Author Archives: vefstjóri BÍL

Skýrsla FÍH – Félags íslenskra hljómlistamanna 2012

Starfsemi Félags íslenskra hljómlistarmanna 2012 einkenndist af því að félagið hélt upp á 80 ára afmæli sitt. Skýrsla félagsins á afmælisári er aðgengileg á hjálagðri slóð:

Skýrsla FÍH 2012

Ársskýrsla SÍM – Sambands íslenskra myndlistarmanna 2012

Stjórnar-, sambandsráðs- og félagsfundir SÍM
Stjórnarfundir SÍM á starfsárinu 2012-2013 voru nítján talsins, þar með talið fjórir sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnir tveir félagsfundir líkt og lög gera ráð fyrir.

Helstu málefni SÍM á árinu 2012. 

Starfsumhverfi
Stjórn SÍM telur að helsta baráttumál þessa starfsárs snúi að starfsumhverfi myndlistarmanna og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar.

Á síðastliðnum árum hefur SÍM, í samstarfi við BÍL, unnið að því að bæta skattalegt umhverfi listamanna. Í byrjun þessa árs var reiknað endurgjald  leiðrétt úr 414 þúsund á mánuði í 320 þúsund að tilstuðlan BÍL. Næstu skref í samstarfinu eru að fara á fund forstöðumanna fjármálaráðuneytis, vinnumálastofnunar og fæðingarorlofssjóðs og fá leiðréttingu á tengingu þessara stofnana á greiðslum við reiknað endurgjald í stað raunverulegra tekna.

Einnig var óskað eftir að frítekjumark vegna virðisaukaskatts yrði hækkað í 3-6 milljónir og var markið hækkað á árinu 2011 úr hálfri í eina milljón, en betur má ef duga skal. Formaður SÍM hefur nýverið sent skýrslu til fjármálaráðuneytis vegna virðisaukaskatts, sem ákveðinn hluti listamanna ber samkvæmt núgildandi lögum að skila inn. Eintak af þeirri skýrslu má nálgast á skrifstofu SÍM.

Launa og skoðanakönnun
Á þessu starfsári lagði stjórn SÍM grunn að því að gerð yrði launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Með slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið öðlist kröftugt tæki, sem nota megi í hagsmunabaráttunni sem og til grundvallar samningum við Mennta- og menningarráðherra um greiðslur til handa myndlistarmönnum vegna sýningarhalds í opinberum söfnum og sýningarstöðum.

Laun vegna sýningarhalds.
Stjórn SÍM setti efst á starfsáætlun sína að félagið beiti sér fyrir því að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í opinberum söfnum og sýningarsölum hérlendis. Stjórnin horfir þar til sænska samningsins ,,MU- Medverkans- och utställningsersättning,, sem samtök listamanna í Svíþjóð (KRO) og þarlend stjórnvöld gerðu með sér.

Stjórn SÍM hefur óskað eftir að Mennta- og menningarmálaráðuneytið og SÍM geri með sér viðlíka samning vegna vinnuframlags myndlistarmanna við sýningarhald. Með tilkomu slíks samnings yrði listamönnum greitt fyrir leigu á verkum vegna sýningarhalds, þeir myndu fá eingreiðslu vegna sýningarþáttöku og verktakalaun yrðu greidd vegna uppsetningu eigin verka sem og annars starfs sem óskað er eftir af viðkomandi stofnun.

Siða- og verklagsreglur ásamt starfslýsingum
Stjórnin samdi siða- og verklagsreglur fyrir félagsmenn sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið vegna setu þeirra í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum samtakanna. Jafnframt voru samdar verklagsreglur fyrir stjórn SÍM.

Starfsmenn skrifstofu ásamt formanni stjórnar sömdu einnig starfslýsingar fyrir formann, framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og verkefnisstjóra gestavinnustofa, sem kynnt voru stjórn SÍM á stjórnarfundi. 

Fumvarp til myndlistarlaga
Árið 2009 voru fyrstu drög að Myndlistarlögum lögð fram af Menntamálaráðuneyti á alþingi og var SÍM og Listskreytingarsjóður beðin um umsagnir og gerður bæði samtökin athugasemdir við frumvarpið. Vinnu við frumvarpið var svo lokið 2012 og ar frumvarp til myndlistarlaga samþykkt á vormánuðum 2012.

Með þessu nýja frumvarpin er meðal annars gert ráð fyrir stofnun myndlistarsjóðs, en slíkur sjóður hefur ekki verið starfsræktur áður. Stjórn SÍM stilnefndi fjóra fulltrúa í Myndlistarráðið, tvo aðalmenn og tvo varamenn, í byrjun þessa árs. Ráðið hefur ekki enn komið saman en skipunarbréf frá Mennta- og menningarráðherra munu vera send út innan tíðar. Þetta eru góð tíðindi fyrir myndlistarmenn en með þessu nýja ráði hafa þeir loks fengið verkefnasjóð á við aðrar listgreinar í landinu.

Samningar um birtingu myndverka í eigu listasafna á netinu.
Eftir áralanga baráttu um að fá listasöfn landsins, ásamt safnaráði, að samnningarborðinu um birtingu myndefnis á netinu virðist nú vera að rofa til í þeim efnum. Það er enda einlægur vilji bæði listamanna og safna að safneign þeirra verði sýnileg á heimsaíðum safnanna.

Myndstef – myndhöfunarsjóður Íslands hefur umsjón með málefnum félagsmanna SÍM og semur fyrir þeirra hönd. Vonast stjórn SÍM til þess að samningar náist milli Myndstefs, Mennta- og menningarráðuneytis og safnaráðs á þessu ári.

Lottópotturinn
Í byrjun ársins 2011 funduðu Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Hrafnhildi Sigurðardóttir formaður SÍM með innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni til að ræða það að listamenn fái í framtíðinni hlut af Lottó pottinum líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Ögmundur tók málefni listamanna mjög vel og setti á laggirnar starfshóp til að gera tillögu að breyttum úthlutunarreglum úr sjóðnum. Formaður var skipaður Katrín Fjeldsted. Nú er ljóst að nefndin hefur aldrei verið kölluð saman, en núverandi samningur um Lottó rennur út eftir fáein ár. Það er von SÍM að stjórn BÍL muni halda þessu málefni á lofti svo að samningurinn verði ekki endurnýjaður án aðkomu okkar að þessum sjóði. 

Dagur myndlistar 5. nóvember 2011.
Dagur myndlistar var að þessu sinni haldinn hátíðlegur þann 5. nóvember og höfðu Gunnhildur Þórðardóttir og Gunndís Ýr Finnbogadóttir veg og vanda að deginum. Skólum og myndlistasrmönnum var boðið að skrá sig til þáttöku í gegnum heimasíðu Dags myndlistar á www.dagurmyndlistar.is. Gerður var samningur við Contemporary.is um gerð fimm myndbanda til að setja á síðuna fyrir utan þau sem þar voru fyrir.

Að þessu sinni fóru kynningar fram í 18 grunn- og framhaldsskólum, 8 skólum á höfuðborgarsvæðinu og 10 skólum á landsbyggðinni og voru það tólf listamenn sem sáu um kynningarnar á starfi sínu og heppnuðust þær mjög vel.

Um 100 myndlistarmenn skráðu sig til leiks og opnuðu vinnustofur sínar fyrir almenningi, en það er rúm 10% fjölgun frá því í fyrra og voru vinnustofur opnar um land allt.  Nú hefur verið sótt um styrki til Dags myndlistar 2013 til Reykjavíkurborgar og Mennta- og menningarráðuneytis og vonast SÍM þannig til að gera daginn enn veglegri á næsta ári. 

Vinnustofur
SÍM hefur leigt út vinnustofur til listamanna um árabil. Þannig eru rúmlega 50 félagsmenn með vinnuaðtöðu á Seljavegi, á Korpúlfsstöðum eru um 60 starfandi listamenn og hönnuðir ásamt því að þar eru staðsett verkstæði Leirlistarfélags og Textílfélags. Á Lyngási í Garðabæ eru um tuttugu listamenn starfandi þar í sextán vinnustofum. Á Nýlendugötu eru um 25 félagsmenn með vinnustofur ásamt veitingahúsinu Forréttarbarnum og hönnunarverluninni Netagerðinni á fyrstu hæð.

