Author Archives: vefstjóri BÍL

Ársskýrsla Rithöfundasambandsins 2011

Starfsemi Rithöfundasambandsins var með hefðbundnu sniði á árinu 2011. Helstu verkefni sambandsins eru upplýsingamiðlun varðandi réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar, endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda og ýmiskonar hagsmunagæsla. Ennfremur umsýsla og úthlutun greiðslna sem RSÍ tekur við frá Fjölís, IHM, Blindrabókasafni og Námsgagnastofnun. Þá rekur sambandið Höfundamiðstöð en hún annast verkefnið Skáld í skólum, auk þess að veita ýmsar upplýsingar um höfunda. Skáld í skólum eru bókmenntadagskrár fyrir ólík stig grunskólanna og hafa þær notið mkilla vinsælda.

Á skrifstofunni í Gunnarshúsi starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi og hefur umsjón með daglegum rekstri, en undir hann falla einnig rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins og rithöfundabústaðanna Norðurbæjar á Eyrarbakka og Sléttaleitis í Suðursveit. Ennfremur hefur framkvæmdastjóri umsjón með Bókasafnssjóði höfunda. Auk daglegrar starfsemi RSÍ í Gunnarshúsi eru þar fundir og samkomur á vegum SÍUNG, Leikskáldafélagsins og IBBY á Íslandi. 

Á vordögum sóttu formaður og framkvæmdastjóri ársfund Norrænu rithöfundasambandanna og Evrópska rithöfundaráðsins í Turku í Finnlandi. Í sparnaðarskyni var þessum tveimur fundum slegið saman. 

Óhætt er að segja að menningarlífið var blómlegt á árinu sem leið. Fjölmargir rithöfundar fengu verðlaun og viðurkenningar. Ber þar hæstan Gyrði Elíasson sem tók á móti Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Þá var Reykjavík gerð að Bókmenntaborg UNESCOs og í september var haldin Bókmenntahátíð í Reykjavík í tíunda sinn. Komu að henni fjölmargir íslenskir og erlendir höfundar úr ýmsum heimshornum. Upplestrar og umræður fóru fram í Iðnó og NH og hátíðinni lauk með dúndrandi bókaballi í Iðnó. 

Síðast en ekki síst var það Bókastefnan í Frankfurt þar sem Ísland var heiðursgestur. Rithöfundasambandið tók virkan þátt í undirbúningnum og voru formaður og framkvæmdastjóri allan messutímann á svæðinu. Margir höfundar voru í Frankfurt og var almenn ánægja með uppskeruna.

Reykjavíkurborg hélt áfram endurbótum á Gunnarshúsi. Það færist í vöxt að taka á móti innlendum og erlendum gestum, sýna húsið og segja frá Gunnari Gunnarssyni, lífi hans og verkum. Árlega fer fram lestur á Aðventu Gunnars Gunnarssonar þriðja sunnudag á jólaföstu og er sagan lesin samtímis á Skriðuklaustri og í Kaupmannahöfn. Félagi okkar Steinunn Jóhannesdóttir las söguna í þetta sinn við arineld, kertaljós og góða stemningu.

Undir árslok 2011 var gerður tímabundinn tilraunasamningur við Félag íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT)  um útgáfu rafrænna bóka. Rétt er að taka það fram að útgáfa þessara bóka á íslensku er á byrjunarstigi. Mun tilraunasamningurinn verða yfirfarinn á sex mánaða fresti en stefnt er að því að framtíðarsamningur liggi fyrir innan tveggja ára. 

Félögum í Rithöfundasambandinu fjölgar ört og eru nú 404. Konur eru rúmur þriðjungur. Þá þurfum við ekki að kvarta undan einslitum hópi því elsti félaginn er að verða 103 ára en sá yngsti er 26. Einn af heiðursfélögum okkar Thor Vilhjálmsson lést á árinu. 

Á aðalfundinum í apríl s.l. létu tveir félagar af störfum: Karl Ágúst Úlfsson, meðstjórnandi og Sigurbjörg Þrastardóttir, varamaður. Stjórn Rithöfundasambandsins er nú þannig skipuð: Kristín Steinsdóttir, formaður, Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Davíð Stefánsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Sölvi Björn Sigurðsson og eru meðstjórnendur. Varamenn eru Gauti Kristmannsson og Oddný Eir Ævarsdóttir. Framkvæmdastjóri félagsins er Ragnheiður Tryggvadóttir.

Skýrsla forseta starfsárið 2011

Stjórn BÍL hélt 9 reglulega fundi á starfsárinu. Aðildarfélög BÍL eru fjórtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum þeirra stjórnarmanna, sem starfað hafa með stjórn BÍL á árinu:

Arkitektafélag Íslands, AÍ, – formaður: Logi Már Einarsson (varamenn Borghildur Sturludóttir, Hrólfur Karl Cela og Gíslína Guðmundsdóttir)
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Randver Þorláksson
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Guðmundur Helgason
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Kristín Mjöll Jakobsdóttir (varamaður Hallveig Rúnarsdóttir)
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Steinunn Knútsdóttir/Jón Páll Eyjólfsson (varamaður Eva Rún Snorradóttir, Heiðar Sumarliðason og Gunnar Gunnsteinsson) 
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Steinsdóttir  (varamenn Kristín Helga Gunnarsdóttir og Sölvi Björn Siguðrsson)
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Hrafnhildur Sigurðardóttir
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Ragnar Bragason
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Egill Ingibergsson/Rebekka Ingimundardóttir
Leikskáldafélag Íslands; – formaður: Hávar Sigurjónsson

 

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2012):

* Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur áheyrnarfulltrúi Kolbrún Halldórsdóttir, Hrafnhildur Sigurðadóttir áheyrnarfulltrúi
* Fulltrúar í faghópi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur:
Sólrún Sumarliðadóttir menningarfræðingur og tónlistarmaður, Gunnar Hrafnsson tónlistarmaður, Randver Þorláksson leikari, Lárus Ýmir Óskarsson leikstjóri, Þóra Þórisdóttir myndlistarmaður
* Kvikmyndaráð Ágúst Guðmundsson skipaður 14.10.2009 til 30.09.2012, Ásdís Thoroddsen varamaður
* Barnamenningarsjóður Kristín Mjöll Jakobsdóttir 15.08.2011 – 14.08.2013, Rebekka Ingimundard varamaður
* Fulltrúaráð Listahátíðar Kolbrún Halldórsdóttir
* Stjórn listamannalauna Margrét Bóasdóttir 10.10.2009 til 09.10.2012, Randver Þorláksson varamaður
* Stjórn Skaftfells  Hrafnhildur Sigurðardóttir, Ásta Ólafsdóttir, varamaður
* Menningarfánaverkefni Reykjavíkurborgar Karen María Jónsdóttir
* List án landamæra Edda Björgvinsdóttir
* Starfshópur um viðbrögð við breyttum aðstæðum í atvinnu – og efnahagsmálum  Ágúst Guðmundsson  skipaður 28. jan. 2009
* Ráðgjafarhópur v. skattamála   Kolbrún Halldórsdóttir skipuð af fjármálaráðh. 2010-  Hópurinn hefur ekki hist síðan í október 2010 en hefur ekki verið formlega lagður niður.
* KKN – Kunst og kultur Greipur Gíslason skipaður  eftirm. Hávars Sigurjónssonar 2010 (án aðkomu BÍL)
* KKN sérfræðingahópur um ferðastyrki Ágúst Guðmundsson skipaður 2007 af mrn. skv. tilnefningu BÍL, skipunartími framlengdur út árið 2011
* KKN sérfræðingahópur um dvalarstyrki (residence) Ragnheiður Tryggvadóttir skipuð 2007 af mrn. skv. tilnefningu BÍL skipunartími framlengdur út árið 2011
* (Rekstrarstjórn norrænu menningarverkefnanna Signý Ormarsdóttir skipuð af mmráðherra til ársloka 2011)
* 7. des 2011 sendi BÍL til mmráðun. lista með 7 nöfnum, sem að öllum líkindum verður valið úr til setu í sérfræðingahópum fyrir úthlutun styrkja úr Norrænu ferða- og dvalarstyrkjaáætluninni á menningarsviðinu til næstu tveggja ára 2012 – 2013. Þegar þessi skýrsla er skrifuð er ekki enn búið að skipa í nýju sérfræðingahópana.
* Þess utan er forseti fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Íslandsstofu og í stjórn Listaháskóla Íslands, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti gegnir formennsku í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Þá situr forseti í fulltrúaráði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, er formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands, situr í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar og í úthlutunarnefnd námsmanastyrkja Landsbanka Íslands  -Námunnar. Forseti BÍL er fulltrúi Íslandsstofu í starfshópi um starfsskilyrði skapandi greina, sem mennta- og menningarmálaráðherra setti á laggirnar vorið 2011, væntanlega skilar hópurinn skýrslu sinni í febrúar 2012.

