Author Archives: vefstjóri BÍL

Kortlagning skapandi greina – fyrstu niðurstöður

Á morgun verða kynntar fyrstu niðurstöður í stóru rannsóknarverkefni um kortlagningu skapandi greina, sem unnið hefur verið að síðan í sumar. Verkefnið er unnið að frumkvæði samstarfsvettvangs skapandi greina og hefur Bandalag íslenskra listamanna tekið virkan þátt á þeim vettvangi. Hér með er boðið til kynninga- og fréttamannafundar um verkefnið:

 

Atvinnuvegur stígur fram í dagsljósið

 

Boð á kynningar- og fréttamannafund:

•         Hvenær: Miðvikudaginn 1. desember 2010 klukkan 11:00-12:00.

•         Hvar: Bíó Paradís, Hverfisgötu 52 í Reykjavík.

•         Hvað: Kynning á tölulegum niðurstöðum rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina.

 

Síðastliðið vor hófst vinna við rannsókn á hagrænum áhrifum skapandi greina á Íslandi á heildstæðan hátt. Rannsóknin er unnin  að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina og fjármögnuð af fimm ráðuneytum og Íslandsstofu. Rannsóknina unnu Colin Mercer, sérfræðingur, Tómas Young, rannsakandi og Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina og lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Á Norðurlöndunum og í Evrópu hefur sú þróun orðið að skapandi greinar teljast nú sjálfstæður atvinnuvegur og sýna rannsóknir að í honum er einna mestur og hraðastur vöxtur. Því er ljóst að heildstæð greining á þætti skapandi greina í hagkerfinu er mikilvæg fyrir stjórnvöld þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku varðandi atvinnuuppbyggingu og samkeppnishæfni.

Þann 1. desember verða tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar kynntar og er óhætt að segja að þær munu koma mörgum á óvart. Í raun má segja að þær dragi fram í dagsljósið atvinnuveg sem fáir hafa áttað sig á að er einn af undirstöðuatvinnuvegum landsins.

 

Félagar aðildarfélaga BÍL eru boðnir velkomnir á þennan kynningarfund í Bíó Paradís.

 

Kortlagning skapandi greina; niðurstöður væntanlegar

Nú líður að því að kynnt verði niðurstaða verkefnisins um kortlagningu skapandi greina og umfang þeirra í hagkerfinu. Það verður gert á fréttamannafundi, sem haldinn verður í BÍÓ PARADÍS nk. miðvikudag 1. des. kl. 11:00 og eru allir sem tengjast listum og skapandi greinum hvattir til að koma til fundarins.

Að frumkvæði Samráðsvettvangs skapandi greina* ákváðu fimm ráðuneyti og Íslandsstofa að fjármagna kortlagningu á hagrænum umsvifum skapandi greina í íslensku atvinnulífi.**

Allir sem starfa í skapandi greinum á Íslandi eru hvattir til að fjölmenna á stuttan kynningarfund þar sem tölulegar niðurstöður kortlagningarinnar verða opinberaðar. Niðurstaðan leiðir í ljós að skapandi greinar eru ein af megin stoðum íslensks atvinnulífs. Við sem störfum innan þeirra höfum lengi skynjað það afl sem býr með okkur en nú liggja helstu niðurstöður fyrir og verða þær kynntar miðvikudaginn 1. des. kl 11:00 í Bíó Paradís við Hverfisgötu.

Í kynningunni á niðurstöðum mun meðal annars koma fram að:

 

•Skapandi greinar eru einn af burðarásum íslensks atvinnulífs

•Stærð greinanna, velta og umfang er verulegt

•Velta skapandi greina hefur haldist stöðugri en annarra atvinnugreina, þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu

•Framlög úr opinberum sjóðum eru grunnstoð lista á Íslandi

•Skapandi greinar gefa af sér gríðarlega mikil afleidd verðmæti og leiða af sér fjölda starfa í öðrum atvinnugreinum t.d. verslun og þjónustu

 

Gestgjafar á fundinum verða ráðuneytin fimm sem standa að fjármögnun verkefnisins ásamt Íslandsstofu. Mennta- og menningarmálaráðherra og iðnaðarráðherra munu ávarpa fundinn. Fundurinn er liður í að vinna að viðurkenningu og skilgreiningu á skapandi greinum sem atvinnuvegi sem kveður að. Það væri gaman að sjá sem flest andlit úr hinum skapandi geira meðal gesta, látið því boðið berast sem víðast.

 

Við hlökkum til að sjá þig.

 

Fyrir hönd samráðsvettvangs skapandi greina.

_______________________________________________

*Samráðsvettvangur skapandi greina SSG var stofnaður árið 2009 en á honum mætast ÚTÓN (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar), Kvikmyndamiðstöð Íslands, KIM (kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar), Bókmenntasjóður, Hönnunarmiðstöð Íslands, IGI (Icelandic Gaming Industry), Íslenska tónverkamiðstöðin og Leiklistarsamband Íslands. SSG stóð fyrir stefnumörkun í lok árs 2009 með fulltrúum allra aðila sem að ofan eru nefndir ásamt fulltrúum iðnaðar-, utanríkis- og mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sóknaráætlunar og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Niðurstaða hennar var sú að brýnt væri að kortleggja hagræn áhrif skapandi greina og liggja fyrstu niðurstöður nú fyrir. SSG stefnir að því að verða formlegum Samtökum skapandi greina á næstu misserum.

