Author Archives: vefstjóri BÍL

Umsögn um menningarstefnu

Á fundi stjórnar BÍL í dag var samþykkt umsögn um drög að menningarstefnu stjórnvalda, sem hefur verið aðgengileg á vef mennta og menningarmálaráðuneytisins síðan 8. júní sl. Umsögn BÍL er svohljóðandi:

Stjórn BÍL hefur kynnt sér drög að menningarstefnu, sem hafa verið opin til umsagnar á vef ráðuneytsins síðan 8. júní, og sendir ráðuneytinu eftirfarandi umsögn.

Stjórn BÍL fagnar því að nú skuli loks hylla undir það að menningarstefna íslenskra stjórnvalda líti dagsins ljós. BÍL hefur tekið þátt í því ferli, sem er búið að vera langt og snúið. Þau drög sem nú liggja fyrir eru nokkuð almenn og mætti að ósekju fylgja þeim stutt skýrsla Hauks F. Hannessonar “Er til menningarstefna á Íslandi?”,sem unnin var fyrir ráðuneytið 2009, þar sem upp er talin gildandi löggjöf um menningarmál.  Fyrirliggjandi drög eru eins konar rammaáætlun, sem ætla má að verði notuð sem grunnur að vel skilgreindri aðgerðaáætlun á menningarsviðinu.

BÍL tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í inngangi um að mikilvægt sé að stjórnvöld vandi aðkomu sína að málaflokknum og að menningarstefna eigi að vera hvatning þeim sem starfa að menningarmálum um að vanda til verka og horfa til framtíðar. Þess ber þó að gæta að strax við slíka fullyrðingu koma upp spurningar um fjárframlög til þeirrar starfsemi sem um er að tefla, því vandvirknin ræðst oftar en ekki af þeim fjármunum sem fást í viðkomandi verkefni eða til rekstrar menningarstofnana. Það er því nánast óhjákvæmilegt að ræða leiðirnar að markinu í sömu andrá og markmiðssetninguna.

Til að tryggja að aðkoma stjórnvalda að menningarmálum sé vönduð má nýta þau leiðarljós sem gefin eru um skilvirka og samhenta stjórnsýslu í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um stjórnarráð Íslands og gefin var út af forsætisráðuneytinu í desember 2010.

Í inngangi segir að mikilvægt sé að stefnan sé reglulega tekin til endurskoðunar. Það orðalag orkar tvímælis og skynsamlegra að segja að stefnan skuli vera í stöðugri endurskoðun, enda er meiningin að hún endurspegli aðkomu og áherslur stjórnvalda á hverjum tíma. Á hitt má svo líta hvort ekki er álíka mikilvægt að á grunni stefnunnar sé sett fram tímasett áætlun með mælanlegum markmiðum ásamt áætlun um eftirfylgni.

Það er mat BÍL að full mikið sé gert úr því í drögunum að hlutverk stjórnvalda sé að “styðja við” og “veita skjól”, skynsamlegra sé að tala um að stjórnvöld “skapi skilyrði” eða “veiti brautargengi” verkefnum eða áformum sem fagfólk í geiranum er sammála um að skipti máli. Í því sambandi skiptir virkt samráð höfuðmáli og að ósekju mætti undirstrika það betur í væntanlegri menningarstefnu. Í raun eru vandkvæði listafólks og menningarstofnana oftar en ekki þau að ríkisvaldið segist vilja framkvæma tiltekin verkefni en sker fjárframlög til þeirra svo við nögl að segja má að þau séu vængstífð frá uphafi. Mikilvægt er að stjórnvöld finni leiðir til að vinna raunhæft kostnaðarmat á verkefnum eða treysta kostnaðargreiningum fagfólks og nái síðan samkomulagi um framkvæmd þeirra og kostnaðargrunn. Með því móti má ætla að verkin verði á endanum í samræmi við það sem til stóð og stjórnvöld ætluðust til.

Þar sem sagt er í leiðarljósum að stjórnvöld hafi ekki beina aðkomu að dagskrá og daglegu starfi lista- og menningarstofnana, þyrfti að koma fram með skýrum hætti að stjórnvöld bera engu að síður ábyrgð gegnum stjórnarmenn sem þau setja til starfa, m.ö.o. stjórnvaldið getur ekki skotið sér undan ábyrgð á ákvörðunum stjórna sem það á aðild að. Þetta krefur stjórnvöld um að gefa stjórnarmönnum á þeirra vegum skýrt umboð til starfa.

Í leiðarljósum segir að leggja beri áherslu á regluna um hæfilega fjarlægð við úthlutun opinbers fjár. Sú yfirlýsing er afar mikilvæg og mætti hnykkja enn frekar á henni ef það kæmi skýrt fram í hverju sú regla er fólgin. Þannig væru skilaboðin um þessa mikilvægu reglu send með skýrum hætti til annarra stjórnvalda, t.d. sveitarfélaganna.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld skuli vilja efla menningu barna og ungmenna, það hafa þau viljað í orði kveðnu á öllum tímum. En ástæðu þess að betur þarf að gera í þeim efnum er fyrst og fremst að leita hjá stjórnvöldum sjálfum. Með aðhaldi í opinberum rekstri hefur menning fyrir börn og ungmenni, sem oftar en ekki fer fram gegnum skólastarf, orðið sérlega illa úti, m.a. vegna þess að skólayfirvöld réttlæta niðurskurð á menningarstarfi með því að opinber framlög dugi ekki lengur fyrir grunnþáttum í skólastarfi. Þannig var metnaðarfullt samstarfsverkefni BÍL og skólayfirvalda í Reykjavík “Litróf listanna” skorið niður 2009 eftir innan við tveggja ára reynslutímabil og ekki hefur tekist að koma því á legg á nýjan leik.

Markmið um að greiða fyrir “samstarfi” ólíkra aðila í menningarlífinu er óljóst og sama verður að segja um áherlsuna á “samspil” milli stofnana og grasrótar í listum og menningu. Það er líka undarlegt að þessu samstarfi og samspili skuli komið fyrir í sömu grein leiðarljósanna og fjallar um tjáningarfrelsi og lýðræði. Betur færi ef hvort um sig fengi sjálfstæða grein í leiðarljósum stefnunnar.

Í köflum þeim sem fjalla um menningu fyrir alla, lifandi menningarstofnanir og samvinnu í menningarmálum er lögð áhersla á mikilvæga þætti sem útheimtir verulega aukið fjármagn. Þar má nefna aðgengismál fatlaðra, aðgengi ólíkra menningarhópa að menningu, miðlun menningararfsins á netinu og samstarf listamanna og skóla. Að mati BÍL er nauðsynlegt að menningarstefnan beri þess merki að stjórnvaldið, sem setur stefnuna fram átti sig á þessu. Þarna skiptir mestu máli að orð og athafnir haldist í hendur. Slíkt væri til marks um þá fagmennsku sem stefnudrögin eru að boða.

Tekið er undir það grundvallarsjónarmið stefnunnar að hún fjalli ekki um einstakar menningarstofnanir eða málefni einstakra listgreina. Í því ljósi hlýtur að vera sjálfsagt að fjarlægja grein neðst á bls. 4, sem fjallar um eina menningarstofnun sérstaklega; Ríkisútvarpið. 

Varðandi kaflann um samvinnu í menningarmálum á bls. 6, þá er nokkuð óljóst hvað átt er við varðandi samstarf við einkaaðila, enda hafa stjórnvöld ekki umboð til að setja einkafyrirtækjum skyldur á herðar á sviði menningarmála. Á bls. 8 er komið meira kjöt á beinin þar sem því er lýst að stefnan feli í sér að skoðaðir verði möguleikar á tilteknum leiðum í þessum efnum t.d. skattaívilnunum til fyrirtækja (og einkaaðila) sem axla ábyrgð í menningarlegu tilliti. Mögulega mætti kveða skýrar að orði varðandi þessi atriði strax á bls. 6. 

