Stjórn BÍL fundaði með stjórn Listamannalauna 27. janúar 2014. Frásögn af fundinum fer hér á efir:

Mættir voru úr stjórn BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir forseti, Kristín Steinsdóttir RSÍ, Tinna Grétarsdóttir FÍLD, Jakob Frímann Magnússon FTT, Jón Páll Eyjólfsson FLÍ, Björn Th. Árnason FÍH, Kjartan Ólafsson TÍ, Gunnar Guðbjörnsson og Hallveig Rúnarsdóttir FÍT, Rebekka Ingimundardóttir FLB, Margrét Örnólfsdóttir FLH og Hrafnhildur Sigurðardóttir SÍM sem jafnframt var fundarritari.

Mættir voru fyrir hönd stjórnar Listamannalauna: Birna Þórðardóttir formaður, Margrét Bóasdóttir og Unnar Örn Jónasson Auðarson.

Kolbrún Halldórsdóttir setti fundinn og þakkaði fyrir tækifærið sem stjórnirnar fengju með þessum fundi til að eiga uppbyggileg samskipti um reynsluna af gildandi fyrirkomulagi og hugmyndir um það sem betur mætti fara. Fyrir fundinum lá minnisblað sem stjórn listamannalauna hafði útbúið fyrir fundinn og gaf Kolbrún Birnu Þórðardóttur formanni stjórnar Listamannalauna orðið. Birna fór yfir skjöl sem stjórn lml hefur sent Kolbrúnu og Kolbrún hefur þegar áframsent til formanna aðildarfélaganna. Í þessum gagnapakka eru lög og reglur um listamannalaun, stjórnsýslulög og leiðbeiningar sem fulltrúar í úthlutunarnefndum fá í hendurnar í byrjun nefndarsetu.

