Author Archives: vefstjóri BÍL

Starfsumhverfi skapandi greina metið

Nú er sumri tekið að halla og flestir komnir til starfa að loknu sumarleyfi tilbúnir að takast á við verkefnin framundan. Það gildir einnig um stjórn BÍL, en hún heldur fyrsta stjórnarfund haustsins nk. mánudag 15. ágúst í Iðnó. Á fundinum verður yfirfarin fyrirliggjandi starfsáætlunin, sem samþykkt var á aðalfundi BÍL í janúar sl. Verkefnin sem hæst ber tengjast starfskjörum listafólks; svo sem skattalegri meðferð höfundalauna og réttindagreiðslna hvers konar, fyrirkomulagi fjárveitinga til lista og menningar, menningarhlutverki Ríkisútvarpsins auk þess sem unnið er að útfærslu hugmynda um akademíu listamanna. Ályktanir aðalfundar og starfsáætlun BÍL má sjá á fréttasíðu heimasíðunnar dags. 5. feb. 2011.

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins fer nú fram vinna við að meta starfsumhverfi skapandi greina, en það verkefni var sett á laggirnar í framhaldi af kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina, sem birt var í áföngum síðastliðinn vetur.  Á vordögum skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp, sem gert er ráð fyrir að skili niðurstöðum fyrir lok ágústmánaðar. Forseti BÍL á sæti í starfshópnum. Starf hópsins felst í því að leggja mat á hvernig bæta megi starfsumhverfi skapandi greina og nýta sem best þau tækifæri sem til staðar eru í þágu öflugra atvinnulífs. Reynt er að skoða samspil kraftmikillar grasrótar í listum og þeirra atvinnugreina sem flokkaðar hafa verið sem „vaxtagreinar“. Þar er ekki síst litið til hönnunargreina hvers konar, arkitektúrs, útgáfustarfsemi, auglýsingageirans, hugbúnaðar- og hugvitsgreina en einnig til atvinnulífsins almennt sem sækist í auknum mæli eftir skapandi einstaklingum til að starfa.

Það er mikilvægt að skrásett verði með hvaða hætti ríki og sveitarfélög hafa mótað stefnu á sviði menningar og lista, slík skrásetning auðveldar umræðu og frekari stefnumótun varðandi þær atvinnugreinar sem byggja að hluta eða öllu leyti á fólki með list- eða hönnunarmenntun. Einnig er mikilvægt að skoða með hvaða hætti stjórnvöld styðja við þessar atvinnugreinar. Í því augnamiði leggur hópurinn ríka áherslu á að greina fjárlög íslenska ríkisins 2011 með tilliti til þarfa skapandi greina. Menntun og rannsóknir í geiranum eru einnig til skoðunar, fjárfestingar og samlegð við aðrar atvinnugreinar, auk þess sem leitast er við að greina stöðu skapandi greina í stjórnkerfinu.

Það er mat starfshópsins að vinnan auðveldi til muna þann ásetning, sem lýst er í sóknaráætlun fyrir Ísland 20/20; að skapandi greinar gegni lykilhlutverki í að endurnýja kraftinn í atvinnulífi þjóðarinnar til framtíðar. Sá ásetningur rímar vel við áform þau sem staðfest hafa verið á vettvangi norrænnar samvinnu, t.d. í nýsamþykktri stefnu KreaNord sem aðgengileg er að vefnum http://www.kreanord.org/.  Þar leggja atvinnu- og menningarmálaráðherrar Norðurlandanna áherslu á að í skapandi greinum geti verið fólgin leið til aukinnar verðmætasköpunar og nýsköpunar, að skapandi greinar geti gegnt hlutverki við að bæta aðgang norrænna afurða að alþjóðamörkuðum, fjármögnun og aðkomu óskyldra fjárfesta að fyrirtækjum sem byggja á skapandi greinum. Auk þess sem ráðherrarnir eru sammála um að efla beri menningu og sköpun á öllum sviðum menntunar á Norðurlöndum og auka vægi frumkvöðlastarfs og starfshæfni í öllum námsleiðum á sviði menningar og lista.

Reykjavík útnefnd bókmenntaborg UNESCO

– komin í hóp skapandi borga á heimsvísu

Reykjavíkurborg hefur verið útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Tilkynning þess efnis barst borgarstjóra og Menningar- og ferðamálasviði borgarinnar í gær, þann 4. ágúst 2011. Í útnefningunni segir meðal annars að Reykjavík státi af framúrskarandi bókmenntahefð í formi ómetanlegra miðaldabókmennta sem varðveittar eru í borginni og eru Íslendingasögurnar, Eddukvæði og Íslendingabók nefnd sérstaklega.  Þá segir að þessi rótgróna hefð sýni sig í varðveislu, miðlun, bókmenntakennslu og kynningu bókmennta í dag.  Einnig er tekið til þess að svo fámenn borg sinni bókmenntum af svo miklum krafti sem raun ber vitni, með þátttöku og samvinnu ólíkra aðila sem koma að bókmenningu og miðlun bókmennta, svo sem útgefenda, bókasafna og rithöfunda.

„Ég fagna því innilega að Reykjavík skuli hafa verið valin bókmenntaborg UNESCO. Þetta er mikill heiður fyrir Reykjavík. Íslendingar eru þekktir fyrir listir og menningu út um allan heim og þetta er staðfesting á því hvað menning okkar er verðmæt. Af öllum okkar auðæfum er menningin dýrmætust,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri.

