Author Archives: vefstjóri BÍL

Félag íslenskra listdansara 65 ára

Í dag 27.mars, eru 65 ár liðin frá því að fimm konur komu saman á heimili Ástu Norðmann til þess að stofna Félag íslenskra listdansara (FÍLD). Ásta var fyrsti formaður félagsins en auk hennar voru stofnfélagar þær Sigríður Ármann, Sif Þórz, Rigmor Hansen og Elly Þorláksson. Þær höfðu allar numið dans erlendis og voru að hasla sér völl í íslensku listalífi. Fyrsta baráttumál félagsins var viðurkenning danslistarinnnar sem sjálfstæðrar og marktækar listgreinar en tilhneigingin var að flokka hana sem hliðargrein af leiklistinni.

Á aðalfundi FÍLD í febrúar síðastliðnum var Ingibjörg Björnsdóttir útnefnd heiðurfélagi Félags íslenskra listdansara fyrir starf sitt í þágu danslistarinnar á Íslandi. Ingibjörg hefur um árabil verið óþrjótandi í sínu starfi í íslenskum dansheimi en hún var um árabil skólastjóri Listdansskóla Þjóðleikhússins – síðar Listdansskóla Íslands. Ingibjörg var formaður FÍLD 1966-70, stjórnarmaður til margra ára og núverandi formaður í Íslenska dansfræðafélaginu, sat í stjórn norræna dansfræðifélagsins NOFOD og í stjórn Norræna leiklistar og danssambandsins en síðastliðin ár hefur hún verið að rita sögu íslensks listdans. Auk Ingibjargar eru heiðursfélagar frá upphafi Ásta Norðmann, Sigríður Ármann og Sif Þórz. Þess má til gamans geta að skömmu eftir útnefningu Ingibjargar sem heiðursfélaga FÍLD voru henni veitt heiðursverðlaun menningarverðlauna DV fyrir starf sitt að listdansi hér á landi.

Listdanskennsla hefur verið eitt margra baráttumála FÍLD í gegnum tíðina en félagið rak á árum áður sinn eigin skóla. Þannig lagði félagið grunn að öflugri listdanskennslu og í dag eru fjölmargir metnaðarfullir skólar starfandi með sívaxandi nemendafjölda. Í Listaháskóla Íslands eigum við einnig  unga en frjóa dansdeild og hefur námið og þeir nemendur sem útskrifast hafa úr því reynst mikil innspýting í dansflóruna á Íslandi.

Danssamfélagið dreymdi um að eignast dansflokk og árið 1973 var Íslenski dansflokkurinn stofnaður undir hatti Þjóðleikhússins, mikið til fyrir velvilja þáverandi Þjóðleikhússtjóra Sveins Einarssonar og forseta Bandalags íslenskra listamanna Hannesar Kr. Davíðssonar auk fjölmargra annara. Í dag er dansflokkurinn öflugur flokkur með sterkum dönsurum og gott alþjóðlegt orðspor eftir fjölmargar sýningarferðir erlendis.

Á síðustu árum hefur svo orðið mikil sprenging í starfsemi sjálfstætt starfandi dansara og danshöfunda ekki síst með tilkomu Reykjavík Dance Festival og Dansverkstæðisins, sem er vinnustofur danshöfunda í borginni. Það er ljóst að þannig aðstaða skiptir sköpum fyrir framþróun danslistarinnar hér á landi og mikilvægt fyrir yfirvöld bæði ríki og borg að styðja vel við framtakið.

Félagar í FÍLD tóku sig saman á vormánuðum 2010 og fóru í mikla stefnumótunarvinnu sem skilaði sér í Dansstefnunni 10/20 sem er framtíðarsýn félagsmanna á það hvernig við viljum sjá danssamfélagið þróast næstu árin. FÍLD hefur dreymt stórt  á líftíma sínum og margir draumanna hafa þegar ræst. Stjórn félagsins mun áfram vinna að því að draumar okkar um öflugt danslíf rætist og að sú sýn sem birtist í Dansstefnunni verði að veruleika. Í Dansstefnunni er stóri draumurinn: Danshús – Miðstöð fyrir samtímadans á Íslandi. Í Danshúsi gætu unnið saman Íslenski dansflokkurinn, sjálfstætt starfandi danshöfundar, kynningarmiðstöð dansins, dansbókasafn, Black-box leikhús fyrir minni sýningar og þannig mætti lengi telja. Slík miðstöð yrði mikill suðupottur fyrir dansinn og gríðarleg lyftistöng fyrir listgreinina. Við eigum dansara og danshöfunda á heimsmælikvarða og ef greinin fær viðeigandi stuðning er óhætt að segja að framtíðin sé björt fyrir dansinn á Íslandi.

Guðmundur Helgason
formaður FÍLD – Félags íslenskra dansara

Alþjóðadagur leiklistarinnar

Í dag, 27. mars, er alþjóðadagur leiklistarinnar haldinn í fimmtugasta sinn. Af því tilefni gefur  Leiklistarsamband Íslands út ávarp sem að þessu sinni er samið af Maríu Kristjánsdóttur leikhúsfræðingi og leikstjóra. Ávarpið fer hér á eftir:

„Verið velkomin í leikhúsið og slökkvið vinsamlegast á farsímanum“. Þessi  hefðbundnu orð, sem hljóma nú í upphafi hverrar leiksýningar, eru lausnarorð.  Þau skapa ráðrúm til að aftengja sig frá nútíma nauð. Þau skapa þögn og  í þögninni gangast leikendur og áhorfendur undir það samkomulag sem  þeir gerðu sín í millum fyrir öldum og aldrei hefur verið skráð á nokkurt blað: Innilokuð í rými ætlum við að eiga stund saman, taka okkur stöðu andspænis hvert öðru, bregðast hvert við öðru.  Þannig ætlum við saman að skapa nýjan þykjustu heim og gefa honum merkingu.

Það eru hin miklu forréttindi leikhússins sem listforms að vera háð samfélagi.  Einn getur maðurinn krotað mynd af  dýri á hellisvegg. Einn getur maðurinn krotað ljóð í sand. En einn getur maðurinn ekki skapað leikhús. Hann þarf að gera það í samvinnu við aðra, fyrir framan aðra og fyrir tilstuðlan samfélags.

En samfélag okkar er í miklum kröggum. Það þarf að leita lausna á stórum vandamálum, lausna sem duga til framtíðar. Það þarf einnig að búa til drauma um framtíð því að án drauma förumst við.  Margir eru óöruggir og hræddir  gagnvart þessu viðfangsefni enda ýmislegt sem byrgir sýn. Hávaðinn er einnig mikill í örlitlum voldugum minnihlutahóp sem ver sérhagsmuni sína með kjafti og klóm.  Menn eiga því líka erfitt með að heyra hver til annars. Og fáir opinberir vettvangar eru  til þar sem fjöldi getur mæst og sameinast um hugmyndir nema þá helst verslunarmiðstöðvar og íþróttavellir. Í æ ríkari mæli einangrast menn inn á heimilum og hafa mest samskipti við aðra gegnum tölvuskjái og boðtæki ýmis konar.