**Kortlagningu á hagrænum umsvifum skapandi greina í íslensku atvinnulífi hafa unnið: Colin Mercer, breskur sérfræðingur, Tómas Young, rannsakandi og Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina við HÍ.

 

Frásögn af ársfundi ECA European Council of Artists

Í dag var haldinn ársfundur ECA – European Council of Artists. Fundurinn var haldinn í Zagreb, Króatíu og sátu hann fulltrúar Króatíu, Ungverjalands, Rúmeníu, Slóveníu, Kýpur, Möltu, Spánar, Bretlands, Írlands, Þýskalands, Litháen, Lettlands, Eistlands, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur og  Íslands.

Gert hafði verið ráð fyrir að samþykkja aðild Skosku listamannasamtakanna Scottish Artists Union, að ECA. Það gekk ekki eftir en mun að öllum líkindum verða á næsta ári.

Skýrsla formanns litaðist nokkuð af erfiðum samskiptum við EACEA – Executive Agency Education, Audiovisual and Culture sem er sú stofnun ESB sem veitir styrki til menningartengdra verkefna og menningarsamstarfs Evrópuþjóða. Starfsemi ECA hefur ekki hlotið náð fyrir augum EACEA síðustu tvö árin og eru samtökin því einungis fjármögnuð með greiðslum aðildarfélaga. Innheimta aðildargjalda þetta ár hefur gengið stirðlega, átta af tuttugu og sex aðildarlöndum hafa enn ekki greitt árgjöld sín. Ákveðið var að gera gangskör að því að kynna samtökin í Evrópulöndunum og gera tilraun til að greiða úr vandræðunum í samskiptum við EACEA.

Frá stofnun ECA hefur skrifstofa samtakanna verið í Danmörku, undir verndarvæng dönsku listamannasamtakanna Dansk Kunstnerråd. Um næstu áramót verður breyting þar á, þegar skrifstofan flytur til Madrid fyrir tilstilli fyrrum formanns ECA Jorge Bosso. Tekist hefur að afla stuðnings við skrifstofuna til næstu tveggja ára og hefur Veronica Parizzi Doynel verið ráðin til að stjórna henni.

Fjárhagur ECA er þröngur og hefur ekki reynst unnt að láta endurskoða reikninga ársins 2009. Ákveðið var að leita eftir sérstökum stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar til að klára endurskoðun reikninga 2009 og 2010, til að skrifstofan geti flutt með hreint borð frá Kaupmannahöfn.

Tillaga að fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt með fyrirvara um að það takist að afla þeirra tekna sem hún gerir ráð fyrir. Áætlunin hljóðar upp á 70.000 Evrur (tæpar 11 milljónir ísl. króna). Menntamálaráðuneyti Spánar hefur þegar samþykkt að láta skrifstofunni í  té 12.000 Evrur og spænsku höfundarréttarsamtökin munu láta í té húsnæði sem metið er á 12.000 Evrur.

Áfram verður unnið að því að rétta af fjárhag samtakanna, þannig verður lagt mikið upp úr því að koma  upplýsingum um starfsemina og mikilvægi hennar á framfæri við Evrópuþingmenn og við stjórnvöld og fjölmiðla í löndunum almennt. Öll samtökin eru hvött til að taka fram í kynningarefni sínu að þau séu meðlimir í ECA, t.d. á bréfsefnum og heimasíðum.

Stuttar skýrslur voru fluttar frá hverju landi og gáfu þær nokkuð góða yfirsýn yfir hversu ólíkar aðstæður listamanna í Evrópulöndunum eru en báru þær þó allar keim af yfirstandandi fjárhagskreppu. Öll löndin eru að glíma við mikinn niðurskurð í opinberum fjárframlögum til lista og menningar. Á það jafnt við um framlög til rótgróinna stofnana og til sjóða sem fjármagna starfsemi sjálfstæðra listamanna. Pólitísk staða landanna er líka mjög misjöfn og skilningur stjórnvalda sums staðar afar takmarkaður. Á Spáni fóru sviðslistamenn í verkfall fyrr á árinu, lokuðu leikhúsum og felldu niður sirkussýningar. 34 leikhús í Madrid lokuðu og vakti aðgerðin mikla athygli.

Stjórnarkjör fór fram og gengu þrír úr stjórn. Í þeirra stað komu fulltrúar frá Ungverjalandi (Colin Foster), Litháen (Jonas Staselis) og Danmörku (Pia Raug). Þriggja manna uppstillingarnefnd var kjörin til að stilla upp kandidötum fyrir stjórnarkjör 2011, en reglur sambandsins gera ráð fyrir nokkuð örum breytingum á stjórn. Á næsta aðalfundi mun Michae Burke láta af formennsku.

