Mánudaginn 30. maí bauð efnhaghs- og skattanefnd Alþingis stjórn BÍL til fundar, en allt frá því stjórn BÍL sendi nefndinni umsögn um frumvarp til laga um virðisaukasatt í desember sl. hefur staðið til að funda með nefndinni. Á fundinum lagði stjórn BÍL fram eftirfarandi minnisblað um helstu baráttumál listafólks sem tengjast verksviði nefndarinnar:

Minnisblað lagt fram á fundi stjórnar BÍL með efnahags- og skattanefnd Alþingis 30.05.2011
Stjórn BÍL vill vekja athygli nefndarinnar á baráttumálum BÍL varðandi skattalega stöðu listafólks.
Nokkur þeirra voru kynnt nefndinni með umsögn BÍL frá 13.12.10 vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt:
• Nauðsynlegt er að breyta undanþágu frá skattskyldu skv. 2.tl. 4.gr laganna þannig að hún nái til allra listamanna er selja listmuni og að skilgreiningu tollskrár verði breytt til samræmis.
• 2. tl. 4.gr. laganna þarf að kveða skýrt á um að undanþágan gildi um alla handunna listmuni framleidda af listamönnum burtséð frá aðferðinni sem notuð er við söluna. Breyta þarf „grunnskrá virðisaukaskatts“ til samræmis.
• Bæta þarf við 10.tl. 14.gr. laganna ákvæði um að tónlist og hljóðbækur til niðurhals beri 7% virðisaukaskatt.

Verði ekki hægt að gera þessar breytingar þarf að hefja umræðu um hvort það þjóni hagsmunum listafólks betur að hverfa frá undanþágunni en innleiða þess í stað frítekjumark og 7% skattlagningu eftir að frítekjumarki er náð.
Stjórn BÍL fór á fund fjármálaráðherra 10.02.10 þar sem lagt var fram minnisblað varðandi baráttumál, sem nauðsynlegt er að ítreka:

• Skattlagning tekna af endurleigu hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna (20%) en ekki skattlagningu launatekna (37,31% – 46,21%) eins og nú er. Til þess að ná fram slíkum breytingum þarf að gera breytingar á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003.
• Viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra verði breytt til samræmis við listamannalaun. Skv. reglum RSK er lágmark reiknaðs endurgjalds fyrir fullt starf kr. 414.000.- á mánuði, eða kr. 4.968.000.- á ári. Þetta stangast á við upphæð listamannalauna úr opinberum launasjóðum listamanna, en úr þeim fá listamenn nú kr. 274.000.- verktakagreiðslu á mánuði, skv. lögum nr. 57/2009. Til að bæta úr þarf annað hvort að lækka upphæðina sem krafist er í reiknað endurgjald eða hækka listamannalaunin til samræmis við kröfur RSK.
• Gera þarf sjálfstætt starfandi listamönnum kleift að sækja um atvinnuleysisbætur skv. lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Lögin virðast tryggja þeim sem standa skil á tryggingargjaldi rétt til atvinnuleysisbóta, en þau ákvæði virka ekki fyrir listafólk. Krafa ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald sem nemur kr. 414.000.- á mánuði leiðir af sér að listamaður sem telur fram lægri upphæð á einungis rétt á hlutfalli atvinnuleysisbóta! Þar að auki er sjálfstætt starfandi einstaklingum gert að „stöðva rekstur“ og skila inn vsk.númeri ef þeir hafa þegið bætur lengur en þrjá mánuði. Þá er þeim að auki gert að „vera í atvinnuleit“, m.ö.o. að taka hverju því launaða starfi sem býðst. Þessar kröfur gera listamönnum ókleift að nýta rétt til atvinnuleysisbóta. Þessu til viðbótar kveða lög um atvinnuleysistryggingar á um að þeir sem greiða reiknað endurgjald og tryggingagjald aðeins einu sinni á ári séu ekki sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna, þetta er enn ein hindrunin í vegi tekjulágra listamanna fyrir því að njóta sanngjarns réttar til bóta.