Starfsemi Arkitektafélags Íslands síðastliðið starfsár hefur verið fjölbreytt eins og lesa má í ársskýrslu stjórnar en hana má finna á vef félagsins www.ai.is . Þar er gerð grein fyrir starfsemi og rekstri félagsins, stiklað á stóru um nokkur helstu mál sem hafa verið til umfjöllunar stjórnar og starfshópa AÍ.

Félagsmenn í Arkitektafélagi Íslands eru 370 og þar af greiða 245 félagar árgjald. Heiðursfélagar eru þrír.

Á síðasta aðalfundi Arkitektafélags Íslands, sem haldinn var 28. nóvember 2013 voru eftirfarandi fulltrúar kjörnir í stjórn:
Sigríður Ólafsdóttir, formaður
Hildur Gunnlaugsdóttir, gjaldkeri og varaformaður
Indró Indriði Candi, ritari

REKSTUR OG SKRIFSTOFA
Á skrifstofunni starfa framkvæmdastjóri AÍ, Hallmar Sigurðsson í hálfu starfi og gjaldkeri/ritari í 70% hlutastarfi.

Tekjustofnar félagsins eru félagsgjöldin og styrkir annars vegar og samkeppnir hins vegar. Tekjur af samkeppnum fer eftir umfangi og fjölda samkeppna og eru breytilegar á milli ára. Á árinu 2012 var samkeppnishald með því mesta sem það nokkurn tíma hefur verið og talsvert minna 2013.

ÚTGÁFA
Arfkitektafélag Íslands í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta gefur út tímaritið Arkitektúr – tímarit um umhverfishönnun. Á síðasta ári var gefið út eitt tölublað en þar var m.a. athyglinni beint að samkeppnum og samkeppnismálum.

FÉLAGSSTÖRF
Á vegum félagsins starfa 9 fastanefndir, auk þess starfa starfshópar um sérstök málefni sem unnið er að hverju sinni. Nefndirnar starfa með framkvæmdastjóra og í samráði við stjórn félagsins. Á síðasta aðalfundi var Jes Einar Þorsteinsson kjörinn heiðursfélagi AÍ.

HELSTU MÁLEFNI, ÁHERSLUR OG TÍÐINDI
Á undanförnu ári hefur Arkitektafélagið leitað ýmissa leiða til að styrkja stöðu sína og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Félagið hefur haldið áfram samstarfi við önnur fagfélög í byggingargeiranum og við Mannvirkjastofnun. Rætt var við umhverfis- og auðlindaráðherra og m.a. óskað eftir því að mannvirkjalög verði endurskoðuð. Rætt hefur verið um samruna eða samstarf við Félag Landslagsarkitekta og Samtök arkitektastofa, og um aukið samstarf við systurfélög okkar á Norðurlöndum. Við höfum aukið samstarf við Hönnunarmiðstöð og deilum nú húsnæði með henni. Síðast en ekki síst og með hagsmuni félaga fyrir brjósti hefur AÍ sótt um aðild að BHM .

Í júní undirrituðu AÍ og Mannvirkjastofnun viljayfirlýsingu um áframhaldandi samráð við úrbætur á byggingarreglugerð. Vinna við frekari endurbætur er nú hafin og það er von okkar að hún leiði til þess að lágmarkskröfur um algilda hönnun verði í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru á hinum Norðurlöndunum.

Þau merku tíðindi urðu á þessu ári að íslenskt mannvirki, Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík,hlaut hin virtu verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist, kennd við Mies van der Rohe, fyrir árið 2013. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Barcelona þann 7. júní 2013.