Á þessu starfsári voru svo teknar í notkun nýjar vinnustofur í Súðavogi í gömlu timbursölu Húsasmiðjunnar, en þar eru nú 20 félagsmenn SÍM með vinnuaðstöðu. SÍM sér því um 175 félagsmönnum fyrir vinnustofum á viðráðanlegu verði.

Gestavinnustofur SÍM og styrkur KKNord – Kulturkontakt Nord
Framkvæmdastjóri SÍM sótti um styrk til KulturKontakt Nord vegna gestavinnustofa SÍM á Seljavegi og að Korpúlfsstöðum. Fekk umsóknin jákvæðan stuðning KKNord að þessu sinni. Felst hann í því að SÍM býður fjórum norrænum og baltneskum listamönnum á ári til tveggja mánaða dvalar í senn sér að kostnaðarlausu auk ferða- og dvalarstyrks. 

Á árinu sem er að líða hafa um 250 listamenn komið til landsins til dvalar í gestavinnustofum okkar á Seljavegi, Korpúlfsstöðum og hér í Hafnarstrætinu. Það eru listamenn frá um 30 löndum víðs vegar úr heiminum. Í hverjum mánuði setja þau upp sýningu hér í SÍM húsinu í lok dvalarinnar og eru allir listamenn á landinu hvattir til að mæta á þær opnanir. 

Gestavinnustofur SÍM í Berlín
SÍM hefur á leigu fjórar íbúðir með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein í Berlín. Þar gefst félagsmönnum SÍM  tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestavinnu-stofunum þegar plássrúm leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Skrifstofa SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú fjórir starfskraftar í rúmum þremur stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM stýrir skrifstofunni að sinni alkunnu snilld og Þórólfur Árnason sem sér um bókhaldið. Hrafnhildur Sigurðardóttir sér um formennsku og Friðrik Weishappel sér um viðhald vinnustofuhúsa. Á árinu hófu tveir félagsmenn störf á skrifstofunni og bjóðum við þær velkomnar til starfa. Það eru þær Hildur Ýr Jónsdóttir sér um gestavinnustofur SÍM og tekur við af Gunnhildi Þórðardóttur sem fer í barnseignaleyfi, en Arna Óttarsdóttir tekur við af Gunndísi Ýr Finnbogadóttur sem tók við starfi framkvæmdastjóra Nýlistasafnsins. Kristjana Rós Gudjohnsen sem einnig lét af störfum á árinu tók við verkefnastjórnun hjá Íslandsstofu. Við þökkum þeim fyrir samstarfið og óskum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Alþjóðlegt samstarf:

Fundur hjá IAA – International Artist Association
Samband íslenskra myndlistarmanna hefur frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi ýmiskonar og er SÍM aðili að alþjóðasamtökunum myndlistarmanna IAA – International Artist Association sem stofnuð voru í skjóli Unesco árið 1954.

Evrópudeild IAA fundar reglulega og sátu formaður SÍM Hrafnhildur Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Ingibjörg Gunnlaugsdóttir fund samtakanna í Istanbul í Tyrklandi í enda október.

Á fundinum var rætt um nýju IAA skírteinin, en nýtt skírteini samtakanna hefur nú verið tekið í notkun um alla Evrópu og var skírteini SÍM þar fyrirmynd enda til fyrirmyndar. Félög í IAA hafa undanfarið staðið fyrir átaki, hvert í sínu landi, til að kynna skírteinin svo að fleiri listasöfn í heiminum taki þau gild.

Fram kom í máli formanns listamanna í Istanbul, Bedri Baykam að hann og aðrir listamenn hafa orðið fyrir árásum öfgamanna vegna starfa sinna á síðustu árum og sérstaklega s.l.ár, en hann sjálfur varð fyrir alverlegri hnífstungu árið 2011. Óskað var eftir stuðningi IAA með ályktunum fyrir listamenn í Tyrklandi og voru þær samþykktar á fundinum.

Fulltrúi Svía Pontus Raud kynnti sænska MU- samninginn og voru fundarmenn sammála um að svipaðan samning þyrfti að innleiða í öllum löndum Evrópu.

Reykjavík 7. febrúar 2012
f.h. stórnar SÍM
Hrafnhildur Sigðurðardóttir formaður
Samband íslenskra myndlistarmanna
Hafnarstræti 16
IS-101 Reykjavík
Sími 5511346
hrafnhildur@sim.is
www.sim.is

 

Ársskýsla FÍLD – Félags íslenskra dansara 2012

Stjórn FÍLD skipa:
Guðmundur Helgason, formaður
Tinna Grétarsdóttir, gjaldkeri
Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari
Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi
Hrafnhildur Einarsdóttir, meðstjórnandi
Varamenn stjórnar: Helena Jónsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum félögum og stofnunum:
Bandalag íslenskra listamanna, Guðmundur Helgason
Íslenski dansflokkurinn, Anna Norðdahl
Launasjóður sviðslistamanna, Karen María Jónsdóttir
Úthlutunarnefnd Leiklistarráð, Sveinbjörg Þórhallsdóttir (í gegnum LSÍ)
Leiklistarsamband Íslands, Ásgeir Helgi Magnússon
Leikminjasafn Íslands, Guðmundur Helgason
Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík, Tinna Grétarsdóttir
Grímunni – íslensku leiklistarverðlaununum, 2 fulltrúar leynilegir…

Félagsmenn voru í lok ársins 2012 samtals 95

Aðalfundur FÍLD var haldinn 5.febrúar 2012 og þar kvöddu tveir stjórnarmenn þær Ásta Björnsdóttir og Ásgerður Gunnarsdóttir og Irma Gunnarsdóttir varamaður. Núverandi stjórn þakkar kærlega fyrir þeirra störf í þágu félagsins.  Ný í stjórn voru kosin; Tinna Grétarsdóttir gjaldkeri, Hrafnhildur Einarsdóttir meðstjórnandi og Katrín Gunnarsdóttir varamaður.  Á fundinum sem var 65 ára afmælisfundur félagsins heiðraði stjórn Ingibjörgu Björnsdóttur fyrir hennar framlag til félagsins okkar og danslistarinnar í landinu. En hún hefur verið óþrjótandi í sinni vinnu fyrir dansinn á Íslandi.  Í kjölfarið sigldu  heiðursviðurkenning menningarverðlauna DV í mars og þann 17.júní fékk Ingibjörg svo fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu danslistarinnar.

Stjórn hefur haldið 13 stjórnarfundi á þessu starfsári, að jafnaði einu sinni í mánuði en þar fyrir utan hefur stjórn hist á vinnufundum auk þess að eiga nokkur samskipti á Facebook-grúppu stjórnar þar sem þau mál sem þarf að ræða milli funda eru afgreidd.
Þá sækja stjórnarmenn, þó mest formaður, ýmsa aðra fundi í nafni félagsins eins og t.d. mánaðarlega fundi Bandalags íslenskra listamanna og reglulega fundi fulltrúaráðs Leiklistarsambands Íslands.  Aðrir fundir eru sjaldnar. Þau eru mýmörg verkefnin sem berast inn á borð stjórnarinnar hverju sinni og hérna verður aðeins tæpt á því helsta sem stjórn hefur unnið að á þessu ári. Dansstefnan reynist stjórn vel og mjög víða er minnst á hana í umræðum við ýmsa aðila og vitnað til hennar.  Hún verður áfram ákveðið grundvallarplagg fyrir stjórn að vinna eftir við stefnumótun til framtíðar.

