Author Archives: vefstjóri BÍL

Skýrsla stjórnar SÍM fyrir árið 2009

SÍM er hagsmuna- og stéttarfélag myndlistarmanna. Aðild að sambandinu eiga Félag íslenskra myndlistarmanna, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, Félagið íslensk grafík, Leirlistafélagið, Textílfélagið, Félag íslenskra samtímaljósmyndara, Myndlistarfélagið og félagar með einstaklingsaðild. Félagsmenn sem greiða félagsgjöld eru 685.

Á aðalfundi SÍM sem haldinn var 26, maí 2009 var kosin stjórn SÍM: Áslaug Thorlacius formaður, Katrín Elvarsdóttir varaformaður, Birta Guðjónsdóttir ritari, Finnbogi Pétursson gjaldkeri og Þuríður Sigurðardóttir meðstjórnandi. Varamenn: Hulda Stefánsdóttir og Ingirafn Steinarsson.

Áslaug Thorlacius sagði af sér formennsku og Finnbogi Pétursson baðst einnig lausnar frá stjórnarstörfum haustið 2009. Á aukaaðalfundi sem haldinn var 15. september 2009 var Hlynur Hallsson kosinn formaður og Ingirafn Steinarsson tók sæti Finnboga í stjórn.

Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins en auk hennar vinnur Kristín Kristjánsdóttir á skrifstofu SÍM í fullu starfi. Kristín er nú í fæðingarorlofi og leysir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir hana af. Ennfremur hafa aðrir unnið tímabundið á skrifstofunni við afleysingar eða í sérverkefnum.

SÍM er til húsa í SÍM-húsinu, Hafnarstræti 16 sem Reykjavíkurborg hefur lagt félaginu til. Nú stendur hinsvegar til að Reykjavíkurborg fari að innheimta leigu fyrir húsnæðið.

SÍM er m.a. aðili að Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar . SÍM er í samstarfi við Borgarbókasafnið í Reykjavík um rekstur Artóteks í aðalsafni safnsins við Tryggvagötu. Félagið á aðild að, Íslensku sjónlistaverðlaununum ásamt Hönnunarmiðstöð Íslands og Akureyrarbæ og Sjónlistamiðstöðinni á Korpúlfsstöðum ásamt Hönnunarmiðstöð Íslands.

Á alþjóðavettvangi starfar SÍM aðallega með BIN, norrænum samtökum myndlistarmanna og IAA, alþjóðlegum samtökum myndlistarmanna og Áslaug Thorlacius gjaldkeri Evrópudeildar IAA.

SÍM veitir Alþingi og opinberum aðilum ýmsa þjónustu. Félagið tilnefnir fulltrúa í ýmsar stjórnir og ráð, annast alþjóðasamskipti fyrir hönd íslenskra myndlistarmanna og veitir umsagnir og er til ráðgjafar í tengslum við lagasetningu og aðrar stjórnsýsluaðgerðir. Félagið veitir einnig sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum sérfræðiþjónustu við undirbúning og framkvæmd samkeppna um listskreytingar. Þegar unnið er eftir samkeppnisreglum SÍM tilnefnir SÍM fulltrúa í valnefndir og dómnefndir og leggur keppninni til trúnaðarmann, auk þess sem félagið fer yfir keppnislýsingar.

SÍM rekur Listskreytingasjóð ríkisins og UMM.IS upplýsingavef um myndlist og myndlistarmenn, Mugg – dvalarsjóð og Ferðasjóð Muggs. SÍM hýsir jafnframt skrifstofur Myndstefs og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar í Hafnarstræti 16.  SÍM er aðili að Listahátíð í Reykjavík.

SÍM hefur staðið fyrir degi myndlistarinnar í byrjun maí nokkur undanfarin ár. Hugmyndin er að fá myndlistarmenn um land allt til að opna vinnustofur sínar fyrir almenningi og vekja þannig athygli á vinnu myndlistarmanna og efla samskipti við áhugasaman almenning. Stefnt er að því að dagur myndlistarinnar verði í samvinnu við skóla, gallerí og söfn og mun stærri dagur í framtíðinni og hann verðu fluttur á fyrsta laugardag í október og verður því 2. október 2010.

Félagsmaður mánaðarins er dagskrá sem á sér stað í sal SÍM-hússins, en þar er félagsmaður með litla sýningu eða kynningu á verkum sínum í hverjum mánuði.  Einnig eru haldnar gestastundir þar sem erlendir gestir SÍM kynna sig og sín verk fyrir félagsmönnum og öðrum áhugamönnum um myndlist í formi fyrirlestra, lítilla sýninga eða gjörninga.

SÍM rekur 3 gestaherbergi í Hafnarstræti 16 en þau eru hagkvæmur kostur fyrir listamenn, sýningarstjóra, gagnrýnendur og aðra sem koma til borgarinnar í erindum sem tengjast myndlist. Þjónustan stendur öllum stofnunum og fyrirtækjum sem starfa við og í kringum myndlist til boða.

Skrifstofa félagsins rekur einnig Sjónlistamiðstöðina á Korpúlfsstöðum fyrir hönd Rekstrarfélags Korpúlfsstaða sem Hönnunarmiðstöð Íslands á aðild að. Á Korpúlfsstöðum eru um 40 vinnustofur fyrir myndlistarmenn og hönnuði og útibú frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Þar hafa verið útbúin stór verkstæði fyrir leir og textíl, sem rekin eru af Leirlistarfélaginu og Textílfélaginu.

SÍM rekur jafnframt listamannahúsið Seljaveg 32 en þar eru um 50 innlendir listamenn með vinnuaðstöðu og fyrirhugað er að taka í notkun nýja vinnustofumiðstöð í Garðabæ á næstu mánuðum.

Undanfarin ár hefur mikill kraftur farið í uppbyggingu SIM-RES, Alþjóðlegrar gestavinnustofumiðstöðvar sem félagið rekur á Seljavegi og á Korpúlfsstöðum og nú hefur SIM-RES 15 herbergi til ráðstöfunar. Á síðasta ári dvöldu hátt í 200 erlendir listamenn í gestavinnustofum SÍM í einn mánuð eða lengur. Herbergin eru í fullri nýtingu mestan hluta árs og gott betur því oft er tvímennt í herbergjunum.

SIM-RES er hluti af gestavinnustofuneti KulturKontaktNord árin 2008-2010 en fyrir tilstilli KKNord getur SÍM boðið um 10 norrænum listamönnum og listamönnum frá baltnesku löndunum til 1-2 mánaða dvalar sér að kostnaðarlausu.

 

Akureyri, 6. janúar 2010

Hlynur Hallsson, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna

 

Skýrsla stjórnar RSÍ fyrir árið 2009

Starfsemi Rithöfundasambands Íslands 2009

Fastir liðir eru eins og venjulega í Rithöfundasambandi Íslands sem hefur aðsetur í húsi sem Gunnar Gunnarsson rithöfundur lét reisa en Rithöfundasambandið fékk til afnota og umráða árið 1997. Félagsmenn eru um þessar mundir 378, inntökuskilyrði eru tvö verk sem hafi listrænt gildi – frumsamin eða þýdd, fræðirit eða leikverk – og árlega kosin inntökunefnd fjallar um.

Félagsgjöld eru kr. 17.600.

Stjórn sambandsins skipa fimm aðalmenn og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Þeir eru um þessar mundir Pétur Gunnarsson, formaður, Rúnar Helgi Vignisson, varaformaður, meðstjórnendur Karl Ágúst  Úlfsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Davíð A. Stefánsson, varamenn Jón Kalman Stefánsson og Sigurbjörg Þrastardóttir.

Helstu verkefni Rithöfundasambandsins eru nú sem fyrr margháttuð hagsmunagæsla félaganna, upplýsingamiðlun varðandi höfundarrétt og útgáfumál, gerð samninga og uppfærsla á þeim samningum sem fyrir eru. Sambandið rekur Höfundamiðstöð sem veitir upplýsingar um höfunda, skipuleggur og aðstoðar við bókmenntakynningar hefur milligöngu um upplestra og kemur að mótun á bókmenntadagskrám. Sérstaklega ber að tiltaka verkefnið “Skáld í skólum” sem notið hefur mikilla vinsælda, viðamikil bókmenntadagskrá er kynnt í grunnskólum landsins í byrjun skólaárs og síðan fara rithöfundar tveir og tveir á stúfana eftir því sem pantanir berast og kynna ýmist eigin verk eða annarra höfunda.