  1. Reynslan af breytingunum 2012. Birna sagði frá tildrögum þess að launsjóðirnir voru opnaðir og gefið var tækifæri á því að sækja um laun þvert á sjóði. Með breytingunni hefur starf úthlutunarnefndanna orðið umfangsmeira, þær hafa orðið að hittast innbyrðis og bera saman bækur meira en áður var. Æskilegt væri ef reynslan af þessu breytta fyrirkomulagi væri rædd í hópi listamanna og miðlað til stjórnar lml, þannig gæti hún betur gert sér grein fyrir áhrifum breytinganna.
  2. Reynslan af yfirfærslu umsýslu sjóðanna til Rannís. Á síðasta ári var umsýsla launasjóðanna og umsóknarferli fært til Rannís. Rannís hefur hingað til séð um umsóknir rannsóknarstyrkja og ljóst að sníða þarf einhverja vankanta af kerfinu til að það þjóni launasjóðum listamanna til fullnustu. T.d. þarf að breyta frágangi á umsóknareyðublöðunum og leysa nokkur tæknileg vandamál, sem upp komu við fyrstu úthlutun. RSÍ hefur þegar sent stjórn lml athugasemdir sem bárust frá félagsmönnum og eru þær til skoðunar. Ef fleiri félög hafa athugasemdir við tæknilega þætti umsóknanna þá vill stjórn lml gjarnan fá upplýsingar um það.
  3. Reynslan af tilfærslu umsóknarfrests fram í september, þannig að úthlutun geti farið fram strax eftir áramót. Aðildarfélög eru almennt ánægð með það að umsóknarfrestur hafi verið færður fram svo að umsóknarferli sé lokið fyrir jól og hægt sé að úthluta í byrjun árs.
  4. Hæfi/vanhæfi nefndarmanna. Eins og fjallað hefur verið um á stjórnarfundum BÍL áður þá er nokkuð um að nefndarmenn í úthlutunarnefndum launasjóðanna séu vanhæfir vegna tengsla við umsækjendur eða þeir eiga jafnvel sjálfir aðild að umsóknum. Birna benti á að í þessari umsóknarlotu hafi einungis verið tvær nefndir sem ekki þurfti að breyta vegna vanhæfis nefndarmanna. Stjórnir aðildarfélaganna, sem tilnefna í úthlutunarnefndirnar þurfa að ítreka hæfisreglur við sitt fólk í næsta tilnefningaferli. Æskilegt væri að fulltrúar félaganna í úthlutunarnefndum reyndu að átta sig á mögulegu vanhæfi sínu fyrirfram. Stjórn lml telur ákjósanlegt að það myndaðist samfella í setu í nefndinni, þ.e. að ekki hverfi allir þrír nefndarmenn á braut á sama tíma. Þá var nokkuð rætt um snautlega lága þóknun fyrir störf í úthlutunarnefndum, en þóknunarnefnd stjórnarráðsins ákveður þóknun nefndarmanna og hefur hún ekki hækkað í langan tíma. Nýverið ákvað nefndin að hækka greiðslur og meta vinnuframlag með sanngjarnari hætti en verið hefur. Það er því áríðandi að nefndarmenn skrifi niður alla sína vinnutíma og gott ef stjórnir aðildarfélaga brýni það fyrir sínum fulltrúum.
  5. Aðildarfélög BÍL þyftu að ræða eftirfarandi:
    Stjórn listamannalauna hefur fengið minnisblöð frá úthlutunarnefndum vegna síðustu úthlutunar og mun taka saman niðurstöður ábendinga sem þar er að finna. Þá hvetur stjórn lml stjórnir aðildarfélaga BÍL til að ræða þau atriði sem félögin telja að mættu betur fara, t.d. varðandi verkefni sem sækir í tvo eða fleiri sjóði, sérstaklega þarf að skoða sviðslistirnar í því sambandi. Þá bendir stjórn lml BÍL á að ræða hlut verkefnastjóra, framkvæmdastjóra og sýningarstjóra í umsóknum til verkefna. Stjórn lml hallast að því að slíkir ættu almennt ekki að teljast gjaldgengir til launa úr launasjóðum listamanna. Þá óskar stjórn lml eftir því að BÍL ræði eftirfarandi
    a. Launasjóður rithöfunda/myndlistarmanna – úthlutanir til barnabóka (þegar stór hluti efnisins er myndefni), skoða líka möguleika barnamenningarsjóðs,
    b. Launasjóður rithöfunda; sjónarmið varðandi fræðirit og námsefni,
    c. Launasjóður sviðslista (hópar) – óperuuppfærslur og söngleikir.
    c. Launasjóður tónlistarflytjenda – úthlutanir til verkefna- og framkvæmdastjóra.
    d. Launasjóður myndlistarmanna – úthlutanir til sýningarstjóra og myndskreytinga.
    e. Launasjóður hönnuða – úthlutanir til verkefna- og framkvæmdastjóra.
  6. Fá aðildarfélög BÍL upplýsingar frá úthlutunarnefndum? Stjórn lml óskar eftir samantekt frá nefndunum á hverju ári og bendir stjórn BÍL á að gott gæti verið fyrir aðildarfélögin ef þau fengju afrit af þeim samantektum, m.a. til að auka samfellu milli nefnda. Þá var nokkuð rætt um skýrslu/einkunnargjöf umsókna sem ekki er gerð opinber, enda ekki skylda samkvæmt stjórnsýslulögum. Breyting á því kallar á breytingu á stjórnsýslulögum.
  7. Bjóða aðildarfélög BÍL félagsmönnum upp á ráðgjöf eða aðstoð við gerð umsókna um starfslaun? Ýmis aðildarfélög BÍL hafa boðið uppá aðstoð við gerð umsókna. T.d. hefur FÍH ráðið ráðgjafa utan úr bæ og greiðir FÍH fyrsta klukkutímann í ráðgjöf. Félögin hugsi hvort þarna megi gera betur.
  8. Hver er skoðun aðildarfélaga BÍL á samráði/tengingu milli launasjóða og verkefnasjóða, sérstaklega með hliðsjón af þörfum sviðslistafólks? Kolbrún Halldórsdóttir skýrði út að það sé vilji innan sviðslistageirans að sameina launasjóð sviðslistafólks og sjóðinn sem styrkir starfsemi sjálfstæðu leikhúsanna. Mikilvægt er að sviðslistafélögin ræði saman og móti sameiginlega stefnu í þeim efnum. Þá minnti Kolbrún á kröfu BÍL um að ný þriggja ára áætlun um eflingu launasjóðanna verði að veruleika, þar sem kveðið verði á um fjölgun mánaðarlauna í hverjum sjóði. Þó eru árkveðnir varnaglar slegnir í þeim efnum, meðan vilji stjórnvalda hvað þetta varðar er óljós.

Önnur mál:
a. Opinber umræða. Stjórn listamannalauna blandar sér yfirleitt ekki í umræðuna um launasjóðinn, en gerði undantekningu á því síðasta sumar þegar umræðan á alþingi um launasjóðinn fór fram úr hófi. Þá ritaði stjórn lml bréf til stjórnvalda til að árétta reglur og vinnulag kringum sjóðina.

Stjórn BÍL mun í framhaldi af þessum fundi ræða nánar málefni launasjóðanna, m.a. kröfur BÍL um nýja þriggja ára áætlun um eflingu sjóðanna.

Kolbrún Halldórsdóttir þakkaði stjórn listamannalauna fyrir komuna og fundmarmönnum öllum fyrir gagnlegar umræður.