Author Archives: vefstjóri BÍL

Alþjóðlegi dansdagurinn 29. apríl

Alþjóðlegi dansdagurinn verður haldinn hátíðlegur í dag og mun listdanssamfélagið halda upp á daginn um allt land m.a. með nýrri danssmíðakeppni KORUS sem haldin verður í Loftkastalanum í kvöld. Markmið Alþjóðlega dansdagsins er að yfirstíga allar pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir og að færa fólk nær hvert öðru, í friði og vináttu með sameiginlegu tungumáli – Dansinum. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um heim allan með fjölbreyttum hætti en til hans var stofnað árið 1928 af Alþjóðlegu dansnefnd  ITI/UNESCO. Dagsetningin er til minningar um fæðingardag frakkans Jean-Georges Noverre, sem fæddist árið 1727 og var mikill dansumbótasinni. Á hverju ári er ávarp velþekktra aðila innan dansheimsins sent um heimsbyggðina. Eftirfarandi skilaboð dansdagsins í ár eru samin af Julio Bocca:

 

Danslistin er vinna, menntun og samtal.

Með henni spörum við okkur orð sem aðrir myndu ef til vill ekki skilja. Við sköpum sameiginlegt tungumál til handa öllum.

Danslistin veitir okkur ánægju, hún gerir okkur frjáls og veitir okkur mannfólkinu huggun, okkur sem ekki getum flogið eins og fuglarnir, frjáls um himinhvolfið, út í hið óendanlega.

Danslistin er himnesk, í hvert sinn öðruvísi en áður – eins og ástarlot – þar sem hjartað hamast í brjóstinu í lok hverrar sýningar af tilhlökkun fyrir næsta endurfundi.

 

Vakin er athygli á að á heimasíðu alþjóðlegu leikhúsmálastofnunarinnar www.iti-worldwide.org má sjá birtingu ávarpsins á fjölmörgum tungumálum.

 

Glæsilegur fundur

Hugarflugsfundur Bandalags íslenskra listamanna, sem haldinn var í sal FÍH við Rauðagerði í dag, tókst vel. Yfir 100 listamenn úr aðildarfélögum BÍL sátu fundinn og skeggræddu um listina og samfélagið. Fundarmenn unnu á 11 borðum og fylgdu fyrirmælum stjórnanda fundarins; Lárusar Ýmis Óskarssonar. Í fundarlok lögðu fundarmenn á hverju borði fyrir sig fram stutta setningu sem ætlað var að lýsa vinnunni á viðkomandi borði.  Hér fer á eftir nokkurs konar „þykkni“ úr umræðunni:

 • Samstöðu listgreinanna þarf til að auka þekkingu á verðmæti listanna, til uppbyggingar og framþróunar á þroskuðu og skapandi samfélagi.
 • Listin leggur gríðarmikil verðmæti til samfélagsins, bæði efnisleg og menningarleg og felur í sér rannsókn og gagnrýnin viðhorf sem brýnt er að skili sér sem víðast, ekki síst í menntastarf á öllum stigum; listamenn eiga að bera höfuðið hátt.
 • Listin auðgar samfélagið:
 • -andlega: virkjar drauma, hreyfir og kveikir í okkur
 • -gagnrýni: notum fortíðina sem eldsneyti, nútímann til skilgreiningarviðmiða, svo framtíðin auðgist
 • -menntun: listlæsi er forsenda sjálfstæðrar og frjálsrar hugsunar, við getum kennt hana.
 • Listin eykur umburðarlyndi og víðsýni í samfélaginu – heimspeki, rökræður, listsköpun og listrýni eru grundvallarþættir í menntakerfinu allt frá leikskólaaldri, aðstaða til listsköpunar er aðgengileg öllum og fjölmiðlar sinna sínu hlutverki með vandaðri umfjöllun um listir.
 • Samfélagið verður að sjá til þess að list þrífist til að þrífast sjálft./ Listamenn eru áðnamaðkar samfélagsins. Það sem þeir geta gert fyrir samfélagið er að láta það aldrei í friði – það sem samfélagið getur gert fyrir þá er að gera þeim það kleift og hindra þá ekki.
 • Listmenntun eflir gagnrýna hugsun. Listir spegla samfélagið, skapa tækifæri til umbóta og endurskoðunar gilda. Listir eru sjálfskoðun sem er forsenda fyrir þroska.
 • Hlutverk listanna: Gagnrýni og þjónusta. Listin getur bent á , gagnrýnt, huggað, glatt og refsað. Hún getur hjálpað sjúku samfélagi að ná bata, verið afvötnunar- og meðferðarstöð. Hlutverk listanna er að setja spurningarmerki við ráðandi orðræðu , valdastrúktúr og ríkjandi viðmið, setja í nýtt samhengi og jafnvel búa það til.
 • Hlutverk lista innan samfélagsins er að spegla og miðla gildum á gagnrýninn, gegnsæjan og fræðandi hátt – svo tryggja megi upplýsta ákvarðanatöku og listræna víðsýni í hvívetna.
 • Sögulegt tækifæri verði nýtt til að hið skapandi afl listanna verði lagt til grundvallar í endurskipulögðu skólakerfi Íslands á öllum stigum og að listamenn, jafnt sem einstaklingar og bandalag verði atkvæðameira hreyfiafl í nýjum samfélagssáttmála.
 • Listin er fyrir samfélagið og með því að tileinka sér vinnubrögð listanna/listamanna í gegnum menntun og uppeldi aukum við lífsgæði á öllum sviðum.
 • Listamenn eru nauðsynlegir samfélaginu vegna næmni og gagnrýninnar sýnar. Þeir þurfa að eiga þátt í ákvarðanatöku þess. Listin er spegill á samfélag og hamar til aðgerða. Aðgengi að listum er mannréttindi.

