Author Archives: vefstjóri BÍL

Skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna

Í tengslum við aðalfund sinn býður BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, til málþings í Iðnó laugardaginn 9. febrúar undir yfirskriftinni

Skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna.

Málþingið er byggt á sex fyrirlestrum, sem fluttir verða af félögum í aðildarfélögum BÍL. Þau eru: Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt, Bragi Valdimar Skúlason tónlistarmaður og textasmiður, Guðmundur Oddur Magnússon hönnuður og prófessor, Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður og leiðsögumaður, Sólveig Arnarsdóttir  leikari og Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður og rithöfundur.

Talsvert er nú rætt um skapandi atvinnugreinar og stöðu þeirra, m.a. í tengslum við útgáfu mennta- og menningarmálaráðuneytis á skýrslu starfshóps um skapandi greinar:

“Skapandi greinar – Sýn til framtíðar”

Hugmyndin með málþinginu er að skoða hvaða augum listamenn og hönnuðir sjá uppbyggingu skapandi atvinnugreina í náinni framtíð. Frummælendurnir nálgast viðfangsefnið  hver með sínum hætti, út frá eigin reynslu af störfum í hinum skapandi geira og líklegt er að sýn þeirra geti haft áhrif á umræðuna um uppbyggingu greinanna. Málþingið ætti því að vekja forvitni út fyrir raðir aðildafélaga BÍL, t.d. fjölmðila, aðila vinnumarkaðarins, stjórnmálamanna og þeirra sem sinna opinberri stjórnsýslu.

Fyrirkomulag málþingsins verður þannig að fyrirlestrarnir verða kvikmyndaðir og settir á vefinn að málþinginu loknu, með það að markmiði að umræðan geti haldið áfram á vefmiðlum og samskiptasíðum. Þannig má spinna þráðinn áfram og nota rök listamanna og hönnuða þegar umræðunni vindur fram t.d. í tengslum við komandi þingkosningar.

Málþingið hefst kl. 13:30 og stendur til kl. 15:30. Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins. Málþingið er öllum opið.

Aðalfundur BÍL 9. febrúar 2013

Aðalfundur BIL verður haldinn laugardaginn 9. febrúar 2013 í Iðnó við Tjörnina kl. 11:00 – 13:00. Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Lögmæti fundarins kannað og staðfest
 3. Skýrsla forseta um starf BÍL 2012
 4. Ársreikningar 2012
 5. Starfsáætlun 2013
 6. Ályktanir
 7. Önnur mál

Þegar fundinum lýkur verður borin fram hádegishressing og kl. 13:30 hefst málþing um listir og skapandi greinar; Skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Því lýkur kl. 15:30 með móttöku í boði BÍL. Málþingið er öllum opið.

Auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt.

 

Nýr bókmenntapáfi

Í Fréttablaðinu í dag fjallar Guðmundur Andri Thorsson um “hinn árlega héraðsbrest” sem verður þegar tilkynnt er um úthlutun listamannalauna:

Árlega birtast í blöðum og netmiðlum myndir af listamönnum sem hlotið hafa úthlutun úr launasjóðum á vegum ríkisins. Þessar myndbirtingar vekja hugrenningatengsl við myndir af sakborningum í fjársvikamálum. Okkur er ætlað að horfa á þessi andlit og hugsa um það hvílíkir loddarar þau séu – hversu auðveldlega þau komist yfir almannafé. Okkur er ætlað að hugsa: Af hverju þau? Okkur er ætlað að hugsa: Aha! Klíka!

Af hverju bara listamenn?
Eða hvers vegna að birta myndir af því fólki sem þiggur laun úr almannasjóðum til að skapa list fremur en ýmsum öðrum sem njóta framlaga úr opinberum sjóðum? Hví ekki að birta myndir af öllum þeim sem hljóta styrki úr nýsköpunarsjóðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs og rannsóknasjóðum með tilheyrandi vangaveltum um verðuga og óverðuga? Af hverju ekki að birta myndir af læknum sem fá til sín heimsóknir sjúklinga niðurgreiddar af ríkinu, með tilheyrandi pælingum um erindi og erindisleysu? Væri ekki tilvalið að birta myndir af bændum sem fá til sín framleiðslutengdar beingreiðslur, og láta þá fylgja bollalengingar ófróðra um sanna bændur og ósanna?