En við eigum enn þennan opinbera vettvang, leikhúsið. Þangað koma vikulega þúsundir manna. Þar hafa menn gert samkomulag um að hlusta hver á annan, bregðast hver við öðrum, vera menn með mönnum. Það gæti orðið okkar griðastaður. Þar er hægt að skapa drauma. Þar gæti orðið til það samtal, samspil sem þetta samfélag svo sárlega þarfnast. Enda vitum við að þegar leikhúsinu tekst best til þá förum við þaðan jafnan hæfari til að hugleiða og skilja eigin gjörðir.

Það hefur mátt merkja viðleitni í þessa átt innan leikhússins frá hruni og tilraunir hafa verið gerðar til að nálgast áhorfendur eins og hugsandi tilfinningaverur. En betur má ef duga skal. Ég heiti á  samlanda mína á þessu fimmtíu ára afmæli alþjóðlega leikhússdagsins að streyma í leikhús og gera til þess  kröfur. Sköpum okkur griðastað. 

„Verið velkomin í leikhúsið og slökkvið vinsamlegast á farsímanum“. Þessi  hefðbundnu orð, sem hljóma nú í upphafi hverrar leiksýningar, eru lausnarorð.  Þau skapa ráðrúm til að aftengja sig frá nútíma nauð. Þau skapa þögn og  í þögninni gangast leikendur og áhorfendur undir það samkomulag sem  þeir gerðu sín í millum fyrir öldum og aldrei hefur verið skráð á nokkurt blað: Innilokuð í rými ætlum við að eiga stund saman, taka okkur stöðu andspænis hvert öðru, bregðast hvert við öðru.  Þannig ætlum við saman að skapa nýjan þykjustu heim og gefa honum merkingu.

Það eru hin miklu forréttindi leikhússins sem listforms að vera háð samfélagi.  Einn getur maðurinn krotað mynd af  dýri á hellisvegg. Einn getur maðurinn krotað ljóð í sand. En einn getur maðurinn ekki skapað leikhús. Hann þarf að gera það í samvinnu við aðra, fyrir framan aðra og fyrir tilstuðlan samfélags.

En samfélag okkar er í miklum kröggum. Það þarf að leita lausna á stórum vandamálum, lausna sem duga til framtíðar. Það þarf einnig að búa til drauma um framtíð því að án drauma förumst við.  Margir eru óöruggir og hræddir  gagnvart þessu viðfangsefni enda ýmislegt sem byrgir sýn. Hávaðinn er einnig mikill í örlitlum voldugum minnihlutahóp sem ver sérhagsmuni sína með kjafti og klóm.  Menn eiga því líka erfitt með að heyra hver til annars. Og fáir opinberir vettvangar eru  til þar sem fjöldi getur mæst og sameinast um hugmyndir nema þá helst verslunarmiðstöðvar og íþróttavellir. Í æ ríkari mæli einangrast menn inn á heimilum og hafa mest samskipti við aðra gegnum tölvuskjái og boðtæki ýmis konar.

En við eigum enn þennan opinbera vettvang, leikhúsið. Þangað koma vikulega þúsundir manna. Þar hafa menn gert samkomulag um að hlusta hver á annan, bregðast hver við öðrum, vera menn með mönnum. Það gæti orðið okkar griðastaður. Þar er hægt að skapa drauma. Þar gæti orðið til það samtal, samspil sem þetta samfélag svo sárlega þarfnast. Enda vitum við að þegar leikhúsinu tekst best til þá förum við þaðan jafnan hæfari til að hugleiða og skilja eigin gjörðir.

Það hefur mátt merkja viðleitni í þessa átt innan leikhússins frá hruni og tilraunir hafa verið gerðar til að nálgast áhorfendur eins og hugsandi tilfinningaverur. En betur má ef duga skal. Ég heiti á  samlanda mína á þessu fimmtíu ára afmæli alþjóðlega leikhússdagsins að streyma í leikhús og gera til þess  kröfur. Sköpum okkur griðastað.

Sorry Jón og sorry Stína

Fréttablaðið birti í morgun grein eftir Hjálmtý Heiðdal, kvikmyndagerðarmann og fyrrv. gjaldkera BÍL. Greinin fer hér á eftir:
 
21. feb. sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Guðmund Edgarsson málmenntafræðing um ríkisstyrkta menningarstarfsemi. Skrif Guðmundar er dæmi um hinn “árlega héraðsbrest”, eins og Pétur Gunnarsson rithöfundur nefnir viðbrögðin, þegar úthlutun listamannalauna er kynnt opinberlega.
Að hætti frjálshyggjumanna setur Guðmundur upp hið einfalda dæmi að skattgreiðendur skuli ekki greiða fyrir menningarstarfsemi sem þeir hafa ekki áhuga á. Guðmundur ræðir málefni Þjóðleikhússins, sem nýtur töluverðra framlaga af skattfé, og Skjás Eins, sem heyr sína lífsbaráttu á grundvelli eigin ágætis og vinsælda. (Skjár einn er reyndar rekinn með miklu tapi, 375 milljónum kr. 2009 og trúlega niðurgreiddur af móðurfélaginu sem rekur Símann.)
Að sögn Guðmundar þá er “leikhúsrekstur eins og hver annar atvinnurekstur og á því að lúta lögmálum markaðarins”. Þetta er skýrt, list sem ekki höfðar til nægilega margra deyr drottni sínum.
Guðmundur er ekki einn um þessa skoðun, nýlega birti Kristinn Ingi Jónsson, ritstjóri sus.is, grein með fyrirsögninni List er fyrir listunnendur. Kristinn leggur fram einfalda spurningu: “Hvernig getur það þá verið, að allir skattgreiðendur, sama hvort þeir unni list eður ei, séu neyddir til að greiða ákveðnum listamönnum laun?”
Niðurstaða Kristins Inga er sú sama; þeir sem vilja njóta lista eiga að borga það sjálfir. Nú rorra þeir sælir í sinni trú félagarnir Guðmundur og Kristinn og ekkert haggar þeirra sælu sannfæringu. Enda málið fremur augljóst og skýrt séð frá þeirra sjónarhól. Þetta þarf ekki að ræða frekar.
Ræðum því eitthvað annað, t.d. vegakerfið, jafnvel jarðgöng. Jarðgöng eru grafin gegnum fjöll og undir hafsbotninn til þess að auðvelda samgöngur. Það er rætt um að vetrarfærð sé víða varasöm og sumstaðar geta jarðgöng leyst vandann. Víða eru hættulegir fjallvegir lagðir af og jarðgöng koma í staðinn. Þetta flokkast undir framfarir.
En það er einn galli á jarðgöngum, þau eru staðbundin og yfirleitt greidd af almannafé. Reykvíkingur getur ekki nýtt sér jarðgöng milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar nema endrum og eins. Og þarf að fara langa leið til þess. Samt er hann þátttakandi í kostnaði við gerð ganganna og viðhaldi þeirra.
Hér er augljóslega verið að sniðganga lögmál Guðmundar og Kristins; jarðgöng eru fyrir jarðgangaunnendur, þau eiga að lúta lögmálum markaðarins.
Það þýðir ekkert að benda á gagnsemi jarðganga, t.d. samgöngubætur og lægri slysatíðni, grundvallaratriðin eru á hreinu: þeir sem nota jarðgöng eiga að borga þau.
Útreikningar sýna að jarðgöng á Austfjörðum geta aldrei borgað sig nema með himinháum veggjöldum. Sem enginn mundi greiða. Arðsemi Vaðlaheiðarganga, sem eru þó á þéttbýlla svæði, er reiknuð fram og aftur og óvíst um sjálfbærni framkvæmdanna. Margt bendir til þess að vegfarendur aki gamla veginn í stað þess að borga sannvirði fyrir styttri leið í gegnum göngin.
En það er eins með jarðgöng og listina, þau eru þarna vegna þess að sameiginlegt átak skattgreiðenda greiddi kostnaðinn að hluta. Og líkt og listin, þá skila jarðgöng verðmætum til baka. Ég minntist á slysatíðni og við má bæta minni bensíneyðslu og lengri endingu ökutækja sem fara oft sömu leið. Og tími er einnig peningar í einhverjum fræðum.
Hvað fáum við fyrir skattfé sem greitt er til menningarstarfsemi? Íslenskt leikhús, íslenskar kvikmyndir, íslenska tónlist, íslenska myndlist og íslenskar bækur. Enn fremur þýdd erlend leikverk, þýddar bækur og hingað koma stórgóðir erlendir listamenn.
Félagarnir Kristinn og Guðmundur telja báðir að Jón og Stína eigi að greiða fyrir sína menningarneyslu, burt séð frá efnum þeirra og aðstæðum. Stína er fremur blönk tveggja barna einstæð móðir og Jón er í hjólastól.
Spólum hratt áfram: Kiddi og Gummi hafa fengið sitt fram. Nú fer Stína ekki í leikhús vegna þess að miðarnir kosta það sem þeir þurfa að kosta, 15-20.000 pr. sýningu. Jón fer ekki í leikhús vegna þess að hann og nokkrir aðrir fatlaðir geta ekki borgað brú fyrir fatlaða við Þjóðleikhúsið. Þau vita fátt skemmtilegra en að fara í leikhús. En sorry Jón og sorry Stína-samfélagið styður ekki listir og menningu. Fyrirsögnin á grein Kristins átti að vera List er fyrir ríka listunnendur.
Kenningar frjálshyggjumanna um listir og menningu eru af sama sauðahúsi og kenningar þeirra um efnahagsmál. Þær eru skemmtilegt umræðuefni – en stórslys í framkvæmd.