 

Opið bréf til menningarmálaráðherra

22. apríl 2010.

Ragnar Bragason, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra birti opið bréf til mennta – og menningarmálaráðherra í Fréttablaðinu í dag:

Við síðustu fjárlagagerð voru gerð mistök þegar framlög ríkisins til kvikmyndagerðar voru skorin niður úr öllu valdi. Niðurskurðurinn nam 35% miðað við fyrra samkomulag. Þar var gert ráð fyrir að framlög ríkisins til kvikmyndasjóða yrðu 700 milljónir á þessu ári en eru nú aðeins 450 milljónir. Sá niðurskurður sem við horfum upp á færi með hvaða starfsgrein sem er í gröfina.

Eins og þú hefur sagt þá voru síðustu fjárlög unnin í miklum flýti og ekki var tekið mið af menningarlegum né flóknum efnahagslegum rökum; „þetta var exel niðurskurður”. Á síðustu misserum höfum við horft upp á íslensk stjórnvöld gera sig sek um slæmar ákvarðanir, byggðar á vanþekkingu og grandvaraleysi. Stjórnmálamenn eru mjög tregir að viðurkenna mistök sín og leiðrétta.

Rétt er að árétta að heildarframlög til kvikmyndagerðar eru á engan hátt óhófleg – þvert á móti eru þau allt of lág. Þau eru sem dæmi bara brot af því sem hið opinbera leggur til leikhússtarfssemi í landinu. Aðrar menningargreinar hafa flestar fengið verðbætur, sem ekki á við um kvikmyndagerðina, og er niðurskurður á flestum þeim bæjum vel innan við þann 10% flata niðurskurð sem boðaður var við síðustu fjárlög. Hér er um augljósa mismunun að ræða.

 

Menningarlegt mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar

Við horfum upp á hnignun íslenskrar menningar og við því þarf að sporna. Skynjun og tilfinningar hafa orðið undir praktík og peningum hin síðari ár. Það er eitt að vera gjaldþrota efnahagslega en enn alvarlegra er að verða gjaldþrota menningarlega. Kvikmyndir og sjónvarpsefni er stór hluti af menningararfi þjóðarinnar og samtímasögu og fátt hefur meiri áhrif á þankagang og heimsýn fólks. Að halda úti öflugri kvikmyndagerð er sérstaklega mikilvægt fámennri þjóð með sitt eigið tungumál. Aðrar þjóðir hafa fyrir margt löngu áttað sig á þessu en við virðumst standa aftar þar eins og í svo mörgu.

Hvernig speglum við okkur, hvar og hvernig mótast okkar heimssýn og sjálfsmynd? Upp við hvaða upplýsingar alast börnin okkar?  Við erum undir sterkri menningarlegri innrás frá Bandaríkjunum og mótstaða okkar er takmörkuð sökum fámennis. Málsvæði okkar er lítið og menning okkar og tunga sérlega viðkvæm og því þarf að vinna skipulega og af krafti á móti neikvæðum utanaðkomandi áhrifum.