Í kaflanum um forsendur starfsumhverfis í menningarmálum vantar að telja rannsóknir í listum og menningu með þeim atriðum sem mestu máli skipta. Það er mikilvægt að menningarstefna viðurkenni hið þríþætta hlutverk safna (safna-miðla-rannsaka) og jafnframt að sambærileg áhersla sé lögð í akademísku starfi á menningarsviðinu. Það skortir nokkuð á að nægilega vel hafi verið búið að rannsóknum á sviði lista fram að þessu, en líklegt að úr rætist með aukinni áherslu á meistaranám í listum. Í því sambandi mætti í menningarstefnu leggja áherslu á rannsóknir í listum í þeim háskóla sem hefur viðurkenningu á fræðasviðinu listir.

Það er sannarlega mikilvægt að í menningarstefnu sé lögð áhersla á menningarlega fjölbreytni. Í því sambandi væri eðlilegt að nýta meginmarkmið UNESCO samningsins um menningarlega fjölbreytni, sem Íslendingar eru aðilar að og hafa skuldbundið sig til að innleiða. Þeim markmiðum mætti gera skil í nokkrum orðum í kaflanum um starfsumhverfi.

Þegar á heildina er litið þá fagnar BÍL inntaki þeirrar menningarstefnu sem nú liggur fyrir í drögum en undirstrikar nauðsyn þess að fjárframlög hins opinbera til lista og menningar byggi á raunhæfu mati á verkefnunum og aðstæðum hverju sinni. Þrátt fyrir þessa áherslu ber að hafa það hugfast að stuðningur stjórnvalda er ekki eina forsenda þess að menning skapist og menningararfur framtíðarinnar verði til. Þar er sköunagáfa og sköpunarkraftur frumforsenda. Það er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld vilji standa undir þeim kröfum sem nútímalegt menningarsamfélag gerir um lífsgæði. Í þeim kröfum eru fólgnar ýmsar áskoranir, sem reynt er að takast á við í menningarstefnu. Bandalag íslenskra listamanna er reiðubúið til að vera áfram þátttakandi í sköpun menningarstefnu stjórnvalda.

Umsögn um heiðurslaunafrumvarp

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heiðurslaun listamanna 719. mál

Stjórn BÍL hefur fjallað um málið og komið sér saman um svohljóðandi umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis:

Það er sannarlega tímabært að marka heiðurslaunum til listamanna ramma í lögum. Slík ráðstöfun er til þess fallin að skýra markmiðið með laununum og gera ferlið við val listamannanna faglegra/ málefnanlegra.

Í aðdraganda málsins var forseta BÍL boðið að koma til fundar við starfshóp allsherjar- og menntamálanefndar þar sem sjónarmið BÍL varðandi málið voru skýrð og lögð fram ályktun ársfundar BÍL 2011 um Akademíu og heiðurslaun listamanna (sjá fylgiskjal). Sjónarmið BÍL varðandi frumvarpið mótast af þeirri ályktun.

Á þeim fundi voru lögð fram drög að frumvarpi, sem gerði ráð fyrir að fjöldi listamanna á heiðurslaunalista Alþingis gæti verið allt að 40. Það olli því vonbrigðum að sjá frumvarpið í endanlegum búningi þar sem fjöldi listamanna skv. fyrstu grein var kominn niður í 25. Það er umhugsunarefni þegar litið til þess að á fjárlagaárinu 2012 eru 28 listamenn á heiðurslaunalista þingsins.  Í því sambandi mætti benda á að ef fjöldi heiðurslistamanna væri í réttu hlutfalli við stærð þjóðarinnar,  t.d. 0.01%, þá hefðu 32 listamenn þann sess í dag. Meginsjónarmið BÍL varðandi fjölda listamanna á heiðurslaunum er að hann taki mið af þörfinni, sem liggur fyrir að kanna þurfi með skipulegum hætti.

Grunnhugmynd BÍL varðandi fyrirkomulag heiðurslauna til listamanna tekur mið af því að sá hópur, sem nýtur launanna hverju sinni, er auðlind í sjálfu sér. Þar er um að ræða besta listafólk þjóðarinnar og þó það sé (eðli málsins samkvæmt) komið af léttasta skeiði þegar það fær sess á heiðurslaunalista, þá er reynsla þess og þekking mikils virði fyrir samfélagið. BÍL hefur því mótað tillögu um að handhafar heiðurslauna myndi Akademíu, sem verði nokkurs konar útvörður menningarinnar. Akademían komi saman mánaðarlega og ræði saman um listina, menninguna og þjóðina. Hún hafi frumkvæði að fyrirlestrum, efni til málþinga og hugsanlega veiti viðurkenningar og verðlaun.

Til að þessi hugmynd gangi upp þarf að breyta fyrirkomulaginu sem hefur verið við lýði varðandi val á listamönnum á heiðurslaunalistann. Nú þegar skipar úrvalshópur listamanna sess á þeim lista í viðurkenningarskyni fyrir listrænan feril sinn. Slíkur hópur væri prýðilega til þess fallinn að mynda uppistöðu íslenskrar akademíu. Einn er þó hængur á og hann er sá að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru þeir sem þiggja heiðurslaun valdir af Alþingi, án þess að valinu til grundvallar liggi nokkurt hlutlægt mat. Þetta er óviðunandi og í mótsögn við kröfu tímans um gagnsæi við töku ákvarðana og fagleg viðhorf við úthlutun opiberra fjármuna.

Það mætti halda að nokkrum áfanga sé náð með 3. grein fyrirliggjandi frumvarps hvað þetta varðar, þar sem gert er ráð fyrir að þriggja manna nefnd verði skipuð til að gefa umsögn „um þá listamenn sem til greina koma“. Gallinn við þessa hugmynd er augljós þegar betur er að gáð; því hvergi er þess getið hverjir eiga að ákvarða hvaða listamenn það eru „sem til greina koma“. Ef hugmyndin er sú að það séu nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar, þá er það að mati BÍL óásættanlegt og festir í sessi það fyrirkomulag sem gagnýnt hefur verið. Nær væri að fela Akademíunni sjálfri að gera tillögur nýja listamenn inn í Akademíuna.

Í 4. grein frumvarpsins er kveðið á um að heiðurslaun taki mið af starfslaunum listamanna hverju sinni. Þetta telur BÍL mjög mikilvæga breytingu og hvetur til þess að hún verði samþykkt, hver sem afdrif frumvarpsins verða að öðru leyti.

Niðurstaða:
BÍL styður það að heiðurslaunum verði settur rammi í lögum.
BÍL leggur til að fjöldi þeirra sem eiga möguleika á heiðurslaunum sé í samræmi við skilgreinda þörf.
BÍL leggur til að úthlutunin verði á hendi faglega skipaðrar nefndar, sem starfi skv. starfsreglum, en einnig að skoðaður verði sá möguleiki að Akademían sjálf geri tillögur um nýja heiðurslaunaþega.
BÍL leggur til að skoðað verði hvort ekki sé skynsamlegt að mæla fyrir um breiðan faglegan vettvang,  sem nefndin leiti til um tilnefningar til að vinna með. Slíkt er a.m.k. nauðsynlegt ef nefndina skipa einungis þrír fulltrúar.

Virðingarfyllst,
f.h. BÍL – Bandalags íslenskra listamanna
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti

Talsamband við útlönd

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skrifar grein í Fréttablaðið um mikilvægi þess að faglega sé staðið að kynningu á íslenskri list og menningu á erlendri grund. Greinin fer hér á eftir:

Mér finnst gaman að vera kominn hingað, en það veit enginn um þennan stað,” sagði hinn heimsfrægi djasstónlistarmaður Chick Corea á sviðinu í Eldborgarsal Hörpu á dögunum. Hann var nokkuð hissa á húsinu og landinu. Listamaðurinn tók vissulega nokkuð djúpt í árinni en víst er Ísland lítið land og alls ekki sjálfgefið að hinn stóri heimur viti af okkur hér í hafinu, jafnvel þó um sé að ræða víðsýnt fólk.

