Ásbjörn Óttarsson 1. þingmaður norð-vesturkjördæmis hefur þegið boð stjórnar BÍL um að koma til fundar við fulltrúa stjórnarinnar í dag í Iðnó kl. 12:15. Það er ekki vanþörf á að uppfræða þjóðkjörna fulltrúa um störf og stöðu listamanna.

Ummæli Ásbjörns í umræðum um fjárlög voru eftirfarandi:

Síðan en ekki síst það sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi með tónlistarhúsið, sem er mér mjög lítið að skapi og ég nánast þoli ekki. Auðvitað átti að hætta að byggja tónlistarhúsið og láta það standa sem minnisvarða um þetta rugl sem var hér í gangi (Gripið fram í.) Þetta er algjört rugl. Síðast en ekki síst eitt sem ég gleymdi að koma inn á. Listamannalaun eru hækkuð um 35 milljónir. Af hverju geta þessir listamenn ekki farið að vinna (Forseti hringir.) og komið sér bara í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk?

Meðal þess sem lagt verður fram á fundinum er talnaefni um aðrsemi lista og menningar, enda sjálfsagt skoða hagrænan þátt listageirans í samhengi við aðra þætti sem bera uppi samfélag okkar. Sameiginlegir sjóðir skattborgaranna eru notaðir til að halda uppi atvinnustigi þjóðarinnar með þvi að skapa störf í ýmsum atvinnugreinum. Það gildir um störf í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, stjórnsýslunni, vegagerð, stóriðju og listum. Þessi störf eru misjafnlega dýr og þau skila sér misvel til baka til samfélagsins. Störf í listum og menningu kosta samfélagið lítið en þau skila miklu til baka. Sem dæmi má nefna að hver króna sem hið opinbera leggur í kvikmyndagerð skilar sér til baka í formi skatta og annars virðisauka. Þá sýna nýlegar norskar rannsóknir að hvert starf í menningargeiranum skili frá 10 til 26 afleiddum störfum í verslun og þjónustu. Ef bílaiðnaður er skoðaður til samanburðar þá eru afleiddu störfin einungis 6 talsins.

Á fundinum verða kynntar fyrstu tölur úr opinberu verkefni sem unnið er að og ætlað er að kortleggja hlut lista og skapandi greina í hagkerfinu. Þar kemur fram að sjávarútvegurinn velti um 114 milljörðum á ársgrundvelli en menningargeirinn 81 milljarði. Stjórn BÍL vonar að fundur hennar með Ásbirni Óttarssyni verði til þess að slá á þá fordóma og fákunnáttu sem lesa mátti úr ummælum þingmannsins í vikunni. Sameiginlegt verkefni okkar hlýtur að vera að standa vörð um blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf.