Í morgun áttu fulltrúar stjórnar BÍL fund með Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra. Til umræðu var fyrirkomulag lottómála á Íslandi, ráðstöfun lottóágóðans, aðgengi að upplýsingum um skiptingu fjármuna sem til ráðstöfunar eru og hugmyndir um breytingar á gildandi einkaleyfum til að reka íslenskt lottó. Hér fylgir á eftir erindi það sem stjórn BÍL lagði fram á fundinum:

Erindi bréfs þessa er að þakka fyrir góðan fund sem við, fulltrúar stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna, áttum í morgun með þér og Hjalta Zóphóníassyni skrifstofustjóra í ráðuneytinu. Erindi okkar varðar happdrættismál, nánar tiltekið fyrirkomulag íslenska lottósins og ráðstöfun þess fjár sem aflað er gegnum lottó.

Stjórn BÍL fer þess á leit við dómsmála- og mannréttindaráðherra að fram fari endurskoðun á framkvæmd íslenska lottósins, sem hefur verið nánast óbreytt í tæpan aldarfjórðung eða frá því lög um talnagetraunir gengu í gildi 1986, með það að markmiði að listir og menning fái hlutdeild í þeim arði sem aflað er gegnum lottó. Það er mat stjórnar BÍL að nauðsynlegt sé að skoða einkaleyfi þau sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins með reglulegu millibili, einnig að skoðuð verði ráðstöfun og umsýsla þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega. Þá fer stjórn BÍL þess á leit að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið beiti sér fyrir því að allar upplýsingar um veltu, rekstrarkostnað og skiptingu arðs af lottói verði aðgengilegar almenningi og birtar á netinu.

Til að varpa frekara ljósi á málflutning okkar fylgja hér minnispunktar þeir sem við lögðum fram á fundinum í morgun:

• Starfsáætlun stjórnar BÍL 2010 gerir ráð fyrir að kannaðir verði möguleikar listgreinanna á hlutdeild í íslenska lottóinu og/eða að kannað verði hvort til greina komi að stofna nýtt lottó – Lottó listanna.

• Allan síðasta áratug hefur staðið til að endurskoða lög um happdrætti. Þegar lög nr. 38/2005 voru til umfjöllunar á Alþingi var því heitið að í kjölfarið yrðu önnur lög um happdrætti endurskoðuð; lög nr. 59/1972 um getraunir, lög nr. 26/1986 um talnagetraunir og lög nr. 73/1994 um söfnunarkassa. Enn hefur ekki orðið af slíkri endurskoðun.

• Samkvæmt lögum nr. 26/1986 hafa ÍSÍ, UMFÍ og ÖBÍ einkaleyfi til að reka lottó. Árið 2003 var einkaleyfið framlengt til ársloka 2018. Íslenskir söfnunarkassar/Íslandsspil hafa einkaleyfi til að reka söfnunarkassa, skv. reglugerð frá 14. mars 2008, leyfið virðist ótímabundið.

• Erfitt er að afla upplýsinga um þær fjárhæðir sem Íslensk getspá og Íslenskir söfnunarkassar/ Íslandsspil velta árlega, rekstrarkostnað og skiptingu arðs. Samkvæmt upplýsingum sem UNICEF hefur aflað nam heildarvelta Íslenskrar getspár (lottó og íslenskar getraunir) rúmum 2,4 milljörðum króna 2007. Í nýlegu svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi kemur fram að hlutdeild ÍSÍ í hagnaði Íslenskrar getspár hafi árið 2008 verið tæpar 260 milljónir króna. Í grein í Fréttablaðinu 7.12.09 kemur fram að Golfsamband Íslands hafi það ár fengið í sinn hlut rúml. 7,5 milljónir af lottóhagnaði. Vísbendingar eru um að ÍSÍ hafi notað lottóhagnað til að greiða erlendum íþróttamönnum ofurlaun.

• Bent skal á að lögverndað einkaleyfi til lottórekstrar jafngildir beinum ríkisstyrk og því eðlilegt að dómsmálaráðuneytið sem eftirlitsaðili starfseminnar sjái til þess að upplýsingar um veltu fyrirtækjanna og ráðstöfun fjármuna séu öllum aðgengilegar á netinu.

• Í nágrannalöndum okkar renna fjármunir úr lottói til fjölbreyttari verkefna en hér, t.d. skiptist hagnaður breska lottósins þannig árið 2008: 50% fóru til heilbrigðis-, mennta-, umhverfis- og góðgerðarmála, 16,6% runnu til íþrótta, 16,6% til lista og 16.6% til viðhalds og verndar á þjóðararfinum.

• Nú er liðinn aldarfjórðungur frá því að þeirri skiptingu var komið á sem enn er við líði og Íslensk getspá var stofnuð. Það hlýtur því að vera tímabært að endurskoða fyrirkomulagið, enda er hvergi hægt að sjá að vilji löggjafans hafi í upphafi verið sá að fyrirkomulagið eða skipting lottóágóðans yrði óbreytt um aldur og æfi.