Ársskýrsla FÍLD 2011

Stjórn FÍLD skipa:
Guðmundur Helgason, formaður
Ásgerður Gunnarsdóttir, gjaldkeri
Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari
Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi
Ásta Björnsdóttir, meðstjórnandi
Varamenn stjórnar: Helena Jónsdóttir og Irma Gunnarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum félögum og stofnunum:
Bandalag íslenskra listamanna, Guðmundur Helgason
Íslenski dansflokkurinn, Hany Hadaya
Launasjóður sviðslistamanna, Ingibjörg Björnsdóttir
Úthlutunarnefnd Leiklistarráð, Sveinbjörg Þórhallsdóttir (í gegnum LSÍ)
Leiklistarsamband Íslands, Guðmundur Helgason
Leikminjasafn Íslands, Ásgerður Gunnarsdóttir
Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík, Guðmundur Helgason
Grímunni – íslensku leiklistarverðlaununum, 2 fulltrúar leynilegir…

Félagsmenn voru í lok ársins 2011 samtals 108

Aðalfundur FÍLD var haldinn 30.janúar 2011 og þar kvöddu þrír stjórnarmenn eftir langt og óeigingjarnt starf í þágu félagsins.  Núverandi stjórn þakkar þeim Irmu Gunnarsdóttur, Karen Maríu Jónsdóttur og Steinunni Ketilsdóttur kærlega fyrir þeirra störf í þágu félagsins.  Ný í stjórn voru kosin; Guðmundur Helgason, formaður, Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari og Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi.  Auk þess voru kosnir tveir varamenn stjórnar samkvæmt ný samþykktum lagabreytingum.  Þeir eru Helena Jónsdóttir og Irma Gunnarsdóttir og hefur stjórn getað leitað til þeirra ef aðrir stjórnarmenn hafa ekki komist á fundi á vettvangi félagsins eða þar sem FÍLD þarf að hafa sinn fulltrúa.

Stjórn hefur haldið 12 stjórnarfundi á þessu starfsári, að jafnaði einu sinni í mánuði.  Auk þess hefur stjórn komið sér upp vinnusvæði á Facebook þar sem hún skiptist á hugmyndum og upplýsingum milli funda. Við látum ekki dvöl stjórnarmanna erlendis trufla okkur og höfum þá haft viðkomandi með okkur á fundi með hljóði og mynd í gegnum samskiptaforritið Skype á netinu. 

Þá sækja stjórnarmenn, þó mest formaður, ýmsa aðra fundi í nafni félagsins eins og t.d. mánaðarlega fundi Bandalags íslenskra listamanna og reglulega fundi fulltrúaráðs Leiklistarsambands Íslands.  Aðrir fundir eru sjaldnar. Þau eru mýmörg verkefnin sem berast inn á borð stjórnarinnar hverju sinni og hérna verður aðeins tæpt á því helsta sem stjórn hefur unnið að á þessu ári. Dansstefnan hefur reynst stjórn vel og mjög víða er minnst á hana í umræðum við ýmsa aðila og vitnað til hennar.  Hún verður áfram ákveðið grundvallarplagg fyrir stjórn að vinna eftir við stefnumótun til framtíðar.

Formaður fór í lok febrúar ásamt Helenu Jónsdóttur á fund embættismanna í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem málefni dansins voru rædd og þá sérstaklega sú ósk danslistamanna að hafa manneskju með fagmenntun í dansi í úthlutunarnefndum sviðslistanna. Ingibjörg Björnsdóttir hefur verið í úthlutunarnefnd launasjóðsins en enginn dansmenntaður aðili í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs. Dansinn fékk frekar lítinn hluta af því fjármagni sem var úthlutað á árinu en það er í miklu ósamræmi við þá grósku sem hefur verið í danslistinni að undanförnu. Fulltrúar ráðuneytisins bentu á að við ættum að herja á þá sem tilnefna í úthlutunarnefndir til þess að fá okkar fagmenntaða aðila inn.  Það hefur reynst mjög erfitt að sækja það þar sem einungis eru 3 einstaklingar í hverri úthlutunarnefnd. Formaður vakti aftur máls á þessu á árlegum samráðsfundi BÍL með menntamálaráðherra í mars og benti á það sanngirnissjónarmið að fá faglega umfjöllun um umsóknir danslistamanna.  Málið fékk svo mjög farsælan endi á haustmánuðum þegar forseti Leiklistarsambands Íslands, Ása Richards lagði til að Sveinbjörg Þórhallsdóttir færi inn í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs (styrkir til starfsemi atvinnuleikhópa).  Dansinn á sterkan bandamann í Ásu og kunnum við henni bestu þakkir fyrir þetta frumkvæði. Við megum samt ekki sofna á verðinum, heldur halda áfram að tala fyrir þessu sjónarmiði um fagmenntaðan einstakling í úthlutunarnefndir svo umsóknir danslistafólks hljóti faglega umfjöllun á forsendum dansins.   (1)

FÍLD stóð fyrir SOLO, keppni í klassískum listdansi 1.mars í Gamla Bíó. Þar tóku þátt 26 listdansnemar frá þremur skólum, Ballettskóla Guðbjargar Björgvins, Klassíska Listdansskólanum og Listdansskóla Íslands. Þessi keppni er undankeppni fyrir norræna/baltneska ballettkeppni Stora Daldansen, sem haldin er í Svíþjóð ár hvert og þangað koma bestu listdansnemar norðurlanda og baltnesku landanna.  Á SOLO voru þrír valdir til þess að vera fulltrúar Íslands í keppninni úti en það voru þau Ellen Margrét Bæhrenz, Gunnhildur Eva G. Gunnarsdóttir og Karl Friðrik Hjaltason öll nemendur við Listdansskóla Íslands. Þau stóðu sig með prýði í Svíþjóð þó ekkert þeirra hafi hlotið verðlaunasæti að þessu sinni. Samkvæmt reglum Stora Daldansen ber að halda undankeppni í hverju landi fyrir sig og hefur FÍLD tekið það hlutverk að sér sem fagfélag dansins með tengingu við alla listdansskóla á landinu.

