Author Archives: vefstjóri BÍL

Úthlutun listamannalauna 2010

Á stjórnarfundi BÍL í gær var ákveðið að óska eftir sundurliðun úthlutunar listamannalauna 2010. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir stjórn BÍL að fylgjast með því að áform um bætt kjör listamanna gangi eftir.

Nú er lokið fyrstu úthlutun listamannalauna skv. nýjum lögum um listamannalaun nr. 57/2009. Í yfirlýsingu menntamálaráðherra, þegar  málinu var fylgt úr hlaði á Alþingi 12. mars 2009, kom skýrt fram með hvaða hætti nýju lögin ættu að bæta hag listamanna, bæði með fjölgun sjóða og fjölgun mánaða sem væru til ráðstöfunar. Í umræðum um fjárlög 2010 á Alþingi kom fram að þrátt fyrir niðurskurð til flestra þátta mennta og menningar, ætluðu stjórnvöld sér að standa vörð um fyrirheitin sem gefin voru með breytingum á lögunum um listamannalaun. Í ræðu ráðherrans kom fram að meiningin hafi verið að fjölga mánaðarlaunum um 145 við úthlutun 2010, þ.e. úr 1200 í 1345. Einnig að kostnaðarauki af breytingunni  væri áætlaður 38,7 milljónir árið 2010.

Í ljósi hlutverks Bandalag íslenskra listamanna, sem annast sameiginlega hagsmuni fagfélaga listamanna, hefur verið óskað eftir því við stjórn listamannalauna að hún láti BÍL í té sundurliðun sem sýni fjölda mánaðarlauna í úthlutuninni. Til að hægt sé að fylgjast með því að áform stjórnvalda gangi eftir er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um og fjölda úthlutaðra mánaða, sundurliðað eftir sjóðum. Varðandi sviðslistasjóðinn, þá er nausynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fjölda mánaðarlauna sem sótt var um til sviðslistahópa og fjölda úthlutaðra mánaða sem úthlutað var til hópanna.

Fyrir þá sem vilja kynna sér vilja stjórnvalda með breytingu laganna, þá er ræða menntamálaráðherra aðgengileg á vef Alþingis.

 

Fundur með fjármálaráðherra

10. febúar 2010 áttu fulltrúar stjórnar Bandalags íslenskra listamanna fund með fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni og aðstoðarmanni hans Indriða H. Þorlákssyni. Hér fylgir yfirlit yfir þau atriði sem rædd voru:

 

Skattlagning tekna af endurleigu hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna

BÍL hefur um árabil lagt áherslu á að skattlagning tekna sem fást fyrir /endurleigu/endurflutning hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna. 21. maí 2008 svaraði þáverandi fjármálaráðherra fyrirspurn á Alþingi um þessa hugmynd og sagði að starfshópur væri starfandi innan ráðuneytisins sem hefði málið til skoðunar. Þá var niðurstöðu hópsins að vænta í júní 2008

 

Viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra verði breytt til samræmis við listamannalaun

Samkvæmt viðmiðunarreglum ríksskattstjóra er lágmark reiknaðs endurgjalds fyrir fullt starf kr. 414.000.- á mánuði, eða kr. 4.968.000.- Þetta stangast á við upphæð listamannalauna úr opinberu listasjóðunum en úr þeim fá listamenn kr. 266.737.- á mánuði skv. lögum um listamannalaun.

 

Sjálfstætt starfandi listamönnum verði gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur

Reglur um atvinnuleysistryggingar kveða á um að þeir aðilar sem greiða tryggingargjald eigi rétt á atvinnuleysisbótum, þ.m.t. listamenn skv. breytingum laga frá 2008. Sá hængur er þó á að eins og nú er háttað þá er sjálfstætt starfandi einstaklingum gert að „hætta rekstri“ og skila inn virðisaukaskattnúmeri ef þeir hafa þegið bætur lengur en þrjá mánuði.  Listamenn geta eðli máls samkvæmt hvorki hætt rekstri né skilað inn virðisaukaskattsnúmeri og eru því ekki gjaldgengir til atvinnuleysisbóta.