Það er langt síðan íslensk kvikmyndagerð sleit barnsskónum og varð þekkingarbundinn listiðnaður, sambærilegur á við það besta sem gerist erlendis. Það virðist ekki vera meðvitund og skilningur á þessu hjá íslenskum stjórnvöldum, þar erum við bundin af gömlum skilgreiningum og úreltum viðmiðum. Fólk þarf að gera sér grein fyrir að kvikmyndir eru í dag jafnmikilvægur þáttur í menningu þjóðarinnar og bókmenntirnar voru fyrir 50 árum. Við lifum í heimi sem er að breytast. Sífellt meiri áhersla er á sjónrænar framsetningar og myndmiðla og ný tækni ryður sér til rúms, ekki síst í listum og menningu.

Ég vil meina að Kvikmyndamiðstöð Íslands sé í dag mikilvægasta menningarstofnun landsins, bæði út frá efnahagslegum og þjóðmenningarlegum forsendum. Kvikmyndagerð er menning alþýðunnar. Hún er sú listgrein sem nær til flestra, þjóðarleikhús sem nær til allra landsmanna í gegnum kvikmyndahús, sjónvarp, mynddiska og internet. Kvikmyndagerð er þannig lang hagkvæmasta menning sem ríkið getur fjárfest í miðað við til hversu margra hún nær.

Íslensk kvikmyndagerð er einnig mikilvægasta tækið til landkynningar á erlendri grundu. Hún ferðast víða um heim og kemur fyrir sjónir tug milljóna manna. Rannsóknir hafa leitt að því líkum að minnsta kosti 10% erlendra ferðamanna komi hingað vegna íslenskra kvikmynda. Heildarvelta af erlendum ferðamönnum sem komu hingað til lands í fyrra var 155 milljarðar. Af því má áætla að 15 milljarðar séu bein afleiðing af fjárfestingu ríkisins í íslenskri kvikmyndagerð.

 

Fjárfesting sem skilar sér margfalt

Í fjárlagagerð er nauðsynlegt að stjórnvöld greini á milli þess sem engu skilar og því sem skapar allri þjóðinni arð í efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Íslensk kvikmyndagerð er ekki aðeins atvinnuskapandi heldur líka arðbær og skapar ríkissjóði tekjur. Framlög ríkisins til kvikmyndagerðar er ekki áhættusöm langtímafjárfesting heldur fimmfaldar kvikmyndagerðin framlag hin opinbera með annari fjármögnun og greiðir að fullu til baka á framleiðslutíma verkanna. Í framhaldi margfaldar hver króna sig að minnsta kosti tuttugufalt sé allt tekið með í reikninginn. Þjóðin verður af gríðarlegum tekjum við þennan mikla niðurskurð og því er þessi ákvörðun stjórnvalda illskiljanleg. Hér er einfaldlega verið að henda krónum fyrir aura.

Það er hagsmunamál fyrir mig, sem vil starfa á Íslandi sem kvikmyndaleikstjóri, að þessi óhóflegi niðurskurður verði leiðréttur og fjárfesting ríkisins aukin til muna í framtíðinni. Það er einnig hagsmunamál fyrir þá hundruði Íslendinga sem starfa við kvikmyndagerð og fyrir íslensku þjóðina alla, bæði í menningarlegu og efnahagslegu tilliti. Þessi niðurskurður er ekki til þess fallinn að hjálpa þjóðinni út úr kreppunni. Ef fram sem horfir mun þetta leiða til tæplega fimm milljarða króna samdráttar í íslenskri kvikmyndagerð á næstu fjórum árum. Hundruð starfa munu glatast. Við horfum upp á atgerfisflótta úr greininni og dýrmæt reynsla fer í súginn.

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn skilja vel að niðurskurðar var þörf við. En við skiljum ekki hversvegna kvikmyndagerð er tekin sérstaklega fyrir og slátrað umfram aðrar greinar. Hvernig er stjórnvöldum stætt á því að skera svo svívirðilega niður í grein sem skapar þjóðinni svo gríðarlegar tekjur og hefur svo mikið menningarlegt gildi? Ég skora á þig, Katrín Jakobsdóttir, ráðherra Menningarmála, að beita þér fyrir því að sanngjörn leiðrétting verði gerð á þessum mistökum í næstu fjárlögum sem nú eru í fullri vinnslu.

 

Síðasti skráningardagur!!!

Í dag eru síðustu forvöð á skrá sig á spennandi fund, sem gæti haft áhrif á framtíð hinna skapandi greina, listamenn og höfunda hugverka.

 

GETUR ÞÍN SKÖPUN SKIPT SKÖPUM ?

Þér er boðið  í  ÞANKATANK  um  framtíð hinna skapandi greina á Íslandi

laugardaginn 24. apríl n.k. kl. 10:00 – 15:00

Við kryfjum til mergjar spurningar  á borð við :

Skipta listir og menning máli við endurreisn og nýsköpun í  íslensku samfélagi?

