Eins og gestum þessarar heimasíðu mun ljóst vera þá hefur BÍL tekið í notkun nýtt einkennismerki og endurnýjað útlit heimasíðunnar í samræmi við hið nýja merki. Merkið hannaði Kristján E. Karlson, grafískur hönnuður og umsjón með uppsetningu heimasíðunnar í WordPress hafði Sverrir Sv. Sigurðarson hjá Marktak. Báðum er þeim hér með þakkað fyrir gott starf.

Kristján E. Karlsson, hönnuður merkisins, segir um það: Ef vel er að gáð má finna vott af íslenskri formgerð í notkun mynsturs, þó er form merkisins að hluta byggt upp eins og MANDALA (sem þýðir hringur), með föstum kjarna, miðpunkti (Bandalagið). Í heild sinni rúmar það hugmyndir eins og t.d.: listir, upphrópun (Sjáðu mig!), hljóðbylgjur, útgeislun, sköpunarkraft, hringleikhús, örveru, guðlega veru – sjálfa listagyðjuna ef vel er að gáð… Hringformið hefur jú sterka tilvísun í form sólarinnar með allri sinni útgeislun enda oft látin tákna sjón og skynjun. (sbr. Sólin sem augu Seifs í grískri goðafræði). En með einfaldri litabreytingu er hægt að gefa merkinu mismunandi dýpt og skírskotun eftir þörfum.

“ A word or an image is a symbol when it implies something which lies beyond its obvious and immediate meaning.” sagði Carl. G. Jung og gefur þar með upp boltann fyrir djúpar pælingar um tákn og táknfræði.

Á þessum tímamótum hefur BÍL einnig stofnað síðu á samskiptavefnum facebook
Þar er meiningin að koma á framfæri upplýsingum um starf BÍL og er þess vænst að áhugasamir sýni sig á síðunni og miðli þangað inn efni sem gæti átt erindi við listafólk í öllum listgreinum.