 

Niðurskurður til kvikmyndagerðar

Samkvæmt fjárlögum 2010 hefur verið ákveðið að efna ekki samning menntamálaráðherra og Íslenskrar kvikmyndamiðstöðvar um opinber framlög til kvikmyndalistarinnar. Þessi ákvörðun heggur svo nærri listgreininni að líklegt er að hún laskist til langframa auk þess sem ætla má að á annað hundrað einstaklingar lendi á atvinnuleysisbótum fyrir vikið. Þegar við bætist yfirlýsing útvarpsstjóra um að stórlega skuli dregið úr kaupum á innlendu sjónvarpsefni af sjálfstæðum framleiðendum er ljóst að markmið beggja ríkisstjórnarflokkanna varðandi RÚV eru brotin.

 

Niðurskurður til sjóða er fjármagna listastarfsemi

Kallað er eftir því að hinar skapandi greinar leiki veigamikið hlutverk við endurreisn íslensks samfélags eftir efnahagshrun. Sé það ásetningur stjórnvalda verður að leiðrétta þá stefnu sem fram kemur í fjárlögum 2010, að stofnunum sé hlíft á sama tíma og viðkvæmri starfsemi sjálfstætt starfandi listamanna er ógnað með niðurskurði á sjóðum sem styðja við starfsemi þeirra.

Fundurinn stóð í 45 mínútur og virtust ráðherrann og aðstoðarmaður hans meðtaka sjónarmið BÍL, en hver árangur fundarins verður kemur í ljós á næstunni, þegar erindunum verður fylgt eftir og spurst fyrir um afdrif þeirra.

 

Starfsáætlun stjórnar BÍL 2010

Stjórn BÍL kom saman til fundar í gær 8. febrúar. Meðal þess sem samþykkt var á fundinum var starfsáætlun stjórnar fyrir 2010:

Opinber stefna í menningu og listum, áframhaldandi vinna í samstarfi við Háskólann á Bifröst og menntamálaráðuneytið.

Þjóðhagslegur ágóði listanna, leita leiða til að fá metið framlag listastarfsemi og hinna skapandi greina til þjóðarbúsins.

Kjör listamanna; skattlagning tekna vegna endursölu hugverka, meðhöndlun ríkisskattstjóra á tekjum listamanna og mat skattstjóra á verktakagreiðslum listamanna.

Ímynd BÍL könnuð og viðhorf til lista/listamanna, ný heimasíða, nýtt lógó.

Sjóræningjastarfsemi á netinu, stuldur hugverka og réttarstaða listamanna, skoða lagalega stöðu.

Lottómál, halda áfram umræðu um möguleika listgreinanna á fjárhagsstuðningi gegnum lottó, mögulega nýtt lottó –Lottó listanna.

Fjáröflun til starfsemi BÍL, leita leiða til að styrkja fjárhagsstöðu BÍL, undirbúa hækkun aðildargjalda og endurnýjun samninga BÍL við borg og ríki.

Greining hagsmuna BÍL og þeirra sem kallast geta hagsmunaaðilar í starfi BÍL.

Stefnumót skapandi greina, fundur um stöðu, möguleika og framtíðarsýn þeirra sem starfa innan listageirans.

 

Íslandsstofa – Umsögn til utanríkismálanefndar

Fulltrúar stjórnar BÍL voru boðaðir á fund utanríkismálanefndar í morgun vegna frumvarps til laga um Íslandsstofu. Nefndin spurði út í sjónarmið BÍL og virtist áhugasöm um að skoða þær lagfæringar sem stjórnin hefur bent á. Umsögnina má lesa hér:

Umsögn um frumvarp til laga um Íslandsstofu

Í ljósi áhuga stjórnar Bandalags Íslenskra Listamanna (BÍL) á því hvernig staðið er að kynningu íslenskra lista á erlendri grund, var ákveðið að bjóða upp á sérstaka kynningu á frumvarpinu um Íslandsstofu á nýafstöðnum aðalfundi BÍL. Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi forsætis-ráðuneytisins var fenginn til að skýra frá hugmyndunum að baki frumvarpinu. Að þessari kynningu lokinni ákvað stjórn BÍL að senda til utanríkismálanefndar eftirfarandi athugasemdir, sem verða þá viðbót við umsögn þá sem BÍL sendi nefndinni 4. desember sl. Nokkur aðildarfélaga BÍL hafa þegar sent utanríkismálanefnd umsögn um frumvarpið, sem stjórnin hefur kynnt sér og haft til hliðsjónar við gerð meðfylgjandi athugasemda.