Af hverju velur listamaðurinn að starfa innan listanna?

Hvert er hlutverk listamanna gagnvart meðborgurum sínum?

Hvert er hlutverk listanna í samfélaginu?

Er umhverfi hinna skapandi greina ásættanlegt?

 

Kæri viðtakandi,

 

Laugardaginn 24. apríl n.k. mun BÍL, Bandalag íslenskra listamanna, efna til fundar þar sem rætt verður um eðli og tilgang lista á skemmtilegan og skapandi hátt. Fundurinn er ætlaður listafólki úr öllum listgreinum, höfundum hugverka ásamt fræðimönnum og öðrum þeim sem starfa innan hinna skapandi greina.

Fundarformið verður áþekkt Þjóðfundinum, sem haldinn var í Laugardalshöll í nóvember sl. Þátttakendum verður skipt niður á borð með ca. 9 fundarmönnum og einum borðstjóra, sem tryggir virkni allra í hópnum.

Fundurinn verður vonandi einskonar sjálfsskoðun, þar sem þátttakendur ræða við kollega úr ýmsum áttum um tilgang lista, hvert hlutverk listamanna sé og hvort listir og menning skipti máli við endurreisn íslensks samfélags.  Fundinum er ætlað að efna til samræðu um listir milli listafólks, tengja saman sjónarmið og innsæi úr ólíkum áttum og skapa með því jarðveg fyrir nýjar hugmyndir og möguleika.  Þar að auki er líklegt að hugmyndirnar sem fæðast og verða ræddar á fundinum skili sér inn í umræður um listir á ýmsum vettvangi, meðal annars á fyrirhugaðri ráðstefnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins  Menningarlandið 2010, mótun menningarstefnu, sem haldin verður viku síðar eða 30. apríl. Þannig geta listamenn lagt sitt af mörkum, sem hlýtur að teljast afar brýnt, við mótun þeirrar menningarstefnu sem við teljum æskilega á Íslandi.

Fundurinn verður haldinn í sal FÍH við Rauðagerði 27, Reykjavík,  kl. 10:00 – 15:00

– húsið opnar kl. 9:30 – og er þátttakendum að kostnaðarlausu.  Boðið verður upp á hádegishressingu. Væntanlegir þátttakendur eru beðnir að senda póst á netfangið bil@bil.is með upplýsingum um nafn, netfang , síma og listgreinina sem þeir starfa við. Staðfesting óskast fyrir dagslok mánudaginn 19.apríl.

 

Með góðri kveðju,

f.h. undirbúningshóps og stjórnar Bandalags íslenskra listamanna

 

Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL

 

Getur þín sköpun skipt sköpum?

Getur þín sköpun skipt sköpum?

12. apríl 2010

BÍL boðar til fundar í fundarsal FÍH að Rauðagerði 27, Reykjavík – 24. apríl nk.

Getur þín sköpun skipt sköpum?

Stjórn BÍL fundar með mennta- og menningarmálaráðherra

23. mars 2010 Sameiginlegur fundur stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna og mennta- og menningarmálaráðherra var haldinn í dag. Fundinn sátu einnig nokkrir starfsmenn menningarskrifstofu ráðuneytisins auk ráðuneytisstjóra. Í gildi er samstarfssamningur milli þessara aðila sem gerir ráð fyrir samstarfi um mál er varða listir og listamenn almennt, stuðning við ný listform, kynningu á íslenskri list erlendis og fjölþjóðlegt samstarfi á sviði lista. Tilgangur samningsins er samstarf við mörkun og framkvæmd stefnu á sviði menningarmála, með það að markmiði að fyrir hendi séu jafnan sem gleggstar upplýsingar um listalífið í landinu og þróun þess. Framkvæmd samningsins felur það í sér að BÍL lætur mennta- og menningarmálaráðuneytinu í té umsagnir, álitsgerðir, upplýsingar og ráðgjöf um mál sem ráðuneytið vísar til BÍL.

