Þórey Ómarsdóttir teiknari skrifar grein í Fréttablaðið í morgun um réttleysi sjálfstætt starfandi listafólks innan kerfisins. Enn eitt ákallið til stjórnvalda um að örygisnet samfélagsins verði aðgengilegt öllum:

Í apríl á þessu ári uppgötvaði ég að ég hef ekki rétt á 100% atvinnuleysisbótum. Þá fékk ég að vita að þrátt fyrir að hafa verið í fullu starfi sem sjálfstætt starfandi teiknari í þrjú ár hefði ég verið skilgreind sem hlutastarfsmaður í eigin rekstri og að ég ætti einungis rétt á 25% atvinnuleysisbótum.

Ég er með lítinn rekstur og er ekki með hátt reiknað endurgjald. Ég borga skatt í hverjum mánuði og tryggingargjald sem á að gefa rétt á atvinnuleysisbótum. Ég tek að mér alls konar verkefni innan hins skapandi geira, þar má nefna kennslu, uppsetningar og myndskreytingar í bækur. Eins og aðrir sjálfstætt starfandi listamenn er ég skilgreind af Vinnumálastofnun sem meðlimur í hinum svokallaða C viðmiðunarhópi.

C viðmiðunarhópurinn er ætlaður öllum þeim sem starfa innan skapandi geirans; dansarar, leikarar, höfundar, myndlistarmenn og fleiri. Hugtakið viðmiðunar

hópur mætti útskýra sem þau laun sem ríkið telur að umræddur einstaklingur hafi í mánaðarlaun. Samkvæmt ríkinu eru þeir sem settir eru í C viðmiðunarhópinn með mánaðarlaun á bilinu 340 þúsund til 450 þúsund. Því fer fjarri að ég nái þeim mánaðartekjum á mánuði, og reyndar þekki ég fáa sjálfstætt starfandi listamenn sem vinna fyrir þessum „meðal“ mánaðarlaunum C viðmiðunarhóps. Því má bæta við að listamannalaun frá ríkinu eru 266.737 kr. á mánuði.

Það er ótækt að Vinnumálastofnun skilgreini viðmiðunarlaun heillar stéttar svo hátt að fæstir ná þessu viðmiði (og jafnvel ekki þeir sem fá borguð listalaun frá ríkinu). Í einni heimsókn minni til Vinnumálastofnunar benti indæll starfsmaður mér á að súpan sem ég væri nú lent í væri alfarið sjálfsköpuð þar sem ég gæti unnið hvar sem er á betri launum en sem sjálfstætt starfandi teiknari, eins og til dæmis sem ófaglærður starfsmaður á leikskóla.

Það er á hreinu að það þarf að bæta atvinnuöryggi sjálfstætt starfandi listamanna og allra sjálfstætt starfandi einyrkja og verktaka. Ég vona að fjármálaráðuneytið taki á þessu máli og komi úrbótum af stað því það er löngu orðið tímabært.