Segja má að núgildandi lög um útflutningsaðstoð séu um margt skýrari en fyrirliggjandi frumvarp um Íslandsstofu, enda er gildissvið frumvarpsins nokkuð víðara en gildandi laga.  Ætlun stjórnvalda með frumvarpinu er að móta heildstæða stefnu um ímyndar- og kynningarmál þjóðarinnar, en jafnframt að flétta þá stefnumótun saman við útflutning, ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar.  Slíkt verkefni er gríðarlega viðamikið og ljóst að samræma þarf sjónarmið fjölmargra aðila á ólíkum sviðum, eigi vel að takast. Útflutningsviðskipti eru nokkuð þekkt stærð og talsverð kunnátta í markaðs- og kynningarstarfi til staðar hjá þjóðinni. Það sama má segja um ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar, en þegar kemur að samþættingu við lista- og menningarstarfsemi þá flækist málið, enda er sá þáttur lítið útskýrður í þingmálinu. Í greinargerð frumvarpsins er engin tilraun gerð til að lýsa því með hvaða hætti skapandi atvinnugreinum er ætlað að koma að stefnumótun eða rekstri Íslandsstofu.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld viðurkenni að íslensk menningarstarfsemi stendur undir umtalsverðum hluta af íslensku atvinnulífi; innan listanna eru fullgildar atvinnugreinar á borð við myndlist, tónlist, ritlist, leiklist, dans, kvikmyndir, arkitektúr og hönnun að ógleymdum greinum sem starfa á grundvelli menningararfsins við ýmis konar safna- og sýningarstarfsemi. Listamenn og aðrir innan þessara skapandi greina hafa gegnum tíðina komið sér upp ýmsum miðstöðvum sem hafa stutt við útflutning verka þeirra. Þar er um að ræða ólíkar einingar að stærð og umfangi, nefna má: Kvikmyndamiðstöð (KMÍ), Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), Íslenska tónverkamiðstöð, Hönnunarmiðstöð Íslands, Bókmenntasjóð, Sjálfstæðu leikhúsin og Icelandic Gaming Industry.  Verður að teljast eðlilegt að til þessara aðila sé leitað þegar lagður er grunnur að Íslandsstofu, enda standa miðstöðvarnar í skipulegum útflutningi nú þegar og hafa verið að auka samstarf sín í milli upp á síðkastið.

Stjórn BÍL telur að frumvarp um Íslandsstofu þurfi talsverðrar vinnu við áður en það geti talist fullburða:

o Stjórn Íslandsstofu, eins og henni er lýst í 3. grein frumvarpsins, verður þung í vöfum og nauðsynlegt að skoða hvort ekki sé skynsamlegra að fækka stjórnarmönnum, en auka þess í stað hlutverk og vægi verkefnisstjórnanna sem kveðið er á um í greininni. Hvernig sem skipan stjórnar verður á endanum er ljóst að tryggja verður aðkomu listgreinanna að henni, sem verður best gert með því að BÍL eigi þar fulltrúa.

o Í 4. grein er lýst einhvers konar ríkisrekinni markaðsþjónustu, sem óljóst er hvort fallið getur undir verksvið ríkisins. Einnig er óljóst hvort þjónustukaup séu forsenda samstarfs við Íslandsstofu.

o Í skýringum við 5. grein kemur ekki fram hvort opinberar stofnanir sem stunda útflutning á menningu og listum muni falla undir 4. tölulið;  Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn etc. Ef svo verður þá er spurning hvort það verði gegn þjónustugjaldi sbr. 4.gr. Sé það ætlunin verður það að teljast ámælisvert, þar sem einungis yrði um tilflutning á opinberu fé að ræða.

o Hlutverk aðalfundar skv. 7. grein þarf að skýra nánar í texta greinarinnar sjálfrar. Nauðsynlegt er að fram komi hvaða vald aðalfundi er falið og á hvern hátt stjórn er bundin af ákvörðunum aðalfundar. Efast má um gildi aðalfundar ef hann verður einungis óljós samráðsvettvangur eins og skilja má af því sem segir í frumvarpinu um 7. grein.

o Umsögn fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins bendir til að draga megi í efa að þær hástemmdu hugmyndir sem liggja að baki frumvarpinu séu til þess fallnar að ná fram mikilli fjárhagslegri hagræðingu, eins og virðist ætlunin.

Stjórn BÍL er reiðubúin að fylgja sjónarmiðum þessarar umsagnar eftir við utanríkismálanefnd Alþingis sé þess kostur.