Opinber stuðningur við listir og menningu.
Aðalfundur BÍL 2011 ályktaði um faglegar fjárveitingar til lista og menningarverkefna og hvatti til þess að hætt yrði handahófskenndum úthlutunum fjárlaganefndar en þess í stað styrktir lögbundnir sjóðir á borð við launasjóði listamanna, Kvikmyndasjóð, Tónlistarsjóð, Bókmenntasjóð, sjóð til starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna, Listskreytingasjóð og Barnamenningarsjóð.
Talsvert miðaði varðandi þetta baráttumál á árinu. Stjórn BÍL kom sínum sjónarmiðum á framfæri við fjárlaganefnd og forseti BÍL fundaði með formanni og varaformanni fjárlaganefndar til að ræða nánar hugmyndir BÍL að bættu fyrirkomulagi. Fjárlaganefnd sendi frá sér tilkynningu í júní 2011 um að gerðar yrðu breytingar á eldra fyrirkomulagi og að fjárlaganefnd myndi ekki auglýsa eftir umsóknum um styrki til verkefna eða starfsemi félagasamtaka. Nú þegar fjárlög ársins 2012 liggja fyrir sést hvaða áhrif breytingarnar hafa á einstaka fjárlagaliði. Þó upplýsingar þær sem hér fara á eftir séu ekki tæmandi þá gefa þær allgóða mynd af því sem hefur áunnist og einnig af þeim þáttum sem áfram þarf að vinna brautargengi.
Á fjárlögum 2012 hækkar sjóður til starfsemi atvinnuleikhópa frá því sem var úr 58,4 m.kr í 71,2 m.kr, launasjóðir listamanna hækka áfram í samræmi við lög úr 408,8 m.kr í 488,9 m.kr, Safnasjóður hækkar úr 96,3 m.kr í 125,8 m.kr og Fornleifasjóður úr 17,2 m.kr í 32.9 m.kr. Menningarsamningar við sveitarfélög á landsbyggðinni hækka úr 259 m.kr. í 360,2 m.kr. Kvikmyndasjóður hækkar úr 452 m.kr í 515 m.kr þó það nægi alls ekki til að koma sjóðnum í það horf sem áætlað hafði verið í samkomulaginu sem kippt var úr sambandi við efnahagshrunið 2008/2009.  Þó ber að geta þess að endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna framleiddra kvikmynda og sjónvarpsefnis jukust mikið, voru nálægt 700 m.kr 2011 (þ.a. tæp. 400 m.kr til íslenskrar framleiðslu). Litlar sem engar hækkanir verða hins vegar milli ára á Bókmenntasjóði (fer úr 39,5 m.kr í 42,0 m.kr), Tónlistarsjóði (fer úr 43,6 m.kr í 47.0 m.kr), Listskreytingasjóði (stendur í stað 1,5 m.kr) eða Barnamenningarsjóði (lækkar úr 4,2 m.kr í 4,1 m.kr).
Þegar þetta er skrifað er mennta- og menningarmálaráðuneyti að ljúka samningum við miðstöðvar listgreina og hönnunar (sjá einnig í kaflanum um Íslandsstofu), sem allar fá talsverða styrkingu á rekstrargrunni sínum 2012. BÍL hefur átt í góðu samstarfi við miðstöðvarnar á árinu og hefur lagt þeim lið í baráttunni fyrir fjárhagslegri styrkingu. Það sama má segja um verkefnið Handverk og hönnun, sem lengi leit út fyrir að myndi ekki fá áframhaldandi samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið, en hefur nú fengið lausn sinna mála.

Opinber stefna í menningu og listum
Þó talsverðar breytingar hafi orðið á árinu á fyrirkomulagi fjárframlaga til lista og menningartengdra verkefna af fjárlögum bólar enn ekkert á opinberri stefnu í menningu og listum. BÍL hefur fylgt eftir kröfunni um opinbera menningarstefnu, sem staðið hefur til að leggja fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.  BÍL hefur tekið virkan þátt í að móta slíka stefnu, m.a. með fjölmennum fundi um listastefnu í apríl 2010 og málþingi um menningarstefnu 22. janúar 2011. Það hefur hins vegar lítið miðað hjá stjórnvöldum, þó eru vísbendingar um að einhverra breytinga sé að vænta þar sem nýverið var ráðinn sérfræðingur í menningarmálum á skrifstofu mennta- og menningarmálaráðherra í því augnamiði að ljúka vinnunni við stefnumótunina. BÍL hefur sent ráðuneytinu á nýjan leik allt efnið sem varð til á Listafundinum í apríl 2010.
Þá hefur BÍL lagt á það áherslu við yfirvöld að menningarstefnu í mannvirkjagerð verði framfylgt með virkari hætti en nú er og hefur BÍL stutt við baráttu AÍ varðandi þann þátt opinberrar menningarstefnu. Starfshópur, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði og fól að gera tillögur að endanlegri innleiðingu stefnunnar, er að störfum. Þá mótmælti af AÍ  þegar á vordögum var ákveðið að leggja tímabundið niður Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur, BÍL sýndi stuðning sinn með því að álykta um málið. Í framhaldinu var stofnað til óformlegs samráðs milli AÍ og safnsins mað það að markmiði að tryggja varðveislu sögu byggingalistar á Íslandi með viðunandi hætti.

Kortlagning skapandi greina
Áfram hefur verið unnið á grundvelli kortlagningarverkefnis stjórnvalda og Íslandsstofu 2010/2011. Í lok janúar skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp, sem fékk það verkefni að kortleggja starfsumhverfi skapandi greina. Forseti BÍL var skipuð í starfshópinn af hálfu Íslandsstofu. Auk þess að skoða möguleika á bættu starfsumhverfi skapandi greina, leggur hópurinn mat á með hvaða hætti megi bæta stjórnsýslu tengda skapandi greinum, efla menntun og rannsóknir og styðja við útflutningsstarfsemi. Í júní sl. kom Ása Richardsdóttir forseti Leiklistarsambandsins og ritstjóri skýrslu starfshópsins á fund stjórnar BÍL og gerði grein fyrir vinnunni.  Hópurinn er nú á lokastigum vinnunnar og er skýrsla hans væntanleg í febrúar.
Á árinu voru stofnuð samtök skapandi greina, sem munu beita sér fyrir bættu starfsumhverfi atvinnugreina, sem byggja á starfi listamanna, hönnuða og annarra þeirra sem starfa innan menningargeirans. Einnig munu samtökin láta sig varða opinbera stjórnsýslu tengda skapandi greinum og beita sér fyrir því að hún verði skilvirkari og vandaðri en verið hefur.

Lottómál
Í febrúar 2011 sendi BÍL innanríkisráðherra erindi þar sem þess var farið á leit að framkvæmd íslenska lottósins verði endurskoðuð. Mælt  var með því að þau einkaleyfi sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins verði endurskoðuð reglulega og að ráðstöfun þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega verði aðgengileg almenningi. Lagði BÍL til að ráðherra skipaði starfshóp í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðherra, sem falið yrði að skoða með hvaða hætti breytingar af þessu tagi verði best framkvæmdar, m.a. með það að markmiði að listir og menning fái hlutdeild í þeim fjármunum sem aflað er gegnum lottó, líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Í mars var tilkynnt um að innanríkisráðherra hefði skipaði slíkan starfshóp og var Katrín Fjeldsted fyrrverandi alþingismaður skipuð formaður hópsins. Það hefur tekið nokkurn tíma að koma hópnum saman en það stefnir í að hann fari að hittast reglulega eftir mánaðarmót janúar/febrúar. BÍL mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með starfi hópsins og sjá til þess að hann hafi nauðsynlegar upplýsingar um fyrirmyndir þess fyrirkomulag, sem BÍL stefnir á að innleitt verði hér á landi, þar sem listir og menning fá hlutdeild í lottó-ágóða.

Listalausi dagurinn
Á árinu gekkst BÍL fyrir því að haldinn var dagur án lista; „Listalausi dagurinn“. Hann rann upp 1. nóvember 2011. Segja má að hugmyndin hafi þróast í kraftmikinn gjörning, sem vakti talsverða athygli. Í framkvæmdanefnd dagsins voru myndlistarmennirnir Jón K.B. Ransú og Rakel Steinarsdóttir auk stjórnarmanns BÍL Hrafnhildar Gunnarsdóttur kvikmyndagerðarmanns. Megin hugmyndin gekk út á það að almenningur var hvattur til að sniðganga allar listir í einn dag. Gefin voru út 15 boðorð, sem áttu að aðstoða fólk við sniðgönguna. Dagurinn hófst með því að styttu Ásmundar Sveinssonar af Vatnsberanum var pakkað inn. Ljósmynd af gjörningnum fór með hraði um netið og áður en dagurinn var að kvöldi kominn höfðu flestir fjölmiðlar fjallað með einhverjum hætti um uppátækið. Stjórn BÍL hefur samþykkt að leggja það til við aðalfund 2012 að hugmyndin um listalausa daginn verði þróuð áfram á árinu með beinni aðkomu aðildarfélaganna.

