Nefndasvið Alþingis,
b.t. fjárlaganefndar,
Tjarnargötu 9,
101 Reykjavík
Í bréfi þessu er umsögn Bandalags íslenskra listamanna um frumvarp til fjárlaga næsta árs. Umsögnin varðar framlag ríkissjóðs til listamannalauna, Kvikmyndasjóðs, Bókasafnssjóðs höfunda, Tónlistarsjóðs, Sviðslistasjóðs, Myndlistarsjóðs og menningarmiðstöðva sem lúta að málefnasviði 18 – Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
Á tímum þegar lýðræðisleg gildi og íslenskan standa frammi fyrir vaxandi áskorunum er brýnt að líta á menningu og listir sem kjarnann í varnarlínu þjóðarinnar. Þær eru ekki einungis grundvallarstoðir sjálfstæðrar þjóðar, heldur einnig burðarás lýðræðislegrar umræðu og lífæð íslenskrar tungu.
Þann 4. október 2024 kom út skýrsla menningar- og viðskiptaráðherra um verðmætasköpun skapandi greina. Í skýrslunni kemur m.a. fram að opinber fjárfesting einnar krónu í menningu og skapandi greinum verður að þremur krónum í hagkerfinu. Einnig kemur þar fram að líta þurfi á menningu og skapandi greinar sem efnahagslega, samfélagslega og félagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar. Mikilvægt er að viðurkenna hagræna þýðingu menningar og skapandi greina. Stjórnvöld þurfa að búa til hagfellt umhverfi sem hvetur til þróunar og aukinna umsvifa menningar og skapandi greina. Menning, listir og sköpun hafa að sjálfsögðu einnig gildi í sjálfu sér og mikilvægi þeirra þátta fyrir félagslega samheldni, þekkingarleit, ögrun, nýsköpun, vellíðan og hamingju verða seint metin til fulls.
Fjárhæð listamannalauna
Starfslaun listamanna hafa verið og verða ein mikilvægasta undirstaða menningar og lista á Íslandi. Þau skipta sköpum; styðja við frumsköpun í landinu og ábata samfélagsins af henni. Starfslaunin eru fjárfesting – ein sú allra verðmætasta sem til er. Fjárfesting sem styður við andlegt líf og forsendur þess að lifa og starfa á Íslandi á 21. öld.
Í 4. gr. laga um listamannalaun segir m.a.: „Fjárhæð starfslauna skal koma til
endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og
efnahagsmála.“
Skemmst er frá því að segja að listamannalaun hafa ekki fylgt almennri launaþróun
frá því úthlutun eftir núgildandi lögunum hófst, eins og meðfylgjandi línurit og töflur í
viðauka sýna. Í ár voru listamannalaunin kr. 560.000 á mánuði, verktakagreiðsla sem
jafngildir um kr. 390.000 launagreiðslu. Ef listamannalaun fylgdu almennri
launaþróun ættu þau að verða kr. 770.000.- á mánuði á næsta ári.
Bandalag íslenskra listamanna óskar því eftir leiðréttingu á fjárhæð
listamannalauna.
Samningar og styrkir til starfsemi á sviði lista og menningar
Stjórnvöld geta með einföldum og hagkvæmum hætti eflt útflutning lista með því að styrkja og efla Miðstöð íslenskra bókmennta, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Sviðslistamiðstöð Íslands, Myndlistarmiðstöð,Tónlistarmiðstöð og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Með eflingu þeirra og með meira fjármagni í styrktarsjóði og starfslaun listamanna er hægt að styðja við frumsköpun og skapa alþjóðleg verðmæti sem skila sér margfalt til baka til þjóðarbúsins.