Af hverju bara listamenn? Um það ríkir nokkur sátt í samfélaginu að það þurfi á listum að halda, vegna þess að það er svo ótalmargt sem listirnar færa okkur sem engin önnur iðja gerir. Markaðstrúarmenn telja að vísu að eftirláta eigi hinum óskeikula og guðlega markaði að skilja sauðina frá höfrunum – en til allrar hamingju eru þeir í miklum minnihluta og hafa lítil áhrif, nema þá helst inni á téðum fjölmiðlum þar sem þeir stökkva ævinlega til og birta sakamannamyndir af því fólki sem unnið hefur það sér til óhelgi að hljóta listamannalaun. Flest fólk áttar sig hins vegar á hinu: að til þess að samfélagið fái notið listar verða listamenn að vera til. Og til að svo megi verða þurfa þeir að lifa, þó að mörgum finnist þá fyrst eitthvað í þá varið þegar þeir eru dauðir.

Til þess að meta hverjir eigi að njóta þessara launa höfum við sérstakar úthlutunarnefndir þar sem situr fólk sem talið er hafa sérþekkingu á viðkomandi listgrein.

Að sjálfsögðu eru úthlutunarnefndir þessara launa ekki óskeikular og eflaust hægt að nefna ótal dæmi um það hversu misvitrar þær séu. En svona virkar þetta og vandséð hvernig það má öðruvísi vera í nútímasamfélagi þar sem reynt er að koma í veg fyrir klíkuskap og frændhygli af fremsta megni.

Daðason með dylgjur fer
Sum sé: Ásmundur Einar Daðason var með dylgjur. Innblásinn af fréttum úr safnaðartíðindum markaðstrúarmanna, Viðskiptablaðinu, kvaðst hann á bloggi sínu vera hugsi yfir því að makar ráðherra hefðu fengið laun úr rithöfundasjóði. Um er að ræða Jónínu Leósdóttur og Bjarna Bjarnason. Ásmundur taldi úthlutun til þessara rithöfunda til marks um undarlega forgangsröðum ríkisstjórnarinnar, og gaf þar með til kynna að ákvörðun um þessar greiðslur hefði einhvern veginn ratað inn á ríkisstjórnarfundi, og virtist ekki hvarfla að honum að ef til vill hefðu þau Jónína og Bjarni eitthvað gert sjálf til að verðskulda slík laun.

Jónína hefur um árabil verið í fremstu röð þeirra höfunda sem skrifa fyrir unglinga, þótt hún hafi líka skrifað bækur sem ætlaðar eru eldri lesendum, leikrit og ljóð. Hún hefur verið sérstaklega fundvís á viðkvæm og vandmeðfarin – og mikilvæg – efni en haft lag á að skrifa um þau af nærgætni og húmor. Bjarni Bjarnason hefur stundað ritstörf frá árinu 1989, skrifað skáldsögur, ljóð, smásögur, greinar. Hann nýtur mikillar virðingar meðal þeirra fjölmörgu sem fylgjast með íslenskum bókmenntum og hefur unnið til ýmissa viðurkenninga, fengið verðlaun og tilnefningar. Bækur hans eru ólíkar bókum annarra; fantasíur en um leið mjög jarðbundnar, fullar af heimspekilegum, trúarlegum og tilvistarlegum pælingum? Sem sé virtur og þekktur höfundur þótt Ásmundur Einar Daðason hafi aldrei heyrt hans getið.

Kannski veit Ásmundur Einar ekkert um bókmenntir þó að hann telji sig þess umkominn að tjá sig um þær af því að hann er alltaf að lesa um það í Morgunblaðinu hversu gáfaður hann sé. Og kannski er þetta er bara illgjarnt slaður, til þess að gera lítið úr öðru fólki og koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það má einu gilda. Því þetta er umfram allt heimild um Ásmund Einar Daðason og hugsunarhátt hans. Og næst þegar hann tekur til máls og fer að dylgja og atyrða og lasta – um Evrópusambandið eða gamla félaga í VG – er ágætt fyrir fólk að hafa í huga þetta dæmi um það hvernig hann vinnur úr þeim upplýsingum sem hann aflar sér – og neitar sér um.

Umsögn um frv til laga um happdrætti

Nýverið mælti innanríkisráðerra fyrir frumvarpi til laga um happdrætti. BÍL hefur lengi barist fyrir því að list- og menningartengd verkefni eigi þess kost að njóta einhvers hluta ágóðans af íslenska lottóinu. Af því tilefni sendi BÍL Alþingi umsögn um málið: 

