Author Archives: vefstjóri BÍL

Aðalfundur BÍL 2013

Aðalfundur BÍL – Bandalags íslenskra listamanna 2013, verður haldinn laugardaginn 9. febrúar í Iðnó við Tjörnina og hefst hann kl. 11:00.  Opinn fundur um skapandi atvinnugreinar verður haldinn í beinu framhaldi.

Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL

Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2013 verður kynnt a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn.

Í beinu framhaldi af aðalfundinum verður efnt til opins fundar/málþings um þátt listamanna í skapandi atvinnugreinum. Þar verður tekin til skoðunar skýrsla starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um skapandi greinar.

Málþingið verður öllum opið og verður það kynnt sérstaklega hér á síðunni þegar nær dregur.

Fundur með atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra

Stjórn BÍL átti í dag fund með Steingrími J. Sigfússyni ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar. Eftirfarandi minnisblað var lagt fram á fundinum:

 • BÍL fagnar stofnun hins nýja ráðuneytis atvinnuvega og nýsköpunar og lýsir áhuga á samstarfi um uppbyggingu skapandi atvinnugreina á Íslandi, enda eru þær einhver mikilvægasta vaxtargrein þjóðarbúisins á næstu árum og áratugum.
 • BÍL fagnar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sérstaklega áformum um aukin framlög til lista og skapandi greina, t.d.  í Kvikmyndasjóð og aðra verkefnatengda sjóði greinanna.
 • BÍL óskar eftir upplýsingum um hvernig skapandi greinum verður sinnt innan hins nýja ráðuneytis. Hver verður tengiliður BÍL inn í ráðuneytið,  starfshlutfall, fagþekking, samband við önnur ráðuneyti, -ekki síst mennta- og menningarmálaráðuneytið?  
 • Mikilvægt er að gerði verði áætlun um meðhöndlun/innleiðingu þeirra tillagna sem settar eru fram í skýrslunni ,,Skapandi greinar – sýn til framtíðar“.  Þar er kallað er eftir samhentri stjórnsýslu og  þverfaglegri nálgun varðandi málefni skapandi greina og að nauðsynleg fagþekking verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir tengdar hinum skapandi geira.
 • Afar mikilvægt er að skapa heildstætt rannsóknarumhverfi um skapandi atvinnugreinar, þ.m.t. veltu, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu.  Skoða þarf samspil atvinnutengdra rannsókna og rannsókna innan háskólanáms í listum og skapandi greinum.  Fjölga þarf fulltrúum skapandi greina í fagráðum sjóða hjá RANNÍS, innleiða mælistikur sem henta skapandi greinum varðandi mat á umsóknum og skoða möguleika á tímabundnum sjóði hjá RANNÍS í þágu skapandi greina.
 • Skýrslan bendir á ýmsa ágalla í núverandi starfsumhverfi þeirra sem starfa í skapandi greinum, m.a. varðandi skattaumhverfi listamanna, virðisaukaskatt og nauðsyn á skattalegri hvatningu til einkaaðila til að fjárfesta í listageiranum. Hvernig hyggst ráðherrann vinna áfram með tillögur skýrslunnar og hvar er samráð ráðuneytanna fjögurra á vegi statt?
 • BÍL hefur áður lagt áherslu á það við ráðherra að skapandi greinar verði skilgreind stærð í þjóðhagsreikningum líkt og aðrar atvinnugreinar. Hefur eitthvað gerst í þeim efnum eða er eitthvað í undirbúningi?
 • Í kjölfar tillagna nefndar um menntunarmál kvikmyndagerðarmanna og aukinnar stéttarvitundar þeirra sem starfa við kvikmyndagerð, þarf FK stuðning ráðherra við að vinna greiningu starfa í kvikmyndagerð. Skoða þarf starfsumhverfi, hæfniskröfur og möguleika á löggildingu starfa innan geirans.  Flestir kvikmyndagerðarmenn eru verkefnaráðnir og starfa sem verktakar, það kallar á óhóflega langan vinnudag, mikið álag og litla hvíld. Þá eru tryggingamál innan geirans í miklum ólestri, sem kallar á markvissari greiningu starfanna og undirbúning kjarasamninga fyrir þennan hóp. Hvað sér ráðherra til úrbóta?
 • BÍL heldur árlega samráðsfundi með mennta- og menningarmálaráðherra. Það er skoðun BÍL að sambærilegir fundir með ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar gætu verið mjög gagnlegir, ekki síst meðan verið er að þróa samskiptin og finna skapandi atvinnugreinum stað í stjórnsýslunni. Þess er óskað að ráðuneytið skoði möguleika á slíkum árlegum fundum .
 • Með eflingu menningarsamninga í landsfjórðungunum hefur BÍL verið kallað til í auknum mæli sem ráðgjafi við að byggja upp atvinnutækifæri fyrir skapandi fólk á landsbyggðinni.  Dæmi: BÍL er stofnaðili að Austurbrú, sameiginlegri stoðstofnun sveitarfélaga á Austurlandi. BÍL á aðild að ráðgjafarráði SSH, sem vinnur að sameiginlegri sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.  BÍL á tvo áheyrnarfulltrúa í Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur, skipar í fagráð um úthlutun framlaga borgarinnar til list- og menningartengdra verkefna og heldur árlega samráðsfundi með borgarstjóra. Mikilvægt er að ráðuneytið styðji við BÍL í að rækja starf af þessu tagi.
 • BÍL vill undirstrika þátt listafólks í skapandi atvinnugreinum, sem ekki alltaf er augljós eða auðskilinn. Listafólk og aðrir skapandi einstaklingar kveikja neista þeirra verkefna sem skapandi atvinnugreinar snúast um. Þáttur listafólksins getur verið með ýmsum hætti og þarf ekki alltaf að vera sýnilegur í viðskiptahugmyndinni sem slíkri.  Mikilvægt er að gæta að því að efnahagslegir þættir  atvinnugreinanna yfirskyggi ekki þátt frumsköpunarinnar.  
 • BÍL væntir þess að samstarfið við hið nýja ráðuneyti verði skapandi og leiði til betra starfsumhverfis fyrir listafólk og aðra sem starfa innan skapandi atvinnugreina.