Á fundinum lagði stjórn  BÍL fram sjónarmið um eftirtalda þætti:

 

 1. BÍL einn af lykilráðgjöfum.  Skýra þarf framkvæmd samstarfs BÍL og ráðuneytisins, í hvers konar málum/tilfellum ráðuneytið leitar til BÍL með umsagnir, álitsgerðir, upplýsingar, ráðgjöf, etc. Æskilegt væri að koma upp verklagsleglum til að tryggja samræmi frá ári til árs.
 2. Upplýsingar um listalífið í landinu og þróun þess. Þekkingu skortir; Hagstofan heldur utan um ákveðnar tölulegar upplýsingar,en mikið vantar á að þjóðhagsstærðir um listir og menningu liggi fyrir.  Skerpa þarf á hlutverki Hagstofunnar um hvað beri að skrá  og tryggja þarf samanburðarhæfni upplýsinga við tölfræði hinna Norðurlandanna.
 3. Fjárhagsleg afkoma BÍL og niðurskurður 2010. Framlag ríkisins til BÍL er skv. samstarfssamningnum 2,3 millj. á ári, í ár  var það skorið um 500 þús. kr. eða 22%.  Samstarfssamningur við Reykjavíkurborg hefur ekki fengist endurnýjaður.
 4. Kynning á íslenskri list erlendis og fjölþjóðlegt samstarf á sviði lista.  Rétt er að koma á framfæri sjónarmiðum BÍL varðandi Íslandsstofu og hér mætti líka rifja upp skuldbindingar stjórnvalda gagnvart UNESCO (Recommendation on the Status of the Artist og Convention on the Protection and Promotion of the Diversity of the Cultural Expressions)
 5. Ný staða í kjölfar tæknibyltingar. Tækni til miðlunar efnis er komin á það stig að leikur einn er að dreifa efni án þess að gjaldtaka komi fyrir. Um leið er höfundarréttur í uppnámi. Tímabil hinnar “ókeypis” miðlunar er runnið upp, dagblöð riða til falls, útgáfa tónlistar er í uppnámi og bókaútgáfan sér sína sæng upp reidda. Til að þessi þróun leiði til sköpunar í stað eyðingar þarf samfélagið allt að koma að málum í mun ríkara mæli en hingað til.
 6. Ríkisútvarpið. BÍL telur mikilvægt að því sem segir um listir og menningu í þjónustusamningi RÚV ohf. sé fylgt eftir. Þá telur BÍL nauðsynlegt að sett verði á laggirnar fagnefnd sem starfi með útvarpsstjóra, í þeim tilgangi að móta og fylgja eftir dagskrárstefnu stofnunarinnar.
 7. Útvarpsleikhúsið þurfti að hætta framleiðslu leikverka í sex mánuði á síðasta ári og nú blasir hið sama við 2010.  Útvarpsleikhúsið hefur alltaf lagt áherslu á íslensk leikrit og leikgerðir og er mikilvægur atvinnuvettvangur höfunda, leikara og leikstjóra, tónskálda, tónlistarmanna. Nauðsynlegt er að útvarpsleikhúsinu verði gert kleift að starfa af krafti allan ársins hring.
 8. Kvikmyndamiðstöð Íslands. Samningur ráðuneytisins við kvikmyndagerðarmenn þarf að öðlast gildi á nýjan leik. Þó ráðherra hafi reynt að bæta fyrir niðurskurðinn á fjárlögum í ár verður að taka af öll tvímæli um framlög 2011 og á næstu árum. Einnig þarf atbeina stjórnvalda um innlenda dagskrárgerð og efniskaup af sjálfstæðum framleiðendum hjá RÚV.
 9. Listamannalaun. Mikilvægt er að komast að því hvers vegna ekki gengu eftir fyrirheit ráðherra um 145 mánaða aukningu í launasjóði listamanna. Hvers vegna var ákveðið að fjölga þeim einungis um 125?  Verður staðið við aukningu úr 1200 í 1600 mánuði 2012?
 10. Hugverk skilgreind sem eign í skilningi skattayfirvalda. BÍL hefur um árabil lagt áherslu á að skattlagning tekna fyrir endurleigu hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna.
 11. Lottómál. BÍL hefur vakið athygli á séríslensku fyrirkomulagi á ráðstöfunar ágóða af starfsemi Íslenskrar getspár. Í nágrannalöndunum njóta menning og listir þessa ágóða að stórum hluta.
 12. Listaverkaeign Landsbanka Íslands. Nýta þarf tækifærið, meðan Landsbankinn er enn í eigu þjóðarinnar, til að tryggja að listaverkaeign hans verði falin Listasafni Íslands til varðveislu.
 13. Lista- og menningarstefna. BÍL lítur svo á að það mál sé í farvegi með undirbúningi ráðstefnu ráðuneytisins  30. apríl og vinnu sem kæmi í kjölfarið. Mikilvægt er að opna virkan samráðsvettvang, sem tæki m.a. til kennslu í list- og verkgreinum á öllum skólastigum.
 14. Listaháskóli Íslands. Mikilvægt er að áform um meistaranám í listgreinunum gangi eftir, nú er unnið að undirbúningi meistaranáms í arkitektúr, tónlist og leiklist.
 15. Mannvirkjagerð. Um tveir þriðju hlutar þjóðarauðsins bundnir í mannvirkjum. Vergar tekjur af mannvirkjagerð voru að jafnaði um 10% af landsframleiðslu og um 7% af vinnuafli landsmanna starfaði við mannvirkjagerð. Gífurleg fjárbinding er í mannvirkjum landsmanna en ekki liggja fyrir neinar rannsóknir á verðmæti þeirra í víðum skilningi. Menntun og rannsóknir í mannvirkjagerð beinast eingöngu að tæknilegum og hagrænum þáttum mannvirkjagerðar. Fegurð, varanleiki og notagildi eru þættir sem minni áhersla er lögð á Nauðsynlegt er að auka menntun á sviði byggingarlistar á öllum skólastigum, en þó fyrst og fremst á háskólastiginu og meðal þeirra sem starfa í greininni. Meistaranám í arkitektúr við Listaháskóla Íslands er aðkallandi og jafnframt að skoðaðir verði kostir þess að kenna innanhússarkitektúr og landslagsarkitektúr við sama skóla.
 16. Fjárhagslegur stuðningur við tónlistar- og listdansskóla. Áform hafa verð uppi um ný lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sem og skiptingu skólastiga í listnámi. Mikilvægt er að sú vinna verði leidd til lykta og niðurstaðan varðandi tónlistarskólana verði einnig látin gilda um sambærilega dansskóla.
 17. Tónlistarhús. Fagnaðarefni að fagaðilar tónlistarlífsins skuli nú eygja tækifæri til að koma að stefnumótun listrænnar starfsemi í Hörpu með stofnun ráðgefandi listráðs sem starfa á með yfirstjórn hússins. Þetta er mikilvægt skref til að koma á samvinnu og einingu milli þeirra sem láta sig starfsemi hússins varða, og bera hag þess og íslensks tónlistarlífs fyrir brjósti.
 18. Kreppan og niðurskurðurinn. Í listsköpun er fólgin tilraun til að ná áttum, sem gerir hana að ómissandi þætti í enduruppbyggingunni. Þá væri ómaksins vert að hugleiða með ráðherra hvernig vinnu listamanna er háttað. Eðli málsins samkvæmt er hún að stórum hluta sjálfboðavinna, aðeins brot af vinnu listamanna er metið til launa. Verk sem tók hugsanlega 4 ár að skapa er metið til launa sem svara til 3 mánaða framlags skrifstofumanns. Og síðan ekki söguna meir þótt verkið kunni að halda áfram að vera virkt í hugbúnaði þjóðarinnar[1]. Þá ber að hafa í huga að listamaðurinn er ýmist beinlínis eða óbeinlínis tilefni annarrar starfsemi sem gætir í skólum, fjölmiðlum, skemmtanahaldi og mannfagnaði hverskonar, auglýsingagerð, bókaútgáfu…. þannig að með niðurskurði á styrkjum til lista er ekki aðeins verið að fækka listaverkum heldur gera samfélagið allt að mun fátækara.