Efni: Umsögn um þingmál 477 á þingskjali 615 um happdrætti
Bandalag íslenskra listamanna hefur beitt sér fyrir því að happdrættislöggjöf á Íslandi verði breytt þannig að ágóða af íslenska lottóinu verði m.a. varið til verkefna á sviði lista og menningar, svo sem títt er í nágrannalöndum okkar. BÍL hefur borið þetta erindi fram við þrjá ráðherra á þessu kjörtímabili, Steingrím J. Sigfússon þáv. fjármálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, þáv. dómsmálaráðherra og Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Ráðherrarnir tóku allir vel í málaleitan BÍL, sem lagði til að stofnaður yrði starfshópur sem fengi málið til skoðunar. Á vordögum 2011 skipaði innanríkisráðherra svo starfshóp, sem fékk það hlutverk að skoða umhverfi lottómála á Íslandi og skiptingu ágóða af starfsemi þeirri sem rekin er af Íslenskri Getspá. Eftir því sem BÍL kemst næst þá fór vinna starfshópsins aldrei af stað fyrir alvöru.  En af því að vitað var um undirbúning frumvarps um happdrættismál innan ráðuneytisins þá vonaðist BÍL til þess að mál tengd lottóinu væru þar undir. Þegar frumvarpi um happdrætti var dreift á Alþingi í lok nóvemer sl. olli það BÍL vonbrigðum að sjá að þar skuli ekki með nokkrum hætti fjallað um lottó eða skiptingu ágóða af starfsemi Íslenskrar Getspár.

Frumvarp innanríkisráðherra nr. 477 á þingskjali 615 gerir ráð fyrir breytingum á öllum lögum sem varða happdrætti, söfnunarkassa, getraunir, talnagetraunir o.fl. Það er því lag fyrir Alþingi að gera breytingar á lögunum um talnagetraunir nr. 26/1986 með það að markmiði að ágóðinn af sölu íslenska lottósins verði að hluta nýttur til að styðja verkefni á vettvangi lista og menningar. BÍL gerir ekki athugasemdir við það að íþróttahreyfingin í landinu skipti með sér ágóða getrauna skv. lögum nr. 59/1972 en telur sanngirnismál að listir og menning njóti þess hluta ágóðans af lottóinu (skv. lögum nr. 26/1986) sem nú kemur í hlut ÍSÍ og UMFÍ. Stjórn BÍL er tilbúin að koma á fund nefndarinnar til að fylgja þessari málaleitan eftir.

Úr skýrslu forseta BÍL fyrir starfsárið 2011:
Í febrúar 2011 sendi BÍL innanríkisráðherra erindi þar sem þess var farið á leit að framkvæmd íslenska lottósins verði endurskoðuð. Mælt  var með því að þau einkaleyfi sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins verði endurskoðuð reglulega og að ráðstöfun þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega verði aðgengileg almenningi. Lagði BÍL til að ráðherra skipaði starfshóp í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðherra, sem falið yrði að skoða með hvaða hætti breytingar af þessu tagi verði best framkvæmdar, m.a. með það að markmiði að listir og menning fái hlutdeild í þeim fjármunum sem aflað er gegnum lottó, líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Í maí 2011 var tilkynnt að innanríkisráðherra hefði skipaði slíkan starfshóp og var Katrín Fjeldsted fyrrverandi alþingismaður skipuð formaður hópsins. Það hefur tekið nokkurn tíma að koma hópnum saman en það stefnir í að hann fari að hittast reglulega eftir mánaðarmót janúar/febrúar. BÍL mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með starfi hópsins og sjá til þess að hann hafi nauðsynlegar upplýsingar um fyrirmyndir þess fyrirkomulag, sem BÍL stefnir á að innleitt verði hér á landi, þar sem listir og menning fá hlutdeild í lottó-ágóða.
Sjá einnig þskj. 1063 frá 140. löggjafarþingi, þar sem innanríkisráðherra staðfestir tilvist starfshópsins.

 

Erindi frá málþingi um höfundarrétt komin á vefinn

Í tengslum við aðalfund BÍL 2012 var haldið málþing um höfundarrétt undir yfirskriftinni “Með hverjum deilum við tekjunum okkar”.  Málþingið fjallaði í stórum dráttum um það hvernig höfundarréttur er órjúfanlegur hluti af réttinda- og kjarabaráttu listamanna. Kristín Atladóttir kvikmyndagerðarmaður stýrði málþinginu og erindi fluttu Katrín Jakobsdóttir menningar- og menntamálaráðherra, Pia Raug söngvaskáld og  þáv. formaður KODA í Danmörku, Gerla – Guðrún Erla Geirsdóttir myndhöfundur, Ólöf Ingólfsdóttir danshöfundur og Sigtryggur Baldursson tónlistarmaður. Einnig tekur til máls Jakob Frímann Magnússon fomaður FTT  – Félags tónskálda og textahöfunda og Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL ávarpar gesti í upphafi málþingsins.