Skattaleg staða listafólks
Baráttan fyrir bættu skattaumhverfi listafólks hélt áfram á árinu og lagði stjórn BÍL talsvert á sig til að ná árangri með baráttumál listamanna. Sá árangur náðist  helstur að Ríkisskattstjóri ákvað að breyta viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald tekjuárið 2011. Þannig var bætt  við nýjum flokki í starfaflokkinn sem listamenn falla undir. Sá flokkur er C(6) og var viðmiðunarfjárhæð í þeim flokki kr. 360.000.- á mánuði 2011. Sú viðmiðun lækkar enn vegna tekjuársins 2012 eða í kr. 320.000.-. Þá var bætt við nýjum flokki C(9) ætlaður þeim sem eru að hefja starfsemi sína og nemur viðmiðunarfjárhæðin þar 2012 kr. 286.000.- á mánuði þetta fyrsta starfsár. Flokkun þessi fer eftir umfangi starfsemi viðkomandi og miðar flokkur C(6) við að framteljandi starfi einn án annarra starfsmanna eða aðkeypts vinnuframlags. Þetta er talsverð breyting frá því sem var, þegar listamönnum var 2010 gert að telja fram kr. 414.000.- í mánaðarlegt reiknað endurgjald til að geta talist í fullu starfi í sínum starfaflokki. Varla getur talist skynsamlegt fyrir BÍL að krefjast frekari lækkunar á þessum viðmiðunum þar sem slíkt myndi stangast á við kröfurnar sem aðildarfélög BÍL gera fyrir hönd félagsmanna sinna í kjaraviðræðum. Það sem hefur hins vegar ekki breyst er sú staðreynd að bæði Tryggingarstofnun og Vinnumálastofnun nota þessar viðmiðunarreglur RSK til að meta starfshlutfall þeirra sem sækja um laun undir hatti þeirra stofnana (t.d. fæðingarorlof og atvinnuleysisbætur).  BÍL mun nú beita sér fyrir því að þessar stofnanir breyti vinnulagi sínu hvað þetta varðar.
Eftir þessar breytingar á viðmiðunarfjárhæð RSK er augljóst að líta þarf til upphæðar mánaðarlauna  , sem greidd eru úr launasjóðum listamanna. Um þessar mundir er sú upphæð kr. 277.761.- og lítur mennta- og menningarmálaráðuneytið svo á að listamenn sinni fullu starfi við list sína meðan þeir þiggja laun úr launasjóðunum. Þær greiðslur eru verktakagreiðslur og því ljóst að mánaðarlegt reiknað endurgjald er umtals vert lægra. Þar með er farið að muna mjög miklu á launum úr launasjóðunum og  viðmiðunarfjárhæð reiknaðs endurgjalds í flokkun RSK (kr. 320.000.-). Baráttan framundan mun því snúast um hækkun á mánaðargreiðslu úr launasjóðunum.
Talsverð vinna fór fram á árinu í því augnamiði að breyta skilgreiningu tollskrár á listaverkum, en það er slík skilgreining sem ræður því hvort listaverk til endursölu eru undanþegin álagningu virðisaukaskatts eða ekki. Fundir voru haldnir með tollyfirvöldum og einnig með efnahags- og skattanefnd Alþingis í tengslum við breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Í desember kom fram á Alþingi stjórnarfrumvarp sem breyta átti þeim lögum, m.a. þannig að þau tækju að einhverju marki tillit til sjónarmiða listafólks varðandi skattlagningu listaverka og listmuna. Voru ákvæði frumvarpsins ekki að öllu í samræmi við óskir listamanna, svo BÍL ákvað að leggjast ekki gegn því að þessi ákvæði væru tekin út úr frumvarpinu við meðferð málsins á þingi. Málið var afgreitt í miklum flýti dagana fyrir jól og hefur formaður efnahags- og skattanefndar lofað stjórn BÍL að eiga samstarf við BÍL um málið og freista þess að gera ákvæðin um listaverkin þannig úr garði að ásættanlegt verði. Um þessar mundir er verið að leita eftir fundi með nýjum fjármálaráðherra um málið.
30. maí 2011 funduðu fulltrúar stjórnar BÍL með efnahags- og skattanefnd Alþingis, eftir að  nefndin ákvað að ganga framhjá tillögum, sem BÍL hafði sent nefndinni í meðferð frumvarps til laga um virðisaukaskatt í desember 2010. Á þeim fundi voru m.a. reifuð mál er varða skattlagningu á leigutekjur af hugverkaeign, hljóðfæragjald fyrir afnot af hljóðfærum, hugverkasjóður og önnur höfundarréttarleg málefni. Ekki varð beinn árangur af þeim fundi, en áframhaldandi vinna stjórnar að skattatengdum málum skilaði sér í því að Indriði H. Þorláksson fyrrv. ríkisskattstjóri heimsótti stjórn BÍL 16. janúar sl. og voru skattamálin rædd í þaula.  Eftir þann fund er ljóst að fyrir stjórn liggur að endurnýja áherslur BÍL í skattamálum. Á það við um tiltekna þætti, t.d. skilgreininguna á eðlismun launatekna og þeirra tekna sem verða til við afnot/leigu af hugverkaeign.

Samstarfið við Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Forseti BÍL og formaður SÍM sitja fundi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, sem áheyrnarfulltrúar.  Á þeim vettvangi eru teknar ýmsar ákvarðanir sem varða listamenn, t.d. úthlutar borgin styrkjum til list- og menningartengdra verkefna. Stærsti hluti styrkjanna er greiddur út í upphafi árs og er úthlutun úr þeim potti unnin í samstarfi við svonefndan faghóp BÍL. Sá hópur er þannig valinn að stjórn BÍL sendir menningar- og ferðamálaráði lista með 15 nöfnum, ráðið velur svo fimm nöfn af listanum, sem taka sæti í faghópnum.  Upphæðin sem faghópurinn hafði til úthlutunar í upphafi árs 2012 var 57,5 m.kr. og var tilkynnt um styrkveitingarnar um miðjan janúar sl. Þá var úthlutað 35 m.kr. úr nýstofnuðum Borgarhátíðasjóði. Þær hátíðir sem fengu samninga við borgina voru Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves, Aljóðlega kvikmyndahátíðin RIFF, Hönnunarmars, Jazzhátíð í Reykjavík,  Blúshátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Myrkir músikdagar og Food & Fun. Ráðið sjálft heldur eftir tiltekinni upphæð, sem það úthlutar sjálft fjórum sinnum ár ári í svokallaða skyndistyrki, þar er átt við verkefni sem hafa ekki verið komin til þegar auglýst var eftir umsóknum í „stóra pottinn“ í okt/nóv.
Á árinu var Reykjavík tilnefnd bókmenntaborg UNESCO, þá buðu borgaryfirvöld landflótta rithöfundi að búa í Reykjavík undir hatti ICORN samstarfsnets borga sem skuldbundið hafa sig til að verja rétt rithöfunda til tjáningarfrelsis.  Fulltrúar tóku þátt í afgreiðslu þeirra mála undir hatti Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur.

Árlegir samráðsfundir með borgaryfirvöldum og mennta- og menningarmálaráðherra
Samráðsfundur stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra var haldinn 21. mars 2011 og samráðsfundur með borgarstjóra og menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur var haldinn 11. apríl 2011. Þessir fundir eru liður í ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum og fá stjórnarmenn BÍL þar tækifæri til að ræða við æðstu ráðamenn menningarmála hjá ríki og sveitarfélögum. Að baki þessum samráðsfundum eru formlegir samningar um samstarf milli þessara aðila.  Samningur BÍL og menntamálaráðuneytisins gildir til ársloka 2013 og samningur BÍL og Reykjavíkurborgar  gildir út árið 2012. Á starfsárinu framundan er tímabært að stjórn BÍL ræði um fyrirkomulag þetta og hvort einhverjar hugmyndir séu um breytingar á því.

Tónlistarskólarnir og listnám á meistarastigi
Talsverð átök hafa átt sér stað undanfarið varðandi stöðu tónlistarskólanna, m.a. vegna niðurskurðar í rekstri sveitarfélaganna.  Á vordögum var undirritað samkomulag milli ríkis og borgar þar sem ríkið ákvað að leggja árlega fram 480 m.kr. vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum, á móti skuldbundu sveitarfélögin sig til að taka yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr.  Samkomulagið átti því að skila 250 m.kr inn í tónlistarskólana, til viðbótar við það sem áður var greitt til þeirra. Því miður hefur þetta ekki dugað til að tryggja rekstrargrundvöll skólanna vegna enn frekari niðurskurðar í rekstri sveitarfélaganna.  Það er því enn fylgst grannt með framvindu málsins á vettvangi BÍL.
Þá hefur BÍL lagt áherslu á nauðsyn þess að Listaháskóla Íslands verði gert kleift að auka framboð á meistaranámi í listum. Sá árangur varð af þeirri baráttu á árinu að 20 m.kr. komu til þessa verkefnis við lokaafgreiðslu fjárlaga 2012. Nú mun BÍL þurfa að leggja áherslu á styrkingu rannsóknarstarfs í listum undir hatti Listaháskóla Íslands í samvinnu við aðrar háskólastofnanir.

Umsögn þingmála
Eitt af verkefnum  BÍL er að gefa þingnefndum Alþingis umsagnir um þingmál, sem varða listir og eru til umfjöllunar á Alþingi. Þetta árið kenndi ýmissa grasa í þingmálaflórunni; m.a. tillögu um að handverksdeild verði stofnuð innan LHÍ, um prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson,  um lista- og náttúrugarð fyrir blinda og aðra skynhefta, en að auk hefðbundin lagafrumvörp um tekjuskatt og virðisaukaskatt, lög um fjölmiðla og fjárlög.
Það var t.d. ánægjulegt að eitt af áherslumálum BÍL skyldi ná fram að ganga við lokaumræðu fjárlaga 2012, þegar ákveðið var að leggja 20 milljónir króna til Listaháskóla Íslands í því augnamiði að fjölga tækifærum til meistaranáms innan skólans.