 

Starfsáætlun 2011 var samþykkt. Hún gerir m.a. ráð fyrir

• áframhaldandi baráttu fyrir frelsi listamanna til að tjá sig,

• að efldir verði möguleikar listamanna á að ferðast með list sína,

• að höfundarréttur listamanna verði tryggður,

• innleiðingu UNESCO sáttmálans og varðstöðu um menningarlega fjölbreytni,

• eflingu listmenntunar

• þátttöku í væntanlegri menningaráætlun ESB 2014 – 2020

• stuðningi við listsköpun í fámennari samfélögum

• öflugri kynningu á starfi ECA, meðal stjórnmálamanna, Evrópuþingmanna og fjölmiðla

 

Næsti ársfundur verður haldinn á Spáni, að öllum líkindum í litlum bæ utan við Madrid. Gert er ráð fyrir að halda ráðstefnu í tengslum við fundinn og lög áhersla á að fá Evrópuþingmenn til að taka þátt í henni. Þá verður lög áhersla á að ungt fólk fái aðgang að ráðstefnunni án þátttökugjalds eða fyrir mjög lágt gjald.

Loks voru aðildarfélög hvött til að taka þátt í baráttu hollenskra listamanna gegn áformum hollenskra stjórnvalda um að hætta stuðningi við þrjár hollenskar hljómsveitir og voru samtökin hvött til að undirrita áskorun á netinu til hollenskra stjórnvalda um málið. Þá var einnig hvatt til þess að kínverskum stjórnvöldum verði send hvatning frá samtökunum um að þau gerist aðilar að UNESCO sáttmálanum.

 

Fundarstjóri var Anna Söderbäck, formaður KLYS

 

Fundur með fjárlaganefnd Alþingis

Stjórn BÍL átti fund með fjárlaganefnd Alþingis í morgun. Rætt var almennt um stöðu menningar og skapand greina í því kreppuástandi sem nú ríkir. Einnig var farið yfir nokkur verkefni sem stjórn BÍL tekur mikilvægt að fjárlaganefnd skoði sérstaklega í því vinnuferli sem framundan er hjá nefndinni. Hér á eftir fylgir minnisblað það sem stjórn BÍL lagði fram á fundinum:

 

Starfsemi BÍL hefur ekki verið með fastan fjárlagalið en hefur fengið framlag af safnlið 02-999-1.98. Á fjárlögum 2009 var upphæðin 2,3 milljónir króna en 2010 lækkaði hún í 1,8 milljónir eða um rúm 20%. Til að BÍL geti staðið undir lágmarksstarfsemi þyrfti upphæðin að vera 2,3 milljónir.

BÍL vill vekja athygli fjárlaganefndar á eftirfarandi:

Það er mikilvægt að standa vörð um sjóði, sem hafa það lögbundna hlutverk að fjármagna verkefni á sviði lista og menningar. Þar er um að ræða m.a. Kvikmyndasjóð, Bókmenntasjóð, Tónlistarsjóð,  Starfsemi atvinnuleikhópa og launasjóð listamanna. Á síðasta ári var samningi menntamála-ráðuneytis við kvikmyndagerðarmenn kippt úr sambandi og sjóðurinn skorinn umfram aðra sjóði. BÍL telur mikilvægt að samningurinn verði vakinn til lífsins á ný svo áform um stóreflingu kvikmyndageirans geti gengið eftir.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga mikilvægi skapandi greina við gjaldeyrissköpun fyrir þjóðarbúið. Það er t.d. mikilvægt að sjóðir á borð við Tónlistarsjóð hafi möguleika á að veita styrki með útflutnings- og þróunaráherslum. Barátta fyrir slíkum áherslum hefur staðið árum saman en ekki skilað árangri sem skyldi.

Stjórn BÍL tekur virkan þátt í starfi Íslandsstofu, sem ætlað er að auka möguleika skapandi greina á erlendum vettvangi, enn er ekki ljóst hvaðan fjármunir til slíkra verkefna eiga að koma. Í því sambandi bendir stjórn BÍL á mikilvægi kynningarmiðstöðva í skapandi greinum; Hönnunarmiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Íslenska tónverkamiðstöð, Bókmenntasjóð og Sviðslistamiðstöð Íslands sem er í burðarliðnum.

Þá biður BÍL um að endurskoðuð verði sú ákvörðun að hætta stuðningi við verkefnið „Tónlist fyrir alla“ 02-982-1.27.

Loks biður stjórn BÍL um að fjárlaganefndarmenn hafi í huga hina miklu grósku sem verið hefur í listum og menningu eftir að bankarnir hrundu og kreppa skall á í efnahagslífi þjóðarinnar.  Listahátíðir af ýmsu tagi hafa blómstrað og aðsókn á menningarviðburði hefur sjaldan verið meiri (það er að hluta til vegna þess hversu miðaverði er stillt í hóf vegna aðstæðna).  Skal í því sambandi sérstaklega bent á þátt danslistarinnar, sem er yngsta listgreinin okkar og nýafstaðna glæsilega alþjóðlega danslistahátíð. Einnig ber að nefna tónlistarhátíðir á borð við Iceland Airwaves, hátíð sem laðar yfir 2000 erlenda gesti til landsins og skilar á annan milljarð í veltu fyrir ferðaþjónustuna á fáeinum  dögum.

 

Stjórn BÍL fundar með stjórn RÚV ohf

Bandalag íslenskra listamanna hefur ævinlega látið sig málefni Ríkisútvarpsins miklu skipta, enda er stofnunin mikilvægur vettvangur fyrir listamenn og verk þeirra. Stjórn BÍL ákvað að leita til stjórnar RÚV ohf með áhyggjur sínar af stofnuninni. Stjórnirnar hittust þ. 14. okt. sl. og báru saman bækur sínar. Á fundinum var lagt fram eftirfarandi minnisblað:

 

Stjórn BÍL lítur svo á

-að báðir aðilar (BÍL og RÚV ohf) telji RÚV ohf eina af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og að það sé sameiginlegt hagsmunamál beggja aðila að RÚV ohf geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu af metnaði.