Ísland hefur ýmislegt fram að færa. Skal þar fyrst telja náttúruna sem við verðum að standa vörð um fyrir komandi kynslóðir, gesti okkar og okkur sjálf. Nálægðin við óbeislaða náttúru, sjávarsíðuna, víðerni og fjallaloft má svo sannarlega flokka til forréttinda á nýrri öld. Eftirspurnin eftir því að koma til Íslands er einnig til staðar, það sést best á þeirri fjölgun erlendra ferðamanna sem orðið hefur á undanförnum árum og þeim fjölgar enn.
Stoðirnar sem ferðaþjónustan byggir á eru nokkrar. Flugsamgöngur þurfa að vera tryggar og aðstaða til að taka á móti gestunum til staðar. Reynslan af heimsókninni þarf að vera ánægjuleg og upplifunin þannig að gesturinn greini frá henni þegar heim er komið. Þeir sem ferðast um landið hafa frá ýmsu að segja en dvölin veltur hins vegar á tveimur atriðum, náttúru og menningu. Menningarlífið á Íslandi er öflugt og í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hefur það náð að standa af sér áföll og niðurskurð. Stuðning við menningarstofnanir og listir í landinu þarf þó að byggja upp aftur til framtíðar. Rökin fyrir því er fyrst og fremst að finna í menningunni sjálfri sem veitir okkur lífsfyllingu og ánægju en listir og menning treysta einnig fjölbreytt atvinnulíf þar sem sköpun verður sífellt mikilvægari þáttur.

Kynning á íslenskum listum
Hvað menningu varðar er einkar mikilvægt að við látum vita af okkur úti í hinum stóra heimi, enda höfum við margt fram að færa. Alþjóðlegt samstarf og samskipti eru mikilvæg svo að þeir sem starfa á vettvangi menningar og lista fái erlendan samanburð til að þroskast og dafna. Nefna má fjölmörg dæmi um að íslenskir listamenn nái góðum árangri með verkum sínum erlendis þessi misserin. Útgáfa á íslenskum samtímabókmenntum er með miklum blóma, tónlistarmenn vekja athygli og aðdáun og ferðast um heiminn til að syngja og leika, myndlistarmenn ná í auknum mæli að byggja tengslanet sín við erlenda sýningarsali og hátíðir og þannig mætti lengi telja.

Stuðningur stjórnvalda skiptir miklu máli í þessu sambandi og hann hefur einkum farið fram í gegnum kynningarmiðstöðvar listgreinanna sem komist hafa á laggirnar á undanförnum árum. Kvikmyndamiðstöð Íslands ýtir undir markaðssetningu og kynningu á kvikmyndum, ÚTÓN hefur eflt útflutning á íslenskri tónlist, Hönnunarmiðstöð hefur náð að byggja upp HönnunarMars í Reykjavík sem vakið hefur alþjóðlega athygli og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur haldið vel utan um þátttöku Íslands á myndlistartvíæringnum í Feneyjum, svo ágæt dæmi séu nefnd. Stuðning við kynningu á íslenskum bókmenntum stendur til að efla með tilkomu nýrrar miðstöðvar um þær og einnig er í frumvarpi til sviðslistalaga gert ráð fyrir stofnun kynningarmiðstöðvar um íslenskar sviðslistir. Mikilvægt er að kanna hvort þessum aðilum kunni að reynast betur til framtíðar að hafa með sér samstarf eða nánari samvinnu því að listgreinarnar styðja hvor aðra eins og menn vita.

Stuðningur stjórnvalda við kynningu á íslenskum listum á erlendri grund þarf að vera byggður á faglegum forsendum og þar gegnir þekking þeirra sem stýra miðstöðvunum lykilmáli. Þær þarf að efla um leið og tryggt er að stuðningurinn sé í takt við þá fjölbreytni og kraft sem finna má í íslensku menningarlífi. Verkefnið skiptir ekki aðeins listamenn máli, heldur okkur öll. Menning og listir leggja til sjálfsmyndar þjóðarinnar og efla sköpunarkraft með henni, veita okkur og gestum okkar ánægju og innblástur.
Veröldin er stór, þjóðirnar margar og möguleikarnir endalausir. Látum fleiri vita af okkur og okkar kraftmiklu listum. Íslenskar listir eiga erindi við heimsbyggðina.

Yfirlýsing í tilefni af heimsókn Wen Jiabao

 Yfirlýsing Bandalags íslenskra listamanna
vegna opinberrar heimsóknar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína til Íslands,
20. apríl, 2012.

Vegna opinberrar heimsóknar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína hingað til lands vill Bandalag íslenskra listamanna vekja athygli á víðtækum mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda.
Bandalagið leggur áherslu á manngildi, tjáningarfrelsi og upplýsta umræðu um mannréttindi.
Bein og náin stjórnmálasamskipti við Kína kalla á aukna ábyrgð í baráttunni fyrir lýðfrelsi, tjáningarfrelsi og almennum mannréttindum.
Ástand mannréttindamála er bágborið í Kína. Þungir dómar eru kveðnir upp yfir andófsmönnum. Leiðtogar stjórnarandstæðinga hverfa sportlaust. Í kínverskri stjórnsýslu kemur til tals að löggilda slík mannshvörf. Aðstæður mannréttindasamtaka sem starfa innan Kína fara stöðugt versnandi. Trúarofsóknir og kúgun kínverskra stjórnvalda í Tíbet er viðvarandi ástand.
Kínverskir listamenn eru meðal þeirra sem ógnað er vegna skoðana sinna og listsköpunar. Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir stuðningi við baráttu kínverskra listamanna fyrir mannréttindum og tjáningarfrelsi og sendir Wen Jiabao forsætisráðherra Kína ákall fyrir þeirra hönd.
Jafnframt hvetur Bandalagið íslenska ráðamenn til að gera mannréttindamál að mikilvægu fundarefni með gestum sínum.
Nýta ber tækifærið sem felst í þessari heimsókn til að setja mannréttindi í sviðsljósið.
Bandalag íslenskra listamanna hvetur alla landsmenn til að láta skoðanir sínar á mannréttindabrotum í Kína í ljós á friðsaman og sýnilegan hátt . 

Með kveðjum í þágu tjáningarfrelsis,
Bandalag íslenskra listamanna

Félag íslenskra listdansara 65 ára

Í dag 27.mars, eru 65 ár liðin frá því að fimm konur komu saman á heimili Ástu Norðmann til þess að stofna Félag íslenskra listdansara (FÍLD). Ásta var fyrsti formaður félagsins en auk hennar voru stofnfélagar þær Sigríður Ármann, Sif Þórz, Rigmor Hansen og Elly Þorláksson. Þær höfðu allar numið dans erlendis og voru að hasla sér völl í íslensku listalífi. Fyrsta baráttumál félagsins var viðurkenning danslistarinnnar sem sjálfstæðrar og marktækar listgreinar en tilhneigingin var að flokka hana sem hliðargrein af leiklistinni.

Á aðalfundi FÍLD í febrúar síðastliðnum var Ingibjörg Björnsdóttir útnefnd heiðurfélagi Félags íslenskra listdansara fyrir starf sitt í þágu danslistarinnar á Íslandi. Ingibjörg hefur um árabil verið óþrjótandi í sínu starfi í íslenskum dansheimi en hún var um árabil skólastjóri Listdansskóla Þjóðleikhússins – síðar Listdansskóla Íslands. Ingibjörg var formaður FÍLD 1966-70, stjórnarmaður til margra ára og núverandi formaður í Íslenska dansfræðafélaginu, sat í stjórn norræna dansfræðifélagsins NOFOD og í stjórn Norræna leiklistar og danssambandsins en síðastliðin ár hefur hún verið að rita sögu íslensks listdans. Auk Ingibjargar eru heiðursfélagar frá upphafi Ásta Norðmann, Sigríður Ármann og Sif Þórz. Þess má til gamans geta að skömmu eftir útnefningu Ingibjargar sem heiðursfélaga FÍLD voru henni veitt heiðursverðlaun menningarverðlauna DV fyrir starf sitt að listdansi hér á landi.

Listdanskennsla hefur verið eitt margra baráttumála FÍLD í gegnum tíðina en félagið rak á árum áður sinn eigin skóla. Þannig lagði félagið grunn að öflugri listdanskennslu og í dag eru fjölmargir metnaðarfullir skólar starfandi með sívaxandi nemendafjölda. Í Listaháskóla Íslands eigum við einnig  unga en frjóa dansdeild og hefur námið og þeir nemendur sem útskrifast hafa úr því reynst mikil innspýting í dansflóruna á Íslandi.

Danssamfélagið dreymdi um að eignast dansflokk og árið 1973 var Íslenski dansflokkurinn stofnaður undir hatti Þjóðleikhússins, mikið til fyrir velvilja þáverandi Þjóðleikhússtjóra Sveins Einarssonar og forseta Bandalags íslenskra listamanna Hannesar Kr. Davíðssonar auk fjölmargra annara. Í dag er dansflokkurinn öflugur flokkur með sterkum dönsurum og gott alþjóðlegt orðspor eftir fjölmargar sýningarferðir erlendis.