Nýtt merki og endurnýjuð heimasíða
Talsverð vinna fór í það á árinu að endurnýja heimasíðu BÍL og hanna nýtt einkennismerki fyrir BÍL. Stjórn BÍL setti á laggirnar starfshóp, sem fékk það verkefni að undirbúa gerð hins nýja einkennismerkis og endurnýjun heimasíðunnar. Hópinn skipuðu Hrafnhildur Sigurðardóttir, formaður SÍM, Guðmundur Helgason, formaður FÍLD, Egill Ingibergsson, formaður FLB, auk forseta BÍL Kolbrúnu Halldórsdóttur. Hópurinn fól tveimur hönnuðum að gera tillögur, sem valið  var úr og lagði hópurinn til við stjórn að tillaga Kristjáns E. Karlssonar að merki yrði valin. Sverrir Sv. Sigurðsson hjá Marktaki sá svo um endurnýjun heimasíðunnar, sem er hönnuð í opnum hugbúnaði „word-press“. Þá var tækifærið notað og skipt um netþjónustufyrirtæki, sem bauð þjónustu á afar hagstæðum kjörum. Nýja merkið var kynnt í fjölmiðlum í sumar og hefur það vakið jákvæð viðbrögð.  Þá var líka stofnuð face-bókarsíða í nafni BÍL og hefur hún safnað að sér góðum vinum, þó umræður á síðunni um málefni listafólks mættu vera líflegri.

Höfundarréttur
Stjórn BÍL hefur talsvert rætt málefni tengd höfundarrétti á starfsárinu. Sú umræða skilar sér m.a. í málþingi um höfundarrétt, sem haldið verður í tengslum við ársfund BÍL 28. janúar 2012. Í ljósi þess að höfundaréttur er margslungið og flókið fyrirbæri, lög um höfundarétt snúin og almennt litið svo á að erfitt sé framfylgja þeim, liggur beint við að BÍL leggist á árar við fræðslu um höfundarréttarleg málefni. Til að umræðan verði eins markviss og mögulegt er þótti ráðlegt að spurningin sem málþingið glímir við verði fremur þröng með það í huga að BÍL gangist fyrir frekari umræðu á næstunni um aðra þætti höfundarréttarlegra málefna, t.d. sæmdarrétt. Spurning málþingsins er þessi: Hvernig má tryggja listamönnum sanngjarna hlutdeild í þeim arði sem notkun hugverka þeirra á netinu skapar?

Málefni RÚV
Stjórn BÍL hefur ekki haft greiðan aðgang að málefnum tengdum RÚV á árinu. Í ráðuneyti mennta- og menningarmála hefur starfshópur á vegum ráðherra undirbúið frumvarp um RÚV ohf . BÍL sendi fulltrúa á fund starfshópsins í byrjun maí sl. Mun starfshópurinn hafa skilað af sér frumvarpsdrögum nýverið og er þess vænst að þau verði kynnt á vef ráðuneytisins á næstunni og óskað eftir umsögnum.
Ný stjórn var kjörin yfir stofnunina 25. Janúar 2011. Stjórn BÍL skoraði á Alþingi að láta af þeim leiða vana að kjósa stjórnmálamenn til setu í stjórninni,  skynsamlegra væri að kjósa í stjórnina fólk sem talist gæti fagfólk á þeim sviðum sem stofnunin starfar á; fjölmiðlun og framleiðslu menningarefnis fyrir fjölmiðla. Alþingismenn daufheyrðust við þessari áskorun, að undanskildum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem kusu leikhússtjóra Borgarleikhússins sinn fulltrúa í stjórn RÚV.
Þótt RÚV ohf. hafi framleitt meira af menningartengdu efni 2011 en mörg ár þar á undan, lítur stjórn BÍL svo á að enn vanti talsvert á að staðan sé orðin ásættanleg. Það er því full ástæða fyrir ársfund BÍL að endurnýja brýningu sína frá síðasta ári um að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá sinni og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.

Íslandsstofa
Málefni Íslandsstofu hafa komið á borð stjórnar á árinu, í tengslum við stefnumótun hinnar nýju stofu varðandi skapandi greinar. Forseti BÍL er fulltrúi mennta- og menningarráðherra í stjórn Íslandsstofu og gegnir formennsku í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Á þeim vettvangi hefur verið unnið að því að tengja sérfræðikunnáttu þá sem er til staðar í miðstöðvum listgreina og hönnunar við það starf sem unnið er á deild markaðssóknar hjá Íslandsstofu. Það starf hefur skilað þeim árangri að á fjárhagsáætlun Íslandsstofu fyrir 2011 var áætlað að 40 milljónir króna færu til verkefna í skapandi geiranum og þegar þetta er skrifað stefnir í að það markmið hafi náðst og að öllum líkindum gott betur.  Þá hafa stjórnvöld brugðist við ákalli um að nauðsynlegt sé að styrkja fjárhagsgrunn miðstöðva í listum og hönnun til muna svo þær verði færar um að nýta til fulls öll þau tækifæri sem bjóðast til að kynna íslenskar listir og menningu erlendis og koma þeim þar á markað. Ljóst er að öflugt starf miðstöðvanna er að skila sér, t.d. í æ kraftmeiri listahátíðum, sem draga að sér ferðamenn og erlent fjölmiðlafólk. Talsvert er um að erlendir blaðamenn sæki til Íslands til að kynna sér listir og menningu og hefur Íslandsstofa lagt talsvert af mörkum við að greiða kostnað við blaðamannaheimsóknir af því tagi.
Þá hefur Íslandsstofa sett nýja heimasíðu á laggirnar, svokallaða Íslandsgátt; www.iceland.is. Síðunni er m.a. ætlað að miðla upplýsingum um listviðburði og starfsemi íslenskra menningarstofnana. Stjórn BÍL hefur bent aðildarfélögum sínum á að hafa síðuna í huga ef þau hafa efni sem mætti miðla á slíkri gátt. Þá má gera ráð fyrir að heimasíða BÍL verði þróuð áfram á komandi ári, m.a. með það að markmiði að efla þann þátt síðunnar sem fjallar um starfsemi BÍL á erlendum tungumálum.

Tónlistarhúsið Harpa
Á árinu rættist langþráður draumur tónlistarfólks um tónlistarhús, þegar Harpa var opnuð í maí. Málefni Hörpu hafa komið á borð stjórnar BÍL, m.a. í tengslum við það að listráði var komið á við húsið. Í listráðinu sitja formenn tónlistarfélaganna; FÍT, FÍH, FTT og TÍ. Stjórn BÍL hefur lagt áherslu á  nauðsyn þess að eigendur hússins (ríki og borg) setji sér stefnu varðandi rekstur hússins og starfseminna þar. Hefur BÍL lagt áherslu á að listráð Hörpu komi að stefnumótun hússins með skilgreindum hætti enda mikilvægt að reynsla þeirra sem þar sitja komi starfsemi hússins til góða. Stjórn BÍL hefur reynt að fylgja slíkum hugmyndum eftir svo sem kostur hefur verið. Eftir opnun hússins var stjórn BÍL boðið í skoðunarferð um húsið, sem var gagnleg og ánægjuleg. Það er vilji BÍL að hagsmunir listafólks í húsinu verði tryggðir með því að leiga í sölum hússins verði sanngjörn og að úrval tónlistar í húsinu verði svo fjölbreytt sem mest má vera.

ECA – European Council of Artists
Á ársfundi ECA – European Council of Artists, sem haldinn var í Madríd í 11. – 13. nóv. sl. var Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL kjörin forseti samtakanna. Að ECA standa samtök listafólks í 27 Evrópulöndum, sums staðar eru það regnhlífar sambærilegar við BÍL og önnur regnhlífarsamtök listafólks á Norðurlöndunum, en sums staðar eru það tilteknar greinar listafólks sem hafa sameinast undir hatt ECA. T.d. eru myndlistarmenn í Bretlandi, Skotlandi og Írlandi aðilar en ekki samtök annarra listgreina. Samtökin eru mikilvæg í Baltnesku löndunum og í Austur-Evrópu, líka í sunnanverðri álfrunni, en í Mið-Evrópu hefur hefðin verið sú að samstarf listamanna þvert á lönd fer frekar í farveg listgreinasamstarfs. Einnig er aðgangur Mið-Evrópulandanna að stjórnkerfi ESB mun greiðari en aðgangur annarra landa, sem kann að skipta máli í þessu sambandi.
Helstu verkefni ECA framundan er að bregðast við áætlunum ESB um „Skapandi Evrópu“  („Creative Europe“) og að svara spurningum vegna væntanlegrar skýrslu um innleiðingu ESB á UNESCO samningnum um menningarlega fjölbreytni.
Skrifstofa ECA hefur verið rekin í Kaupmannahöfn frá stofnun samtakanna 1995, að undanskildu síðasta ári 2011. Þá var skrifstofan í Madríd, þar sem þarlend stjórnvöld höfðu samþykkt að styrkja flutning hennar þangað og rekstur til næstu ára. Það loforð gekk hins vegar ekki eftir, svo skrifstofa dönsku listamannasamtakanna hefur ákveðið að skjóta skjólshúsi yfir reksturinn enn um sinn, en það er tímabundin lausn og eitt af verkefnum ECA er að finna varanlegan samastað fyrir skrifstofuna.
Fjárhagsstaða samtakanna er fremur veik og mun verða unnið að styrkingu rekstrargrunns þeirra á komandi ári.  