Irma Gunnarsdóttir fór sem fulltrúi FÍLD á samráðsfund BÍL og borgarinnar þar sem formaður komst ekki frá vinnu.  Þessir samráðsfundir BÍL bæði við menntamálaráðherra/ráðuneyti og borgaryfirvöld eru mikilvægir til þess að koma á framfæri ábendingum okkar um það sem betur má fara.  Það getur oft á tíðum verið erfitt að koma sínu að þegar fulltrúar 14 félaga innan BÍL hafa öll eitthvað fram að færa en hinsvegar er stuðningurinn sem fæst frá hinum félögunum í þessum málum mjög mikilvægur.  Röddin er miklu sterkari þegar BÍL talar heldur en þegar FÍLD talar eitt og sér.

Alþjóðadansdagurinn var haldinn hátíðlegur um heim allan 29.apríl og af því tilefni stóð FÍLD fyrir ýmsum uppákomum.  Í Tjarnarbíó var svokallað “pop-up” danssafn þar sem ýmsir listdansskólar, Íslenski dansflokkurinn, Reykjavík dance festival og fleiri kynntu starfsemi sína og sögu.  Fengnir voru að láni gamlir búningar sem minna okkur á listdanssöguna hér á landi.  Á sviðinu í Tjarnarbíó sýndu nokkrir skólar atriði auk þess sem gamlar upptökur frá RÚV voru sýndar á tjaldi.  Í Bíó Paradís voru svo sýndar 10 íslenskar dansstuttmyndir sem hafa allar vakið mikla athygli og unnið til verðlauna víðsvegar um heiminn.  Dagurinn þótti mjög vel heppnaður og kann stjórn FÍLD, Helenu Jónsdóttur bestu þakkir fyrir hennar stóra þátt í skipulagningu dagsins. Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem lögðu til efni og vinnu til þess að hugmyndin yrði að veruleika. Stjórn hefur fullan hug á að endurtaka leikinn núna í ár og þróa þessa hugmynd áfram ekki síst í ljósi þess að félagið okkar á 65 ára afmæli á þessu ári.

Daginn eftir dansdaginn eða 30.apríl var haldin árshátíð dansara en það er sjálfsprottin hátíð sem byrjaði árið 2010 og tókst svona ljómandi vel bæði þá og 2011.  Heimatilbúnar veitingar og skemmtiatriði vöktu mikla lukku þeirra sem mættu og bíðum við spennt eftir að sjá hvað næsta undirbúningsnefnd skipuleggur fyrir næstu árshátíð. Hátíðin er auglýst á póstlista FÍLD og eru allir velkomnir á árshátíð dansara.

FÍLD fékk á vormánuðum Katrínu Gunnarsdóttur, dansara og heilsu-hagfræðinema, til þess að taka að sér vinnu við skýrslu um Listdanskennslu á Íslandi, stöðu hennar, umfang og framtíðarmöguleika. Katrín fékk laun úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til verksins og vann hún það að mestu yfir sumarmánuðina.  Nú þarf stjórn að klára uppsetningu skýrslunnar en það er von okkar að við getum komið skýrslunni í prentun sem fyrst og svo sjáum við hvernig hún nýtist okkur best til að tala máli listdansins og skólanna. Von okkar er að hún reynist mikilvægt gagn í baráttunni fyrir frekara fjármagni til listdanskennslu. Stjórn kann Katrínu bestu þakkir fyrir hennar vinnu og skólunum sem lögðu til upplýsingar í skýrsluna þökkum við einnig kærlega fyrir samvinnuna.  (2)

Ólöf Ingólfsdóttir fór sem fulltrúi Íslands með stuðningi FÍLD á fund Aerowaves danstengslanetsins í Porec í Króatíu í lok október. Það er íslenskum dansheimi mjög mikilvægt að geta tengst þessu tengslaneti en eina helgi á ári hittast u.þ.b. 30 einstaklingar, einn frá hverju landi Evrópu og skoða brot úr 3-400 verkum ungra og upprennandi danshöfunda frá gjörvallri Evrópu og kynnast þannig því ferskasta í evrópskri danslist.  Úr þessum verkum eru valin verk á danshátíðina Spring Forward 2012, en mörgum verkum er einnig boðið að sýna á hátíðum og í leikhúsum víða um Evrópu.  Þáttaka í Aerowaves hefur verið mikilvægur liður í því að vekja athygli á íslenskum dansi og hafa verk margra íslenskra danshöfunda hlotið brautargengi í gegnum tengslanetið.

Í haust barst beiðni frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti um umsögn um nýtt frumvarp til Sviðslistalaga.  Úr varð að fulltrúar fagfélaganna innan Leiklistarsambands Íslands ásamt Sjálfstæðu leikhúsunum hittust, fyrst á rabbfundi til þess að fara yfir hugmyndir félaganna um hin nýju sviðslistalög en útúr þeim fundi fæddist samráðsnefnd fagfélaganna og SL sem hittist á nokkrum fundum og skilaði að lokum sameiginlegum breytingartillögum við frumvarpsdrög ráðuneytisins.  Það er óhætt að segja að þær breytingar sem við lögðum til voru ansi viðamiklar og er næstum hægt að tala um nýtt frumvarp. Enn eiga eftir að koma viðbrögð ráðuneytisins við öllum þeim athugasemdum sem bárust frá ýmsum hagsmunaaðilum. Það sem þó er ánægjulegt við þetta frumvarp er að nú á að setja inn í sviðslistalögin lög um starfsemi Íslenska dansflokksins og þannig festa í sessi tilvist hans í menningarlífi íslendinga en hingað til hefur hann verið rekinn samkvæmt sérstakri reglugerð um starfsemi hans.

Guðrún Óskarsdóttir hefur áfram haldið utan um vefsíðu félagsins og reynum við að hafa reglulegt flæði af fréttum af fólkinu okkar og danslistinni. Við hvetjum félagsmenn til að vera enn duglegri við að senda fréttir og fréttatilkynningar á Guðrúnu svo síðan verði sem öflugust. Þá fór stjórn í það að færa facebook svæði FÍLD úr því að vera persóna með prófíl yfir í síðu eða „page” en reglur facebook kveða á um að fyrirtæki og félagasamtök skuli vera með síðu en ekki prófíl.  Þar fyrir utan mega einstaklingsprófílar ekki hafa fleiri en 5.000 vini og gamla síðan okkar er komin ansi nálægt því og þá hefðum við ekki getað bætt fleira fólki við síðuna okkar.  Við erum enn að vinna í að fá fólk til að færa sig yfir á nýju síðuna og þar geta félagsmenn lagt hönd á plóg með því að benda vinum og vandamönnum á að „læka” nýju síðuna.  (3)

Reykjavík Dance Festival var glæsilegt að vanda og gaman að sjá hvernig hátíðin tekur alltaf einhverjum breytingum á milli ára og er aldrei alveg eins. Þannig var gaman að sjá dansstuttmyndir skipa stóran sess í dagskrá hátíðarinnar að þessu sinni. Dagskráin var það pökkuð að gestir máttu hafa sig alla við til þess að ná að sjá allt sem í boði var.  Í þessu samhengi er vert að minnast líka á sýningu myndarinnar Pina á RIFF (Reykjavík International Film Festival). Það var  sannkölluð upplifun að sjá þessa frábæru listamenn minnast þessa mikla meistara danslistarinnar sem Pina Bausch var.  