Á skrifstofu Rithöfundasambandsins starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi, en auk ofangreindra verkefna annast hann rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins, svo og orlofshúsa sambandsins sem eru tvö að tölu, að Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Austur-Skaftafellssýslu.

Óhætt er að segja að þræðir Rithöfundasambandsins liggi víða. Á erlendum vettvangi störfum við með og sækjum árlega fundi í Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu, sem og Evrópuráði rithöfunda og eigum fulltrúa í nefndum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Á innlendum vettvangi tökum við þátt í fjölmörgum verkefnum sem tengjast bókmenntum og listum, eigum tvo af sex fulltrúum í Bókmenntasjóði, fulltrúa í Bókasafnssjóði, sæti í stjórnum Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri og Þórbergsseturs í Suðursveit. Þá eigum við fulltrúa í Fjölís en svo nefnast regnhlífasamtök sem hafa það hlutverk að standa vörð um hagsmuni rétthafa á tímum óðafjölföldunar þegar hugverk er orðið almenningseign í áður óþekktum mæli um leið og það lítur dagsins ljós. Þátttaka okkar í BÍL er sömuleiðis mikilvæg með áherslu á mótun þeirrar ásýndar og áru sem við viljum að listirnar hafi í þjóðlífinu. Það er sannfæring okkar að þær megni að blása landsmönnum hug í brjóst í yfirstandandi þrengingum og efla orðstír Íslands gagnvart umheiminum. Ekki síst er þá litið til Bókamessunnar í Frankfurt 2011 þar sem íslenskar bókmenntir verða í brennidepli, en um leið munu aðrar listgreinar njóta góðs af: myndlistarsýningar, tónleikar, leikverk verða leikin, kvikmyndir sýndar, erindi haldin, greinar skrifaðar og viðtöl tekin – allt í hinu æskilegasta ljósi.

Þetta litla dæmi ætti að sýn hver lífæð listirnar eru þessu landi og hve skammsýnt það er að skerða þeirra hlut í yfirstandandi þrengingum. En jafnframt ætti það að vera okkur listamönnum brýning um að vakna til vitundar um mikilvægi okkar og áskorun um að ganga opinskátt til leiks í viðreisn íslensks samfélags og tala þar máli listanna.

 

f.h. Rithöfundasambands Íslands,

Pétur Gunnarsson

 

Skýrsla stjórnar FÍL fyrir árið 2009

Árið 2009 hefur verið undarlegt hjá Félagi Íslenskra Leikara  eins og væntanlega hjá fleiri aðildarfélögum BÍL.Ótti og óvissa um framtíð listarinnar var og er mikil meðal minna félagsmanna , menn  óttuðust atvinnuleysi í greininni, hætt yrði við verkefni –  fækkað yrði stöðum við stofnannaleikhúsin, útvarpsleikhúsinu var lokað lungann úr árinu og lítið var framleitt af innlendu leiknu efni á sjónvarpstöðvunum, en þó var ljósið í  myrkrinu að um talsverða framleiðslu var á nýjum kvikmyndum – þó ekki væri um mikla peninga að ræða og menn unnu langt undir samningum þá voru þetta verkefni.  En það gerðist að leikhúsin fylltus kvöld eftir kvöld og er langt síðan aðsókn hafi verið meiri, það er að segja að stofnannaleikhúsunum ótrúlegar aðsóknartölur birtust og er hægt að segja að hver Íslendingur hafi komið einu sinni í leikhús miðað við þær tölur sem upp hafa verið gefnar.  Það hefur verið sagt og sannast hér að leikhúsin dafna í kreppunni.  Ástæðan fyrir þessari góðu aðsókn  að mínu áliti er hversu lágt miðaverðið er – að fara í leikhús er ekki dýrt og vitanlega á erfiðum tímum sækir fólk í það sem ódýrara er, leikhúsferð er mikil og góð upplifun og tæmir ekki budduna . En nú er orðið nokkurn veginn ljóst hvernig niðurskurðurinn ætlar að vega að menningunni – og hann er sýnu mestur og hryllilegastur í kvikmyndageiranum – sem þýðir auðvitað færri atvinnutækifæri fyrir mína félagsmenn – leikhúsin þurfa að mæta niðurskurði og maður heldur í vonina að ekki þurfi að koma til mikilla uppsagna  enn er ekki en ljóst hvernig leikhúsin ætla að bregðast við en ég held að þau komist ekki hjá því að fella niður af einhverjum þeim verkefnum sem voru á verkefnaskránni á næst ári – sem auðvitað þýðir færri verkefni fyrir mína félagsmenn.

Það er mikil ánægja með áfangann sem náðist um sviðslistarsjóðinn og vonast menn til að úthlutanir úr honum verði mikill innspýtingur fyrir frjálsu leikhópanna og að grasrótin megi eflast sem aldrei fyrr.  Annars er það að segja um starfið í félaginu almennt að talsverð aukning hefur verið nýjum félögum á árinu og er það fagnaðarefni.  Samningaviðræður hafa verið í gangi við hina ýmsu aðila – og hafa tekið ansi langan tíma – aðallega vegna óvissunnar sem óneitanega er í þessu samfélagi – við erum um þessar mundir í viðræðum við Sík og við Leikfélag Reykjavíkur – vonir um eihverjar launabætur eru takmarkaðar af eðlilegum ástæðum  en það er ýmislegt annað sem hægt

er að laga  í okkar samningum báðum aðilum til hagsbóta.  Svona til upplýsinga um félagið þá eru þar um 450 félagar – leikarar, söngvarar og dansarar – féagið verður 7o ára á næsta ári það er að segja á árinu 2011 og er væntanlega eitt að eldri stéttarfélögum landsins.

 

Randver Þorláksson, formaður

 

Skýrsla stjórnar FLÍ fyrir árið 2009

Félag leikstjóra á Íslandi telur í dag 93 félaga. Í stjórn félagsins sitja Kolbrún Halldórsdóttir, ritari, Gunnar Gunnsteinsson gjaldkeri og undirrituð, Steinunn Knútsdóttir formaður. Varastjórn skipa Kristín Eysteinsdóttir, Jón Gunnar Þórðarson og Stefán Jónsson en varastjórn situr alla stjórnarfundi.

Síðastliðið vor gerðust þau tíðindi að FLÍ fékk inngöngu í Bandalag háskólamanna. Þau stakkaskipti hafa haft í för með sér þörfina á endurskoðun á starfi leikstjórans. Nýjir samningar eru í smíðum sem taka mið af kjörum háskólamanna útfrá endurskilgreiningu á skyldum og ábyrgð leikstjórans og greiningu á vinnuumhverfi hans. Allir samningar hafa verið lausir síðan 2004 og engar horfur eru á að sviðslistastofnanir hafi tök á að bæta launakjör leikstjóra í bráð. Það hefur gefið ákveðið svigrúm til endurskoðunar á öðrum þáttum sem samningar taka á ss.vinnuumhverfi, skilgreiningum og mati á verkefnum, ábyrgð og skyldum launþega og launagreiðanda o.s.frv.  Er það vilji FLÍ að sviðslistastofnanir taki virkan þátt í þessari endurskoðun og hefur FLÍ boðað samningsaðila til samtals, þar sem ekki verður boðið uppá að karpa um krónur heldur verður áhersla á að ræða um hag listarinnar frekar en einstakra hagsmunaaðila samkomulagsins. Stærstu hagsmunirnir í málinu eru að mati FLÍ, hagsmunir áhorfandans og stefnir FLÍ að því að samningarnir stuðli að metnaðarfyllri sviðslistum á Íslandi, það verður best tryggt með því að búa listinni sem fjósamast umhverfi.Það er markmið og von FLÍ að nýjir samningar verði samþykktir af öllum sviðslistastofnunum í vor.