BÍL fundar með Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur

 Í dag fundaði stjórn BÍL með skóla- og frístundaráði Reykjavíkur. Tilgangur fundarins var að efna til samtals milli stjórnmálamanna, embættismanna sviðsins og listamanna um það sem betur mætti fara í listmenntun og listuppeldi skólabarna í Reykjavík. Minnispunktar þeir sem hér fara á eftir eru byggðir á reynslu listamanna af starfi með kennurum og nemendum í grunnskólum borgarinnar, ekki síst í gegnum verkefni á borð við Tónlist fyrir alla, Skáld í skólum og Litróf listanna. Einnig er sótt í ýmsar skýrslur um list- og menningarfræðslu og stefnumótun stjórnvalda í menntamálum (sjá upptalningu aftast í skjalinu). Ein norsk skýrsla um “Skólasekkinn” hefur einnig verið höfð til hliðsjónar við gerð þessa minnisblaðs.

Eftirfarandi punktar voru grundvöllur umræðunnar á fundinum:

Tónlist fyrir alla
Verkefni, sem hófst 1995 fyrir tilstilli Norðmanna, sem gáu íslenskum grunnskólum peningaupphæð í tilefni lýðveldisafmælisins 1994, sem skyldi notuð til að efla tónlistar- og menningarstarf í grunnskólum. Gert var ráð fyrir að íslensk stjórnvöld kæmu með fjármuni á móti til að tryggja að sem flest grunnskólabörn á landinu fengju notið gjafarinnar. Fyrst eftir að Tónlist fyrir alla fór af stað tóku sveitarfélögin virkan þátt í eflingu þess en á seinni árum hefur dregið úr möguleikum skólanna til að taka þátt. Síðan 1999, þegar þjóðargjöf Norðmanna naut ekki lengur við, hefur upphæðin á fjárlögum ríkisins dregist jafnt og þétt saman og síðustu tvö ár hefur fjárframlag til verkefnisins verði þurrkað út úr fjárlagafrumvarpinu, en verið sett inn milli umræðna m.a. fyrir þrýsting frá BÍL. Á fjárlögum ársins 2013 nemur framlag til verkefnisins kr. 6 milljónum og engin fyrirheit eru um áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefnið. Fjöldi árlegra tónleika hefur verið á bilinu 80 til 330 í fjölda skóla vítt og breitt um landið fyrir tugþúsudir barna. Skólar á höfuðborgarsvæðinu hafa alltaf sýnt verkefninu mikinn áhuga, en á síðustu árum hefur þrengri fjárhagur skólanna haft merkjanleg áhrif. Nýlega var verkefninu skipuð ný stjórn, sem hefur valið 7 tónlistarhópa til að vinna að tónleikum í skólum á yfirstandandi og næsta skólaári.

Skáld í skólum
Bókmenntaverkefnið Skáld í skólum hóf göngu sína haustið 2006 og er hluti af starfsemi Höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands, sem hefur um langt árabil unnið að skipulagningu höfundaheimsókna í skóla landsins. Verkefnið náði strax að festa sig í sessi þar sem grunnskólarnir tóku því fagnandi. Eftirspurn hefur farið vaxandi ár frá ári og stöðug þróunarvinna á sér stað en alls hafa rúmlega 30 mismunandi dagskár verið kynntar og fluttar í rúmlega hundrað skólum. Á liðnu ári hófst samstarf við Reykjavík Bókmenntaborg sem reiknað er með að haldi áfram og ýti enn frekar undir þann vaxtarsprota sem verkefninu er ætlað að vera. Skáld í skólum nýtur nú fjárhagsstuðnings frá menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg, en hefur einnig hlotið þróunarstyrki frá ýmsum menningarsjóðum. Með árlegum stuðningi ríkis og borgar er hægt að bjóða skólunum fjölbreyttar og spennandi rithöfundaheimsóknir á viðráðanlegu verði.

Litróf listanna
Árið 2007 hafði BÍL frumkvæði að verkefninu Litróf listanna, sem þróað var í samstarfi við Hlíðaskóla, móðurskóla í listum. Verkefnið byggði m.a. á fyrirmynd frá Norðmönnum “Den Kulturelle Skolesekken” og gerði ráð fyrir heimsóknum listamanna  í grunnskólana þar sem boðið var upp á listviðburði af ýmsu tagi. 7 grunnskólar í Reykjavík voru heimsóttir á einu skólaári. Vandað var til allrar framkvæmdar verkefnisins, það unnið í samstarfi listafólks og skólafólks, tekið var tillit til nýjunga og þarfa í skólastarfi og gert ráð fyrir eftirfylgni af halfu kennara með því að listviðburðunum fylgdi kennsluefni. Lokaskýrsla verkefnisins kom út á vordögum 2009 og voru allir þátttakendur sammála um mikilvægi þess að verkefnið yrði þróað áfram. Af því hefur þó ekki orðið vegna erfiðleika við að fjármagna verkefnið.