 

f.h. stjórnar Bandalags íslenskra listamanna (BÍL)  Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

 

Ályktun frá stjórn BÍL vegna tillagna um niðurskurð á útgjöldum Ríkisútvarpsins

Stjórn BÍL lýsir stuðningi við kröfur samstöðufundar kvikmyndagerðarfólks sem haldinn var að Hótel Borg 25. janúar 2010.Í yfirlýsingu frá útvarpsstjóra frá 22. janúar kemur fram að draga þurfi verulega saman í  rekstri stofnunarinnar og til að ná sparnaðarmarkmiðum verði m.a. hætt að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum.

Það er mat stjórnar BÍL að niðurskurðartillögur útvarpsstjóra stríði gegn lagalegu hlutverki stofnunarinnar.  Ríkisútvarpið hefur ríkulegum samfélagslegum skyldum að gegna og er beinlínis ætlað að vera einn af máttarstólpum íslenskrar menningar og listsköpunar. Hlutverk stofnunarinnar er ótvírætt, henni ber að standa vörð um íslenska menningu, miðla henni til landsins alls og næstu miða, standa vörð um lýðræðislegar grundvallarreglur, m.a með því að uppfræða og upplýsa þjóðina um málefni líðandi stundar. Þá er henni ætlað að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Sem fyrr lýsir stjórn BÍL yfir skilningi á þeim erfiðleikum sem glímt er við í rekstri hins opinbera, en jafnframt hlýtur hún að gera þá kröfu að málefnanlega sé staðið að niðurskurði útgjalda lykilstofnana á borð við Ríkisútvarpið.  Tillögur útvarpsstjóra virðast handahófskenndar og beinast helst að framleiðslu innlendrar dagskrár. Ekki er valin sú leið að stilla upp ólíkum kostum til sparnaðar, heldur ráðist í einhliða aðgerðir sem vega að nokkrum grundvallarskyldum stofnunarinnar.

Það er mat stjórnar BÍL að í rekstrarlegri hagræðingu Ríkisútvarpsins hefði mátt forgangsraða í þágu menningar og lista. Í því augnamiði hefði þurft að skoða gaumgæfilega og reikna út aðra kosti, eins og t.d. að stytta útsendingartíma sjónvarps og segja upp samningum um kaup á erlendu efni, sem hljóta að hafa hækkað umtalsvert  upp á síðkastið í ljósi gengishækkana. Það hefði mögulega verið hægt að hlífa Rás 1 við niðurskurði nú í ljósi þess samdráttar sem varð þar 2009. Þess í stað hefði mátt skoða mögulega hagræðingu af því að koma á launajöfnun og aflétta launaleynd innan stofnunarinnar. Það hefði verið hægt að leita eftir áliti starfsmanna stofnunarinnar og óska eftir hagræðingarhugmyndum frá þeim. Með slíkum aðferðum má finna leiðir sem yfirmönnum eru ekki eins vel sýnilegar og almennum starfsmönnum. Þá hefði þurft að skoða mögulegan sparnað af breytingum á launahvetjandi kerfi markaðsdeildar, lækkun launa yfirstjórnenda og niðurskurði á aksturs- og bílakostnaði stofnunarinnar.  Stjórn Ríkisútvarpsins hefði svo þurft að vera virkur þátttakandi í endanlegri ákvörðun um niðurskurðinn eftir að hafa skoðað til hlítar ólíka möguleika.

Stjórn BÍL hvetur til þess að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hugi að þeirri menningarstefnu, sem birtist í lögum um Ríkisútvarp og samningi stjórnvalda við Ríkisútvarpið og leggur til að fyrirliggjandi niðurskurðartillögur verði endurskoðaðar með það að leiðarljósi að staðið verði við þau fyrirheit og markmið sem þar eru sett fram.

 

Niðurskurður hjá RÚV ohf.

Tilkynnt hefur verið um niðurskurð hjá Ríkisútvarpinu ohf. og er ljóst að menning og listir verða þar afar illa úti.