FÍLD stóð fyrir SOLO, keppni í klassískum listdansi 7.febrúar í Gamla Bíó. Þar tóku þátt 11 listdansnemar frá tveimur skólum, Ballettskóla Guðbjargar Björgvins og Listdansskóla Íslands. Þessi keppni er undankeppni fyrir norræna/baltneska ballettkeppni Stora Daldansen, sem haldin er í Svíþjóð ár hvert og þangað koma bestu listdansnemar norðurlanda og baltnesku landanna.  Á SOLO voru þrír valdir til þess að vera fulltrúar Íslands í keppninni úti en það voru þau Ellen Margrét Bæhrenz, Þórey Birgisdóttir og Karl Friðrik Hjaltason öll nemendur við Listdansskóla Íslands. Þau stóðu sig með prýði í Svíþjóð þó ekkert þeirra hafi hlotið verðlaunasæti að þessu sinni. Samkvæmt reglum Stora Daldansen ber að halda undankeppni í hverju landi fyrir sig og hefur FÍLD tekið það hlutverk að sér sem fagfélag dansins með tengingu við alla listdansskóla á landinu.

Formaður sótti samráðsfundi  BÍL og menntamálaráðherra annars vegar og BÍL og borgarinnar hinsvegar. Þar ræddi hann mikilvægi þess að ríki og borg styddu myndarlega við bakið á danslistinni, drauminn um danshús og benti á nauðsyn þess að styðja vel við listmenntun í landinu og þá skóla sem eru sannarlega að ala upp framtíðar listamenn þjóðarinnar. Þó að dansinn og aðrar listir séu í mörgum ef ekki flestum tilfellum tómstundagaman hjá yngri krökkum þá er á þessum árum lagður grunnur að framtíðarlistamönnum þjóðarinnar og því mikilvægt að vel sé staðið að og stutt við dans-/listmenntun barna.

Í byrjun janúar 2013 hélt BÍL svo samráðsfund með tómstunda og fræðsluráði Reykjavíkurborgar hvar formaður FILD spurði fulltrúa borgarinnar um hug þeirra til að styðja við listdansskóla á svipaðan hátt og stutt er við bakið á tónlistarskólum og Myndlistarskóla Reykjavíkur. Svörin voru kannski fyrirsjáanleg í kjölfar kreppu en við bindum þó vonir við að það takist að fá sveitarfélögin og ríkið til samninga um stuðning við grunnnám í listdansi.

Alþjóðadansdagurinn var haldinn hátíðlegur um heim allan 29.apríl og af því tilefni setti FÍLD upp „pop-up” danssafn í Tjarnarbíó líkt og árið þar áður. Á veggjum mátti sjá kynningarplaköt frá dansskólum, Íslenska dansflokknum, Reykjavík dance festival, Dansverkstæðinu og fleiri.  Fengnir voru að láni gamlir búningar sem minna okkur á listdanssöguna hér á landi.  Á sviðinu í Tjarnarbíó sýndu nokkrir skólar atriði auk þess sem gamlar upptökur af dansverkum voru sýndar á tjaldi. Nokkrir úr sjálfstæða geiranum kynntu verk sem þau voru að vinna að auk þess sem forsvarsmenn Reykjavik Dance Festival kynntu væntnalega hátíð. Um kvöldið var svo sýnd heimildamyndin „Ladies and gentlemen” sem sýnir uppsetningu og æfingar á verki eftir Pinu Bausch.  Dagurinn þótti mjög vel heppnaður og kann stjórn FÍLD, Helenu Jónsdóttur bestu þakkir fyrir hennar stóra þátt í skipulagningu dagsins. Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem lögðu til efni og vinnu til þess að hugmyndin yrði að veruleika.

Þann 12. maí var haldin árshátíð dansara í Dansverkstæðinu en það er sjálfsprottin hátíð sem byrjaði árið 2010 og hefur vakið mikla lukku síðan.  Heimatilbúnar veitingar og skemmtiatriði eru aðalsmerki hátíðarinnar og verður gaman að sjá hvað undirbúningsnefndin finnur uppá fyrir næstu árshátíð. Hátíðin er auglýst á póstlista FÍLD og eru allir velkomnir á árshátíð dansara.

FÍLD hefur á árinu unnið áfram í samvinnu við Katrínu Gunnarsdóttur að skýrslunni um listdanskennslu á Íslandi. Við bættum við upplýsingum frá síðasta ári og höfum svo fengið mismunandi aðila til að lesa yfir skýrsluna og benda á það sem hugsanlega er eitthvað óljóst. Nú stendur yfir vinna við að fara yfir þessar ábendingar og í kjölfarið munum við svo klára uppsetningu og prentun á skýrslunni. Það er von stjórnar að í framhaldinu verði hægt að nýta skýrsluna til þess að fá aukinn stuðning frá sveitarfélögunum við grunnnám í listdansi. Formaður vísaði m.a. til skýrslunnar á fundi með tómstunda og fræðsluráði Reykjavíkurborgar á dögunum.

Skýrslan var upphaflega unnin í samstarfi FÍLD, LHÍ og Katrínar með styrk frá nýsköpunarsjóði. Karen María Jónsdóttir var leiðbeinandi verkefnisins.

Fulltrúar FÍLD hafa áfram unnið með samráðsnefnd fagfélaganna innan Leiklistarsambands Íslands að tillögum/umsögn varðandi frumvarp Menntamálaráðherra til nýrra Sviðslistalaga. Samráðsnefndin skilaði fyrir rúmu ári síðan mjög ítarlegum tillögum til úrbóta á frumvarpinu og er óhætt að segja að þær tillögur hafi ekki fallið í frjóan jarðveg í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í kjölfar þeirrar vinnu var þó boðað til fundar embættismanna í ráðuneytinu og samráðsnefndarinnar þar sem farið var í gegnum tillögur okkar. Á nýju þingi í haust var svo lagt fram að nýju, frumvarp til Sviðslistalaga með einhverjum breytingum. Það sem er jákvætt við þetta frumvarp fyrir dansinn er að nú stendur til að festa í lög starfsemi Íslenska dansflokksins sem til þessa hefur verið rekinn samkvæmt reglugerð. Þannig styrkist lagagrundvöllur flokksins til muna og hann öðlast fastari sess hjá hinu opinbera. Þá var það mikill sigur að horfið var frá tillögum um svokallað sólarlagsákvæði sem kvað á um niðurfellingu á endurmenntunarstyrkjum dansara flokksins. FÍLD talaði fyrir því á vettvangi BIL og innan samráðsnefndarinnar og fékk fullan stuðning þeirra og LSÍ að þetta ákvæði skyldi áfram halda gildi sínu enda hluti af kjarasamningi dansara og ekki hægt að afnema það sísvona með lögum. Félög listamanna gáfu þannig fullan pólitískan stuðning við málið sem að SFR kláraði svo í framhaldinu. Frumvarp til sviðslistalaga er að koma úr umsagnarferli innan nefndasviðs Alþingis og bíður annarar umræðu.  Sumar umsagnirnar sem hafa komið inn til Alþingis ganga mjög gegn tillögum samráðsnefndarinnar en svo á eftir að koma í ljós hversu mikið tillit verður tekið til umsagnaraðila og eins hreinlega hvort frumvarpið nær í gegn fyrir þinglok.

Allt almennt starf á vegum FILD eins og t.d. hjá stjórn er unnið í sjálfboðavinnu og því mikilvægt að félagsmenn geri sitt til að hjálpa til þegar á þarf að halda. Vefstjórinn okkar Guðrún Óskarsdóttir hefur áfram haldið utan um vefsíðu félagsins og reynum við að hafa reglulegt flæði af fréttum af fólkinu okkar og danslistinni. Besta leiðin til þess að síðan sé mjög virk er að við félagsmenn séum dugleg að senda inn fréttatilkynningar af því sem við erum að gera hverju sinni. Því hvetjum við félagsmenn til að vera ófeimnir við að senda fréttir og fréttatilkynningar á Guðrúnu svo síðan okkar verði sem öflugust.