Sem Bókmenntaborg UNESCO mun Reykjavíkurborg, ásamt samstarfsaðilum sínum, renna enn frekari stoðum undir bókmenninguna í borginni, meðal annars með því að koma á fót miðstöð orðlistar í Reykjavík og lifandi vettvangi fyrir bókmenntaviðburði og dagskrár af öllum toga auk þess sem lestrarhvetjandi verkefni og samstarf við skóla mun skipa veglegan sess. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja ímynd Reykjavíkur sem bókmenntaborgar bæði innan lands og utan, bókmenntaslóðir verða til að mynda merktar á íslensku og ensku, haldið verður áfram að bjóða upp á bókmenntagöngur á íslensku og ensku og þær verða einnig gerðar aðgengilegar á rafrænu formi. Reykjavíkurborg leggur áherslu á góða samvinnu við alla þá mörgu aðila sem koma að bókmenningu í borginni, því Bókmenntaborgin Reykjavík er fyrst og fremst sameign þeirra allra svo og íbúa borgarinnar. Einnig horfir hún björtum augum til öflugs samstarfs við aðrar Skapandi borgir UNESCO.
 
Ali Bowden, framkvæmdastjóri Bókmenntaborgarinnar Edinborgar segir: „Við erum himinlifandi yfir því að Reykjavík hafi sé komin í hóp Bókmenntaborga UNESCO. Útnefningin mun eiga þátt í að vekja athygli á bókmenntum og bókmenntalífi borgarinnar út um allan heim. Hún mun stuðla að menningarlegum vexti borgarinnar líkt og gerst hefur í Edinborg og Reykjavík verður mikilvægur samstarfaðili í okkar alþjóðlega samstarfsneti.“

Reykjavík er fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan merka titil, en fyrir í samtökum Bókmenntaborga UNESCO eru Edinborg í Skotlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Melbourne í Ástralíu og Dublin á Írlandi.  Reykjavík er því fyrsta borgin utan enska tungumálasvæðisins til að hljóta titilinn, sem er varanlegur að því tilskyldu að borgirnar standi undir skuldbindingum sínum.  Bókmenntaborgirnar eru hluti af stærra neti Skapandi borga UNESCO og er Reykjavík 29. borgin til að fá aðild að samtökunum. Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur hafði veg og vanda af umsóknarferlinu fyrir hönd Reykjavíkurborgar undir forystu Svanhildar Konráðsdóttur sviðsstjóra. Verkefnisstjórar og höfundar umsóknar eru þær Auður Rán Þorgeirsdóttir og Kristín Viðarsdóttir.  Í stýrihópi voru einnig fulltrúar frá Rithöfundasambandi Íslands, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Bókmenntasjóði,  Hugvísindasviði Háskóla Íslands, Borgarbókasafni og Menntasviði Reykjavíkur.

Bókmenntaborginni Reykjavík verður formlega hleypt af stokkunum á Alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Reykjavík í september næstkomandi og einnig mun hún verða kynnt alþjóðlega með fjölbreyttum hætti á Bókasýningunni í Frankfurt í október í samvinnu við verkefnið Sögueyjan Ísland.

Sjá umsóknina á www.bokmenntaborgin.is og frétt UNESCO: http://portal.unesco.org/culture/en/ev.php-URL_ID=41687&URL_DO=DO_TOPIC&URL_SECTION=201.html

Úthlutun ríkisstyrkja og hlutverk fjárlaganefndar

Oddný G. Harðardóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis skrifar grein í Fréttablaðið í dag: 
Úthlutun óskiptra liða fjárlagafrumvarpsins, svokallaðra safnliða, hefur verið gagnrýnd harkalega mörg undanfarin ár. Þessir liðir eru alls um 0,3% af útgjöldum ríkisins í ár. Fjárlaganefnd hefur tekið við hundruðum umsókna á hverju hausti, tekið viðtöl og varið löngum tíma í að ákveða úthlutun fjármuna til einstaklinga, félaga og samtaka. Á sama tíma á nefndin að fara yfir alla aðra liði fjárlagafrumvarpsins. Gagnrýnisraddir hafa komið úr öllum stjórnmálaflokkum og Hreyfingunni og úr öllum kjördæmum vegna þessa. Við síðustu fjárlagagerð lýstu margir þingmenn óánægju sinni með fyrirkomulagið og þótti fjárlaganefnd brýnt að endurskoða vinnubrögðin sem tíðkast hafa.

Ákveðið var að skoða vandlega úthlutun Alþingis og ráðuneyta á safnliðunum, samtals um 1.500 milljónir króna. Þar af úthlutaði Alþingi um 800 milljónum fyrir árið 2011. Vinnuhópur innan fjárlaganefndar setti saman tillögur um vinnulag sem nýtast á vegna úthlutunar fyrir árið 2012 út frá eftirfarandi markmiðum:

1. Að úthlutun verði gegnsærri og til þess fallin að auka traust á því hvernig fjármunum ríkisins er skipt.
2. Að efla þarfagreiningu og eftirlit.
3. Að bæta stjórnsýslu og yfirsýn yfir einstaka málaflokka.
4. Að sjá til þess að ákvörðunartaka um umsýslu málaflokka sé fagleg og afgreiðsla mála samræmd.
5. Að fjárlaganefnd og fagnefndir geri tillögur um umfang einstakra fjárlagaliða en sjóðir, félagasamtök, menningarráð landshluta, vaxtarsamningar sveitarfélaga og ráðuneyti sjái um það sértæka, þ.e. dreifingu til einstakra verkefna.