Tónlistarskólarnir
BÍL hefur fylgst náið með framvindunni í málefnum tónlistarskólanna og tónlistarmenntunar á Íslandi. Í feberúar 2011 sendi aðalfundur BÍL frá sér harðorðaða ályktun (sjá heimasíðu http://bil.is/alyktun-bil-um-tonlistarmenntun)  þar sem skorað var á yfirvöld skólamála hjá ríki og sveitarfélögum að standa vörð um tónlistarskólana í landinu og á vordögum 2011 fagnaði BÍL samkomulaginu sem þessir aðilar gerðu með sér um skiptingu kostnaðar við tónlistarnám.  En samkomulagið virðist ekki hafa skilað því sem til var ætlast og í ársskýrslu BÍL fyrir starfsárið 2011 segir:  Á vordögum var undirritað samkomulag milli ríkis og borgar þar sem ríkið ákvað að leggja árlega fram 480 m.kr. vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum, á móti skuldbundu sveitarfélögin sig til að taka yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr.  Samkomulagið átti því að skila 250 m.kr inn í tónlistarskólana, til viðbótar við það sem áður var greitt til þeirra. Því miður hefur þetta ekki dugað til að tryggja rekstrargrundvöll skólanna vegna enn frekari niðurskurðar í rekstri sveitarfélaganna.
BÍL leggur áherslu á mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög finni leiðir til að ná markmiðum samkomulagsins frá 2011 og er reiðubúið að leggja aðilum lið við leit að lausnum.

Dansskólarnir
BÍL hefur lagt sig fram við að beina sjónum ráðamanna að mikilvægi danskennslu meðal barna og ungmenna. Dansnám fer að mestu fram í einkareknum skólum, sem hafa að mörgu leyti svipaða stöðu og tónlistarskólarnir, þó um danskennsluna gildi engin lög sambærileg við lög um stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985. Dansarar og danskennarar hafa gert sér vonir um að stjórnvöld taki til skoðunar aukinn stuðning við danskenslu. Menntamálayfirvöld hafa haft góð orð um að farið verði í nauðsynlega vinnu við það verkefni þegar málefni tónlistarskólanna verði komin í farsælan farveg. Það er mat BÍL að borgaryfirvöld þurfi einnig að skoða stöðu dansskólanna í borginni og móta stefnu um samstarf við þá.

Skólasýningar í Bíó Paradís
Nú þegar að Bíó Paradís er á þriðja starfsári hefur enn ekki tekist að uppfylla stefnumörkum Menntamálaráðuneytisins fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu þar sem stefna ber að innleiðingu kvikmyndalæsis í námskrá grunnskóla. Þar er bent á að myndlæsi sé forsenda skilnings fjölmiðlum og ýti undir gagnrýna hugsun. Heimili Kvikmyndanna – Bíó Paradís hefur boðið uppá kennslustundir í kvikmyndalæsi undir handleiðslu Oddnýjar Sen kvikmyndafræðings síðan 2010 fyrir einn styrk upp á 300 þúsund. Á þeim tíma hafa 52 skólasýningar fyrir grunnskólabörn verið haldnar í Bíó Paradís og þær hafa sótt 5964 börn. Þó það sé yfirlýstur vilji Heimilis Kvikmyndanna að stuðla að kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga, þá er ljóst eftir starfið síðustu tvö ár, að því miður verður ekki hægt að halda slíkum sýningum áfram án samkomulags eða þjónustusamnings við Reykjavíkurborg og nærliggjandi sveitarfélög þar sem að Bíó Paradís er rekið með halla. Það er einlæg ósk okkar að leitað verði allra leiða til að ná samkomulagi við Reykjavíkurborg til að geta haldið þessu mikilvæga starfi áfram.

Tillögur Anne Bamford
BÍL hefur tekið þátt í nokkrum fjölda stefnumótunarfunda á vegum opinberra aðila þar sem tillögur skýrslu Anne Bamford List- og menningarfræðsla á Íslandi  (2009) hafa verið til umfjöllunar og þær jafnan verið taldar mikilvægar fyrir eflingu listmenntunar í íslenskum skólum. BÍL tekur undir mikilvægi þess að tillögum skýrslunnar verði hrint í framkvæmd og leggur áherslu á samstarf ríkis og sveitarfélaga við þá vinnu. Skólayfirvöld í Reykjavík gætu tekið frumkvæði í eftirfylgni tillagnanna m.a. með því að innleiða tiltekna þætti þeirra sem allra fyrst, t.d. með því að auka möguleika barna með sérþarfir á listfræðslu og námi gegnum listir, með því að þróa aðferðir til að meta gæði listfræðslu og safna upplýsingum um vel heppnuð verkefni innan reykvískra grunnskóla þar sem listir hafa verið notaðar með beinum hætti við kennslu almennra námsgreina.