Á síðastliðnu ári átti sér stað vitundarvakning hjá leikstjórum og er gengst félagið nú fyrir allsherjar endurskoðun á ímynd, starfi og hlutverki félagsins.

Hluti af þeirra ímyndarbreytingu er ný ásýnd félagsins á veraldarvefnum og verður ný heimasíða tekin í notkun í byrjun febrúar 2010. Þar verður m.a. að finna umboðssíðu leikstjóra. Umboðssíðan verður metnaðarfull kynning á einstökum leikstjórum félagsmönnum FLÍ á íslensku og ensku og verður síðan auglýst í nágrannalöndum okkar. Það hefur verið markmið Norrænna leikstjóra að Norðurlöndin verði eitt atvinnusvæði og er þessi umboðsíða svar við þörf á aðgengilegum upplýsingum um framboð á íslenskum leikstjórum.  Það er von FLÍ að þessi síða verði til þess að styðja við íslenska leikstjóra sem starfa á alþjóðlegum vettvangi.

Félagið gaf út handbók leikstjórans í nóvember. Handbókin er hugsuð sem hjálpargagn eða gátlisti fyrir þá aðila sem koma að leiklistarstarfsemi hjá áhugaleikfélögum. Hún tekur á helstu þáttum leikstjórnar og hefur það að markmiði að stuðla að upplýsingu um eðli, ábyrgð og skyldur leikstjórans. Handbókin var kynnt á haustþingi Bandalags íslenskra leikfélaga í nóvember, haldinn var kynningarfundur með leikfélögum framhaldsskólanna auk þess sem FLÍ bauð leikurum sem stunda leikstjórn hjá áhugaleikfélögum, að kynna sér handbókina. Það er von FLÍ að handbókin verði til þess að áhugaleikfélög leiti frekar til atvinnuleikstjóra þegar ráða á leikstjóra til starfa.

Veitt var úr menningarsjóði FLÍ tvisvar á árinu og hlutu alls 9 félagar styrk úr sjóðnum.

Tvö fagleg örnámskeið voru í boði félagsins í haust annarsvegar var kynnt greingaraðferð sem liggur til grundvallar leiktúlkunarkennslu leiklistardeildar LHÍ sem Stefán Jónsson og Ásdís Þórhallsdóttir leiddu og hins vegar var í boði námskeið í námskeiðahaldi í umsjón Vigdísar Jakobsdóttur, fræðslustjóra Þjóðleikhússins og kennara við kennardeild LHÍ.

Í vor er fyrirhuguð menningarferð til Berlínar, sem félagið mun niðurgreiða fyrir félagsmenn.

FLÍ er aðili að NSIR Sambandi Norrænna leikstjórafélaga og sótti formaður árlegan fund sambandsins sem haldinn var í Helsinki í Nóvember. Fundurinn fjallaði m.a. um breytingar á starfi leikstjórans með nýmiðlum og fjölbreyttari vinnuaðferðum leikhússins. Rætt var um sameiginlega umboðssíðu Norrænna leikstjóra, uppeldishlutverk leikhússins og höfundarrétt leikstjórans. Ísland tekur við formennsku í sambandinu 2010 og verður fyrsti fundurinn á formennskuári Íslands haldinn í Reykjavík í vor.

Félag leikstjóra á Íslandi er hlaðið ögrandi, spennandi og verðugum verkefnum. Á tímum veraldlegrar kreppu er andinn öflugur.

 

Steinunn Knútsdóttir, formaður FLÍ

 

Skýrsla stjórnar FÍT fyrir árið 2009

Skýrsla formanns FÍT fyrir árið 2009. Stjórn F.Í.T. var endurkjörin á aðalfundi félagsins haldinn 10. júní 2009.

 

Kristín Mjöll Jakobsdóttir, formaður, Guðríður St. Sigurðardóttir, varaformaður, Þórir Jóhannsson, gjaldkeri, Hallveig Rúnarsdóttir, ritari, Jón Sigurðsson, meðstjórnandi.

Varastjórn: Sólveig Anna Jónsdóttir, Daníel Þorsteinsson, Vigdís Klara Aradóttir

 • Félagar í F.Í.T. eru nú 156, einleikarar, einsöngvarar og stjórnendur.

Félagið sinnir ýmsum hagsmunamálum félagsmanna og hefur umsjón með listrænum samstarfsverkefnum við ýmissa aðila. Fréttabréf og tilkynningar eru send rafrænt og erlendum samskiptum sinnt eftir föngum. Fjöldi nefndarstarfa fylgir formanns- og stjórnarstörfum. Félagið hefur aðstöðu í húsnæði FÍH að Rauðgerði 27 síðan 2006.

Félagið heldur úti heimasíðu www.fiston.is. Þar eru birtar fréttir og upplýsingar um verkefni og styrki ásamt auglýsingum sem varða félagsmenn og listalífið almennt.

Ársfundur Norrænu einleikarasamtakanna, Nordisk solistråd, var haldinn í Þórshöfn í Færeyjum 6.-7. nóvember síðastliðinu. Formaður sótti fundinn en með í för var Páll Eyjólfsson gítarleikari sem kom fram fyrir hönd FÍT á árlegum NordSol tónleikum sem eru samnorrænir tónleikar allra félaganna sex sem aðild eiga að ráðinu. Þetta var í fyrsta sinn sem hið tveggja ára Einleikarafelag Føroya efndi til fundar en það fékk formlega inngöngu í ráðið árið 2008.

Á þessu nýja ári 2010 er komið að FÍT að halda ársfund Nordisk solistråd á Íslandi. Félagið fagnar einnig 70 ára afmæli á árinu og af þessu tilefni hvoru tveggja verður haldin lítil tónlistarhátíð 10.-12. júní í tengslum við ársfundinn, í samvinnu við Norræna húsið og með styrk frá Norrænu menningargáttinni.

 

Hljómdiskasjóður FÍT.

Félagið veitir styrki af því fé sem úthlutað er af SFH fyrir leikna tónlist í fjölmiðlum. Árlegar eru veittir eftir föngum 2-5 styrkir til hljómdiskaútgáfu.

Á árinu 2009 voru veittir 2 styrkir.

 

Listræn samstarfsverkefni FÍT:

 • Tónleikar á landsbyggðinni

Verkefnið er í samstarfi við FÍH með styrk úr Tónlistarsjóði. Verkefnisstjóri annast umsýslu styrksins sem greiðir hluta þóknunar flytjenda á tónleikum á landsbyggðinni. Samstarf er við rúmlega 30 sveitarfélög og tónlistarfélög. Verkefnisstjóri er nú Vigdís Klara Aradóttir. 11 tónlistarhópar og einleikarar fengu úthlutun á árinu 2009. Nokkur samdráttur varð á árinu vegna fjárhagserfiðleika samstarfsaðila en brugðist var við því með ýmsum hætti.

 

 • Tónleikaröð í Norræna húsinu, Klassík í Vatnsmýrinni

Farsælt samstarf við Norræna húsið hófst í byrjun árs 2009 en árið áður var tónleikaröðin á Kjarvalsstöðum. Stefnt er að fernum tónleikum á ári, tvennum með íslenskum flytjendum og tvennum með norrænum eða alþjóðlegum flytjendum, t.d. í samvinnu við aðildarfélög Nordisk solistråd. Árið 2010 verður boðið ítölskum aðilum boðið til tónleikahalds og samstarfs.

Norræn samvinna um tónleikahald er atriði sem F.Í.T. hefur lagt ríka áherslu á í samstarfi sínu við aðildarfélögin í Nordisk solistråd. Fyrir tilstilli F.Í.T. er komið á fast tónleikahald, NordSol tónleikar, í tengslum við árlega fundi Nordisk solistråd þar sem einleikarar frá öllum aðildarfélögum koma fram. Fundirnir eru haldnir til skiptis í aðildarlöndunum.