Það að alþingismenn skuli velja og hafna umsóknum um styrki til einstaklinga, félaga og samtaka er vel til þess fallið að vekja tortryggni og hefur orðrómur um að þingmenn hygli sínu fólki verið hávær. Með þessu fyrirkomulagi er lögð gildra fyrir alþingismenn sem ætti ekki að vera til staðar. Auka þarf traust á því hvernig fjármunum ríkisins er úthlutað og hvernig þeim er varið. Til staðar eru ágætir verkferlar og farvegir fyrir safnliðina hvað þetta varðar, t.d. lögbundnir sjóðir, menningarsamningar sveitarfélaga og vaxtarsamningar sem hafa einnig úthlutað ríkisstyrkjum og ætlunin er að efla þá farvegi.

Stjórnsýslulög gilda um þá en ekki um Alþingi og því felst í breytingunni aukin neytendavernd og möguleikar styrkþega til að krefjast jafnræðis og röksemda fyrir úthlutun styrkjanna. Einnig skapast góð tækifæri landshlutasamtaka til að tengja menningarmál við almenna stefnumótun svæðisins þar sem gert er ráð fyrir að auknu fé verði veitt til menningarsamninga við sveitarfélög og hlutverk þeirra útvíkkað. Alþingi hafi hins vegar það hlutverk að ákveða fjármuni til hvers málaflokks fyrir sig og hafi virkt eftirlit með því að fjármununum sé varið eins og ætlast er til.

Heildarútgjöld ríkisins eru um 500 milljarðar króna og með því að gera þær breytingar á vinnulagi og verkaskiptingu sem til standa fær fjárlaganefnd betri tíma til að fara vandlega yfir þær víðtæku heimildir sem færðar eru framkvæmdarvaldinu með fjárlögum ár hvert. Þar vaka þingmenn yfir hagsmunum kjördæma sinna líkt og landsins í heild.

Íslenskar kvikmyndir hornreka á RÚV

Fréttablaðið birtir í dag athyglisverða grein Margrétar Örnólfsdóttur, sem fer hér á eftir:
Undanfarið hefur RÚV stært sig af því að í uppsiglingu sé íslenskt kvikmyndasumar, sýna eigi fjölda íslenskra bíómynda, bæði nýlegar og gamlar og góðar, sannkölluð kvikmyndaveisla. Þetta væri vissulega eitthvað til að hrópa húrra fyrir – ef maður væri andvökusjúklingur. Fyrsta myndin sem greiðendum afnotagjalda var boðið upp á var nýjasta mynd Dags Kára Péturssonar, The Good Heart. Það skal undirstrikað sérstaklega að um frumsýningu á íslenskri kvikmynd á RÚV er að ræða og maður myndi því ætla að henni væri valinn besti hugsanlegi tími í dagskránni eins og slíkum viðburði er sæmandi.

Ríkissjónvarpið kaus að sýna myndina aðfaranótt annars í hvítasunnu, nánar til tekið þegar klukkan var tíu mínútur gengin í eitt eftir miðnætti. Eftir að mér var runnin mesta reiðin yfir þessari fráleitu tímasetningu (sýningu myndarinnar lauk þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í tvö!) fór ég að velta því fyrir mér hvaða mögulegu ástæður gætu legið að baki þeirri ákvörðun að ræna stærsta hluta þjóðarinnar þeirri ánægju að horfa á íslenska kvikmynd. The Good Heart er ekki hryllingsmynd, hún er meira að segja leyfðtil sýninga fyrir alla aldurshópa.

Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að sömuleiðis stendur til að sýna þrjár stuttmyndir Rúnars Rúnarssonar kl. 23.10 á fimmtudagskvöldi, líka Skytturnar eftir Friðrik Þór Friðriksson. Mér létti örlítið að sjá að bæði Með allt á hreinu og Sveitabrúðkaup verða á skikkanlegum tíma, börn og kvöldsvæfir eiga þannig möguleika á að sjá þær ágætu myndir en misræmið í þessum tímasetningum er óskiljanlegt.

Íslenskar bíómyndir eru eins og krakki sem fær helst ekki að vera með en ef honum er leyft það þá er hann hunsaður og ekki hleypt í leikinn. Hvort tveggja er ömurleg framkoma. Ég get ekki fundið eina einustu skýringu á því að íslenskar myndir séu settar á dagskrá um miðja nótt aðra en þá að forsvarsmönnum RÚV sé hreinlega í nöp við íslenska kvikmyndagerð eða að um einhvers konar refsingu sé að ræða – að þau ætli sér að senda kvikmyndabransanum þau skilaboð að RÚV vilji sem minnst hafa saman við hann að sælda. RÚV myndi í raun sýna íslenskum kvikmyndum meiri sóma með því að sleppa því hreinlega að setja þær á dagskrá í stað þess að reisa þeim eitthvað í ætt við níðstöng á þennan hátt.
Fyrst RÚV ákvað á annað borð að kaupa sýningarréttinn á þessum kvikmyndum af hverju er tækifærið þá ekki nýtt betur? Fyrirtækið gæti í leiðinni rekið af sér slyðruorðið varðandi hlut leikins íslensks efnis í dagskránni.