 

3795 listamenn í BÍL

Nýverið óskaði ECA – European Council of Artists, samstarfsnet listafólks í Evrópu, eftir því að aðildarfélög ECA sendu inn upplýsingar um heildarfjölda listamanna, sem ætti aðild að heildarsamtökum hvers lands fyrir sig. Niðurstaðan hefur nú verið birt og er heildarfjöldi listamanna í ECA-netinu nálægt 212.000 í 393 félögum í 28 löndum. Af þeim fjölda tilheyra 3795 listamenn aðildarfélögum BÍL :

FÍT – Félag íslenskra tónlistarmanna        161      (karlar 54 – konur 107)

FLÍ – Félag leikstjóra á Íslandi                      93     (karlar 55 – konur 38)

RSI – Rithöfundasamband Íslands            409      (karlar 246 – konur 163)

SKL – Samtök kvikmyndaleikstjóra             59      (karlar 45 – konur 14)

AÍ – Arkitektafélag Íslands                         334      (karlar 219 – konur 115)

            Nemar                                                   67      (karlar 30 – konur 37)

FÍLD – Félag íslenskra dansara                 104      (karlar 8 – konur 96)

FTT – Félag tónskálda og textahöf           362      (karlar 316 – konur 46)

FÍL – Félag íslenskra leikara                     463      (kralar 194 – konur 269)*

FLB – Fél leikmynda og búningahöf.          35      (karlar 18 – konur 17)*

SÍM – Samband ísl myndlistarmanna      668      (karlar 154 – konur 514)*

FK – Félag kvikmyndagerðarmanna        365      (karlar 237 – konur 128)*

FÍH – Félag íslenskra hljómlistarmanna   547      (karlar 345 – konur 202)*

FLH – Félag leikskálda og handritshöf        63      (karlar 38 – konur 25)*

TÍ – Tónskáldafélag Íslands                           65      (karlar 57 – konur 8)*______

 Heildarfjöldi                                                    3795    (karlar 2015 – konur 1780)

* tölur fengnar af vef Hagstofu Íslands

Fundur Norræna listmannaráðsins

13. september sl. var haldinn fundur systursamtaka BÍL á Norðurlöndunum, Nordisk Kunstnerråd, í Helskinki. Þar  voru til umfjöllunar sameiginleg hagsmunamál listamanna á Norðurlöndum, m.a. samskiptin við Norrænu ráðherranefndina, höfundarréttarmál og væntanlegan ársfund ECA, – European Council of Artists. Einnig undirbjuggu fundarmenn sig fyrir málþing, sem haldið var daginn eftir (14.09.2012) þar sem fjalla átti um starfsumhverfi Norrænna listamanna.   Nordisk kunstnerraad sept 2012

Tjáningar- og upplýsingafrelsi

Umsögn BÍL um þingsályktunartillögu um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

16. júní 2010 samþykkti Alþingi svohljóðandi þingsályktunartrillögu:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.
Í þessu skyni verði:
 a.     gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf, 
 b.     litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis, 
 c.     kannaðir möguleikar þess að koma á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum, 
 d.     gerð úttekt á viðbúnaði ríkisins, einkum á sviði öryggismála, vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera hér á landi, 
 e.     haldin alþjóðleg ráðstefna á Íslandi um breytingar á lagasetningu og netnotendaumhverfi með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið. 
 Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.
 Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.
 Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar

Nýverið óskaði starfshópur mennta- og menningarmálaráðherra eftir umsögn BÍL tillöguna. Umsögn BÍL fer hér á eftir:

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna er samstarfsvettvangur fagfélaga íslenskra listamanna. Í því felst að gæta hagsmuna listamanna, verja frelsi þeirra til orðs og athafna og leggja lið baráttunni gegn hvers kyns ofsóknum á hendur listafólki og hindrunum í starfi þeirra. BÍL á í virku samstarfi við alþjóðleg baráttusamtök listamanna úr öllum listgreina sem berjarst fyrir tjáningarfrelsi, má þar nefna samtökin PEN international http://www.pen-international.org/ og Freemuse – The World Forum on Music and Censonship http://www.freemuse.org/sw305.asp

Þó áhersla þingsályktunartillögunnar, sem hér er til umfjöllunar, sé styrking lýðræðisins með rétti almennings til óhlutrægrar fjölmiðlunar og rétti fjölmiðla til miðlunar óhlutdrægra frétta, þá lítur BÍL svo á að einn og sami grundvöllur sé undir tjáningafrelsi listamanna, almennings og fjölmiðla.

BÍL styður megininntak ályktunarinnar, að Ísland taki forystu í að innleiða afgerandi lagaramma um vernd tjáningarfrelsis, málfrelsis, upplýsingafrelsis og útgáfufrelsis og leggur áherslu á eftirfarandi þætti í því sambandi:

Horft verði til ákvæða mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og til fyrirmynda í löggjöf annarra landa, t.d. er stutt síðan norska þingið samþykkti að taka ákvæði um tjáningarfrelsi út úr hegningarlögum.

Fylgt verði fast eftir kröfunni um heimildamannavernd og vernd afhjúpenda.

Skýrð verði krafan um opna stjórnsýslu, þannig að ekki séu óeðlilegar hömlur á tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna um málefni tengd stjórnsýslunni.

Innleiðing ákvæða Árósasamningsins verði endanlega leidd í íslensk lög og tryggt að andi samningsins verði hafður að leiðarljósi við framkvæmd ákvæðanna.

Ryðja þarf úr vegi þeim hindrunum sem nú eru til staðar í starfsumhverfi skapandi atvinnugreina, en þær eru alla jafna leiddar af starfi listafólks. Starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðherra er um það bil að skila skýrslu með tillögum um úrbætur í þeim efnum, sem gætu verið gagnlegar í vinnunni við að tryggja vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Ákall vegna Pussy Riot

Stjórn BÍL hefur sent ákall til forseta Rússlands Vladimírs Pútín og tveggja rússneskra saksóknara þar sem þess er krafist að þrjár listakonur úr punk-rokk-sveitinni Pussy Riot verði látnar lausar úr haldi og allar ákærur á hendur þeim verði látnar niður falla:  

Appeal to Russian Authorities

BÍL – The Federation of Icelandic Artists expresses a deep concern for the three artists Maria Alekhina, Nadezhda Tolokonnikova and Ekaterina Samucevich, members of the female punk band “Pussy Riot” who have been charged with violating Article 213 of the Russian Criminal Code, subsequently facing up to seven years in prison if convicted. They have been held in pre-trial detention since March 2012 for allegedly taking part in a protest song happening in Moscow’s Christ the Savior Cathedral on February 21st 2012. 

BÍL urges the Russian Government and the Russian Judiciary to recognize the UN conventions on freedom of expression, cultural diversity and human rights. Article 19 of the Universal Declaration of Human Rights, to which the Russian Federation is a signatory, is clear on everyone’s freedom of opinion and expression and Article 20 acknowledges the right to freedom of peaceful assembly and association.

The same counts for the UNESCO Convention on the Protection and Promotion of the Diversity of Cultural Expression, which is to protect and promote the diversity of cultural expression. And even though the Russian Federation has not signed that convention, 124 nation states have, stating that no one should invoke the provisions of the Convention in order to infringe human rights and fundamental freedoms as enshrined in the Universal Declaration of Human Rights.

In the light of the Universal Declaration of Human Rights and the UNESCO Convention on the Protection and Promotion of the Diversity of Cultural Expression it is our opinion that the performance in Moscow’s Christ the Savior Cathedral on February 21st 2012. did not contain component elements of a crime.

We therefore respectfully urge you to drop any and all charges against the artists Maria Alekhina, Nadezhda Tolokonnikova and Ekaterina Samucevich and immediately and unconditionally release them. Furthermore, we call on you to immediately and impartially investigate threats received by the family members and lawyers of the three artists and, if necessary, ensure their protection.

Freedom of expression is a human right under Article 19 of the Universal Declaration of Human Rights, and no one should be jailed for the peaceful exercise of this right.

Thank you for your attention to this serious matter.

Listamannalaun 2013; breytt fyrirkomulag umsókna

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur birt á vef ráðuneytisins nýmæli  vegna starfslauna listamanna 2013.  Breytingarnar eru að frumkvæði og beiðni stjórnar listamannalauna og fela það í sér að listamenn geti sótt um starfslaun sem hópur vegna skilgreindra samstarfsverkefna, annað hvort úr einum og sama sjóðnum eða úr mismunandi sjóðum. Einnig verður einstaklingum gert kleift að sækja um starfslaun í fleiri en einn sjóð, ef verkefnið er þess eðlis að það falli að hlutverki fleiri sjóða.