Nú er einnig hafið samstarf um skipti á einleikurum milli tónleikaraða félaganna. Þetta felur í sér að á árinu 2009 komu bæði finnskir og danskir einleikarar til Íslands og héldu tónleika í Norræna húsinu í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni. Félagið naut styrks frá Norræna menningarsjóðnum vegna norrænu tónleikanna í ár ásamt tónleikum sem efnt var til úti á landi með sömu listamönnum. Íslenskir einleikarar , Duo Nordica, fóru í staðinn til Finnlands og héldu tónleika í Sellosali í tónleikaröð finnska einleikarafélagsins, Suomi solistiyhdistys. Einnig er gert ráð fyrir að íslenskir einleikarar fari til Danmerkur á árinu 2010.

Félagsmönnum aðildarfélaganna býðst að sækja um lausar vikur í íbúð Norsk Tonekunstnersamfund í Berlín gegn sanngjörnu verði.

 

 • Samstarf við Gerðuberg

10 ára samstarfi um Dag hljóðfærisins í samstarfi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg með styrk frá Reykjavíkurborg lauk 26. október 2008. Stefnt er að áframhaldandi samstarfi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg á næstu árum, nú með áherslu á verkefni fyrir börn.

 

Nefndir og ráð sem FÍT á aðild að:

 • Bandalag íslenskra listamanna
 • Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda
 • Samtónn
 • Íslensku tónlistarverðlaunin
 • Tónlistarráð
 • Tónlist fyrir alla
 • Samtök um byggingu tónlistarhúss
 • Listahátíð
 • Nordisk Solistråd

 

Ársskýrsla forseta BÍL fyrir árið 2009

Við lifum á óvenjulegum tímum. Við sem komin erum fram yfir miðjan aldur þekkjum í rauninni aðeins hægfara umbreytingar til hins betra í efnahagslegu tilliti, að frátöldum minniháttar niðursveiflum, sem einkum stöfuðu af aflabresti, eins og þegar Íslendingar kláruðu síldina með kappsfulltri ofveiði á 7. áratugnum..Sögur höfðum við heyrt um einhvern Íslandsbanka sem fór á hausinn snemma á 20. öldinni, en það kom lítið við okkur og enginn fann að því að upp væri tekið nafn þessa gjaldþrota banka þegar nokkrar fjármálastofnanir voru sameinaðar undir þeim hatti fyrir nokkrum árum.

Í október 2008 fer svo viðkomandi banki á hausinn ásamt hinum bönkunum tveim, og síðan hafa Íslendingar þurft að eiga við afleiðingarnar og eru ekki nálægt því að afgreiðar þær. Samdráttur hefur orðið á öllum sviðum, niðurskurður hins opinbera er einungis ein birtingarmynd þess af mörgum, og allir vita að enn meiri niðurskurður er í vændum, ekki síst hjá því opinbera. Á slíkum tímum heyrum við gjarnan hugleiðingar í þá veru að listirnar séu lúxusfyrirbæri, og spurt er hvort ekki sé beinlínis skynsamlegt að leggja niður opinberan stuðning við listamenn og nota féð í eitthvað brýnna.

Við erum sem sagt komin í vörn. Ég get tekið nærtækt dæmi úr kvikmyndunum. Á uppgangsárunum frá 2000 – 2006 var engin umtalsverð aukning á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar. Þá var sest niður og gerð fjögurra ára áætlun, til ársins 2010, þar sem loksins skyldi bætt úr þessari vanrækslu við grein sem augljóslega hafði staðið sig með prýði og aukinheldur aflað gjaldeyristekna, meira að segja voru haldgóð rök fyrir því að greinin skilaði í heild meiri tekjum til ríkissjóðs en næmi framlagi Kvikmyndasjóðs til framleiðslunnar.

Við fögnuðum samkomulaginu um kvikmyndagerðina á sínum tíma. Sérstök áhersla var lögð á að styrkja nýstofnaðan, en afar veikan sjónvarpssjóð. Hann nýttist síðan til að hleypa af stað framleiðslu leikinna þáttaraða sem hafa mælst afar vel fyrir og raunar selst út fyrir landsteinana. Árið 2010 áttu, samkvæmt samningi menntamálaráðuneytisins við kvikmyndageirann, 700 milljónir að fara til Kvikmyndamiðstöðvar – álíka upphæð og nú fer í Þjóðleikhúsið. Í raun verður upphæðin 450 milljónir. Munurinn er 35,7%.

En árið 2009 byrjaði reyndar fremur vel fyrir listamenn, þó að undarlegt megi virðast. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi menntamálaráðherra hafði heitið því að fjölga starfslaunum listamanna og talað var um þriðjungs fjölgun auk smávægilegrar hækkunar launanna sjálfra. Þessum árangri hefðum við ekki náð ef BÍL hefði ekki tekið málið aftur á dagskrá og lagt séstaka áherslu á það síðastliðin tvö ár. Þetta hafði verið rætt nógu lengi sem sérstakt sanngirnismál til að erfitt væri að bakka með það, þrátt fyrir erfitt árferði, og undir lok 2008 var kjörin viðræðunefnd BÍL við ráðuneytið sem átti mikilvægan, daglangan fund með hlutaðeigandi aðilum fyrir rétt um ári síðan, eða nánar tiltekið 7. janúar 2008.

Á þessum mikilvæga fundi tókst að komast að niðurstöðu um skiptingu milli hinna ýmsu sjóða, ennfremur voru gerðar smávægilegar breytingar á fyrirkomulaginu. Við héldum síðan stjórnarfund 12. janúar þar sem eftirfarandi ályktun var samþykkt:

Stjórn BÍL lýsir yfir ánægju sinni með framkomna tillögu um listamannalaun og styður hana fyrir sitt leyti. Jafnframt telur stjórnin afar jákvætt að fá að fjalla um frumvarpið á þessu stigi málsins.

Stjórnin álítur að rétt sé að skilja á milli tónlistarflytjenda og sviðslistafólks, sem hingað til hafa verið saman í listasjóði, með því að stofnaðir verði tveir aðgreindir sjóðir.

Þegar til kom virtust þessar breytingar standa svolítið í ráðuneytinu, þeim fannst þær ekki vera eðlileg niðurstaða af fundinum 7. janúar. Ég átti býsna erfiðan fund með tveim starfsmönnum ráðuneytisins 26. janúar, þar sem allt virtist sigla í strand á því prinsippi að ekki mæti skipta Listasjóði í tvennt. Því var haldið fram að ekki ríkti einhugur innan BÍL um málið. Ég fór af fundinum með þá spurningu í huga hvort ráðuneytið væri að guggna á þessu og reyna að koma sökinni af misklíðinni yfir á listamenn sjálfa. Það kom reyndar aldrei fram vegna þess að síðar þennan sama dag féll ríkisstjórnin, og þá var ljóst að Þorgerði Katrínu mundi ekki gefast færi á að tala fyrir málinu að sinni.

Þann 31. janúar héldum við aðalfund okkar. Ályktanir fundarins voru bornar í ráðuneytið strax eftir helgina, en á því augnabliki hafði ég litlar vonir um að á þeim yrði tekið mark.

Um viku síðar tók við minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna, með stuðningi Framsóknar. Nýr mennta- og meningarmálaráðherra var Katrín Jakobsdóttir. Sjálf nafnabreytingin á embættinu fannst okkur strax boða gott. Við sendum Katrínu samdægurs heillaóskir, auk þess sem hún fékk ályktanir aðalfundar sendar daginn eftir. Þær voru í grunninn þrjár: um starfslaun listamanna, um atvinnuöryggi listamanna og um tónlistarhús. Þann 16. febrúar var ég á fundi í ráðuneytinu, og þar fékk ég að vita, öldungis óformlega, að nýr menntamálaráðherra ætlaði sér að leggja frumvarpið um listamannalaun fram á yfirstandandi þingi. Í rauninni heyrðist mér á viðmælanda mínum að Katrín Jakobsdóttir hyggðist taka allar ályktanir BÍL alvarlega.

Þetta tók ég til umræðu á stjórnarfundi kl 4 sama dag. Ég lagði jafnframt ríkt að öllum að rjúfa í engu samstöðuna sem komin var um öll atriði málsins. Vikurnar sem í hönd fóru átti ég gott samstarf við Sigtrygg Magnason, aðstoðarmann ráðherra, og til þess var séð að vilji listamanna væri skýr og hvergi misfellur að sjá. Eftir frekari umræður hafði verið afráðið að halda fast við ályktunina 12. janúar,og á endanum var hún tekin til greina. Listasjóðnum var skipt upp (og hér kemur fram hvernig sjóðirnir vaxa næstu þrjú árin).