Den Kulturelle Skolesekken
BÍL hefur fylgst náið með því hvernig frændur okkar Norðmenn hafa þróað samstarf listamanna og skóla gegnum verkefnið Den Kulturelle Skolesekken.  Á fjárlögum norska ríkisins eru rúmlega 160 milljónir norskra króna ætlaðar í verkefnið, sem miðar að því að efla listuppeldi ungs fólks á skólaaldri (til 18 ára) með því að tryggja þeim fjölbreytt framboð list- og menningartengdra viðburða í tengslum við skólastarf. Verkefnið hefur þróast mjög mikið frá upphafi og ber síðasta skýrsla norska menningarmálaráðuneytisins um verkefnið það með sér að enn sé verið að betrumbæta framkvæmdina og vinnulagið. BÍL hvetur eindregið til þess að farið sé að fordæmi Norðmanna með því að koma á sambærilegu verkefni í íslenskum skólum. Íslenskt skólafólk þekkir vel til verkefnisins, hingað hafa komið norskir sérfræðingar til að uppfræða skólafólk um þróun þess,  t.d. Jorunn Spord Borgen frá NIFU (Norsk Institutt for studier av Innovasjon, Forskning og Utdanning) 2009. Með því að byggja ofan á reynsluna af þeim verkefnum sem starfrækt hafa verið á Íslandi telur BÍL mikilvæg tækifæri geta falist í að skoða nánar aðferðir Norðmanna

Atriði sem lögð er áhersla á í Den Kulturelle Skolesekken:

 • Útfærsla og inntak verkefnisins þarf að taka mið af þeim námskrám sem stýra skólastarfi.
 • Verkefnið þarf að byggja á samskiptum skóla /kennara og menningarstofnana/listamanna
 • Nauðsynlegt er að takmarka áhrif stjórnmálamannanna við val listtengdra viðburða sem boðið er upp á undir hatti verkefnisins.
 • Gæði listviðburðanna þarf að meta í samhengi við möguleika kennara og nemenda á að nýta reynsluna áfram í skólastarfi.
 • Miða þarf við að nálgast nemandann bæði sem njótanda lista og líka sem skapandi einstakling.
 • Tryggja þarf samfellu í verkefnið, að það verði sjálfsagður hluti af skólastarfi meðan skólaskylda varir.
 • Til að auka fagmennsku verkefnisins (almennt) er nauðsynlegt að bæta skilning á alla kanta; ráðamenn þurfa að bera virðingu fyrir forræði skólanna á innra starfi og vali á verkefnunum, listamenn þurfa að bera virðingu fyrir skólastarfinu og nálgun kennaranna og skólarnir þurfa að bera virðingu fyrir sköpun listamannanna og virða aðferðir þeirra við miðlun verka sinna.
 • Í sameiningu þurfa ráðamenn og skólastjórnendur að treysta kennurum og listamönnunum til að finna aðferðir til að þróa þessi samskipti með það að markmiði að verkefnin skili enn meiri árangri fyrir nemendurna.
 • Taka þarf mið af niðurstöðu könnunar meðal nemenda 2009 um reynsluna af verkefninu; þeir segjast hafa lært að njóta lista en mikilvægasta reynslan sé af beinni þátttöku í verkefnum og vinnustofum (workshops).

Reykjavík 9. janúar 2013,
f.h. stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

 

Til grundvallar þessu minnisblaði liggja eftirtaldar skýrslur:
List- og menningarfræðsla á Íslandi (2009) e. Anne Bamford
útg. Mennta- og menningarmálráðuneytið
http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/5978

Aðalnámskrá grunnskóla (2011)
útg. Mennta- og menningarmálaráðuneytið
http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-grunnskola/

Litróf listanna  – lokaskýrsla 2009
útg. Bandalag íslenskra listamanna
http://bil.is/wp-content/uploads/2009/10/Litr%C3%B3f-listanna-lokask%C3%BDrsla-09.pdf

Stefna Reykjavíkur í menntamálum (2008)
útg. Reykjavíkurborg
http://saemundarskoli.is/images/stories/file/Stefna_MSR_2008.pdf

Samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu (2011) http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Samkomulag-um-um-stefnumorkun-fyrir-islenska-kvikmyndagerd-og-kvikmyndamenningu-arin-2012-2015.pdf