Metnaðarleysi RÚV í þeim efnum væri reyndar efni í aðra grein, ef ekki greinaflokk. Sömuleiðis mætti skrifa margar greinar til að gagnrýna það að kjörtími (prime time) Ríkissjónvarpsins skuli á sama tíma og íslenskum kvikmyndum er ýtt út í horn lagður undir eitthvert þriðja flokks mót ófullburða fótboltaliða.
Reiði mín helgast ekki eingöngu af því að ég vinn sjálf við kvikmyndagerð, virðingarleysið er ekki síður og jafnvel enn þá meira gagnvart áhorfendum. Í mínum augum hafa forsvarsmenn RÚV með þessari tilhögun endanlega sýnt fram á vanhæfi sitt – ef þetta fólk veldur ekki einu sinni því tiltölulega einfalda verki að raða dagskrárliðum þannig að efnið skili sér til sem flestra sem það á erindi við þá á ekki að hleypa því í það, hvað þá meira krefjandi verkefni á borð við ákvarðanatöku sem varðar dagskrárgerð og stefnu í þeim málum. Hér er ekki verið að ræða um mismunandi smekk eða sjónarmið sem hægt er afgreiða sem álitamál, það hlýtur hver einasti maður að sjá að það er gjörsamlega glórulaust að sýna íslenskar bíómyndir eftir háttatíma, jafnvel þótt það sé frídagur daginn eftir. Nú vona ég að einhver sem ræður einhverju þarna í Efstaleitinu átti sig á mistökunum og leiðrétti þau til að sem flestir fái að njóta kvikmyndanna sem enn á eftir að sýna. Ef ekki þá er RÚV að bregðast því hlutverki sínu að stuðla að því að gera íslenskt menningarefni aðgengilegt sem flestum.

Úthlutun fjárlaganefndar af safnliðum breytist

Tilkynnt hefur verið um breytt fyrirkomulag úthlutana á safnliðum í fjárlögum. Um það má lesa eftirfarandi klausu á vef Alþingis:
Á árinu 2012 verða gerðar breytingar á úthlutun styrkja til félaga, samtaka og einstaklinga á þann veg að Alþingi ákvarðar einungis umfang einstakra málaflokka en lætur aðra aðila, svo sem lögbundna sjóði, menningarráð landshluta, ráðuneyti og fleiri um úthlutun úr þeim, allt eftir því sem við á. Öllum umsóknum um styrki verður fundinn farvegur þannig að taka megi afstöðu til þeirra á grundvelli fyrir fram ákveðinna viðmiða.
Þetta þýðir að fjárlaganefnd Alþingis mun ekki veita viðtöku erindum frá félögum, samtökum eða einstaklingum eins og verið hefur. Í september næstkomandi verður sett á vef Alþingis nánari útskýring á þessum breytingum og hvert aðilar eigi að snúa sér með styrkbeiðnir sínar.

Samtök listafólks fagna þessari niðurstöðu, enda er hún til marks um viðurkenningu stjórnvalda á réttmætri gagnrýni BÍL á það fyrirkomulag sem gilt hefur fram að þessu. Aðalfundur BÍL ályktaði um málið í febrúar sl. og fól stjórn BÍL að leita eftir viðræðum við stjórnvöld um framtíðarfyrirkomulag opinberra fjárframlaga til lista og menningar með það að markmiði að auka fagmennsku og skilvirkni í úthlutunum. Stjórnin hefur ítrekað komið þeim sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórnvöld að til að auka fagmennsku úthlutana sé nauðsynlegt að efla lögbundna sjóði, sem hafa skilgreindu hlutverki að gegna við fjármögnun lista- og menningarstarfs. Þar er um að ræða Bókmenntasjóð, Kvikmyndasjóð, sjóð til stuðnings starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna, Tónlistarsjóð, Safnasjóð, Barnamenningarsjóð og launasjóði listamanna. Einnig þarf að skoða möguleika á að fjölga sjóðunum, t.d. er full þörf á hönnunarsjóði og útflutningssjóði íslenskrar tónlistar.

Í tilkynningu Alþingis segir að í september verði birtar nánari útskýringar á þessum breytingum, ásamt upplýsingum um hvert aðilar eigi að snúa sér með umsóknir sínar. Vonandi láta þingmenn sér ekki detta í hug að beina „aðilum“ annað en til viðeigandi fagsjóða. Sjóðirnir starfa samkvæmt lögum og við þá starfa úthlutunarnefndir, skipaðar fagfólki úr viðkomandi geirum. Nefndirnar meta allar umsóknir á sama mælikvarða, annast nauðsynlega eftirfylgni og tryggja að skilyrði styrkveitinga séu uppfyllt. Það sama má segja um menningarráð þeirra sveitarfélaga, sem hafa menningarsamninga við stjórnvöld, þar er verið að innleiða svipað vinnulag og í sjóðunum. Það er von BÍL að tilkynningin á heimasíðu Alþingis sé til marks um vilja ráðamanna til að auka fagmennsku í úthlutun opinberra fjármuna til menningarstarfs.

Stjórn BÍL fundar með efnahags- og skattanefnd

Mánudaginn 30. maí bauð efnhaghs- og skattanefnd Alþingis stjórn BÍL til fundar, en allt frá því stjórn BÍL sendi nefndinni umsögn um frumvarp til laga um virðisaukasatt í desember sl. hefur staðið til að funda með nefndinni. Á fundinum lagði stjórn BÍL fram eftirfarandi minnisblað um helstu baráttumál listafólks sem tengjast verksviði nefndarinnar:

Minnisblað lagt fram á fundi stjórnar BÍL með efnahags- og skattanefnd Alþingis 30.05.2011
Stjórn BÍL vill vekja athygli nefndarinnar á baráttumálum BÍL varðandi skattalega stöðu listafólks.
Nokkur þeirra voru kynnt nefndinni með umsögn BÍL frá 13.12.10 vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt:
• Nauðsynlegt er að breyta undanþágu frá skattskyldu skv. 2.tl. 4.gr laganna þannig að hún nái til allra listamanna er selja listmuni og að skilgreiningu tollskrár verði breytt til samræmis.
• 2. tl. 4.gr. laganna þarf að kveða skýrt á um að undanþágan gildi um alla handunna listmuni framleidda af listamönnum burtséð frá aðferðinni sem notuð er við söluna. Breyta þarf „grunnskrá virðisaukaskatts“ til samræmis.
• Bæta þarf við 10.tl. 14.gr. laganna ákvæði um að tónlist og hljóðbækur til niðurhals beri 7% virðisaukaskatt.