Reykjavík Dance Festival var með mjög óhefðbundu sniði þetta árið og má kannski segja að hátíðin hafi verið meira sniðin að þátttakendum sjálfum en hinum almenna áhorfanda sem vissi ekki alveg við hverju var að búast þegar hann mætti á staðinn. Það er gaman að sjá hvernig hátíðin tekur alltaf einhverjum breytingum á milli ára og er aldrei alveg eins.  Margir skemmtilegir viðburðir litu dagsins ljós í ár eins og LunchBeat sem er kominn til að vera og setur skemmtilegan svip á dansflóruna. Þá bárust þau ánægjulegu tíðindi nýlega að Reykjavíkurborg gerði 3ja ára samstarfssamning við Reykjavik Dance Festival sem og Dansverkstæðið sem styrkir rekstargrundvöllinn til muna. Nú bíðum við bara spennt og sjáum hvað næstu forsvarsmenn hátíðarinnar bjóða uppá í haust.

Fyrir utan RDF hefur verið mikil gróska í starfsemi sjálfstæðra danshópa. Danshöfundar og hópar setja reglulega upp sýningar og fögnum við því að þessar sýningar verði til þrátt fyrir takmarkað fjármagn.  Aðstaðan í Dansverkstæðinu skiptir hérna mjög miklu máli fyrir sjálfstæða geirann og má segja að starfsemin blómstri þessa dagana, fleiri eru farnir að sækja þjálfunartíma á morgnana og húsnæðið nýtist bæði sjálfstætt starfandi danslistamönnum og skólum.
Við sem fagfélag og samfélag dansara styðjum best við bakið á sjálfstæðum danshöfundum með því að mæta á sýningarnar þeirra og vera dugleg að taka fólk með okkur.
Þá hafa íslenskir dansarar/danshöfundar verið á faraldsfæti og dansað víðsvegar um Evrópu, Tokyo, Ísrael, Brasilíu og víðar. Tækifærin eru ekki mörg hér á landi og því einstaklega ánægjulegt að sjá íslenska danslistamenn geta sér góðs orðs erlendis. Í því samhengi má minnast á Bryndísi Rögnu Brynjólfsdóttur dansara með Scapino-flokknum í Rotterdam Hollandi, sem var valin ein af 100 bestu dönsurum í heiminum af tímaritinu Dance Europe dansárið 2011-12.
Í byrjun mars var tilkynnt um skipan Láru Stefánsdóttur sem nýs listdansstjóra Íslenska dansflokksins frá og með 1.ágúst 2012. Lára tók við af Katrínu Hall sem sagði skilið við flokkinn eftir 16 ára farsælt starf. Það er augljóst að þar sem Íslenski dansflokkurinn er ákveðin burðarstoð í íslensku danslífi þá hefur listdansstjóri mikil áhrif á þróun danslistarinnar í landinu. Við fylgjumst því spennt með hvaða stefnu Lára mun taka með flokkinn og vonandi vinna honum frekari framgangs. Þá endurnýjaði Íslenski dansflokkurinn leigusamning sinn við Borgarleikhúsið á árinu og verður þar áfram enn um sinn með sýnar föstu sýningar. Þess utan fer Dansflokkurinn reglulega í sýningarferðir innanlands og víða erlendis þar sem jafnan er gerður góður rómur að sýningum flokksins.

Á árinu fagnaði Ballettskóli Guðbjargar Björgvins 30 ára afmæli, Danslistarskóli JSB varð 45 ára á árinu og Ballettskóli Sigríðar Ármann átti 60 ára  afmæli sem gerir hann að elsta einkarekna ballettskóla á landinu. Listdansskóli Íslands áður Listdansskóli Þjóðleikhússins  fagnaði 60 ára afmæli á árinu. Guðmundur Helgason var ráðinn skólastjóri þess skóla frá 1.ágúst en hann hefur kennt við skólann með hléum frá 1993 og því öllum hnútum kunnugur innan veggja skólans. Einnig urðu eigendaskipti á Listdansskóla Hafnarfjarðar í árslok þegar Eva Rós Guðmundsdóttir keypti skólann.

Í haust setti RÚV  í framleiðslu aðra seríu af Dans Dans Dans en litlu munaði að þættirnir yrðu blásnir af. Það var því enn ánægjulegra þegar tilnefningar til Eddunnar voru birtar á dögunum og í ljós kom að þátturinn er tilnefndur sem besti skemmtiþáttur í sjónvarpi. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og aukið áhuga á dansi. Það er vonandi að sjónvarpið finni fyrir þessum áhuga og setji á dagskrá fleiri þætti og myndir um dans. Það vitum við að af nógu er að taka af bíómyndum, dansstuttmyndum, heimildamyndum og svo framvegis.

Dansinn var í fókus við opnun Barnamenningarhátíðar í febrúar þegar 1200 börn úr grunnskólum borgarinnar dönsuðu sérstakan opnunardans í anddyri Hörpu. Dansinn var einnig í miklum fókus við upphaf listahátíðar í Reykjavík þegar þær Katrín Gunnarsdóttir, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, Sigríður Soffía Níelsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir dönsuðu í anddyrinu. Íslenski dansflokkurinn setti á Listahátíð upp sýningu í Hörpu í samvinnu við GusGus og sömu helgina stóð Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir sýningu byggðri á barnabókinni Maximús Músikús bjargar ballettinum en þar dönsuðu ca 120 nemendur Listdansskóla Íslands við tónlist sinfóníunnar í Eldborgarsalnum. Það má því segja að dansinn hafi yfirtekið Hörpu þessa daga.

Í september fóru alls níu manns frá Íslandi á ballettráðstefnuna „Ballet why and how?”  Ráðstefnan reyndist mikill innblástur fyrir þá sem fóru enda mjög flott fólk á meðal fyrirlesara sem talaði af mikilli andagift. FÍLD stóð svo fyrir kynningarfundi í samfloti við Hið íslenska dansfræðifélag sem reyndar varð eitthvað minna úr en til stóð vegna forfalla. Þeir sem mættu áttu þó gott spjall við formann FILD sem sagði frá sinni upplifun af ráðstefnunni og hvað honum þótti merkast af því sem fyrir augu og eyru bar. Ráðstefnuhaldarar eru þegar farnir að planleggja næstu ráðstefnu sem mun hafa yfirskriftina „Ballet: Here and Now” en hún verður haldin í Arnhem Hollandi árið 2015.

Þessa dagana situr Ingibjörg Björnsdóttir við skriftir og vinnur að því að klára bókina um sögu listdans á Íslandi en sú bók á mjög langa sögu allt frá því að stjórn FILD fór þess á leit við Árna Ibsen að taka að sér skriftirnar. Það er von stjórnar að Ingibjörg nái að klára ritun bókarinnar sem fyrst og næsta verkefni okkar verður svo að fá grænt ljós á handritið hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs og fjármagna útgáfu bókarinnar. Þar gæti reynt á hjálp félagsmanna eins og svo oft áður.

Það er því mikill þróttur í íslensku danslífi og mörg jákvæð teikn á lofti fyrir framtíðina – verkefnin eru mörg og saman getum við áfram unnið danslistinni brautargengi og haldið áfram að taka þessi skref til framfara.

Stjórn Félags íslenskra listdansara,
Guðmundur Helgason, formaður

Ársskýrsla FTT – Félags tónskálda og textahöfunda 2012

Samantekt FTT, Félags tónskálda og textahöfunda fyrir aðalfund Bandalags íslenskra listamanna í Iðnó laugardaginn 9.febrúar 2013.

Stjórn FTT skipa:
Jakob Frímann Magnússon, formaður
Sigurður Flosason, varaformaður
Samúel Jón Samúelsson
Helgi Björnsson
Margrét Kristín Sigurðardóttir
Hafdís Huld Þrastardóttir
Jónas Sigurðsson

Framkvæmdastjóri:
Jón Ólafsson

Félagsmenn eru 371
Félagsgjöld eru kr.6.000 og kr. 10.000

Helstu markmið FTT á árinu 2012:

a)      Að halda áfram því starfi sem lýtur að því að efla enn frekar hlut hryntónlistar á ljósvakamiðlum.

b)      Að veita höfundum íslenskra texta við erlend lög áframhaldandi atfylgi

c)      Að bæta skattalegt umhverfi tónskálda og textahöfunda

d)     Að halda á lofti verkum félagsmanna FTT með tónleikahaldi, nótnaheftaútgáfu og Söngvaskáldakvöldum

e)      Að leita leiða til að bæta höfundum það tjón sem þeir verða fyrir vegna ólöglegs niðurhals á tónlist.