Katrín Jakobsdóttir ákvað að koma lögunum í gegnum þingið á þeim skamma tíma sem þessi stjórn ríkti. Þetta kom fram á hinum hefðbundna samráðsfundi sem stjórn BÍL á árlega með ráðherranum og fulltrúum ráðuneytisins. Mér fannst við hafa þarna ráðherra sem vildi raunverulega hlusta á okkur og jafnvel eitthvað fyrir okkur gera. Á fundinum var lögð sérstök áhersla á stöðu listdansins, Irma Gunnarsdóttir talaði máli listdansara og náði greinilega eyrum ráðherrans. Þar tel ég að sé að finna ástæðu þess að framlög til Íslenska dansflokksins voru hækkuð í síðustu fjárlögum, á meðan allir aðrir máttu þola niðurskurð.

Ný lög um listamannalaun voru síðan samþykkt á alþingi og er þess að vænta að fjölgun starfslauna hefjist strax á þessu ári.

Samráðsfundur var einnig haldinn með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, og þótti takast vel. Þar var lögð fram nýsamþykkt menningarstefna borgarinnar, og verður hún að teljast mikil betrumbót frá fyrri stefnu. Margir frá BÍL lögðu þar hönd að verki, bæði innan stjórnar og utan.

Allsérstakt deilumál kom upp þegar menningar- og ferðamálaráð borgarinnar ákvað að tilnefna fatahönnuð sem borgarlistamann. Fulltrúum BÍL í ráðinu fannst rétt að leggja fram bókun þar sem minnt var á þá 3000 listamenn sem væru í samtökum okkar. Þessi bókun fór illa í marga og komu fram yfirlýsingar og greinar í blöðin, sumar allstóryrtar. Frá upphafi hefur mér fundist þessi andstaða byggð að verulegu leyti á misskilningi. Ég veit að sumir þeir sem fyrst fóru af stað höfðu ekki lesið bókun okkar, en hefðu þeir gert það hefðu þeir komist að því að hún er varfærin, málefnaleg og raunar kurteisleg. Þar kemur hvergi fram sú skýring sem skein í gegnum flest skrif á móti okkur Áslaugu Thorlacius, að með þessu væru listamenn að líta niður á hönnuði og teldu þá ekki þess verða að vera í hinum göfuga hópi listamanna.

Í grunninn vorum við einungis að verja hagsmuni þeirra sem höfðu valið okkur til trúnaðarstarfa. Ég held raunar að BÍL þurfi einmitt að vera vel á varðbergi til að halda í það sem við þó höfum og glopra því ekki frá okkur. Listamenn hafa haft mikið fyrir því að fá valdhafa til að koma á fót margvíslegum stofnunum og launa- og styrkjakerfi fyrir listirnar í landinu; heiðursnafnbætur eru hluti af þessu, enda fylgja slíkum upphefðum fjármunir og eftirsóknarverð athygli. Um allt þetta þarf að standa vörð, ekki síst á samdráttartímum.

Málið var tekið fyrir á stjórnarfundi BÍL, og niðurstaðan var stutt yfirlýsing sem allir viðstaddir samþykktu. Þarna lagði ég til að við óskuðum borgarlistamanni til hamingju, ég sendi Steinunni Sigurðardóttur, fatahönnuði, síðan blómvönd með þeim hamingjuóskum.

Hvað hönnuðina snertir vil ég taka það skýrt fram að BÍL er ekki andstætt þeim. Ég vil benda á tvennt þessu til sönnunar: þegar kom fram tillaga frá minnihlutanum í menningar- og ferðamálaráði um að stofna sérstök hönnunarverðlaun borgarinnar studdum við BÍL-fulltrúar það eindregið, en meirihlutinn vildi ekki fara þá leið. Í öðru lagi hófum við í stjórn BÍL árið á því að samþykkja að stofnaður yrði nýr sjóður fyrir hönnunina í lögunum um starfslaun listamanna. Þar eru þó hönnuðir taldir meðal listamanna, enda ekkert því til fyrirstöðu.

Raunar tel ég gleðilegt hve ýmiskonar hönnun hefur fleygt fram undanfarið – og tala ég þar væntanlega fyrir munn flestra hér inni. Ég get vel séð fram til þess tíma að hönnuðir gangi í okkar raðir, en tel óhjákvæmilegt að það gerist í góðu samstarfi við myndlistarfólk, sem hljóta að teljast hönnuðunum skyldastir.

Reyndar hafði Fatahönnunarfélagið samband við mig í haust, fyrst í tölvubréfi og síðan í símtali, og ræddi um að senda inn umsókn. Ég hvatti formanninn til að gera það, umsóknin yrði síðan tekin fyrir á stjórnarfundi. Hvað síðan gerðist veit ég ekki – aldrei barst umsóknin.

Svo sem kunnugt er eru fulltrúar BÍL í menningar- og ferðamálaráði tveir. Á síðasta ári sat ég í öðru sætinu, en Áslaug Thorlacius í hinu fyrri hluta ársins og Þuríður Sigurðardóttir frá septemberbyrjun. Við í stjórn BÍL höfum stundum rætt um að breyta fyrirkomulaginu og gefa fleiri fulltrúum kost á að sitja fundi ráðsins. Á það hefur ekki verið knúið undanfarið, og á meðan svo er munum við Þuríður sækja þessa fundi fyrir hönd BÍL.

Nokkrum sinnum hafa hinir pólitísku fulltrúar í ráðinu haft á orði að í staðinn fyrir að hafa tvo fulltrúa frá listunum ætti einn að vera þaðan, en hinn væri fulltrúi ferðamálanna. Hér er því komið enn eitt dæmið um stöðu sem þarf að gæta vel að og sjá til að verði ekki frá okkur tekin.

Vert er að geta þess að í menningar- og ferðamálaráði hefur ríkt nokkuð góður andi. Mun meira samstarf er á milli flokkanna en ég hef áður séð, og er það guðsþakkarvert, ekki síst þegar draga þarf úr útgjöldum. Ýmsar aðhaldsaðgerðir hafa lent á listamönnum. T.d. voru fastir samningar teknir til endurskoðunar og óumbreytanleg og heilög atriði eins og vísitölubindingar voru þurrkuð út. Tekið var fyrir ókeypis húsnæði, sem bitnaði illa á myndlistarmönnum, í höfðustöðvum þeirra í Hafnarstræti sem og aðstöðu myndhöggvara, auk þess sem hærri leigu var krafist á Korpúlfsstöðum og víðar. Rithöfundar þurftu að byrja að borga fyrir Dyngjuveginn og svo framvegis. Dregið var stórlega úr samningsbundinni hækkun til Leikfélags Reykjavíkur – og það eftir að leikárið hófst, sem allir viðurkenna að hafi verið einkar óheppilegt. Þetta eru svo sannarlega óvenjulegir tímar.

Annars hófu borgaryfirvöld aðhalds- og hagræðingaraðgerðir sínar yfirleitt fyrr en ríkið. Samdrátturinn í borginni var að mestu unninn í sátt, þetta var einfaldlega verk sem þurfti að vinna, auðvitað varð niðurstaðan minni þjónusta við borgarana, en þeir sem best þekktu til virtust þó oftast með í ráðum. Ríkið tók frekar þá stefnu að hliðra til málum og gera listgreinum mishátt undir höfði og fórst það að mínu viti heldur óhönduglega, auk þess sem allt of seint var farið út í þá vinnu og án ráðslags við sjálfa fagaðilana.

Ríkið ákvað að draga mun meira úr framlögum til sjóða en til stofnana. Hér er fram komið stórmál sem við þurfum að bregaðst við. Ráðamönnum finnst þeir vera með þessu að varðveita störf – sem vissulega má til sanns vegar færa. Á hitt hef ég svo haft margvíslega ástæðu til að benda, bæði hjá ríki og borg, að stuðningur við listastarfsemi er ekki síður atvinnuskapandi. Að lækka framlög til sjóða getur raunar gert mun fleiri atvinnulausa en að lækka framlög til stofnana. Ríkið gekk miklu lengra í þessu en borgin, starfslaun listamanna eru í rauninni eina undantekningin. Framlög til sjóða voru almennt lækkuð hjá ríkinu um 15–20 % frá tölum síðasta árs.