Hætt verður að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið verður stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum. Beinum útsendingum frá stórum viðburðum eins og Grímunni og íslensku tónlistarverðlaununum verður hætt. Ljóst er að hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar verðu stórlega skert gangi allur þessi niðurskurður eftir. Eðliegt er að spurt sé hvort ekki hefði mátt forgangsraða með öðrum hætti, t.d. stytta dagskrána, innleiða á ný einn sjónvarpslausan dag í viku eða draga stórlega úr beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum. Það er líka umhugsunarefni að stjórn Ríkisútvarpsins ohf skuli standa að baki útvarpsstjóra í þessum áherslum, en stjórnin er skipuð fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Í stefnu beggja ríkisstjórnarflokkanna hefur verið löðg áhersla á að standa beri vörð um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, ekki verður annað séð en að þessar tillögur sem nú hafa verið kynntar fari gegn þeim stefnumiðum. Ljóst er að samtök listamanna eiga eftir að láta í sér heyra varðandi tillögur þessar á næstu dögum.

 

Nýr forseti

Kolbrún Halldórsdóttir

Nýr forseti hefur tekið við stjórnartaumunum á Bandalagi íslenskra listamanna, Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi ráðherra.

 

 

 

AUGLÝSING UM FERÐASTYRKI

FRÁ LETTERSTEDTSKA SJÓÐNUM

Letterstedtski sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja norrænt samstarf og samstarf við  Eystrasaltsríkin á sviði rannsókna, lista, vísinda og fræða. Íslandsdeild sjóðsins auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum árið 2010 og er umsóknarfrestur til 15. febrúar n.k.

Ekki er um eiginlega námsstyrki að ræða, heldur koma þeir einir til greina, sem lokið hafa námi og hyggja á frekari rannsóknir eða þekkingaleit á starfssviði sínu, svo sem við rannsóknir á vísinda- eða fræðastofnun eða með þátttöku í fundum eða ráðstefnum. Styrkir eru einungis veittir til ferða milli norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna, en hvorki til ferða innan landanna né til uppihalds.

Umsóknir með greinargóðum upplýsingum um tilgang fararinnar skal senda til ritara Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins, Snjólaugar G. Ólafsdóttur, Vesturbrún 36, 104 Reykjavík, fyrir 15. febrúar n.k.

Þór Magnússon, formaður Íslandsdeildar sjóðsins, veitir frekari upplýsingar í s. 551 5320.

Upplýsingar um sjóðinn og styrkveitingar úr honum er og að finna á slóðinni:

http://www.letterstedtska.org/anslag_2010.htm

 

Skýrsla stjórnar SÍM fyrir árið 2009

SÍM er hagsmuna- og stéttarfélag myndlistarmanna. Aðild að sambandinu eiga Félag íslenskra myndlistarmanna, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, Félagið íslensk grafík, Leirlistafélagið, Textílfélagið, Félag íslenskra samtímaljósmyndara, Myndlistarfélagið og félagar með einstaklingsaðild. Félagsmenn sem greiða félagsgjöld eru 685.

Á aðalfundi SÍM sem haldinn var 26, maí 2009 var kosin stjórn SÍM: Áslaug Thorlacius formaður, Katrín Elvarsdóttir varaformaður, Birta Guðjónsdóttir ritari, Finnbogi Pétursson gjaldkeri og Þuríður Sigurðardóttir meðstjórnandi. Varamenn: Hulda Stefánsdóttir og Ingirafn Steinarsson.

Áslaug Thorlacius sagði af sér formennsku og Finnbogi Pétursson baðst einnig lausnar frá stjórnarstörfum haustið 2009. Á aukaaðalfundi sem haldinn var 15. september 2009 var Hlynur Hallsson kosinn formaður og Ingirafn Steinarsson tók sæti Finnboga í stjórn.

Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins en auk hennar vinnur Kristín Kristjánsdóttir á skrifstofu SÍM í fullu starfi. Kristín er nú í fæðingarorlofi og leysir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir hana af. Ennfremur hafa aðrir unnið tímabundið á skrifstofunni við afleysingar eða í sérverkefnum.

SÍM er til húsa í SÍM-húsinu, Hafnarstræti 16 sem Reykjavíkurborg hefur lagt félaginu til. Nú stendur hinsvegar til að Reykjavíkurborg fari að innheimta leigu fyrir húsnæðið.

SÍM er m.a. aðili að Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar . SÍM er í samstarfi við Borgarbókasafnið í Reykjavík um rekstur Artóteks í aðalsafni safnsins við Tryggvagötu. Félagið á aðild að, Íslensku sjónlistaverðlaununum ásamt Hönnunarmiðstöð Íslands og Akureyrarbæ og Sjónlistamiðstöðinni á Korpúlfsstöðum ásamt Hönnunarmiðstöð Íslands.