 

Stjórn BÍL hefur af því áhyggjur

– að ekki skuli staðið við þjónustusamning menntamálaráðuneytis og RÚV ohf. en gerir sér jafnframt grein fyrir því að ekki er einungis við RÚV ohf að sakast í þeim efnum

– hversu erfiðlega gengur að eiga málefnanleg samskipti við stjórnendur RÚV ohf – útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra RÚV ohf

– hversu ógagnsær ársreikningur RÚV ohf er og hversu erfitt er að afla upplýsinga um raunverulegan kostnað RÚV ohf af einstökum þáttum starfseminnar

– hversu lítið er framleitt af leiknu sjónvarpsefni og hversu treglega sjálfstæðum framleiðendum gengur að koma efni sínu á framfæri við RÚV ohf

– hversu erfitt er að fá RÚV ohf til að greiða eðlilegt endurgjald fyrir íslenskar kvikmyndir, -oft einungis 2 – 3%  af framleiðslukostnaði

– hversu mikil brögð eru að því að starfsmenn RÚV ohf framleiði efni innan stofnunarinnar en í nafni eigin fyrirtækja, svo efnið telst í bókhaldi vera framleitt af sjálfstæðum framleiðendum. Þetta er sérstaklega ámælisvert þar sem RÚV ohf hefur skuldbundið sig til að kaupa tiltekið magn dagskrárefnis af sjálfstæðum framleiðendum

– hversu lokað safn RÚV ohf er, hversu umsýslu, skráningu og miðlun efnisins er ábótavant og hvernig verðlagningu efnisins er háttað

– hversu úreltur tækjabúnaður stofnunarinnar er, sem kemur í veg fyrir að framleiðslan geti staðið undir kröfum um gæði efnisins

– hversu mikið vantar upp á að hægt sé að bera RÚV ohf saman við stofnanir nágrannalandanna, t.d. Danmarks Radio og BBC

– hversu mikill samdráttur hefur orðið í framleiðslu útvarpsleikhússins á síðustu árum

– hversu lítið notuð „gullkistan“ svokallaða er, sem leikarar færðu stofnuninni af talsverðum rausnarskap til að losa um áralanga tregðu við að flytja innlent efni

—————————–

Á fundinum kom fram að stjórn RÚV ohf væri sammála ýmsum atriðum í minnisblaði stjórnar BÍL. Stjórnirnar eru t.d. sammála um að RÚV ohf sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og að það sé sameiginlegt hagsmunamál beggja aðila að RÚV ohf geti staðið undir lögbundnu hlutverki sínu af metnaði. Á fundinum komu í ljós áhyggjur stjórnar RÚV ohf af því að stjórnarmenn hefðu ekki alltaf nauðsynlegar  forsendur til að rýna í og gera athugasemdir við ársreikninga stofnunarinnar. Einnig komu fram efasemdir um að stjórn væru látnar í té nægar upplýsingar frá forráðamönnum RÚV ohf til að framfylgja lögbundinni skyldu sinni. Fundinum lauk á því að stjórnirnar ákváðu að halda sambandi sín í milli, skiptast á upplýsingum og sameina kraftana með það m.a. að markmiði að RÚV ohf fáið staðið undir metnaðarfullri framleiðslu á innlendu menningarefni svo sem lög gera ráð fyrir.

 

Að loknum fundi með Ásbirni Óttarssyni

Fundur stjórnar BÍL með Ásbirni Óttarssyni fyrsta þingmanni norð-vesturkjördæmis fór vel fram og skiptust menn á skoðunum um störf í lista- og menningargeiranum.  Eftirtaldir stjórnarmenn sátu fundinn: Björn Th. Árnason, Jakob F. Magnússon, Karen María Jónsdóttir, Randver Þorláksson auk forseta.

Ásbjörn kom til fundarins með þær fréttir að hann hefði beðist afsökunar á ummælum sínum í viðtali við Ríksútvarpið þá fyrir stundu. Hann lýsti því með hvaða hætti ummælin féllu, þ.e. í andsvari undir bjölluglym forseta Alþingis og þess vegna ekki verið úthugsuð. Hann viðurkenndi vanþekkingu sína á störfum listafólks og tók vel þeim upplýsingum sem stjórnarmenn BÍL létu honum í té á fundinum.