Við erum í vörn. Á ársfundi Listahátíðar hafði borgarstjóri á orði yfir kveðjuskálinni að lagt hefði verið að henni að skera menningarframlög niður um 50%. Svo var þó ekki gert. Þvert á móti fór borgin í samvinnu við ríkið til að ljúka byggingu tónlistarhúss, og niðurskurður í menningar- og ferðamálaráði var ekki meiri en annars staðar í borgarkerfinu. Það er vonandi að ekki verði breyting á þeirri stefnu hjá Reykjavíkurborg, en fyrir því er hreint ekki nein trygging, einkum í ljósi þess að sveitarstjórnakosningar verða í vor og engin leið að spá um hvaða stefna verði ríkjandi næsta sumar.

Á fundi hjá Reykjavíkurakademíunni sl. vor auglýsti ég eftir menningarstefnu ríkisins. Katrín Júlíusdóttir, menningarmálaráðherra, var á staðnum og stakk upp á þvi að við listamenn byrjuðum að skrifa slíka stefnu. Við í stjórn BÍL brugðumst skjótt við, og mikið starf var unnið í sumar og fram á haust. Við réðum Njörð Sigurjónsson frá Háskólanum á Bifröst til að stjórna verkinu, og að hans ráði var lögð áhersla á listirnar og verkefnið kallað listastefna. Unnið var í fimm hópum eftir listgreinum. Um þær mundir sem hóparnir skiluðu af sér, komu fram upplýsingar um yfirvofandi niðurskurð, og þá þótti stjórn BÍL rétt að fresta frekari vinnu fram yfir áramót.

Í sumar var svo ráðinn maður til að ritstýra menningarstefnu ráðuneytisins, Haukur F. Hannesson, sem okkur er að góðu kunnur frá síðasta aðalfundi. Á fundi með ráðuneytinu í sumar kom skýrt fram að litið er á listastefnu BÍL sem mikilvægt framlag til menningarstefnunnar. Hins vegar er svolítið merkilegt að við skyldum hvött til að móta stefnuna – og gerum það án þess að nokkur fjárhagslegur stuðningur komi fyrir – en maður síðan ráðinn í sams konar vinnu án nokkurs samráðs við okkur.

Barátta haustsins hefur einkum snúist um fjárlög alþingis. Fundir voru haldnir með menntamálanefnd og fjárlaganefnd. Þetta voru upplýsandi fundir. Engum dylst að ríkið þarf að draga úr útgjöldum, og við sem störfum í menningargeiranum verðum að horfast í augu við þá staðreynd að ákaflega mörgum þykir upplagt að byrja hjá okkur. Það er hreint ótrúlegt að sjá hve margir líta á störf listamanna sem eitthvað sem hægt sé að leggja niður með ofureinföldum hætti, framlag okkar til þjóðfélagsins í heild er stórum vanmetið og gildir nánast einu hvar í flokki menn eru, þó að þetta sé kannski greinilegast í Sjálfstæðisflokknum.

Á mikilvægum stjórnarfundi í október síðastliðnum fórum við yfir drög að fjárlögum. Kolbrún Halldórsdóttir var tekin við af Steinunni Knútsdóttur sem fulltrúi leikstjóra í stjórn BÍL, og ég vil sérstaklega taka fram að við nutum góðs af pólitískri reynslu hennar í því sem nú fór í hönd. Við ákváðum að leggja megináherslu í fernt í málflutningi okkar: Kvikmyndamiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Sjálfstæðu leikhúsin og safnlið listastarfsemi , en undir hann ganga m.a. Bókmenntasjóður og Tónlistarsjóður. Almennt tel ég að skynsamlegt hafi verið að setja ákveðin mál á oddinn.

Ég dreg þann lærdóm af viðræðum við alþingismenn að erfitt sé að hafa áhrif á mál eftir að þau eru komin í hendur alþingis. Heppilegra sé að reyna að ná samstarfi um þau við mennta- og menningarmálaráðuneytið, meðan þau eru í mótun þar. Þar finnst mér hins vegar oft skorta áhugann. Vitaskuld erum við í grunninn þrýstihópur sem alltaf er að biðja um meiri fjárframlög, og vafalaust fer það í taugarnar á ráðuneytisfólkinu. Ég held þó að einmitt á niðurskurðartímum sé heppilegt að hafa samráð við okkur áður en róttækar ákvarðanir eru teknar, þó ekki væri nema til veita okkur tækifæri til að upplýsa viðkomandi um það sem á spýtunni hangir okkar megin. Ég tók t.d. eftir því að það kom alþingismönnum á óvart að Sjálfstæðu leikhúsin hefðu fengið yfir 30 milljónir úr fjölþjóðlegum sjóðum í verkefni ársins sem nú er að byrja. Tölulegar upplýsingar um kvikmyndagerðina vöktu einnig óskipta athygli alþingismanna, hvar í flokki sem þeir stóðu. Kristján Þór Júlíusson hafði á orði að við mættum vera háværari um hagrænt framlag listamanna til þjóðfélagsins.

Utanríkisráðherra sendi mér tölvuskeyti sem svar við ályktunum okkar. Þar segir:

“Í fljótu bragði sýnist mér að BÍL hafi ekki komið auga á nytsemd tilvonandi Íslandsstofu varðandi listir, og útflutning menningar. Ég tel, að takist vel til með hana, þá gæti þar orðið um drjúga lyftistöng f. íslenska menningu að ræða. Menningariðja sem útlöndum tengist er þar reifuð í frumvarpi um stofuna, sem ein af burðarstoðum í framtíðarverki hennar.” Hvort sem þarna er að finna laust á vanda Sjálfstæðu leikhúsanna og Kynningarmiðstöðvar myndlistar eður ei, þykir mér af þessum sökum við hæfi að fá nokkra vitneskju um Íslandsstofu síðar á þessum fundi.

Undir lok ársins lenti ég í blaðadeilum um lottó. Ég skrifaði fyrst grein þar sem ég benti á að víðast í nágrannalöndum okkar er hagnaður af lottóinu nýttur að verulegu leyti til að styrkja menningarmál. Þó að ég hafi leyft öðrum að hafa síðasta orðið um þetta að sinni, er málinu engan veginn lokið og verður tekið upp aftur í fyllingu tímans.

Aðrar blaðagreinar mínar á árinu voru, í vor, um starfslaun listamanna og, í haust, um niðurskurðinn í menningarmálum með áherslu á kvikmyndagerðina.

Litróf listanna var enn í gangi í vor, kynning í grunnskólum á nokkrum listgreinum, en niðurskurður til skólanna hefur orðið til þess að þeir hafa stórum dregið úr kaupum á þess háttar kynningum. Í þessu felst enn ein birtingarmynd kreppunnar og jafnframt lítið dæmi um það hvernig listamenn verða af tekjuskapandi verkefnum. Það er raunar áhyggjuefni hvað heimsóknum listamanna í skóla hefur fækkað sökum samdráttarins.

Forseti er gjarnan fenginn í ýmis verkefni sem standa utan við venjubundin félagsstörf. Í tvö ár í röð hef ég verið í dómnefnd um styrki Landsbankans við námsmenn, svo dæmi sé tekið.

Ég hóf skýrsluna á kvikmyndagerðinni. Niðurskurðurinn þar var meiri en annars staðar. Hann var í rauninni óskiljanlegur, þó ekki væri nema í ljósi þess hve margt hefur verið gert vel þar á bæ undanfarið. Í tillögum ráðuneytisins til fjárlagagerðarinnar kom fram pólitísk menningarstefna, sem gekk greinilega út á það að gera veg þessarar greinar minni en annarra. Það er ekki flóknara en svo. Þannig er sú menningarstefna sem nú er í gildi.