Verði ekki hægt að gera þessar breytingar þarf að hefja umræðu um hvort það þjóni hagsmunum listafólks betur að hverfa frá undanþágunni en innleiða þess í stað frítekjumark og 7% skattlagningu eftir að frítekjumarki er náð.
Stjórn BÍL fór á fund fjármálaráðherra 10.02.10 þar sem lagt var fram minnisblað varðandi baráttumál, sem nauðsynlegt er að ítreka:

• Skattlagning tekna af endurleigu hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna (20%) en ekki skattlagningu launatekna (37,31% – 46,21%) eins og nú er. Til þess að ná fram slíkum breytingum þarf að gera breytingar á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003.
• Viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra verði breytt til samræmis við listamannalaun. Skv. reglum RSK er lágmark reiknaðs endurgjalds fyrir fullt starf kr. 414.000.- á mánuði, eða kr. 4.968.000.- á ári. Þetta stangast á við upphæð listamannalauna úr opinberum launasjóðum listamanna, en úr þeim fá listamenn nú kr. 274.000.- verktakagreiðslu á mánuði, skv. lögum nr. 57/2009. Til að bæta úr þarf annað hvort að lækka upphæðina sem krafist er í reiknað endurgjald eða hækka listamannalaunin til samræmis við kröfur RSK.
• Gera þarf sjálfstætt starfandi listamönnum kleift að sækja um atvinnuleysisbætur skv. lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Lögin virðast tryggja þeim sem standa skil á tryggingargjaldi rétt til atvinnuleysisbóta, en þau ákvæði virka ekki fyrir listafólk. Krafa ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald sem nemur kr. 414.000.- á mánuði leiðir af sér að listamaður sem telur fram lægri upphæð á einungis rétt á hlutfalli atvinnuleysisbóta! Þar að auki er sjálfstætt starfandi einstaklingum gert að „stöðva rekstur“ og skila inn vsk.númeri ef þeir hafa þegið bætur lengur en þrjá mánuði. Þá er þeim að auki gert að „vera í atvinnuleit“, m.ö.o. að taka hverju því launaða starfi sem býðst. Þessar kröfur gera listamönnum ókleift að nýta rétt til atvinnuleysisbóta. Þessu til viðbótar kveða lög um atvinnuleysistryggingar á um að þeir sem greiða reiknað endurgjald og tryggingagjald aðeins einu sinni á ári séu ekki sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna, þetta er enn ein hindrunin í vegi tekjulágra listamanna fyrir því að njóta sanngjarns réttar til bóta.

Samtök um tónlistarhús 1983-2011

Fréttablaðið birti í dag grein eftir Egil Ólafsson formann Samtaka um tónlistarhús:
Samtök um tónlistarhús – SUT, hafa starfað í 28 ár. Samtökin hafa haldið á lofti mikilvægi byggingar tónlistarhúss í Reykjavík. Barátta fyrir tónlistarhúsi er þó enn lengri og má segja að hún hefjist á ofanverðri 19. öld. Þannig hefur hún staðið í rúm eitt hundrað ár. Baráttunnar sér m.a. stað í Stefnuskrá Bandalags íslenskra listamanna 1937, þar sem hvatt er til að komið verði upp fullkomnu hljómleikahúsi í Reykjavík. Oft voru áformin kveðin niður af ráðamönnum, sem vildu niður með fjöllin og upp með dalina. Enn dreymdi framfaramenn um tónlistarhús við stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1950, áfram var því mætt af ámóta dalamennsku og fyrr. Andsnúnir sögðu slík monthús ekki vera fyrir Íslendinga. Áfram sýndu stjórnvöld hugmyndum um tónlistarhús lítinn áhuga – hlutverk SUT fólst í að þoka ráðamönnum og almenningi til skilnings á málefninu. Undir aldamótin 2000 fór að rofa til, baráttan eignaðist talsmann í Birni Bjarnasyni þ.v. menntamálaráðherra og í kjölfarið lýsti ríkisstjórnin stuðningi við málið. Árið 2002, hinn 11. apríl, var undirritað samkomulag milli ríkis og borgar um að vinna að því að reisa tónlistarhús, húsið yrði tilbúið í lok árs 2006. Þar var kveðið á um að einkaaðilar skyldu byggja og reka húsið, en borg og ríki leggðu fjármuni til reksturs árlega. Þá hófst forvinna að byggingunni. Samkeppni um útlit, byggingarframkvæmd og rekstur – nýjar tímasetningar sem miðuðu við að húsið opnaði 2009. Portus, félag Björgólfs Guðmundssonar varð fyrir valinu. Byggingahraðinn varð annar en ætlað var og hrunið kom í veg fyrir opnun 2009. Til stóð að hætta framkvæmdum, en þá kom til dirfska, sem fólst í ákvörðun yfirvalda um að halda áfram, þar fóru fyrir; Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttur borgarstjóri. Þá verður að geta samstöðu margra, sem héldu réttilega fram að byggingin eyðilegðist við að standa sem gapandi stekkur um ókomin ár.

