Alþjóðlegi dansdagurinn verður haldinn hátíðlegur í dag og mun listdanssamfélagið halda upp á daginn um allt land m.a. með nýrri danssmíðakeppni KORUS sem haldin verður í Loftkastalanum í kvöld. Markmið Alþjóðlega dansdagsins er að yfirstíga allar pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir og að færa fólk nær hvert öðru, í friði og vináttu með sameiginlegu tungumáli – Dansinum. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um heim allan með fjölbreyttum hætti en til hans var stofnað árið 1928 af Alþjóðlegu dansnefnd ITI/UNESCO. Dagsetningin er til minningar um fæðingardag frakkans Jean-Georges Noverre, sem fæddist árið 1727 og var mikill dansumbótasinni. Á hverju ári er ávarp velþekktra aðila innan dansheimsins sent um heimsbyggðina. Eftirfarandi skilaboð dansdagsins í ár eru samin af Julio Bocca:

 

Danslistin er vinna, menntun og samtal.

Með henni spörum við okkur orð sem aðrir myndu ef til vill ekki skilja. Við sköpum sameiginlegt tungumál til handa öllum.

Danslistin veitir okkur ánægju, hún gerir okkur frjáls og veitir okkur mannfólkinu huggun, okkur sem ekki getum flogið eins og fuglarnir, frjáls um himinhvolfið, út í hið óendanlega.

Danslistin er himnesk, í hvert sinn öðruvísi en áður – eins og ástarlot – þar sem hjartað hamast í brjóstinu í lok hverrar sýningar af tilhlökkun fyrir næsta endurfundi.

 

Vakin er athygli á að á heimasíðu alþjóðlegu leikhúsmálastofnunarinnar www.iti-worldwide.org má sjá birtingu ávarpsins á fjölmörgum tungumálum.