Norrænt samstarf
Það hefur verið líflegt starf kringum Nordisk Kunstnerråd, sem er samstarfsvettvangur heildarsamtaka listafólks á Norðurlöndunum og í sjálfsstjórnarríkjunum. Forsvarsmenn samtakanna hittust fundi í Helskinki í september og er annar fundur áætlaður 25. janúar 2012. Aðal umfjöllunarefni Nordisk Kunstnerråd varðar norrænu menningaráætlunina, sem Norðurlandaráð vinnur eftir, og styrkjakerfið KulturKontakt Nord, sem komið var á 2007 og þróun þess. Það er mat Nordisk Kunstnerråd að samráð um breytingar á kerfinu hafi verið allt of lítið, nánast ekkert í tilfelli sumra landanna og hafa samtökin lagt á það áherslu að fá að hitta norræna stjórnmálamenn til að koma sjónar miðum sínum á framfæri milliliðalaust.  Slíkur fundur hefur verið boðaður 25. janúar nk, en þá munu fulltrúar Nordisk Kunstnerråd hitta menningarmálanefnd Norðurlandaráðs á fundi í Olsó. Forseti BÍL verður þar á meðal.

Annað erlent samstarf
9. desember sl. var haldinn fundur í Kaupmannahöfn, að frumkvæði Freemuse (samtaka um tjáningarfrelsi tónlistarfólks), sem fjallaði um þörfina á samstarfi listafólks úr öllum greinum til að berjast fyrir tjáningarfrelsi listafólks um allan heim. Til fundarins var boðið þátttakendum frá fjölda fjölþjóðlegra samtaka, sem láta sig varða tjáningarfrelsi listafólks, má þar nefna Arterial Network í Afríku, ECSA – European Composer and Songwriter Alliance, FERA – Federation of European Film Directors, FIA – International Federation of Actors, freeDimentional, Freemuse, ICAF/Equity, IETM – International Network for Contemporary Performing Arts, IFCCD – International Federation of Coalitions for Cultural Diversity, International PEN, NCAC – National Coalition Against Censorship, ICORN – International Cities of Refuge Network og fleiri samtök. Froseti BÍL var á fundinum sem fulltrúi ECA – European Council of Artists. Málefni tengd tjáningarfrelsi listafólks voru krufin og ákveðið að skoða möguleikann á formlegu samstarfi þessara samtaka og fleiri svipaðra. Málið verður tekið á aftur á dagskrá á fundi í Osló á hausti komanda.

Reykjavík, janúar 2012,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL

Með hverjum deilum við tekjum okkar?

Laugardaginn 28. janúar nk. kl. 14:00 gengst BÍL fyrir málþingi um höfundarétt. Málþingið er haldið í tengslum við aðalfund BÍL, fer fram í Iðnó og er öllum opið meðan húsrúm leyfir. Þingið stendur til kl. 16:30.

Höfundaréttur er órjúfanlegur hluti af réttinda- og kjarabaráttu listamanna, sem aðildarfélög BÍL hafa stöðugt til skoðunar. Í ljósi þess að höfundaréttur er margslungið og flókið fyrirbæri, hættir umræðunni til að festast við skilgreiningu vandans sem við blasir; t.d. þykja lög um höfundarétt óskýr og erfitt að framfylgja þeim, talað er um nauðsyn aukinnar fræðslu um höfundarétt –jafnt til almennings sem listamannanna sjálfra, mikilvægt er talið að efla siðferðisvitund almennings og fyrirtækja m.t.t. réttinda höfunda o.s.frv. Allt er þetta satt og rétt, en þar sem það er vilji BÍL að málþingið verði STUTT og HNITMIÐAÐ hefur verið ákveðið að þrengja sjónarhornið og beina sjónum að einum þætti þessara margslungu réttindamála. Spurningin sem málþingið mun glíma við er þessi: 

Hvernig má tryggja listamönnum sanngjarna hlutdeild í þeim arði sem notkun hugverka þeirra á netinu skapar? 

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, mun opna málþingið. Þá verður einn gestafyrirlesari Pia Raug söngvaskáld frá Danmörku sem jafnframt er formaður KODA systursamtaka STEFs. Hún mun greina frá hugmyndum alþjóðlegra höfundaréttarsamtaka og segja frá þeim úrræðum sem menn eru að gera tilraunir með til að tryggja að tekjur skili sér til rétthafa. Þá munu fjórir listamenn glíma við spurninguna hér að ofan; Guðmundur Andri Thorsson, Guðrún Erla Geirsdóttir (GErla), Ólöf Ingólfsdóttir og Sigtryggur Baldursson. Loks fara fram pallborðsumræður og verða þátttakendur í pallborðinu þau  Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs, Jón Vilberg Guðjónsson skrifstofustjóri og sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Ragnar Th. Sigurðsson ljósmyndari og formaður stjórnar Myndstefs.

 Málþinginu stýrir Kristín Atladóttir menningarhagfræðingur.

  

Aðalfundur BÍL 28. janúar 2012

Boðað hefur verið til aðalfundar Bandalags íslenskra listamanna:

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna verður haldinn laugardaginn 28. janúar 2012 í Iðnó við Tjörnina kl. 11:00. Á dagskrá fundarins verða venjuleg aðalfundarstörf og að þeim loknum verður málþing um málefni tengd höfundarrétti.

Dagskrá fundarins, ásamt tillögum til lagabreytinga, verður send út skv. lögum BÍL eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundinn.  Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á fundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins.

Allir félagsmenn í aðildarfélögunum eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt.

Umsögn BÍL um drög að atvinnustefnu Reykjavíkur

Um miðjan desember sendi stjórn BÍL frá sér umsögn um drög að atvinnustefnu Reykjavíkurborgar. Umsögnin fer hér á eftir:

Það er fagnaðarefni að nú skuli mótuð heildstæð stefna um þróun atvinnumála í Reykjavík og Bandalag íslenskra listamanna þakkar tækifærið sem hér gefst til að gefa umsögn um drög að slíkri stefnu, sem bárust BÍL þriðjudaginn 6. desember sl. 

Snemma árs 2010 hófst skipulögð vinna við kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina. Verkefnið var unnið að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina með stuðningi fimm ráðuneyta auk Íslandsstofu og voru fyrstu tölulegar niðurstöður verkefnisins kynntar 1. desember 2010. Í maí 2011 var svo kynnt endanleg skýrsla verkefnisis. Hún er aðgengileg á vef iðnaðarráðuneytisins: http://www.idnadarraduneyti.is/media/frettir/SkapandiGreinar_2011.pdf

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skapandi greinar séu burðarstoð í íslensku atvinnulífi, virðisaukaskattskyld velta þeirra sé a.m.k. 189 milljarðar á ári, þær skapi um 10.000 störf og hafi vaxandi þýðingu í útflutningstekjum þjóðarbúsins.  Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar voru sett af stað tvö verkefni; annað á vegum iðnaðarráðuneytis, sem felur í sér úttekt á stoðkerfi greinanna með það að markmiði að kanna rekstrarskilyrði fyrirtækja og einyrkja í skapandi greinum. Það verkefni er unnið af Rannsóknarstofnun skapandi greina við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hitt verkefnið er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins, unnið af starfshópi, sem ætlað er að gera tillögur um bætt starfsumhverfi þeirra sem starfa innan skapandi greina, nýta tækifærin sem til staðar eru, auk þess að gera tillögur um efldar rannsóknir, menntun, stefnumótun og útflutning skapandi greina. Skýrsla starfshópsins er væntanleg síðar í þessum mánuði og er hér lagt til að borgaryfirvöld nýti sér skýrsluna við endanlega gerð atvinnustefnu Reykjavíkur.

Bandalag íslenskra listamanna hefur tekið virkan þátt í því ferli sem hér hefur verið rakið og mun í umsögn sinni um drög að atvinnustefnu Reykjavíkur taka mið af niðurstöðum sem þessar rannsóknir hafa leitt í ljós.

Fyrst ber að fagna því að atvinnustefnan skuli eiga að grundvallast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, sem felur í sér að allar ákvarðanir stjórnvalda skuli byggja á jafnvægi milli þriggja meginstoða; þeirrar efnahagslegu, þeirrar félagslegu og þeirrar umhverfislegu. Þannig er hafnað þróun sem byggir á hefðbundinni auðlindanýtingu, sem veldur álagi á náttúru og umhverfi, en þess í stað horft til þeirra auðlinda sem ekki ganga á gæði náttúrunnar. Þá er gott að geta boðið upp á valkost sem má nýta án nokkurra náttúruspjalla og gengur aldrei til þurrðar, þ.e. hugvit, þekkingu og sköpunarmátt.  Með þessa grundvallarþætti að leiðarljósi mun hlutur skapandi greina í atvinnuþróun næstu ára verða mjög veigamikill, eins og raunar yfirskrift atvinnustefnunnar ber með sér „Reykjavík – Skapandi borg“.