Tónlistarmiðstöð
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir 20 m.kr. lækkun á framlagi til Tónlistarmiðstöðvarinnar frá því sem verið hefur frá stofnun (2024 og 2025), eða um 13% skerðingu milli ára. Við teljum slíka skerðingu bæði ósamræmanlega markmiðum stjórnvalda um að styðja myndarlega við listir og menningu og auka enn frekar útflutning og verðmætasköpun í skapandi greinum og skaðlegan þeirri uppbyggingu sem hafin var með stofnun miðstöðvarinnar haustið 2023. Miðstöðin tók formlega til starfa á síðasta ári. Skerðing um 20 m.kr. mun veikja getu Tónlistarmiðstöðvarinnar til að sinna lögbundnu hlutverki sínu og dregur úr getu hennar til að styðja við bæði grasrót og atvinnulíf í tónlist. Þetta ásamt verðbólgu og kjarasamningsbundnum hækkunum, kallar fram uppsagnir og takmarkanir á þjónustu Tónlistarmiðstöðvar. Kraftur Tónlistarmiðstöðvar felst í sérfræðingum miðstöðvarinnar sem hafa um árabil stutt við þróun íslenska tónlistargeirans og hafa m.a. byggt upp öflugt alþjóðlegt tengslanet og fjárfest í mikilvægum verkefnum.
Sviðslistamiðstöð
Mikilvægt er að efla Sviðslistamiðstöðina, sem hefur frá stofnun gegnt gífurlega mikilvægu hlutverki í kynningu, útflutningi og stuðningi við íslenskar sviðslistir. Miðstöðin hefur nú þegar náð mörgum af þeim markmiðum sem sett voru við stofnun hennar, en líður fyrir manneklu – einungis einn starfsmaður, framkvæmdastjórinn, sinnir allri starfsemi.
Efla þarf miðstöðina svo hún geti ekki aðeins sinnt kynningarstarfi og útflutningi íslenskra sviðslista, heldur einnig þjónustu við landsbyggðina, námskeiðahaldi fyrir sviðslistafólk, móttöku erlendra sérfræðinga og öðrum mikilvægum verkefnum.
Alþjóðleg kynning sviðslista styrkir ímynd Íslands, eykur útflutningstekjur og opnar ný tækifæri fyrir íslenskt listafólk — en án öflugrar miðstöðvar verða þessi tækifæri ekki nýtt til fulls.
Tónlistasjóður
Tónlistarsjóður gegnir lykilhlutverki í að skapa fjölbreytni, gæði og kraft í mannlífi á Íslandi. Hann er eini sjóðurinn sem nær utan um breiðan hóp tónlistarfólks og verkefna og hefur þannig úrslitaáhrif á hvort íslenskt tónlistarlíf blómstrar eða hnignar.
Tónlistarfólk á Íslandi hefur afar takmarkaða möguleika til að sækja um styrki hérlendis og árangurshlutfall í þá sjóði sem eru til staðar er lágt. Í síðustu úthlutun Tónlistarsjóðs var árangurshlutfall umsókna að meðaltali aðeins 11%. Þetta sýnir að langflest frjó og faglega sterk verkefni fá engan stuðning.
Núverandi framlög til Tónlistarsjóðs nægja hvorki til að mæta eftirspurn né tryggja eðlilegt starfsumhverfi tónlistarfólks. Aukin framlög væru lykilatriði til koma að fleiri verkefnum til framkvæmda og auka fjölbreytni tónlistarlífsins, draga úr óöryggi tónlistarfólks, tryggja jafnvægi milli tónlistarstefna og styðja betur við nýsköpun og alþjóðlegan árangur. Slík fjárfesting skilar sér margfalt til baka – bæði efnahagslega og samfélagslega.
Stórskaðlegt væri að draga úr framlagi til Tónlistarsjóðs og myndi hamla þróun íslenskrar tónlistar á öllum sviðum, senda tónlistarfólki þau skilaboð að starf þess sé ekki metið að verðleikum og veikja alþjóðlega ímynd Íslands sem skapandi og framsækins lands.
Niðurskurður Tónlistarsjóðs milli áranna 2025 og 2026 nemur 3,46%.