Fyrir utan RDF setja sjálfstæðir danshópar og danshöfundar upp reglulegar sýningar og ber að fagna því að þessar sýningar verði til þrátt fyrir takmarkað fjármagn.  Aðstaðan í Dansverkstæðinu skiptir hérna mjög miklu máli fyrir sjálfstæða geirann og vonandi náum við danssamfélagið að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi þess fyrir dansinn.  Við sem fagfélag og samfélag dansara getum stutt við bakið á þessum félögum okkar með því að mæta á sýningarnar þeirra og vera dugleg að taka fólk með okkur. 
Íslenski dansflokkurinn er enn með sitt heimili í Borgarleikhúsinu en þar gæti dregið til tíðinda þar sem leigusamningur dansflokksins rennur út á þessu ári.  Hvort dansflokkurinn verður áfram í Borgarleikhúsinu eða fer annað mun væntanlega koma í ljós á næstunni.  Dansflokkurinn hefur haft sínar föstu sýningar í Borgarleikhúsinu en auk þess farið í sýningarferð til Akureyrar og víða erlendis þar sem jafnan er gerður góður rómur að sýningum flokksins. Þá var auglýst laus til umsóknar staða listdansstjóra Íslenska dansflokksins í nóvember og bárust 31 umsókn um stöðuna.  Þegar þetta er skrifað er enn ekki búið að tilkynna hver fær starfið en ljóst er að hver sem verður valinn mun hafa mikil áhrif á þróun danslistarinnar á landinu næstu árin.  

Á nýliðnu ári fagnaði Ballettskóli Eddu Scheving 50 ára afmæli og á þessu ári eru þó nokkur afmæli á döfinni. Ballettskóli Guðbjargar Björgvins er 30 ára á þessu ári, Ballettskóli Sigríðar Ármann er 60 ára og jafnframt elsti einkarekni ballettskóli á landinu. Danslistarskóli JSB er 30 ára á þessu ári og loks Listdansskóli Íslands áður Listdansskóli Þjóðleikhússins 60 ára. Þetta er því mikið afmælisár hjá okkur öllum, ekki bara aldursforsetanum hinu 65 ára FÍLD og vert að óska okkur til hamingju með afmælin.  Þá má í þessu samhengi minnast á að Bryn Ballettakademían fékk viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins á árinu og kennir nú samkvæmt námsskrá framhaldsskóla.  Þar með eru skólarnir orðnir fjórir sem það gera en fyrir eru Danslistarskóli JSB, Klassíski Listdansskólinn og Listdansskóli Íslands að kenna samkvæmt námsskrá.  Karen María Jónsdóttir hefur setið í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem skilaði af sér tillögum um hvernig listgreinakennslu verði háttað í nýrri námsskrá framhaldsskóla sem stefnt er að taki gildi eftir ca. 2-3 ár. Þar er verið að breyta alveg um hugsun í uppbyggingu náms, einingakerfis og námsmati og ljóst að þeir skólar sem kenna samkvæmt námsskránni munu þurfa að aðlaga sínar skólanámsskrár að breyttum tímum.

RÚV tók sig til á haustmánuðum og fyllti upp í ákveðið tómarúm með þættinum Dans, dans, dans. En erlendir dansþættir hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. Allt í einu höfðu landsmenn miklar skoðanir á hvaða dansari væri nú bestur, hver hefði staðið sig betur en hver og hver átti skilið að fara áfram í úrslit.  Hvar sem dansarar komu þurfti „almenningur” að spyrja viðkomandi hvað honum fyndist nú um þáttinn, dómgæsluna og hitt og þetta… Það sem var sérstaklega gott við þættina var athyglin sem dansinn fékk sem listform og gaman að sjá hvaða áhrif þættirnir virðast hafa haft eins og við sáum í nýlegu Kastljósinnslagi frá frístundaheimili barna sem setja upp vikulegar Dans, dans, dans keppnir í sínum hópi.  Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvort aðsókn í dansskóla landsins eigi eftir að aukast á næstu misserum. Þá má einnig hrósa RÚV fyrir þættina Sex pör sem gerðir voru í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík í kringum sýninguna Sex pör sem sýnd var á listahátíð í lok maí.  Í þáttunum sex sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum um þessar mundir fáum við innsýn í samstarf danshöfundar og tónskálds við vinnslu verks þeirra sem endaði í áðurnefndri sýningu.  Við hvetjum ríkissjónvarpið til að halda áfram á þessari braut og sýna meiri dans. Þannig væri til dæmis kjörið að hafa faglega umfjöllun og gagnrýni um danssýningar í menningarþættinum Djöflaeyjunni.

Stjórn boðaði til félagsfundar í september sem var vægast sagt misheppnaður þar sem aðeins einn félagsmaður mætti fyrir utan stjórnarmeðlimi. Eftir skammarpóst formanns til félagsmanna var gerð önnur tilraun mánuði síðar eða 23.október og mættu þá 14 manns á fund.  Á fundinum voru meðal annars rædd stéttarfélagsmál, hvort þörf væri á sérstöku stéttarfélagi danslistamanna eða hvort okkur væri betur borgið inni í öðrum stærri félögum.  Ákveðið var að Ásgeir Helgi, Tinna Grétarsdóttir og Katrín Ingvadóttir myndu skoða meðal annars launaviðmið fyrir félagsmenn FÍLD, hvað er eðlilegt að dansarar, danshöfundar og danskennarar fái greitt fyrir sína vinnu?  Á fundinum voru einnig rædd félagsmál almennt og þá aðallega virkni félagsmanna.  Það virðist vera tilhneyging, ekki bara í okkar félagi, að fólk hafi almennt lítinn áhuga á félagsmálum og oft er erfitt að virkja fólk til starfa.  Hverju þessi doði sætir er ekki gott að segja en við megum ekki gleyma því að VIÐ erum FÍLD. FÍLD er ekki þessi fimm manna stjórn sem við kjósum okkur, eða formaðurinn sem kemur fram fyrir hönd félagsins á hinum ýmsu fundum.   Við FÉLAGSMENN erum FÍLD og VIÐ eigum að láta okkur annt um félagið okkar og leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar til að allt gangi vel fyrir sig.  Einfaldur hlutur eins og að svara tölvupóstum, senda inn umbeðnar upplýsingar og svo framvegis flýtir fyrir störfum stjórnar og allt gengur svo miklu betur fyrir sig.  Formaður hefur t.d. á þessu starfsári mátt eyða nokkrum klukkustundum í að ganga á eftir fólki að senda inn aðsóknartölur sjálfstæðu hópanna til SL en þeim tíma hefði vel mátt verja í annað uppbyggilegra fyrir félagið og danslistina.  Ef allir gera sitt þá gengur allt miklu betur, hópurinn dansar í takt og sýningin heppnast fullkomlega. Verum virk, sýnum ábyrgð tökum þátt í starfi félagsins okkar!

