Hugarflugsfundur Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var í sal FÍH við Rauðagerði í dag, tókst vel. Yfir 100 listamenn úr aðildarfélögum BÍL sátu fundinn og skeggræddu um listina og samfélagið. Fundarmenn unnu á 11 borðum og fylgdu fyrirmælum stjórnanda fundarins; Lárusar Ýmis Óskarssonar. Í fundarlok lögðu fundarmenn á hverju borði fyrir sig fram stutta setningu sem ætlað var að lýsa vinnunni á viðkomandi borði. Hér fer á eftir nokkurs konar „þykkni“ úr umræðunni:

 • Samstöðu listgreinanna þarf til að auka þekkingu á verðmæti listanna, til uppbyggingar og framþróunar á þroskuðu og skapandi samfélagi.
 • Listin leggur gríðarmikil verðmæti til samfélagsins, bæði efnisleg og menningarleg og felur í sér rannsókn og gagnrýnin viðhorf sem brýnt er að skili sér sem víðast, ekki síst í menntastarf á öllum stigum; listamenn eiga að bera höfuðið hátt.
 • Listin auðgar samfélagið:
 • -andlega: virkjar drauma, hreyfir og kveikir í okkur
 • -gagnrýni: notum fortíðina sem eldsneyti, nútímann til skilgreiningarviðmiða, svo framtíðin auðgist
 • -menntun: listlæsi er forsenda sjálfstæðrar og frjálsrar hugsunar, við getum kennt hana.
 • Listin eykur umburðarlyndi og víðsýni í samfélaginu – heimspeki, rökræður, listsköpun og listrýni eru grundvallarþættir í menntakerfinu allt frá leikskólaaldri, aðstaða til listsköpunar er aðgengileg öllum og fjölmiðlar sinna sínu hlutverki með vandaðri umfjöllun um listir.
 • Samfélagið verður að sjá til þess að list þrífist til að þrífast sjálft./ Listamenn eru áðnamaðkar samfélagsins. Það sem þeir geta gert fyrir samfélagið er að láta það aldrei í friði – það sem samfélagið getur gert fyrir þá er að gera þeim það kleift og hindra þá ekki.
 • Listmenntun eflir gagnrýna hugsun. Listir spegla samfélagið, skapa tækifæri til umbóta og endurskoðunar gilda. Listir eru sjálfskoðun sem er forsenda fyrir þroska.
 • Hlutverk listanna: Gagnrýni og þjónusta. Listin getur bent á , gagnrýnt, huggað, glatt og refsað. Hún getur hjálpað sjúku samfélagi að ná bata, verið afvötnunar- og meðferðarstöð. Hlutverk listanna er að setja spurningarmerki við ráðandi orðræðu , valdastrúktúr og ríkjandi viðmið, setja í nýtt samhengi og jafnvel búa það til.
 • Hlutverk lista innan samfélagsins er að spegla og miðla gildum á gagnrýninn, gegnsæjan og fræðandi hátt – svo tryggja megi upplýsta ákvarðanatöku og listræna víðsýni í hvívetna.
 • Sögulegt tækifæri verði nýtt til að hið skapandi afl listanna verði lagt til grundvallar í endurskipulögðu skólakerfi Íslands á öllum stigum og að listamenn, jafnt sem einstaklingar og bandalag verði atkvæðameira hreyfiafl í nýjum samfélagssáttmála.
 • Listin er fyrir samfélagið og með því að tileinka sér vinnubrögð listanna/listamanna í gegnum menntun og uppeldi aukum við lífsgæði á öllum sviðum.
 • Listamenn eru nauðsynlegir samfélaginu vegna næmni og gagnrýninnar sýnar. Þeir þurfa að eiga þátt í ákvarðanatöku þess. Listin er spegill á samfélag og hamar til aðgerða. Aðgengi að listum er mannréttindi.