Hugmyndirnar komu fyrst til BÍL 16. júlí og þá óskaði stjórn eftir svigrúmi til að kynna sér þær áður en endanlegar ákvarðanir væru teknar. 23. júlí fékk BÍL tillögurnar til umsagnar og sá stjórn BÍL ekki ástæðu til að leggjast gegn áformuðum breytingum en gerði athugasemd við dagsetningu þá sem áætlað var að markaði lok umsóknarfrests, sem var áætlaður 18. september. Ráðuneytið hefur nú ákveðið að umsóknarfrestur í launasjóðina verði til 25. september.

Hér fer á eftir svar stjórnar BÍL við erindi ráðuneytisins:

Bréf þetta er ritað í framhaldi af samskiptum ráðuneytisins og BÍL í tölvupóstum dags. 16. júlí og 19. júlí og af erindi ráðuneytisins frá 23. júlí um breytingar á úthlutun úr launasjóðum listamanna. Eftir samráð stjórnar BÍL um málið liggur fyrir sú afstaða stjórnarinnar að ekki sé tilefni til að leggjast gegn breytingum þeim, sem lagðar eru til, þó æskilegt hefði verið að þær hefðu komið fram mun fyrr svo meira svigrúm hefði gefist til að ræða markmið þeirra og væntanleg áhrif. Það hefði einnig verið þakkarvert ef breytingarnar hefðu verið í samhengi við áætlun um áframhaldandi uppbyggingu launasjóðanna og samspil breytinganna við lögbundna verkefnasjóði listanna.  

Stjórn BÍL fer þess á leit við ráðuneytið að bætt verði við fyrirliggjandi drög að fréttatilkynningu málsgrein sem skýrir markmið breytinganna, eins og þeim er lýst í erindi formanns stjórnar listamannalauna til formanns BÍL dags 27. júlí og fylgir bréfi þessu.  Stjórn BÍL telur í raun mjög óheppilegt að tímafrestur skv. tillögunum skuli færður fram og renna út um miðjan september, þar sem hætt er við að ágúst verði umsækjendum ódrjúgur og þeir þurfi septembermánuð til að fullgera umsóknir sínar. Það er því mikilvægt að kynna þessa breytingu afar vel.  Stjórn BÍL fagnar því hins vegar ef þetta verður til þess að hægt verði að tilkynna fyrr um úthlutunina en verið hefur og vonast til að hægt verði að tilkynna um hana strax að lokinni samþykkt Alþingis á fjárlögum 2013 í desember nk. Eins leggur stjórn BÍL til að kannað verði hvort í framhaldi af þessum breytingum verði dagsetningum um skil umsókna og tikynningu úthlutana komið í fastar skorður.

Stjórn BÍL ítrekar sjónarmið sín varðandi þörf á stefnumótun um eflingu launasjóðanna til næstu þriggja ára og samspil þeirra við lögbundna verkefnasjóði, eins og rætt var á samráðsfundi menntamálaráðherra og BÍL 13. apríl sl., sjá punkt 4 í fundargerð af fundinum:

Starfslaunasjóðir listamanna. Eftir nýlegan fund BÍL stjórnar með stjórn listamannalauna er ljóst að skerpa þarf tilgang listamannalauna og skoða hvort tilefni er til breytinga á launasjóðunum svo þeir megi betur sinna hlutverki sínu. Í því sambandi er brýnt að skýra eðlismun verkefnasjóða og launasjóða. T.d. þarf að skoða hugmyndir um sviðslistasjóð; kanna kosti og galla þess að koma á svipuðu fyrirkomulagi og Kvikmyndasjóður starfar eftir. Þó fjölgun og efling verkefnatengdra sjóða létti álagi af launasjóðunum, þarf engu að síður að gera áætlun um fjölgun mánaðalauna á næstu árum. Endurskoða þarf upphæð mánaðalaunanna og möguleikann á að fólk eigi  val um verktakagreiðslur eða launagreiðslur.

Umsögn um menningarstefnu

Á fundi stjórnar BÍL í dag var samþykkt umsögn um drög að menningarstefnu stjórnvalda, sem hefur verið aðgengileg á vef mennta og menningarmálaráðuneytisins síðan 8. júní sl. Umsögn BÍL er svohljóðandi:

Stjórn BÍL hefur kynnt sér drög að menningarstefnu, sem hafa verið opin til umsagnar á vef ráðuneytsins síðan 8. júní, og sendir ráðuneytinu eftirfarandi umsögn.