Stjórn Félags íslenskra listdansara,
Guðmundur Helgason, formaður.

Viðbætur frá Karen Maríu Jónsdóttur:
1)  Sjálfstæðu Leikhúsin tilnefndu einnig dansara sem varamann í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs, Karen Maríu Jónsdóttur og er það í fyrsta sinn sem þau gera það. Dansarar eiga einnig mjög sterkan bandamann í SL sem stutt hefur dyggilega við dansheiminn á undanförnum árum og talað fyrir hönd þeirra hvar sem þeir fara. Þeir eiga þakkir skildar fyrir sitt frumkvæði sem er tilkomið vegna vinnu stjórnar FÍLD.

2)  Skýrsla Katrínar Gunnarsdóttur var unnin í samstarfi FÍLD, LHÍ og Katrínar með styrk frá nýsköpunarsjóði. Karen María var leiðbeinandi verkefnisins og hennar aðkoma að verkefninu (meðskrif á umsókn og annað) fjármögnuð af LHÍ þar til Karen hætti þar störfum í júní. Eftir það fjármagnaði Karen María leiðsögn (aðstoð við heimildavinnu, leiðsagnarfundi, yfirlestur og annað) Katrínar yfir allt sumarið úr eigin vasa og nýtur FÍLD svo sannarlega góðs af því.

3)  Fréttir á vefsíðu FÍLD voru að mestu skrifaðar af Karen Maríu þar til í október 2011. Þá eru einnig starfandi í ritnefnd, Melkorka og Ásgeir og hafa þau skrifað hluta efnisins.  Eitthvað af efninu er fréttatilkynningar frá dönsurum, danshöfundum og skólunum sjálfum.  Fréttir úr íslensku danssamfélagi birtust einnig daglega á gömlu Facebook-síðu FÍLD og sá Karen María um þær að mestu. Þetta er tímafrek vinna og var hún öll unnin á forsendum FÍLD fyrir danssamfélagið.

Ályktanir aðalfundar BÍL 2012

Aðalfundur BÍL beinir því til forsvarsmanna ríkis og Reykjavíkurborgar að 

 • vinna með samtökum listafólks að því tryggja listamönnum sanngjarnt endurgjald fyrir notkun og birtingu verka þeirra á landamæralausum síma- og netgáttum. 
 • búa þannig um hnúta að framlög til tónlistarflutnings og annarrar menningarstarfsemi í tónlistarhúsinu Hörpu verði tryggð, svo starfsemin verði með þeim hætti er sæmi því góða húsi.  
 • tryggja að kvikmyndasýningar leggist ekki af í miðbæ Reykjavíkur. Mikilvæg starfsemi kvikmyndashússins Bíó Paradís tryggir að kvikmyndaunnendur  geti ávallt gengið að fjölbreyttu úrvali kvikmynda vísu; þ.m.t. evrópskum myndum, ,,World Cinema” kvikmyndasýningum og sýningum á íslenskum kvikmyndum (leiknum sem og heimildamyndum) frá ýmsum tímum.  
 • standa myndarlega við bakið á danslistinni með því að styrkja rekstrargrunn Íslenska dansflokksins og ekki síður dansverkstæði danslistamanna. Það er mikilvægt að danslistamenn hafi vinnuaðstöðu við hæfi og skorum við á stjórnvöld að tryggja dansinum slíka aðstöðu til frambúðar. 
 • tryggja fjármagn til að frumeintök Íslenskra kvikmynda verði flutt til Íslands, en nú liggja margar íslenskar kvikmyndir undir skemmdum í vöruhúsum víða um heim. Nauðsynlegt er að bregðast skjótt við, þar sem óafturkræft tap menningarverðmæta er yfirvofandi.

Starfsáætlun BÍL 2012

 • Sameiginlegir hagsmunir listafólks varðandi skattlagningu verði í brennidepli á árinu. BÍL endurnýi áherslur sínar í skattamálum, beiti sér áfram í baráttunni fyrir sem sanngjarnastri skattálagningu á störf og afurðir listamanna, auk þess að vinna markvisst að því að tryggja rétt listamanna hjá samfélagsstofnunum á borð við Vinnumálastofnun og Tryggingarstofnun.
 • BÍL undirbúi tillögur um breytt fyrirkomulag heiðurslauna listamanna. Markmiðið verði að skilgreina betur grundvöll heiðurslaunanna, fjöldi þeirra verði í samræmi við þörfina, úthlutunin verði á hendi faglega skipaðrar nefndar og sjálf upphæðin verði ámóta hlutfall af starfslaunum listamanna og almennt gildir um eftirlaun. Að öðru leyti vísast til ályktunar aðalfundar BÍL um málið 2011.
 • Heimasíða BÍL verði þróuð áfram og hún gerð að vettvangi skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra um störf og hagsmunamál listafólks. Mikilvægt er að efla þá hluta síðunnar sem miðla upplýsingum um BÍL á erlendum tungumálum (ensku og dönsku) eftir því sem fjárhagur BÍL leyfir. Þá verði áfram unnið að því að koma starfi BÍL á framfæri á samskiptasíðum á vefnum.
 • BÍL setji á fót starfshóp, sem leitist við að tryggja skráningu listafólks í rétta atvinnugreinaflokka hjá skattyfirvöldum, með það að markmiði að stjórnvöld (þ.m.t. Hagstofa Íslands) hafi á hverjum tíma sem gleggstar upplýsingar um störf innan geirans svo auðveldara sé að leggja mat á þjóðhagslegt vægi lista og menningar.
 • BÍL fylgist með undirbúningi lagasetningar á sviði lista og menningar, t.d. um RÚV ohf., sviðslistir, miðstöð íslenskra bókmennta og tónlistarsjóð, með það að markmiði að vinna sameiginlegum hagsmunamálum listamanna brautargengi við lagasmíð. Í því sambandi er minnt á ályktun ársfundar BÍL 2011 um að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.
 • BÍL skipi starfshóp sem sjái til þess að Listalausi dagurinn verði þróaður áfram og haldinn í nóvember 2012. Farið verði yfir framkvæmdina 2011 og skoðað það sem vel tókst. Leitað verði samstarfs við stofnanir á sviði menningar og lista, með það í huga að aðgerðirnar nái sem mestum slagkrafti og veki fólk til umhugsunar um þýðingu listarinnar fyrir samfélagið.
 • BÍL leiti nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða til sín starfskraft sem auka myndi slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna. Í ljósi vaxandi áhuga á uppbyggingu skapandi atvinnugreina, jafnt meðal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, er mikilvægt að BÍL hafi bolmagn til að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu með heildarhagsmuni listamanna að leiðarljósi.
 • BÍL fylgist með framvindu mála hjá starfshópi innanríkisráðuneytisins sem hefur til skoðunar fyrirkomulag íslenskra talnagetrauna (þ.m.t. íslenska lottósins). BÍL tryggi að starfshópurinn fái upplýsingar um fyrirkomulagið í þeim löndum sem tryggja listum og menningu hlutdeild í arði slíkra getrauna.