Traustir stuðningsaðilar Samtakanna
Samtök um tónlistarhús hafa frá byrjun átt að trausta stuðningsaðila. Þar í flokki eru einlægir áhugamenn um tónlist, fjöldi listamanna, sem gefið hafa vinnu sína á tónleikum, við upptökur sem gefnar hafa verið út í nafni SUT. Þá gleymist ekki fjöldi fyrirtækja og einstaklinga, sem styrkt hafa Samtökin með stórum fjárhæðum af ýmsu tilefni. Ekki verður og litið framhjá þeim sem í ræðu og riti héldu uppi baráttu fyrir húsinu.Ekki má heldur gleyma öllum formönnum og stjórnum samtakanna frá upphafi, sem unnið hafa mikið starf í sjálfboðavinnu.

SUT slitið – nýr styrktarsjóður
Nú eru tímamót; með tilkomu Hörpu er hlutverki SUT lokið. Þeir peningar sem safnast hafa á löngum tíma verða að styrktarsjóði, sem styrkja mun sköpunarstarf í Hörpu, þetta er ákvörðun aðal- og fulltrúaráðsfundar Samtakanna frá því í október 2009. Sjóðurinn mun heita; Styrktarsjóður SUT og Ruth Hermanns, en Ruth ánafnaði öllum eignum sínum málstaðnum. Sjóðurinn mun starfa innan Hörpu og í stjórn eru fulltrúar þriggja fagfélaga tónlistarmanna; FÍH, STEF, FÍT, fulltrúi frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og tónlistarstjóri Hörpu. Sjóðurinn veitir tvo styrki árlega til tónlistarmanns eða -hóps. Styrkþegi er skuldbundinn til að halda tónleika í viðeigandi sal Hörpu. Fyrstu tónleikar af þessu tilefni verða að vori 2012. Það er mat stjórnar SUT, að þannig sé peningunum best varið; til sköpunar nýrra landvinninga í tónlist. Stofnfé Styrktarsjóðsins verður um 120.000.000 kr. Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna á heimasíðum FÍH, FÍT, STEFS og Hörpu.

Stuðningsaðilum boðið á tónleika í Hörpu
Nú er ástæða til að gleðjast yfir glæsilegu tónlistarhúsi. Það er ánægjulegt að segja frá því að 19. ágúst. nk. kl. 20:00, verður styrktaraðilum SUT boðið á tónleika í Hörpu. Á efnisskrá er m.a. Mozart flautukonsert með Stefáni Ragnari Höskuldssyni, flautuleikara hjá Metropolitan óperunni í New York. Þá verður og afhjúpaður minnisvarði, koparskjöldur þar sem Samtökum um tónlistarhús – stuðningsaðilum eru færðar þakkir fyrir 28 ára baráttu. Næstu daga mun þeim berast boðsbréf á þennan viðburð og nánari upplýsingar um slit Samtakanna og stofnun Styrktarsjóðsins.

Ný viðmið
Það eru tímar sundurþykkju í gjörvallri veröld – tilgangsleysi og fátækt eru hlutskipti margra – við snúum ekki til baka með það sem íþyngir okkur í veraldlegum og andlegum efnum – en til að halda vöku okkar er mikilvægt að við missum ekki sjónar á því sem við þó höfum. Þetta er inntak tónlistar – og tónlistin ber í sér eðli viljans. Sá sem kynnist því eðli, veit að hann getur breytt sjálfum sér til hins betra og þannig verður til afl sem leiðir til betra samfélags.
Harpan ber með sér vortíð og nýja tíma – tíma sem færa okkur áður óþekkt viðmið og lífsgæði. Nú berst tónlistin til okkar óhindrað í glæstum sölum. Nú þarf að efla sköpun tónlistar í húsi sem við öll gerum tilkall til, þangað getum við sótt styrk, sem eflir okkur til nýrra átaka. Til hamingju með Hörpu – heiðskíra von um framtíð.

Harpan er veruleiki

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu, skrifuð af stjórn FÍH:
Þann 4. maí rættist langþráður draumur tónlistaráhugamanna og tónlistarmanna á Íslandi þegar að fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í stóra sal “Hörpunnar” nýju tónlistarhúsi Íslendinga. Tónleikarnir voru upphaf af opnunarhátið Hörpunnar sem stendur í allt sumar og lýkur í ágúst. Það ríkti mikil spenna hjá tónleikagestum þetta kvöld og strax mátti heyra á fyrstu tónum Sinfóníuhljómsveitarinnar að hér var ævintýri að gerast. Það var vitað að hljómsveitin er góð en í þessum sal og á þessu kvöldi var undirstrikað að hljómsveitin er enn betri en vonir manna hafa staðið til og kvöldið varð stórkostlegt . Harpa er glæsilegt hús og Eldborg einhver fallegasti salur sem hannaður hefur verið til tónleikahalds. Með tilkomu Hörpu mun íslenskt tónlistarlífi lyftast í aðrar hæðir.

Fyrstu heimildir um baráttu tónlistaráhugafólks fyrir tónlistarhúsi eru frá því fyrir um miðja síðustu öld en þá auglýstu tónlistarmenn undir forystu Páls Ísólfssonar eftir “Tónlistarhöll í Reykjavík”. Þá var Hljómskálinn byggður 1923, eina húsið sem byggt var eingöngu fyrir tónlist og tónlistarflutning. Samtök um tónlistarhús voru stofnuð árið 1983 og hefst þá formlega baráttan fyrir tónlistarhúsi í Reykjavík og varanlegu heimili fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem þá hafði átt heimili í Háskóla “bíói” frá 1961. Þar sem Háskólabíó var fyrst og fremst hugsað sem kvikmyndahús var aðstaðan þar ófullnægjandi fyrir hljómsveitina. Skal það ekki tíundað hér enda er það tímabil að baki.