 

[1] Starfslaun listamanna eru kr. 266.737.- á mánuði, en sá sem telur einungis fram tekjur af reiknuðu endurgjaldi verður að reikna það af lágmarksgreiðslu sem nemur kr. 414.000.- annars lítur skatturinn svo á að viðkomandi sé einungis í hlutastarfi.

 

Hverjir fjármagna íslenskar kvikmyndir?

Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag var kynnt ný könnun um fjármögnun kvikmynda, sem unnin hefur verið fyrir SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, FK  – Félag kvikmyndagerðarmanna og SKL – Samtök kvikmyndaleikstjóra.

Ákvörðun stjórnvalda um að efna ekki samning menntamálaráðuneytis og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á yfirstandandi fjárlagaári varð hvatinn að könnuninni. Sendur var út spurningalisti til framleiðenda 140 kvikmyndaverka og bárust svör frá 112 eða um 80%. Meginniðurstöður könnunarinnar varðandi fjármögnun íslenskra kvikmyndaverka eru þær að stærstur hluti fármagnsins kemur erlendis frá eða 43,7%, innlent fjármagn (að undanskyldu því sem kemur frá opinberum aðilum) er 33,8% og styrkir frá Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslur iðnaðarráðuneytis nema 22,5 %. Á árunum 2006 – 2009 lagði íslenska ríkið alls tæplega 2,7 milljarða til kvikmyndaverkefnanna sem könnunin nær til og má gera ráð fyrir að þessi sömu verkefni hafi skilað rúmum 2,7 milljörðum til baka til ríkisins í formi skatta og tryggingargjalds.  Könnunin er aðgengileg á slóðinni www.producers.is.