Viðburðaalmanak FTT 2012:

 • Ingibjörg Þorbergs, heiðursfélagi FTT, varð 85 ára á árinu.
 • Þórir Baldursson, heiðursfélagi FTT, var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, Forseta Íslands.
 • Fuglabúr FTT í samvinnu við Rás 2 og Reykjavík Grapevine á Café Rósenberg og á degi ísl.tónlistar í Hörpunni.
 • Garðveisla FTT í júlí
 • Fræðslukvöld
 • Off-venue tónleikar á Iceland Airwaves
 • Skipulag Norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunanna (Harpa Awards) og Evrópuþings tónskálda (ECSA) í október. 

Helstu samstarfsverkefni:

SAMTÓNN = STEF + SFH
Íslensku tónlistarverðlaunin
Dagur íslenskrar tónlistar
Hljómgrunnur
ÚTÓN
Airwaves
Útflutnings- og þróunarsjóður
Reykjavík Loftbrú (ásamt Reykjavíkurborg og Icelandair)
BÍL
Listahátíð í Reykjavík
Samráð við borgarstjórn og ríkisstjórn

Skipan fulltrúa í Tónlistarsjóð, Listamannasjóð, úthlutunarnefnd Menningar- og ferðamálaráðs, Tónskáldasjóð Rásar 2, Tónskáldarsjóð 365, Ferðasjóðs STEFs, Kvikmyndartónlistarráðs, Leikhústónlistarráðs, IHM kassettusjóðs, Dómnefnd Eurovisjón o.fl.

STEF – Fortíð, nútíð og framtíð:

NPU – Samtök norrænna hryntónskáldafélaga

APCOE (ECSA, ECF, FFACE) Evrópsk samtök

CIAM, Alþjóðleg höfundafélagasamtök

CISAC Alþjóðleg innheimtumiðstöðvasamtök

Ársskýrsla FLÍ – Félags leikstjóra á Íslandi 2012

Félag leikstjóra á Íslandi telur í dag 92 félaga. Í stjórn félagsins sitja Kolbrún Halldórsdóttir, ritari, Gunnar Gunnsteinsson gjaldkeri og Jón Páll Eyjólfsson formaður. Varastjórn skipa Una Þorleifsdóttir, Rúnar Guðbrandsson og Eva Rún Snorradóttir en varastjórn er boðuð á stjórnarfundi

Samninganefnd FLÍ lauk samningum við Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur á síðasta ári. Þar með er nokkrum áfanga náð í kjara og réttindabaráttu félagsins. Viðræður við RÚV standa yfir en ennþá á eftir að ljúka samningum við nokkra samningsaðila.

FlÍ hafði á síðasta ári víðtækt samráð við önnur fagfélög innan sviðslistanna. Meðal annars um nýtt frumvarp MMR til sviðslistalaga. Enda er starfandi samráðsnefnd allra fagfélaganna sem hyggur á meiri samræðu um sameiginleg baráttu og hagsmunamál fagfélaga í sviðslistum. Samráðsnefndinn í samfloti við SL skilaði inn athugasemdum til Allsherjar og menntamálanefndar um frumvarp til sviðslistalaga.

Stjórn FLÍ vann að bestu getu að framkvæmd starfsáætlunar FLÍ sem var samþykkt á aðalfundi félagsins 2012. Þetta er fyrsta árið sem félagið starfar eftir slíkri starfsáætlun sem allir félagar hafa tækifæri á að móta.  Hún verður eflaust brýnd og enduskoðuð á komandi aðalfundi félagssins.

FLÍ er aðili að NSIR Sambandi Norrænna leikstjórafélaga. Þróunin á norðurlöndum hefur verið í þá átt að erlendum leikstjórum er boðin vinna undir töxtum og meðvitund félagsmanna hefur minnkað um rétt sinn á hinum norðurlöndum.  Samningar eru mjög ólíkir og því þarf að efla meðvitund sviðsleikstjóra um að hafa samband við viðkomandi fagfélög í því landi sem þeir eru að starfa í.  Einnig hefur orðið þróun á menningarpólitík á norðurlöndunum.  Aðal breytingarnar eru þær að armlengdarreglan er minna í hávegum höfð, meira um verkefna styrki í stað þess að gera langtíma samninga við minni leikhús, samstarfssýningar eru að tröllríða stofnunum án aðkomu fagfélaga, meiri harka í yfirstjórn sviðslistastofnanna sem skilar sér í einangrun leikstjóra þar sem þeim er hótað því að missa vinnuna ef þeir hafa samband við fagfélögin, afrit af samningum eru ekki að skila sér til stéttarfélaga o.s.frv.  Það er óhætt að fullyrða að FLÍ kannast vel við þær aðstæður sem kollegar okkar á norðurlöndunum eru að fást við.  Eitt af því sem unnið verður að á þessu ári er að kanna vilja leikstjórafélaga í Baltnesku löndunum til þáttöku í samtökunum ásamt því að efla tengslanet almennra félagsmanna og meðvitund þeirra um systurfélögin á hinum norðurlöndunum.

Það hefur verið metnaður stjórnar FLÍ að efla fagvitund félaga okkar og að vera leiðandi í umræðunni um sviðslistir og hagsmuni okkar sem starfa við sköpun sviðslista.

Veitt var úr menningarsjóði tvisvar á árinu og hlutu alls 4 félagar styrk úr sjóðnum.

Reykjavík febrúar 2013
Jón Páll Eyjólfsson

Ársskýrsla FLB – Félags leikmynda- og búningahöfunda

FLB mynd

Félag Leikmynda- og búningahöfunda var stofnað 18. maí 1994 í því skyni að vernda höfundaréttarhagsmuni og stefgjöld leikmynda- og búningahöfunda í atvinnuleikhúsum, kvikmyndum og sjónvarpi og til að efla kynningu á verkum höfunda. Hlutverk félagsins er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og hefur félagið frá stofnun átt aðild að Myndstefi sem fer með umboð félagsmanna og höfundaréttargæslu verka þeirra. FLB skipar einn aðila í stjórn Myndstefs. Það á einnig fulltrúa í stjórn Bandalags íslenskra listamanna. Félagið var frumkvöðull að stofnun Leikminjasafns Íslands árið 2003 og skipar félagið einn fulltrúa í stjórn safnsins.

Félagið er fagfélag en ekki stéttarfélag og er opið öllum þeim sem eiga höfundarverk á vettvangi leikmynda- og búningahönnunar í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum. Stéttarfélag leikmynda- og búningahönnuða í leikhúsi er 5. deild FÍL.

Ný stjórn var kosin á aðalfundi félagsins þann 28. febrúar 2012.

Stjórnina skipa:
Rebekka A. Ingimundardóttir formaður
Þorvaldur Böðvar Jónsson ritari
Úlfur Grönvold gjaldkeri

Varamenn:
Gunnar H. Baldursson og
Þórunn María Jónsdóttir

Framhaldsaðalfundur FLB var haldin 5. nóv. 2012.  Fundurinn snerist aðallega um samþykkt ársreikninga 2011 vegna gjaldkera skipta, einnig voru önnur mál til umfjöllunar.

Félagsmenn, sem greiða félagsgjöld, eru 35 talsins en alls voru 54 skráðir í félagið árið 2012. Stjórnin vinnur jafnt og þétt að því að kynna félagið fyrir nýjum félagsmönnum og sóttu alls 19 nýir félagar um aðild árið 2012.

Stjórnarfundir hafa verið haldnir óreglulega síðastliðið ár. Stjórnin hefur meðal annars einbeitt sér að því að halda fjölbreytta fyrirlestra sem gætu reynst félagsmönnum gagnlegir. Tveir fyrirlestrar  voru haldnir 2012. Vorið 2011 hóf stjórnin að þróa símenntunarstefnu félagsins, sem stendur vörð um sjóð félagsins.

Engum styrkjum var úthlutað 2012.