Það sem vekur umhugsun í þessu sambandi þegar drögin eru lesin er skortur á skilgreiningum hugtaka á borð við „græna og sjálfbæra borgarþróun“ eða „grænt og skapandi atvinnulíf“.  Víða í stefnudrögunum er t.d. talað um „sjálfbæran vöxt“, „sjálfbæran hagvöxt“,  „grænan vöxt“, „grænan iðnað“,  „sjálfbærar samgöngur“  og „vistvæn innkaup“. Í sömu málsgrein og talað er um „vistvæn innkaup“ er jafnframt sagtað að í „hverju verki [skuli] leita hagkvæmustu lausna hverju sinni“ (bls. 39). Þar er um augljósa mótsögn að ræða þar sem  „vistvænar“ lausnir eru í flestum tilfellum dýrari í krónum talið en þær lausnir sem geta skaðað umhverfið. Það verður því að vera alveg ljóst í atvinnustefnu borgarinnar hvað meint er með notkun grundvallandi hugtaka á borð við „sjálfbærni“, „grænt“ og „vistvænt“ annars verða þetta marklaus hugtök sem virðast sett fram sem „grænþvottur“.

Til að koma í veg fyrir ágreining um merkingu hugtaka væri skynsamlegt að fela skrifstofu borgarhagfræðings og fjármálaskrifstofu, í samráði við umhverfissvið, að gera greiningu á efnisinntaki mikilvægra hugtaka samhliða  mælikvörðum þeim sem mælt er fyrir um að þessar skrifstofur vinni (bls. 5) og varða framgang markmiða stefnunnar.  Eitt af þeim hugtökum sem mikilvægt er að greina skilmerkilega er „endurnýjanleg orka“, ekki síst í ljósi þess að orkumál borgarinnar byggja á nýtingu jarðhita. Það er viðurkennd staðreynd að raforkuframleiðsla með jarðhita er ekki sjálfbær og að nýting jarðvarma á Hengilssvæðinu flokkast undir „ágenga nýtingu“ (sjá kafla um Hengilssvæðið í Rammaáætlun: http://www.rammaaaetlun.is/media/lysingar-kosta/Hengill.pdf) og getur því ekki að óbreyttu talist endurnýjanleg. 

Það er einlæg von BÍL að borgaryfirvöld sjái sér hag í því að bæta við skýrsluna texta þar sem tekin eru af öll tvímæli um að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar verði beitt við allar stjórnvaldsákvarðanir í atvinnumálum borgarinnar ekki síst ákvörðunum varðandi orkumál og orkuframleiðslu. 

En látum þetta nægja um þætti, sem ekki falla beint undir  verksvið Bandalags íslenskra listamanna. BÍL fagnar þeim þunga sem er á hvers konar sköpun og fjölbreytni í stefnudrögunum, einnig því að talsverð áhersla skuli lögð á samstarf við hagsmunaaðila og að unnið skuli þverfaglega að verkefnunum. Það mætti jafnvel auka hinn þverfaglega þátt með því að fela í auknum mæli fleiri en einu stjórnsýslusviði borgarinnar að fjalla sameiginlega um tiltekin mál. Einnig mætti hugsa sér að bætt yrði við skýrsluna kafla um framkvæmd hinnar  þverfaglegu nálgunar og einnig um lýðræðislega þáttinn, þ.e. með hvaða hætti almenningur og hagsmunaaðilar verði þátttakendur í ákvörðunum.

Kafli 2.4. Menningarborgin
Textinn „leiðarljós“ 2.4.1 (bls. 15) er mun rýrari að innihaldi en sambærilegur kafli á bls. 53 „Menningarborgin“,  þar sem fram kemur að leiðarljós Reykjavíkur í menningarmálum sé að „Reykjavík eflist sem höfuðborg menningar í landinu.  Sjálfsmynd borgarinnar byggi á menningararfi, frjórri hugsun og frumkvæði. Menningarlífið einkennist af fjölbreytni og virkri þátttöku íbúa og gesta“. Það er tillaga BÍL að textinn á bls. 53 verði í heild sinni settur sem „leiðarljós“ á bls. 15 og endurtekinn á bls. 53. Þannig er því t.d. háttað varðandi „leiðarljós“ Lífsgæðaborgarinnar 2.7.1  á bls. 21, þar er nokkurn veginn sami textinn og finna má á bls. 54 um Lífsgæðaborgina. Réttast er að samræmis sé gætt að þessu leyti. 

Kafli 2.4.2 tl. 1. Hér mætti gjarnan nefna þá staðreynd að flestar öflugustu menningarstofnanir landsmanna er að finna innan borgarmarka höfuðborgarinnar. Það eitt gefur Reykjavík aukin tækfæri fyrir fjölbreytt atvinnulíf á forsendum lista og menningar, m.ö.o. skapandi greina. Það vekur athygli að í kaflanum er ekki heldur getið um lykilstofnanir Reykjavíkurborgar á svið menningar og lista með markvissum hætti, t.d. er hvorki minnst á Borgarleikhús eða Tjarnarbíó, en hafa verður í huga hlutdeild slíkra stofnana í atvinnulegu tilliti og geta þeirra með viðeigandi hætti í kafla sem fjallar um menningarborgina.

Kafli 2.4.2 tl. 2. Hér er fjallað um mögulega samlegð, tengsl og hagræðingu (trúlega fjárhagslega), sem hljótast muni af því „að mynda klasa þar sem aðstaða geti verið samnýtt fyrir skapandi greinar“.  Ekki kemur fram textanum við hvað er átt. Er verið að tala um leikhús, gallerí, dansstúdíó og söfn? Eða er mögulega  verið að tala um kynningamiðstöðvar listgreina og hönnunar?  Ef svo er þá er rétt að segja það berum orðum. Þær miðstöðvar sem um væri að ræða kynnu þá að vera Bókmenntasjóður (Sögueyjan), Hönnunarmiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kynningarmiðstöð íslenskrar sviðslista (sem raunar er óstofnuð enn), Kvikmyndamiðstöð, Tónverkamiðstöð og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar. Milli þessara miðstöðva er þegar talsvert samstarf, flestar þeirra hafa komið sér fyrir í umhverfi sem tengist listgreinunum sjálfum, t.d. er Kvikmyndamiðstöð í sambýli við Bíó Paradís, KÍM í sambýli við SÍM o.fl. myndlistartengd félög í húsi myndlistarinnar að Hafnarstræti 22, Hönnunarmiðstöð er í einkar heppilegu rými í bakhúsi við Vonarstræti etc. Ef farið verður út í breytingar á núverandi staðsetningum miðstöðvanna myndi það hafa talsverðan kostnað í för með sér sem miðstöðvarnar eru ekki færar um að leggja fram að óbreyttu. Borgaryfirvöld þyrftu að meta í því ljósi hinn hagræna þátt, sem nefndur er sem forsenda klasamyndunar.

Það er mat BÍL að óskynsamlegt sé að stjórnvöld Reykjavíkurborgar setji fram í atvinnustefnu sinni óljósa hugmynd um samlegð, tengsl og hagræðingu aðila, sem ekki hafa sett fram óskir um slíkt sjálfir eða verið hafðir með í ráðum við gerð atvinnustefnunnar.

Kafli 2.4.2 tl. 3. BÍL fagnar því að stjórnvöld í Reykjavíkurborg hyggist koma á fót bókmenntamiðstöð í tengslum við verkefnið Reykjavík bókmenntaborg UNESCO en leggur jafnframt áherslu á að slíkt sé unnið í nánu samstarfi við Bókmenntasjóð, Rithöfundasamband Íslands, Hagþenki, Félag bókaútgefenda og aðra sem annast kynningu á íslenskum bókmenntum, jafnt hérlendis sem erlendis.

Kafli 2.4.2 tl. 4. BÍL fagnar stofnun Borgarhátíðasjóðs, en gerir athugasemd við orðalagið í greininni að einkum verði efldar „atvinnuskapandi hátíðir“. Það er mat BÍL að allar menningartengdar hátíðir séu atvinnuskapandi, bæði beint og óbeint, og ættu því að vera gjaldgengar til stuðnings úr Borgarhátíðarsjóði. Jafnframt þyrfti að útfæra stefnu sjóðsins, sem kveður á um með hvaða hætti úthlutunum fjármuna til einstakra hátíða er háttað. Þar þarf að hafa í huga reglu hæfilegrar fjarlægðar, eins og alls staðar þar sem opinberum fjármunum er úthlutað skv. umsóknum og menningar- og ferðamálaráð hefur verið í fararbroddi við að móta á seinni árum.

Kafli 2.4.2 tl. 5. Hér er fjallað um erlent samstarf, sem er sannarlega mikilvægt að sinna með virkum hætti og býr yfir kraftmiklum tækifærum í atvinnulegu tilliti. En það sama má segja um samstarf við önnur sveitarfélög, ekki síst nágrannasveitarfélögin. Það væri í samræmi við drögin að öðru leyti að nefna tækifærin sem felast í menningartengdu samstarfi allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þess er t.a.m. getið í köflum um Ferðamannaborgina (kafli 2.5.2 tl. 4) og Þekkingarborgina (kafli 2.6.2 tl. 1) að sinna skuli sérstaklega slíku samstarfi. Það væri því fengur að því í þessum tölulið að nefna mögulegt samstarf á sviði safnanna í sviðslista- ,tónlistar- og hönnunargeiranum, en í Hafnarfirði er starfrækt Kvikmyndasafn Íslands, í Garðabæ Hönnunarsafn Íslands, í Kópavogi Tónlistarsafn Íslands og í Reykjavík Leikminjasafn Íslands. Saman geta þessi söfn myndað klasa og verið rannsóknarbakhjarl fyrir Listaháskóla Íslands, sem hefur nú fengið heimild menntamálayfirvalda til að fjölga tækifærum listnema til meistaranáms. Allt getur þetta haft áhrif á almenna atvinnuuppbyggingu en ekki síst atvinnumöguleika innan skapandi greina.