Stjórn BÍL fagnar því að nú skuli loks hylla undir það að menningarstefna íslenskra stjórnvalda líti dagsins ljós. BÍL hefur tekið þátt í því ferli, sem er búið að vera langt og snúið. Þau drög sem nú liggja fyrir eru nokkuð almenn og mætti að ósekju fylgja þeim stutt skýrsla Hauks F. Hannessonar “Er til menningarstefna á Íslandi?”,sem unnin var fyrir ráðuneytið 2009, þar sem upp er talin gildandi löggjöf um menningarmál.  Fyrirliggjandi drög eru eins konar rammaáætlun, sem ætla má að verði notuð sem grunnur að vel skilgreindri aðgerðaáætlun á menningarsviðinu.

BÍL tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í inngangi um að mikilvægt sé að stjórnvöld vandi aðkomu sína að málaflokknum og að menningarstefna eigi að vera hvatning þeim sem starfa að menningarmálum um að vanda til verka og horfa til framtíðar. Þess ber þó að gæta að strax við slíka fullyrðingu koma upp spurningar um fjárframlög til þeirrar starfsemi sem um er að tefla, því vandvirknin ræðst oftar en ekki af þeim fjármunum sem fást í viðkomandi verkefni eða til rekstrar menningarstofnana. Það er því nánast óhjákvæmilegt að ræða leiðirnar að markinu í sömu andrá og markmiðssetninguna.

Til að tryggja að aðkoma stjórnvalda að menningarmálum sé vönduð má nýta þau leiðarljós sem gefin eru um skilvirka og samhenta stjórnsýslu í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um stjórnarráð Íslands og gefin var út af forsætisráðuneytinu í desember 2010.

Í inngangi segir að mikilvægt sé að stefnan sé reglulega tekin til endurskoðunar. Það orðalag orkar tvímælis og skynsamlegra að segja að stefnan skuli vera í stöðugri endurskoðun, enda er meiningin að hún endurspegli aðkomu og áherslur stjórnvalda á hverjum tíma. Á hitt má svo líta hvort ekki er álíka mikilvægt að á grunni stefnunnar sé sett fram tímasett áætlun með mælanlegum markmiðum ásamt áætlun um eftirfylgni.

Það er mat BÍL að full mikið sé gert úr því í drögunum að hlutverk stjórnvalda sé að “styðja við” og “veita skjól”, skynsamlegra sé að tala um að stjórnvöld “skapi skilyrði” eða “veiti brautargengi” verkefnum eða áformum sem fagfólk í geiranum er sammála um að skipti máli. Í því sambandi skiptir virkt samráð höfuðmáli og að ósekju mætti undirstrika það betur í væntanlegri menningarstefnu. Í raun eru vandkvæði listafólks og menningarstofnana oftar en ekki þau að ríkisvaldið segist vilja framkvæma tiltekin verkefni en sker fjárframlög til þeirra svo við nögl að segja má að þau séu vængstífð frá uphafi. Mikilvægt er að stjórnvöld finni leiðir til að vinna raunhæft kostnaðarmat á verkefnum eða treysta kostnaðargreiningum fagfólks og nái síðan samkomulagi um framkvæmd þeirra og kostnaðargrunn. Með því móti má ætla að verkin verði á endanum í samræmi við það sem til stóð og stjórnvöld ætluðust til.

Þar sem sagt er í leiðarljósum að stjórnvöld hafi ekki beina aðkomu að dagskrá og daglegu starfi lista- og menningarstofnana, þyrfti að koma fram með skýrum hætti að stjórnvöld bera engu að síður ábyrgð gegnum stjórnarmenn sem þau setja til starfa, m.ö.o. stjórnvaldið getur ekki skotið sér undan ábyrgð á ákvörðunum stjórna sem það á aðild að. Þetta krefur stjórnvöld um að gefa stjórnarmönnum á þeirra vegum skýrt umboð til starfa.

Í leiðarljósum segir að leggja beri áherslu á regluna um hæfilega fjarlægð við úthlutun opinbers fjár. Sú yfirlýsing er afar mikilvæg og mætti hnykkja enn frekar á henni ef það kæmi skýrt fram í hverju sú regla er fólgin. Þannig væru skilaboðin um þessa mikilvægu reglu send með skýrum hætti til annarra stjórnvalda, t.d. sveitarfélaganna.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld skuli vilja efla menningu barna og ungmenna, það hafa þau viljað í orði kveðnu á öllum tímum. En ástæðu þess að betur þarf að gera í þeim efnum er fyrst og fremst að leita hjá stjórnvöldum sjálfum. Með aðhaldi í opinberum rekstri hefur menning fyrir börn og ungmenni, sem oftar en ekki fer fram gegnum skólastarf, orðið sérlega illa úti, m.a. vegna þess að skólayfirvöld réttlæta niðurskurð á menningarstarfi með því að opinber framlög dugi ekki lengur fyrir grunnþáttum í skólastarfi. Þannig var metnaðarfullt samstarfsverkefni BÍL og skólayfirvalda í Reykjavík “Litróf listanna” skorið niður 2009 eftir innan við tveggja ára reynslutímabil og ekki hefur tekist að koma því á legg á nýjan leik.