Menningarlandið 2010 – Niðurstöður
útg. Mennta- og menningarmáraráðuneytið
http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Nidurstodur-Menningarlandid-2010.pdf

A Cultural Rucksack for the Future (2008)
útg. Norska menningarmálaráðuneytið
http://www.regjeringen.no/pages/2125405/PDFS/STM200720080008000EN_PDFS.pdf

 

Aðalfundur BÍL 2013

Aðalfundur BÍL – Bandalags íslenskra listamanna 2013, verður haldinn laugardaginn 9. febrúar í Iðnó við Tjörnina og hefst hann kl. 11:00.  Opinn fundur um skapandi atvinnugreinar verður haldinn í beinu framhaldi.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2013 verður kynnt a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn.

Í beinu framhaldi af aðalfundinum verður efnt til opins fundar/málþings um þátt listamanna í skapandi atvinnugreinum. Þar verður tekin til skoðunar skýrsla starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um skapandi greinar.

Málþingið verður öllum opið og verður það kynnt sérstaklega hér á síðunni þegar nær dregur.

Fundur með atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra

Stjórn BÍL átti í dag fund með Steingrími J. Sigfússyni ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar. Eftirfarandi minnisblað var lagt fram á fundinum:

 • BÍL fagnar stofnun hins nýja ráðuneytis atvinnuvega og nýsköpunar og lýsir áhuga á samstarfi um uppbyggingu skapandi atvinnugreina á Íslandi, enda eru þær einhver mikilvægasta vaxtargrein þjóðarbúisins á næstu árum og áratugum.
 • BÍL fagnar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sérstaklega áformum um aukin framlög til lista og skapandi greina, t.d.  í Kvikmyndasjóð og aðra verkefnatengda sjóði greinanna.
 • BÍL óskar eftir upplýsingum um hvernig skapandi greinum verður sinnt innan hins nýja ráðuneytis. Hver verður tengiliður BÍL inn í ráðuneytið,  starfshlutfall, fagþekking, samband við önnur ráðuneyti, -ekki síst mennta- og menningarmálaráðuneytið?  
 • Mikilvægt er að gerði verði áætlun um meðhöndlun/innleiðingu þeirra tillagna sem settar eru fram í skýrslunni ,,Skapandi greinar – sýn til framtíðar“.  Þar er kallað er eftir samhentri stjórnsýslu og  þverfaglegri nálgun varðandi málefni skapandi greina og að nauðsynleg fagþekking verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir tengdar hinum skapandi geira.
 • Afar mikilvægt er að skapa heildstætt rannsóknarumhverfi um skapandi atvinnugreinar, þ.m.t. veltu, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu.  Skoða þarf samspil atvinnutengdra rannsókna og rannsókna innan háskólanáms í listum og skapandi greinum.  Fjölga þarf fulltrúum skapandi greina í fagráðum sjóða hjá RANNÍS, innleiða mælistikur sem henta skapandi greinum varðandi mat á umsóknum og skoða möguleika á tímabundnum sjóði hjá RANNÍS í þágu skapandi greina.
 • Skýrslan bendir á ýmsa ágalla í núverandi starfsumhverfi þeirra sem starfa í skapandi greinum, m.a. varðandi skattaumhverfi listamanna, virðisaukaskatt og nauðsyn á skattalegri hvatningu til einkaaðila til að fjárfesta í listageiranum. Hvernig hyggst ráðherrann vinna áfram með tillögur skýrslunnar og hvar er samráð ráðuneytanna fjögurra á vegi statt?
 • BÍL hefur áður lagt áherslu á það við ráðherra að skapandi greinar verði skilgreind stærð í þjóðhagsreikningum líkt og aðrar atvinnugreinar. Hefur eitthvað gerst í þeim efnum eða er eitthvað í undirbúningi?
 • Í kjölfar tillagna nefndar um menntunarmál kvikmyndagerðarmanna og aukinnar stéttarvitundar þeirra sem starfa við kvikmyndagerð, þarf FK stuðning ráðherra við að vinna greiningu starfa í kvikmyndagerð. Skoða þarf starfsumhverfi, hæfniskröfur og möguleika á löggildingu starfa innan geirans.  Flestir kvikmyndagerðarmenn eru verkefnaráðnir og starfa sem verktakar, það kallar á óhóflega langan vinnudag, mikið álag og litla hvíld. Þá eru tryggingamál innan geirans í miklum ólestri, sem kallar á markvissari greiningu starfanna og undirbúning kjarasamninga fyrir þennan hóp. Hvað sér ráðherra til úrbóta?
 • BÍL heldur árlega samráðsfundi með mennta- og menningarmálaráðherra. Það er skoðun BÍL að sambærilegir fundir með ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar gætu verið mjög gagnlegir, ekki síst meðan verið er að þróa samskiptin og finna skapandi atvinnugreinum stað í stjórnsýslunni. Þess er óskað að ráðuneytið skoði möguleika á slíkum árlegum fundum .
 • Með eflingu menningarsamninga í landsfjórðungunum hefur BÍL verið kallað til í auknum mæli sem ráðgjafi við að byggja upp atvinnutækifæri fyrir skapandi fólk á landsbyggðinni.  Dæmi: BÍL er stofnaðili að Austurbrú, sameiginlegri stoðstofnun sveitarfélaga á Austurlandi. BÍL á aðild að ráðgjafarráði SSH, sem vinnur að sameiginlegri sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.  BÍL á tvo áheyrnarfulltrúa í Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur, skipar í fagráð um úthlutun framlaga borgarinnar til list- og menningartengdra verkefna og heldur árlega samráðsfundi með borgarstjóra. Mikilvægt er að ráðuneytið styðji við BÍL í að rækja starf af þessu tagi.
 • BÍL vill undirstrika þátt listafólks í skapandi atvinnugreinum, sem ekki alltaf er augljós eða auðskilinn. Listafólk og aðrir skapandi einstaklingar kveikja neista þeirra verkefna sem skapandi atvinnugreinar snúast um. Þáttur listafólksins getur verið með ýmsum hætti og þarf ekki alltaf að vera sýnilegur í viðskiptahugmyndinni sem slíkri.  Mikilvægt er að gæta að því að efnahagslegir þættir  atvinnugreinanna yfirskyggi ekki þátt frumsköpunarinnar.  
 • BÍL væntir þess að samstarfið við hið nýja ráðuneyti verði skapandi og leiði til betra starfsumhverfis fyrir listafólk og aðra sem starfa innan skapandi atvinnugreina.