Bandalag íslenskra listamanna telur nauðsynlegt að leiðrétta framlag til Tónlistarsjóð og að hann verði að lágmarki 235.000.000 milljónir króna miðað við launavísitölu.
Kvikmyndasjóður
Kvikmyndasjóður Íslands var stofnaður árið 1979 og er skilgreint hlutverk hans að styðja við íslenska kvikmyndaframleiðslu, þróun íslenskrar kvikmynda-
menningar og að kynna íslenskar kvikmyndir erlendis. Að auki sér Kvikmyndasjóður um starfsemi Kvikmyndasafns Íslands sem einnig gegnir mikilvægu hlutverki á sviði skráningar, varðveislu, rannsókna og uppfræðslu um kvikmyndaarf okkar.
Ný kvikmyndastefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2020 og er markmið hennar að skapa auðuga kvikmyndamenningu, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og eflir íslenska tungu, bjóða fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar. Með henni fylgir aðgerðaráætlun og þar kemur fram að það á að styrkja sjóðakerfið sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk með því að efla Kvikmyndasjóð og stofna nýjan fjárfestingarsjóð fyrir sjónvarpsefni.
Við minnum á að efni sem framleitt er með stuðningi Kvikmyndasjóðs er á íslensku og að meðaltali er opinber stuðningur við íslenskar kvikmyndir innan við 40%. Það sem eftir stendur kemur frá forsölu, fjárfestum, erlendum sjóðum og erlendum meðframleiðendum. Vilyrði um fjárfestingu frá Kvikmyndasjóði er hins vegar forsenda þess að aðrir aðilar fjárfesti í verkefninu, sérstaklega þegar kemur að erlendum kvikmyndasjóðum og samframleiðendum.
Staða Kvikmyndasjóðs er mikið áhyggjuefni. Það að halda honum í sömu krónutölu er í raun áframhaldandi niðurskurður. Það skýtur sérstaklega skökku við á þessum tímum þegar íslenskan á alvarlega undir högg að sækja gagnvart enskunni og ljóst er að leikið íslenskt efni á skjám og bíótjöldum landsmanna er áhrifaríkasti snertiflötur íslenskrar frásagnarlistar samtímans – og þar með íslenskunnar – við þjóðina. Það er verulegt vandamál að framleiðsla kvikmynda- og sjónvarpsefnis fyrir börn og unglinga sé nánast engin, þar sem slíkt efni skiptir miklu máli fyrir sjálfsmynd og menningu ungs fólks – að þau geti séð sig og sitt samfélag speglað í efni sem gerist hér á landi.
Ísland hefur með löggildingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skuldbindið sig til að tryggja börnum og ungmennum aðgang að fjölbreyttri og vandaðri menningu, þar á meðal kvikmyndum sem endurspegla eigið samtíma, uppruna, tungumál og gildi. Til að uppfylla það markmið þarf að efla innviði skapandi greina og styrkja Kvikmyndasjóð þannig að hann geti staðið að verkefnum sem beinast sérstaklega að börnum og ungmennum enda á sáttmálinn að tryggja að þau eigi rétt á að skapa, njóta og taka þátt í menningarlegu lífi á eigin forsendum. Með því að efla Kvikmyndasjóð á þessum grunni er stigið mikilvægt skref í átt að því að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar – og um leið fjárfesti í framtíð menningar, tungu og lýðræðis.
Bandalag íslenskra listamanna telur mikilvægt að Alþingi leiðrétti framlag til Kvikmyndasjóðs í fjárlagafrumvarpinu og að hann verði að lágmarki 1.650 milljónir króna að núvirði og að 400 milljónum króna verði bætt við í sjónvarpssjóðinn svo hægt sé að fylgja aðgerðaráætluninni sem fylgdi kvikmyndastefnunni.