Samnorræn samkeppni um hönnun tónlistarhúss var haldin 1988 og stóðu Samtök um tónlistarhús að henni. Hlutskarpastur var Guðmundur Jónsson arkitekt og í kjölfarið úthlutaði Reykjavíkurborg samtökunum lóð undir húsið í Laugardalnum. Samkeppnin reyndist samtökunum dýr og þar að auki kipptu þáverandi stjórnvöld að sér höndum í kjölfarið þannig að um nokkurra ára skeið var málið saltað þó svo að samtökin héldu jöfnum þrýstingi á stjórnvöld að taka málið upp á sína arma. Líklega er það þó meðal annars þessari samkeppni að þakka að málefni tónlistarhúss fóru í annan og betri farveg nokkrum árum seinna.

Björn Bjarnason varð Menntamálaráðherra 1994 og var það eitt af hans fyrstu verkum að lýsa því yfir að ákvörðun um tónlistarhús yrði tekin á kjörtímabilinu en fyrir lá viljayfirlýsing frá Reykjavíkurborg um stuðning við verkefnið. Við það loforð var staðið og var samkomulag milli ríkis og borgar undirritað í ársbyrjun 1999. Í upphafi nýrrar aldar kom samgöngugeirinn svo að verkinu sem hafði þau áhrif að í stað þess að byggja Tónlistarhús breyttist verkefnið í Tónlistar- og ráðstefnuhús. Ennfremur var húsið flutt úr Laugardalnum að Austurhöfninni í miðbæ Reykjavíkur. Á þessum árum voru miklar breytingar í íslensku samfélagi í átt til einkavæðingar og fór húsið úr höndum ríkis og borgar um nokkurra ára skeið til einkaaðila sem byggðu það upp að miklu leyti en húsið hafnaði svo aftur í fangi hins opinbera ásamt áhvílandi skuldum sem reyndust orðnar verulegar.

Á framkvæmdatíma færðust Samtök um tónlistarhús frá verkefninu þó svo að þau væru kölluð saman öðru hvoru sem samráðsaðili, þá aðallega þegar til umfjöllunar voru mál sem snéru að væntanlegum notendum þ.e. flytjendum og njótendum tónlistar í húsinu. Eðlilega dró úr starfsemi samtakanna þar sem verkefnið sjálft, tónlistarhúsið, var í fullum gangi. Var stjórn samtakanna þó sammála um að samtökin hefðu tilgang allt fram á opnunardag hússins.

Stjórn Samtaka um tónlistarhús hefur nú samþykkt að stofna “Menningarsjóð Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns” fiðluleikar í SÍ sem ánafnaði tónlistarhúsinu öllum eigum sínum. Hlutverk sjóðsins er að styðja við tvenna tónleika á ári í þeim tilgangi að gefa framsæknu tónlistarfólki möguleika á að halda tónleika í Hörpu um leið og stuðningsaðilum samtakanna í gegnum tíðina yrði boðið á þessa tónleika sem þakklætisvotti fyrir sitt framlag til tónlistarhússins.

Nú þegar Harpan er orðin veruleiki er hljómlistarmönnum ofarlega í huga þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóginn til að hugmyndin um tónlistarhús í Reykjavík sé nú orðin að veruleika. Þakklæti til þeirra stjórnvalda sem höfðu dug og áræði að ýta hugmyndinni úr vör og þeirra stjórnvalda sem höfðu þor til þess að halda verkinu áfram þegar efnahagur þjóðarinnar var hruninn. Til þess þurfti kjark. Ekki síst ber að þakka þeim dygga stuðningshópi Samtaka um tónlistarhús sem hefur stutt baráttuna frá upphafi. Í dag tuttugu og átta árum seinna eru enn um 650 stuðningsaðilar hjá Samtökum um tónlistarhús.

Þó svo að Harpan sé ekki byggð fyrir fjármuni Samtaka um tónlistarhús er það félagsmönnum SUT að þakka að hægt var að halda baráttunni á lofti í öll þessi ár og húsið komst í „höfn“. Fyrir það þökkum við hljómlistarmenn um leið og við fögnum þessum merka áfanga í sögu tónlistar á Íslandi og bjóðum alla þá sem hafa stutt okkur í baráttunni fyrir tónlistarhúsi hjartanlega velkomna í Hörpuna.

List án landamæra

Forseti BÍL Kolbrún Halldórsdóttir setti listahátíðina List án landamæra í Tjarnarsal Ráðhússins í gær 29. apríl. Setningarávarp hennar fer hér á eftir:

Í dag er blásið til veislu, sannkallarðar menningarveislu, þegar Listahátíðin List án landamæra kemur í sumarbyrjun með sólskin og blóm í bæinn.

Það gleður mig að fá að ávarpa gesti þessarar litríku og skemmtilegu hátíðar fyrir hönd Bandalags íslenskra listamanna, en í ár er BÍL í fyrsta sinn formlegur samstarfsaðili „Listar án landamæra“.  Með samstarfinu viljum við undirstrika mikilvægi  hátíðarinnar fyrir allt listalíf í landinu og leggja okkar af mörkum til að breikka bakland hennar. Það er samtökum listamanna mikilvægt að fylkja sér að baki þeim kraftmikla hópi sem hefur skapað þessa hátíð og undirstrika þannig þá breidd sem hún býr yfir.  Hátíðin hefur öðlast veigamikinn sess í lífi skapandi fólks um land allt  ekki hvað síst fyrir það að hún hefur rutt hindrunum úr vegi, brúað  bil milli manna og þar með lagt lóð á vogarskálar jafnréttis.