Ársskýrsla FLH 2011

Í stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda sitja Hávar Sigurjónsson formaður, Bjarni Jónsson gjaldkeri, Hrafnhildur Hagalín ritari, Sigurjón B. Sigurðsson og Sigtryggur Magnason meðstjórnendur. 

IHM
Samkomulag við RSÍ um að FLH fái hlutdeild í tekjum úr IHM sjóði og greiddur verði kostnaður af þátttöku FLH í FSE (800 evrur) og þátttaka í norrænu heimasíðunni (600 evrur). Þetta var niðurstaða nokkura funda sem formaður átti með Eiríki Tómassyni framkvæmdastjóra IHM og Aðalsteini Ásberg fulltrúa RSÍ í stjórn IHM. 

Samningar
Framkvæmdastjóri Rúv Bjarni Guðmundsson óskaði eftir endurskoðun á endurflutningsákvæðum sjónvarpsefnis skv samningi  við RSÍ og FLH. Í nefndinni sátu fyrir RSÍ Ásdís Thoroddsen og Sigurður Pálsson. Formaður fyrir okkar hönd. Lagt fram tilboð af okkar hálfu um nýja skilgreiningu eldra efnis og greiðslur fyrir þær. Engin viðbrögð síðan af hálfu RÚV. 

Gróska
Um nokkurt skeið verið umræða innan stjórnar um að gera starf höfundarins sýnilegra og koma því á framfæri hversu margir væru að skrifa fyrir leikhús og sú gróska væri ekki að skila sér í sýningum leikhúsanna. Reifaðar voru hugmyndir um höfundakvöld og einnig hafði verið rætt að halda málþing um stöðu höfundarins í leikhúsinu.
Hlín Agnarsdóttir hafði samband við formann og hvatt til til aðgerða og niðurstaðan varð að stjórnin fól  Hlín í samstarfi við formann að skipuleggja leiklestra á leikverkum og efna til málþings um stöðu höfundarins. Reynt var að fá fulltrúa Dramatikkens hus í Osló til að koma og segja frá starfseminni en það gekk ekki. Þegar undirbúningur var nokkuð á veg komin baðst Hlín undan framkvæmdastjórn verkefnisins og Ásdís Þórhallsdóttir tók það að sér og skilaði því með sóma. Hlín sá þó áfram um fjármögnun verkefnsins og fórst það vel úr hendi og útvegaði 500 þúsund frá Menntamálaráðuneyti og 300 þúsund frá Menningarmálanefnd Reykjavíkur og tókst með þessu að skila verkefninu í höfn án aukakostnaðar fyrir félagið.
Skemmst frá því að segja að Gróska tókst mjög vel, lesið var úr 18 leikritum með þátttöku 20 leikara og málþing um stöðu höfundarins var vel sótt.

 FSE
Sveinbjörn Baldvinsson er áfram okkar fulltrúi í FSE og varaforseti samtakanna. Rætt er um að halda næsta alþjóðaþing handritshöfunda í Madrid á næsta ári. 

NDU
Árlegur fundur Norrænu leikskáldasamtakanna fór fram hér á landi, á Hallormstað 26-28. ágúst. 16 gestir frá norrænu félögunum mættu til landsins og Hávar og Sjón sátu fundinn fyrir okkar hönd. Fundurinn tókst vel og umræður um stöðu höfundarins voru málefnalegar og gagnlegar. Ítarleg fundargerð þessa fundar liggur fyrir og óþarfi að tíunda frekar hér.

 Norrænn leikritabanki
Danska leikskáldafélagið hyggst stofna leikritabanka fyrir Dani, Færeyinga og Grænlendinga og hefur boðið okkur þátttöku. Stjórnin tók þá ákvörðun að þiggja boðið og var á dögunum sent út bréf þar sem fram kemur hvernig þetta er hugsað og byggist á einstaklingsþáttöku. 

Leiklistarsambandið
Á aðalfundi Leiklistarsambandsins í október var Sigtryggur Magnason stjórnarmaður í FLH inn í stjórn LSÍ. Framundan eru mikilvægar breytingar á lögum LSÍ er lúta að innra skipulagi þess og hlutverki gagnvart ráðuneyti og því mikilvægt að rödd leikskálda sé sterk í þeirri vinnu. 

Gríman
Tillaga okkar um breytingu á þeim flokki Grímunnar er nefnist Leikskáld ársins var samþykkt á aðalfundi Leiklistarsambandsins. Breytingin er mikilvæg en hún felst í því að framvegis verður einungis verðlaunað fyrir frumsamin ný íslensk leikverk en ekki fyrir afleidd verk s.s. leikgerðir eftir skáldsögum, kvikmyndum, smásögum eða öðru sem áður hefur verið birt eða flutt í öðru formi. 

Samstarf fagfélaganna
Í haust hafa fagfélögin þrjú, Félag Leikskálda og handritshöfunda, Félag íslenskra leikara og Félag Leikstjóra á Íslandi átt með sér gagnlegt samstarf og samráð um samingamál og kjör félagsmanna. Er þetta mikilvægt skref á þá átt að tryggja að allir sem hafa leiklist að atvinnu njóti samningsbundinna réttinda.
Félögin þrjú ásamt SL og deild dansara innan FÍL settu einnig á fót samstarfsnefnd er fór yfir drög Menntamálaráðuneytisins að nýju Sviðslistafrumvarpi sem lagt var fram á heimasíðu ráðuneytisins í haust. Samstarfsnefndin vann vel og skilaði ítarlegum breytingatillögum að frumvarpinu þann 30. nóvember sl. Er vonandi að ráðuneytið taki tillit til þeirra við endanlegan frágang frumvarpsins.

Ársskýrsla FÍL 2011

Ágætu félagar í BÍL.  Félag mitt er Félag Íslenskra leikara sem varð á síðasta ári 70. ára.  Það voru nokkrir leikarar sem komu saman á fund hér á þessum stað en í salnum uppi og stofnuðu með sér félag, stéttarfélag – en á þessum tíma hafði regluleg leiklistarstarsemi verið í Reykjavík um 50 ára skeið og lengi hafði staðið til að safna starfandi leikurum saman í hagsmunasamtök.  Á þessum tím var í hugum alls þorra fólks einkennilegur tvískinnungur varðandi starf leikarans.  Menn ætluðust til þess að leikararnir væru tilbúnir til að leika og skemmta fólki hvenær sem vera skyldi en litu svo á að þeir gerðu þetta sjálfum sér til gamans og þyrftu ekki að fá neina greiðslu fyrir.  Þeir áttu að lifa á einhverju öðru.  Þetta er nú kunnugleg sitúation hjá flestum listamönnum þessa lands.  Menn ættu að vera í einhverri alminnilegri vinnu.  Þetta er nú því miður alltof ríkjandi hugsun enn í dag.  Í Reykjavík á miðri þar síðustu öld var einungis eitt leikhús hér í bæ og það var þetta sem við erum stödd i nú.  En þetta var ekki atvinnuleikhús – menn unnu kauplaust – hér meira og minna en stundum ef peningar voru til var greidd einhver umbun fyrir sýningar.  Á þessum árum var Ríkisútvarpið með öflugt leikhús – og þar fengu menn greitt – því var það fyrsta verkefni nýstofnaðs stéttarfélags að semja um greiðslur og ekki síst að berjast fyrir bættum aðbúnaði fyrir þá listamenn sem þar unnu.  Annað stór verkefni nýs félags var að hvetja stjórnvöld að halda áfram við byggingu Þjóðleikhúss – sem yrði fyrsta atvinnuleikhús þessarar þjóða – Þetta var ekki síðra barráttumál og menn hafa verið að berjast fyrir hinu glæsilega nýja Tónlistarhúsi – skilningsleysi – og sama hugsunin hjá þorra fólks að við hefðum ekki efni á að reka Þjóðleikhús – en annað kom á daginn.  Ég ætla nú ekki að fjölyrða meira um þetta annars síunga félag sem inniber á 500hundrað félagsmenn – leikara , söngvara, dansara og leikmynda og búningahöfunda.  Og er í sjálfu sér síungt og reynir eftir bestu getu að berjast fyrir réttindum síns fólks hvar og hvenær sem er.