 

Ekki ríkisstyrkt egóflipp

6. mars 2010 Síðustu daga hefur farið fram nokku umræða í fjölmiðlum um nýafstaðna úthlutun úr launasjóðum listamanna. Kemur hún í kjölfar frétta af miklum niðurskurði til kvikmyndagerðar á fjárlögum islenska ríkisins og ákvörðun útvarpsstjóra um samdrátt í kaupum á sjónvapsefni frá sjálfstæðum framleiðendum. Hefur ýmislegt verð látið flakka í hita leiksins, sumt miður skynsamlegt.

Í Fréttablaðinu í dag birtist viðtal við Dag Kára Pétursson kvikmyndaleikstjóra, þar sem hann er spurður hvort þessi umræða “um lopatreflana í 101 sem liggja á spena ríkisins” fari í taugarnar á honum. Svarið er þess virði að birta það hér:

Þetta fer ekki bara í taugarnar á mér heldur tek ég þessa umræðu nærri mér. Maður er að vinna heiðarlega vinnu við erfið skilyrði og skila þjóðarbúinu auði, bæði í beinhörðum peningum og menningarlegum verðmætum. Þá er leiðinlegt hvað það er algengt að maður mæti því viðhorfi að maður sé á einhverju ríkisstyrktu egóflippi. Það er eins fjarri sannlekanum og hugsast getur. Ég lýsi eftir meiri viðsýni og innsýn í hvernig málunum er háttað.

Í þessu sambandi er einnig bent á grein eftir Pétur Gunnarsson, formann Rithöfundasambands Íslands, sem birtist í þessu sama Fréttablaði. Greinin er birt í heild sinni undir yfirskriftinni “Greinar” (Hinn árlegi héraðsbrestur).

 

Hinn árlegi héraðsbrestur

6. mars 2010

Hér fer á eftir grein eftir Pétur Gunnarsson formann Rithöfundasambands Íslands, sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

 

Ár hvert verður héraðsbrestur á Íslandi. Það er þegar tilkynnt er um starfslaun til listamanna. Þannig hefur það verið lengur en elstu menn muna, t.d. árið 1907 þegar þingmaður einn spurði hvort greiða ætti fólki laun fyrir að þegja? En það ár hlutu styrki Matthías Jochumsson, Þorsteinn Erlingsson, Benedikt Gröndal, Valdimar Briem, Brynjúlfur frá Minna-Núpi og Torfhildur Hólm, svo nokkur séu nefnd. Umræðan heyrir undir fasta liði eins og venjulega og væri ekki umtalsverð að þessu sinni nema af því að allt undangengið ár hefur varla liðið svo dagur að landsmenn hafi ekki verið fræddir um milljarða og aftur milljarða sem hafi gufað upp eða verið komið fyrir í skattaskjólum – á þeirra kostnað. Þeim mun undarlegra að í miðju því fári skuli þeir vera til sem sjá ofsjónum yfir 350 milljónum sem fara til að styrkja listastarfsemi í landinu – sem þó leggur 4% til þjóðarbúsins, helmingi meira en landbúnaður svo dæmi sé tekið – án þess að með þeim samanburði sé ætlunin að varpa rýrð á hina líkamlegu næringu.

Ef við tökum rithöfunda sérstaklega þá koma í þeirra hlut 505 mánaðarlaun (sem að vísu teldust ekki nema hálfsmánaðarlaun á mælikvarða sumra eða 260 þúsund brúttó á mánuði). En þessi 505 mánaðarlaun knýja síðan hin frægu hjól atvinnulífsins: prentsmiðjur, bókaútgáfur, bókaverslanir, bókasöfn, leikhús, auglýsingastofur, leggja blöðum og tímaritum og útvarpsþáttum til efni og fá skólakerfinu eitthvað til að hugsa um.

Hvað er þá í vegi? Jú, af því á milli launanna og launþegans er engin stimpilklukka, það þarf ekki að ræsa 1200 kg af járni, gleri og gúmmíi og aka á tiltekinn stað í bæjarlandinu, það er hægt að vinna vinnuna heima hjá sér, þessvegna á inniskóm með ókembt hár. Karlssynir skyldu samt hafa í huga að til þess að eiga möguleika á þessum launum þurfa menn að sækja um þau, gera ítarlega grein fyrir þeim verkum sem þeir eru að vinna, lista upp það sem þeir hafa gert áður og eru út úr myndinni um aldur og ævi ef þeir standa ekki við þau fyrirheit sem gefin voru.