Á síðustu árum hefur svo orðið mikil sprenging í starfsemi sjálfstætt starfandi dansara og danshöfunda ekki síst með tilkomu Reykjavík Dance Festival og Dansverkstæðisins, sem er vinnustofur danshöfunda í borginni. Það er ljóst að þannig aðstaða skiptir sköpum fyrir framþróun danslistarinnar hér á landi og mikilvægt fyrir yfirvöld bæði ríki og borg að styðja vel við framtakið.

Félagar í FÍLD tóku sig saman á vormánuðum 2010 og fóru í mikla stefnumótunarvinnu sem skilaði sér í Dansstefnunni 10/20 sem er framtíðarsýn félagsmanna á það hvernig við viljum sjá danssamfélagið þróast næstu árin. FÍLD hefur dreymt stórt  á líftíma sínum og margir draumanna hafa þegar ræst. Stjórn félagsins mun áfram vinna að því að draumar okkar um öflugt danslíf rætist og að sú sýn sem birtist í Dansstefnunni verði að veruleika. Í Dansstefnunni er stóri draumurinn: Danshús – Miðstöð fyrir samtímadans á Íslandi. Í Danshúsi gætu unnið saman Íslenski dansflokkurinn, sjálfstætt starfandi danshöfundar, kynningarmiðstöð dansins, dansbókasafn, Black-box leikhús fyrir minni sýningar og þannig mætti lengi telja. Slík miðstöð yrði mikill suðupottur fyrir dansinn og gríðarleg lyftistöng fyrir listgreinina. Við eigum dansara og danshöfunda á heimsmælikvarða og ef greinin fær viðeigandi stuðning er óhætt að segja að framtíðin sé björt fyrir dansinn á Íslandi.

Guðmundur Helgason
formaður FÍLD – Félags íslenskra dansara

Alþjóðadagur leiklistarinnar

Í dag, 27. mars, er alþjóðadagur leiklistarinnar haldinn í fimmtugasta sinn. Af því tilefni gefur  Leiklistarsamband Íslands út ávarp sem að þessu sinni er samið af Maríu Kristjánsdóttur leikhúsfræðingi og leikstjóra. Ávarpið fer hér á eftir:

„Verið velkomin í leikhúsið og slökkvið vinsamlegast á farsímanum“. Þessi  hefðbundnu orð, sem hljóma nú í upphafi hverrar leiksýningar, eru lausnarorð.  Þau skapa ráðrúm til að aftengja sig frá nútíma nauð. Þau skapa þögn og  í þögninni gangast leikendur og áhorfendur undir það samkomulag sem  þeir gerðu sín í millum fyrir öldum og aldrei hefur verið skráð á nokkurt blað: Innilokuð í rými ætlum við að eiga stund saman, taka okkur stöðu andspænis hvert öðru, bregðast hvert við öðru.  Þannig ætlum við saman að skapa nýjan þykjustu heim og gefa honum merkingu.

Það eru hin miklu forréttindi leikhússins sem listforms að vera háð samfélagi.  Einn getur maðurinn krotað mynd af  dýri á hellisvegg. Einn getur maðurinn krotað ljóð í sand. En einn getur maðurinn ekki skapað leikhús. Hann þarf að gera það í samvinnu við aðra, fyrir framan aðra og fyrir tilstuðlan samfélags.

En samfélag okkar er í miklum kröggum. Það þarf að leita lausna á stórum vandamálum, lausna sem duga til framtíðar. Það þarf einnig að búa til drauma um framtíð því að án drauma förumst við.  Margir eru óöruggir og hræddir  gagnvart þessu viðfangsefni enda ýmislegt sem byrgir sýn. Hávaðinn er einnig mikill í örlitlum voldugum minnihlutahóp sem ver sérhagsmuni sína með kjafti og klóm.  Menn eiga því líka erfitt með að heyra hver til annars. Og fáir opinberir vettvangar eru  til þar sem fjöldi getur mæst og sameinast um hugmyndir nema þá helst verslunarmiðstöðvar og íþróttavellir. Í æ ríkari mæli einangrast menn inn á heimilum og hafa mest samskipti við aðra gegnum tölvuskjái og boðtæki ýmis konar.

En við eigum enn þennan opinbera vettvang, leikhúsið. Þangað koma vikulega þúsundir manna. Þar hafa menn gert samkomulag um að hlusta hver á annan, bregðast hver við öðrum, vera menn með mönnum. Það gæti orðið okkar griðastaður. Þar er hægt að skapa drauma. Þar gæti orðið til það samtal, samspil sem þetta samfélag svo sárlega þarfnast. Enda vitum við að þegar leikhúsinu tekst best til þá förum við þaðan jafnan hæfari til að hugleiða og skilja eigin gjörðir.

Það hefur mátt merkja viðleitni í þessa átt innan leikhússins frá hruni og tilraunir hafa verið gerðar til að nálgast áhorfendur eins og hugsandi tilfinningaverur. En betur má ef duga skal. Ég heiti á  samlanda mína á þessu fimmtíu ára afmæli alþjóðlega leikhússdagsins að streyma í leikhús og gera til þess  kröfur. Sköpum okkur griðastað. 

„Verið velkomin í leikhúsið og slökkvið vinsamlegast á farsímanum“. Þessi  hefðbundnu orð, sem hljóma nú í upphafi hverrar leiksýningar, eru lausnarorð.  Þau skapa ráðrúm til að aftengja sig frá nútíma nauð. Þau skapa þögn og  í þögninni gangast leikendur og áhorfendur undir það samkomulag sem  þeir gerðu sín í millum fyrir öldum og aldrei hefur verið skráð á nokkurt blað: Innilokuð í rými ætlum við að eiga stund saman, taka okkur stöðu andspænis hvert öðru, bregðast hvert við öðru.  Þannig ætlum við saman að skapa nýjan þykjustu heim og gefa honum merkingu.

Það eru hin miklu forréttindi leikhússins sem listforms að vera háð samfélagi.  Einn getur maðurinn krotað mynd af  dýri á hellisvegg. Einn getur maðurinn krotað ljóð í sand. En einn getur maðurinn ekki skapað leikhús. Hann þarf að gera það í samvinnu við aðra, fyrir framan aðra og fyrir tilstuðlan samfélags.

En samfélag okkar er í miklum kröggum. Það þarf að leita lausna á stórum vandamálum, lausna sem duga til framtíðar. Það þarf einnig að búa til drauma um framtíð því að án drauma förumst við.  Margir eru óöruggir og hræddir  gagnvart þessu viðfangsefni enda ýmislegt sem byrgir sýn. Hávaðinn er einnig mikill í örlitlum voldugum minnihlutahóp sem ver sérhagsmuni sína með kjafti og klóm.  Menn eiga því líka erfitt með að heyra hver til annars. Og fáir opinberir vettvangar eru  til þar sem fjöldi getur mæst og sameinast um hugmyndir nema þá helst verslunarmiðstöðvar og íþróttavellir. Í æ ríkari mæli einangrast menn inn á heimilum og hafa mest samskipti við aðra gegnum tölvuskjái og boðtæki ýmis konar.

En við eigum enn þennan opinbera vettvang, leikhúsið. Þangað koma vikulega þúsundir manna. Þar hafa menn gert samkomulag um að hlusta hver á annan, bregðast hver við öðrum, vera menn með mönnum. Það gæti orðið okkar griðastaður. Þar er hægt að skapa drauma. Þar gæti orðið til það samtal, samspil sem þetta samfélag svo sárlega þarfnast. Enda vitum við að þegar leikhúsinu tekst best til þá förum við þaðan jafnan hæfari til að hugleiða og skilja eigin gjörðir.

Það hefur mátt merkja viðleitni í þessa átt innan leikhússins frá hruni og tilraunir hafa verið gerðar til að nálgast áhorfendur eins og hugsandi tilfinningaverur. En betur má ef duga skal. Ég heiti á  samlanda mína á þessu fimmtíu ára afmæli alþjóðlega leikhússdagsins að streyma í leikhús og gera til þess  kröfur. Sköpum okkur griðastað.

