22. apríl 2010.

Ragnar Bragason, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra birti opið bréf til mennta – og menningarmálaráðherra í Fréttablaðinu í dag:

Við síðustu fjárlagagerð voru gerð mistök þegar framlög ríkisins til kvikmyndagerðar voru skorin niður úr öllu valdi. Niðurskurðurinn nam 35% miðað við fyrra samkomulag. Þar var gert ráð fyrir að framlög ríkisins til kvikmyndasjóða yrðu 700 milljónir á þessu ári en eru nú aðeins 450 milljónir. Sá niðurskurður sem við horfum upp á færi með hvaða starfsgrein sem er í gröfina.

Eins og þú hefur sagt þá voru síðustu fjárlög unnin í miklum flýti og ekki var tekið mið af menningarlegum né flóknum efnahagslegum rökum; „þetta var exel niðurskurður“. Á síðustu misserum höfum við horft upp á íslensk stjórnvöld gera sig sek um slæmar ákvarðanir, byggðar á vanþekkingu og grandvaraleysi. Stjórnmálamenn eru mjög tregir að viðurkenna mistök sín og leiðrétta.

Rétt er að árétta að heildarframlög til kvikmyndagerðar eru á engan hátt óhófleg – þvert á móti eru þau allt of lág. Þau eru sem dæmi bara brot af því sem hið opinbera leggur til leikhússtarfssemi í landinu. Aðrar menningargreinar hafa flestar fengið verðbætur, sem ekki á við um kvikmyndagerðina, og er niðurskurður á flestum þeim bæjum vel innan við þann 10% flata niðurskurð sem boðaður var við síðustu fjárlög. Hér er um augljósa mismunun að ræða.

 

Menningarlegt mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar

Við horfum upp á hnignun íslenskrar menningar og við því þarf að sporna. Skynjun og tilfinningar hafa orðið undir praktík og peningum hin síðari ár. Það er eitt að vera gjaldþrota efnahagslega en enn alvarlegra er að verða gjaldþrota menningarlega. Kvikmyndir og sjónvarpsefni er stór hluti af menningararfi þjóðarinnar og samtímasögu og fátt hefur meiri áhrif á þankagang og heimsýn fólks. Að halda úti öflugri kvikmyndagerð er sérstaklega mikilvægt fámennri þjóð með sitt eigið tungumál. Aðrar þjóðir hafa fyrir margt löngu áttað sig á þessu en við virðumst standa aftar þar eins og í svo mörgu.

Hvernig speglum við okkur, hvar og hvernig mótast okkar heimssýn og sjálfsmynd? Upp við hvaða upplýsingar alast börnin okkar? Við erum undir sterkri menningarlegri innrás frá Bandaríkjunum og mótstaða okkar er takmörkuð sökum fámennis. Málsvæði okkar er lítið og menning okkar og tunga sérlega viðkvæm og því þarf að vinna skipulega og af krafti á móti neikvæðum utanaðkomandi áhrifum.

Það er langt síðan íslensk kvikmyndagerð sleit barnsskónum og varð þekkingarbundinn listiðnaður, sambærilegur á við það besta sem gerist erlendis. Það virðist ekki vera meðvitund og skilningur á þessu hjá íslenskum stjórnvöldum, þar erum við bundin af gömlum skilgreiningum og úreltum viðmiðum. Fólk þarf að gera sér grein fyrir að kvikmyndir eru í dag jafnmikilvægur þáttur í menningu þjóðarinnar og bókmenntirnar voru fyrir 50 árum. Við lifum í heimi sem er að breytast. Sífellt meiri áhersla er á sjónrænar framsetningar og myndmiðla og ný tækni ryður sér til rúms, ekki síst í listum og menningu.

Ég vil meina að Kvikmyndamiðstöð Íslands sé í dag mikilvægasta menningarstofnun landsins, bæði út frá efnahagslegum og þjóðmenningarlegum forsendum. Kvikmyndagerð er menning alþýðunnar. Hún er sú listgrein sem nær til flestra, þjóðarleikhús sem nær til allra landsmanna í gegnum kvikmyndahús, sjónvarp, mynddiska og internet. Kvikmyndagerð er þannig lang hagkvæmasta menning sem ríkið getur fjárfest í miðað við til hversu margra hún nær.

Íslensk kvikmyndagerð er einnig mikilvægasta tækið til landkynningar á erlendri grundu. Hún ferðast víða um heim og kemur fyrir sjónir tug milljóna manna. Rannsóknir hafa leitt að því líkum að minnsta kosti 10% erlendra ferðamanna komi hingað vegna íslenskra kvikmynda. Heildarvelta af erlendum ferðamönnum sem komu hingað til lands í fyrra var 155 milljarðar. Af því má áætla að 15 milljarðar séu bein afleiðing af fjárfestingu ríkisins í íslenskri kvikmyndagerð.

 

Fjárfesting sem skilar sér margfalt

Í fjárlagagerð er nauðsynlegt að stjórnvöld greini á milli þess sem engu skilar og því sem skapar allri þjóðinni arð í efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Íslensk kvikmyndagerð er ekki aðeins atvinnuskapandi heldur líka arðbær og skapar ríkissjóði tekjur. Framlög ríkisins til kvikmyndagerðar er ekki áhættusöm langtímafjárfesting heldur fimmfaldar kvikmyndagerðin framlag hin opinbera með annari fjármögnun og greiðir að fullu til baka á framleiðslutíma verkanna. Í framhaldi margfaldar hver króna sig að minnsta kosti tuttugufalt sé allt tekið með í reikninginn. Þjóðin verður af gríðarlegum tekjum við þennan mikla niðurskurð og því er þessi ákvörðun stjórnvalda illskiljanleg. Hér er einfaldlega verið að henda krónum fyrir aura.

Það er hagsmunamál fyrir mig, sem vil starfa á Íslandi sem kvikmyndaleikstjóri, að þessi óhóflegi niðurskurður verði leiðréttur og fjárfesting ríkisins aukin til muna í framtíðinni. Það er einnig hagsmunamál fyrir þá hundruði Íslendinga sem starfa við kvikmyndagerð og fyrir íslensku þjóðina alla, bæði í menningarlegu og efnahagslegu tilliti. Þessi niðurskurður er ekki til þess fallinn að hjálpa þjóðinni út úr kreppunni. Ef fram sem horfir mun þetta leiða til tæplega fimm milljarða króna samdráttar í íslenskri kvikmyndagerð á næstu fjórum árum. Hundruð starfa munu glatast. Við horfum upp á atgerfisflótta úr greininni og dýrmæt reynsla fer í súginn.

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn skilja vel að niðurskurðar var þörf við. En við skiljum ekki hversvegna kvikmyndagerð er tekin sérstaklega fyrir og slátrað umfram aðrar greinar. Hvernig er stjórnvöldum stætt á því að skera svo svívirðilega niður í grein sem skapar þjóðinni svo gríðarlegar tekjur og hefur svo mikið menningarlegt gildi? Ég skora á þig, Katrín Jakobsdóttir, ráðherra Menningarmála, að beita þér fyrir því að sanngjörn leiðrétting verði gerð á þessum mistökum í næstu fjárlögum sem nú eru í fullri vinnslu.