Kafli 2.4.2 tl. 6. Í þessum tölulið er fjallað um nauðsyn þess að Listasafn Reykjavíkur styðji sérstaklega við samtímalist. Sjálfsagt er óþarfi að minna á það hér að Listasafn Reykjavíkur er rekið samkvæmt samþykktri safnastefnu sem innifelur einmitt áherslu á samtímalist. Ganga verður út frá því að slíkt sé tekið fram hér í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á atvinnumöguleika myndlistarmanna. Til að auka enn frekar á atvinnumöguleika myndlistarmanna mætti, í atvinnustefnu, nefna möguleika Listasafns Reykjavíkur til samstarfsverkefna við önnur söfn í borginni, sem sérstaklega sinna samtímalist, t.d.  Nýlistasafnið.

Kafli 2.4.2 tl. 9.  BÍL fagnar því að stjórnvöld í Reykjavík skuli ætla að beita sér fyrir byggingu Listaháskóla Íslands á stjórnarráðsreit, sem ganga verður út frá að sé reiturinn norð-austan við Arnarhól. Í þessum tölulið mætti gjarnan hafa nokkur orð um mikilvægi Listaháskóla Íslands, sem einu menntastofnunarinnar sem sinnir menntun listafólks á háskólastigi. Þegar skólinn var stofnaður, á grunni þeirra skóla sem fyrir voru; Leiklistarskóla Íslands og Myndlista og handíðaskóla Íslands, var það öðru fremur gert með samlegð og hagræðingu að leiðarljósi. Mikilvægur þáttur í þeirri samlegð átti að vera að koma skólanum undir eitt þak. Það er því sannarlea fagnaðarefni að Reykjavíkurborg skuli nú leggjast á árar í þeirri baráttu.

Kafli 2.5 Ferðamannaborgin
Hér er mikilvægt að kaflinn um Ferðamannaborgina á bls. 53 verði settur inn í stað kaflans „leiðarljós“ á bls. 17.  Í orðalagi kaflans á bls. 53 er hlutverk menningartengdrar ferðaþjónustu undirstrikað með skilmerkilegri hætti en í textanum á bls. 17.

Kafli 2.5.4 tl. 4. Hér leggur BÍL til breytingu á texta; í stað „s.s. varðand íþróttaviðburði og meiri aðkomu annarra sveitarfélaga innan SSH“ komi „s.s. varðandi menningarviðburði hvers konar þ.m.t. íþróttaviðburði og meiri aðkomu annarra sveitarfélaga innan SSH“. Einnig væri skynsamlegt að nefna kynningarmiðstöðvar listgreinanna og Hönnunarmiðstöð sem samstarfsaðila varðandi viðburði, enda liggur þar yfirgripsmikil fagþekking á þeim viðburðum sem eru í undirbúningi langt fram í tímann.

Kafli 2.5.tl. 6.  Hér mætti einnig nefna kynningarmiðstöðvar listgreinanna og Hönnunarmiðstöð sem samstarfsaðila í upptalningunni á eftir Nýsköpunarmiðstöð, Ferðamálastofu og SAF. Fulltrúar kynningarmiðstöðvanna eiga allir sæti í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum og eru sem slíkir einnig í tengslum við fagráð Íslandsstofu í ferðaþjónustu. Þar er því um lykilaðila að ræða.

 

Kafli 2.7 Lífsgæðaborgin
Kafli 2.7.1. BÍL leggur til smávægilega breytingu á annarri setn. fyrstu mgr., bætt verði inn í upptalninguna orðinu „menningar-“. Setningin verði þannig: Reykjavíkurborg leggur áherslu á heilbrigt og kraftmikið borgarlíf, félagslegt öryggi og góða skóla, fjölbreytt menningar-, íþrótta- og frístundastarf, margskonar útivistarmöguleika í borgarlandinu g óskert aðgengi að náttúru.

Kafli 2.7.2. tl. 2. Hér leggur BÍL til að bætt verði inn menningar- og ferðamálaráði, sem ábyrgðaraðila í lok töluliðarins, þar sem mál tengd fegrun miðborgarinnar og endurnýjun gamalla húsa heyra líka undir það ráð. Nægir að nefna Minjasafn Reykjavíkurborgar og Byggingarlistasafn Reykjavíkur, sem lykilstofnanir á þessu sviði.

Kafli 2.8 Hafnarborgin
Kaflinn um Hafnarborgina er afar nákvæmlega útfærður, þar sem sett er fram tímasett aðgerða- eða framkvæmdaáætlun varðandi Hafnarborgina. Skynsamlegt væri að skoða samræmingu við aðra kafla stefnunnar með þennan kafla sem fyrirmynd.

Kafli 2.8.2 tl. 2. BÍL leggur til að í þessum tölulið verði getið um „miðborgarásinn“ sem skýrt er frá á bls. 33, í kafla 3.5.3, en þar segir að gert sé ráð fyrir fjölbreyttri starfsemi á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu, matarmenningar, hönnunar, lista og nýsköpunar etc… Í 2.tl., staflið a. mætti gjarnan geta um þessi áform tengd uppbyggingu á Mýrargötu og slippasvæði.

Kafli 2.8.2 tl. 3.  Mikilvægt er að nefna Minjasafn Reykjavíkur og jafnvel Víkina – Sjóminjasafn, í tengslum við verkefnið í b-lið um merkingar við markverða staði í Gömlu höfninni.

Kafli 5  Fjárfestingarstefna Reykjavíkurborgar
Í þessum kafla, tölulið 4, leggur BÍL til að skapandi greinum verði bætt inn í upptalninguna þannig: Greitt verði fyrir markvissri uppbyggingu í þágu einstakra lykilgreina í atvinnustefnunni, s.s. skapandi greina, þekkingariðnaðar og ferðaþjónustu.

Kafli 6.7  Bakland skapandi atvinnulífs
BÍL leggur til að orðinu „menningarstofnanir“ verði bætt við upptalningu efst á síðunni, í fjórðu setningu þannig að þar standi: Aðrar lykilmenntastofnanir, menningarstofnanir og þekkingarfyrirtæki o.s.frv. 

Kafli 6.9  Skrifstofa atvinnu- og borgarþróunar
BÍL ítrekar þörfina á merkingarbærum hugtökum í texta atvinnustefnunnar og leggur til að orðalagi í tölulið 1 verði breytt þannig að þar standi: Að skjóta styrkari stoðum undir efnahag borgarinnar  með því að fjölga atvinnutækifærum í Reykjavík. Í tölulið standi: Að skapa skilyrði fyrir nýja atvinnustarfsemi á grunni sjálfbærrar þróunar. Tölulið 9 verði breytt þannig: Vera leiðandi í mótun og framkvæmd atvinnustefnu fyrir höfuðborgarsvæðið. Efla samstarf fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka á höfuðborgarsvæðinu og vinna að klasamyndun í samráði við hagsmunaaðila.

Loks vill BÍL vekja athygli borgaryfirvalda á lítilli stofnun sem til skamms tíma var starfrækt í þágu skapandi greina og var á forræði Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík;  það er Hugmyndahús Háskólanna, sem staðsett var við Grandagarð 2. Þegar háskólarnir tveir sáu sér ekki lengur fært að leggja hugmyndahúsinu til fjármagn var það lagt af, en það er mat BÍL að borgaryfirvöld gætu eflt skapandi atvinnugreinar umtalsvert með því að endurvekja Hugmyndahúsið. Auðvitað væri gott ef mennta- og menningarmálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og jafnvel fleiri ráðuneyti væru samstarfsaðilar borgarinnar við slíka endurreisn. Slík aðgerð myndi óumdeilanlega styrkja þá ágætu atvinnustefnu sem borgaryfirvöld leggja nú fram og væri einnig í fullu samræmi við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. 

Að lokum þakkar BÍL fyrir að hafa fengið stefnudrögin til umsagnar og vill gjarnan vera með í ráðum um frekari útfærslu aðgerðaáætlunar á grunni stefnunnar.

Þakkir

Í dag, á degi tónlistarinnar, birti Fréttablaðið grein eftir Jakob Frímann Magnússon formann FTT:

Vorið 1991 afhenti Björk Guðmundsdóttir þáverandi menntamálaráðherra, Svavari Gestssyni, kröfu fyrir hönd íslenskra tónlistarmanna um að jafnræðis skyldi gætt milli listgreina í nýjum lögum um virðisaukaskatt. Nýkynnt stefna ríkisstjórnar var nefnilega á þann veg að allar listgreinar skyldu undanþegnar virðisaukaskatti – nema hryntónlist og tónlist á geisladiskum. Þetta skóp mikinn samkeppnishalla, ekki síst milli útgefenda vsk- fjálsra bóka og vsk-skyldra geisladiska og bitnaði mjög á tónlistarfólki.

