Nú er komið að því að flauta til leiks á listalausum degi. Í starfsáætlun BÍL fyrir árið 2011 er stefnt að því að halda listalausan dag í því augnamiði að vekja athygli fólks á þýðingu lista og menningar í daglega lífinu. Það kann að reynast þrautin þyngri að fara eftir boðorðunum fimmtán, sem gefin hafa verið út í tilefni dagsins, en það verður gaman að leggja sig fram um að reyna.

Boðorðin eru:

1. Ekki fara á listasöfn, hönnunarsöfn, gallerí eða minjasöfn sem geyma listaverk.
2. Ekki horfa á myndlistarverk, þar með talin málverk, ljósmyndir, höggmyndir og innsetningar, hvort sem er úti sem inni.
3. Ekki fara á tónleika.
4. Ekki hlusta á tónlist, hvorki af CD, vínil, snældu, stafrænum tónlistarspilurum né snjallsímum (hringitónar meðtaldir).
5. Ekki spila tölvuleik með grafískri mynd.
6. Ekki fara á danssýningu.
7. Ekki lesa skáldsögu, ljóð eða nokkurn annan texta sem talist gæti til fagurbókmennta.
8. Ekki fara í leikhús.
9. Ekki horfa á kvikmynd, hvorki í bíó, af tölvu, í sjónvarpi né hverskonar skjá
10. Ef einhvers konar listaverk birtist í sjónvarpi, t.d. í fréttum eða auglýsingum, ber að loka augunum eða líta undan.
11. Ef tónverk heyrist í sjónvarpi eða útvarpi ber að lækka niður í tækinu.
12. Ekki horfa á byggingar sem eru hannaðar af arkitekt.
13. Ekki horfa á eða ganga um garða sem eru hannaðir af landslagsarkitekt.
14. Ekki horfa á eða ganga í sérhönnuðum fötum eftir fatahönnuð.
15. Ekki gera neitt eða njóta neins sem hægt væri að túlka sem list eða hefur í sér listrænt gildi, þar með talin verk dansara, hönnuða, kvikmyndagerðarmanna, leikara, myndlistar-manna, rithöfunda og tónlistarmanna.