstjórnar menningarmála. Þar er ýmist kvartað undan áhugaleysi menningarmálaráðherranna sjálfra eða embættismanna. Harðar gagnrýnisraddir eru uppi vegna breytinga á verkefnum Kultur Kontakt Nord og menn sammála um að þar hafi verið haldið inn á ranga braut áður en reynsla var komin á kjarna verkefnisins sem innleitt var 2006. Loks var harðlega gagnrýnt að stjórnmálamenn og embættismenn skuli hittast reglulega á samkomum sem þeir kalla „kulturforum“ án þess að listamenn fái tækifæri til að fylgjast þar með umræðum eða leggja nokkuð til mála. Ein slík samkoma var haldin í Kaupmannahöfn sama dag og forysta listamannasamtakanna fundaði í Stokkhólmi. Ákveðið var að gera uppkast að erindi sem farið yrði með á fund Norrænna menningarmálaráðherra og samstarfsráðherra þegar þeir hittast í Reykjavík 2. – 4. nóvember á þingi Norðurlandaráðs.

Nokkur umræða varð um Norrænu listamannaíbúðirnar í Róm og sammæltust menn um að standa vörð um áframhaldandi starfsemi þeirra og fjármögnun í gegnum NMR (Nordisk Ministerråd), enda rennir nýleg úttekt á starfseminni stoðum undir þau sjónarmið. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að Norræna stofnunin í Róm lifði áfram, fyrir því væru söguleg rök en það væri líka í samræmi við vilja manna til að verja menningarlegan fjölbreytileika og viðhalda honum. Nýlega var framlengdur ráðningartími forstöðumanns stofnunarinnar og rennur ráðningin út í lok árs 2011.

Stefna ESB í málefnum menningar og lista var nokkuð rædd. Svokölluð „Gallo-skýrsla“ um höfundarréttarmál:

Málið er nokkuð flókið en þeir sem vilja kynna sér það í þaula geta gert það á hjál. slóð:

Report: Marielle Gallo (A7-0175/2010)

Report on the enforcement of intellectual property rights in the internal market

[COM(2009)0467 – 2009/2178(INI)] Committee on Legal Affairs

Þá gaf Elisabeth Diedricks skýrslu um starf ECA – European Council of Artists. Hún sagði fjárhagsstöðu samtakanna erfiða og nú væri svo komið að Danir gætu ekki haldið áfram sínum stuðningi sem hefur gert Dansk Kunstrerråd kleift að hýsa skrifstofu samtakanna. Í ljósi þess hefur verið ákveðið að skrifstofan flytji til Madridar, en núverandi formaður samtakanna er Spánverji og hefur samtökum listamanna á Spáni (spænska BÍL) tekist að tryggja rekstrarfé fyrir skrifstofuna til næstu ára. Elisabeth sagði rekstur samtakanna þó verða í járnum á meðan ekki væru hækkuð meðlimagjöldin, en mikil tregða hefur verið til slíkra hækkana. Á aðalfundi ECA í Zagreb fer fram stjórnarkjör og töldu fundarmenn mjög mikilvægt að bjóða fram sterkan Norrænan kandidat til stjórnarsetu.

Þá var tekin upp umræða um yfirlýsingu UNESCO um menningarlegan fjölbreytileika. Nú eru ýmis aðildarlönd að senda frá sér skýrslur um innleiðingu ákvæða yfirlýsingarinnar. Dæmi um það er þýska skýrslan „Shaping Cultural Diversity“ sem út kom í sumar og hefur verið kynnt formönnum aðildarfélaga BÍL.

Undir dagskrárliðnum „önnur mál“ var rætt um það hvort setja ætti samstarf Norrænu listamannasamtakanna í formlegri farveg en það væri í nú. Fundarmenn voru sammála um ágæti þess að hafa samráðið og samstarfið „dynamiskt“ og því væri ekki þörf á að formgera það frekar. Rætt var um hugmyndir að næsta fundi og kom uppástunga um að hann yrði haldinn í Kaupmannahöfn 2011 í tengslum við Norðurlandaráðsþingið sem haldið verður þar. Einnig komu upp hugmyndir um að samtökin leggðu drög að Norrænu málþingi um málefni listanna að tveimur árum liðnum og bauðst Christian Brandt til að kanna möguleika á að halda málþing í tengslum við „Hönnunardaga í Helsingfors 2012“. Það gæti gert okkur auðveldara fyrir að sækja um fjárstuðning ef við tengdum okkur við slíkan stórviðburð. Um leið varaði Christian við þeirri markaðsvæðingu sem stjórnmálamenn virðast nú sameinast um að reka gagnvart listunum með því að vera hættir að tala um listirnar öðruvísi en undir samheitinu „skapandi greinar“….

Að endingu voru allir viðstaddir hvattir til að senda ákall gegnum öll aðildarfélög sín til Norðmanna um að endurvekja sín regnhlífarsamtök, því það væri nauðsynlegt að hafa allar Norðurlandaþjóðirnar þátttakendur í þessu óformlega samstarfi. Hér með er þeirri hvatningu komið á framfæri við formenn aðildarfélaga BÍL að þeir hvetji norska kollega sína til að hugleiða hvort ekki sé tímabært að endurreisa norsku listamannasamtökin.

Fundurinn stóð í fimm klukkutíma og honum lauk með því að Svíarnir leystu viðstadda út með gjöfum. Var okkur afhent þykk og mikil skýrsla „Kultur Sverige 2009“ sem hefur að geyma nákvæma kortlagningu sænskrar menningar ásamt fjölda athyglisverðra greina um einstaka þætti sænskrar menningar. Einnig fengum við nýútkomna bók „Möteplatser, kulturskapare, entreprenör, demokrati“ með undirtitlinum „at vara eller vara en vara – visioner om en annan kulturpolitik“ Bækurnar eru til útláns hjá forseta J Þá var fundi sem sagt slitið með heitstrengingum um að allir ætluðu að vera duglegir að hafa samband… Lýkur hér með frásögn þessari.

 

Kolbrún Halldórsdóttir

forseti BÍL