Enn á ný er hafin umræða innan stjórnar um að gera starf leikmynda- og búningahöfunda sýnilegra og koma því á framfæri hvernig vinna fyrir leikhús og kvikmyndir fer fram. Mikið hefur verið rætt innan stjórnar um stéttamál og launakjör félagsmana. Einnig hefur verið rætt að halda málþing um stöðu leikmynda- og búningahöfunda.

Reykjavík, janúar 2013
Fyrir hönd stjórnar FLB
Rebekka A. Ingimundardóttir

Ársskýrsla FÍL – Félags íslenskra leikara 2012

Félag íslenskra leikara er fag- og stéttarfélag leikara, dansara, leikmynda- og búningahöfunda og söngvara, stofnað fyrir rúmum 70 árum og hefur fullt samningsumboð fyrir félagsmenn sína í kjarasamningum við atvinnurekendur.  Tilgangur félagsins er að efla og styrkja íslenska leiklist og styrkja stöðu hennar í hvívetna, að gæta hagsmuna félagsmanna, bæði sameiginlegra og einstaklingsbundinna á sem flestum sviðum , svo sem með því að semja um eða að setja gjaldskrár um lágmarkskjör.  Og ekki síður að stuðla að því að hið opinbera verji sem mestu fé til leiklistarmála og hafa áhrif á að hvernig þeim fjármunum er ráðstafað og skipt.  Þetta eru markmið og tilgangur þessa ágæta félags – eftir þessu hefur verið unnið og stundum hafa hlutirnir gengið og stundum ekki eins og gengur.  Við teljum okkur hafa í gegnum tíðina  reynt að fylgja þessum markmiðum og að okkar mati standa sviðslistirnar nokkuð vel.  Gríðarleg aðsókn er að leikhúsum landsins og listrænt tel ég leikhúsin standa nokkuð vel – en aðsóknin er gríðarleg –  á annað hundrað þúsund miðar eru seldir í stórum leikhúsunum og það þýðir auðvitað ekkkert annað en að áhorfendum líkar við það sem uppá er boðið.  Það sem við höfum meiri áhyggjur af erusjálfstæðu leikhúsin – stóru leikhúsin eru nánast að éta smærri leikhúsin með miðatilboðum sem engin getur keppt við.  Þetta er auðvitað vandamál sem taka verður á í einhverskonar samkomulagi. Við höfum gert nokkra nyja kjarasamninga við stofnanaleikhusin á árinu og einnig nýjan kjarasaming við Leikfélag Akureyrar sem virðist vera að rétta úr kútnum eftir heldur leiðinleg  undanfarin ár.  Samkomulag virðist hafa náðst um að atvinnuleikhús verði áfram rekið á Akureyri sem eru ánægjuleg tíðindi . Við erum aðilar að Fia sem eru aþjóðleg samtök sviðslistarfólks og einnig erum við aðilar að norrænum samtökum sviðslistarfólks – sem halda fundi tvisvar á ári og gaman að geta þess að næsti fundur verður í Reykjavík í byrjun júní.  Ég læt hér lokið skýrslu minni til aðalfundar.

Randver Þorláksson
Formaður Félags Íslenskra Leikara.

 

Ársskýrsla AÍ – Arkitektafélags Íslands 2012

Starfsemi Arkitektafélags Íslands síðastliðið starfsár
hefur verið fjölbreytt eins og lesa má í ársskýrslu stjórnar sem má finna í heild sinni á vef félagsins www.ai.is. Þar er gerð grein fyrir starfsemi og rekstri félagsins og stiklað á stóru um helstu mál sem voru til umfjöllunar stjórnar og starfshópa AÍ á árinu 2012.

Félagsmenn í Arkitektafélagi Íslands eru 391. Þar af greiða 256 félagar árgjald.  Heiðursfélagar eru 2.

Á síðasta aðalfundi Arkitektafélags Íslands, sem haldinn var 28. nóvember 2012 voru eftirfarandi fulltrúar kjörnir í stjórn:

Sigríður Ólafsdóttir, formaður
Logi Már Einarsson, gjaldkeri og varaformaður
Hrólfur Karl Cela, ritari

REKSTUR OG SKRIFSTOFA
Á skrifstofu AÍ eru 2 fastir starfsmenn þau, Hallmar Sigurðsson framkvæmdastjóri AÍ (60% starf) og Helga Sjöfn Guðjónsdóttir gjaldkeri/ritari (70% starf).

Dr. Kristín Þorleifsdóttir verkefnastjóri Vistmenntar hefur einnig starfað á skrifstofunni mestan hluta ársins 2012.

Tekjustofnar félagsins eru félagsgjöldin annars vegar og samkeppnir hins vegar.

Á árinu 2012 voru haldnar 10 samkeppnir með aðkomu AÍ og er það metfjöldi á einu ári. Tekjur félagsins af þessum samkeppnum eru helsta ástæða þess að mikill bati hefur orðið á rekstri félagsins.

Arkitektafélagið hefur ásamt Listasafni Reykjavíkur og Þjóðskjalasafni með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að því að skrá þau gögn sem áður tilheyrðu byggingarlistadeild Listasafns Reykjavík áður en hún var lögð niður og afhenda þau Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu. Umsjón með verkinu hefur Pétur H. Ármannsson arkitekt haft og Sigurlín Steinbergsdóttir hefur unnið við skráninguna sem starfsmaður AÍ.

ÚTGÁFA
Arkitektafélag Íslands í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta gefur út tímaritið Arkitektúr – tímarit um umhverfishönnun. Á síðasta ári var gefið út eitt tölublað og var þar m.a. fjallað um Hörpu og uppbyggingu í Kvosinni.

FÉLAGSSTÖRF
Á vegum félagsins starfa 9 fastanefndir, auk þess starfa starfshópar um sérstök málefni sem unnið er að hverju sinni. Nefndirnar starfa með framkvæmdastjóra og í samráði við stjórn félagsins.

VIÐBURÐIR OG DAGSKRÁ Á VEGUM AÍ
Dagskrá félagsins á starfsárinu var nokkuð fjölbreytt. Þátttaka í Hönnunarmars var með nýju sniði þetta árið þar sem annars vegar var efnt til vinnusmiðju í Ráðhúsi Reykjavíkur  og hins vegar sett upp sýningin „arkitektúr í líkönum“ í samstarfi við LHÍ og Yrki arkitekta. Auk þess voru á vegum félagsins ýmsir fyrirlestrar og hádegisverðarfundir.

Ársskýrsla TÍ – Tónskáldafélags Íslands 2012

Skýrsla Tónskáldafélags Íslands fyir aðalfund BÍL  

Stjórn Tónskáldafélags Íslands skipa:
Kjartan Ólafsson, formaður
Hildigunnur Rúnarsdóttur, ritari
Tryggvi M. Baldvinsson, gjaldkeri 

Inngangur
Síðastliðið starfsár Tónskáldafélags Íslands var óvenju viðburðaríkt. Fastir liðir eins og venjulega voru ISCM, Myrkir músíkdagar og Norrænir músíkdagar.

Myrkir músíkdagar 2013
Myrkir músíkdagar voru haldnir í lok janúar sl. samkvæmt venju.  Á efnisskránni voru m.a. sinfóníutónleikar, sinfóníettutónleikar, kammertónleikar, kórtónleikar, raftónleikar, einleikstónleikar og tónleikar með börnum. Meðal flytjenda voru nokkrar af helstu hljómsveitum, kammerhópum og einleikurum þjóðarinnar, þ.á m. Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hóf hátíðina að venju með glæsilegum opnunartónleikum. Þá var haldin fjöldi fyrirlestra og námskeiða í samstarfi við Listaháskóla Íslands og bar þar hæst heimsókn prófessora og nemenda Brandon University í Kanada sem auk þess komu fram á tvennum tónleikum á hátíðinni sjálfri í Hörpu.

Í samstarfi við IMX/Útón bauð Tónskáldafélagið hingað til lands áhrifafólki frá erlendum fjölmiðlum og tónlistarhátíðum. Á meðal gesta voru m.a. Faith Wilson Arts Publicity, UK  og Hillary Finns frá The Times – sem þegar hefur birt mjög jákvæða gagnrýni um hátíðina í The Times.