Markmið um að greiða fyrir “samstarfi” ólíkra aðila í menningarlífinu er óljóst og sama verður að segja um áherlsuna á “samspil” milli stofnana og grasrótar í listum og menningu. Það er líka undarlegt að þessu samstarfi og samspili skuli komið fyrir í sömu grein leiðarljósanna og fjallar um tjáningarfrelsi og lýðræði. Betur færi ef hvort um sig fengi sjálfstæða grein í leiðarljósum stefnunnar.

Í köflum þeim sem fjalla um menningu fyrir alla, lifandi menningarstofnanir og samvinnu í menningarmálum er lögð áhersla á mikilvæga þætti sem útheimtir verulega aukið fjármagn. Þar má nefna aðgengismál fatlaðra, aðgengi ólíkra menningarhópa að menningu, miðlun menningararfsins á netinu og samstarf listamanna og skóla. Að mati BÍL er nauðsynlegt að menningarstefnan beri þess merki að stjórnvaldið, sem setur stefnuna fram átti sig á þessu. Þarna skiptir mestu máli að orð og athafnir haldist í hendur. Slíkt væri til marks um þá fagmennsku sem stefnudrögin eru að boða.

Tekið er undir það grundvallarsjónarmið stefnunnar að hún fjalli ekki um einstakar menningarstofnanir eða málefni einstakra listgreina. Í því ljósi hlýtur að vera sjálfsagt að fjarlægja grein neðst á bls. 4, sem fjallar um eina menningarstofnun sérstaklega; Ríkisútvarpið. 

Varðandi kaflann um samvinnu í menningarmálum á bls. 6, þá er nokkuð óljóst hvað átt er við varðandi samstarf við einkaaðila, enda hafa stjórnvöld ekki umboð til að setja einkafyrirtækjum skyldur á herðar á sviði menningarmála. Á bls. 8 er komið meira kjöt á beinin þar sem því er lýst að stefnan feli í sér að skoðaðir verði möguleikar á tilteknum leiðum í þessum efnum t.d. skattaívilnunum til fyrirtækja (og einkaaðila) sem axla ábyrgð í menningarlegu tilliti. Mögulega mætti kveða skýrar að orði varðandi þessi atriði strax á bls. 6. 

Í kaflanum um forsendur starfsumhverfis í menningarmálum vantar að telja rannsóknir í listum og menningu með þeim atriðum sem mestu máli skipta. Það er mikilvægt að menningarstefna viðurkenni hið þríþætta hlutverk safna (safna-miðla-rannsaka) og jafnframt að sambærileg áhersla sé lögð í akademísku starfi á menningarsviðinu. Það skortir nokkuð á að nægilega vel hafi verið búið að rannsóknum á sviði lista fram að þessu, en líklegt að úr rætist með aukinni áherslu á meistaranám í listum. Í því sambandi mætti í menningarstefnu leggja áherslu á rannsóknir í listum í þeim háskóla sem hefur viðurkenningu á fræðasviðinu listir.

Það er sannarlega mikilvægt að í menningarstefnu sé lögð áhersla á menningarlega fjölbreytni. Í því sambandi væri eðlilegt að nýta meginmarkmið UNESCO samningsins um menningarlega fjölbreytni, sem Íslendingar eru aðilar að og hafa skuldbundið sig til að innleiða. Þeim markmiðum mætti gera skil í nokkrum orðum í kaflanum um starfsumhverfi.

Þegar á heildina er litið þá fagnar BÍL inntaki þeirrar menningarstefnu sem nú liggur fyrir í drögum en undirstrikar nauðsyn þess að fjárframlög hins opinbera til lista og menningar byggi á raunhæfu mati á verkefnunum og aðstæðum hverju sinni. Þrátt fyrir þessa áherslu ber að hafa það hugfast að stuðningur stjórnvalda er ekki eina forsenda þess að menning skapist og menningararfur framtíðarinnar verði til. Þar er sköunagáfa og sköpunarkraftur frumforsenda. Það er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld vilji standa undir þeim kröfum sem nútímalegt menningarsamfélag gerir um lífsgæði. Í þeim kröfum eru fólgnar ýmsar áskoranir, sem reynt er að takast á við í menningarstefnu. Bandalag íslenskra listamanna er reiðubúið til að vera áfram þátttakandi í sköpun menningarstefnu stjórnvalda.

Umsögn um heiðurslaunafrumvarp

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heiðurslaun listamanna 719. mál

Stjórn BÍL hefur fjallað um málið og komið sér saman um svohljóðandi umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis:

Það er sannarlega tímabært að marka heiðurslaunum til listamanna ramma í lögum. Slík ráðstöfun er til þess fallin að skýra markmiðið með laununum og gera ferlið við val listamannanna faglegra/ málefnanlegra.