 

3795 listamenn í BÍL

Nýverið óskaði ECA – European Council of Artists, samstarfsnet listafólks í Evrópu, eftir því að aðildarfélög ECA sendu inn upplýsingar um heildarfjölda listamanna, sem ætti aðild að heildarsamtökum hvers lands fyrir sig. Niðurstaðan hefur nú verið birt og er heildarfjöldi listamanna í ECA-netinu nálægt 212.000 í 393 félögum í 28 löndum. Af þeim fjölda tilheyra 3795 listamenn aðildarfélögum BÍL :

FÍT – Félag íslenskra tónlistarmanna        161      (karlar 54 – konur 107)

FLÍ – Félag leikstjóra á Íslandi                      93     (karlar 55 – konur 38)

RSI – Rithöfundasamband Íslands            409      (karlar 246 – konur 163)

SKL – Samtök kvikmyndaleikstjóra             59      (karlar 45 – konur 14)

AÍ – Arkitektafélag Íslands                         334      (karlar 219 – konur 115)

            Nemar                                                   67      (karlar 30 – konur 37)

FÍLD – Félag íslenskra dansara                 104      (karlar 8 – konur 96)

FTT – Félag tónskálda og textahöf           362      (karlar 316 – konur 46)

FÍL – Félag íslenskra leikara                     463      (kralar 194 – konur 269)*

FLB – Fél leikmynda og búningahöf.          35      (karlar 18 – konur 17)*

SÍM – Samband ísl myndlistarmanna      668      (karlar 154 – konur 514)*

FK – Félag kvikmyndagerðarmanna        365      (karlar 237 – konur 128)*

FÍH – Félag íslenskra hljómlistarmanna   547      (karlar 345 – konur 202)*

FLH – Félag leikskálda og handritshöf        63      (karlar 38 – konur 25)*

TÍ – Tónskáldafélag Íslands                           65      (karlar 57 – konur 8)*______

 Heildarfjöldi                                                    3795    (karlar 2015 – konur 1780)

* tölur fengnar af vef Hagstofu Íslands

Fundur Norræna listmannaráðsins

13. september sl. var haldinn fundur systursamtaka BÍL á Norðurlöndunum, Nordisk Kunstnerråd, í Helskinki. Þar  voru til umfjöllunar sameiginleg hagsmunamál listamanna á Norðurlöndum, m.a. samskiptin við Norrænu ráðherranefndina, höfundarréttarmál og væntanlegan ársfund ECA, – European Council of Artists. Einnig undirbjuggu fundarmenn sig fyrir málþing, sem haldið var daginn eftir (14.09.2012) þar sem fjalla átti um starfsumhverfi Norrænna listamanna.   Nordisk kunstnerraad sept 2012

Page 20 of 41« First...10...1819202122...3040...Last »