En ég hef grun um að svipaður niðurskurður sé á teikniborðinu hvað ýmsar aðrar listgreinar varðar, þó að ekkert hafi verið upplýst um það. Og hvernig á að bregðast við þvi? Í kvikmyndagerðinni vorum við þó með nokkuð sannfærandi hagræn rök, og þeim er ekki fyrir að fara í öllum listgreinum. En ég er síður en svo þeirrar skoðanir að list eigi endilega að borga sig. Við hljótum að leggja fram þau rök að listin sé siðuðu þjóðfélagi nauðsyn, að listin sé ein af máttarstoðunum undir sjálfstæði þjóðarinnar, og að listin sé raunar órjúfandi hluti af velferðarkerfinu.

Eitt er að minnsta kosti ljóst, að það verður enn frekar skorið niður á þessu ári. Nú þegar er vitað um hagræðingarkröfu þá sem lögð verður á menningar- og ferðamálaráð: 5,6%. Tilhneigingin er fyrir hendi að skera niður styrkjapottinn svokallaða, en við munum gera okkar besta til að tryggja að hann verði ekki minnkaður til muna og alls ekki um meira en sem nemur þessari prósentutölu.

Gagnvart ríkinu er sjálfsögð krafa okkar að fá að vera meira í ráðum um stefnu dagsins í dag. Það er ekki nóg að bjóða okkur að senda inn skriflegt framlag okkar til menningarstefnu ríkisins, á meðan hún er í reynd keyrð áfram af fólki sem helst vill komast undan því að hlusta á okkur. Á að senda ráðherranum óskalista hinna ýmsu listgreina þegar sá hinn sami ráðherra telur sig stöðugt knúinn til að draga úr virkni listgreinanna með æ minnkandi fjárframlögum? Það er afar erfitt að vera með stórhuga framtíðaráform við slíkar aðstæður.

En framtíðarsýn er þó eitthvað sem við höfum alltaf verið að biðja um, og því álít ég rétt að taka aftur upp vinnuna við listastefnuna og ljúka henni eigi síðar en í vor. Ráðherrar koma og fara. Einhvern tíma á þjóðin eftir að rétta úr kútnum eftir efnahagsslys undanfarinna ára. Örlög ríkisstjórna breyta því ekki að listamenn eiga sína framtíðarsýn, og hana er best að móta sem best og nákvæmast.

Ágúst Guðmundsson

Aðalfundur BÍL

Aðalfundur BÍL verður haldinn í Iðnó, laugardaginn 9. janúar. Hann hefst klukkan eitt eftir hádegið með venjulegum aðalfundarstörfum. Síðar um daginn verður umræða um hina fyrirhuguðu Íslandsstofu.

Reykjavík, 23. desember 2009

 

Aðalfundarboð

Hér með er boðað til aðalfundar Bandalags íslenskra listamanna laugardaginn 9. janúar 2009. Fundarstaður verður Iðnó við Tjörnina.

Kl. 13:00             Hefðbundin aðalfundarstörf.

Skýrsla forseta, reikningar, stjórnarkjör, skýrslur aðildarfélaga, ályktanir, önnur mál.

 

Í lögum BÍL stendur:

Hvert aðildarfélag skal skila skriflegri greinargerð um starfsemi sína og tilnefningu fulltrúa a.m.k. hálfum mánuði fyrir aðalfund, ásamt félagatali og lagabreytingum.

Á stjórnarfundi 14. desember sl. var samþykkt að birta skýrslur aðildarfélaga á vefsíðu BÍL, en láta í staðinn af lestri þeirra á aðalfundi.

 

Kl. 15:00                        Kaffi

Kl 15:30                        Málþing um Íslandsstofu

Kl. 16:30                        Kveðjuskál

 

Í lögum BÍL stendur ennfremur:

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði.

Þegar um sambandsfélög er að ræða, geta þau auk þess tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan síns sambands.

 

Ágúst Guðmundsson

Forseti BÍL

 

Fyrirmyndarlottó

Bretar halda því gjarnan fram að þeirra lotterí sé það árangursríkasta í Evrópu, og ýmislegt bendir til þess að það sé ekki fjarri lagi. Frá upphafi hefur það varið 23 milljörðum punda í “góð málefni”, sem svo kallast, en það reiknast á okkar ótrúlega gengi 4.662 milljarðar íslenskir.

 

Á síðasta ári skiptist féð í stórum dráttum þannig á milli góðu málefnanna:

Heilbrigðismál, menntun, umhverfis- og góðgerðarmál 50%

Íþróttir 16,67%

Listir 16,67%

Þjóðararfur 16,67%

 

Það sem Íslendingum kann að virðast athyglisvert er að þarna standa listirnar jafnfætis íþróttunum. Þjóðararfleifðinni eru gerð sömu skil, enda kostar ekki lítið að halda við höllum og skrúðgörðum, sem síðan skilar sér að einhverju leyti aftur með ferðamannastraumnum.

Á þetta er bent svo að fólki sé ljóst að íslenska fyrirkomulagið, að stærsti hluti lottópeninganna fari í að styrkja íþróttir, telst til undantekninga í okkar heimshluta. Víðast hvar eru þessar tekjur einnig notaðar til að styrkja menningarlífið, bæði innviði þess og einstaka viðburði.

Einn kosturinn við lottóið felst í því að unnt er að bregðast við af örlæti þegar mikið liggur við. Þegar stór átaksefni koma upp getur þessi öflugi sjóður komið að verulegu liði. Í Bretlandi má nefna sem dæmi fyrirhugaða Ólympíuleika, og þar er verið að tala um háar upphæðir. En margvíslegir menningarviðburðir hafa einnig notið góðs af lottóinu, jafnt stórir sem smáir.

Vitaskuld er auðvelt að benda á verðug verkefni innan íþrótta hérlendis, en þau er líka að finna í menningunni. Nefna má bókastefnuna í Frankfurt, þar sem Ísland verður í heiðurssæti árið 2011, nú eða bara Listahátíð, sem hefur misst umtalsverðan stuðning frá einkageiranum, rétt eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er vissulega rétt að íþróttirnar hafa misst af stuðningi margra fyrirtækja, en það sama má ekki síður segja um menningarmálin. Um árabil var reiknað með því að einkageirinn sæi um vöxtinn í ýmsum listgreinum, og líklega er þar að finna ástæðu þess að víða stillti ríkisvaldið hækkunum á framlagi sínu í hóf á meðan best áraði. Með hruninu fór botninn úr þessu annars ágæta fyrirkomulagi, rétt eins og það gerði hjá fleiri aðilum, m.a. íþróttahreyfingunni.

Kannski það sé ekki svo ósanngjarnt að hafa þessa helmingaskiptingu á milli íþrótta og lista, þegar kemur að lottóinu. Það virðist gefast vel í Bretlandi. Því ekki líka hér á Íslandi? Öfugt við Íslendinga eru Bretar ófeimnir að upplýsa í hvað peningarnir fara og nota það stöðugt í auglýsingum fyrir lottóið. Áður en dráttur fer fram eru kynnt málefni sem notið hafa stuðnings, og er þar af ýmsu að taka. Þeir sem unna listum og menningu vita að þeirra hugðarefni njóta góðs af þessari starfsemi ekki síður en þeir sem unna íþróttunum. Og það held ég að efli þessa fjáröflunaraðferð og eigi sinn þátt í  vinsældum hennar og velgengni í Bretlandi.

 

Birtist í Fréttablaðinu 16.12 2009

 

Kvikmyndahaust?

Forseti BÍL átti þátt í að semja grein um niðurskurð á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar. Greinin birtist svo í Fréttablaðinu 17. desember 2009, sama dag og hópurinn gekk fyrir menntamálaráðherra til að hnykkja á röksemdum sínum.

Öllum er ljóst að skera þarf niður útgjöld ríkisins. Það gildir jafnt um menningarmál sem aðra málaflokka. Okkur undirrituðum þykir hins vegar ótækt hve hart er gengið að kvikmyndagerðinni umfram aðrar listgreinar og raunar umfram aðrar starfsgreinar þessa lands.