Á alþjóðavettvangi starfar SÍM aðallega með BIN, norrænum samtökum myndlistarmanna og IAA, alþjóðlegum samtökum myndlistarmanna og Áslaug Thorlacius gjaldkeri Evrópudeildar IAA.

SÍM veitir Alþingi og opinberum aðilum ýmsa þjónustu. Félagið tilnefnir fulltrúa í ýmsar stjórnir og ráð, annast alþjóðasamskipti fyrir hönd íslenskra myndlistarmanna og veitir umsagnir og er til ráðgjafar í tengslum við lagasetningu og aðrar stjórnsýsluaðgerðir. Félagið veitir einnig sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum sérfræðiþjónustu við undirbúning og framkvæmd samkeppna um listskreytingar. Þegar unnið er eftir samkeppnisreglum SÍM tilnefnir SÍM fulltrúa í valnefndir og dómnefndir og leggur keppninni til trúnaðarmann, auk þess sem félagið fer yfir keppnislýsingar.

SÍM rekur Listskreytingasjóð ríkisins og UMM.IS upplýsingavef um myndlist og myndlistarmenn, Mugg – dvalarsjóð og Ferðasjóð Muggs. SÍM hýsir jafnframt skrifstofur Myndstefs og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar í Hafnarstræti 16.  SÍM er aðili að Listahátíð í Reykjavík.

SÍM hefur staðið fyrir degi myndlistarinnar í byrjun maí nokkur undanfarin ár. Hugmyndin er að fá myndlistarmenn um land allt til að opna vinnustofur sínar fyrir almenningi og vekja þannig athygli á vinnu myndlistarmanna og efla samskipti við áhugasaman almenning. Stefnt er að því að dagur myndlistarinnar verði í samvinnu við skóla, gallerí og söfn og mun stærri dagur í framtíðinni og hann verðu fluttur á fyrsta laugardag í október og verður því 2. október 2010.

Félagsmaður mánaðarins er dagskrá sem á sér stað í sal SÍM-hússins, en þar er félagsmaður með litla sýningu eða kynningu á verkum sínum í hverjum mánuði.  Einnig eru haldnar gestastundir þar sem erlendir gestir SÍM kynna sig og sín verk fyrir félagsmönnum og öðrum áhugamönnum um myndlist í formi fyrirlestra, lítilla sýninga eða gjörninga.

SÍM rekur 3 gestaherbergi í Hafnarstræti 16 en þau eru hagkvæmur kostur fyrir listamenn, sýningarstjóra, gagnrýnendur og aðra sem koma til borgarinnar í erindum sem tengjast myndlist. Þjónustan stendur öllum stofnunum og fyrirtækjum sem starfa við og í kringum myndlist til boða.

Skrifstofa félagsins rekur einnig Sjónlistamiðstöðina á Korpúlfsstöðum fyrir hönd Rekstrarfélags Korpúlfsstaða sem Hönnunarmiðstöð Íslands á aðild að. Á Korpúlfsstöðum eru um 40 vinnustofur fyrir myndlistarmenn og hönnuði og útibú frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Þar hafa verið útbúin stór verkstæði fyrir leir og textíl, sem rekin eru af Leirlistarfélaginu og Textílfélaginu.

SÍM rekur jafnframt listamannahúsið Seljaveg 32 en þar eru um 50 innlendir listamenn með vinnuaðstöðu og fyrirhugað er að taka í notkun nýja vinnustofumiðstöð í Garðabæ á næstu mánuðum.

Undanfarin ár hefur mikill kraftur farið í uppbyggingu SIM-RES, Alþjóðlegrar gestavinnustofumiðstöðvar sem félagið rekur á Seljavegi og á Korpúlfsstöðum og nú hefur SIM-RES 15 herbergi til ráðstöfunar. Á síðasta ári dvöldu hátt í 200 erlendir listamenn í gestavinnustofum SÍM í einn mánuð eða lengur. Herbergin eru í fullri nýtingu mestan hluta árs og gott betur því oft er tvímennt í herbergjunum.

SIM-RES er hluti af gestavinnustofuneti KulturKontaktNord árin 2008-2010 en fyrir tilstilli KKNord getur SÍM boðið um 10 norrænum listamönnum og listamönnum frá baltnesku löndunum til 1-2 mánaða dvalar sér að kostnaðarlausu.

