Í tengslum við aðalfund sinn 8. febrúar nk. býður BÍL – Bandalag íslenskra listamanna til málþings í Iðnó laugardaginn 8. febrúar undir yfirskriftinni
Hringlaga box – hlutverk listanna og þátttaka listamanna í innri endurskoðun og endursköpun samfélagsins
Málþingið tekur til skoðunar með hvaða hætti sköpun auðgar samfélagið, ekki einungis gegnum listræna túlkun og átök heldur ekki síður með skapandi og gagnrýnni nálgun við lausn hvers konar verkefna. Í nýjustu kenningum stjórnunarfræðanna er fjallað um mikilvægi skapandi nálgunar við lausn fjölbreytilegustu viðfangsefna og bent á aðferðir listamanna sem eftirsóknarverðar í því sambandi. Þetta hefur leitt til þess að kallað er eftir kröftum listafólks í þverfaglegu samtali og samstarfi langt út fyrir lista- og menningargeirann; a.m.k. þegar glímt er við heftandi ramma viðtekinna hefða. Listin leitast við að gera kosmos úr kaosi en í samtímanum virðast aðrar greinar menningarinnar, ekki síst fræðin, frekar njóta trausts til markvissrar endurskoðunar og endursköpunar samfélagsins. Nálgun listanna er ekki síður meðvituð, gagnrýnin, greinandi, spurul og speglandi, þótt hún sé vissulega dularfyllri og óræðari. En hví ætti hlutverk og erindi listarinnar sjálfrar að virðast svo framandi hinni almennu orðræðu? Hvað eru mýtur og hvað veruleiki um skapandi vinnubrögð?
Innleggin verða flutt af skapandi fólki sem hefur reynslu af því að takast á við fjölbreytt verkefni á vettvangi atvinnulífsins og vítt og breitt um samfélagið. Sérstakur gestur málþingsins, Jón Gnarr borgarstjórinn í Reykjavík, mun fjalla um sína nálgun á verkefnið sem átt hefur hug hans sl. fjögur ár; að stofna stjórnmálaflokk, leiða hann til sigurs í kosningum til borgarstjórnar og stýra stjórnkerfi borgarinnar heilt kjörtímabil.
Innleggin flytja: Saga Garðarsdóttir leikkona, Kjartan Pierre Emilsson leikjahönnuður hjá CCP, Sigrún Birgisdóttir deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ og Sólrún Sumarliðadóttir tónlistarmaður. Málþingsstjóri verður Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt. Fyrirkomulag málþingsins verður þannig að innleggin verða kvikmynduð og sett á vefinn að málþinginu loknu, með það að markmiði að umræðan geti haldið áfram á vefmiðlum og samskiptasíðum.
Málþingið fer fram í IÐNÓ, það hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 15:45
Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins. Málþingið er öllum opið. Allar nánari upplýsingar gefa Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL kolbrun@bil.is og Hildigunnur Sverrisdóttir fagstjóri í arkitektúr við LHÍ hildigunnurs@lhi.is