Í aðdraganda málsins var forseta BÍL boðið að koma til fundar við starfshóp allsherjar- og menntamálanefndar þar sem sjónarmið BÍL varðandi málið voru skýrð og lögð fram ályktun ársfundar BÍL 2011 um Akademíu og heiðurslaun listamanna (sjá fylgiskjal). Sjónarmið BÍL varðandi frumvarpið mótast af þeirri ályktun.

Á þeim fundi voru lögð fram drög að frumvarpi, sem gerði ráð fyrir að fjöldi listamanna á heiðurslaunalista Alþingis gæti verið allt að 40. Það olli því vonbrigðum að sjá frumvarpið í endanlegum búningi þar sem fjöldi listamanna skv. fyrstu grein var kominn niður í 25. Það er umhugsunarefni þegar litið til þess að á fjárlagaárinu 2012 eru 28 listamenn á heiðurslaunalista þingsins.  Í því sambandi mætti benda á að ef fjöldi heiðurslistamanna væri í réttu hlutfalli við stærð þjóðarinnar,  t.d. 0.01%, þá hefðu 32 listamenn þann sess í dag. Meginsjónarmið BÍL varðandi fjölda listamanna á heiðurslaunum er að hann taki mið af þörfinni, sem liggur fyrir að kanna þurfi með skipulegum hætti.

Grunnhugmynd BÍL varðandi fyrirkomulag heiðurslauna til listamanna tekur mið af því að sá hópur, sem nýtur launanna hverju sinni, er auðlind í sjálfu sér. Þar er um að ræða besta listafólk þjóðarinnar og þó það sé (eðli málsins samkvæmt) komið af léttasta skeiði þegar það fær sess á heiðurslaunalista, þá er reynsla þess og þekking mikils virði fyrir samfélagið. BÍL hefur því mótað tillögu um að handhafar heiðurslauna myndi Akademíu, sem verði nokkurs konar útvörður menningarinnar. Akademían komi saman mánaðarlega og ræði saman um listina, menninguna og þjóðina. Hún hafi frumkvæði að fyrirlestrum, efni til málþinga og hugsanlega veiti viðurkenningar og verðlaun.

Til að þessi hugmynd gangi upp þarf að breyta fyrirkomulaginu sem hefur verið við lýði varðandi val á listamönnum á heiðurslaunalistann. Nú þegar skipar úrvalshópur listamanna sess á þeim lista í viðurkenningarskyni fyrir listrænan feril sinn. Slíkur hópur væri prýðilega til þess fallinn að mynda uppistöðu íslenskrar akademíu. Einn er þó hængur á og hann er sá að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru þeir sem þiggja heiðurslaun valdir af Alþingi, án þess að valinu til grundvallar liggi nokkurt hlutlægt mat. Þetta er óviðunandi og í mótsögn við kröfu tímans um gagnsæi við töku ákvarðana og fagleg viðhorf við úthlutun opiberra fjármuna.

Það mætti halda að nokkrum áfanga sé náð með 3. grein fyrirliggjandi frumvarps hvað þetta varðar, þar sem gert er ráð fyrir að þriggja manna nefnd verði skipuð til að gefa umsögn „um þá listamenn sem til greina koma“. Gallinn við þessa hugmynd er augljós þegar betur er að gáð; því hvergi er þess getið hverjir eiga að ákvarða hvaða listamenn það eru „sem til greina koma“. Ef hugmyndin er sú að það séu nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar, þá er það að mati BÍL óásættanlegt og festir í sessi það fyrirkomulag sem gagnýnt hefur verið. Nær væri að fela Akademíunni sjálfri að gera tillögur nýja listamenn inn í Akademíuna.

Í 4. grein frumvarpsins er kveðið á um að heiðurslaun taki mið af starfslaunum listamanna hverju sinni. Þetta telur BÍL mjög mikilvæga breytingu og hvetur til þess að hún verði samþykkt, hver sem afdrif frumvarpsins verða að öðru leyti.

Niðurstaða:
BÍL styður það að heiðurslaunum verði settur rammi í lögum.
BÍL leggur til að fjöldi þeirra sem eiga möguleika á heiðurslaunum sé í samræmi við skilgreinda þörf.
BÍL leggur til að úthlutunin verði á hendi faglega skipaðrar nefndar, sem starfi skv. starfsreglum, en einnig að skoðaður verði sá möguleiki að Akademían sjálf geri tillögur um nýja heiðurslaunaþega.
BÍL leggur til að skoðað verði hvort ekki sé skynsamlegt að mæla fyrir um breiðan faglegan vettvang,  sem nefndin leiti til um tilnefningar til að vinna með. Slíkt er a.m.k. nauðsynlegt ef nefndina skipa einungis þrír fulltrúar.