Sorry Jón og sorry Stína

Fréttablaðið birti í morgun grein eftir Hjálmtý Heiðdal, kvikmyndagerðarmann og fyrrv. gjaldkera BÍL. Greinin fer hér á eftir:
 
21. feb. sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Guðmund Edgarsson málmenntafræðing um ríkisstyrkta menningarstarfsemi. Skrif Guðmundar er dæmi um hinn “árlega héraðsbrest”, eins og Pétur Gunnarsson rithöfundur nefnir viðbrögðin, þegar úthlutun listamannalauna er kynnt opinberlega.
Að hætti frjálshyggjumanna setur Guðmundur upp hið einfalda dæmi að skattgreiðendur skuli ekki greiða fyrir menningarstarfsemi sem þeir hafa ekki áhuga á. Guðmundur ræðir málefni Þjóðleikhússins, sem nýtur töluverðra framlaga af skattfé, og Skjás Eins, sem heyr sína lífsbaráttu á grundvelli eigin ágætis og vinsælda. (Skjár einn er reyndar rekinn með miklu tapi, 375 milljónum kr. 2009 og trúlega niðurgreiddur af móðurfélaginu sem rekur Símann.)
Að sögn Guðmundar þá er “leikhúsrekstur eins og hver annar atvinnurekstur og á því að lúta lögmálum markaðarins”. Þetta er skýrt, list sem ekki höfðar til nægilega margra deyr drottni sínum.
Guðmundur er ekki einn um þessa skoðun, nýlega birti Kristinn Ingi Jónsson, ritstjóri sus.is, grein með fyrirsögninni List er fyrir listunnendur. Kristinn leggur fram einfalda spurningu: “Hvernig getur það þá verið, að allir skattgreiðendur, sama hvort þeir unni list eður ei, séu neyddir til að greiða ákveðnum listamönnum laun?”
Niðurstaða Kristins Inga er sú sama; þeir sem vilja njóta lista eiga að borga það sjálfir. Nú rorra þeir sælir í sinni trú félagarnir Guðmundur og Kristinn og ekkert haggar þeirra sælu sannfæringu. Enda málið fremur augljóst og skýrt séð frá þeirra sjónarhól. Þetta þarf ekki að ræða frekar.
Ræðum því eitthvað annað, t.d. vegakerfið, jafnvel jarðgöng. Jarðgöng eru grafin gegnum fjöll og undir hafsbotninn til þess að auðvelda samgöngur. Það er rætt um að vetrarfærð sé víða varasöm og sumstaðar geta jarðgöng leyst vandann. Víða eru hættulegir fjallvegir lagðir af og jarðgöng koma í staðinn. Þetta flokkast undir framfarir.
En það er einn galli á jarðgöngum, þau eru staðbundin og yfirleitt greidd af almannafé. Reykvíkingur getur ekki nýtt sér jarðgöng milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar nema endrum og eins. Og þarf að fara langa leið til þess. Samt er hann þátttakandi í kostnaði við gerð ganganna og viðhaldi þeirra.
Hér er augljóslega verið að sniðganga lögmál Guðmundar og Kristins; jarðgöng eru fyrir jarðgangaunnendur, þau eiga að lúta lögmálum markaðarins.
Það þýðir ekkert að benda á gagnsemi jarðganga, t.d. samgöngubætur og lægri slysatíðni, grundvallaratriðin eru á hreinu: þeir sem nota jarðgöng eiga að borga þau.
Útreikningar sýna að jarðgöng á Austfjörðum geta aldrei borgað sig nema með himinháum veggjöldum. Sem enginn mundi greiða. Arðsemi Vaðlaheiðarganga, sem eru þó á þéttbýlla svæði, er reiknuð fram og aftur og óvíst um sjálfbærni framkvæmdanna. Margt bendir til þess að vegfarendur aki gamla veginn í stað þess að borga sannvirði fyrir styttri leið í gegnum göngin.
En það er eins með jarðgöng og listina, þau eru þarna vegna þess að sameiginlegt átak skattgreiðenda greiddi kostnaðinn að hluta. Og líkt og listin, þá skila jarðgöng verðmætum til baka. Ég minntist á slysatíðni og við má bæta minni bensíneyðslu og lengri endingu ökutækja sem fara oft sömu leið. Og tími er einnig peningar í einhverjum fræðum.
Hvað fáum við fyrir skattfé sem greitt er til menningarstarfsemi? Íslenskt leikhús, íslenskar kvikmyndir, íslenska tónlist, íslenska myndlist og íslenskar bækur. Enn fremur þýdd erlend leikverk, þýddar bækur og hingað koma stórgóðir erlendir listamenn.
Félagarnir Kristinn og Guðmundur telja báðir að Jón og Stína eigi að greiða fyrir sína menningarneyslu, burt séð frá efnum þeirra og aðstæðum. Stína er fremur blönk tveggja barna einstæð móðir og Jón er í hjólastól.
Spólum hratt áfram: Kiddi og Gummi hafa fengið sitt fram. Nú fer Stína ekki í leikhús vegna þess að miðarnir kosta það sem þeir þurfa að kosta, 15-20.000 pr. sýningu. Jón fer ekki í leikhús vegna þess að hann og nokkrir aðrir fatlaðir geta ekki borgað brú fyrir fatlaða við Þjóðleikhúsið. Þau vita fátt skemmtilegra en að fara í leikhús. En sorry Jón og sorry Stína-samfélagið styður ekki listir og menningu. Fyrirsögnin á grein Kristins átti að vera List er fyrir ríka listunnendur.
Kenningar frjálshyggjumanna um listir og menningu eru af sama sauðahúsi og kenningar þeirra um efnahagsmál. Þær eru skemmtilegt umræðuefni – en stórslys í framkvæmd.

Ársskýrsla FÍLD 2011

Stjórn FÍLD skipa:
Guðmundur Helgason, formaður
Ásgerður Gunnarsdóttir, gjaldkeri
Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari
Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi
Ásta Björnsdóttir, meðstjórnandi
Varamenn stjórnar: Helena Jónsdóttir og Irma Gunnarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum félögum og stofnunum:
Bandalag íslenskra listamanna, Guðmundur Helgason
Íslenski dansflokkurinn, Hany Hadaya
Launasjóður sviðslistamanna, Ingibjörg Björnsdóttir
Úthlutunarnefnd Leiklistarráð, Sveinbjörg Þórhallsdóttir (í gegnum LSÍ)
Leiklistarsamband Íslands, Guðmundur Helgason
Leikminjasafn Íslands, Ásgerður Gunnarsdóttir
Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík, Guðmundur Helgason
Grímunni – íslensku leiklistarverðlaununum, 2 fulltrúar leynilegir…

Félagsmenn voru í lok ársins 2011 samtals 108

Aðalfundur FÍLD var haldinn 30.janúar 2011 og þar kvöddu þrír stjórnarmenn eftir langt og óeigingjarnt starf í þágu félagsins.  Núverandi stjórn þakkar þeim Irmu Gunnarsdóttur, Karen Maríu Jónsdóttur og Steinunni Ketilsdóttur kærlega fyrir þeirra störf í þágu félagsins.  Ný í stjórn voru kosin; Guðmundur Helgason, formaður, Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari og Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi.  Auk þess voru kosnir tveir varamenn stjórnar samkvæmt ný samþykktum lagabreytingum.  Þeir eru Helena Jónsdóttir og Irma Gunnarsdóttir og hefur stjórn getað leitað til þeirra ef aðrir stjórnarmenn hafa ekki komist á fundi á vettvangi félagsins eða þar sem FÍLD þarf að hafa sinn fulltrúa.

Stjórn hefur haldið 12 stjórnarfundi á þessu starfsári, að jafnaði einu sinni í mánuði.  Auk þess hefur stjórn komið sér upp vinnusvæði á Facebook þar sem hún skiptist á hugmyndum og upplýsingum milli funda. Við látum ekki dvöl stjórnarmanna erlendis trufla okkur og höfum þá haft viðkomandi með okkur á fundi með hljóði og mynd í gegnum samskiptaforritið Skype á netinu. 