Röksemdirnar voru af ýmsum toga, en eðlilegt þótti að leggja nokkra áherslu á hið efnahagslega gildi framan af fundi. Það er alkunna að sameiginlegir sjóðir skattborgaranna eru notaðir til að efla atvinnustig þjóðarinnar með því að skapa störf; t.d. í heilbrigðisgreinum, menntakerfinu, iðnaði (m.a. áliðnaði), vegagerð, hafnargerð og listum. Áhersla stjórnvalda til skamms tíma hefur verið að skapa störf í stóriðju, byggingariðnaði og því sem nefnt er verklegar framkvæmdir.  Störf í skapandi greinum hafa ekki verið á forgangslista ríkisstjórna þrátt fyrir baráttu samtaka listamanna. Árið 2009 náðist þó samkomulag um nokkra aukningu framlaga til starfslaunasjóða listafólks og mælti núverandi menntamálaráðherra fyrir frumvarpi um listamannalaun, sem samþykkt var á Alþingi á vordögum 2009. Það er lögbundin fjölgun starfslauna sem Ásbjörn Óttarsson fellir sig ekki við. Stjórn BÍL benti Ásbirni á að störf í hinum skapandi greinum kosta lítið, þau ógna hvorki náttúru landsins né auðlindum og þau leiða af sér umtalsverðan fjölda starfa í öðrum greinum. Nýleg norsk rannsókn sýnir að eitt starf í menningargeiranum skilar 10 – 26 afleiddum störfum í verslun og þjónustu. Til samanburðar skilar hvert starf í bílaiðnaði einungis 6 afleiddum störfum. Sömu niðurstöður má sjá í gögnum OECD.

Þá var farið yfir upphæðirnar sem listamenn fá úr launasjóðunum og umsóknarferlið, sem fyrirskrifað er og setur öll verkefni sem um er sótt gegnum smásjá og nálaraugu úthlutunarnefnda.  Um þessar mundir eru mánaðarlaun úr sjóðunum 267 þúsund krónur.  Litið er á greiðsluna sem verktakagreiðslu, svo listamaðurinn greiðir af henni skatta, tryggingargjöld og önnur launatengd gjöld, sem gefur innan við 180 þúsund krónur í reiknað endurgjald til listamannsins.  Þetta lítur skatturinn á sem hlutastarf, því hjá Ríkisskattstjóra er listamanni gert að telja mánaðarlega fram 414 þúsund krónur í reiknað endurgjald ef hann telur sig vera í fullu starfi. Það ber að hafa í huga að félagslegur stuðningur, t.d. atvinnuleysisbætur miðast við að fólk hafi gegnt fullu starfi.

Ásbjörn hafði greinilega kynnt sér skýrslu kvikmyndagerðarmanna, sem gefin var út fyrr á þessu ári og sýnir fram á að hver einasta króna sem ríkið ver til kvikmyndagerðar skilar sér aftur í ríkiskassann og meira til, því innlendur stuðningur við kvikmyndagerð er forsenda fyrir erlendum stuðningi við kvikmyndaverkefnin. Það sama gildir um aðrar listgreinar sem í auknum mæli leita á erlenda markaði.

Varðandi ummæli Ásbjarnar um tónlistarhúsið þá var farið yfir þá forgangsröðun sem stjórnvöld hneigjast til þegar opinberum fjármunum er umyrðalaust  varið í hvert íþróttamannvirkið á fætur öðru en mun meiri tregðu gætir þegar fjármagna á hús undir menningarstarfsemi.  Einnig var rifjað upp með hvaða hætti stjórnvöld í Reykjavíkurborg, undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur flokkssystur Ásbjarnar, tóku höndum saman við vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um að skynsamlegra væri (m.a. frá atvinnusjónarmiðum) að klára tónlistarhúsið en að láta það standa sem argandi minnismerki um hrunið til langrar framtíðar.

Að lokum var Ásbirni Óttarssyni afhent grein eftir Pétur Gunnarsson fyrrv. formann Rithöfundasambands Íslands, sem skrifuð var fyrir ári síðan við svipaðar aðstæður, því umræður af þessu tagi um réttmæti listamannalauna er árviss og kemur alltaf upp í tengslum við fjárlagaumræðuna.  Greinin ber heitið „Hinn árlegi héraðsbrestur“ og má lesa hana undir hatti „greina“ hér á síðunni. Það er mat þeirra stjórnarmanna sem sátu fundinn að hann hafi verið gagnlegur og  ekki var annað að sjá á þingmanninum en að hann hafi haft gagn af þeim upplýsingum sem honum voru kynntar. Umræðum um eðli þeirra starfa sem unnin eru innan skapandi greina verður haldið áfram og áformar stjórn BÍL að hitta fjárlaganefnd Alþingis á næstunni þar sem áfram verður skipst á skoðunum um gildi menningarinnar og hlutverk skapandi greina í endurreisninni.

Stjórn BÍL fundar með Ásbirni Óttarssyni

Ásbjörn Óttarsson 1. þingmaður norð-vesturkjördæmis hefur þegið boð stjórnar BÍL um að koma til fundar við fulltrúa stjórnarinnar í dag í Iðnó kl. 12:15. Það er ekki vanþörf á að uppfræða þjóðkjörna fulltrúa um störf og stöðu listamanna.

Ummæli Ásbjörns í umræðum um fjárlög voru eftirfarandi:

Síðan en ekki síst það sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi með tónlistarhúsið, sem er mér mjög lítið að skapi og ég nánast þoli ekki. Auðvitað átti að hætta að byggja tónlistarhúsið og láta það standa sem minnisvarða um þetta rugl sem var hér í gangi (Gripið fram í.) Þetta er algjört rugl. Síðast en ekki síst eitt sem ég gleymdi að koma inn á. Listamannalaun eru hækkuð um 35 milljónir. Af hverju geta þessir listamenn ekki farið að vinna (Forseti hringir.) og komið sér bara í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk?