Virðingarfyllst,
f.h. BÍL – Bandalags íslenskra listamanna
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

Talsamband við útlönd

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skrifar grein í Fréttablaðið um mikilvægi þess að faglega sé staðið að kynningu á íslenskri list og menningu á erlendri grund. Greinin fer hér á eftir:

Mér finnst gaman að vera kominn hingað, en það veit enginn um þennan stað,” sagði hinn heimsfrægi djasstónlistarmaður Chick Corea á sviðinu í Eldborgarsal Hörpu á dögunum. Hann var nokkuð hissa á húsinu og landinu. Listamaðurinn tók vissulega nokkuð djúpt í árinni en víst er Ísland lítið land og alls ekki sjálfgefið að hinn stóri heimur viti af okkur hér í hafinu, jafnvel þó um sé að ræða víðsýnt fólk.

Ísland hefur ýmislegt fram að færa. Skal þar fyrst telja náttúruna sem við verðum að standa vörð um fyrir komandi kynslóðir, gesti okkar og okkur sjálf. Nálægðin við óbeislaða náttúru, sjávarsíðuna, víðerni og fjallaloft má svo sannarlega flokka til forréttinda á nýrri öld. Eftirspurnin eftir því að koma til Íslands er einnig til staðar, það sést best á þeirri fjölgun erlendra ferðamanna sem orðið hefur á undanförnum árum og þeim fjölgar enn.
Stoðirnar sem ferðaþjónustan byggir á eru nokkrar. Flugsamgöngur þurfa að vera tryggar og aðstaða til að taka á móti gestunum til staðar. Reynslan af heimsókninni þarf að vera ánægjuleg og upplifunin þannig að gesturinn greini frá henni þegar heim er komið. Þeir sem ferðast um landið hafa frá ýmsu að segja en dvölin veltur hins vegar á tveimur atriðum, náttúru og menningu. Menningarlífið á Íslandi er öflugt og í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hefur það náð að standa af sér áföll og niðurskurð. Stuðning við menningarstofnanir og listir í landinu þarf þó að byggja upp aftur til framtíðar. Rökin fyrir því er fyrst og fremst að finna í menningunni sjálfri sem veitir okkur lífsfyllingu og ánægju en listir og menning treysta einnig fjölbreytt atvinnulíf þar sem sköpun verður sífellt mikilvægari þáttur.

Kynning á íslenskum listum
Hvað menningu varðar er einkar mikilvægt að við látum vita af okkur úti í hinum stóra heimi, enda höfum við margt fram að færa. Alþjóðlegt samstarf og samskipti eru mikilvæg svo að þeir sem starfa á vettvangi menningar og lista fái erlendan samanburð til að þroskast og dafna. Nefna má fjölmörg dæmi um að íslenskir listamenn nái góðum árangri með verkum sínum erlendis þessi misserin. Útgáfa á íslenskum samtímabókmenntum er með miklum blóma, tónlistarmenn vekja athygli og aðdáun og ferðast um heiminn til að syngja og leika, myndlistarmenn ná í auknum mæli að byggja tengslanet sín við erlenda sýningarsali og hátíðir og þannig mætti lengi telja.

Stuðningur stjórnvalda skiptir miklu máli í þessu sambandi og hann hefur einkum farið fram í gegnum kynningarmiðstöðvar listgreinanna sem komist hafa á laggirnar á undanförnum árum. Kvikmyndamiðstöð Íslands ýtir undir markaðssetningu og kynningu á kvikmyndum, ÚTÓN hefur eflt útflutning á íslenskri tónlist, Hönnunarmiðstöð hefur náð að byggja upp HönnunarMars í Reykjavík sem vakið hefur alþjóðlega athygli og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur haldið vel utan um þátttöku Íslands á myndlistartvíæringnum í Feneyjum, svo ágæt dæmi séu nefnd. Stuðning við kynningu á íslenskum bókmenntum stendur til að efla með tilkomu nýrrar miðstöðvar um þær og einnig er í frumvarpi til sviðslistalaga gert ráð fyrir stofnun kynningarmiðstöðvar um íslenskar sviðslistir. Mikilvægt er að kanna hvort þessum aðilum kunni að reynast betur til framtíðar að hafa með sér samstarf eða nánari samvinnu því að listgreinarnar styðja hvor aðra eins og menn vita.

Stuðningur stjórnvalda við kynningu á íslenskum listum á erlendri grund þarf að vera byggður á faglegum forsendum og þar gegnir þekking þeirra sem stýra miðstöðvunum lykilmáli. Þær þarf að efla um leið og tryggt er að stuðningurinn sé í takt við þá fjölbreytni og kraft sem finna má í íslensku menningarlífi. Verkefnið skiptir ekki aðeins listamenn máli, heldur okkur öll. Menning og listir leggja til sjálfsmyndar þjóðarinnar og efla sköpunarkraft með henni, veita okkur og gestum okkar ánægju og innblástur.
Veröldin er stór, þjóðirnar margar og möguleikarnir endalausir. Látum fleiri vita af okkur og okkar kraftmiklu listum. Íslenskar listir eiga erindi við heimsbyggðina.

Page 20 of 40« First...10...1819202122...3040...Last »