Tökum íslenska rithöfunda sérstaklega. Íslendingar eru jú bókmenntaþjóð, hér er gefið út firnafár af bókum og bókasöfn slá hvert útlánametið á fætur öðru. Sem breytir ekki því að málsvæðið er svo lítið að það ber ekki uppi stétt atvinnuhöfunda án ytri atbeina. Lítum á tölurnar. Meðal upplag af skáldverki er þúsund eintök, sem er risavaxið, jafngildir milljón eintökum í USA. Eitt þúsund eintök skila um 600 þúsund krónum í ritlaun – brúttó – og þá er horft fram hjá kostnaði við að vinna verkið, húsnæði, tækjabúnaði, gögnum… Höfundur er að meðaltali 2 ár að vinna verk sem sómi er að, það gera 300 þúsund á ári – brúttó – í stuttu máli ólaunað starf. Gott og vel, látum rithöfundinn snúa upp tánum, en í fallinu tekur hann með sér prentsmiðjurnar, bókaútgáfurnar, bókaverslanirnar, bókasöfnin, auglýsingastofurnar, leikhúsin og eitthvað fátæklegra yrði um að litast í hugbúnaði þjóðarinnar.

Þannig að samfélagið ákveður að það vilji að hér séu skrifaðar bókmenntir og ver til þess 160 milljónum árlega en uppsker milljarða í beinhörðum peningum að ógleymdu því sem mölur og ryð fá ekki grandað. En svo er líka annað. Það eru örlög Íslendinga að vera skapandi þjóð. Þeir voru rifnir upp úr heimkynnum sínum í árdaga og settir niður hér svo að segja á óþekktri reikistjörnu og þurftu að hafa fyrir því að búa allt til upp á nýtt. Taka upp úr töskum hugans: trú, siði, skáldskap, ættfræði, örnefni… Þeir eru ásamt Færeyingum einasta dæmið í nútíma um þjóð sem hefur komið að ónumdu landi. Fyrir bragðið geta Færeyingar ekki hætt að dansa og Íslendingum er áskapað að tjá sig og skapa. Að sjá á eftir árslaunum venjulegs útrásarvíkings til að hér geti allar listgreinar borið ávöxt er svo smátt að við skulum láta eins og það hafi ekki átt sér stað. Jú annars, við skulum gera það að árvissum atburði og tilefni til að varpa ljósi á heildarmyndina.

 

Úthlutun listamannalauna 2010

Á stjórnarfundi BÍL í gær var ákveðið að óska eftir sundurliðun úthlutunar listamannalauna 2010. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir stjórn BÍL að fylgjast með því að áform um bætt kjör listamanna gangi eftir.

Nú er lokið fyrstu úthlutun listamannalauna skv. nýjum lögum um listamannalaun nr. 57/2009. Í yfirlýsingu menntamálaráðherra, þegar  málinu var fylgt úr hlaði á Alþingi 12. mars 2009, kom skýrt fram með hvaða hætti nýju lögin ættu að bæta hag listamanna, bæði með fjölgun sjóða og fjölgun mánaða sem væru til ráðstöfunar. Í umræðum um fjárlög 2010 á Alþingi kom fram að þrátt fyrir niðurskurð til flestra þátta mennta og menningar, ætluðu stjórnvöld sér að standa vörð um fyrirheitin sem gefin voru með breytingum á lögunum um listamannalaun. Í ræðu ráðherrans kom fram að meiningin hafi verið að fjölga mánaðarlaunum um 145 við úthlutun 2010, þ.e. úr 1200 í 1345. Einnig að kostnaðarauki af breytingunni  væri áætlaður 38,7 milljónir árið 2010.

Í ljósi hlutverks Bandalag íslenskra listamanna, sem annast sameiginlega hagsmuni fagfélaga listamanna, hefur verið óskað eftir því við stjórn listamannalauna að hún láti BÍL í té sundurliðun sem sýni fjölda mánaðarlauna í úthlutuninni. Til að hægt sé að fylgjast með því að áform stjórnvalda gangi eftir er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um og fjölda úthlutaðra mánaða, sundurliðað eftir sjóðum. Varðandi sviðslistasjóðinn, þá er nausynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um til sviðslistahópa og fjölda úthlutaðra mánaða sem úthlutað var til hópanna.

Fyrir þá sem vilja kynna sér vilja stjórnvalda með breytingu laganna, þá er ræða menntamálaráðherra aðgengileg á vef Alþingis.

 

Page 30 of 41« First...1020...2829303132...40...Last »