Meðal þess sem lagt verður fram á fundinum er talnaefni um aðrsemi lista og menningar, enda sjálfsagt skoða hagrænan þátt listageirans í samhengi við aðra þætti sem bera uppi samfélag okkar. Sameiginlegir sjóðir skattborgaranna eru notaðir til að halda uppi atvinnustigi þjóðarinnar með þvi að skapa störf í ýmsum atvinnugreinum. Það gildir um störf í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, stjórnsýslunni, vegagerð, stóriðju og listum. Þessi störf eru misjafnlega dýr og þau skila sér misvel til baka til samfélagsins. Störf í listum og menningu kosta samfélagið lítið en þau skila miklu til baka. Sem dæmi má nefna að hver króna sem hið opinbera leggur í kvikmyndagerð skilar sér til  baka í formi skatta og annars virðisauka. Þá sýna nýlegar norskar rannsóknir að hvert starf í menningargeiranum skili frá 10 til 26 afleiddum störfum í verslun og þjónustu. Ef bílaiðnaður er skoðaður til samanburðar þá eru afleiddu störfin einungis 6 talsins.

Á fundinum verða kynntar fyrstu tölur úr opinberu verkefni sem unnið er að og ætlað er að kortleggja hlut lista og skapandi greina í hagkerfinu. Þar kemur fram að sjávarútvegurinn velti um 114 milljörðum á ársgrundvelli en menningargeirinn 81 milljarði. Stjórn BÍL vonar að fundur hennar  með Ásbirni Óttarssyni verði til þess að slá á þá fordóma og fákunnáttu sem lesa mátti úr ummælum þingmannsins í vikunni. Sameiginlegt verkefni okkar hlýtur að vera að standa vörð um blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf.

 

Fundur Norrænu listamannasamtakanna

Norrænu listamannasamtökin hafa með sér óformlegt samstarf og boðuðu sænsku samtökunum KLYS til samráðsfundar í Stokkhólmi fimmtudaginn 16. september sl. Fer hér á eftir frásögn af fundinum:

Mættir voru fulltrúar allra Norrænu þjóðanna í samstarfinu nema Norðmanna, en regnhlífarsamtök Norðmanna hafa verið lögð niður og því nokkrum erfiðleikum háð að fá norska þátttöku. Þau sem sátu fundinn voru: Anna Söderbäck formaður KLYS og starfsmenn KLYS þær Ulrica Källén og Carina Heurlin. Formaður Dansk Kunstnerråd Franz Ernst og starfsmaður DK Elisabet Diedrichs. Formaður færeysku samtakanna LISA  Oddfríður Rasmusen. Talsmaður finnska rithöfundasambandsins Christian Brandt og framkvæmdastjóri samísku listamannasamtakanna Brita Kåven.

Fundurinn hófst á kynningu einstakra fundarmanna og frásögnum af þeim málum sem efst eru á baugi hvers lands.  Aðstæður landanna eru almennt nokkuð líkar en afstaða í einstökum málum er þó ekki alltaf hin sama. T.d. eru talsverðar deilur um höfundarréttarmál í Svíþjóð bæði innan listamannasamtakanna en ekki síður meðal þjóðarinnar. Þar í landi hefur verið stofnaður sérstakur stjórnmálaflokkur sem berst fyrir gjaldfrjálsu niðurhali alls efnis sem finna má á netinu „Piratpartiet“ og nýtur hann talsverðs stuðnings í samfélaginu. Innan KLYS starfar starfshópur sem vinnur með afstöðuna til höfundarréttarmála og kannar leiðir til að uppfræða þjóðina um nauðsyn rétthafagreiðslna. Annars eru höfundarréttarmálin í höndum sérfróðra lögmanna höfundarréttarsamtakanna og mikil umræða um aðsteðjandi ógnir. Frá Færeyjum er það helst að frétta að listamannasamtökin LISA hafa mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði stjórnvalda til heiðurslauna listamanna, einnig vinna færeyskir listamenn að undirbúningi stofnunar „listráðs“ að danskri fyrirmynd. Mikið var fjallað um afstöðu Nordisk Ministerråd til menningargeirans og gagnrýnt hversu miklir fjármunir færu í óskilgreind verkefni undir hatti „hnattvæðingar“ á kostnað Norrænna menningarverkefna. Allar þjóðirnar virðast hafa sömu sögu að segja varðandi skort á samráði yfirstjórnar menningarmála. Þar er ýmist kvartað undan áhugaleysi menningarmálaráðherranna sjálfra eða embættismanna. Harðar gagnrýnisraddir eru uppi vegna breytinga á verkefnum Kultur Kontakt Nord og menn sammála um að þar hafi verið haldið inn á ranga braut áður en reynsla var komin á kjarna verkefnisins sem innleitt var 2006. Loks var harðlega gagnrýnt að stjórnmálamenn og embættismenn skuli hittast reglulega á samkomum sem þeir kalla „kulturforum“ án þess að listamenn fái tækifæri til að fylgjast þar með umræðum eða leggja nokkuð til mála. Ein slík samkoma var haldin í Kaupmannahöfn sama dag og forysta listamannasamtakanna fundaði í Stokkhólmi. Ákveðið var að gera uppkast að erindi sem farið yrði með á fund Norrænna menningarmálaráðherra og samstarfsráðherra þegar þeir hittast í Reykjavík 2. – 4. nóvember á þingi Norðurlandaráðs.