Þá sækja stjórnarmenn, þó mest formaður, ýmsa aðra fundi í nafni félagsins eins og t.d. mánaðarlega fundi Bandalags íslenskra listamanna og reglulega fundi fulltrúaráðs Leiklistarsambands Íslands.  Aðrir fundir eru sjaldnar. Þau eru mýmörg verkefnin sem berast inn á borð stjórnarinnar hverju sinni og hérna verður aðeins tæpt á því helsta sem stjórn hefur unnið að á þessu ári. Dansstefnan hefur reynst stjórn vel og mjög víða er minnst á hana í umræðum við ýmsa aðila og vitnað til hennar.  Hún verður áfram ákveðið grundvallarplagg fyrir stjórn að vinna eftir við stefnumótun til framtíðar.

Formaður fór í lok febrúar ásamt Helenu Jónsdóttur á fund embættismanna í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem málefni dansins voru rædd og þá sérstaklega sú ósk danslistamanna að hafa manneskju með fagmenntun í dansi í úthlutunarnefndum sviðslistanna. Ingibjörg Björnsdóttir hefur verið í úthlutunarnefnd launasjóðsins en enginn dansmenntaður aðili í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs. Dansinn fékk frekar lítinn hluta af því fjármagni sem var úthlutað á árinu en það er í miklu ósamræmi við þá grósku sem hefur verið í danslistinni að undanförnu. Fulltrúar ráðuneytisins bentu á að við ættum að herja á þá sem tilnefna í úthlutunarnefndir til þess að fá okkar fagmenntaða aðila inn.  Það hefur reynst mjög erfitt að sækja það þar sem einungis eru 3 einstaklingar í hverri úthlutunarnefnd. Formaður vakti aftur máls á þessu á árlegum samráðsfundi BÍL með menntamálaráðherra í mars og benti á það sanngirnissjónarmið að fá faglega umfjöllun um umsóknir danslistamanna.  Málið fékk svo mjög farsælan endi á haustmánuðum þegar forseti Leiklistarsambands Íslands, Ása Richards lagði til að Sveinbjörg Þórhallsdóttir færi inn í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs (styrkir til starfsemi atvinnuleikhópa).  Dansinn á sterkan bandamann í Ásu og kunnum við henni bestu þakkir fyrir þetta frumkvæði. Við megum samt ekki sofna á verðinum, heldur halda áfram að tala fyrir þessu sjónarmiði um fagmenntaðan einstakling í úthlutunarnefndir svo umsóknir danslistafólks hljóti faglega umfjöllun á forsendum dansins.   (1)

FÍLD stóð fyrir SOLO, keppni í klassískum listdansi 1.mars í Gamla Bíó. Þar tóku þátt 26 listdansnemar frá þremur skólum, Ballettskóla Guðbjargar Björgvins, Klassíska Listdansskólanum og Listdansskóla Íslands. Þessi keppni er undankeppni fyrir norræna/baltneska ballettkeppni Stora Daldansen, sem haldin er í Svíþjóð ár hvert og þangað koma bestu listdansnemar norðurlanda og baltnesku landanna.  Á SOLO voru þrír valdir til þess að vera fulltrúar Íslands í keppninni úti en það voru þau Ellen Margrét Bæhrenz, Gunnhildur Eva G. Gunnarsdóttir og Karl Friðrik Hjaltason öll nemendur við Listdansskóla Íslands. Þau stóðu sig með prýði í Svíþjóð þó ekkert þeirra hafi hlotið verðlaunasæti að þessu sinni. Samkvæmt reglum Stora Daldansen ber að halda undankeppni í hverju landi fyrir sig og hefur FÍLD tekið það hlutverk að sér sem fagfélag dansins með tengingu við alla listdansskóla á landinu.

Irma Gunnarsdóttir fór sem fulltrúi FÍLD á samráðsfund BÍL og borgarinnar þar sem formaður komst ekki frá vinnu.  Þessir samráðsfundir BÍL bæði við menntamálaráðherra/ráðuneyti og borgaryfirvöld eru mikilvægir til þess að koma á framfæri ábendingum okkar um það sem betur má fara.  Það getur oft á tíðum verið erfitt að koma sínu að þegar fulltrúar 14 félaga innan BÍL hafa öll eitthvað fram að færa en hinsvegar er stuðningurinn sem fæst frá hinum félögunum í þessum málum mjög mikilvægur.  Röddin er miklu sterkari þegar BÍL talar heldur en þegar FÍLD talar eitt og sér.

Alþjóðadansdagurinn var haldinn hátíðlegur um heim allan 29.apríl og af því tilefni stóð FÍLD fyrir ýmsum uppákomum.  Í Tjarnarbíó var svokallað “pop-up” danssafn þar sem ýmsir listdansskólar, Íslenski dansflokkurinn, Reykjavík dance festival og fleiri kynntu starfsemi sína og sögu.  Fengnir voru að láni gamlir búningar sem minna okkur á listdanssöguna hér á landi.  Á sviðinu í Tjarnarbíó sýndu nokkrir skólar atriði auk þess sem gamlar upptökur frá RÚV voru sýndar á tjaldi.  Í Bíó Paradís voru svo sýndar 10 íslenskar dansstuttmyndir sem hafa allar vakið mikla athygli og unnið til verðlauna víðsvegar um heiminn.  Dagurinn þótti mjög vel heppnaður og kann stjórn FÍLD, Helenu Jónsdóttur bestu þakkir fyrir hennar stóra þátt í skipulagningu dagsins. Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem lögðu til efni og vinnu til þess að hugmyndin yrði að veruleika. Stjórn hefur fullan hug á að endurtaka leikinn núna í ár og þróa þessa hugmynd áfram ekki síst í ljósi þess að félagið okkar á 65 ára afmæli á þessu ári.

Daginn eftir dansdaginn eða 30.apríl var haldin árshátíð dansara en það er sjálfsprottin hátíð sem byrjaði árið 2010 og tókst svona ljómandi vel bæði þá og 2011.  Heimatilbúnar veitingar og skemmtiatriði vöktu mikla lukku þeirra sem mættu og bíðum við spennt eftir að sjá hvað næsta undirbúningsnefnd skipuleggur fyrir næstu árshátíð. Hátíðin er auglýst á póstlista FÍLD og eru allir velkomnir á árshátíð dansara.

FÍLD fékk á vormánuðum Katrínu Gunnarsdóttur, dansara og heilsu-hagfræðinema, til þess að taka að sér vinnu við skýrslu um Listdanskennslu á Íslandi, stöðu hennar, umfang og framtíðarmöguleika. Katrín fékk laun úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til verksins og vann hún það að mestu yfir sumarmánuðina.  Nú þarf stjórn að klára uppsetningu skýrslunnar en það er von okkar að við getum komið skýrslunni í prentun sem fyrst og svo sjáum við hvernig hún nýtist okkur best til að tala máli listdansins og skólanna. Von okkar er að hún reynist mikilvægt gagn í baráttunni fyrir frekara fjármagni til listdanskennslu. Stjórn kann Katrínu bestu þakkir fyrir hennar vinnu og skólunum sem lögðu til upplýsingar í skýrsluna þökkum við einnig kærlega fyrir samvinnuna.  (2)

Ólöf Ingólfsdóttir fór sem fulltrúi Íslands með stuðningi FÍLD á fund Aerowaves danstengslanetsins í Porec í Króatíu í lok október. Það er íslenskum dansheimi mjög mikilvægt að geta tengst þessu tengslaneti en eina helgi á ári hittast u.þ.b. 30 einstaklingar, einn frá hverju landi Evrópu og skoða brot úr 3-400 verkum ungra og upprennandi danshöfunda frá gjörvallri Evrópu og kynnast þannig því ferskasta í evrópskri danslist.  Úr þessum verkum eru valin verk á danshátíðina Spring Forward 2012, en mörgum verkum er einnig boðið að sýna á hátíðum og í leikhúsum víða um Evrópu.  Þáttaka í Aerowaves hefur verið mikilvægur liður í því að vekja athygli á íslenskum dansi og hafa verk margra íslenskra danshöfunda hlotið brautargengi í gegnum tengslanetið.

