Bandalag íslenskra listamanna hefur ævinlega látið sig málefni Ríkisútvarpsins miklu skipta, enda er stofnunin mikilvægur vettvangur fyrir listamenn og verk þeirra. Stjórn BÍL ákvað að leita til stjórnar RÚV ohf með áhyggjur sínar af stofnuninni. Stjórnirnar hittust þ. 14. okt. sl. og báru saman bækur sínar. Á fundinum var lagt fram eftirfarandi minnisblað:

 

Stjórn BÍL lítur svo á

-að báðir aðilar (BÍL og RÚV ohf) telji RÚV ohf eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og að það sé sameiginlegt hagsmunamál beggja aðila að RÚV ohf geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu af metnaði.

 

Stjórn BÍL hefur af því áhyggjur

– að ekki skuli staðið við þjónustusamning menntamálaráðuneytis og RÚV ohf. en gerir sér jafnframt grein fyrir því að ekki er einungis við RÚV ohf að sakast í þeim efnum

– hversu erfiðlega gengur að eiga málefnanleg samskipti við stjórnendur RÚV ohf – útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra RÚV ohf

– hversu ógagnsær ársreikningur RÚV ohf er og hversu erfitt er að afla upplýsinga um raunverulegan kostnað RÚV ohf af einstökum þáttum starfseminnar

– hversu lítið er framleitt af leiknu sjónvarpsefni og hversu treglega sjálfstæðum framleiðendum gengur að koma efni sínu á framfæri við RÚV ohf

– hversu erfitt er að fá RÚV ohf til að greiða eðlilegt endurgjald fyrir íslenskar kvikmyndir, -oft einungis 2 – 3% af framleiðslukostnaði

– hversu mikil brögð eru að því að starfsmenn RÚV ohf framleiði efni innan stofnunarinnar en í nafni eigin fyrirtækja, svo efnið telst í bókhaldi vera framleitt af sjálfstæðum framleiðendum. Þetta er sérstaklega ámælisvert þar sem RÚV ohf hefur skuldbundið sig til að kaupa tiltekið magn dagskrárefnis af sjálfstæðum framleiðendum

– hversu lokað safn RÚV ohf er, hversu umsýslu, skráningu og miðlun efnisins er ábótavant og hvernig verðlagningu efnisins er háttað

– hversu úreltur tækjabúnaður stofnunarinnar er, sem kemur í veg fyrir að framleiðslan geti staðið undir kröfum um gæði efnisins

– hversu mikið vantar upp á að hægt sé að bera RÚV ohf saman við stofnanir nágrannalandanna, t.d. Danmarks Radio og BBC

– hversu mikill samdráttur hefur orðið í framleiðslu útvarpsleikhússins á síðustu árum

– hversu lítið notuð „gullkistan“ svokallaða er, sem leikarar færðu stofnuninni af talsverðum rausnarskap til að losa um áralanga tregðu við að flytja innlent efni

—————————–

Á fundinum kom fram að stjórn RÚV ohf væri sammála ýmsum atriðum í minnisblaði stjórnar BÍL. Stjórnirnar eru t.d. sammála um að RÚV ohf sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og að það sé sameiginlegt hagsmunamál beggja aðila að RÚV ohf geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu af metnaði. Á fundinum komu í ljós áhyggjur stjórnar RÚV ohf af því að stjórnarmenn hefðu ekki alltaf nauðsynlegar forsendur til að rýna í og gera athugasemdir við ársreikninga stofnunarinnar. Einnig komu fram efasemdir um að stjórn væru látnar í té nægar upplýsingar frá forráðamönnum RÚV ohf til að framfylgja lögbundinni skyldu sinni. Fundinum lauk á því að stjórnirnar ákváðu að halda sambandi sín í milli, skiptast á upplýsingum og sameina kraftana með það m.a. að markmiði að RÚV ohf fáið staðið undir metnaðarfullri framleiðslu á innlendu menningarefni svo sem lög gera ráð fyrir.