Samkvæmt síðustu fregnum verður framlag til Kvikmyndamiðstöðvar lækkað um 140 milljónir frá framlagi síðasta árs, sem er tæplega fjórðungs lækkun. Sé hins vegar miðað við samning þann sem kvikmyndagerðin undirritaði ásamt þremur ráðherrum við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum árið 2006 er lækkunin rúmur þriðjungur.

140 milljónir jafngilda tveggja ára framlögum úr Sjónvarpssjóði. Varla er það vilji Alþingis að leggja af þær vinsælu og almennt vel heppnuðu þáttaraðir sem framleiddar eru fyrir atbeina sjóðsins.

Opinbert framlag nemur aldrei meira en helmingi kostnaðar við hvert einstakt verkefni. Niðurskurður um 140 milljónir nemur því a.m.k. helmingi hærri upphæð til greinarinnar eða a.m.k. 280 milljónum.

Erfitt er að finna þá listgrein sem leggur jafnmikið til þjóðarbúsins og kvikmyndagerðin. Rök hafa verið að því leidd að ríkið fái allt sitt framlag til baka og vel það. Þau rök virðast ekki hafa sannfært þá sem ráða Íslandi nú.

Því skal svo haldið til haga að verðmætasköpun í kvikmyndagerðinni er tvenns konar: í beinum tekjum og í menningarauði. Íslenskar kvikmyndir eru hið raunverulega þjóðarleikhús – myndirnar eru teknar upp um land allt og þær fara auðveldlega fyrir augu allra, hvar á landinu sem fólk býr. Þær hafna gjarnan í sjónvarpinu, þar sem þær hafa löngum verið helsta leikna innlenda efnið, einkum á stórhátíðum. Ennfremur eru þær fluttar til útlanda, sýndar í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi víða um heim. Kunnugir telja að fátt sé betri landkynning en íslenskar kvikmyndir. Þær eru hin óbeina auglýsing sem gagnast betur en bein sölumennska. Á tímum niðurlægingar Íslands er meiri þörf á slíku en nokkru sinni fyrr.

Við skorum á ráðamenn þjóðarinnar að beita skynsemi og draga enn úr niðurskurði á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar.

Ari Kristinsson
Formaður Sambands íslenskra
kvikmyndaframleiðendaÁsdís Thoroddsen
F.h. Félags sjálfstæðra
kvikmyndaframleiðenda

Friðrik Þór Friðriksson
Formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra

Randver Þorláksson
Formaður Félags íslenskra leikara

Ágúst Guðmundsson
Forseti BÍLBjörn Brynjúlfur Björnsson
Formaður Íslensku kvikmynda-
og sjónvarpsakademíunnar

Hjálmtýr Heiðdal
Formaður Félags kvikmyndagerðarmanna

Menningin lögð niður?

Ungt sjálfstæðisfólk hefur lagt fram tillögur að sparnaði í ríkisbúskapnum, sem m.a. gera ráð fyrir því að Þjóðleikhúsið verði lagt niður, Sinfónían og háskólarannsóknir sömuleiðis, að ekki sé minnst á starfslaun listamanna. Jú, og svo á að selja Ríkisútvarpið, en það er nú kannski ekkert nýtt.

Hvernig á að hefja um þetta rökræðu? Þessar hugmyndir skapast af lífsviðhorfum sem eru nokkuð á skjön við þau sem almennt ríkja, það er ekki hlaupið að því að finna umræðugrundvöll. En kannski ég skauti fram hjá menningarhjalinu og reyni út frá hagrænum forsendum – og taki fyrir kvikmyndagerðina, sem er náttúrulega eitt af því sem leggst af, samkvæmt tillögunum.

Kvikmyndafólk hefur haldið því fram að ríkið tapi ekki á því að veita fé í íslenskar kvikmyndir, heldur hafi þvert á móti hagnað af slíkri fjárfestingu. Hvernig getur staðið á því? Og af hverju geta þá ekki einkaaðilar yfirtekið þetta hlutverk og haft af því góðan gróða?

Ríkið fjármagnar aldrei kvikmynd um meira en 50% af heildarkostnaði, hærra má ekki fara vegna evrópskra tilskipana, og yfirleitt er framlag ríkisins langt undir þeirri prósentutölu. Önnur fjármögnun kemur að verulegu leyti erlendis frá, enda eru íslenskir framleiðendur kræfir í að ná samningum við erlenda kollega og sækja fé í fjölþjóðlega sjóði.

Allt evrópska styrkjakerfið byggist á því að til séu kvikmyndastofnanir eða sjóðir í heimalandinu sem velji bitastæðustu verkefnin og veiti þeim upphafsstyrkina. Ekki fyrr en þá er unnt að nálgast fjölþjóðlegu sjóðina. Væri ekki til stofnun á borð við Kvikmyndamiðstöð gætu Íslendingar ekki sótt í norræna sjóðinn né þann evrópska né neina aðra. Þessu hlutverki getur einungis opinber stofnun sinnt, enda hefðu einkaaðilar aldrei af því þann hagnað sem ríkið fær.

Ríkið nýtur góðs af ýmsu sem ekki kæmi einkaaðilum til góða. Skatttekjur eru verulegar af kvikmyndagerðinni, enda eru laun ætíð langhæsti kostnaðarliðurinn. Erlendur gjaldeyrir kemur inn í landið bæði þegar erlendir styrkir eru greiddir, svo og söluágóði af dreifingu erlendis. Afleidd áhrif þessarar starfsemi fara vaxandi, því að ný tækni gerir kleyft að fullvinna myndirnar hérlendis. Alla þjónustu þarf vitaskuld að greiða, og af henni fást enn meiri skatttekjur.

Kvikmyndamiðstöð starfar náið með einkafyrirtækjum, sem flest mætti vafalaust kalla því vinsæla nafni sprotafyrirtæki. Miðstöðin fjárfestir í íslenskum myndum fyrir hönd ríkisins. Þetta eru ekki styrkir í þess orðs eiginlegu merkingu, heldur fjárfesting í samstarfsverkefnum milli ríkisins og einkafyrirtækja. Margir vilja að ríkið fjármagni orkuver í von að hljóta af þeim arð í framtíðinni. Eitthvað svipað gerist í þeim hugarorkuiðnaði sem kallast kvikmyndagerð, nema hvað þar tel ég að áhættan sé öllu minni og ágóðinn skjótfengnari.

Og sé nú fólki sama um íslenskt mál og menningu og allt það, skal á það bent að íslenskar kvikmyndir hafa reynst öflug kynning á landi og þjóð. Þær hafa dregið að ferðamenn, ennfremur erlend kvikmyndafyrirtæki sem verja háum upphæðum við tökur á Íslandi. Sú starfsemi byggist á því að hér séu fyrirtæki og mannskapur sem geti veitt þá þjónustu sem þarf. Clint Eastwood gat leitað til toppfólks þegar hann tók mynd sína hér um árið. Það skapaði gjaldeyristekjur og skatttekjur.

Vinsælt er að tala um menningartengda ferðaþjónustu. Ætli þetta geti þá ekki kallast ferðatengd menningarþjónusta? Íslenskar kvikmyndir auglýsa landið án þess að vera auglýsingar. Í því felst besta kynningin – og sú ódýrasta, enda innifalin í upphaflega framlaginu frá Kvikmyndamiðstöð.

Svona má reyndar fjalla um fleiri þætti menningarinnar en kvikmyndirnar. Svipuð niðurstaða fæst í bókinni um hagræn áhrif tónlistarinnar, sem kom út fyrir nokkrum árum. Á hinn bóginn eru listamenn þekktir fyrir að leggja ekki alltaf hægrænan mælikvarða á störf sín, og sumir þeirra verða fyrst raunveruleg hagræn stærð við dauða sinn. Hvað ætli ævistarf Kjarvals verði metið hátt á markaðsvirði ársins 2007?

Annars er ekki hollt að hugsa bara hagrænt. Þeir sem helst eiga sök á hruninu virðast hafa hugsað hagrænt í öllu, meira að segja þegar þeir völdu listamenn til að koma fram í afmælunum sínum. Og hvernig fór?

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu í nóvember 2009

 

Page 30 of 39« First...1020...2829303132...Last »