Í haust barst beiðni frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti um umsögn um nýtt frumvarp til Sviðslistalaga.  Úr varð að fulltrúar fagfélaganna innan Leiklistarsambands Íslands ásamt Sjálfstæðu leikhúsunum hittust, fyrst á rabbfundi til þess að fara yfir hugmyndir félaganna um hin nýju sviðslistalög en útúr þeim fundi fæddist samráðsnefnd fagfélaganna og SL sem hittist á nokkrum fundum og skilaði að lokum sameiginlegum breytingartillögum við frumvarpsdrög ráðuneytisins.  Það er óhætt að segja að þær breytingar sem við lögðum til voru ansi viðamiklar og er næstum hægt að tala um nýtt frumvarp. Enn eiga eftir að koma viðbrögð ráðuneytisins við öllum þeim athugasemdum sem bárust frá ýmsum hagsmunaaðilum. Það sem þó er ánægjulegt við þetta frumvarp er að nú á að setja inn í sviðslistalögin lög um starfsemi Íslenska dansflokksins og þannig festa í sessi tilvist hans í menningarlífi íslendinga en hingað til hefur hann verið rekinn samkvæmt sérstakri reglugerð um starfsemi hans.

Guðrún Óskarsdóttir hefur áfram haldið utan um vefsíðu félagsins og reynum við að hafa reglulegt flæði af fréttum af fólkinu okkar og danslistinni. Við hvetjum félagsmenn til að vera enn duglegri við að senda fréttir og fréttatilkynningar á Guðrúnu svo síðan verði sem öflugust. Þá fór stjórn í það að færa facebook svæði FÍLD úr því að vera persóna með prófíl yfir í síðu eða „page” en reglur facebook kveða á um að fyrirtæki og félagasamtök skuli vera með síðu en ekki prófíl.  Þar fyrir utan mega einstaklingsprófílar ekki hafa fleiri en 5.000 vini og gamla síðan okkar er komin ansi nálægt því og þá hefðum við ekki getað bætt fleira fólki við síðuna okkar.  Við erum enn að vinna í að fá fólk til að færa sig yfir á nýju síðuna og þar geta félagsmenn lagt hönd á plóg með því að benda vinum og vandamönnum á að „læka” nýju síðuna.  (3)

Reykjavík Dance Festival var glæsilegt að vanda og gaman að sjá hvernig hátíðin tekur alltaf einhverjum breytingum á milli ára og er aldrei alveg eins. Þannig var gaman að sjá dansstuttmyndir skipa stóran sess í dagskrá hátíðarinnar að þessu sinni. Dagskráin var það pökkuð að gestir máttu hafa sig alla við til þess að ná að sjá allt sem í boði var.  Í þessu samhengi er vert að minnast líka á sýningu myndarinnar Pina á RIFF (Reykjavík International Film Festival). Það var  sannkölluð upplifun að sjá þessa frábæru listamenn minnast þessa mikla meistara danslistarinnar sem Pina Bausch var.  

Fyrir utan RDF setja sjálfstæðir danshópar og danshöfundar upp reglulegar sýningar og ber að fagna því að þessar sýningar verði til þrátt fyrir takmarkað fjármagn.  Aðstaðan í Dansverkstæðinu skiptir hérna mjög miklu máli fyrir sjálfstæða geirann og vonandi náum við danssamfélagið að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi þess fyrir dansinn.  Við sem fagfélag og samfélag dansara getum stutt við bakið á þessum félögum okkar með því að mæta á sýningarnar þeirra og vera dugleg að taka fólk með okkur. 
Íslenski dansflokkurinn er enn með sitt heimili í Borgarleikhúsinu en þar gæti dregið til tíðinda þar sem leigusamningur dansflokksins rennur út á þessu ári.  Hvort dansflokkurinn verður áfram í Borgarleikhúsinu eða fer annað mun væntanlega koma í ljós á næstunni.  Dansflokkurinn hefur haft sínar föstu sýningar í Borgarleikhúsinu en auk þess farið í sýningarferð til Akureyrar og víða erlendis þar sem jafnan er gerður góður rómur að sýningum flokksins. Þá var auglýst laus til umsóknar staða listdansstjóra Íslenska dansflokksins í nóvember og bárust 31 umsókn um stöðuna.  Þegar þetta er skrifað er enn ekki búið að tilkynna hver fær starfið en ljóst er að hver sem verður valinn mun hafa mikil áhrif á þróun danslistarinnar á landinu næstu árin.  

Á nýliðnu ári fagnaði Ballettskóli Eddu Scheving 50 ára afmæli og á þessu ári eru þó nokkur afmæli á döfinni. Ballettskóli Guðbjargar Björgvins er 30 ára á þessu ári, Ballettskóli Sigríðar Ármann er 60 ára og jafnframt elsti einkarekni ballettskóli á landinu. Danslistarskóli JSB er 30 ára á þessu ári og loks Listdansskóli Íslands áður Listdansskóli Þjóðleikhússins 60 ára. Þetta er því mikið afmælisár hjá okkur öllum, ekki bara aldursforsetanum hinu 65 ára FÍLD og vert að óska okkur til hamingju með afmælin.  Þá má í þessu samhengi minnast á að Bryn Ballettakademían fékk viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins á árinu og kennir nú samkvæmt námsskrá framhaldsskóla.  Þar með eru skólarnir orðnir fjórir sem það gera en fyrir eru Danslistarskóli JSB, Klassíski Listdansskólinn og Listdansskóli Íslands að kenna samkvæmt námsskrá.  Karen María Jónsdóttir hefur setið í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem skilaði af sér tillögum um hvernig listgreinakennslu verði háttað í nýrri námsskrá framhaldsskóla sem stefnt er að taki gildi eftir ca. 2-3 ár. Þar er verið að breyta alveg um hugsun í uppbyggingu náms, einingakerfis og námsmati og ljóst að þeir skólar sem kenna samkvæmt námsskránni munu þurfa að aðlaga sínar skólanámsskrár að breyttum tímum.

RÚV tók sig til á haustmánuðum og fyllti upp í ákveðið tómarúm með þættinum Dans, dans, dans. En erlendir dansþættir hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. Allt í einu höfðu landsmenn miklar skoðanir á hvaða dansari væri nú bestur, hver hefði staðið sig betur en hver og hver átti skilið að fara áfram í úrslit.  Hvar sem dansarar komu þurfti „almenningur” að spyrja viðkomandi hvað honum fyndist nú um þáttinn, dómgæsluna og hitt og þetta… Það sem var sérstaklega gott við þættina var athyglin sem dansinn fékk sem listform og gaman að sjá hvaða áhrif þættirnir virðast hafa haft eins og við sáum í nýlegu Kastljósinnslagi frá frístundaheimili barna sem setja upp vikulegar Dans, dans, dans keppnir í sínum hópi.  Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvort aðsókn í dansskóla landsins eigi eftir að aukast á næstu misserum. Þá má einnig hrósa RÚV fyrir þættina Sex pör sem gerðir voru í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík í kringum sýninguna Sex pör sem sýnd var á listahátíð í lok maí.  Í þáttunum sex sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum um þessar mundir fáum við innsýn í samstarf danshöfundar og tónskálds við vinnslu verks þeirra sem endaði í áðurnefndri sýningu.  Við hvetjum ríkissjónvarpið til að halda áfram á þessari braut og sýna meiri dans. Þannig væri til dæmis kjörið að hafa faglega umfjöllun og gagnrýni um danssýningar í menningarþættinum Djöflaeyjunni.

