Tilkynnt hefur verið um breytt fyrirkomulag úthlutana á safnliðum í fjárlögum. Um það má lesa eftirfarandi klausu á vef Alþingis:
Á árinu 2012 verða gerðar breytingar á úthlutun styrkja til félaga, samtaka og einstaklinga á þann veg að Alþingi ákvarðar einungis umfang einstakra málaflokka en lætur aðra aðila, svo sem lögbundna sjóði, menningarráð landshluta, ráðuneyti og fleiri um úthlutun úr þeim, allt eftir því sem við á. Öllum umsóknum um styrki verður fundinn farvegur þannig að taka megi afstöðu til þeirra á grundvelli fyrir fram ákveðinna viðmiða.
Þetta þýðir að fjárlaganefnd Alþingis mun ekki veita viðtöku erindum frá félögum, samtökum eða einstaklingum eins og verið hefur. Í september næstkomandi verður sett á vef Alþingis nánari útskýring á þessum breytingum og hvert aðilar eigi að snúa sér með styrkbeiðnir sínar.

Samtök listafólks fagna þessari niðurstöðu, enda er hún til marks um viðurkenningu stjórnvalda á réttmætri gagnrýni BÍL á það fyrirkomulag sem gilt hefur fram að þessu. Aðalfundur BÍL ályktaði um málið í febrúar sl. og fól stjórn BÍL að leita eftir viðræðum við stjórnvöld um framtíðarfyrirkomulag opinberra fjárframlaga til lista og menningar með það að markmiði að auka fagmennsku og skilvirkni í úthlutunum. Stjórnin hefur ítrekað komið þeim sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórnvöld að til að auka fagmennsku úthlutana sé nauðsynlegt að efla lögbundna sjóði, sem hafa skilgreindu hlutverki að gegna við fjármögnun lista- og menningarstarfs. Þar er um að ræða Bókmenntasjóð, Kvikmyndasjóð, sjóð til stuðnings starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna, Tónlistarsjóð, Safnasjóð, Barnamenningarsjóð og launasjóði listamanna. Einnig þarf að skoða möguleika á að fjölga sjóðunum, t.d. er full þörf á hönnunarsjóði og útflutningssjóði íslenskrar tónlistar.

Í tilkynningu Alþingis segir að í september verði birtar nánari útskýringar á þessum breytingum, ásamt upplýsingum um hvert aðilar eigi að snúa sér með umsóknir sínar. Vonandi láta þingmenn sér ekki detta í hug að beina „aðilum“ annað en til viðeigandi fagsjóða. Sjóðirnir starfa samkvæmt lögum og við þá starfa úthlutunarnefndir, skipaðar fagfólki úr viðkomandi geirum. Nefndirnar meta allar umsóknir á sama mælikvarða, annast nauðsynlega eftirfylgni og tryggja að skilyrði styrkveitinga séu uppfyllt. Það sama má segja um menningarráð þeirra sveitarfélaga, sem hafa menningarsamninga við stjórnvöld, þar er verið að innleiða svipað vinnulag og í sjóðunum. Það er von BÍL að tilkynningin á heimasíðu Alþingis sé til marks um vilja ráðamanna til að auka fagmennsku í úthlutun opinberra fjármuna til menningarstarfs.