Á nýafstöðnum aðalfundi BÍL var samþykkt svohljóðandi starfsáætlun fyrir árið 2014:

  • BÍL verður áfram virkur þátttakandi í stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina innan stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga sem og atvinnulífsins. Talsverð vinna hefur verið lögð í stefnumótun einstakra listgreina og mikilvægt að heildarsamtök listamanna þrýsti á um innleiðingu og eftirfylgni þeirrar stefnu sem mótuð hefur verið, t.d. menningarstefnu samþykktri á Alþingi 6.03.2013. BÍL mun leggja áherslu á þátt listanna í þróun skapandi atvinnugreina um land allt og mikilvægt samspil lista, menningar og atvinnulífs.
  • BÍL standi vörð um þá uppbyggingu sjóðakerfis sem unnið hefur verið að á undanförnum árum, leggi áherslu á lifandi samspil launasjóða og verkefnatengdra sjóða og haldi áfram góðu samstarfi við stjórn listamannalauna um þau mál. Þróaðar verði hugmyndir um eflingu launasjóða listafólks og lögð áhersla á aukna fagmennsku við úthlutun opinberra fjármuna til lista og menningar.
  • BÍL beiti sér fyrir því að töluleg gögn Hagstofu Íslands um störf listafólks og annarra í skapandi geiranum gefi sem gleggsta mynd af stöðu greinanna, með það að markmiði að listir og menning verði sjálfsagður hluti þjóðhagsreikninga. BÍL leggi sitt af mörkum til að listafólk sé rétt skráð í atvinnugreinaflokka hjá skattinum, m.a. til að tryggja að stjórnvöld hafi sem réttastar upplýsingar um störf innan geirans. Þannig verður auðveldara að meta þjóðhagslegt vægi lista og menningar.
  • BÍL vinni áfram að sameiginlegum hagsmunum listafólks varðandi skattlagningu. BÍL endurnýi áherslur sínar í skattamálum og beiti sér í baráttunni fyrir sem sanngjarnastri skattlagningu á störf og afurðir listamanna. Einnig þarf BÍL að sinna hagsmunum listamanna hjá samfélagsstofnunum á borð við Vinnumálastofnun og Tryggingarstofnun.
  • Samningur BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið er forsenda þess að BÍL geti veitt stjórnvöldum nauðsynlega ráðgjöf í málefnum listanna. Mikilvægt er að framlag ríkisins til starfsemi BÍL haldi verðgildi sínu milli ára og sé ekki lægra að raunvirði en það var í upphafi samningstímans 2010. Til að svo megi verða þarf að auka skilning stjórnvalda á því þýðingarmikla starfi sem listafólk gegnir í samfélaginu.
  • BÍL leiti einnig nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða starfskraft til að slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna. Í ljósi vaxandi áhuga á uppbyggingu skapandi atvinnugreina, jafnt meðal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, er mikilvægt að BÍL hafi bolmagn til að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu með heildarhagsmuni listamanna að leiðarljósi.
  • Það þjónar heildarhagsmunum listamanna að heimasíða BÍL verði þróuð áfram og hún gerð að vettvangi skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra, auk upplýsinga um BÍL á erlendum tungumálum og það alþjóðlega samstarf sem BÍL á þátt í. BÍL er orðið sýnilegt á samskiptamiðlum og þann sýnileika þarf að efla enn frekar, en til að áform um öflugri heimasíðu gangi eftir þarf aukið rekstrarfé.
  • BÍL beiti sér í baráttunni fyrir bættri listmenntun á öllum skólastigum, með því að auka samskipti við yfirvöld menntamála jafnt á vettvangi ríkis sem og sveitarstjórna. Í því skyni leiti BÍL leiða til að styrkja verkefni sem byggja á samspili listar og skólastarfs með norska „menningar-bakpokann“ til viðmiðunar. Þá taki BÍL þátt í eflingu háskólanáms í listum og stuðli að virkara samtali listamanna og Listaháskóla Íslands m.a. með þátttöku í uppbyggingu formlegs samráðsvettvangs á vettvangi LHÍ.
  • BÍL taki virkan þátt í að bæta lagaumhverfi á sviði lista lista og menningar. Fylgja þarf eftir hugmyndum aðildarfélaga BÍL um styrkari stöðu lista og menningar innan RÚV ohf, í því sambandi er ályktun ársfundar BÍL 2011 enn í fullu gildi. Mikilvægt er að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.
  • BÍL vinni að uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listafólk um land allt, m.a. með þátttöku í verkefnum á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þá leggi BÍL rækt við samstarf við Samtök skapandi greina, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og aðra þá sem hagsmuni hafa af uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi fólk.
  • BÍL leggi rækt við norrænt og alþjóðlegt samstarf, m.a. á vettvangi höfundarréttarmála í samstarfi við systursamtök á Norðurlöndunum og innan ESB. Þá leggi BÍL sig eftir samstarfi við söfn og aðrar stofnanir sem sunda miðlun og rannsóknir á listum og menningararfi. Mikilvægt er að fagfélög listamanna verði sýnileg á þeim vettvangi, m.a. með því að taka þátt í fundum og málþingum. Þá undirbúi BÍL málþing á árinu um ólíka stöðu kynjanna innan listgreinanna.