Nokkur umræða varð um Norrænu listamannaíbúðirnar í Róm og sammæltust menn um að standa vörð um áframhaldandi starfsemi þeirra og fjármögnun í gegnum NMR (Nordisk Ministerråd), enda rennir nýleg úttekt á starfseminni stoðum undir þau sjónarmið. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að Norræna stofnunin í Róm lifði áfram, fyrir því væru söguleg rök en það væri líka í samræmi við vilja manna til að verja menningarlegan fjölbreytileika og viðhalda honum. Nýlega var framlengdur ráðningartími forstöðumanns stofnunarinnar og rennur ráðningin út í lok árs 2011.

Stefna ESB í málefnum menningar og lista var nokkuð rædd. Svokölluð „Gallo-skýrsla“ um höfundarréttarmál:

Málið er nokkuð flókið en þeir sem vilja kynna sér það í þaula geta gert það á hjál. slóð:

Report: Marielle Gallo (A7-0175/2010)

Report on the enforcement of intellectual property rights in the internal market

[COM(2009)0467 – 2009/2178(INI)] Committee on Legal Affairs

Þá gaf Elisabeth Diedricks skýrslu um starf ECA – European Council of Artists. Hún sagði fjárhagsstöðu samtakanna erfiða og nú væri svo komið að Danir gætu ekki haldið áfram sínum stuðningi sem hefur gert Dansk Kunstrerråd kleift að hýsa skrifstofu samtakanna. Í ljósi þess hefur  verið ákveðið að skrifstofan flytji til Madridar, en núverandi formaður samtakanna er Spánverji og hefur samtökum listamanna á Spáni (spænska BÍL) tekist að tryggja rekstrarfé  fyrir skrifstofuna til næstu ára.  Elisabeth sagði rekstur samtakanna þó verða í járnum á meðan ekki væru hækkuð meðlimagjöldin, en mikil tregða hefur verið til slíkra hækkana.  Á aðalfundi ECA í Zagreb fer fram stjórnarkjör og töldu fundarmenn mjög mikilvægt að bjóða fram sterkan Norrænan kandidat til stjórnarsetu.

Þá var tekin upp umræða um yfirlýsingu UNESCO um menningarlegan fjölbreytileika. Nú eru ýmis aðildarlönd að senda frá sér skýrslur um innleiðingu ákvæða yfirlýsingarinnar. Dæmi um það er þýska skýrslan “Shaping Cultural Diversity” sem út kom í sumar og hefur verið kynnt formönnum aðildarfélaga  BÍL.

Undir dagskrárliðnum „önnur mál“ var rætt um það hvort setja ætti samstarf Norrænu listamannasamtakanna í formlegri farveg en það væri í nú. Fundarmenn voru sammála um ágæti þess að hafa samráðið og samstarfið „dynamiskt“ og því væri ekki þörf á að formgera það frekar.  Rætt var um hugmyndir að næsta fundi og kom uppástunga um að hann yrði haldinn í Kaupmannahöfn 2011 í tengslum við Norðurlandaráðsþingið sem haldið verður þar. Einnig komu upp hugmyndir um að samtökin leggðu drög að Norrænu málþingi um málefni listanna að tveimur árum liðnum og bauðst  Christian Brandt til að kanna möguleika á að halda málþing í tengslum við „Hönnunardaga í Helsingfors 2012“. Það gæti gert okkur auðveldara fyrir að sækja um fjárstuðning ef við tengdum okkur við slíkan stórviðburð.  Um leið varaði Christian við þeirri markaðsvæðingu sem stjórnmálamenn virðast nú sameinast um að reka gagnvart listunum með því að vera hættir að tala um listirnar öðruvísi en undir samheitinu „skapandi greinar“….

Að endingu voru allir viðstaddir hvattir til að senda ákall gegnum öll aðildarfélög sín til Norðmanna um að endurvekja sín regnhlífarsamtök, því það væri nauðsynlegt að hafa allar Norðurlandaþjóðirnar þátttakendur í þessu óformlega samstarfi. Hér með er þeirri hvatningu komið á framfæri við formenn aðildarfélaga BÍL að þeir hvetji norska kollega sína til að hugleiða hvort ekki sé tímabært að endurreisa norsku listamannasamtökin.

Fundurinn stóð í fimm klukkutíma og honum lauk með því að Svíarnir leystu viðstadda út með gjöfum. Var okkur afhent þykk og mikil skýrsla „Kultur Sverige 2009“ sem hefur að geyma nákvæma kortlagningu sænskrar menningar ásamt fjölda athyglisverðra greina um einstaka þætti sænskrar menningar. Einnig fengum við nýútkomna bók „Möteplatser, kulturskapare, entreprenör, demokrati“ með undirtitlinum „at vara eller vara en vara – visioner om en annan kulturpolitik“ Bækurnar eru til útláns hjá forseta J  Þá var fundi sem sagt slitið með heitstrengingum um að allir ætluðu að vera duglegir að hafa samband…  Lýkur hér með frásögn þessari.