Bókasafnssjóður höfunda
Hlutverk Bókasafnssjóð höfunda er að styrkja við bókmenningu á Íslandi með því að umbuna höfundum vegna útlána þeirra á bókasöfnum. Greiðslur úr sjóðnum eru hrein afnotagjöld og mikilvægur tekjuliður rit- og myndhöfunda bóka sem og þýðenda.
Bókasafnssjóður höfunda var aukinn árið 2021 eftir að samkomulag náðist um að greiða einnig fyrir útlán hjá Hljóðbókasafni Íslands. Í fyrra var sjóðurinn svo skorinn niður um 22,8% og nú er svo komið að sú sanngjarna viðbót sem náðist eftir margra ára baráttu er að engu orðinn.
Bókasafnssjóður höfunda greiðir höfundum og þýðendum fyrir hvert útlán á bókasafni. Þeir höfundar sem fá hæstar greiðslur úr bókasafnssjóði fá fæstir listamannalaun. Niðurskurður á Bókasafnssjóði höfunda hefur þess vegna mest áhrif á barnabókahöfunda, þýðendur og
höfunda afþreyingarbókmennta en sjóðurinn er sérstaklega mikilvægur í tekjumyndun þeirra.
Bandalag íslenskra listamanna telur mikilvægt að leiðrétta framlag til sjóðsins og taka tillit til launaþróunar enda eru þetta í raun laun höfunda. Sjóðurinn var 197,4 milljónir króna árið 2021 sem væru kr 264 milljónir á verðlagi 2026 miðað við verðlagsvísitölu, en kr. 278 milljónir miðað við launavísitölu.
Sviðslistasjóður
Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til
atvinnuleikhópa. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í landslagi sviðslista á Íslandi og hefur lengi verið alltof lítill miðað við umfang sviðslista á landinu og fjölda umsókna í sjóðinn.
Flest listafólk innan sviðslista er sjálfstætt starfandi og aukin framlög til Sviðslistasjóðs er nauðsynleg og skynsamleg fjárfesting, sem og viðurkenning á mikilvægi sjálfstæðrar listsköpunar sem burðarás menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og samfélagslegrar umræðu. Aukin fjárfesting til sjálfstæðrar listsköpunar tryggir einnig að listamönnum innan sviðslista, sem alla jafna búa við ótrygg kjör og bága réttindaávinnslu, sé búin faglegri umgjörð og styrkari starfsgrundvöllur. Tryggja þarf jafnvægi innan sviðslistanna, þar sem sjálfstæðar sviðslistir fá hlutfallslega lítið fjármagn miðað við stofnanir sem njóta stöðugri fjárlaga. Aukin framlög til sjálfstætt starfandi sviðslistafólks er mikilvægur liður í að uppfylla markmið menningarstefnu stjórnvalda um að efla aðgengi, nýsköpun og sjálfbærni í menningarlífi landsins.
Í síðustu úthlutun bárust sjóðnum 115 umsóknir þar sem sótt var um ríflega 1,6 milljarð króna í Sviðslistasjóð og launasjóð sviðslistafólks. Heildarstuðningur til sviðslistahópa og sviðslistafólks var rúmlega 155 milljónir ef launasjóður sviðslistafólks er tekinn með en einungis 98 milljónir ef við teljum bara Sviðslistasjóð sjálfan. Það samsvarar árangurshlutfalli upp á 9.68% sem er langt um lægra en í aðra sjóði hérlendis eða svipaða sjóði erlendis. Til viðmiðunar er eðlilegt að árangurshlutfall í svipaða sjóði erlendis sé um 30%. Þetta þýðir að fjölda framúrskarandi verkefna sem eiga fullt erindi er hafnað á hverju ári.
Bandalag íslenskra listamanna telja nauðsynlegt að leiðrétta framlag til Sviðslistasjóðs og að hann verði að lágmarki kr. 320 milljónir svo hægt sé að stefna að 20% árangurshlutfalli úr sjóðnum.