Stjórn boðaði til félagsfundar í september sem var vægast sagt misheppnaður þar sem aðeins einn félagsmaður mætti fyrir utan stjórnarmeðlimi. Eftir skammarpóst formanns til félagsmanna var gerð önnur tilraun mánuði síðar eða 23.október og mættu þá 14 manns á fund.  Á fundinum voru meðal annars rædd stéttarfélagsmál, hvort þörf væri á sérstöku stéttarfélagi danslistamanna eða hvort okkur væri betur borgið inni í öðrum stærri félögum.  Ákveðið var að Ásgeir Helgi, Tinna Grétarsdóttir og Katrín Ingvadóttir myndu skoða meðal annars launaviðmið fyrir félagsmenn FÍLD, hvað er eðlilegt að dansarar, danshöfundar og danskennarar fái greitt fyrir sína vinnu?  Á fundinum voru einnig rædd félagsmál almennt og þá aðallega virkni félagsmanna.  Það virðist vera tilhneyging, ekki bara í okkar félagi, að fólk hafi almennt lítinn áhuga á félagsmálum og oft er erfitt að virkja fólk til starfa.  Hverju þessi doði sætir er ekki gott að segja en við megum ekki gleyma því að VIÐ erum FÍLD. FÍLD er ekki þessi fimm manna stjórn sem við kjósum okkur, eða formaðurinn sem kemur fram fyrir hönd félagsins á hinum ýmsu fundum.   Við FÉLAGSMENN erum FÍLD og VIÐ eigum að láta okkur annt um félagið okkar og leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar til að allt gangi vel fyrir sig.  Einfaldur hlutur eins og að svara tölvupóstum, senda inn umbeðnar upplýsingar og svo framvegis flýtir fyrir störfum stjórnar og allt gengur svo miklu betur fyrir sig.  Formaður hefur t.d. á þessu starfsári mátt eyða nokkrum klukkustundum í að ganga á eftir fólki að senda inn aðsóknartölur sjálfstæðu hópanna til SL en þeim tíma hefði vel mátt verja í annað uppbyggilegra fyrir félagið og danslistina.  Ef allir gera sitt þá gengur allt miklu betur, hópurinn dansar í takt og sýningin heppnast fullkomlega. Verum virk, sýnum ábyrgð tökum þátt í starfi félagsins okkar!

Stjórn Félags íslenskra listdansara,
Guðmundur Helgason, formaður.

Viðbætur frá Karen Maríu Jónsdóttur:
1)  Sjálfstæðu Leikhúsin tilnefndu einnig dansara sem varamann í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs, Karen Maríu Jónsdóttur og er það í fyrsta sinn sem þau gera það. Dansarar eiga einnig mjög sterkan bandamann í SL sem stutt hefur dyggilega við dansheiminn á undanförnum árum og talað fyrir hönd þeirra hvar sem þeir fara. Þeir eiga þakkir skildar fyrir sitt frumkvæði sem er tilkomið vegna vinnu stjórnar FÍLD.

2)  Skýrsla Katrínar Gunnarsdóttur var unnin í samstarfi FÍLD, LHÍ og Katrínar með styrk frá nýsköpunarsjóði. Karen María var leiðbeinandi verkefnisins og hennar aðkoma að verkefninu (meðskrif á umsókn og annað) fjármögnuð af LHÍ þar til Karen hætti þar störfum í júní. Eftir það fjármagnaði Karen María leiðsögn (aðstoð við heimildavinnu, leiðsagnarfundi, yfirlestur og annað) Katrínar yfir allt sumarið úr eigin vasa og nýtur FÍLD svo sannarlega góðs af því.

3)  Fréttir á vefsíðu FÍLD voru að mestu skrifaðar af Karen Maríu þar til í október 2011. Þá eru einnig starfandi í ritnefnd, Melkorka og Ásgeir og hafa þau skrifað hluta efnisins.  Eitthvað af efninu er fréttatilkynningar frá dönsurum, danshöfundum og skólunum sjálfum.  Fréttir úr íslensku danssamfélagi birtust einnig daglega á gömlu Facebook-síðu FÍLD og sá Karen María um þær að mestu. Þetta er tímafrek vinna og var hún öll unnin á forsendum FÍLD fyrir danssamfélagið.

Ályktanir aðalfundar BÍL 2012

Aðalfundur BÍL beinir því til forsvarsmanna ríkis og Reykjavíkurborgar að 

 • vinna með samtökum listafólks að því tryggja listamönnum sanngjarnt endurgjald fyrir notkun og birtingu verka þeirra á landamæralausum síma- og netgáttum. 
 • búa þannig um hnúta að framlög til tónlistarflutnings og annarrar menningarstarfsemi í tónlistarhúsinu Hörpu verði tryggð, svo starfsemin verði með þeim hætti er sæmi því góða húsi.  
 • tryggja að kvikmyndasýningar leggist ekki af í miðbæ Reykjavíkur. Mikilvæg starfsemi kvikmyndashússins Bíó Paradís tryggir að kvikmyndaunnendur  geti ávallt gengið að fjölbreyttu úrvali kvikmynda vísu; þ.m.t. evrópskum myndum, ,,World Cinema” kvikmyndasýningum og sýningum á íslenskum kvikmyndum (leiknum sem og heimildamyndum) frá ýmsum tímum.  
 • standa myndarlega við bakið á danslistinni með því að styrkja rekstrargrunn Íslenska dansflokksins og ekki síður dansverkstæði danslistamanna. Það er mikilvægt að danslistamenn hafi vinnuaðstöðu við hæfi og skorum við á stjórnvöld að tryggja dansinum slíka aðstöðu til frambúðar. 
 • tryggja fjármagn til að frumeintök Íslenskra kvikmynda verði flutt til Íslands, en nú liggja margar íslenskar kvikmyndir undir skemmdum í vöruhúsum víða um heim. Nauðsynlegt er að bregðast skjótt við, þar sem óafturkræft tap menningarverðmæta er yfirvofandi.

Starfsáætlun BÍL 2012

 • Sameiginlegir hagsmunir listafólks varðandi skattlagningu verði í brennidepli á árinu. BÍL endurnýi áherslur sínar í skattamálum, beiti sér áfram í baráttunni fyrir sem sanngjarnastri skattálagningu á störf og afurðir listamanna, auk þess að vinna markvisst að því að tryggja rétt listamanna hjá samfélagsstofnunum á borð við Vinnumálastofnun og Tryggingarstofnun.
 • BÍL undirbúi tillögur um breytt fyrirkomulag heiðurslauna listamanna. Markmiðið verði að skilgreina betur grundvöll heiðurslaunanna, fjöldi þeirra verði í samræmi við þörfina, úthlutunin verði á hendi faglega skipaðrar nefndar og sjálf upphæðin verði ámóta hlutfall af starfslaunum listamanna og almennt gildir um eftirlaun. Að öðru leyti vísast til ályktunar aðalfundar BÍL um málið 2011.
 • Heimasíða BÍL verði þróuð áfram og hún gerð að vettvangi skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra um störf og hagsmunamál listafólks. Mikilvægt er að efla þá hluta síðunnar sem miðla upplýsingum um BÍL á erlendum tungumálum (ensku og dönsku) eftir því sem fjárhagur BÍL leyfir. Þá verði áfram unnið að því að koma starfi BÍL á framfæri á samskiptasíðum á vefnum.
 • BÍL setji á fót starfshóp, sem leitist við að tryggja skráningu listafólks í rétta atvinnugreinaflokka hjá skattyfirvöldum, með það að markmiði að stjórnvöld (þ.m.t. Hagstofa Íslands) hafi á hverjum tíma sem gleggstar upplýsingar um störf innan geirans svo auðveldara sé að leggja mat á þjóðhagslegt vægi lista og menningar.
 • BÍL fylgist með undirbúningi lagasetningar á sviði lista og menningar, t.d. um RÚV ohf., sviðslistir, miðstöð íslenskra bókmennta og tónlistarsjóð, með það að markmiði að vinna sameiginlegum hagsmunamálum listamanna brautargengi við lagasmíð. Í því sambandi er minnt á ályktun ársfundar BÍL 2011 um að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.
 • BÍL skipi starfshóp sem sjái til þess að Listalausi dagurinn verði þróaður áfram og haldinn í nóvember 2012. Farið verði yfir framkvæmdina 2011 og skoðað það sem vel tókst. Leitað verði samstarfs við stofnanir á sviði menningar og lista, með það í huga að aðgerðirnar nái sem mestum slagkrafti og veki fólk til umhugsunar um þýðingu listarinnar fyrir samfélagið.
 • BÍL leiti nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða til sín starfskraft sem auka myndi slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna. Í ljósi vaxandi áhuga á uppbyggingu skapandi atvinnugreina, jafnt meðal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, er mikilvægt að BÍL hafi bolmagn til að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu með heildarhagsmuni listamanna að leiðarljósi.
 • BÍL fylgist með framvindu mála hjá starfshópi innanríkisráðuneytisins sem hefur til skoðunar fyrirkomulag íslenskra talnagetrauna (þ.m.t. íslenska lottósins). BÍL tryggi að starfshópurinn fái upplýsingar um fyrirkomulagið í þeim löndum sem tryggja listum og menningu hlutdeild í arði slíkra getrauna.
Page 20 of 40« First...10...1819202122...3040...Last »