Í dag undirrituðu forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir og borgarstjóri Hanna Birna Kristjánsdóttir samstarfssamning milli Reykjavíkurborgar og BÍL til næstu þriggja ára. Bandalag íslenskra listamanna metur það við stjórnvöld í borginni að vilji skuli vera til að framlengja samninginn til svo langs tíma við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu. Á samráðsfundinum sem fram fór í ráðhúsinu í dag lagði stjórn BÍL fram minnisblað með nokkrum áhersluatriðum sem stjórnin telur að samstarfsaðilunum beri að sinna á næstunni. Minnisblaðið fer hér á eftir:

Menntamál í listgreinum. Lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla hafa verið til endurskoðunar árum saman, en ekki náðst samstaða um breytingar. Á meðan ekki losnar um þau mál eru menntunarmál listgreinanna á grunn- og framhaldsstigi í óþolandi limbói. Það á jafnt við um menntun í tónlist, dansi og myndlist.

Áætlun um samstarf grunnskólans og listamanna. Það er mikilvægt að gera áætlun um það með hvaða hætti þetta samstarf á að þróast til framtíðar. Hingað til hefur samstarfið verið tilviljanakennt og því ekki skilað þeim ávinningi sem það hefur alla burði til. Verkefnið „Litróf listanna“ átti að breyta þessu, en það lifði einungis í eitt og hálft ár.

Leyfum okkur að bera saman fjárframlög til lista & íþrótta. Íslenska menningarvogin sýnir að mun fleiri sækja menningarviðburði en íþróttaviðburði og fleiri sækjast eftir umfjöllun um menningu í fjölmiðlum en umfjöllun um íþróttaviðburði. Finnum leið til að tryggja að tækifæri ungra sem aldinna borgarbúa til að taka þátt í skapandi starfi og njóta menningar séu sambærileg við tækifærin til að stunda íþróttir.

Húsnæði og aðstaða fyrir starfsemi listamanna. Listaháskólinn er í sárri neyð vegna frestunar á nýbyggingu undir starfsemi skólans, rétt er að minnast þess að sameining listaskólanna var fyrst og fremst framkvæmd til að fá samlegðaráhrifin af samstarfi listgreinanna. Leikhúsfólk bíður spennt eftir aðstöðunni í Tjarnarbíói, kvikmyndagerðarfólk þráir að geta boðið upp á íslenskt „film-institut“ og sjálfstætt starfandi danshöfunda sárvantar aðstöðu fyrir sína sköpun.

Velja þarf hönnuði af fagmennsku og á málefnanlegum forsendum. Arkitektar standa í baráttu fyrir störfum sínum. Mikilvægt er að þeim verkefnum sem í boði eru sé úthlutað af fagmennsku og á málefnanlegum forsendum. Þá standa arkitektar einnig í baráttu fyrir viðurkenningu höfundarréttar á verkum sínum.

Kortlagning menningarstarfsemi utan stofnana. Mikilvægt er að afla upplýsinga um þennan geira menningarstarfsins í borginni og standa vörð um þau fjárframlög sem þessi starfsemi hefur notið. Hér er um hina eiginlegu grasrótarstarfsemi í listum og hinum skapandi greinum að ræða, hún er forsenda öflugra menningarstofnana eins og Borgarleikhúss og Listasafns Reykjavíkur. Markmið samvinnu borgarinnar og BÍL er m.a. að stuðla að því að fyrir hendi séu jafnan sem gleggstar upplýsingar um listalífið í borginni og þróun þess. Finna þarf leið til að framkvæma þetta verkefni.

Menningarstefna Reykjavíkurborgar hefur að geyma fögur fyrirheit, en henni þarf að fylgja framkvæmdaáætlun og kostnaðargreining verkefna. Framsetning tillögunnar að Sóknaráætlun 20/20 „menningarborgin Reykjavík“gengur lengra í þá átt að skilgreina verkefni. Metnaðarfull verkefni á borð við „hönnunarborgina Reykjavík“ og aðrar slíkar fela í sér mikil tækifæri en slíkar ákvarðanir þarf að taka að vel yfirveguðu máli. Höfum það í huga varðandi Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.

Fjárhagsleg afkoma BÍL og niðurskurður 2010. Greiðsla borgarinnar til BÍL var ein milljón 2007, þegar fyrsti samstarfssamningurinn var undirritaður, nú verður hún kr. 900 þúsund á ári til 2012. Sambærileg greiðsla ríkisins hefur verið 2,3 milljónir á ári, en hefur nú lækkað í kr. 1,8 milljónir á ári. Skerðingin nemur kr. 600 þúsund á ári. Minna þarf á að BÍL samanstendur af 14 fagfélögum listafólks, sem hafa innan sinna vébanda 3 – 4 þúsund listamenn og BÍL er einn af lykilrágjöfum stjórnvalda á sviði lista og menningar.

 

Með hvaða hætti getum við gert menningu og listir – hinar skapandi greinar- að burðarstoð í endurreisn Íslands?