Ársskýrsla FLÍ 2011

Félag leikstjóra á Íslandi telur í dag 97 félaga. Í stjórn félagsins sitja Kolbrún Halldórsdóttir, ritari, Gunnar Gunnsteinsson gjaldkeri og Jón Páll Eyjólfsson formaður. Varastjórn skipa Heiðar Sumarliðasson, Rúnar Guðbrandsson og Eva Rún Snorradóttir en varastjórn situr alla stjórnarfundi 

Eins og áður hefur stæðsta verkefni stjórnar síðastliðin misseri verið að endurskoða samninga FLÍ.  Allir samningar hafa verið lausir síðan 2004. Samninganefnd á vegum FLÍ hefur verið í formlegum viðræðum við Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið. Eru þær viðræður að þokast áfram þó hægt fari.

 FLÍ hafði víðtækt samráð við önnur fagfélög innan sviðslistanna um athugasemdir um nýtt frumvarp MMR til sviðslistalaga. Stofnuð var samráðsnefnd allra fagfélaganna ásamt SL sem skilað af sér nýjum drögum af frumvarpi til sviðslistalaga. Þau drög höfðu verið kynnt félögum allra fagfélaganna til athugasemda og loks var boðað til opins kynningarfundar á vegum LSÍ þar sem drögin voru kynnt og tekið við frekari athugasemdum. Drög samráðsnefndarinnar voru síðan send MMR og birt á vef FLÍ.  

 FLÍ er aðili að NSIR Sambandi Norrænna leikstjórafélaga. Ísland tók við formennsku í sambandinu 2010 . NSIR er samræðuvettvangur leikstjóra á Norðurlöndum.  NSIR þing var haldið hér í Reykjavík þann 26. og 27. nóvember.  Fundir voru þéttir og snarpir en góðir. Ritari FLÍ kynnti Skýrslu um kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina. Vakti sú rannsókn mikla og verðskuldaða athygli enda afhjúpar hún sannarlega hin jákvæðu hagrænu áhrif hinna skapandi greina. Önnur umræðuefni fundarins voru samningar leikstjóra á Norðurlöndum, höfundaréttur og nauðsyn þess að gera frekari úttekt á ráðstöfun fjár til sviðslistastarfsemi og hvernig það fjármagn dreifist á milli stjórnunar og raunverulegrar listsköpunar.

 Það hefur verið metnaður stjórnar FLÍ að efla fagvitund félaga okkar og að vera leiðandi í umræðunni um sviðslistir og hagsmuni okkar sem starfa við sköpun sviðslista.

Veitt var úr menningarsjóði tvisvar á árinu og hlutu alls 4 félagar styrk úr sjóðnum. 

Reykjavík Janúar 2012
Jón Páll Eyjólfsson

Ársskýrsla FLB 2011

FLB er fagfélag leikmynda- og búningahöfunda sem stendur vörð um höfundarétt og stefgjöld félagsmanna. Félaginu er ætlað að vera sameiginlegur vettvangur leikmynda- og búningahöfunda til að örva samstarf og kynningu á verkum þeirra og höfundarrétti. 

Félagið er aðili að Myndstef sem fer með umboð félagsmanna og höfundaréttargæslu verka þeirra. FLB skipar einn aðila í stjórn Myndstef. FLB er einnig aðili að og skipar fulltrúa í stjórn Leikminjasafn Íslands. 

Ný stjórn var kosin á aðalfundi félagsins þann 14 febrúar 2011.
Stjórnina skipa: Rebekka A. Ingimundardóttir formaður, Þorvaldur Böðvar Jónsson ritari, Egill Ingibertsson gjaldkeri, Varamenn: Gunnar H. Baldursson og Filippía Elísdóttir.
Félagsmenn, sem greiða félagsgjöld, eru 35 talsins, 18 karlar og 17 konur.

Stjórnin hefur unnið að því undanfarna mánuði að kynna félagið fyrir nýjum félagsmönnum og eftir nýliðafund, sem var haldin 23 janúar, hafa nú þegar 10 nýir félagar sótt um aðild. 

Stéttarfélag leikmynda- og búningahöfunda er 5. deild FÍL. Undanfarið hefur félagið staðið í undirbúningsvinnu fyrir samningaviðræður vegna launamála félagsmanna. 

Það er löngu orðið tímabært að leikmynda og búningahöfundar fari aftur að samningaborðinu og hafa fulltrúar 5.deildar (Ilmur Stef, Helga Stef og María Ólafs) ásamt Hrafnhildi Theódórsdóttir, á vegum FÍL, hitt framkvæmdastjóra Þjóðleikhússins og Leikfélags Reykjavíkur, lagt fyrir þá gögn um launastöðu hönnuða í dag og hvaða breytingar við sjáum fyrir okkur. Nú er verið að útbúa gögn með viðmiðunartölum stétta til að sjá hvernig Leikmynda- og búningahöfundar hafa setið eftir í launum miðað við aðrar stéttir. Einnig hefur verið gerð greinargerð um vinnuferli leikmynda- og búningahöfunda til rökstuðnings hærri launa. Þar kemur fram að meðal tímafjöldi við meðalstóra leikmynd er 1100 klst. Sem þýðir ca. 220 klst. vinnu á mánuði með 270 þús. í laun, að hámarki.

Þetta gera ca. 1270 kr. á tímann. (Krakkarnir sem selja sælgæti í hléi eru með á bilinu 1400-1800 kr. á tímann eftir aldri og reynslu.) 

Reglulegir stjórnarfundir hafa verið haldnir í vetur.  Þar hefur stjórnin meðal annars einbeitt sér að símenntunarstefnu en hún var tekin upp til að bjóða upp á fjölbreytta fyrirlestra sem gætu reynst félagsmönnum gagnlegir.

Prag fjórræringur leikmynda- og búningahöfunda, stærsta leiklistarhönnunarsýning í heimi, var haldin í Prag síðastliðið sumar. Sumarið 2010 fór FLB og 5 deild FIL þess á leit við Rebekku A. Ingimundardóttur að hún yrði fulltrúi Íslands á þessum 12 Prag fjóræringi.

Verk Rebekku á sýningunni var innsetning sem nefndist Tíminn og vatnið í húsi minningana. Framlag Íslands vakti mikla athygli sýningargesta og fjölmiðla, sem sóttust eftir því að fá að kvikmynda og ljósmynda innsetninguna. Félagið stóð vel við bak Rebekku og veiti þar að auki 4 félagsmönnum ferðastyrk til þess að fara á fjóræringinn í Prag.

 Janúar 2012. Fyrir hönd stjórnar FLB
Rebekka A. Ingimundardóttir.

Page 20 of 39« First...10...1819202122...30...Last »