 

Kolbrún Halldórsdóttir

forseti BÍL

 

Tagged ,

Fundur með dómsmála- og mannréttindaráðherra

Í morgun áttu fulltrúar stjórnar BÍL fund með Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra. Til umræðu var fyrirkomulag lottómála á Íslandi, ráðstöfun lottóágóðans, aðgengi að upplýsingum um skiptingu fjármuna sem til ráðstöfunar eru og hugmyndir um breytingar á gildandi einkaleyfum til að reka íslenskt lottó. Hér fylgir á eftir erindi það sem stjórn BÍL lagði fram á fundinum:

Erindi bréfs þessa er að þakka fyrir góðan fund sem við, fulltrúar stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna, áttum í morgun með þér og Hjalta Zóphóníassyni skrifstofustjóra í ráðuneytinu. Erindi okkar varðar happdrættismál, nánar tiltekið fyrirkomulag íslenska lottósins og ráðstöfun þess fjár sem aflað er gegnum lottó.

Stjórn BÍL fer þess á leit við dómsmála- og mannréttindaráðherra að fram fari endurskoðun á framkvæmd íslenska lottósins, sem hefur verið nánast óbreytt í tæpan aldarfjórðung eða frá því lög um talnagetraunir gengu í gildi 1986, með það að markmiði að listir og menning fái hlutdeild í þeim arði sem aflað er gegnum lottó. Það er mat stjórnar BÍL að nauðsynlegt sé að skoða einkaleyfi þau sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins með reglulegu millibili, einnig að skoðuð verði ráðstöfun og umsýsla þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega. Þá fer stjórn BÍL þess á leit að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið beiti sér fyrir því að allar upplýsingar um veltu, rekstrarkostnað og skiptingu arðs af lottói verði aðgengilegar almenningi og birtar á netinu.

Til að varpa frekara ljósi á málflutning okkar fylgja hér minnispunktar þeir sem við lögðum fram á fundinum í morgun:

• Starfsáætlun stjórnar BÍL 2010 gerir ráð fyrir að kannaðir verði möguleikar listgreinanna á hlutdeild í íslenska lottóinu og/eða að kannað verði hvort til greina komi að stofna nýtt lottó  –  Lottó listanna.

• Allan síðasta áratug hefur staðið til að endurskoða lög um happdrætti. Þegar lög nr. 38/2005 voru til umfjöllunar á Alþingi var því heitið að í kjölfarið yrðu önnur lög um happdrætti endurskoðuð;  lög nr. 59/1972 um getraunir, lög nr. 26/1986 um talnagetraunir og lög nr. 73/1994 um söfnunarkassa. Enn hefur ekki orðið af slíkri endurskoðun.

• Samkvæmt lögum nr. 26/1986 hafa ÍSÍ, UMFÍ og ÖBÍ einkaleyfi til að reka lottó. Árið 2003 var einkaleyfið framlengt til ársloka 2018. Íslenskir söfnunarkassar/Íslandsspil hafa einkaleyfi til að reka söfnunarkassa, skv. reglugerð frá 14. mars 2008, leyfið virðist ótímabundið.

• Erfitt er að afla upplýsinga um þær fjárhæðir sem Íslensk getspá og Íslenskir söfnunarkassar/ Íslandsspil  velta árlega, rekstrarkostnað og skiptingu arðs.  Samkvæmt upplýsingum sem UNICEF hefur aflað nam heildarvelta Íslenskrar getspár (lottó og íslenskar getraunir) rúmum 2,4 milljörðum króna 2007. Í nýlegu svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi kemur fram að hlutdeild ÍSÍ í hagnaði Íslenskrar getspár hafi árið 2008 verið tæpar 260 milljónir króna.  Í grein í Fréttablaðinu 7.12.09 kemur fram að Golfsamband Íslands hafi það ár fengið í sinn hlut rúml. 7,5 milljónir af lottóhagnaði.  Vísbendingar eru um að ÍSÍ hafi notað lottóhagnað til að greiða erlendum íþróttamönnum ofurlaun.

• Bent skal á að lögverndað einkaleyfi til lottórekstrar jafngildir beinum ríkisstyrk og því eðlilegt að dómsmálaráðuneytið sem eftirlitsaðili starfseminnar sjái til þess að upplýsingar um veltu fyrirtækjanna og ráðstöfun fjármuna séu öllum aðgengilegar á netinu.

• Í nágrannalöndum okkar renna fjármunir úr lottói til fjölbreyttari verkefna en hér, t.d. skiptist hagnaður breska lottósins þannig árið 2008: 50% fóru til heilbrigðis-, mennta-, umhverfis- og góðgerðarmála, 16,6% runnu til íþrótta, 16,6% til lista og 16.6% til viðhalds og verndar á þjóðararfinum.

• Nú er liðinn aldarfjórðungur frá því að þeirri skiptingu var komið á sem enn er við líði og Íslensk getspá var stofnuð. Það hlýtur því að vera tímabært að endurskoða fyrirkomulagið, enda er hvergi hægt að sjá að vilji löggjafans hafi í upphafi verið sá að fyrirkomulagið eða skipting lottóágóðans yrði óbreytt um aldur og æfi.

 

Glerhjúpur Hörpu tónlistarhúss

Þetta myndskeið fjallar um glerhjúpinn úr strendingsformum sem er utan á tónlistarhúsinu Hörpu. Glerhjúpurinn er verk Ólafs Elíassonar, hins heimsþekkta hálf-íslenska listamanns, en er raunar einnig byggt á formrannsóknum samstarfsmanns Ólafs, Einars Þorsteins. Myndskeiðið er úr myndskeiðsrás Hörpu á Youtube.

Page 30 of 42« First...1020...2829303132...40...Last »