Allir þessir aðilar fjalla um Myrka á sínum vettvangi og hefur hátíðin – sem og nýja tónlistarhúsið Harpa –  fengið mjög jákvæða umfjöllun það sem af er.

Stefnt er að því að auka tengsl Myrkra músíkdaga enn frekar við alþjóðlegt tónlistarlíf í framtíðinni en netverk tónlistarhátíða er vaxandi þáttur í starfsemi tónlistarhátíða því það býður upp á aukna fjölbreyttni og fjárhagslega hagræðingu í framkvæmd tónlistarhátíða.

Tónskáldafélagið vinnur nú að verkefninu Connecting Continents en það tengir Myrka músíkdaga við tónlistarhátíðir Evrópu og Bandaríkin. Hugmundin er að velja eitt evrópskt land og eina “borg” í USA eða Kanada hverju sinni og hafa Myrka músíkdaga sem miðpunktinn. Þegar er komin á tengsl við New York, Spán, England, Holland, og Kanada.

Undirbúningur að næstu Myrkum músíkdögum er þegar hafin með þetta verkefni innanborðs en þar eru meðal annars ráðgerðir sinfóníutónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kórtónleikar, strengjakvartettstónleikar og raftónleikar svo eitthvað sé nefnt en hátíðin verður jafnframt í samstarfi við spænsku myndlistar- og tónlistarhátíðina Center for Visual Music.

Liststjórnendur Evrópskra tónlistahátíða og MMD
Á síðustu þremur árum hefur verið starfræktur óformlegur samráðsvettvangur listrænna stjórnenda helstu tónlistarhátíða í Evrópu og var formanni boðið að taka þátt fyrir hönd Myrkra músíkdaga á sínum tíma. Á meðal hátíða þar má nefna Huddersfíeldhátíðina í Bretlandi, Nóvembermúsík í Hollandi, Trans-It hátíðina í Belgíu, MarchMusic í Berlín, Musikkin Viitasaari í Finnlandi, Varsaw Autumn í Pollandi, Ultima í Oslo, Musikin Nova í Helsinki og fl.  Nokkrir óformlegir fundir hafa verið haldnir í tengslum við þessar hátíðir og er tilgangurinn að vinna að sameiginlegum verkefnum og koma upp samstarfsneti milli þessara hátíða.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa fyrir Ísland því samstarfsverkefni milli Huddersfield hátíðarinnar í Bretlandi, Transit í Belgíu og Myrka músíkdaga er í gangi. Verkefnið byggir á pöntunum á þremur nýjum tónverkum frá þessum löndum sem voru flutt á öllum þessum hátíðum.

Þá hefur verið ákveðið að stofna til formlegs samstarfs og byggja upp net fyrir skipulagða samvinnu á milli tónlistarhátíða og er undirbúningur þegar hafinn að umsókn til Evrópusambandsins sem mun verða lögð inn n.k. vor.

Samtónn
Samtónn, samtök flytjenda, höfunda og útgefanda, hefur á undanförnum árum unnið að sameiginlegum hagsmunarmálum tónlistarlífsins og styrkt stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Aðilar að SAMTÓNI eru STEF og SFH, Samtök flytjenda og hljómplötuframleiðanda. Samtökin vinna nú að einu veigamesta hagsmunamáli rétthafa tónlistar í dag en það er tekjuöflun vegna netnota. Samtökin eiga nú þegar í viðræðum við símafyrirtækin og njóta viðræðurnar stuðnings opinberra aðila.

Norrænir músíkdagar
Félagið tók þátt í Norrænum músíkdögum sem haldnir voru í Svíþjóð á s.l. ári. Hátíðin bar merki um þann niðurskurð og breytingar á stuðningi opinberra aðila við tónlistarlífið sem átt hafa sér stað í Svíþjóð á undaförnum árum og var hátíðin umfangsminni en oft áður af þeim sökum.

ISCM
Alþjóðlega tónlistarhátíðin ISCM (International Society for Contemporary Music)  var haldin í Belgíu 2012. Þar var verk Önnu Þorvaldsdóttur HRÍM valið til flutnings á hátíðinni fyrir hönd Íslands sem hlaut mjög góðar viðtökur en Anna hlaut einnig Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs á árinu fyrir verkið Dreaming fyrir hljómsveit.

ECF/ECSA
Formaður Tónskáldafélagsins hefur undanfarin fjögur ár setið í aðalstjórn evrópsku tónskáldasamtakanna Europea Composers Forum (ECF) en ECF eru samtök með yfir 30 tónskáldafélögum í Evrópu. Hlutverk samtakanna er að vinna að hagsmunamálum evrópskra tónskálda m.a. gagnvart Evrópustjórninni í Brussel. ECF er jafnframt hluti af þríeykinu ECSA sem eru regnhlífasamtök sem að auki samanstanda af samtökum kvikmyndatónskálda FFACE og samtökum léttra tónhöfunda APCOE. Saman (ECSA ) vinna þessi samtök að erfiðu verkefni í Evrópu en það er réttindabarátta höfunda í netheimum gagnvart útgefendum í Evrópu. Ljóst er að með þessari samstöðu hefur orðið til afl sem Brusselstjórnin verður að hlusta á og taka tillit til. Þá má bæta við að innheimtusamtök í Evrópu eru mjög hlynnt þessari starfsemi enda hefur það sýnt sig að það er mun áhrifameira þegar listamennirnir sjálfir funda með embættismönnum í Brussel um eigin hagsmunamál heldur en löglærðir “plöggarar”.

Fjárhagur Tónskáldafélagsins
Fjárhagur félagsins hefur farið batnandi á undanförnum árum þrátt fyrir sviptingar í fjármálaheiminum og aukin umsvif félagsins.

Í ársreikningi fyrir 2011 er nú búið að setja Myrka músíkdaga og Norræna músíkdaga undir sérstaka liði og kemur nú skýrar fram en áður hvernig fjárstreymi félagsins er varðandi hin ýmsu verkefni félagsins. Allar erlendar og innlendar skuldir (frá 2007-2008) hafa nú verið greiddar upp og var heildarvelta Tónskáldafélagsins á árinu 2011 að öllu meðtöldu rúmar 73 milljónir.

Reykjavík  09. 02. 2013
Kjartan Ólafsson, formaður TÍ

Ársskýrsla FÍT – Félags íslenskra tónlistarmanna 2012

FÉLAG ÍSLENSKRA TÓNLISTARMANNA – klassísk deild FÍH
Skýrsla formanns fyrir árið 2012 á aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna, 9. febrúar 2013

Aðalfundur FÍT var haldinn 4. desember síðastliðinn. Breytingar urðu á stjórn en hana skipa nú:
Dr. Nína Margrét Grímsdóttir, formaður,
Gunnar Guðbjörnsson, varaformaður,
Hallveig Rúnarsdóttir, gjaldkeri,
Margrét Bóasdóttir, ritari og
Þórarinn Stefánsson, meðstjórnandi.

Varastjórn skipa:
Kristín Mjöll Jakobsdóttir,
Helga Þórarinsdóttir og
Guðríður Sigurðardóttir

Félagar í FÍT – klassískri deild FÍH eru nú 153, einleikarar, einsöngvarar og stjórnendur

Félagið sinnir ýmsum hagsmunamálum félagsmanna og hefur umsjón með listrænum samstarfsverkefnum við ýmsa aðila. Fjöldi nefndarstarfa fylgir formanns- og stjórnarstörfum, s.s. í Bandalagi íslenskra listamanna, Listráði Hörpu og Samtökum flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SFH.

Tekjustofnar FÍT – klassískrar deildar FÍH hafa verið félagsgjöld og framlög frá SFH auk sérstakra verkefnastyrkja.

Ný heimasíða er í vinnslu og verður tekin í notkun á starfsárinu. Á heimasíðu félagsins, www.fiston.is verða birtar fréttir og upplýsingar um verkefni og styrki ásamt auglýsingum sem varða félagsmenn og listalífið almennt. Fréttabréf og tilkynningar eru send rafrænt og erlendum samskiptum sinnt eftir föngum.