Eftir fimmtán ára baráttu náði SAMTÓNN, Samtök tónlistarrétthafa, þeim langþráða árangri gagnvart stjórnvöldum árið 2007 að geisladiskar og bækur skyldu loks færðar í sama virðisaukaskattþrep, 7% , en bækur höfðu þá um allangt skeið borið 14% og tónlist 24,5%. Eftir sat hins vegar tónlist í rafrænu formi sem enn bar 24,5% virðiskaukaskatt – og sama gilti um rafbækur.

Þökk sé efnahags- og skattanefnd undir forystu Helga Hjörvar að leiðrétting þessa átti sér nýverið stað. Þetta fór ekki hátt en Dagur íslenskrar tónlistar er kjörinn til að vekja athygli á þessari réttmætu og langþráðu leiðréttingu.

Tuttugu ára baráttu tónlistafólks og útgefenda fyrir þessu sjálfsagða og brýna jafnréttismáli er hérmeð lokið. Aukinn skilningur á gildi stéttarinnar og framlagi hennar til samfélagsins speglast í ákvörðun efnahags- og skattanefndar. Henni skulu færðar bestu þakkir.

Forseti BÍL kjörinn forseti ECA

Í dag lauk í Madríd ársfundi ECA – European Council of Artists og ráðstefnu sem haldin var í tengslum við fundinn. Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL  var á fundinum kjörin forseti ECA og tekur hún við af írska myndhöggvaranum Michael Burke, sem gegnt hefur embættinu sl. fjögur ár. Varaforsetar samtakanna eru tveir, danska söngkonan og söngvaskálið Pia Raug og Theodoulos Gregoriou myndlistarmaður frá Kýpur. 27 Evrópulönd eiga aðild að Bandalagi evrópskra listamanna, þar á meðal öll Norðurlöndin nema Noregur. Færeyjar og sjálfstjórnarsvæði Sama á Norðurlöndum eru líka aðilar að ECA.

Í fimmtán þessara landa eru starfandi svokölluð “regnhlífarsamtök” listgreinanna, þar sem flest eða öll samtök listafólks í viðkomandi landi eiga aðild. Helstu verkefni ECA varða sameiginleg hagsmunamál listafólks í Evrópu, stefnumótun og lagaumhverfi listgreinanna, nýsköpun og þróun, höfundarétt, tryggingar, eftirlaunamál og möguleika listafólks á að stofna til verkefna yfir landamæri.

Á ráðstefnunni, sem haldin var í tengslum við ársfundinn og hafði yfirskriftina “Back to buisiness – the need for industrious artists” var fjallað um gildi listanna fyrir samfélagið og áhrifin sem það hefur á listamenn og listina þegar kastljósinu er í auknum mæli beint að hinum efnahagslegu áhrifum svokallaðra skapandi greina. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru argentíska tónskáldið Federico Jusid, leikstjórinn og leikskáldið José Sanchís Sinisterra og systir Bernatte Sweeny, sem vakið hefur athygli fyrir að gefa fiðlur, víólur eða selló öllum 400 börnunum í Skóla heilagar Agnesar í Dublin, sem hún stýrir. Þá ávarpaði fyrrum þingmaður Evrópuþingsins Carlos Carnero González ráðstefnuna.

Nokkur óvissa ríkir um framtíð ECA vegna fjárhagserfiðleika í flestum löndum álfunnar, svo fyrsta verk hins nýkjörna forseta verður að leita leiða til að treysta fjárhagsgrundvöll samtakanna og tryggja rekstur þeirra til næstu ára.

Betri bæi

Fréttablaðið í dag birtir grein eftir formann Arkitektafélags Íslands Loga Má Einarsson:

 Óbyggðir landsins eru okkur dýrmætar og mikilvægt að huga vel að því hvernig um þær er gengið. Þetta hefur mönnum orðið æ ljósara og hefur megináhersla umhverfisverndar á Íslandi snúist um víðernið. Það er þó ekki síst við skipulagningu þéttbýlis sem ná má árangri í umhverfisvernd. Skynsamleg þróun bæja getur skipt sköpum.

Ýmislegt hefur farið úrskeiðis í uppbyggingu þéttbýlis síðustu áratugi. Við höfum að miklu leyti byggt upp samkvæmt hugmyndafræði hinnar bandarísku bílaborgar, þar sem lykilhugtökin eru flokkun og aðgreining. Borg og bæir eru gisin, innviðir dýrir, almenningssamgöngur lélegar og almenningsrými oft illa skilgreind. Þá höfum við byggt okkur stærra íbúðarhúsnæði en skynsamlegt má teljast. Markmiðið hlýtur að vera að snúa af þessari braut.

Stjórnvöld hafa ekki horft á hlutina í nógu stóru samhengi og þann ávinning sem í því felst. Arkitektar bera þó auðvitað líka sína ábyrgð á þessari þróun. Sum okkar hafa ýmist villst af leið eða verið of leiðitöm í ofsaþenslu síðustu ára. Önnur hafa hins vegar hvergi hvikað frá gildum sínum og víða má sjá byggingar og skipulagssvæði sem bera metnaði og fagmennsku mjög gott vitni.

Byggingarlist lýsir vel menningarstigi og viðhorfi þjóðfélaga á hverjum tíma. Því eigum við að leggja áherslu á að góður arkitektúr einkenni þéttbýli. Góð byggingarlist auðgar umhverfið og hvetur til varðveislu arfleifðar okkar. Hún er aðlaðandi og fúnksjónell. Góður arkitektúr einkennist af og tekur tillit til menningar okkar og sérkenna.

Í framtíðinni þurfa orku- og umhverfisvænar lausnir einnig að einkenna góða byggingarlist.
Góð byggingarlist og skipulag auka lífsgæði, stuðla að verðmætasköpun og eru því hagkvæm.
Í þeirri viðleitni að snúa til betri vegar óskar Arkitektafélag Íslands, sem nú fagnar 75 ára afmæli, eftir aukinni og markvissri samvinnu við ríki, sveitarfélög og almenning um mótun skýrrar sýnar til langrar framtíðar.

Mikilvægum áfanga náð

Á heimasíðu STEFs er í dag birt eftirfarandi frétt:

Þann 1. nóvember 2011 náðu íslenskir tónlistarmenn markmiði sínu til margra ára, að virðisaukaskattur á sölu tónlist stafrænt (með streymi eða niðurhali í gegnum Internetið) yrði lækkaður niður í sama þrep og virðisaukaskattur af sölu geisladiska. Þetta þýðir að virðisaukaskattur frá og með 1. nóvember á stafrænni sölu tónlistar er 7% í stað 25,5% áður. Fyrir neytendur mun þetta þýða lækkun á söluverði tónlistar á netinu sem vonandi skilar sér í aukinni sölu. Fyrir höfunda mun þetta því væntanlega þýða auknar tekjur frá tónlistarveitum á borð við Tónlist.is og Gogoyoko. Hægt og rólega hafa tekjur höfunda af stafrænni sölu tónlistar verið að aukast þrátt fyrir að enn sé langt í að tekjur af stafrænni sölu á tónlist nái að bæta það tekjutap sem orðið hefur vegna minni sölu á geisladiskum.

http://www.stef.is/Frettir/nr/149


Þú skalt ekki listar njóta!

Í dag er listalausi dagurinn, af því tilefni birti Fréttablaðið eftirfarandi grein eftir forseta BÍL; Kolbrúnu Halldórsdóttur:

Nú liggur fjárlagafrumvarp ársins 2012 fyrir Alþingi og víða er rýnt í boðskap þess. Ekki er óalgengt að spjótum sé beint að listum og menningu þegar gagnrýnt er með hvaða hætti opinberu fé er varið. Listafólki eru því töm á tungu rökin, sem réttlæta opinberar fjárveitingar til menningar og lista. Þar vega að sjálfsögðu þyngst rökin um eigið gildi lista og menningar, en upp á síðkastið hafa komið fram tölulegar upplýsingar sem skipta líka máli. Hagræn áhrif lista og menningar eru umtalsverð og ljóst að ríkissjóður fær hverja krónu sem lögð er til listrænnar sköpunar aftur til baka og sumar fimm sinnum.

Hugmyndin um verkfall listafólks hefur oft skotið upp kollinum, til að leggja áherslu á gildi lista og menningar, en slík aðgerð er flókin og jafnvel óframkvæmanleg.  Nú hefur hugmyndin verið einfölduð og í stað þess að listafólk fari í verkfall í einn dag, er því beint til hvers og eins okkar að við hugleiðum hversu stóran þátt listir eiga í okkar daglega lífi, hversu víða þær eru í okkar nánasta umhverfi og hversu fátæklegt lífið væri án þeirra. Þetta getum við gert með því að takmarka eigin aðgang að listum og listrænum upplifunum. Til hægðarauka hafa verið útbúin 15 boðorð, sem hægt er að fylgja til að forðast allar listir í dag. Boðorðin eru aðgengileg víða á vefnum og hvetja þau fólk til að hlusta ekki á tónlist, fara ekki í  bíó, sækja ekki listasöfn, lesa ekki bókmenntir, horfa ekki á byggingar hannaðar af arkitektum og þar fram eftir götunum. Með sameinuðu átaki og táknrænum gjörningum, sem víðast um landið, er ætlunin að koma boðorðum listalausa dagsins til skila til þjóðarinnar. Allt í þeim tilgangi að skapa umræðu um umhverfi okkar án lista.

Page 20 of 38« First...10...1819202122...30...Last »