 

Akureyri, 6. janúar 2010

Hlynur Hallsson, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna

 

Skýrsla stjórnar RSÍ fyrir árið 2009

Starfsemi Rithöfundasambands Íslands 2009

Fastir liðir eru eins og venjulega í Rithöfundasambandi Íslands sem hefur aðsetur í húsi sem Gunnar Gunnarsson rithöfundur lét reisa en Rithöfundasambandið fékk til afnota og umráða árið 1997. Félagsmenn eru um þessar mundir 378, inntökuskilyrði eru tvö verk sem hafi listrænt gildi – frumsamin eða þýdd, fræðirit eða leikverk – og árlega kosin inntökunefnd fjallar um.

Félagsgjöld eru kr. 17.600.

Stjórn sambandsins skipa fimm aðalmenn og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Þeir eru um þessar mundir Pétur Gunnarsson, formaður, Rúnar Helgi Vignisson, varaformaður, meðstjórnendur Karl Ágúst  Úlfsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Davíð A. Stefánsson, varamenn Jón Kalman Stefánsson og Sigurbjörg Þrastardóttir.

Helstu verkefni Rithöfundasambandsins eru nú sem fyrr margháttuð hagsmunagæsla félaganna, upplýsingamiðlun varðandi höfundarrétt og útgáfumál, gerð samninga og uppfærsla á þeim samningum sem fyrir eru. Sambandið rekur Höfundamiðstöð sem veitir upplýsingar um höfunda, skipuleggur og aðstoðar við bókmenntakynningar hefur milligöngu um upplestra og kemur að mótun á bókmenntadagskrám. Sérstaklega ber að tiltaka verkefnið “Skáld í skólum” sem notið hefur mikilla vinsælda, viðamikil bókmenntadagskrá er kynnt í grunnskólum landsins í byrjun skólaárs og síðan fara rithöfundar tveir og tveir á stúfana eftir því sem pantanir berast og kynna ýmist eigin verk eða annarra höfunda.

Á skrifstofu Rithöfundasambandsins starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi, en auk ofangreindra verkefna annast hann rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins, svo og orlofshúsa sambandsins sem eru tvö að tölu, að Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Austur-Skaftafellssýslu.

Óhætt er að segja að þræðir Rithöfundasambandsins liggi víða. Á erlendum vettvangi störfum við með og sækjum árlega fundi í Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu, sem og Evrópuráði rithöfunda og eigum fulltrúa í nefndum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Á innlendum vettvangi tökum við þátt í fjölmörgum verkefnum sem tengjast bókmenntum og listum, eigum tvo af sex fulltrúum í Bókmenntasjóði, fulltrúa í Bókasafnssjóði, sæti í stjórnum Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri og Þórbergsseturs í Suðursveit. Þá eigum við fulltrúa í Fjölís en svo nefnast regnhlífasamtök sem hafa það hlutverk að standa vörð um hagsmuni rétthafa á tímum óðafjölföldunar þegar hugverk er orðið almenningseign í áður óþekktum mæli um leið og það lítur dagsins ljós. Þátttaka okkar í BÍL er sömuleiðis mikilvæg með áherslu á mótun þeirrar ásýndar og áru sem við viljum að listirnar hafi í þjóðlífinu. Það er sannfæring okkar að þær megni að blása landsmönnum hug í brjóst í yfirstandandi þrengingum og efla orðstír Íslands gagnvart umheiminum. Ekki síst er þá litið til Bókamessunnar í Frankfurt 2011 þar sem íslenskar bókmenntir verða í brennidepli, en um leið munu aðrar listgreinar njóta góðs af: myndlistarsýningar, tónleikar, leikverk verða leikin, kvikmyndir sýndar, erindi haldin, greinar skrifaðar og viðtöl tekin – allt í hinu æskilegasta ljósi.

Þetta litla dæmi ætti að sýn hver lífæð listirnar eru þessu landi og hve skammsýnt það er að skerða þeirra hlut í yfirstandandi þrengingum. En jafnframt ætti það að vera okkur listamönnum brýning um að vakna til vitundar um mikilvægi okkar og áskorun um að ganga opinskátt til leiks í viðreisn íslensks samfélags og tala þar máli listanna.

 

f.h. Rithöfundasambands Íslands,

Pétur Gunnarsson

 

Page 30 of 40« First...1020...2829303132...40...Last »