Myndlistarsjóður
Myndlistarsjóður var stofnaður árið 2013. Hlutverk sjóðsins er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinnar þekkingar á íslenskri myndlist.
Við setningu myndlistarlaga árið 2012 var markmiðið að fjárhæð sjóðsins yrði 100 milljónir króna árið 2017 og samkvæmt myndlistarstefnu var gert ráð fyrir að sjóðurinn hækki um a.m.k. 5% árlega. Miðað við það ætti upphæð sjóðsins nú að nema um kr. 257,9 milljónir. miðað við launavísitölu.
Þeir sem geta sótt um úr Myndlistarsjóði eru myndlistarfólk, sýningarstjórar, listfræðingar og sjálfstætt starfandi fagfólk á sviði myndlistar, auk listasafna, gallería, sýningarstaða og stofnana. Árið 2025 bárust 423 umsóknir, en aðeins var unnt að styrkja 109 verkefni. Heildarupphæð umsókna nam 475,8 milljónum, en úthlutun var einungis kr. 64 milljónir. Árangurshlutfallið var því um 14%, sem telst hvorki ásættanlegt né í samræmi við markmið myndlistarlaga eða -stefnu. Það er afar mikilvægt að sjóðurinn haldi áfram að vaxa og að þær aðgerðir sem kveðið er á um í myndlistarstefnu verði fjármagnaðar að fullu.
Myndlistarsjóður er hornsteinn íslenskrar myndlistarsenu. Hann veitir listafólki og stofnunum nauðsynlegan stuðning til að skapa, sýna og miðla verkum við aðstæður þar sem markaður og innviðir eru takmarkaðir. Með úthlutunum sínum eflir sjóðurinn faglegt starf, fjölbreytni og nýsköpun í myndlist. Sjóðurinn stuðlar einnig að alþjóðlegu samstarfi og kynningu íslenskrar myndlistar erlendis. Myndlistarsjóður er því ekki aðeins fjárhagslegur bakhjarl, heldur drifkraftur að nýsköpun og eflingu menningarlegs sjálfstæðis þjóðarinnar.
Bandalag íslenskra listamanna telur nauðsynlegt að leiðrétta framlag til sjóðsins og að hann verði að lágmarki kr. 257,9 milljónir, í samræmi við þá fjárhæð sem stefnt var að við setningu myndlistarlaga og miðavið launavísutölu.
Barnamenningarsjóður Íslands
Barnamenningarsjóður gegnir lykilhlutverki í að efla sköpunargleði, sjálfstraust og menningarvitund barna og ungmenna um allt land. Með stuðningi sjóðsins fá börn tækifæri til að taka virkan þátt í menningu, listum og skapandi starfsemi – óháð búsetu, aðstæðum eða bakgrunni.
Samfélagsbreytingar hafa leitt til þess að börn tengjast oftar í gegnum tækni en í eigin persónu, sem getur dregið úr samkennd og félagslegum tengslum. Því er mikilvægara en nokkru sinni að skapa vettvang þar sem börn geta hist, unnið saman, tjáð sig og byggt upp tengsl í gegnum menningu og listir.
Slík fjárfesting hefur víðtæk áhrif á samfélagið í heild. Þegar börn fá að skapa, tjá sig og upplifa menningu verða þau meðvitaðri, opnari og samhentari einstaklingar. Þau læra að vinna saman, virða fjölbreytileika og byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Með því að fjárfesta í barnamenningu er verið að fjárfesta í framtíðinni – í kynslóð sem mun bera áfram skapandi hugsun, samfélagslega ábyrgð og menningarlegt sjálfstæði Íslands.
Bandalag íslenskra listamanna telur mikilvægt að Alþingi leiðrétti framlag til Barnamenningarsjóð og haldi sig við aðgerðaráætlunina og framlagið verði því kr. 120 milljónir.
Fyrir hönd stjórnar BÍL,
Jóna Hlíf Halldórsdóttir,
forseti bandalags íslenskra listamanna.