Nú hefur fjárlaganefnd Alþingis tilkynnt um breytt fyrirkomulag umsókna um styrki og úthlutanir þeirra á safnliðum á fjárlögum, en eins og greint var frá í júní sl. þá var von á niðurstöðu varðandi nýja framkvæmd nú í september. Tilkynningin á vef Alþingis er eftirfarandi:
Á árinu 2012 verða gerðar breytingar á úthlutun styrkja til félaga, samtaka og einstaklinga á þann veg að Alþingi hættir úthlutunum á styrkjum til ýmissa verkefna til félaga, samtaka og einstaklinga eins og verið hefur. Alþingi mun áfram ákvarða umfang styrkja til einstakra málaflokka en úthlutun þeirra mun flytjast til ráðuneyta, lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta eða annarra sem sjá um og bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum.
Ráðuneytin munu einungis úthluta styrkjum til verkefna sem falla undir málefnasvið þeirra að svo miklu leyti sem þau falla ekki undir lögbundna sjóði eða samninga, svo sem menningarsamninga eða vaxtarsamninga. Því er mikilvægt að umsækjendur kynni sér vel hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á þeim málaflokki sem verkefni umsækjanda um styrk fellur undir.
Umsóknarfrestur er til 2. desember og úthlutað er einu sinni á ári eða eigi síðar en 31. janúar ár hvert.

Það virðist sem í meginatriðum sé niðurstaðan í samræmi við óskir BÍL, sbr. ályktun aðalfundar BÍL frá 5. febrúar 2011:
Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna felur stjórn BÍL að leita eftir viðræðum við stjórnvöld um framtíðarfyrirkomulag opinberra fjárframlaga til lista og menningar með það að markmiði að auka fagmennsku og skilvirkni í úthlutunum. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að efla lögbundna sjóði sem hafa skilgreindu hlutverki að gegna við fjármögnun lista- og menningarstarfs. Þar er um að ræða Bókmenntasjóð, Kvikmyndasjóð, sjóð til stuðnings starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna, Tónlistarsjóð, Barnamenningarsjóð og launasjóði listamanna.

Á síðunni er einnig að finna upplýsingar um fyrirkomulag framlaga úr lögbundnum sjóðum ásamt upplýsingum um verkefni félagasamtaka eða aðila sem ekki eiga aðild að menningarsamningum né hafa aðgang að sjóðum. Það er ekki ljóst af skýringum fjárlaganefndar hvers konar verkefni þetta gætu mögulega verið, en hér er slóð inn á skjal það sem útlistar nánar verkefni eftir ráðuneytum. Einnig er hér slóð inn á nýjar reglur ráðuneytanna um stuðning við verkefni.

Það er fagnaðarefni að nú skuli loks sjá fyrir endann á hinni handahófskenndu úthlutun fjárlaganefndarmanna til menningarverkefna, en það sem mestu skiptir er þó að fjármunir þeir, sem hingað til hafa runnið þá leiðina til menningarstarfs skili sér í hina lögbundnu sjóði og til menningarsamninga landshlutanna. Á yfirstandandi ári nam upphæðin, sem fjárlaganefnd úthlutaði til menningartengdra verkefna, á þriðja hundrað milljónum króna. Ef breytingin á að skipta einhverju máli, þá ættu sjóðirnir og menningarsamningarnir að hækka a.m.k. sem því nemur. Hvort það gengur eftir kemur í ljós 3. október, þegar fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 verður lagt fram á Alþingi.