Hljómdiskasjóður FÍT – klassískrar deildar FÍH:

Fjármagn í sjóðinn kemur af úthlutunarfé Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SFH.

2012 var úthlutað tveimur styrkjum að upphæð 200. 000 kr og komu þeir annars vegar í hlut Melkorku Ólafsdóttur flautuleikara til að hljóðrita einleiksfantasíur eftir Telemann, og hins vegar hlutu Emil Friðfinnsson hornleikari og Þórarinn Stefánsson píanóleikari styrk saman til að hljóðrita íslensk tónverk fyrir horn og píanó.

Listræn samstarfsverkefni FÍT – klassískrar deildar FÍH:

Tónleikar á landsbyggðinni

Verkefnið hefur verið í samstarfi við FÍH með styrk úr Tónlistarsjóði. Verkefnisstjóri, Þórarinn Stefánsson, annast umsýslu styrksins sem greiðir hluta þóknunar flytjenda á tónleikum á landsbyggðinni. Samstarf er við rúmlega 30 sveitarfélög og tónlistarfélög. Um 9-10 tónlistarhópar og einleikarar halda u.þ.b 30 tónleika á landsbyggðinni ár hvert á vegum verkefnisins.

Tónleikaröð í Norræna húsinu, Klassík í Vatnsmýrinni

Farsælt samstarf við Norræna húsið hófst 2009. Fernir tónleikar hafa verið haldnir ár hvert, tvennir með íslenskum flytjendum og tvennir með norrænum eða alþjóðlegum flytjendum, m.a. fyrir samvinnu við aðildarfélög Nordisk solistråd.

Boð um tónleikahald kom frá Dansk Solist-forbund á árinu 2012 vegna tónleika sem haldnir voru á árinu 2009 í Norræna húsinu á vegum FÍT – klassískrar deildar FÍH og var auglýst eftir umsóknum í maí 2012. Dean Ferrell kontrabassaleikari var valinn til að vera fulltrúi FÍT – klassískrar deildar FÍH til að leika á tvennum Solisterier tónleikum í Kaupmannahöfn helgina 10.-11. nóvember 2012.

Einnig kom í haust boð frá Noregi vegna tónleika í Vigeland Museum næsta sumar. Auglýst var eftir umsóknum í september og fór úthlutun fram í lok október. Það voru þær Hlín Pétursdóttir söngkona og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari sem voru valdar sem fulltrúar FÍT – klassískrar deildar FÍH á tónleikunum næsta sumar. Haustið 2011 komu einmitt norskir tónlistarmenn og léku tónleika í Klassík í Vatnsmýrinni.

Ársfundur Nordisk Solistråd 2012 var haldinn í Osló í tilefni af 100 ára afmæli Norsk Tonekunstnersamfund. Kristín Mjöll og Hallveig voru fulltrúar stjórnar FÍT – klassískrar deildar FÍH á fundinum.

Ársfundurinn var með hefðbundnum hætti en í lok fundarins kom fulltrúi frá Rikskonserterne í Noregi sem nú heitir Skolesækken og hélt kynningu um verkefnið og fjármögnun þess. Engir samnorrænir tónleikar voru haldnir að þessu sinni. Í staðinn var fundargestum boðið á hátíðartónleika tilefni 100 ára afmælis Norsk Tonekunstnersamfund.

Listráð Hörpu tók til starfa um mitt ár 2010. Formaður FÍT – klassískrar deildar FÍH situr í stjórn Listráðsins, varaformaður situr sem varamaður. Unnið verður að því markmiði að félagsmenn eigi gott aðgengi að tónleikahaldi innan veggja Hörpu.

SFH Formaður situr í stjórn SFH sem eru innheimtusamtök fyrir flytjendur og hljómplötuframleiðendur vegna tekna sem myndast af flutningi tónlistar af geisladiskum í fjölmiðlum og á fjölsóttum stöðum.

Einstaklingsúthlutun þess fjármagns sem innheimtist af SFH hófst í byrjun árs 2011 en hluti af því fé sem ekki er greitt út til einstaklinga rennur áfram til aðildarfélaganna í þeim hlutföllum sem ákvörðuð voru með gerðardómi fyrir hartnær 20 árum. Þetta er það fjármagn sem hefur runnið í Hljómdiskasjóð félagsins sem einnig var að hluta til verið notað til reksturs félagsins. Á þessu ári var ákvörðuð sú upphæð sem myndi renna til félaganna á móti einstaklingsúthlutunni og hófust greiðslur á ný til félagsins, sem munu nú nema um 300 þús kr á ári, en greiðslur lágu niðri frá því upphafi árs 2010.

 

Nefndir og ráð sem FÍT – klassísk deild FÍH á aðild að:

 • Bandalag íslenskra listamanna
 • Nordisk solistråd
 • Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda
 • Íslensku tónlistarverðlaunin
 • (Samtónn)
 • Listráð Hörpu
 • Menningarsjóður SUT og Ruthar Hermanns
 • Tónlist fyrir alla – sameiginlegur fulltrúi með FÍH
 • Fulltrúaráð Listahátíðar
 • Höfundarréttarráð
 • Úthlutunarnefnd Starfslaunasjóðs tónlistarflytjenda
 • Valnefnd Grímuverðlaunanna, – íslensku leiklistarverðlaunanna

Árið 2012 var tímamótaár fyrir félagið þar sem helsta verkefni fráfarandi stjórnar var að stýra undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðrar inngöngu FÍT í FÍH undir þeim formerkjum að sameinast klassískri deild FÍH, en starfa engu að síður undir sjálfstæðum formerkjum og eigin kennitölu. Faglega var staðið að þessari vinnu sem lauk með rafrænni kosningu þar sem þessi skipulagsbreyting var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða félagsmanna. Hluti af breytingunni fól í sér endurskoðun laga félagsins sem fór fram á aðalfundi 4. 12. 2012, svo og breyting á nafni félagsins, sem heitir nú Félag íslenskra tónlistarmanna – klassísk deild FÍH. Samningur var undirritaður af núverandi stjórnum beggja félaga 14. 1. 2013 og mun gilda til ársloka 2014.

Markmiðin með breytingunni eru að sameina tónlistarflytjendur klassískrar tónlistar í eitt félag sem vinnur að listrænum framgangi og hagsmunum flytjenda. Leiðarljósið er bætt samstarf innan greinarinnar, meiri skilvirkni og samlegðaráhrif, efling innra starfs, samþætting og bætt rekstrarumhverfi.

Framtíðarsýn um listræn verkefni FÍT – klassískrar deildar FÍH felur í sér nýtingu nýrra sóknartækifæra sem tengjast m.a. samstarfi menningar og ferðaþjónustu innanlands og utan, alþjóðlegu samstarfi um tónleikahald, kynningarverkefnum á veraldarvefnum, samstarfi við helstu lista- og menningarstofnanir, samstarfi FÍT – klassískrar deildar FÍH við aðrar deildir inna FÍH sem miðast að því að auka vægi lifandi tónlistarflutnings í samfélaginu. Að lokum má nefna markvissan stuðning FÍT – klassískrar deildar FÍH við flytjendur klassískrar tónlistar til að hlúa að yngri kynslóð tónlistarfólks gegnum ýmis samstarfsverkefni.

Ég vil þakka fráfarandi formanni félagsins Kristínu Mjöll og stjórn hennar árangursrík störf og lít fram á veginn með bjartsýni og tilhlökkun til að leiða félagið inn í nýja tíma og spennandi tækfæra á sviði tónlistarflutnings ásamt samstarfsfólki mínu í stjórn.

Fyrir mína hönd og FÍT – klassískrar deildar FÍH – vil ég þakka stjórn og forseta BÍL fyrir ánægjulega og góða samvinnu.

Dr. Nína Margrét Grímsdóttir, DMA, MA, PSD, LGSM
Formaður FÍT – klassík deild FÍH
Aðalþing 5 203 Kópavogur
+354 899 6413
nina@ninamargret.com
www.ninamargret.com

Page 20 of 42« First...10...1819202122...3040...Last »