Listafólk er af ýmsu tagi, hjá sumum hneigist hugurinn snemma til þess sem verða vill en aðrir leggja út á listabrautina seint á lífsleiðinni. Sumir nýta allar sínar tómstundir til að skapa en aðrir hafa listina að atvinnu og sjá fyrir sér með listsköpun sinni.  Sumir eru heila eilífð að skapa hvert verk á meðan aðrir virðast skapa á færibandi. Fyrir suma er listabrautin þyrnum stráð en fyrir aðra er hún dans á rósum. Leiklistin heillar einn, myndlistin annan, tónlistin þann þriðja og dansinn þann fjórða. En það sem sameinar okkur er þörfin til að skapa.

Mikið erum við heppin að listgreinarnar skuli vera svona margar! Það auðveldar hverju og einu að finna heppilegan farveg fyrir það sem okkur liggur á hjarta. Það skiptir máli að finna „miðil“ sem hentar hæfileikum hvers og eins og passar þeim hugmyndum sem kvikna hið innra. Fyrir fjölbreyttan hóp þarf fjölbreytileg tækifæri og við erum heppin með þá fjölbreyttu flóru listafólks, sem kvatt hefur sér hljóðs út um allt samfélagið. Sumir eru liprir og liðugir, aðrir stirðbusalegir, sumir opnir og óðamála, aðrir dulir og leyndardómsfullir, sumir arka um á tveimur jafnfljótum, aðrir fara ferða sinna í hjólastól.  Hvílíkt litróf!

Ég hef sjálf orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að skapa með heyrnarlausum leikurum, það kenndi mér margt sem ég hefði ekki getað lært eftir öðrum leiðum. Það getur enginn flutt texta af slíkri innlifun og án þess að röddin komi þar nokkuð nærri, nema þau sem eiga táknmálið að móðurmáli. Ég á vinkonu sem málar margbreytilegar myndir af fólki og fuglum með munninum. Af þessum vinum mínum hef ég lært hversu dýrmætt það er að sjá tækifærin en ekki takmarkanirnar í lífinu og listinni. Það er einmitt það sem listahátíðin „List án landamæra“ snýst um.

Kæru gestir! Horfum nú vítt yfir sviðið, frelsum hugann af öllum landamærum, hefjum okkur til flugs og fögnum fjölbreytninni. Með þeim orðum set ég listahátíðina „List án landamæra“ .

Gleðilega hátíð!

Alþjóðlegi dansdagurinn 2011

Ávarp Anne Teresa De Keersmaker:

Mér finnst dans hylla það sem gerir okkur mennsk.
Er við dönsum notum við líkama okkar á mjög náttúrulegan hátt, hreyfanleiki líkamans og öll skilningarvitin tjá gleði, sorg, það sem er okkur kært. Fólk hefur alltaf dansað til að fagna lykilaugnablikum lífsins og líkamar okkar bera minningu allrar mögulegrar mannlegrar reynslu. Við getum dansað ein og við getum dansað saman. Í dansi getum við deilt því sem sameinar okkur og því sem skilur okkur hvort frá öðru. Fyrir mér er dans leið til hugsunar. Með dansi getum við líkamnað hinar óhlutbundnustu hugmyndir og þannig afhjúpað hið ósýnilega, hið ónefnanlega. Dans er hlekkur milli manna, tenging himins og jarðar. Við berum heiminn í líkama okkar.  Þegar allt kemur til alls held ég að hver dans sé hluti af stærri heild, dansi sem á ekkert upphaf, engan endi.  (Þýðing Guðmundur Helgason)

Alþjóðlegi dansdagurinn 29.apríl var kynntur til sögunnar árið 1982 af Alþjóða leikhússtofnuninni (ITI) innan UNESCO. Markmið dagsins er að auka sýnileika dansins í samfélagi okkar, sýna fram á mikilvægi hans og hvetja stjórnvöld til þess að veita dansinum þann stuðning sem honum ber á öllum stigum skólakerfisins.  Dansdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur um heim allan síðan 1982 og á hverju ári er fengin mikilsmetinn aðili úr dansheiminum til þess að skrifa ávarp/skilaboð dansdagsins hverju sinni.

Í ár er ávarpið skrifað af hinni belgísku Anne Teresa De Keersmaker sem samdi sitt fyrsta dansverk, Asch árið 1980 en hún hafði þar áður numið dans við MUDRA dansskólann og Tisch School of the Arts í New York.  Árið 1982 var svo verkið Fase, four movements to the music of Steve Reich frumsýnt, eitt áhrifamesta verk þess tíma.  Árið 1983 stofnaði De Keersmaker, Rosas dansflokkinn um leið og hún samdi dansverkið Rosas danst Rosas. Hún einblínir í verkum sínum mikið á tengsl dans og tónlistar.  Hún hefur notað tónlist tónskálda frá fjölmörgum tímabilum. Á meðan Rosas hafði aðsetur sitt við La Monnaie leikhúsið (1992-2007) leikstýrði De Keersmaker nokkrum óperum. Tengsl dans og orða er annar þráður sem liggur í gegnum verk hennar.  Nýjustu verk hennar einkennast af samvinnu við aðra listamenn.  Árið 1995 stofnaði hún P.A.R.T.S. dansskólann í samvinnu við La Monnaie.

Page 20 of 37« First...10...1819202122...30...Last »